Nokkrir punktar

Það er ekkert að frétta. Hér eru nokkrir samhengislausir punktar frá undirrituðum:

  • Ég er ekki að drepast úr stressi yfir þessum leikmannaglugga. Ég hélt að ég væri það, í nóvember og desember, en nú er janúar og ég er það ekki. Það væri gott ef félagið gæti keypt 1-2 gæðaleikmenn á næstu tveimur vikum en ef þeir eru ekki á lausu vill ég frekar að menn bíði fram á sumarið en að hoppa í önnur Ilori-kaup eða Moses-lán sem skila engu.
  • Ég taldi; það eru 18 leikir eftir á tímabilinu. Átján. Sú tala gæti hækkað upp í 22 ef liðið fer alla leið í bikarnum. Það eru ekki svo margir leikir. Það er sennilega þess vegna sem ég er rólegur yfir janúarglugganum. Jú, styrking væri góð í baráttunni um Meistaradeildarsæti en, hey, liðið er hvort eð er í 4. sæti og á réttri leið og það eru að koma menn inn úr meiðslum. Og eins og við höfum margtuggið er leikjaplanið okkur hagstætt eftir áramót. Með öðrum orðum: ef rétti maðurinn er ekki laus í janúar, ekki kaupa. Liðið spjarar sig fram á vorið.
  • Philippe Coutinho í ár minnir mig á Luis Suarez árið 2011. Fyrsta árið sitt hjá Liverpool var Suarez frábær en nýtti færin illa. Hann skoraði 4 mörk í 13 leikjum vorið 2011 og svo 11 mörk í 31 leik tímabilið á eftir. Á síðstu leiktíð small þetta hjá honum og hann skoraði 23 í 33 og nú hefur hann skorað 22 í 16 sem er fáránlega gott. Coutinho er ekki framherji eins og Suarez en hann hefur verið að spila vel og gera allt rétt nema nýta færin. Hann viðurkennir það sjálfur. En ég hef ekki áhyggjur. Hann er ungur, hann er að koma sér í færin og liðum gengur illa að stöðva hann. Coutinho skoraði 3 í 13 á síðustu leiktíð og er kominn með 2 í 16 í ár. Ég spái því að þetta smelli hjá honum og hann skili 10-15 mörkum á tímabili (plús sínu venjulega hlassi af stoðsendingum) frá og með fljótlega. Ég hef ekki áhyggjur.
  • Bless, Southampton. Þvílíkt rugl. Hér er staðreynd: það er ömurlegt að vera aðdáandi knattspyrnuliðs. Svona almennt séð. Aðeins örfáir klúbbar fá að fagna titilsigrum en flestir þeirra, eins og Southampton-stuðningsmenn, geta lifað alla ævina án þess að vinna nokkuð. Gleðjast yfir sigrum í nágranaslögum, gleðjast þegar liðið kemst upp um deild, syrgja þegar liðið fellur og svo framvegis. Ekkert stórvægilegt. Og svo akkúrat þegar liðinu gengur betur en nokkru sinni síðan Le Tissier tók aukaspyrnur á St. Mary’s, búmm! Allt hrunið. Allt að fara til fjandans. Örvænting. Þetta er ekki sanngjarnt. Þeir geta sest á barinn með Leedsurum, Pompey-mönnum, Blackburn-mönnum og bráðum West Ham-mönnum (enn og aftur). Þetta er ömurlegt.
  • Þú ert 16 ára. Það er að hefjast knattspyrnuleikur. Brendan Rodgers situr með allt þjálfaraliðið í stúkunni. King Kenny situr hjá Ian Ayre. Þú hefur þegar verið valinn í velska landsliðið, þrátt fyrir ungan aldur. Hvað gerirðu? Skorar tvisvar. Muniði nafnið Harry Wilson. Mig grunar að við eigum eftir að skrifa það oftar á þessari síðu næstu árin.

Þetta er opinn þráður. Ræðið það sem þið viljið.

38 Comments

  1. Veit einhver hérna um ungu leikmennina hjá okkur, Eru einhverjir að skila inn góðum frammistöðum með varaliðinu? Þá er ég að tala um nokkuð spennandi menn eins og Samed Yesil, Jordon Ibe, Ryan McLaughlin, Daniel Trickett-Smith og einhverjir fleiri, Hef heyrt svo sáralítið frá þessari blessuðu Akademíu.

  2. Sammála Kristjáni, er rólegur yfir þessum janúarglugga.
    Sumarið verður hinsvegar rosalegt, HM í Brazilíu og haugur af leikmönnum sem enginn þekkti stíga fram í sviðsljósið.

  3. Er ekki málið fyrir Rodgers að nota tækifærið núna þegar Sothamton er í frjálsu falli og kaupa vinstri bakkinn þeirra, ég er nokkuð viss um að hann mundi passa vel inn í Liverpool svona fljótur og tekniskur eins og hann virðist vera.

  4. Horfði á U18 ára liðið slátra góðu Aston Villa liði í FA Youth Cup í gær.

    Margir spennandi leikmenn þar á ferð, miðjukombóið var Jordan Rossiter (16 ára) og Cameron Brannigan og stjórnuðu þar öllu. Rossiter finnst mér ofboðslega spennandi.

    Byrjunarliðskantarnir voru þeir Ojo og Kent, spiluðum 4-2-3-1 með hápressu og þeir á “öfugum kanti”. Báðir flottir leikmenn sem ollu miklum usla. Bakverðirnir sóttu mikið upp, sérstaklega leftbakkinn Joe Maguire. Trickett-Smith skoraði mjög fallegt mark í fyrri hálfleik og lék vel. Staðan í hálfleik var 1-1 þrátt fyrir mikla yfirburði okkar manna.

    En í hálfleik kom umræddur Harry Wilson inná, sá sem nú nýlega sló met Gareth Bale sem yngsti leikmaður Wales til að leika landsleik. Eins og Kristján segir hirti þessi strákur alla athyglina. Kom á hægri kantinn (er örvfættur), skoraði tvö mörk og bara markmaður Villa stoppaði hann frá því að gera fleiri.

    Hann hefur nú gert 9 mörk fyrir U18 liðið í vetur þrátt fyrir að missa af nokkrum leikjum þar vegna meiðsla. Hann er nýorðinn 17 ára og hefur aðeins verið að detta inn í U21s árs leikina. Þarna er á ferð ofboðslega flinkur leikmaður með flott auga fyrir fótbolta. Ekkert súperhraður en á móti miklu teknískari en t.d. Ibe og Sterling.

    Segi eins og Kristján, hef mikla trú á því að þetta verði nafn sem við munum læra að þekkja fljótlega…

    U18 liðið vann þennan leik örugglega, spilandi hápressu allan tímann og lítur mjög vel út. Það er alltaf að sjást betur sú samfella sem stjórar liðanna okkar eru að byggja upp. Critchley hjá U18, Inglethorpe hjá U21 og Rodgers virðast vera alveg á sömu blaðsíðu varðandi uppsetningu leiks og liðs og það sem meira er, eru allir að ná fínum árangri með þeirri aðferð.

    Sem eru bara góðar fréttir!

  5. Þurfum gæðaleikmann í janúar. Það er ekkert flóknara en svo. Viss um að Arsenal, Chelsea og City skipi efstu þrjú sætin enda með langbestu hópana. Baráttan um síðasta sætíð því á milli okkar, Utd og Spurs. Ég er viss um að Utd verði betri á seinni helmingnum en þeim fyrri og sér í lagi ef þeir styrkja sig í janúar sem þeir ætla að gera. Við verðum að gera slíkt hið sama.

  6. P.S. Chelsea búnir að styrkja sig (Matic) og Wenger mun fá pening í janúar til að kaupa framherja.

  7. þurfum nauðsynlega að fá betri og öflugan djúpan miðjumann sem tekur mikið til sín ( tveggjamannamaki) þá erum við góðir fram á sumar…….

  8. Alltaf gaman að heyra þegar ungir leikmenn eru að heilla og alveg morgunljóst að fyrir lið eins og liverpool sem hefur ekki botnlausar fjárhirslur til þess að kaupa titla þá þurfum við að geta ungað út ákveðnum hluta af hópnum og einbeitt okkur að því að setja peninginn í þá leikmenn sem ekki eru til innan klúbbsins. Hinsvegar er töluvert stökk að koma úr yngri liðunum eða varaliðinu og ná að standa sig hjá aðalliðinu. Flestir leikmenn þurfa að fara á lán í einhvern tíma eða ná að fá töluvert langt “run” í aðalliðinu sbr sterling. Það sem ég meina er að við fáum þá aldrei fullmótaða inn í aðalliðið. Þetta snýst um að geta metið hvort leikmaður sé á því caliberi að hann eigi möguleika á að vera framtíðarleikmaður og ef það er trú manna þá gefa honum raunverulegan séns en ekki bara 5 mínútur í annað hvort unnum leik eða einstaka bikarleiki þar sem þeir spila með hálfgert varalið hvort eð er í kringum sig.

    Ágætt er að hugsa um þá sterling og flanagan í þessu samhengi. Báðir hafa heillað og síðan hafa þeir jafnframt valdið miklum vonbrigðum inn á milli. Hinsvegar hefur í tilfelli sterling allavegana leikmaðurinn fengið nokkuð mikinn spilatíma þrátt fyrir ungan aldur og sést glögglega hversu miklum framförum hann hefur tekið og núna gerir hann alvarlegt tilkall til byrjunarliðssætis í hverri viku. Það fer klárlega ekki saman að vera með öfluga innkaupastefnu á fullmótuðum leikmönnum og ungum leikmönnnum, þetta þarf að haldast í hendur og þarf í rauninni kannski að gera alltaf ráð fyrir að ungu leikmennirnir fái ákv mínútúr á hverri leiktíð. Reyndar er það sérlega erfitt á leiktíð sem þessari þar sem við duttum út úr annarri bikarkeppninni og höfum enga evrópukeppni.

    Ég vildi gjarnan sjá klúbbinn kaupa einn klassa leikmann sem raunverulega væri þörf fyrir og myndi tikka í þau box sem þarf að gera til þess að hann nýtist. Hinsvegar hef ég engan áhuga á að senda t.d. aspas í lán og fá annan leikmann sem er jafn óskrifað blað til að vera liðsmaður, það finnst mér ekki góður business. BR hefur ítrekað sagt að hann kaupi ekki nema réttu mennirnir séu til taks. Það held ég að sé algjörlega málið. Hafandi sagt það þá finnst mér lik allt í lagi að menn séu tilbúnir að greiða rétt laun fyrir rétta leikmenn og/eða réttar fjárhæðir. Miðað við hvað klúbburinn reyndi í sumar (Mikhytarian og Costa) þá eru þeir að stefna hátt og er það vel. Liverpool hefur spilað það vel í vetur að menn hljóta að horfa til klúbbsins með það í huga að hann sé að bæta sig og stefni hærra en hann hefur verið undanfarið og það hlítur að heilla.

    Niðurstaða: ég hef alveg trú á að núverandi hóp til þess að klára það sem eftir er af tímabilinu með sæmd ef við höldumst nokkuð meiðslalausir og fáum lykilleikmenn fljótlega til baka úr meiðslum. Ennnn það væri snilld að sjá eitthvert öflugt nafn koma til liðs við okkur.

    YNWA

  9. Sælir kappar

    Sammála því að Wilson sé afar spennandi pjakkur; flinkur, skotviss og með auga fyrir mörkum & stoðsendingum. Að mínu mati er vængframherjafélagi hans Ryan Kent ekki síður spennandi þó að ekki sé hann af hinni fágætu örfættu velsku tegund. Wilson líklega betri skotmaður en Kent virðist fljótari og öflugri dribblari og í þessum bikarleik leggur hann bæði mörkin upp fyrir Harry, hið síðara eftir flott sólósprett. Afar beinskeittur og ósérhlífin eins og sést hér:
    http://www.youtube.com/watch?v=_RDf7AKG3xU

    Kent er í u18 ára enska landsliðinu og skoraði tvö um daginn og lagði upp annað. Er réttfættur en merkilega drjúgur að skora & leggja upp með vinstri:
    http://www.youtube.com/watch?v=14xKbeb1pxQ

    Svo er hér að lokum myndband með þeim félögunum en þeir eru oft að leggja upp á hvorn annan. When Harry met Ryan (ekki Meg þó):
    http://www.youtube.com/watch?v=lamwCp7Jk6I

    Bið síðuhaldara afsökunar á þessu tenglasukki en sjón er sögu ríkari hvað þetta varðar 🙂

  10. Hin hliðin á peningnum (sambandi við fyrsta punktin) er sú að þó að við sitjum í fjórða sæti eins og er. En það á eftir að draga í sundur með liðunum í þessari deild eftir því sem fram líða stundir.

    Það er því mjög mikilvægt að á þeim tímapunkti sem liðið er í fyrsta sinn í 3 ár í dauðafæri á að ná í þetta blessaða meistaradeildarsæti að stjórnendur klúbbsins sýni það í verki að klúbburinn stefnir enn hærra og nái í 1-2 leikmenn sem bæta byrjunarliðið hjá okkur.

    Tel að t.d. M’Vila, Salah, Ayew eða Griezmann væri góðir kostir.

  11. Það væri frábært að fá inn 1-2 góða leikmenn í janúar, enda er þetta topp 4 “push” fantamikilvægt. Má samt aldrei virka eins og örvænting, þá eru allar líkur á feitri yfirborgun. Janúarmarkaðurinn er ansi furðulegur.

    Hins vegar er mjög líklegt að stór félög lumi á góðum leikmönnum sem fá lítið að spila og vilja ólmir fá að sanna sig fyrir HM. Ætli það sé ekki helsta smugan?

  12. Ætli það sé fræðilegur möguleiki fyrir Liverpool að ná í Juan Mata ?
    Hin ,,sérstaki” virðist ekki hafa mikil not fyrir hann enda er Mourinho mjög sérstakur.

  13. Fá Mata bara að láni í staðin fyrir Moses. Kaupa hann svo í sumar. Finnst mér að við ættum að reyna að fá einn leikmann í viðbót. Við vitum að celski eru að styrkja sig, manutta mun líka gera það, shitty þurfa þess ekki. Það þarf samt að vera leikmaður sem getur styrkt 16 manna hóp. Mata fellur alveg inní það. Vona svo að þessi Salah komi, hann er helv góður.

    Einnig ef við skilum Moses, þá er ekki óvitlaust að kalla Assaidi aftur til okkar, vildi miklu frekar sjá hann á bekk en Moses.

  14. Ég myndi ekkert afskrifa Southampton strax. Það má vera að þeir séu í einhverju veseni með þennan Cortese en Pochettino er búinn að gefa það út að hann verði áfram.
    Klúbburinn er sennilega með bestu akademíuna á Englandi – menn einsog Walcott, Bale, Lallana, Alex-Oxlade Chamberlain, Darren Ward-Prowse og Luke Shaw meðal þeirra leikmanna sem hún hefur skilað upp.

    Vona að okkar menn nái svo að krækja í a.m.k. einn gæðaleikmann. Það er erfitt að bíða með það fram á sumar og þá sérstaklega ef við komumst ekki í Meistaradeildina.
    Tækifærið er akkúrat núna og eigendurnir eiga að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að styrkja liðið fyrir þessa svakalegu baráttu. Rándýrt fyrir félagið að missa af sætinu enn einu sinni.

  15. Annars ég sammála greinarhöfundi um að það er merkilega lítið stress í manni varðandi innkaup í janúar. Ástæðan er auðvitað sú að liðið hefur tekið stórstígum framförum frá síðasta tímabili og er í flottri stöðu með hóflegt leikjaálag framundan. Margir leikmenn eru að bæta sig með auknum spilatíma og ábyrgð (Henderson, Sterling, Allen, Flanagan). Það er ekki þar með sagt að margt megi ekki bæta og veika hlekki að styrkja, en heilt yfir erum við með ansi öflugt byrjunarlið sem er alltaf líklegt til að skora mörk og einn besta match-winner í bransanum (Suarez). Einnig finnst mér Rodgers hafa vaxið gríðarlega í starfi og frá því að hann sýndi sinn innri töffara í meðhöndlun á Suarez í sumar þá hefur gustað af honum, bæði karakter, taktíker og mikilvægast af öllu: sem sigurvegari!

    Maður skilur alveg þá sem líta á stöðuna sem dauðafæri til að tryggja sig í CL og jafnvel berjast um toppinn. Ef það væri bara keyptur 1-2 góðir leikmenn og lykilpússl þá kannski, ef og máske… Ég er alveg sammála upp að vissu marki en auðvitað sjá Rodgers, Henry og FSG líka þetta sama færi og ef að réttu leikmennirnir væru í boði á rétta dílnum þá tel ég það morgunljóst að þeir myndu kýla á það og kaupa. Þetta eru klárir karlar og þeir hafa allir hag af því að bæta og styrkja LFC til velgengni. En það er líka þeirra starf og þeirra ábyrgð að sýna yfirvegun og gera sitt besta í að veðja á réttu hestana á réttum tímapunkti. Þeir sjá það sem langtímahag klúbbsins að vera ekki sífellt að yfirborga um tugi prósenta fyrir kaupupphæð, laun eða umbakostnað. Einnig senda þeir réttu skilaboðin um að blóðsugur eða blackmeilarar séu ekki velkomnir hjá LFC heldur bara menn með rétta hugarfarið, hungraðir í velgengni en ekki bara peningaplokk. Kaupnefndin skilar lykilhlutverki í því að halda kúlinu í verðmati og vinna að þessu faglega og það hefur nú þegar skilað sérlega vel heppnuðum innkaupum þó að önnur hafi enn tímann með sér til að sanna sig. Mæli með þessari lesningu til að klikkja á þessu:
    http://www.thisisanfield.com/2014/01/liverpool-need-transfer-committee/

    Vissulega væri ég meira en til í að fá Rakitic, Salah eða Montoya í janúar en ég treysti ráðamönnum LFC til að meta hvenær eigi að taka í gikkinn. Í því millibilsástandi og tómarúmi poppa upp ýmis nöfn sem maður hefur sjaldan eða aldrei heyrt um eins og Badu, Kishna og Zambrano (hljómar eins og framandi trúarbrögð eða undarlega leikfimiæfingar) en eflaust er þetta bara umbablaður þar sem þeir eru að vinna sína vinnu við að koma umbjóðandanum í fréttirnar. Ég væri persónulega spenntur fyrir að sjá lánsdíl með kaupklásúlu fyrir Yann M’Vila eða að notfæra sér Bosman á góða leikmenn í þeirri stöðu (Fernando Reges, Matuidi, Menez, Tom Ince) en það eru helst dílar sem eru þannig uppstilltir (samningur innan við 6-18 mánuði) þar sem hægt er að þrýsta á sölu á hagstæðu verði. Þ.e.a.s. ef að leikmaðurinn er líka hófsamur í launamálum og sýnir sérstakan metnað í að vilja koma á Anfield.

    Hin vel undirbúnu kaup á Sturridge sem voru tilkynnt rétt þegar prikin af áramótarakettunum voru að lenda er undantekning frekar en regla. Það tók langt fram í janúar að landa Coutinho þrátt fyrir álíka góða grunnvinnu enda mun seljendaliðið vinna að sýnum hag í að keyra upp verðið. Einnig er ég viss um að eftir þá “þjófnaði” þá hugsi seljendur sig tvisvar um þegar LFC bankar á dyrnar með lágt tilboð í dulinn demant. Þess vegna tekur þetta lengri tíma núna, þ.e.a.s. ef eitthvað mun gerast. Prúttið og pókarfésið er í gangi og að mínu mati er þetta engan veginn spurning um nísku heldur hagsýni og mér finnst að taka mætti ofan fyrir því á þessum tímum sjeika, ólígarka og erfðaprinsessa .

    Ég er því sallarólegur en vona auðvitað eins og þið flestir að við fáum a.m.k. einn nýjan leikmann því að fátt er nú skemmtilegra en kaupvíman að loknu þúvarps-maraþoni á nýjum púlara 🙂

    Góðar stundir. YNWA!

  16. Fyrst þetta er opinn þráður ætla ég að velta aðeins upp spekúlasjón hjá liðunum í kringum okkur um helgina, svona áður en upphitunin að Aston Villa leiknum kemur.

    Arsenal – Fulham. Klár Arsenalsigur. Fulham getur ekkert á útivelli og fá reglulega stóra skelli. Arsenal á eftir að vaða í færum og vinna stóran og öruggan sigur. Þeir halda toppsætinu í deildinni og setja pressu á liðin sem fylgja þeim. 3-0.

    Man. City – Cardiff. Sama uppi á teningnum hér. City eru óstöðvandi á heimavelli og eiga eftir að setja slatta af mörkum á þá. 5-0.

    Swansea – Tottenham. Veit ekki hvort við ættum að hafa Tottenham með í þessari upptalningu en þeirra bíður fjári erfitt verkefni á Liberty Stadium. Þeir eru enn í vandræðum þótt ráðning Sherwood hafi verið ágæt. 2-1 fyrir Swansea.

    Chelsea – Man Utd. Þetta er auðvitað stórleikur helgarinnar og hann verður ansi rækilega spennandi. Mourinho tók jafntefli á Old Trafford með leiðinlegasta uppleggi vetursins en núna þarf hann að sækja til sigurs sem gefur kost á frábærum leik. Man Utd. eru auðvitað í bölvuðum vandræðum en þeir ná að peppa sig í gang í þessum leik og ná jafntefli. 2-2.

    WBA – Everton. Erfiður leikur fyrir Everton. Þeir hafa samt verið á góðu rönni og eru ansi sterkir. WBA eru nýkomnir með stjóra sem fáir vita mikil deili á en er reyndur og eflaust góður. Hvort hann sé týpan sem nær öllu í gang strax eða hvort það komi smátt og smátt veit ég ekki en spái 1-1 jafntefli.

  17. Þetta eru engir stórlaxar sem eru að koma inn af bekknum, þannig að mér finnst nauðsynlegt að kaupa leikmenn núna. Menn gleyma að þetta er algjört do or die tímabil fyrir liðið. Langar ekkert í Suarez drama aftur næsta sumar.

  18. Var ekkert smá glaður þegar ég sá að Liverpool hafði samið við Dunkin. Hélt að Brendan væri búinn að finn enn einn gullmolann sem enginn þekkti en væri ofboðslega góður í fótbolta. En nei þá eru þetta kelinuhringir sem er bara frábært og hlakka til að smakka þá næst þegar ég fer á leik.

  19. Flott hjá Wilson að skora 2, en það hefði nú samt í sannleika sagt verið erfiðara fyrir hann að fara framhjá keilum heldur en þessum varnarmönnum.

  20. Ertu að grínast í mér hvað þetta er örugglega leiðinlegast transfer gluggi sem ég hef upplifað.

    Ekki neitt að gerast og við siglum í febrúar með 16 mans hálfheila og það er ekkert verið að gera. Jú við erum að gera samning við eitt af feitustu vörumerkjum í heimi… fínt að fá money en komon aðeins að hugsa um ímyndina ekki bara veskið sem virðist ekki vera á Anfield heldur fast við JWH… Mr. Burns heldur ekki svona fast um veskið eins og þeir.

    Show me the money!!!

    ef Costa var ekki keyptur í sumar þá hlýtur sá peningurinn að vera ennþá til staðar en það virðist sem að þessi nefnd sem átti að finna bestu leikmenn og fá þá til á Anfield séu í fríi ala rick parry ég get ekki séð að þeir séu að gera einhverjar gloríur hvað þá þetta njósnateymi sem dregið var af man city hafi komið með eitthvað gáfulegt, kanski voru þeir bara ekki betri en þetta að fara í fm og segja city banana sheik að kaupa þennan dýrasta.

    Get þetta ekki lengur. komon BR farðu að kaupa eitthvað og í guðanabænum ekki kaupa first cousin twice removed hans Badu nei ég meina Babu (no pun inteded) þá verður hryllingur að fatta um hvern er verið að tala hérna.

    YNWA.

  21. #20 Ívar Örn.

    Mér finnst fásinna að segja að stórleikur helgarinnar sé hjá tveimur af leiðinlegustu liðum deildarinnar en nr. 1. 2 og 3 vegna þess að Liverpool á leik um helgina. 🙂 🙂 🙂

    Annars er töluvert meira spennandi að horfa á Alþingis rásina í sjónvarpinu á nóttunni heldur en að fylgjast með þessum glugga. Það mætti halda að bankahrun hafi átt sér stað um áramót.

    Annars er ekki úr vegi að henda inn link á þetta. http://www.liverpool.is/News/Item/16667
    Um að gera að fallegustu menn landsins sameinist einu sinni fyrst Herra Ísland keppnin er ekki lengur haldin.

    Góðar Stundir.

  22. Optastats: – Liverpool have made fewer substitutions than any other team in the Premier League this season.
    Ég er ekkert að panika í þessum glugga og er sammála því að það þarf að kaupa réttu mennina en þessi staðreynd sem að optastats bendir á sýnir vel hversu breiddin er rosalega lítil hjá okkur. Reyndar finnst mér oft svolítið skrýtið hvað Rodgers notar oft varamennina seint eða bara alls ekki þegar við erum að vinna leiki stórt. Vona allavega að það verði keyptur einn sterkur miðjumaður sem gæti komið beint inn í byrjunarliðið. Þá verður þetta orðið nokkuð massíft hjá okkur.

  23. Real Madrid að fara kaupa Moreno, er þá ekki bara málið að bjóða í Coentrao reyna nappa honum á undan manutd. og skila cissokho

  24. Omar Abdulrahman, United Arab Emirates, Left Attacking Midfielder/Winger, Al-Ain FC, 22 years (£2-5m)

  25. Carlito: Ég biðst innilega forláts. Kórrétt hjá þér. Kórrétt.

  26. Önnur áhugaverð lesning í Echo er samantekt á einkunnagjöf leikmanna það sem af er tímabili. Það er Jordan nokkur Henderson neðstur á blaði með 5.9 ásamt Moses og Wisdom (reyndar bara 2 deildarleikir hjá vísdómnum). Sjá hér:

    http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/liverpool-fc-player-ratings—6510618

    Maður hefði haldið að Henderson myndi fá aðeins meiri “ást” frá lesendum staðarblaðsins heldur en að vera flokkaður tossi í miðsvetrareinkunn. Til samanburðar þá er Jordan í topp 10 innan liðsins hjá Whoscored.com með 7,16 í meðaleinkunn og í topp 5 í frammistöðupunktum hjá Squawka.com.

    Dæmi um þetta ástleysi er frammistaða hans gegn Fulham en þá var hann næsthæðstur í liðinu með 8,96 hjá Whoscored.com fyrir stoðsendingu og almennt fína frammistöðu, en hjá Echo fékk hann bara 6,4 og var vel undir meðaltali liðsins sem var 7,5.

    Annað keimlíkt dæmi var gegn Tottenham þegar hann var aftur næsthæðstur með 8,96 fyrir m.a. mark og stoðsendingu en lesendur Echo mátu hann bara 7,5 í einkunn og enn undir meðaltali liðsins.

    Smá vonbrigði með að stráksi sé svona vanmetinn þrátt fyrir að sína mikinn karakter og dugnað í að vinna sér fast sæti í liðinu og standa fyrir sínu. En hænurnar velja sér víst alltaf eina til að gogga stöðugt í og reita fjaðrirnar af. Can’t buy me love og allt það….

    YNWA….nema þú heitir Henderson

  27. Hvað er um vera??? Er glugginn lokaður eða hvað??? Hvað er í gangi??? Er BR búinn að missa allan metnað??

  28. Engin upphitun fyrir leikinn á morgun? Jæja, en ég spái 4-1.

  29. Luke Shaw ! skv hefðinni kostar hann fáránlega mikið miðað við getu vegna þess að hann er enskur. Spái því að 1 leikmaður komi .. og það verði eitthvað no name, sem kemur á óvart.

    kv, Bröste

  30. Matt le Tissier spilaði bara örfáa leiki á St. Mary’s á síðasta tímibili sínu hjá Southampton og skoraði ekkert mark. Hann var helst þekktur fyrir aukaspyrnur sínar á gamla vellinum, The Dell.

Luis Garcia leggur skóna á hilluna

Aston Villa gera atlögu á virkið!