Kop.is og Úrval Útsýn kynna ferð á Liverpool – WBA helgina 2.-6. október n.k.!
Það er komið að því! Eftir tvær (október, febrúar) frábærlega vel heppnaðar ferðir Kop.is og Úrval Útsýnar á leiki á síðustu leiktíð höfum við sett saman aðra ferð og nú vonumst við til að sjá sem flesta með í för.
Þátttaka og stemning síðasta vetur fór fram úr björtustu vonum og menn skemmtu sér konunglega. Nú ætlum við að endurtaka leikinn og bjóðum upp á frábæra ferð á leik Liverpool og West Brom í byrjun október. Nú þegar er góður fjöldi kominn á lista í ferðina og því hvetjum við menn til að hika ekki heldur panta sér pláss með okkur í skemmtiferð ársins!
Til að panta pláss í ferðina er hægt að hafa samband við Sigurð Gunnarsson hjá Úrval Útsýn á siggigunn@uu.is eða Luka Kostic hjá Úrval Útsýn á luka@uu.is. Endilega skellið ykkur með – það er stutt í ferðina og takmarkað sætaframboð. Síðast komust færri að en vildu og við mælum með að fólk bíði ekki of lengi með að tryggja sér miða!
Boðið verður upp á Kop.is-dagskrá yfir helgina og í kringum leikinn en ferðalöngum verður frjálst að nýta sér það eftir eigin óskum. Fólk getur kastað mæðinni í glæsilegri miðborg Liverpool, verslað smá og farið sýningartúrinn á Anfield með Kop.is-genginu. Endilega lesið borgarvísi okkar um Liverpool-borg til að sjá hvað hægt er að gera í þessari skemmtilegu borg, annað en að sjá frábæra knattspyrnu og óstöðvandi heimalið á Anfield.
Innifalið í ferðinni er meðal annars:
- Íslensk fararstjórn.
- Flug til London Gatwick fimmtudaginn 2. október kl. 15:25.
- Gisting á Holiday Inn í Crawley eina nótt (lítill bær rétt við Gatwick-flugvöll).
- Kráarkvöld í miðbæ Crawley á fimmtudagskvöldið.
- Rúta til Liverpool (u.þ.b. 5 klst. löng) eftir morgunmat á föstudegi. Komið verður til Liverpool fljótlega upp úr hádegi.
- Sérstakt Kop.is Pub-quiz í rútunni þar sem veglegir vinningar verða í boði!
- Gæðagisting á nýuppgerðu lúxushóteli Titanic Hotel niðri á Stanley Dock, steinsnar frá miðborg Liverpool.
- Aðgöngumiði á leikinn gegn West Bromwich Albion laugardaginn 4. október.
- Rúta til London/Gatwick og flug heim þaðan mánudaginn 6. október kl. 20:40.
Máltíðir aðrar en þær sem eru nefndar, drykkir með kvöldmat og annað almennt sem ekki er nefnt hér að ofan er ekki innifalið.
Verðið er kr. 149.500 á mann í tvíbýli.
Eins og áður sagði hafið þið samband við Luka Kostic hjá Úrval Útsýn í síma 585-4107 eða á luka@uu.is til þess að panta ykkar sæti í þessa ferð.
Ferðaáætlun er í grófum dráttum sú að hópurinn flýgur saman til Gatwick-flugvallar í London. Þaðan verður farið beint á hótelið í Crawley town, og þaðan út að skoða bæinn og veitingarnar um kvöldið. Morguninn eftir er morgunverður á hótelinu. Að morgunverði loknum tekur við rútuferð til Liverpool-borgar. Allajafna eru rútuferðir ekki spennandi en í þetta skiptið verður boðið upp á Kop.is pub quiz í rútunni með verðlaunum og svo verður hlaðið í eitt live Kop.is Podcast í rútunni ef tæknin leyfir. Þess utan verður sungið og djammað og almennt brosað alla leiðina til Liverpool!
Í borginni verður boðið upp á almenna fararstjórn og ráðgjöf með hvernig best er að nýta tímann í þessari skemmtilegu borg. Kop.is-strákarnir munu mæla með góðum veitingastöðum og þeir sem vilja geta slegist með þeim í hópinn út að borða öll kvöld á bestu veitingahúsum borgarinnar. Þá verður stemningin á The Park tekin góðum púlsi bæði fyrir og eftir leik auk þess sem hægt er að fara með fólk í skoðunarferðina á Anfield sé þess óskað, en þó ekki hægt að lofa því fyrr en nær dregur þar sem túrinn er ekki alltaf opinn. Svo er hægt að kíkja á Bítlasafnið, Cavern Club og ýmislegt annað skemmtilegt í borginni.
Þess utan verður stemning í hópnum og stefnt að eins mikilli skemmtun og afslöppun og hægt er.
Einnig: BIERKELLER á kvöldin! Við erum ekkert að grínast, sá staður einn og sér er ferðarinnar virði.
Endilega sláist í för með okkur Kop.is-genginu í frábæra ferð til fyrirheitna landsins!
Er í myndinni hópferð á CL leik?
Vil bara benda góðfúslega á að fáir munu koma með ef ekki verður komið heim fyrr en 24. febrúar
Ekki eins og er. Þetta er eina planaða ferðin. Við sjáum til hvernig þessi ferð gengur áður en við ákveðum að fara í aðra.
Hehe takk fyrir að benda á þetta, ég er búinn að laga þetta. 🙂
Frábært framtak. Stefni á að koma með í þarnæstu ferð 🙂
Varðandi fyrstu spurninguna hér, um CL-hópferð þá hefur sú umræða verið uppi.
Hins vegar ekkert klárt með það, vissulega er einn þátturinn hversu mikil eftirspurn er eftir svona kop.is ferðum….það er jú alltaf það sem ræður för í þessum efnum.
Svo að fyrst er að sjá áhugann hér, klára það fyrst.
Vildi benda mönnum á að ég hef farið á CL leik og deildarleik, það er bara ekki hægt að líkja stemmningunni á CL leik við stemmninguna á deildarleik. Ég myndi mæla með að menn skoðuðu að fara á CL leik ef við förum upp úr riðlinum, það er toppurinn í mínum huga 🙂
Guys, fixa linkinn á hótelið. Er dulítið skemmdur 🙂
Takk fyrir ábendinguna. Ég er búinn að laga þetta. 🙂
Er komið í ljós hverjir taka það að sér að vera fararstjórar í þessari ferð? Ég fór í síðustu ferð í febrúar og þetta var vægast sagt fràbær ferð, èg get sagt ykkur það er í samningaviðræðum við yfirvaldið à þessu heimili um að fà smà vasapening svo að èg komist í þessa ferð líka.
Við eigum eftir að ákveða það endanlega hverjir fara í þessa ferð en það verða einhverjir stórskemmtilegir. Ég get ábyrgst það af því að ég kemst ekki og hinir strákarnir eru allir frábærir! 😉
Ég er búinn að lesa yfir allar ferðasögunar oftar en einu sinni og alltaf nagað í mér að koma með með í 1 stk íslenska hóp ferð, en þar sem ég bý í Noregi þá gengur það ekki alveg upp.
En bara svona til þess að láta ykkur vita þá er ég á leiðinni á Everton leikinn vikuna á undan þessari ferð, skal hita upp Bierkeller fyrir ykkur, (vonandi að íslendingar verði ekki á bannlista eftir það)
En ef það verður slegið upp í CL ferð þá vil ég klárlega koma með hópnum og reyna púsla því einhvern veginn saman að geta verið með f/utan flug. CL leikur er búinn að vera draumur minn í laaangaaann tíma!
Það mun ekki vanta áhugann frá fólki, bara láta ykkur vita….
Djöfull er maður farinn að púsla tímum og dögum núna til að geta skellt sér í þetta…
Þetta er klárlega eitthvað sem maður þarf að gera a.m.k. einu sinni á lífstíð. Kemst örugglega samt ekki í þessa ferð því miður og verð því að bíða annarrar ferðar.
Treysti því að safarík ferðasaga verði til eftir þessa ferð og munið bara að láta þá sögu ekki líða fyrir sannleikann 🙂
Farið það grábölvað að maður hafi klikkað á Bierkeller í síðustu ferð. Er ekki hægt að fá allar mögulegar tegundir á krana í risastóru formi?
Get vottað það að það er ógleymanleg skemmtun að fara í ferð með þeim Kop bræðrum! Fór í febrúar og var sú ferð vægast sagt frábær, í alla staði. Kemst því miður ekki með í þetta sinn en mun pottþétt fylgjast með framhaldinu og reyna við næstu ferð á eftir…
Geng frá pöntun á morgun. Treysti á að þessi bjórkjallari viti hvað er á leiðinni
Vitið þið hvernig aðsóknin er í þessa ferð?