Liverpool er eitt stærsta spurningarmerkið fyrir næsta tímabil á Englandi. Liðið fór langt fram úr öllum væntingum á síðasta tímabili sem eitt og sér hefði gert spádóma fyrir þetta tímabil erfiða en hefur í ofanálag selt sinn langbesta leikmann og styrkt sig á flestum öðrum stöðum í staðin. Það er ekkert víst að þetta klikki, segjum það bara.
Keppinautar Liverpool í efri hluta deildarinnar eru ekkert að gera þessa spádóma auðveldari og hafa allir styrkt sín lið töluvert og það án þess að selja sinn langbesta leikmann. Mig langar að skoða aðeins betur hópinn hjá hinum liðunum núna og hvað þau hafa verið að gera á leikmannamarkaðnum. Þetta er auðvitað bara mitt huglæga mat á þessi lið sem og okkar menn.
Man City
Inn: Sagna, Fernando og Willy Caballero.
Ensku meistararnir hafa lítið sem ekkert gert á markaðnum en eru engu að síður áfram með einn albesta hóp deildarinnar. Það ætti að vinna með þeim núna að Pellegrini er búinn með eitt tímabil í deildinni og þekkir allar aðstæður mun betur, ekki að þetta hafi háð honum mikið í fyrra.
Joe Hart fær öfluga samkeppni í Caballero á meðan Sagna tekur líklega sæti Micha Rishards á bekknum hjá City á eftir Zabaleta. Fernando stækkar hópinn á miðjunni sem var alveg ágætur fyrir.
Líklega eiga þeir eftir að bæta miðverði við hjá sér eftir sölu á Lescott en eru engu að síður afar vel mannaðir með Kompany, Nastasic og Demichells sem er löngu hættur að vera brandari eða þeirra augljósi veiki hlekkur. Bakvarðastaðan er skipuð 2-3 mjög góðum í hvora stöðu.
Yaya Toure er orðinn 31 árs og verður vonandi ekki sami svindlkallinn á miðjunni hjá þeim í vetur en drengurinn var fullkomlega ótrúlega góður í fyrra. Almennt er mjög erfitt að finna marga veikleika á miðju City.
Frammi eiga þeir síðan ótrúlegt úrval sem verður bara betra í vetur. Aguero er topp 5 sóknarmaður í heimi í dag. Dzeko fyllti hans skarð vel sl. vetur og Negredo var öflugur líka. Ofan á það hafa þeir nú endurheimt Jovetic úr meiðslum og hann er að sýna það á undirbúningstímabilinu að hann gæti komist í flokk þeirra allra bestu. Það er miklu betri leikmaður en hann náði að sýna í fyrra.
Man City er lið sem verður annað hvort í 1. eða 2. sæti, annað væri klúður hjá þeim. Þeir virðast svipaðir af styrkleika og í fyrra. Meiðslavandræði Aguero eru áhyggjuefni fyrir þá en á móti er mjög sterkt fyrir þá ef Jovetic er lifnaður við.
Chelsea
Inn: Cesc Fabregas, Diego Costa, Filipe Luis og Didier Drogba
Út: Ashley Cole, Eto´o, Hilario, Frank Lampard, Demba Ba og Romelo Lukaku.
Lán: Kalas, Piazon og Bertrand.
Hópurinn hjá Chelsea er orðinn alveg fáránlega stór og m.v. leikmannaviðskipti þeirra árið 2014 er þetta líklega bara að ganga ágætlega hjá þeim. Chelsea heldur nánast úti Hollensku úrvalsdeildarliði með lánsmönnum og fjármagnar leikmannakaup sumarsins með sölu á mönnum í aukahlutverki. Ofan þá það hafa nokkrir lykilpóstar yfirgefið svæðið og líklega skapað pláss á launaskrá.
Frank Lampard og Ashley Cole eru goðsagnir hjá Chelsea sem þeir sjá líklega eftir innan félagsins þó tími hafi verið kominn á þá innan vallar. Stórvinur Mourinho Hillario yfirgefur einnig svæðið sem er mikið áfall fyrir alla knattspyrnuáhugamenn. Eto´o og Ba sem Motormouth sagði okkur ítrekað hversu lélegir þeir væru eru báðir farnir ásamt Lukaku. Juan Mata fór svo í janúar ef menn voru búnir að gleyma því.
Þannig að Mourinho er búinn að losa sig við alla sóknarlínuna fyrir utan Fernando Torres sem hann einfaldlega nær ekki að losna við enda “okkar” maður á svimandi háum launum sem ekki nokkurt lið langar að snerta með priki. Mourinho vantaði augljóslega sinn Drogba í fyrra og fann hann hjá A. Madríd. Leikmann sem hefur allt að bera til að verða jafnvel ennþá meira óþolandi en Drogba og fjandi góður í ofanálag. Sá heitir Diego Costa, ímyndið ykkur glorified Stoke fótbolta með það óþolandi kvikindi frammi. Það sem ég vona að hann fái Suarez meðferð á Englandi ef hann heldur áfram sama leikstíl og á Spáni.
Flestir héldu að Lukaku væri fullkominn eftirmaður fyrir Drogba og ekkert í hans spilamennsku hingað til hefur fengið mann ofan af þeirri skoðun, fáir hafa skorað eins mörg mörk í efstu deild á þessum aldri. Það er þó líklega helsta vandamál Lukaku, hann er of ungur fyrir Mourinho sem selur hann og fær í staðin upprunalegu útgáfuna aftur fjörgamla. Endurkoma Drogba tryggir það a.m.k. að sóknarlína Chelsea verður sú lang óheiðarlegasta á næsta tímabili.
Fabregas kemur inn sem eftirmaður Lampard þó líklega verði hans hlutverk öllu aftar en hann hefur verið að spila undanfarin ár. Filipe Luis kemur svo inn í stað Cole og Bertrand.
Þar með hefur Chelsea náð að styrkja sig gríðarlega og í öllum þeim stöðum sem voru til vandræða hjá þeim á síðasta tímabili. Motormouth ætlar sér stóran titil og hættir ef hann nær honum ekki. Hópurinn hjá Chelsea er jafnvel betri en City og því ekkert nema eðlileg krafa að þeir vinni til einhverra verðlauna.
Markmannsstaðan er ein sú best mannaða í heiminum, Cech er ennþá á sínum stað og hefur verið í 10 ár núna hjá Chelsea, hann er bara 32 ára og ætti að eiga nóg eftir. Staða hans gæti þó verið í hættu því Chelsea á betri varamarkmann sem þeir virðast ekki ætla að lána út aftur, Courtois hefur verið í tvö ár hjá A. Madríd og það verður fróðlegt að sjá hvað verður um hann í þessum mánuði og þá hvor þeirra byrjar mótið í marki Chelsea.
Luis kemur inn í vinstri bakvörðinn fyrir Azpilicueta sem var búinn að slá Cole út þrátt fyrir að spila röngu megin. Ivanovic getur leyst allar stöður og á meðan liðið spilar eins aftarlega og það gerir getur John Terry stjórnað vörninni áfram með Cahill sér við hlið. Hvernig þeim tókst að selja David Luiz á 40m veit ég ekki en Kurt Zouma er líklega ekki mikið óáreiðanlegri en Luiz var varnarlega.
Miðjan hjá Chelsea er bara svindl og ekki veikan blett þar að finna, Fabregas bætist bara í hópinn og maður sér varla fyrir hvern hann á að koma inn í liðið. Hazard og Oscar eru báðir leikmenn sem eru líklegir til að gera tilkall til að verða leikmenn tímabilsins.
Þetta er annað tímabil Motormouth með Chelsea (eftir endurkomu), hann endist vanalega ekki mikið meira en þrjú á hverjum stað. Hann er að styrkja liðið á þeim stöðum sem voru veikleiki í fyrra og ætti að ná að taka liðið enn lengra í ár. Chelsea er engu að síður ekki að fara gera neitt nýtt og vonandi er fótbolti að þróast það mikið að varnarbolti Chelsea verði undir
Arsenal
Inn: Alexis Sanchez, Mathieu Debuchy, David Ospina, Calum Chambers
Út: Lukasz Fabianski, Bacary Sagna, Nicklas Bendtner
Lán: Carl Jenkinson (West Ham United) Loan
Einhversstaðar heyrði ég mann segja helsta veikleika Arsenal vera Arsene Wenger, þá í þeim skilningi að hann hefði dregist afturúr nýjum þjálfurum og þjálfunaraðferðum. Persónulega er ég hjartanlega ósammála og lýst ekki vel á það að Arsenal styrki sig annað árið í röð án þess að missa sína bestu mennn. Ef eitthvað er þá er sumarið hjá Liverpool líkara normal ári hjá Arsenal.
Fyrir utan meiðsli lykilmanna voru helstu veikleikar Arsenal í fyrra klárlega bæði fremst og aftast á vellinum ef litið er til tímabilsins í heild. Giroud er öflugur sóknarmaður og var að skora slatta í fyrra en það var augljóst undir lok tímabilsins að hann var gjörsamlega bensínlaus. Til að hjálpa honum í ár keyptu þeir Sanchez sem er frábær leikmaður og á besta aldri. Þetta gætu einfaldlega verið bestu kaup Arsenal í þó nokkuð langan tíma. Sanchez og frú vildu alls ekki búa í Liverpool ef marka má fréttir og lítið við því að gera. Aftur styrkir Arsenal sig með því að fjámagna kaup á besta leikmanni sinna helstu keppinauta. Gleymum þó ekki að þetta verður engin dans á rósum fyrir Sanchez og hann þarf að fylla upp í ansi stórt skarð í sóknarlínu Arsenal, Bendtner er farinn.
Szcz?sny er ekki slæmur markmaður en með komu Ospinna, landsliðsmarkvarðar Kólumbíu grunar mig að hann verði í basli með að komast í liðið í vetur. Þetta hefur verið vandræðastaða hjá Arsenal eftir að Seaman hætti og Szcz?sny var ekki að fylla það skarð enn sem komið er.
Mesta áfallið var líklega að missa Sagna frítt og það að sjálfsögðu til Man City. Hann er orðinn 31 árs og kominn á síðasta stóra samninginn sinn á ferlinum. Fyrir hann fá þeir Debuchy sem er fyrir framan hann í landsliði Frakka og mun yngri. Carl Jenkinson fór einnig á láni og fyrir hann fá þeir einn efnilegasta bakvörð Englendinga Callum Chambers. Ergo það er líklega búið að styrkja þessa stöðu töluvert og það til framtíðar.
Wenger er líklega ekki hættur en það er ljóst að hann er búinn að styrkja Arsenal liðið mikið. Vörnin var ein sú besta í deildinni í fyrra. Miðjan er að verða mjög góð með marga leikmenn sem geta skapað hættu og skorað sjálfir. Líklega eiga þeir eftir að bæta einum varnartengilið við.
Liðið vann loksins titil á síðasta tímabili og vonast Arsenal menn til að það gefi þeim sjálfstraust til að bæta í safnið á næstu árum. Þeir hafa alveg mannskap í það en skiptar skoðanir eru orðið um hvort þeir hafi stjórann í það, persónulega óttast ég að Wenger hafi engu gleymt og geti keppt til enda sé ekki alltaf kippt undan honum löppunum með sölu á hans bestu leikmönnum.
Tottenham:
Inn: Davies og Vorm
Út: Gylfi Sig
Satt best að segja er það helsta verkefni Tottenham í vetur að halda sínum bestu leikmönnum og þá sérstaklega markmanninum. Þeir eru búnir að skipta um stjóra og ætti það að vera verulega góð breyting frá síðasta tímabili. Pochettino er af sömu fótboltaætt og Rodgers, Martinez, Klopp o.s.frv. Hann vill spila sóknarþenkjandi fótbolta og ætti að henta hóp Tottenham miklu betur en AVB í fyrra. Þó verður maður að gefa AVB það að hann fékk engan tíma til að púsla nýju liði og leikstíl saman og fékk líklega ekki miklu ráðið um leikmannakaupin heldur.
Þeir sex leikmenn sem Spurs fékk í stað Bale í fyrra ættu allir að standa sig töluvert betur í vetur. Bæði þekkja þeir deildina mun betur sem og allar aðstæður. Pochettino er stjóri sem líklega hentar þeim mun betur.
Hvað Vorm er að hugsa ef Lloris er ekki fara er eftitt að segja til um en hann er a.m.k. allt of góður til að vera varamarkmaður. Davies er góð styrking á vinstri bakverðinum hjá þeim og þurfa þeir líklega ekki lengur að spila miðverði í þeirri stöðu. Miðvörður er einmitt sú staða sem Tottenham menn langar mest að sjá styrkta og kæmi ekki á óvart ef Daniel Levy myndi versla einn slíkan í þessum mánuði.
Gylfi Sig er kominn aftur á byrjunarreit eftir að hann valdi hið virkilega spennandi verkefni (lesist mun betri laun) Tottenham fram yfir það að spila áfram undir stjórn Brendan Rodgers, eina stjórans sem hefur gefið honum alvöru traust í Úrvalsdeildinni. Það var rangt valið hjá okkar manni sem þó hefur nægan tíma til að sanna sig á ný og komast aftur í stærra félag. Eriksen er í hans stöðu hjá Tottenham og var einn af þeirra bestu mönnnum í fyrra.
Sóknarlega ætti Soldado að koma mun sterkari til leiks og þeir eiga Erik Lamela fullkomlega inni, hann er þeirra besti sóknarmaður nái hann að spila af sömu getu og hann gerði á Ítalíu.
Það gleymist svolítið en það var virkilega gott að losna við Tottenham í fyrra og ná inn í meistaradeildina. Liverpool hefur fyrir vikið verið nánast alveg í friði fyrir þeim á leikmannamarkaðnum í sumar. Það er nánst eins og Liverpool hafi verið að stíða þeim á leikmannamarkaðnum með því að kaupa nánast eingöngu frá Southamton, liði Pochettino núverandi stjóra Spurs. Reyndar eru þeir orðaðir við tvo leikmenn frá Southamton sem myndi styrkja þá verulega, sérstaklega Morgan Schneiderlin og raunar trúi ég ekki að þeir fái að kaupa hann óáreittir.
Man Utd
Inn: Shaw og Herrara
Út: Ferdinand, Giggs, Vidic, Evra, Buttner, Macheda
Mikilvægustu mannabreytingar United verða ekki á leikmannamarkaðnum í sumar heldur í stjórastólnum. Sir David Moyes hefur yfirgefið svæðið eftir frábært ár hjá klúbbnum og fyrir hann er kominn Louis Van AlvegSnarGalinn.
Van Gaal gat komið til United á betri tíma fyrir sig sjálfan, Moyes tók allann skellinn af brottför Ferguson og var svo illa liðin að nánast hver sem er annar hefði verið velkominn. Van Gaal er í þjálfaraelítunni og með CV sem hæfir United og stendur fyrir mun skemmtilegri fótbolta en Moyes. Hann hefur hitt ca. hjá öðru hverju liði undanfarin áratug og er vægast sagt ekki allra.
United hefur heldur betur tekið þátt á leikmannamarkaðnum undanfarið og virðast alls ekki hættir. Shaw kemur á metupphæð fyrir ungling og er ætlað að fylla skarð Evra. Eins og það er nú gott að losna við þann gjaldmiðil úr deildinni er ég nokkuð viss um að United hafi þarna keypt framtíðarleikmann í vandræðastöðu a la Ashley Cole til Chelsea.
Fellaini var keyptur í fyrra á hærri upphæð er klásúla í samningi hans verðlagði hann á og náði alls ekki að heilla. Hann var fyrsti miðjumaðurinn sem United hafði keypt líklega síðan Carrick kom til félagsins. Núna hafa þeir bætt Ander Herrara við og er þar alvöru góður miðjumaður. Þeir eru látlaust orðaðir við stærstu nöfnin á markaðnum og þá helst á miðjunni. Gleymum ekki að Juan Mata kom á 37m í janúar og ætti að finna sig mikið betur hjá Van Gaal en Moyes. Þar er leikmaður sem var einn sá besti í deildinni áður en Motormouth tók aftur við Chelsea.
Einhverntíma hefði maður nú talið að United myndi finna fyrir því að missa Vidic, Ferdinand, Giggs og Evra á einu bretti en líklega kemur þetta bara til með að styrkja þá. Þeir eiga unga leikmenn tilbúna til að stíga upp í þeirra stöðum, leikmenn sem hafa flestir verið lengi hjá félaginu og fengið helling að spila.
Hópurinn hjá United var Meistaradeildar stór og þarf alls ekki að vera það enda félagið ekki í neinni Evrópukeppni á næsta tímabili. Ofan á þennan hóp á United svipað öfluga unglinga og Liverpool og er núna aftur komið með stjóra sem er óhræddur við að nota þá sýnist honum svo.
Það er völlur á United mönnum núna og verður líklega eitthvað áfram. Þeir eru afar fegnir að vera lausir við Moyes, Van Gaal var að gera mjög góða hluti með Holland á HM þó aðeins sé ofmetið hversu sannfærandi þeir voru fyrir utan Spánarleikinn. Leikjaprógrammið í byrjun er síðan nokkurnvegin eins og Ferguson hafi aftur komist í niðurröðunartölvuna. Þeir ættu að vera í toppbaráttunni a.m.k. framan af vetri.
Van Gaal er engu að síður byrjaður að hlaða í afsakanir fyrir mót og var tekinn gjörsamlega og undinn eins og blautur þvottapoki af Brian Reade í vikunni.
Everton
Svipuð staða hjá Everton og Tottenham að því leiti að þeirra helsta keppikefli fyrir næsta tímabil er að halda sínum bestu leikmönnum. Erfitt fyrir Everton sem voru bara með Barry og Lukaku á láni í fyrra. Þeir hafa núna báðir gengið til liðs við Everton sem gerði einnig mjög vel í að semja við Ross Barkley. Roberto Martinez er líklega bara að koma við í Liverpool borg því m.v. árangur hans á síðasta tímabili er aðeins tímaspursmál hvenær hann verður fenginn til stærri liða hvort sem það verður á Englandi eða Spáni.
Everton var í 5. sæti heilum átta stigum fyrir ofan United á síðasta tímabili og verða alls ekkert auðveldir viðureignar á næsta tímabili, öðru ári Martinez með liðið. Leikmenn virðast vilja spila fyrir hann og hópurinn er ágætlega mannaður. Europa League mun þó verða þeim erfið í vetur. Við þekkjum vel hvað það helvíti gerir fyrir lið með of lítinn hóp.
Liverpool:
Inn: Lambert, Lallana, Lovren, Can, Markovic, Origi.
Út: Suarez, (Cissokho, Moses).
Lán: Alberto, Aspas, Wisdom, Origi.
Fréttir vikunnar segja að Liverpool sé nálægt því að ganga frá kaupum (og lánssamningi) á tveimur bakvörðum frá Spáni ásamt því að allir vita að félagið er einnig að reyna kaupa sóknarþenkjandi leikmann eftir Remy stóðst ekki læknisskoðun. Verði þetta að veruleika ættu leikmannakaup Liverpool að vera afgreidd þetta sumarið og aðeins nokkrar leikmannasölur eftir.
Skarðið sem Suarez skilur eftir sig er stóra vafaatriðið en mig grunar að Rodgers sé fyrir löngu hættur að hugsa um hann og hafi ekki eins miklar áhyggjur af þessu og við stuðningsmennirnir. Ekki á meðan hann er að ná að landa þeim leikmönnum sem listaðir voru upp sem helstu skotmörk félagsins. Flestir leikmenn Liverpool á síðasta tímabili eru á þannig aldri að það er eðlilegt að búast við því að þeir bæti sig enn frekar á því næsta. Eins er Liverpool liðið líklega að verða það fljótasta í sögu félagsins. Það eru öskufljótir menn í öllum stöðum nema kannski varnartengilið og marki.
Mignolet er núna búinn með eitt tímabil hjá félaginu og verður vonandi mun öflugri á því næsta með miklu fastmótaðari varnarlínu fyrir framan sig. Ég kom inn á það í fyrra að enginn markmaður kæmi vel út með eins mikið rót á varnarlínu fyrir framan sig og var hjá Liverpool í fyrra. Núna er verið að bæta við góðum leikmönnum ásamt því að Mignolet ætti að þekkja mun betur inn á leikaðferð Liverpool sem var töluvert frábrugðin því sem hann átti að venjast hjá Sunderland.
Mamadou Sakho voru stóru kaupin í vörninni í fyrra en náði ekki að springa út fyrir alvöru og var töluvert meiddur. Hann er vonandi búinn að aðlagast mun betur núna og ætti að koma mun sterkari til leiks. Agger og Skrtel virðast ekki ætla að bæta sig mikið hjá Rodgers og framtíð a.m.k. annars þeirra hlítur að vera í mjög mikilli óvissu. Kolo Toure verður líklega áfram hjá Liverpool enda með ár eftir af samningi og sáttur við sitt hlutskipti. Coathes er óvænt kominn aftur inn í myndina og er að fá að spila aðeins í æfingaleikjunum og fékk hrós frá Rodgers í gær. Líklega verður hann lánaður aftur í vetur en kannski ættum við ekki að afskrifa hann alveg strax. Miðverðir í hans stærðarflokki og á hann aldri hafa alveg tekið sinn tíma að springa út. Hyypia var t.a.m. búinn að gera mun minna en Coathes á sama aldri.
Kelly er einnig mættur aftur, hann er með langan samning við Liverpool og félagið hafði töluverða trú á honum bara í fyrra. Síðustu tvö tímabil hafa verið fullkomin martröð hjá honum en sé hann heill og að ná heilu undirbúningstímabili gæti hann vel stækkað hópinn. Flanagan er búinn að stimpla sig inn sem partur af hópnum og það mun hjálpa honum að geta leyst báðar bakvarðastöðurnar.
Manquillo sem er sagður vera koma á láni frá A. Madríd er ekki með mikla reynslu úr La Liga, hann spilaði hinsvegar hátt í 50 leiki í B deildinni á Spáni. Hann er þó eitt mesta eftir Spánverja í hægri bakverði og það sem heillar mig við hann er að hann er öskufljótur. Sama má segja um Moreno sem er sterklega orðaður við Liverpool líka, um hann þori ég ekki að fjalla meira vegna jinx hættu.
Nýr vinstri bakvöðrur og endurkoma Jose Enrique mun gjörbreyta þessari stöðu frá síðasta tímabili og alls ekki vanþörf á. Aukin samkeppni hinumegin er bara af því góða ef treysta á Glen Johnson áfram. Mest hefur maður áhyggjur ef breyta á öllu í einu þó varnarleikurinn getur reyndar ekki versnað mikið hovrt eð er.
Hvað sem mönnum kann að finnast um Lallana þá var hann fyrsti valkostur Liverpool og hann eykur breiddina töluvert á miðjunni. Lallana var fyrirliði og vinsælasti leikmaður Southamton og er núna að fá stóra tækifærið hjá stjóra sem ætti að henta honum frábærlega.
Emre Can virkar á mann enn sem komið er sem þjófnaður um hábjartan dag þó enn sé allt of snemmt að fullyrða slíkt. Hann er ótrúlega spennandi leikmaður og hefur allt að bera til að verða algjört skrímsli á miðjunni næstu árin. Það litla sem maður hefur séð af honum gefur til kynna að Can sé að fara koma með kraft inn á miðjuna sem Lucas og Allen hafa ekki náð að gera undanfarin ár.
Gerrard sem varnartengiliður mun valda mér áhyggjum áfram, sóknarlega er hann eins og albesti leikstjórnandi og það verður gríðarlega gaman að fylgjast með ef Rodgers er að fylla liðið af spretthlaupurum í kringum hann. En þegar við verjumst hefur Gerrard ekki þann kraft sem við eigum að venjast í þessari stöðu.
Lucas virðist vera ferskari en oft áður og kemur vel undan sumarfríi. Hann gæti róterað stöðunni með Gerrard í vetur sem væri flott mál, svo lengi sem þeir spila ekki mikið meira saman á miðjunni.
Henderson er líklega orðinn okkar mikilvægasti leikmaður og er gjörsamlega hjartað á miðjunni. Hann sprakk endanlega út í fyrra eftir að hafa spilað nokkrar stöður tímabilin á undan. Coutinho var líka mjög góður á síðasta tímabili og var prufaður í nýju hlutverki aftar á miðjunni. Raheem Sterling sprakk út á seinni hluta tímabilsins og Sturridge skoraði jafnt og þétt allann veturinn. Allir þessir leikmenn gætu hæglega bætt sig enn frekar í vetur og allir eru þeir efni í að verða stórstjörnur. Þeir fá aukna ábyrgð í vetur og gætu hæglega komið með látum út úr skugga Suarez.
Til viðbótar við þessa verðum við að telja Jordon Ibe og Lazar Markovic sem klárlega eru í sama gæðaflokki og eiga bara eftir að springa út.
Þá eru ótaldir Rickie Lambert og hinn sóknarþenkjandi leikmaðurinn sem sagður er vera á leiðinni.
Luis Suarez átti líklega besta tímabil sem ég hef séð nokkurn leikmann eiga, a.m.k. hjá Liverpool. hann skoraði 31 mark í 33 leikjum, lagði annað eins upp og skapaði ofan á það pláss og tíma fyrir aðra sóknarmenn. Hann var þó aðeins farinn að láta á sjá í lok tímabilsins og þá stigu aðrir upp og kláruðu leikina.
Það er enginn að fara koma í staðin fyrir Suarez með sömu tölfræði en gleymum því ekki að það var Rodgers og Liverpool sem skapaði grundvöll fyrir þessu tímabili hjá Suarez. Eins má ekki gleyma því að hann var okkar sóknarmaður, segjum þetta á mannamáli, hann átti að skora langflest mörk Liverpool í vetur og líklega leggja mest upp líka.
Sóknarmaður með þessa þjónustu á að skora slatta. Ef þú tekur 30 marka mann úr liðinu er ekki eins og liðið missi öll þessi mörk. Það kemur annar maður inn í staðin og meðal sóknarmaður á að skora a.m.k. meira en 20 mörk í þeim sóknarleik sem Liverpool spilaði á síðasta tímabili. Hversu oft hefur A. Madríd t.a.m. sýnt að það kemur alltaf maður í manns stað, sama hversu ólíklegt það kann að hljóma og hversu góðan mann þeir hafa selt.
Torres var þeirra gulldrengur og algjörlega ómissandi, þegar hann fór steig Aguero upp og var ennþá betri. Þegar Aguero fór kom Falcao fram á sjónarsviðið og sprengdi alla skala, hann var klárlega ómissandi. Fyrir hann fengu þeir David Villa á efri árum og Diego Costa steig upp úr skugga Falcao. Þá fyrst lönduðu þeir titlinum og voru bókstaflega mínútu frá því að taka meistaradeildina líka.
M.ö.o. það þarf ekki að vera heimsendir þó að besti leikmaður liðsins fari. Daniel Sturridge skoraði t.a.m. rúmlega 20 mörk á síðasta tímabili og þar ekki mikið að bæta sig til að toppa það og þar með stíga endanlega úr skugga Suarez. Það er síðan bara tímaspursmál hvenær Sterling og Coutinho fara að bæta fleiri mörkum við sinn leik.
Mismuninn er eins hægt að vinna upp með því að loka mun betur fyrir á hinum enda vallarins, það er alveg hægt að leggja þetta þannig upp að takist Liverpool að fækka mörknum fengnum á sig um 15 mörk (mjög raunhæft) þarf arftaki Suarez ekki að skora nema helming á við hann.
Tökum þetta inn í helgina, Liverpool á leik gegn AC Milan í kvöld og ætti að stilla upp nokkuð sterku liði í þeim leik.
Lovren líka 🙂
Djöfull er ég feginn að þú fórst ekki à Þjóðhàtíð Babu, skemmtileg lesning og eykur à bjartsýnina.
Ég er samt à því að Man City og Chelski verði í sérflokki í vetur.
Vona að þessi Moreno kaup gangi ekki upp og LFC snúi sér þá að Ricardo Rodriguez…
21 árs gæji sem setur 5 mörk og leggur upp 9 sem LB í Bundesligunni er eitthvað sem Rodgers ætti að hrífast af, og vel það. Kannski aðeins dýrari en Moreno, en er greinilega að springa út núna!
Hvað varðar önnur kaup, þá vona ég innilega að Lucas finni sér annann klúbb… eftir alla þá öskubuskusögu sem sá maður gekk í gegnum var einfaldlega grátlegt að sjá hann ströggla svona á síðasta tímabili. Önnur “Henderson-týpa” vel þegin í staðin.
Annars bara mjög sammála því að hægt sé að við getum farið ágætlega bjartsýn inní þetta tímabil, fyrstu 3 leikirnir náttúrulega mikil prófraun á hópinn, en ég hugsa að allt yfir 5 stigum úr þeim leikjum sé bara flott og jafnvel þó það verði bara 1-3 stig þá er óþarfi að missa haus, við fengum ef ég man rétt aðeins 3 stig úr þessum viðureignum í fyrra. En vissulega þarf bætingu þar ef einhver titilbarátta á að eiga sér stað.
Á morgun eru ekki nema tvær vikur í þetta, úff hvað ég á von á að það líði hægt… sem betur erum við að spila æfingaleiki við alvöru lið fram að þeim degi!
Takk fyrir pistilinn Babu. Það var kominn tími nýja fróðleiksmola hérna.
Sæl og blessuð.
Það er gagnlegt að sjá þetta svona uppsett. Hefði viljað sá Bóríní á sölulistanum og átta mig ekki á því hvernig þessi netti piltur getur talist meira en 14 milljóna punda virði. Það er þá dýrt í honum pundið. Þá þykir mér með hreinum ólíkindum hversu illa gengur að koma Jónssyni út. Ræði það ekki meira. Loks er ég svo mikill heimóttasauður að ég hefði viljað sjá hann Kolbein okkar, beint úr Hollensku flugdeildinni, í fremstu víglínu. Sá myndi nú njóta þénustunnar og stoðsendinganna.
En ég er að verða hamslaus af eftirvæntingu eftir því að flautað verði til leiks. Fátt er eins ferskt og nýpressaðir búningar og ómarðir fótleggir í upphafi vetrar. Takist okkur að halda sjó gegn þessum ógnarsterku andstæðingum er það stragetísk, taktísk og sýkkólógísk sniðglíma á lofti hjá honum hr. Rogers okkar. Líklegra er að hlutskipti okkar verði meira tragískt, en hvað veit ég?
Njótið svo helgarinnar og farið varlega inni í dölum, uppi á heiðum og úti á vegum.
Frábær pistill, takk takk Babú
Ég spái að tímabilið endi svona,
1-Man City
2-Chelsea
3-Arsenal
4-Liverpool
5-Man United
6-Everton
7-Tottenham
Ég var að spá í að setja Everton á undan United en ég held að evrópudeildin muni vera of mikið fyrir þá með ekki stærri hóp. Arsenal á eftir að byrja frábærlega en choka svo í febrúar,mars eins og vanalega, ná samt 3 sætinu sem er samt töluvert betra en 4 sætis bikarinn sem þeir hreinlega elska að vinna.
United er svo ekki að fara að ná CL sæti í ár. Það er bara þannig, alveg sama þrátt fyrir að #biggiantballs trendi á twitter og United aðdáendur haldi að þeir séu komnir með heimsins besta þjálfara til sín. 2 titlar á síðustu 15 árum er nkl ekkert til að hrópa húrra fyrir eftir að hafa þjálfað lið eins og Barca, AZ,Bayern og Holland!
Mér sýnist á þínum kommentum #7 að þú sért eitthvað stressaður fyrir þessu komandi tímabili hjá Man Utd..ekki í fyrsta skipti sem að þú kommentar svona 😛
City voru og eru sterkir. Spila skemmtilegan bolta, svo ég hef ekkert á móti þeim, fyrir utan að þeir eru olíufélag.
Chelsea eru að styrkja sig. Eru einmitt að fá striker sem hefur reynslu af akkúrat sama leiðinda varnar + lurkaboltanum og Móri býður upp á í rútufyrirtækinu hans Abramovich. Olíufélag. Viðskiptaþvinganir? Vonandi bíta þær Abramovich sem fastast í forsæluna. 🙂
Áður en lengra er haldið er gott að minna á að plast er búið til úr olíu.
Arsenal verða ekkert slor ef lykilmenn haldast heilir. Þeir voru með virkilega gott lið og eru nú með enn betra lið. Geta spilað frábæran fótbolta, en það er eitthvað “fragile” við þetta. Ekkert annað topplið er jafngjarnt á að lenda í algjöru niðurbroti í einstaka leikjum, svo ekki sé minnst á árlega vorhretið.
Rauði krossinn (Man Utd) er meira og minna óþekkt stærð. Þurfa að leysa miðvarðamálin umfram allt. Unbalanced lið, eiga þrjá mjög góða menn í sömu stöðu (tíuna). Þetta verður enginn dans á rósum hjá þeim, þótt LVG hafi lyft brún aðdáenda.
Hugsa að ég splæsi í alvöru spádóma þegar gluggar hafa lokast og þetta liggur allt fyrir.
Hef ekki verið að fylgjast nogu vel með en langar að betta a leikinn a eftir. Likurnar eru -140 a Liverpool sigur. 140 dollara vedmal myndi skila 100 dollara hagnaði. Er það sanngjarnt veðmal?
Frábær pistill að vanda Babú. Ég ætlaði reyndar að kommenta á síðasta pistilinn þinn og skamma fyrir jinxið á Remy, en einhverra hluta vegna kom það komment ekki inn.
Ég verð að segja að ég er að flestu leyti ánægður með kaup Brendan Rodgers í sumar. Það hefði verið fínt að fá Remy inn, en ég væri einna helst til í sóknartýpu sem getur spilað fleiri stöður en bara uppi á topp. Líklega var Remy hugsaður sem slíkur. Þess vegna funkerar t.d. Kolbeinn Sigþórsson ekki nógu vel fyrir okkur.
Það þarf þó að taka fram að samkvæmt tölfræðinni eiga önnur hvor kaup að feila, og þótt maður vonist eftir betri árangri þá skýt ég á þetta:
Markovic og Lambert eiga eftir að feila hjá okkur.
Varðandi hin liðin, þá eru United menn ekki mjög sterkir. Þá vantar alvarlega gæði í miðvarðastöðurnar sínar og líka inn á miðjuna. Cleverley, Carrick og Fletcher eru ekki menn sem vinna miðjuna í alvöru leikjum. Herrera er jú góð viðbót en dugar ekki til.
Þið lásuð það hérna fyrst, Mourinho verður rekinn fljótlega hjá Chelsea. Costa mun ekki finna sig frekar en aðrir senterar hjá honum, Drogba verður aðalsenterinn hans og þetta á eftir að verða ömurlegt rútubílaferðalag hjá honum í vetur. Þeir feila á að sigra Burnley, QPR, Crystal Palace og þessi lið og Abramovic missir þolinmæðina og rekur hann í október.
Þið lásuð það líka fyrst hérna, lokastaðan í deildinni verður svona:
1. Liverpool
2. Man City
3. Arsenal
4. Man Utd.
5. Chelsea
6. Everton
7. Tottenham
Hafið það gott um helgina, njótið þjóðhátíðar og annarra skemmtihalda, við gömlu mennirnir höldum okkur heima og horfum á æfingaleiki með okkar heittelskaða félagi…
Nei Aron Sölvi (Stefán) það er ég ekki 😉
Takk fyrir flottan pistil Babú. Ég er bjarsýnn. Mín spá fyrir deildina:
1. Liverpool
2. Manchester City
3. Chelsea
4. Arsenal
5. Everton
6. Manchester United
7. Tottenham