Twitter hefur sína kosti og einn af þeim eru menn eins og Andrew Beasley. Hann er virkur meðlimur á TTT og heldur úti sinni eigin vefsíðu http://basstunedtored.com/.
Eftir Fulham leikinn henti hann inn færslu sem mig langar að skoða aðeins hér. Hann var að velta fyrir sér hversu mikilvægir leikirnir sem ”ættu að vinnast” væru og hvernig okkur hefur gengið undanfarin ár að klára þessa leiki.
Núna loksins árið 2013 höfum við aftur fengið að sjá Liverpool sigra reglulega lið sem eru í neðri helmingi deildarinnar með svo miklum yfirburðum að úrslitin eru frekar skrifuð á getuleysi mótherjanna frekar en spilamennsku Liverpool. Fulham leikurinn væri t.a.m. mjög gott dæmi um þetta.
Margir taka svona hlutum sem ansi sjálfsögðum og gleyma um leið að Liverpool var sjálft í 13. sæti á sama tíma í fyrra eftir jafn margar umferðir. Það er eitt að tala um skyldu sigra en að klára þessa leiki er öllu meira mál en marga grunar, stuðningsmenn Liverpool ættu að þekkja þetta mjög vel.
Það sem Beasley tók saman er árangur Liverpool gegn liðum í neðri helmingi deildarinnar frá stofnun úrvalsdeildarinnar (1992). Liverpool er núna búið að spila 6 leiki við lið sem sitja í neðri helmingi deildarinnar og hafa náð 2,67 stigum úr þeim leikjum að meðaltali (af þremur mögulegum). Það er betra en liðið hefur nokkurntíma gert og kannski ekki raunhæft að ætlast til að þetta form haldi út tímabilið.
Brendan Rodgers hefur náð einu tímabili með liðið og var þá með 6. besta árangur allra stjóra Liverpool (síðan 1992) hvað varðar leiki gegn liðum í neðri helmingi deildarinnar. Hafa ber í huga að síðasta tímabil var ansi kaflaskipt og ekki ólíklegt að hann geti bætt þennan árangur verulega núna, fyrstu umferðirnar gefa góð fyrirheit hvað þetta varðar.
Svona er taflan:
Mynd fengin af basstunedtored.com
Rafa Benitez var að ná flestum stigum gegn liðunun í neðri helmingi deildarinnar af stjórum Liverpool. Enginn stjóra Liverpool var með betri árangur í þessum skyldusigrum og er Benitez raunar með efstu þrjú sætin og 4 af 5. Houllier náði 2,30 stigum úr þessum leikjum tímabilið sem liðið lenti í öðru sæti. Raunar er það þannig að fimm af sjö efstu sætunum á þessum lista eru tímabilin sem Benitez var með liðið (eina tímabilið sem vantar er árið sem liðið vann meistaradeildina). Houllier kemst inn á milli tímabila Benitez með sínu besta tímabili og Rodgers á síðasta ári nær líka inn á topp 6.
Öll þessi ár sem Liverpool var að hala inn svona mikið af skyldu stigum var liðið í meistaradeildarsæti og stundum mjög örugglega. Benitez og Houlller höfðu líka úr meistaradeildarhópum að velja öfugt við Rodgers (enn sem komið er). Það er reyndar mjög áhugavert að tvö af þremur neðstu tímabilinum frá stofnun úrvalsdeildarinnar eru tímabilin tvö áður en Rodgers tók við.
Það gerir árangur Rodgers ennþá betri. Eins er ekki tekið inn í myndina hvernig Rodgers er að vinna þessa leiki. Fulham leikurinn var slátrun. WBA var litlu minni slátrun, það er lið sem hefur tekið stig af Everton, Arsenal og Chelsea núna nýlega og vann United…á Old Trafford.
Þarna sést líka hvað liðið var óstöðugt hjá Roy Evans því þeir gátu allt eins rúllað upp liðunum í efri helmingnum. Eins sýnir þetta hvað Houllier var varfærin og gekk illa að brjóta niður liðin í neðri helmingnum. Hægt að einfalda þetta með því að segja að hann hefði átt að treysta kannski aðeins minna á löngu boltana á Heskey.
Beasley tók einnig saman árangur hvers stjóra fyrir sig gegn liðunum i neðri hlutanum. Hann hafði Dalglish og Hodgson ekki með þar sem þeir voru svo stutt við stjórnvölin.
Mynd fengin af basstunedtored.com
Haldi liðið áfram á sama leveli og Rodgers hefur verið á hingað til þá myndi það skila 45 stigum gegn liðunum í neðri helmingnum. Haldi hann dampi m.v. byrjun þessa tímabils væri það að skila 53 stigum, það eitt og sér væri meira en heila tímabilið sem Dalglish var með liðið. Miðað við það hvernig Liverpool skipti um gír eftir áramót á síðasta tímabili og hefur byrjað þetta tímabil gerir maður sé vonir um að árangur Rodgers í þessum leikjum dali ekki mjög mikið.
Efri helmingurinn
Það er frekar að maður geri sér vonir að hann geti bætt verulega árangurinn í stóru leikjunum. Liverpool gerði 9 jafntefli í þessum leikjum á síðasta tímabili sem er magnað og m.v. að vera með mun betur samansett lið núna sem þekkir leikaðferð stjórans sér maður fyrir sér að árangur síðasta árs sé vel hægt að bæta og rétt rúmlega það. Það verður að gerast enda vann Liverpool bara þrjá leiki gegn liðunum í efri hluta deildarinnar á síðasta tímabili og tapaði sex þeirra.
Mynd fengin af basstunedtored.com
Benitez er einnig með besta árangurinn þarna og verma hans lið tvö efstu sætin. Hinsvegar kemur Roy Evans einnig sterkur inn hérna, bölvað Spice Boys liðið hans var almennilegri vörn frá því að gera alvöru atlögu.
Núna á þessu tímabili höfum við unnið WBA og United. Gert jafntefli við Swansea og tapað gegn Southamton og Arsenal. Það gera 1,4 stig af þremur mögulegum. Það væri árangur í lakari kantinum en þó betri en þrjú af árum Benitez með liðið. (Fyrsta og síðasta tímabil hans auðvitað í þeirri jöfnu).
Versti árangur Liverpool gegn liðunum í efri helmingi deildarinnar var þegar Evans og Houlllier voru saman með liðið. Rodgers í fyrra er þar næst fyrir ofan.
Árangur Rodgers er hroðalegur gegn liðunum fyrir ofan okkur en það er kannski full snemmt að dæma hann alveg strax. Svona er samanburðurinn
Mynd fengin af basstunedtored.com
Til að vera á pari við árangur Liverpool í heild (1,54) þarf Rodgers að ná í tuttugu stig í þeim þrettán topp 10 leikjum sem eftir eru á tímabilinu. Það væri svipað run og hann er á núna í þessum fyrstu fimm topp leikjum (1,40). Reyndar eru fjórir af næstu átta leikjum Liverpool gegn liðunum í 4. til 7. sæti. Góð útkoma úr þeim gæti breytt þessari tölfærði töluvert.
Auðvitað skiptir ekki öllu máli hvaða leikir vinnast, það er stigafjöldin í lok mótsins sem skiptir máli. Sigur á liði í efri helmingi deildarinnar gefur kannski meira upp á að keppinauturinn tapar stigum á sama tíma og þú ert að ná í stig, en það er til lítils að vinna Everton aðeins til þess að tapa svo gegn Fulham helgina á eftir. Eins og Beasley sýnir fram á þá ættum við alls ekki að taka þessum sigrum gegn ”vonlausum” liðum eins og Fulham sem svo sjálfsögðum. Liverpool á alltaf að klára þessi lið á Anfield, það erum við öll sammála um en sagan sýnir okkur að þetta hefur alls ekkert alltaf verið sjálfgefið og því um að gera njóta þessara sigra. Hættum að gera lítið úr þeim a.m.k.
Þessir sigrar skila jafn mörgum stigum og aðrir.
Þetta er annars opinn þráður á málefni tengd Liverpool.
Þetta er virkilega áhugaverð samantekt!
Ég verð að viðurkenna að það fer fátt meira í taugarnar á mér en “þetta var bara Aston Villa” comment, rétt eftir leik. Í alvöru, við Liverpool stuðningsmenn, ættum að vita að stóru leikirnir gefa ekki fleiri stig en þeir litlu. Og Liverpool hefur nánast alltaf mætt í stóru leikina, t.d. unnið Utd á Anfield en tapað svo gegn “random liði” um næstu helgi.
Eins og bara Aston Villa. Menn töluðu það nú niður, en þeir hafa unnið bæði City og Arsenal það sem af er tímabili. Sama með WBA, þeir tóku stig af Arsenal og svo öll stigin á Old Trafford. Svo líka þessir arfaslöku Fulham menn, þeir eru með jafnmarga útisigra í deildinni og City og Chelsea samanlagt. Fulham er ekki ManUtd, City, Chelsea, Spurs eða Arsenal. Það eru samt jafnmörg stig í húfi.
Sjáið bara tímabilið 2008-2009. Þá fengu meistararnir (Man Utd) 5 stig af 18 mögulegum gegn liðunum í top 4. Þeir unnu deildina með sigrum á þessum “bara” liðum.
Þessi færsla sýnir bæði það besta og versta við Rodgers hingað til. Hann er að búa til lið sem virðist fara nokkuð vel í gegnum minni spámenn en á í massífum erfiðleikum gegn stórliðunum. Sigurinn gegn United í haust og Tottenham í vor eru held ég einu sigrarnir hans á liðunum sem enduðu fyrir ofan okkur sl. 2-3 ár og það er eitthvað sem verður að laga.
Hins vegar held ég að það sé auðveldara að laga það heldur en hitt og því er jákvætt að hann skuli ráða nokkuð vel við skyldusigrana.
Frábær samantekt.
Ég hef fulla trú að Rogers stýri Liverpool til sigurs gegn “Stóru liðunum” á þessu tímabili. Tókum Man Utd og töpuðum fyrir Arsenal og eigum þrjá stóra útileiki eftir miðjan desember sem ég er viss um að við fáum eitthvað af stigum úr.
Stóra breytingin er að við höfum nánast getað gengið að sigri gegn “minni liðunum” á þessu tímabili, og það er góóóð breyting
Virkilega flottur pistill Babú og ég er sammála því sem hér er skrifað í kommentum. Það er alveg merkileg árátta að halda því statt og stöðugt fram að þegar okkar menn slátra þessum litlu liðum, þá er það vegna þess að þeir gátu einfaldlega ekki neitt. Virðist ekki vera til í dæminu að Liverpool hafi verið að spila alveg fanta vel. Ef City eða Chelsea slátra andstæðingum sínum, þá er það vegna þess hversu frábærir þeir séu. Skrítin jafna þetta.
Ég held líka að tölfræðin hjá Rodgers gagnvart stóru liðunum sé svolítið skökk vegna þess hvernig þetta raðaðist upp á síðasta tímabili. Mjög erfitt prógramm við mörg af þessum liðum, bara korteri eftir að hann tók við. Ég er ekki að segja að hann eigi algjörlega eftir að snúa þessu við, en þetta hjálpar ekki uppá tölfræðina hans. Verður fróðlegt að sjá þessar tölur eftir tímabilið.
Hvað er það samt sem hefur breyst ? Síðustu tímabil hafa Liverpool verið að spila svipaða leiki og þeir gerðu núna á móti Fulham, þ.e. 70% possession og +25 marktækifæri en ekki náð stigi útúr þeim leikjum vegna 1-2 klaufamistaka í skyndisóknum andstæðinga. Hvað er það nákvæmlega sem gerði það að verkum að mörkin fóru að detta og klaufamistökunum á miðju/vörn fækkuðu ?
Ég veit ekki alveg af hverju við erum gera betur á móti gegn liðum í neðri helmingi deildarinnar Ragnar. Kannski bara hundaheppni
Tell me about it..
Flottur pistill Babú.
Ekkert sem pirrar mig meir þegar menn öskra upp yfir sig hvað mótherjinn hafi verið lélegur og því ekki neitt að marka stigin gegn þeim…höfum sko heldur átt erfitt með þau í bili.
Ég fer ekki ofan af því að leikstíll Rodgers og þeir leikmenn sem hann notar eru að verða stabílt það góðir að við ráðum við það að eiga við slakari lið, 1 – 2 hágæðaleikmenn fleyta okkur í að vinna stóru leikina gegn “sterkari” liðunum.
Mikið væri frábært að nappa t.d. fljúgandi kantframherja eða Fabio Coentrao í glugganum næst…
Eins og staðan er núna þá erum við með 0% árangur á móti liðunum sem eru fyrir ofan okkur í deildinni. Gjörsamlega ólíðandi.
Legg til að við komum okkur í efsta sætið, þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af þessu.
Axel
Það breytir þessari tölfræði ekkert fyrir okkur að komast í efsta sætið
Ég get nú ekki verið sammála um að Rodgers sé í masívum erfiðleikum með betri liðin, verðum að taka inn í þetta fáránelga óheppni og klaufamistök í leikjum okkar gegn þeim í fyrra. t.d að missa niður unnin leik á móti Man C og Arsenal.
Við erum ekki með sérstakann árangur á þessu tímabili gegn efri hlutanum en ég verð himinlifandi ef hann helst 1,4 stig fram yfir fyrstu umferð, það er aðalega sú staðreynd að við spilum við flest stóru top liðin á Útivelli í fyrri umferð.
Ef við náum 1,4 stig í fyrri umferðinni þá tel ég okkur í raun eiga fínan möguleika á titlinum, ég held við munum ná mun betri árangri á heimavelli á móti þessum liðum, ekki skemmir fyrir að við erum að spila við mörg þessara top liða á heimavelli á seinni hluta tímabilsins þegar við ættum að vera upp á okkar besta.
Ég sé bara eina lausn á þessu. Halda öllum liðum fyrir neðan okkur, þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að vinna þá sem eru ofar en við.