Liverpool – Hull 0-0

Liverpool gerði ákaflega pirrandi og slappt 0-0 jafntefli við Hull City í dag, þetta var byrjunarliðið sem Rodgers treysti fyrir þessu verkefni.

Mignolet

Manquillo – Skrtel – Lovren – Moreno

Can – Gerrard

Sterling – Allen – Lallana

Balotelli

Bekkur: Jones, Toure, Johnson, Henderson, Coutinho, Markovic, Lambert

Handritið af fyrri hálfleik var skrifað af Steve Bruce og það gerðist nákvæmlega ekki neitt sem tekur því að ræða mikið frekar. Brendan Rodgers ákvað að halda sig við Balotelli í byrjunarliðinu og hafa hann áfram einan uppi á toppi í stað þess að hafa Sterling með honum líkt og gegn Real Madríd. Hvernig það var betra að leggja upp með tvo frammi gegn Real Madríd frekar en Hull mun ég seint skilja og er óhætt að segja að sóknaraðgerðir allra þriggja sóknarþenkjandi leikmanna okkar hafi verið gríðarlega máttlausar og auðvelt fyrir varnarmenn Hull að verjast átakanlega hægum sóknarleik Liverpool. Joe Allen átti þó verstu 45 mínúturnar í liði Liverpool á miðjunni, hann náði ekkert að skapa fyrir framherjana og missti boltann ítrekað undir pressu miðjumanna Hull sem virkuðu (og voru) númeri stærri en Allen í dag.

Sóknarleikurinn endaði í hlaðborði af löngum sendingum sem rötuðu aldrei á samherja og Balotelli var sjaldnast inni í teig og ekki er hann að vinna þessa skallabolta. Hull var ef eitthvað er nær því að komast yfir undir lok hálfleiksins með nokkrum álitlegum upphlaupum, Diame og Ben Arfa skokkuðu báðir framhjá varnarmönnum Liverpool eins og þeir væru ekki þarna án þess að Hull næði að gera sér mat úr því. Sanngjarnt 0-0 í hálfleik, steindautt.

Seinni hálfleikur var bara copy/paste fram að 60.mín er Coutinho og Lambert komu inná fyrir Joe Allen og Lallana sem gátu hvorugur kvartað fyrir því að vera teknir af velli. Þá loksins fóru okkar menn að sækja af einhverju ráði og fengu nokkur færi til að klára leikinn en náðu aldrei í gegnum varnarmúr Hull sem hafa oft á erfiðari leik.

Undir lokin var pressa Liverpool sérstaklega þung á millri allra löngu kýlinganna fram og átti Balotelli sérstaklega í tvígang að klára þennan leik en þessi blessaði flækjufótur er ítrekað í krummafót þessa dagana. Það fer að verða mjög erfitt að réttlæta veru hans í byrjunarliðinu viku eftir viku og hvað þá allar 90.mínúturnar, hvað þá þegar þetta telst ágætur leikur hjá honum m.v. síðustu leiki. Hann var ekki verstur í okkar liði í dag en þetta er enn einn leikurinn sem hann skorar ekki mark og það er að kosta okkur gríðarlega mikilvæg stig. Rickie Lambert er ekkert meira spennandi valkostur reyndar og gerði ekki mikið eftir að hann kom inná. Þó fékk Balotelli meira pláss eftir að hann fékk annan mann með sér upp á topp og það er vonandi hálmstrá og tilefni til bjartsýni til framtíðar.

Niðurstaðan steindautt 0-0 jafntefli, hræðileg úrslit gegn Hull á Anfield. Það jákvæða við leikinn var að liðið hélt hreinu, meira var það hreinlega ekki. Brendan Rodgers fannst mér ekki eiga góðan dag þó skiptingarnar hans hafi vissulega hresst upp á leikinn. Afhverju hann beið í 60.mínútur með þær er erfiðara að skilja og raunar afhverju enn eina ferðina er lagt upp með 4-2-3-1 með Balotelli týndan á skokkinu uppi á toppi. Alls ekki taka þetta samt sem svo að ég sé að biðja um að hann verði rekinn, það er alveg hægt að vera pirraður án þess að þurfa alltaf að tapa sér alveg.

Maður leiksins: Vörnin hélt hreinu og átti ágætan dag, það dugar ekki fyrir mann leiksins að mínu mati þegar andstæðingurinn er Hull á Anfield Road. Það á að vera óvænt ef við höldum ekki hreinu. Manquillo var sprækur sóknarlega líka og átti góðan dag. Gerrard var ekki áberandi í þessum leik utan þess að hann tók fjölmargar spyrnur úr föstum leikatriðum sem fóru á hættuleg svæði án þess að okkar menn næðu að gera neitt af viti úr því. Allen var versti leikmaður vallarins og Lallana litllu skárri. Sterling sást meira eftir að hann fékk fleiri sóknarmenn með sér framm. Balotelli spilaði áfram eins og maður sem hefur ekki skorað mark í langan tíma.

Skásti leikmaður Liverpool heilt yfir í dag fannst mér vera Emre Can, allt annað að sjá hann núna heldur en gegn QPR um daginn. Vel hann meira til að velja einhvern, stóð enginn sérstaklega uppúr í dag.

Vondur dagur.

92 Comments

  1. Sælir félagar

    Það er með hreinum ólíkindum hvað ég er orðinn þreyttur á þessari frammistöðu liðsins.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  2. Liðið er bara sorglega dapurt! Enduðum við örugglega í 2. sæti í fyrra???

  3. Tveir leikir í röð á Anfield án þess að skora. Segir allt sem segja þarf þegar þriðji markvörður Hull heldur hreinu.

  4. Kúturinn hefði mátt spila allann leikinn. Það fór allt í gang þegar að hann og Lambert komu sóknarlega en þeir hefðu mátt skapa fleiri færi í þessum leik.

    YNWA!

  5. Þetta átti að vera leikurinn sem átti að kveikja á Balo en svo var ekki. Hvað ætli hann fái marga leiki til að labba um völlinn áður en Brendan átti sig á því að hann er vonlaus leikmaður.

  6. Gríðarlegir yfirburðir liðsins, en ná ekki að skila marki. Stundum er það bara þannig.

    Liverpool áttu þennan leik og voru með ÖLL völd á vellinum, glatað að ná ekki að skora.

    EN

    Varnarleikurinn hjá Hull frábær.

  7. Áfram heldur þessi saga
    Að sama hvað við reynum
    Þá erum við alltaf á sama róli
    Þetta er ekkert að lifna við

    Við erum Liverpool Við viljum betra
    enn verðum að sætta okkur við
    að vera ekki lengur Suarez’team
    Við vonum bara það besta

    Áfram heldur þessi saga
    við erum ekki komnir til að vera
    Okkur langa svo að vera betri
    Enn verðum að sætta okkur við þetta

    Við erum Liverpool
    okkur langar okkur langar
    að upplifa aftur 2013/14
    Enn núna er komið annað ár

    Nú er þetta orðið gott
    Við erum Liverpool
    Við sættum okkur ekki við þetta
    Rífið ykkur í gang félagar

    Segir allt sem segja þarf!

  8. Héldum hreinu. Mignolet ekki fengið á sig mark í í rúmar 145 mín. Klárlega framfarir.

  9. eina jákvæða er coutinho og að halda loksins hreinu að geta ekki skorað mark á anfield á móti hull þá er mér ofboðið , rodgers er farinn að verða hugmyndalaus afhverju byrjar hann með 1 framherja inna það hefur aldrei virkað hja honum og var hann að hvila coutinho og henderson fyrir bikarleikinn i vikunni er ekki i lagi ! djöfulsins helvítis

  10. Áttum skilið að vinna þennan leik, Balotelli átti að fá víti þega Bruce ýtti á hann og tók hann úr jafnvægi.

    Spurning hvort Kútinjo hefði ekki átt að byrja þennan leik í enda vitað að Hull myndi spila öflugan varnarleik.

    BR hefði klárlega átt að byrja með Lambert með Balotelli, allt annað að sjá Balotelli með annan center með sér enda losnaði þá líka pláss fyrir hann og það er klárlega ekki hægt að saka hann um að hafa ekki lagt sig allan í þetta í dag enda var hann oft í boltanum.

    Hlakka til að sjá til Balo þegar hann er kominn með Sturridge sér við hlið.

    Ég hef trú á að þetta er í rétta átt, héldum allavega hreinu og sóknin var betri þegar 2 sóknarmenn voru innà og Brassin kom og sprengti þetta upp.

  11. Besta frammistaðan úti á vellinum síðan gegn Tottenham.

    Loksins kom hápressan aftur og síðasti hálftíminn með tvo sentera bara allt annað. Þarna fengum við QPR heppnina til baka og við sanngjarnt með 14 stig eftir þessa 9 leiki. Vona innilega að þessi pressa verði áfram, það er töluvert annað að horfa á það frekar en það sem við höfum séð hingað til í vetur.

    Neikvæðast fannst mér frammistöður bakvarðanna sóknarlega, sérstaklega hægra megin. Jafn glaður og ég er með Manquillo varnarlega þá er hann beinlínis skelfilegur að koma boltanum af sér í sóknarstöðu…alveg eins og gegn WBA þá fékk hann ótal möguleika á að senda boltann inní teiginn en í flestum tilvikum enduðu þær sendingar á varnarmanni Hull City. Moreno var líka mjög lítið að overlappa sinn mann, sem verður að vera…sérstaklega í 4-4-2.

    Bring on Swansea í vikunni, þetta fannst mér klárt skref áfram frá því sem við höfum séð…hér vantaði bara að skora.

  12. Flott framistaða í síðarihálfleik.
    Ef við hefðum unnið 1-0 þá væru allir í skýjunum en inn vildi boltinn ekki þrátt fyrir fjöldan allan af færum og liðið náði að halda hreinu sem er alltaf afrek.

    Eigum við að skoða góðu færinn.
    Lovren á skalla sem er bjargað á línu
    Lallana átti líklega að fá víti enda straujaður inní teig eftir að hann sendi boltan = 100% víti

    Meira var það ekki í fyrirhálfleik en allt fór í gang í þeim síðari

    Gerrard átti skot rétt framhjá
    Balloteli var við það að skora með skalla alveg á marklínu en þeir bjarga á línu
    Coutinho á skalla yfir markið
    Coutinho á hörku skot sem er vel varið
    Ballotelli átti að fá víti. Snertninginn var ekki mikil en þar sem varnamaðurinn er fyrir aftan Balotelli þá er þetta alltaf brot.
    Gerrard við það að skora með því að brjótast í gegn en þeir bjarga á síðustu stundu.
    Ballotelli fær dauðafæri á síðustu sek en markmaðurinn er kominn alveg inn í hann og ver vel.

    Þarna erum við að tala um 10 mjög góð færi og þurfti bara eitt af þeim að fara í markið svo að við fengum 3 stig.

    Svo skorum við 3 mörk gegn QPR nánast án þess að fá færi í leiknum
    Fótbolti er stórfurðuleg íþrótt.

    Það var kraftur í liðinu í síðariháfleik og fór allt í gang þegar Coutinho og Lambert komu inná og hresstir leikur liðsins mikið við það og áttu þeir báðir góðan leik.

    Eina neikvæða við þennan leik er að við fengum ekki 3 stig.
    En það var eina jákvæða við síðasta leik.

    Næstu leikir í deildinni eru gegn Newcastle úti og Chelsea heima. Þetta er ekki óskastaða í deildinni en það er ekkert annað í boði en að einbeita sér að næsta leik.

  13. Öndum rólega, vissulega má setja útá uppstillignuna hja BR í dag. En hann vaknaði nú kallinn og gerði mjög góðar skiptingar, auðvitað áttum við að skora í seinni hálfleik en það bara datt ekki!
    Mér fannst gaman að horfa á seinni hálfleikinn sérstaklega eftir tvöföldu skiptinguna, þá kom loksins pressa og flottur sóknarleikur. Balotelli greyið er greinilega bara á slæmum stað, hrikalega erfitt að horfa á hann klikka á færinu undir lokin þar sem hann hefði getað kaffært öllum efasemdapésunum með einni spyrnu, en í staðinn er hann áfram skúrkurinn. Mér fannst hann samt koma ágætlega útúr leiknum.
    Hvað segja menn um Lovren!? Mér finnst óþægilegt að hafa hann í vörninni og væri alveg til í að sjá smá róterí þar. En allavega þá gekk þetta ekki í dag og þar við situr, það er algjör óþarfi að fara í dómsdagsspár og óska þess að BR taki pokann sinn og annað!! Mér finnst barnalegt að lesa þessa reiðis pósta hérna útí BR og Balotelli!

  14. Ég ákvað að sleppa því að kommenta á meðan leikurinn var í gangi. Nennti ekki að fá komment frá pollýönnum og öðrum “alvöru” stuðningsmönnum um hvað ég væri nú neikvæður og ömurlegur stuðningsmaður.

    En Fowler minn almáttugur, ég á nú bara varla orð yfir þetta lengur, svo mikil er hörmungin.

    Okkar ástkæra lið er núna búið að spila 13 leiki (í öllum keppnum) frá því að deildin byrjaði – og það eru bara engin batamerki á spilamennsku liðsins, bara alls engin.

    Liðið eins og það er að spila er bara alveg vita vonlaust, bæði sóknar og varnarlega – og Rodgers virðist ekki hafa neinar lausnir, þrátt fyrir að hafa breiðan hóp sem var stækkaður með meira en 100 milljónum punda í sumar!

    Rodgers er vanur að biðja um þolinmæði og segir að þetta sé “work in progress”.
    Ok, gott og vel, en við erum ekki að sjá neitt “progress” og það er stóra áhyggjuefnið.

    Hafa menn í alvörunni engar áhyggjur? Ég veit að ég hef þær. Ég hef miklar og þungar áhyggjur af stöðu mála. Væri maður að sjá einhverjar framfarir hjá liðinu, þá myndi maður líta þetta allt öðrum augum.

    Ég er ekki með lausn á vandanum, en þeir atvinnumenn sem við klúbbinn starfa, leikmenn og þjálfarar, verða að fara að sýna árangur. Annars mun byrja að grassera skítamórall innan og utan klúbbsins og ef þetta fær að halda svona áfram eitthvað mikið lengur, þá mun fara að hitna undir sjálfum Brendan Rodgers, því það er ekkert öðruvísi með hann en aðra þjálfara eða leikmenn í þessum bransa. Jú ok, ekki spilar hann leikina inn á vellinum, en hann er búinn að eyða gríðarlegum fjárhæðum í leikmenn og menn þurfa að standa og falla með því.

    Við verðum auðvitað að styðja liðið áfram í baráttunni en mikið er leiðinlegt að sjá það svona dapurt og lélegt eftir stórkoslega spilamennsku síðasta tímabils.

    Áfram Liverpool!

    PS. Af hverju í ósköpunum var ekki Coutinho í byrjunarliðinu eftir frábæra frammistöðu í síðasta leik???

  15. Amen Maggi. Allt ad koma. Verdum unstoppable fljotlega. Munid bara ad scums voru oft i ruglinu fyrstu leikina i den og unnu svo motin. Thannig verdur thetta hja okkur.

    Menn ættu ad horfa lika i ad WH unnu man.city, thetta er marathon en ekki 100 metra spretthlaup.

    Vissulega svekkjandi ad yta ekki boltanum inn einu sinni i dag en allt i attina!

    YNWA!

  16. Ef menn sáu ekkert progress í dag, þá voru hinir þeir sömu að horfa á annan leik en ég.

  17. OG

    Átta menn sig ekki á því hversu sterk þessi deild er ? Var ekki Hull að vinna Arsenal fyrir viku? Var ekki West Ham að vinna City áðan?

    Þetta er ekkert gefins.

  18. Sammála Magga. Besta spilamennska okkar í langan tíma í seinnihálfleik og vantaði bara smá lukku til að taka öll stigin en við kláruðum lukkukvótann víst um síðustu helgi. Hljótum að byggja á þessu og byrja með sama lið og uppstillingu næst.

  19. Algjörir yfirburðir okkar manna í dag, en inn vildi boltinn ekki. Coutinho virðist vera að komast í sitt besta form, sem er geysilega jákvætt. En óneitanlega mjög súrt að hafa ekki náð að skora mark (eða mörk, eins og færafjöldinn var).

  20. yep ok ef menn eru sáttir við progressið að ná 0-0 á móti hull á Anfield then i guess your right.

  21. Eina jákvæða er að við héldum hreinu, þó svo að þetta hafi verið Hull ! Næsta leik !

  22. A? fylgjast me? þessu li?i er or?in hrein tímasóun nenni þessu ekki lengur!

  23. Hitna undir Rodgers. Ég hló. Takmarkinu náð, búið að bjarga deginum. Má alltaf treysta á að comment hér komi manni í gott skap eftir “tapleiki” 🙂

    Birdarinn – slepptu því þá, er ekki flókið.

  24. Ótrúlega súrt að horfa á Suarez spila í Barca treyjunni í El Clasico á Santiago Bernabeu. Var ekki nema 4 mínútur að setja mark sitt á leikinn en hann lagði upp mark á Neymar.

    Þvílík gæði þarna inn á vellinum. Okkar menn verða ein og lömb á leið til slátrunnar þarna eftir eina og hálfa viku.

  25. #20, Arsenal – Hull fór 2-2, enda Arsenal eins og Liverpool þessa daganna, afar slappir því miður.

  26. Alls ekki gòður leikur, skelfilegar sendingar milli manna stòran hluta leiksins sem er ekki àsættanlegt, hresstust mikið þegar coutinho og lambert komu inná en guð minn alðmáttugur er ég að verða þreyttur á balotelli, hann verður að fara að klàra þessi færi sín þetta er ekki hægt. Um tíma var maður að vonast til að hafa torres þarna innà í stað balotelli.

  27. Er hættur að pirra mig, sá seinustu 25 mínúturnar í dag og ég varð ekki brjálaður í leikslok eins og vanalega undanfarið. Á þessum 25 mínútum var Skrtel stórkostlegur, stoppaði allt sem nálgaðist hann og vörnin hélt hreinu. Hápressa í gangi og Balotelli óheppinn að skora ekki. Frekar erfið færi sem hann fékk(sem ég sá) Lambert flottur að taka á móti boltanum frammi og koma honum í spil.
    En á meðan Sturridge er meiddur þá held ég að við getum ekki búist við neinu meira en þessu í sókninni.

  28. Mozart nr. 28, kannski full djúpt í árinni tekið að segja að hann hafi lagt upp mark fyrir Neymar. Vissulega sendi hann boltann frá hægri kanti yfir til vinstri á Neymar en Brassinn þurfti nú að gera restina sjálfur til að skora.

    En auðvitað svíður það að sjá Suarez núna en hann á svo sannarlega heima í þessum stærsta leik knattspyrnunnar það sem af er tímabili.

  29. Jæja nú verðum við að fara ná okkur niður á jörðina. Á síðasta tímabili voru leikmenn greinilega að spila yfir getu og við vorum líka með einn besta framherja í heiminum hann Suarez.
    Við eru ekkert að fara að enda í topp fjórum í deildinni, við erum ekkert að fara vinna eða gera einhverja stóra hluti í CL í þetta skipti.
    Eini möguleiki okkar er í deildarbikarnum ef heppnin er með okkur.
    Í stjórnartíð Brendans hafa margir leikmenn komið og farið og það eru ekki mörg kaup sem hafa virkað finnst mér og það eru þá helst Daniel Sturridge og Philippe Coutinho annað eru bara ekki gæði.
    Reynum því að reyna að taka þessu eins og það er og ekki reyna að byggja upp skýjaborgir þegar það er ekki inneign fyrir því.
    Liverpool liðið er ekki með þessi gæði viðað við önnur lið í PL og CL og stillum því væntingar í hóf því annars er ekki von á góðu.
    Þetta tímabil minnir á tímabilið 2009 sem endaði illa.

  30. Ekki við öðru að búast af miðlungsmönnum sem keyptir voru, annað var það ekki.

  31. Margt jákvætt við þennan leik, eina sem vantaði uppá var að pota helvítis tuðrunni inn fyrir línuna. Þessi frammistaða var sú besta síðan Tottenham eins og Maggi sagði.

    Það er alls ekki hægt að segja að Balotelli hafi verið lélegur í þessum leik. Hann hjálpaði til við að dreifa spilinu og var stórhættulegur inní teig, vantaði oft bara örfáa sentimetra uppá að hann hefði náð til boltans, hann er að hitna kallinn.

    Hreint lak, gefur vörn og markverði aukið sjálfstraust. Emre Can var besti miðjumaður leiksins þar til Coutinho kom inná. Vill fá að sjá Hendo, Can og Coutinho saman fyrir aftan Sterling, Borini og Lambert/Balo í næsta leik í bikarnum. Leiðinlegt að sjá Manquillo fara haltrandi útaf, annars fannst mér báðir balverðir fínir.

  32. ef við hefðum nú mann eins og Diame í stað t.d Allen,,bara að hugsa.. liðið sýndi aðeins greddu 2 spjöld. En nú má fara hvíla Sterling, stundum úti á þekju… fara setja svo Emre í djúpan og látan éta allt upp sem kemur á það svæði…þetta er allt að koma..gefum þessu tíma til áramóta…

  33. Þetta er fótbolti, ef maður hefur ekki gaman af honum, þá er maður ekki neyddur til að horfa á hann.. Svo leiðinlegt fyrir þá sem hafa gaman af fótbolta að koma hingað og lesa væl yfir því hvað allt er ömurlegt! Fyrir mér eru Liverpool leikirnir eini tími vikunar sem ég get gírað mig alveg niður frá stressandi háskólalífi og bara slappað af, þessvegna horfi ég á fótbolta. Ef ég yrði pirraður eftir leiki ef við vinnum ekki 5-0 þá myndi ég hætta að horfa á fótbolta og fara bara í fifa og spila við tölvuna.
    ps. liðið sem vann okkur 3-0 (við hefðum átt að vinna 5-0 að öllu eðlilegu) er að vinna Barcelona 3-1. Barca er með Suarez í sínu liði. Real er einfaldlega besta lið í heimi og er í formi þessa dagana.
    pps. gleði og hlátur lengir lífið.

  34. Hvaða eru þið eiginlega að bulla?… Vórum við að horfa á sama leik?

    Mjög góð frammistaða í seinni hálfleik. Ein sú besta á þessu tímabili.
    Eina neikvæða er þessi bölvun að við gétum ekki troðað helvítis tuðruni í netið, og þessi dómari var hörmung.

    Þið sem eru að segja að Balotelli er vonlaus: Hann var einn sá besti á völlinum.

    Þið verðið að styðja liðið eftir erfið útslit. Ekki bara drulla yvir leikmenn og þjálfara.

    Þetta er alt að koma, og við eigum enþá Sturridge inni. Jafnir á stigum við Arsenal, og drum fyrir framan United og Spurs.

    Glasið mitt er hálvfullt.

  35. Furðuleg skrif hjá Babu !
    Liverpool voru frábærir gegn hörkuliði Hull City .. Balotelli óheppinn að setja hann ekki nokkru sinnum .. skil ekki óvild ykkar út í Balotelli skammið frekar Brendan að spila ekki 442

  36. LFC hefur gjörsamlega brugðist stuðningsmönnum sínum, að fá ekki 2 heimsklassa leikmenn til að vera með Sturidge er algjörlega óásættanlegt.
    Heldur erum bið einhverja B leikmenn sem stóðu sig vel í miðlungs liðum.
    Jà èg er drullu full.

  37. Það er auðvelt að svekkja sig á að hafa ekki sigrað. Það er auðvelt að vera pirraður. Vonlítill. Hamingjustundirnar hafa ekki verið margar hjá Liverpool FC seinustu misserin. Þá er auðvelt að pirra sig. Sjá glasið hálftómt. Blóta. Öskra. Gráta.

    En þetta var allt í áttina. Við gerðum það sem við þurftum að gera. Þjöppuðum okkur saman. Halda hreinu. Forgangsatriði. Clean sheet var mikilvægara en þrjú stig í dag. Deildin er löng. Stigin eru mörg. Þau koma seinna. Nóg af þeim. En þau koma ekki nema það sé sjálfstraust. Og sjálfstraust hriplekur á meðan vörnin hriplekur. Þetta var allt í áttina. Þetta var það sem við þurftum.

    Þetta verður skrappý um næstu helgi. Þetta verður skrappý eitthvað fram að áramótum, jafnvel fram í janúar. Þegar liðið verður orðið lið, varnarmenn orðnir varnarmenn þá geta sókarnarmennirnir orðið sóknarmenn.

    Sem stendur er hver einasti leikur þar sem Liverpool-vörnin heldur hreinu eins og morgun í Palestínu þar sem börnin þín komust lífs af. Kraftaverk. Séu börnin hinsvegar dauð er í sjálfu sér til lítils að horfa upp í loftið og skoða töfluna. Og þegar þessir strákar, Lovren og Skrtel og Mignolet. Verða komnir með vott af sjálfstrausti og á lappirnar. Þá er kannski hægt að fljúga flugdreka. Jafnvel gera eitthvað gott. Þegar Sturridge kemur inn í liðið. Þá verður hægt að gera eitthvað gott.

    En í dag er mikilvægast að vörnin lifði af. Það er kraftaverk.

  38. Miðað við hvernig liðið spilar þessa dagana, þá er ég sáttur með stigið.

  39. Nr. 40

    Rólegur með frábærir, liðið var að tapa tveimur stigum á heimavelli gegn Hull City! Standardinn og væntingarnar eru hærri hjá mér heldur en það og fyrsti klukkutíminn var afskaplega langt frá því að flokkast sem frábær hjá okkar mönnum, Hull skrifaði handritið þar ekki Liverpool.

    Lokakaflinn gefur okkur von um að okkar menn geti hrokkið í gang en ekkert meira en það.

    Þetta var a.m.k. mín skoðun.

  40. Er clean sheet mikilvægar en 3 stig í dag ?
    Hvað meinarðu eiginlega, snýst þessi keppni um að halda hreinu eða safna stigum ?

    Mér hefði verið slétt sama þó við hefðum fengið á okkur 4 mörk svo framalega sem við hefðum skorað fleiri.

    Það er erfitt að reyna að réttlæta enn eina skitu á vellinum í boði Rodgers og þessara leikmanna sem hafa ekkert sýnt á þessu tímabili.

    Hvar er svo þessi 20 mp leikmaður Markovic.
    Ef að Rodgers kemur þessum sumarkaupum ekki í gang fljótlega þá held ég að það þurfi rækilega að enduskoða innkaupastefnu félagsins og hverjir fái að eiga lokaorðið.

  41. BABU 44 .. var Arsenal ekki heppið að ná jöfnu við Hull síðustu helgi heima ?

  42. Sælir félagar

    Ég er algerlega sammála Babú. Þetta er ekki boðlegt að vera sáttur við jafntefli á heimavelli á móti Hull. Ég spyr líka alveg eins og Babú. Af hverju breytir BR ekki í 4-4-2 fyrr en eftir einhverjar 60 – 70 mínútur. Það er löngu ljóst að það gengur ekki að hafa Balo einan uppi á topp. Hvað þarf maðurinn (BR) marga leiki til að sjá það? Enda gjörbreyttist leikurinn og nokkur alvöru færi litu dagsins ljós. Það var ekki Coutinho sem breytti leiknum heldur breyting á leikskipulagi þó það sé rétt að Coutinho átti góða innkomu.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  43. Nr. 46

    Hvað í veröldinni hefur það með okkar leik að gera? Arsenal hefur verið í ströggli undanfarið, það er alfarið þeirra vandamál. Þú getur annars reynt að tala Hull upp eins og þú vilt, það er mjög vont að tapa stigum gegn svona liði á Anfield og telst aldrei nógu gott.

  44. Nokkrir bjartsýnis punktar Eftir þessa umferð verðum við með jafn mörg stig og arsenal og tottenham (ef þeir klára sinn leik). utd er aldrei að fara að vinna chelsea svo við verðum fyrir ofan þá . svo basicly erum við í 4 sæti þegar þessi west ham og southampton bóla springur. ja og erum 3 stigum fra man city sem er allveg ótrulegt

  45. Besti leikur frá því við lékum við Tottenham, svo einfalt er það. Auðvitað viljum við þrjú stig á heimavelli, en ef menn sjá ekki framför í þessum leik þá veit ég ekki með hvað hugarfari menn horfa á leikinn. Ef liðið heldur sama kúrs í næstu leikjum þá örvænti ég ekki en það er stutt á milli hláturs og gráturs í þessum bransa 🙂 Vitanlega þurfa leikmenn að fara að setja tuðruna í mark andstæðinganna og að sjálfsögðu þurfa fleiri þriggja stiga leikir að skila sér í hús en að lausnin sé að reka einn og selja annan……það kaupi ég ekki. Èg verð ánægður í vor ef við tryggjum okkur meistaradeildarsæti, og síðan er ég til í að ræða næsta skref á framabrautinni.
    YNWA

  46. VIl sjá 442 strax í næsta leik með balo og Lambert frammi. Coutinho á miðjunni ásamt Can Gerrard og Sterling. Var virkilega sáttur með síðustu 30 eftir skelfilegan klukkutíma.

  47. 442 Takk. Nokkuð sáttur við Baló síðustu 20 mín. En hvar er Borini?

  48. Jæja ferðunum fyrir framan imbann þegar Liverpool spilar fer alltaf fækkandi hjá manni. Þetta er skelfilega lélégt og ég set spurningamerki við innkaupastefnu Liverpool. Það verður að kaupa stór nöfn í hópinn en ekki eintóma miðlungsmenn. Borguðum við virkilega 25 milljónir punda fyrir Lallana? Vörnin hélt hreinu en það er ekki eins og það hafi mikið reynt á hana í dag. Menn bara kunna ekki að vinna saman framar á vellinum lengur.

  49. Spurning um að fá Comolli aftur til að sjá um að kaupa leikmenn?

  50. Ég er nú búinn að vera í pollyönnuleik allt tímabilið með þetta lið. Það er bara ekki hægt að verja þessa spilamennsku. Jú, jú, síðustu 20 mínúturnar voru mun betri heldur en fyrstu 70 mín. en það breytir ekki þeirri staðreynd að við vorum að gera markalaust jafntefli við fucking Hull á Anfield!! Mér er andskotans sama hvort Arsenal gerði það líka, þetta var bara ömurlegt, ekkert flóknara!

    Sóknarleikur liðsins er með eindæmum hugmyndasnauður, leikmenn eru hægir og það er bara eitthvað mikið að. Það er alveg borðleggjandi að önnur lið eru búin að lesa okkur og við munum áfram lenda í basli með öll lið sem parkera rútunni á Anfield.

    Ljósið í myrkrinu var þó innkoma Coutinho. Hann átti auðvitað að spila þennan leik frá upphafi

  51. Var það ekki Brendan sem fékk Borini til liðs til Liverpool á sínum tíma, til hvers var hann að kaupa þennan leikmann á sínum tíma ef hann ætlar ekki að nota hann.

  52. http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/james-pearces-lfc-verdict-mario-7999720

    100% sammála þessari greiningu. Var mjög hrifinn af Balotelli í þessum leik. Hann á heima uppi á topp AFTAN VIÐ STRIKERINN! Það er hrikalega erfitt að ná af honum boltanum, hann er með frábært touch, góðan leikskilning og gerir oft óvænta hluti sem skilur varnarmennina eftir að klóra sér í hausnum.

    Fyrir utan þetta klúður í lokinn þá var hann besti maðurinn á vellinum að mínu mati. Hann hefur allan heiminn á móti sér þessa stundina og vantar sjálfstraust. That’s it.

    Það er engin tilviljun að besta frammistaðan hans hingað til var annars vegar Spurs-leikurinn þar sem hann hafði Sturridge með sér og svo þessi hálftími eða svo þar hann hafði Lambert fyrir ofan sig.

    Ég ætla að leyfa mér að spá því að þegar Sturridge kemur aftur inn með Balotelli, þá mun sóknarleikurinn hrökkva aftur almennilega í gang.

  53. Þetta var í fyrsta skipti síðan í maí 2013 sem liðið gerir markalaust jafntefli. Ég var búinn að gleyma hvað þau geta verið pirrandi. Og já, þetta voru tvö mjög slæm töpuð stig.

    Engu að síður hef ég aðallega jákvæða punkta eftir þennan leik:

    01: Philippe Coutinho er að komast í gang, og þótt fyrr hefði verið.

    02: Vörnin hélt hreinu. Það var augljóst á leik miðju og varnar í dag að menn hafa verið að fara yfir þau mál á æfingarsvæðinu. Lovren og Skrtel voru að tala betur saman og virtust almennt á betri línu, sem og Mignolet. Þetta er bara annað clean sheet-ið okkar í síðustu 15 leikjum eða síðan um páska. Það má alveg hrósa fyrir það.

    03: Sáuð þið sóknarleikinn fyrstu 60 mínúturnar? Og sáuð þið svo sóknarleikinn síðasta hálftímann? Um leið og Rodgers fór í demantamiðjuna og tvo frammi eins og liðið spilaði á síðustu leiktíð var eins og Stjáni blái hefði fengið spínatið sitt og allt fór á ofurkeyrslu. Liðið átti að skora úr einu af mýmörgum færum á síðasta hálftímanum (samanborið við eitt skot Balotelli og skalla Lovren fyrstu 60 mínúturnar) en þótt það hafi ekki tekist gegn fimm manna vörn og þéttu liði Hull held ég að Rodgers hljóti að hafa séð hvað hann þarf að gera.

    Jafnvel án Sturridge erum við með þrjá framherja – Balotelli, Lambert og Borini. Enginn þeirra er að slá í gegn, þvert á móti, en samt sést langar leiðir að það að hafa tvo frammi færir liðinu miklu meira flæði. Ekki síst af því að þá kannast miðjumennirnir fyrir aftan þá við sig. Sáuð þið Coutinho, Sterling og Gerrard eftir breytinguna? Og svo Henderson þegar hann kom inná? Þeir drottnuðu og pressuðu þvílíkt, það var augljóst að þeir höfðu beðið eftir þessu.

    Og jafnvel þótt Lambert hafi ekki komið neitt sérstaklega vel inn í þennan leik var hann að fá færi og opnanir, og nærvera hans galopnaði allt fyrir Balotelli sem hefði átt að nýta eitt af færunum sínum í lokin.

    Ég bara trúi ekki öðru en að við sjáum demantinn og tvo frammi í næstu leikjum. Lambert og Balotelli saman eða gefa Borini séns ef þess er þörf. Bara gera það sem þarf til að nota það kerfi sem þetta lið kann best og virkar best í . Hætta þessari tilraunastarfsemi.

    Sem sagt. Hundfúll yfir jafnteflinu en jákvæður eftir síðasta hálftímann. Bring on Swansea!

  54. Jæja enn einn leikurinn þar sem dómarinn og markmaður andstæðinganna, sem á náttúrulega leik lífs síns eins og allir markmenn sem spila á móti okkur, kemur í veg fyrir að við vinnum 4 – 0.

    Flott að halda hreinu á móti Hull á heimavelli.

  55. Flottir 40 mills punda dúóið okkar Allen og Lallana í dag, svo var 20 mill punda Markovic tilbúinn að koma inná af bekknum

  56. Fyrir þetta tímabil eyddi Liverpool yfir 60 milljón pund í fjóra nýja sóknartengiliði og sóknarmenn. Þrátt fyrir þessi kaup eru hættulegustu og mest skapandi leikmenn liðsins þeir sömu og í fyrra þ.e. Gerrard, Sterling, Coutinho og Sturridge. Kaup sumarsins verða að detta inn ef ekki á ílla að fara því deildinn er jafnari í ár en í fyrra og töpuð stig á heimavelli gætu kostað sitt í lok tímabils.

  57. 3-1 sigur Real á Barcelona (með Suarez, Neymar og Messi innanborðs) setur úrslitin síðan í vikunni í smá samhengi. Ekki það að ég sé að segja að Liverpool og Barcelona séu eitthvað jafngóð. Þá er morgunljóst að sóknin hjá Liverpool er ennþá í fyrsta gír, hafandi verið í 5. gír nánast allt síðasta tímabil.

    Varðandi það að kaupa leikmenn sem eru búnir að sanna sig, þá hefði ég haldið að Balotelli kaupin hefðu átt að flokkast undir akkúrat það. Ég er nánast alveg viss um að ef valið hefði staðið á milli Balo og Bony, og sá síðarnefndi hefði orðið fyrir valinu, þá hefðu nú einhver ramakvein verið rekin upp yfir metnaðarleysinu.

    Balotelli er vissulega ekki búinn að vera nógu duglegur að skora. Held það skýrist samt fyrst og fremst af því að liðið í heild sinni á í erfiðleikum með að ná sama formi og í fyrra.

    Að lokum legg ég svo til að nafni minn Sturridge fari að ná sér og verði heill það sem eftir lifir tímabils a.m.k.

  58. NR 20 og fleiri…
    Arsenal 2 Hull 2 i siðustu viku, þar sem fyrsta mark Hull var kolólöglegt.

  59. Mér fannst klárt víti í fyrri hálfleik þegar Lallana er tekinn niður í teignum. Það er nánast ekkert minnst á þetta.
    Hull leikmaðurinn var of seinn í boltann og straujaði hann niður. Þetta var 100 % brot í mínum augum og ekkert annað. Maður hefur séð dæmt fyrir minna en þetta, oft t.d. þegar menn pota boltanum of langt frá sér svo þeir eigi engan möguleika á boltanum en eru teknir niður. Geri mér grein fyrir að það eru kannski ekki allir sammála þessu.
    Liverpool menn geta sjálfum sér um kennt og voru ekki að spila nógu vel lengi framan af. Ég er ekki sammála að þetta sé það besta frá Tottenham leiknum. Mér fannst Liverpool spila betur í leiknum gegn Everton og þeir áttu klárlega skilið öll stigin þar. Ég er hins vegar sammála um að þetta var mun betra en í undanförnum leikjum.

  60. Fótbolti í dag snýstu hraða en því miður eru þeir leikmenn sem keyptir voru of hægir.

  61. OK, Liverpool – Hull verður víst síðastur í MOTD, svo enn nægur tími. 🙂

  62. Ekki sáttur.

    Ég næ ekki alveg að sjá björtu hliðarnar. Menn eru spenntir fyrir því að sjá tígulinn spilaðan meira með 2 upp á topp. Mig minnir að það hafi verið spilað á móti West ham sem gjörsamlega kafsigldi liv með þannig kerfi. Ef spila á Balo áfram þá vona ég þó að það verði með öðrum framherja en er ekki viss um að það færi sjálfkrafa betri úrslit í hús.

    Hull liðið fannst mér fyrst og fremst vera að sækja stigið mestallan leikinn og því erfitt að leggja mat á hvort vörnin eru að smella, þó svo að ég fagni clean sheet. Ég hugsa að leikurinn hafi spilast algjörlega eftir þeirra höfði. Síðustu 20 min voru alltaf að fara að enda með þyngri pressu, halló þetta er á heimavelli liv og á móti hull.

    Mér fannst liðið afar ósannfærandi mestallan leikinn og spilamennskan með því allra leiðinlegasta sem ég hef séð undir stjórn BR, ég hef ekki hugmynd um það hvernig á að laga þetta enda fæ ég ekki borgað fyrir það. Mér finnst BR jafnframt vera í stökustu vandræðum með að átta sig á því hvaða lið er hans sterkasta lið ásamt því hvaða kerfi hann vill spila. Ég óttast það að margir séu farnir að hugsa um að Sturridge einn og sér muni koma og laga allt, það hugsa ég ekki. Hann mun vissulega styrkja liðið en það þarf meira að koma til.

    Í grunninn eru það leikmannakaupin sem þurfa að ganga upp. Síðustu tveir sumargluggar hafa bara skilað vonbrigðum (þó svo að þessi gluggi dæmist ekki strax, sér í lagi varðandi ungu leikmennina).

    Ég horfi á sóknarleikmenn sem BR hefur keypt: Borini, Sturridge, Aspas, Lambert, Balotelli, Origi. Liðið hefur fengið eitthvað út úr einum af þessum mönnum og það er að sjálfsögðu Sturridge. Það er alveg ljóst að það er bara of lítið og innkaupastefna klúbbsins lítur ekki nægjanlega vel út þegar maður horfir á stöðupunkinn í dag. Hinsvegar og það er það sem mér finnst gefa manni von er að í dag er svo mikið af ungum leikmönnum sem við vonumst til að geti verið meginþorrinn í hópnum til næstu ára og myndað ákveðna heild og stöðugleika og einungis þurfi að bæta við þessum háklassa púslum við.

    ég er ánægður ef menn eru jákvæðir eftir þennan og vonandi hafið þið rétt fyrir ykkur en því miður þá næ ég ekki fýlunni almennilega úr mér í dag.

  63. Menn verða að fara hætta þessu dale carnegie kjaftæði og fara horfast í augu við hversu lélegt þetta lið er. Leikmannakaupinn hjá Rodgers eru svo yfirgengið léleg að það er ekki einu sinni ein milljón af u.þ.b. 100 milljón pundum sem maðurinn eyddi í leikmenn nú í sumar búinn að sanna að henni hafi verið vel eytt.
    Rodgers er efnilegur þjálfari á því leikur enginn vafi… en er það nóg, er hann það sem Liverpool þarf. Hvað er það akkúrat sem hann hefur sem Liverpool þarfnast og nýtist. Ekki eru það leikmannakaupinn og ekki sýnist manni það vera taktík eða val leikmanna í liðið allavega ekki þessa dagana.
    Hvers konar skilaboð sendir það t.d. leikmönnum að Balotelli skuli halda stöðu sinni í liðinu eftir jafn hörmulegar frammistöður og hann hefur verið að sýna?
    BR verður að fara sýna róttækari aðgerðir; skipta fyrr inná, breyta um leikkerfi, láta leikmenn heyra það jafnvel inná milli í viðtölum þeir hafa alveg gott af því að vita að þeir séu undir pressu og að þjálfarinn dæmi þá af frammistöðunni inná vellinu en komi ekki bara með tilbúið að svar um að leikmaðurinn leggi sig fram og þess vegna sé hann ánægður með viðkomandi.
    Nú er ég ekki að leggja til að maðurinn verði rekinn; en ég er samt að segja, er Brendan eins klár og þetta undra tímabil okkar í fyrra gaf til kynna?
    Þetta er ungt lið, það eru margir nýjir leikmenn en hey þetta er Liverpool og stuðningsmenn þessa klúbs eiga ekki að venjast því að einn skársti leikur liðsins á tímabilinu sé 0-0 jafntefli gegn Hull á heimavelli.

  64. 0-0 á Anfield gegn Hull. Það er alla daga léleg úrslit. En í skiptingunni, þegar Lallana og Allen eru bekkjaðir fóru hlutirnir í gang. Það er jákvætt, og á u.þ.b. 15-20mín kafla leyfði ég mér að vera viss um að markið kæmi, en því miður voru liðnar af leiknum 60mín og það er einfaldlega of mikið, m.v. allt sem á undan er gengið. Varnarmenn Hull, í þeim Davies og í égáaðspilaíneðrideildum Bruce, réðu vel við sóknarþunga Liverpool í klukkutíma.

    Það sem mér fannst jákvætt, og vonandi glennir Rodgers almennilega upp augunum á sér fyrir því, er að þegar Balotelli fær einhverja lágmarksaðstoð (þó hún sé í mjög hægum Lambert) fram á við að þá þurfa 4-5 varnarmenn andstæðinganna að hafa áhyggjur af einhverju fleiru en Balo. Ég botnaði auðvitað alls ekkert í því, eins og flestir, að Coutinho hafi verið bekkjaður fyrir þennan leik. Við þurfum kreatívan leikmann fram á við, svo ég tali nú ekki um þegar ákveðið er að notast við einn framherja. Vissulega á sá leikmaður að vera í Lallana en stóra sviðið er erfitt, og hefur hann átt mjög erfitt með að fóta sig þar, a.m.k. hingað til.

    En ég tel að Rodgers þurfi einfaldlega að setja allt sitt traust á Coutinho, hann er að mínu mati alger lykill að árangri í vetur. Við höfum svo ótrúlega mikið flæði fram á við ef hann nær að koma sér í sitt eðlilega form. Hann þarf sjálfstraust, og það er verkefni Rodgers.

    Það hljómar eflaust undarlega, en m.v. það að Rodgers sé að tala um það núna yfir rauðvínsglasi við konuna sína að hér eftir muni hann stilla upp tveimur framherjum, óháð fjarveru BigDan, að þá horfi ég bara nokkuð björtum augum á næstu leiki liðsins. Emre Can fannst mér komast þokkalega frá þessum leik, ásamt Gerrard sem ógnaði fram á við þegar færi gafst til.

    Af því að mér þykir ekkert búið að ræða Mario Balotelli hérna undanfarna daga og vikur, að þá vil ég koma því sömuleiðis hér að, að hann er hættulegur framherji, þetta einfaldlega liggur ekki fyrir honum þessa stundina, en hættulegur er hann, og það er bjargföst trú mín að þegar klakinn brotnar, mun hann splundrast í sundur. Af þessu tilefni er rétt að geta þess að við áttum einu sinni leikmann, sem kynntur var til leiks sem markaskorari, stórhættulegur skallamaður og glúrinn fyrir framan markið. Það tók hann 4 mánuði að komast á blað. Sá ágæti drengur setti fyrsta mark sitt fyrir Liverpool 3.desember á sínu fyrsta tímabili (ég reyndar sá það, og í rauninni þau, því hann setti tvö) og var leikið gegn Wigan á Anfield. Þeir nösku vita að þarna er ég að tala um Peter Crouch.

  65. er það ekki rétt hjá mér að sturridge á að ná næsta leik í deildinni ?

  66. held að það seu kominn yfir 80 horn hja okkar mönnum an þess að drulla tuðrunni inn

  67. Afsakið en langar einhverjum eða hvort þið vitið einhvern sem langar í 2 miða á Liverpool – Chelsea þann 8. nóvember nk?
    forfallast þvi miður en vill sjá hvort að einhverjir vilja ekki fá miðana þar sem þeir voru töluvert dýrir. Þeir sem hafa áhuga á því geta sent mér tölvupóst á arthur_kristinn@hotmail.com

  68. Var svekktur að sjá ekki Balotelli setja hann í uppbótartíma. Sá bara leikinn á MOTD en mér finnst þessi úrslit ekki koma á óvart.

  69. Leiðinlegur leikur sem hefði þó getað endað ágætlega en liðið spilaði vel síðustu 30 mín.

    Eftir því sem ég hugsa meira um það þá finnst mér það sorglegra en tárum taki að horfa upp á stefnuna í leikmannamálum hjá Brendan og afar undarlega stjórnun á liðinu. Ég er orðin verulega efins um Brendan. Liðið var nánast sjálfspilandi á síðasta tímabili með Suarez og Sturridge að eiga tímabil lífs síns á toppinum og ekkert sem stoppaði þá. Það var lítið mál að finna þessa gaura frammi og flytja liðið hratt upp og Sterling og Coutinho frábærir í kringum þá með góðan stuðning frá Henderson. Það var bara erfitt að klúðra þessu.

    Í dag þá förum við afar hægt upp og erfitt að finna lausa leikmenn. Varnarmenn mikið að senda á milli sín sem er alveg óþolandi þegar maður vill fá hraða keyrslu upp til að opna andstæðingana. Liðið lítur bara ekkert vel út þegar andstæðingar eru búnir að pakka í vörn. Hlýtur að vera lykilatriði að fá eitthvað úr föstum leikatriðum enda mikið af þeim þegar pakkað er í vörn á móti okkur en það er ekkert í gangi þar eins og allir sáu í leiknum á móti Hull.

    En aftur að Brendan. Nokkrir punktar sem að má sannarlega deila um varðandi það sem hann er og hefur verið að gera.

    1. Brendan ætlaði að losa okkur við Hendersson sem í dag er framtíðarleiðtogi liðsins. Hann var greinilega ekki að sjá möguleikana í Hendo.

    2. Brendan losaði okkar við Jonjo Shelvey og fékk Luis Alberto á sama tíma og hann kostaði meira en við seldum Jonjo á. Alberto í láni í dag. Hefðum við ekki getað nýtt Jonjo?

    3. Borini fær ekki að stíga inn á völlinn þó Balo sé með skituna upp á baka leik eftir leik og Lambert líti út fyrir að eiga ekkert erindi í úrvalsdeildina.

    4. Þessi Llori sem við keyptum. Var þetta bara djók?

    5. Suso fær ekki að koma nálægt liðinu. Frábær leikmaður sem er alveg úti í kuldanum.

    6. Markovic hefur ekki sýnt neitt sem réttlætir kaupverðið.

    7. Lovren ekki búin að vera merkilegur.

    8. Agger fór fyrir klink til Danmerkur eftir frekar lélega meðhöndlun hjá Brendan. Mun aldrei skilja það þó hann hafi átt misjafna leiki.

    9. Sacko keyptur fyrir fullt af pening. Hefur afar lélega sendingargetu og tæklingar oft illa tímasettar vægast sagt.

    10. Lallana búin að vera ágætur en afar misjafn.

    11. Can gæti mögulega orðið ágætur.

    12. Allen er bara ekki nógu góður í þetta. Er enginn að sjá það?

    13. Tveir spænskir bakverðið keyptir (lán) sem eru reyndar búnir að vera sæmilegir en ekkert meira.

    14. Wisdom í láni hjá WBA og lítur vel út þar. Hefði hann ekki jafn flottur eða flottari en spanjólarnir.

    15. Mignolet fengin fyrir Reina. Ég myndi velja Reina alla daga og við hefðum unnið deildina með hann á síðasta tímabili.

    16. Aspas – Hvaða kaup voru það?

    17. Assaidi – Hvaða kaup voru það?

    18. Borini – Hvaða kaup voru það?

    Í stuttu máli þá hefur ekki verið keyptur neinn leikmaður í liðið síðan Sturridge og Coutinho komu sem við getum sagt að sé frábær leikmaður. Enginn leikmaður sem er afgerandi góður. Þetta er auðvitað skelfilegt þegar þetta er sett í þetta samhengi. Við erum hins vegar alltaf að vona að þessir gaurar verði góðir einn daginn og vonum enn.

    Á meðan kaupir United bestu bitana á markaðnum eins og að drekka vatn. Við kaupum súpu af vonarstjörnum og enginn þeirra er að sanna sig. Ég hefði a.m.k. viljað Di Maria í staðin fyrir Lallana, Markovic og Balotelli – þá eru eftir Can, Lambert, Lovren, Origi, Moreno – 50 til 60 milljónir punda sem við hefðum t.d. getað nýtt í Bony og Gylfa Sig. Þarna hefði verið komin hryggjarsúla í liðið og í framhaldinu hefðum við haldið áfram að leyfa ungum leikmönnum að spreyta sig.

    En við skulum halda áfram að vona og vona að vonanstjörnunar verði að stjörnum.

  70. Af því að menn eru að biðja um MOTD þá er endursýning á þættinum á mánudagskvöld, er meira að segja íslenskuð útgáfa undir heitinu “Messan”. Sömu punktar, bara búið að vippa þessu yfir á móðurmálið fyrir okkur, algjör snilld….. 😉

    Og #79:

    “á meðan United kaupir bestu bitana á markaðnum”

    Bestu bitanA? ADM vissulega frábær kaup, en þeir hafa nú ekki beint verið að brillera það sem af er hausti/vetri þrátt fyrir auðveldasta prógramið af þessum toppliðum. 12. stig eru þeir með og þetta eru liðin sem þeir hafa mætt: Swansea (H), Sunderland (Ú), Burnley (Ú), QPR (H), Leicester (Ú), West Ham (H), Everton (H) og WBA (Ú). Ef við ætlum að horfa til e-h liðs sem viðmið, þ.e. sem er að gera það sem við viljum gera er þá ekki nærri lagi að horfa á lið fyrir ofan okkur?

  71. #79 – Varst þú semsagt þessi eini sem sást möguleikana í Hendo þegar hann var ekki búinn að geta neitt, bókstaflega ekki neitt, í heilt tímabil með Liverpool? Henderson er líklega besta dæmið um það að menn þurfa oft heilmikinn tíma til að aðlagast hjá nýjum klúbbi áður en þeir springa út. Þannig að athugasemdir 3, 6, 7, 9, 10, 11 og 13 hjá þér eru ómarktækar.

  72. Sælir félagar

    Siggi#79, eftir þessa upptalningu er maður verulega hugsandi. Það er samt ekkert hægt að gera eins og er nema “að vona og vona að vonarstjörnurnar verði að stjörnum” einhverntíma. Það er samt ljóst að ábyrgðin er á Brendan Rodgers bæði á kaupum, leikskipulagi og frammistöðu leikmanna. Það er hans og stffsins að skipuleggja leikinn og mótívera leikmenn til að árangur náist á vellinum.

    Það er nú samt svo að ekki er rétt að dæma að svo komnu máli. Við verðum að hafa þolinmæði til að bíða. Bíða eftir að eyjólfur hressist og gefa þessu tíma fram að jólum. Mér finnst samt merkilegt hvað nýir leikmenn Liverpool þurfa miklu lengri tíma en leimenn annara liða til að “aðlagast”. Getur verið að skýringin sé sú að þeir séu einfaldlega ekki nógu góðir.

    Hverju þurfa Lallana, Allen, Suzo, Borini og Lambert að aðlagast sem er svo flókið að þeir þurfa mánuði til. Hafa þeir þó allir spilað á Englandi og sumir nokkuð lengi. Einu mennirnir sem virðast aðlagast vel eru Can og lánsmaðurinn Moreno. Lovren??? þarf eitthvað að ræða hann. Aðlögun hans er náttúrulega bara djók. Endilega setjið Shako inn fyrir Lovren ð það getur ekkii orðið verra, því miður.

    Ég veit ekki hvað á að halda lengi áfram með svona upptalningar eins og þessa og hina frá Sigga og svo má benda á Manninn að norðan og leikskýrsluna. Það hlytur að vera að eitthvað sé farið að volgna undir Brendan Rodgers. Þó vil ég ekki reka manninn að svo komnu máli en hann verður að fara að sýna eitthvað annað en það sem við höfum séð í haust.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  73. Er sammála Sigga ( #79).

    Er það rétt hjá mér að sóknarmenn okkar séu einungis búnir að skora eitt mark á tímabilinu? Rodgers hefur sýnt voða lítið á leikmannamarkaðnum og mér finnst eins og Liverpool sé komið aftur á byrjunarreit. Ég vona innilega að hann fái inn mann/menn í janúar.

    Mér fannst Balotelli vera ágætur í gær, en Liverpool keypti hann til að skora mörk og hann fékk frekar gott færi í gær til að klára leikinn. Hinsvegar, þá er það ekki honum að kenna hversu litla aðstoð hann fær. Lallana og Sterling voru til að mynda mun verri í gær og sköpuðu lítið. Ég set samt spurningarmerki við ákvörðun dómara að dæma ekki víti eftir að Lallana var tekinn niður.

    Ég held að við Poolarar hættum að róa væntingarnar, því það er gríðarleg vinna fyrir höndum. Það er ekkert gefið í þessu.

  74. Þessari síðu hefur lengi verið ritstýrt og ritskoðun er stundum í gangi, enda nennir enginn að fylgjast hérna með ef þetta verður eins og léleg spjallrás.

    Siggi hérna fyrir ofan afskrifar Markovic (minna en 10 leikir búnir), Balotelli (minna en 10 leikir búnir) og Lambert(minna en 10 leikir búnir), sem og gaura eins og Sakho (sem er með 90%+ sendingar heppnaðar).

    Skammast síðan í Brendan fyrir að hafa (en samt ekki) afskrifað Henderson(sem gat ekki neitt í heilt ár) og Jonjo (sem er talsvert lakari en Joe Allen), sem er ekki það sem við þurfum.

    Voðalega eru menn tæpir.

  75. Ok skil það en ég vil fá skýringu af hverju var mínum comentum hent út ég var bara að kasta fram spurningu um Liverpool og Sout­hampt­on og það var ekkert dónalegt eða niðrandi um Liverpool í þessu hjá mér.

  76. #79
    Þú gleymir einum stóru klùðri Rogers. Var nauðsynlegt að senda Pepe Reina burt?
    Hann kom til baka í sumar með ùtrètta sàttarhönd en Rogers vísaði honum à dyr.
    Held að margir hèrna væru til í að hafa Reina í marki eða a.m.k. à bekknum.

  77. Já hann kom med skottid a milli lappana eftir ad tad klúdradist ad hann kæmist til Barca, vodalega gleyma allir fljótt hérna.

  78. Ég ætti ekki að gera það, en ætla að gera það samt.

    Robbi #86.

    Kommentið þitt sem ég henti út var illa sett fram, fullt af rangfærslum og endaði á fáránlega heimskulegri spurningu. Þetta er mitt mat. Það bætti nákvæmlega engu við þennan þráð. Engu.

    Fyrir það fyrsta sagðir þú að Liverpool væri komið með einn sigur í deild. Kommon. Ef þú veist ekki betur þá ættir þú ekki að tjá þig um málefni Liverpool. Í alvöru.

    Svo endar þú þetta þriggja línu comment þitt á því að spurja hvað sé eiginlega að þeim sem eru svo hrikalega vitlausir að halda að Rodgers sé rétti maðurinn fyrir Liverpool.

    Mér fallast hendur. Eigum við að byrja á þeirri staðreynd að hann tók við liði í 7-8 sæti og 30 stigum+frá toppnum í að vera 2 stigum frá því að vera meistarar og koma liðinu í CL á sínu öðru tímabili.

    “En hann lifir ekki endalaust á þvi!!!?????!!!11111111” Það er ekki kominn nóvember. Hvað er að. Í alvöru. Hann er ekki undanskilinn gagnrýni frekar en nokkur maður á jarðríki, en fyrr má nú vera.

    #87.

    Ég ætla að gefa mér að þú hafir ekki verið byrjaður að fylgjat með LFC þegar Pepe pissaði utan í Barca í 18 mánuði og endaði svo feril sinn sjálfur hjá LFC með kveðjubréfi, taka #1. Fyrir utan það að hann var búinn að dala mikið síðustu 2-3 tímabilin hans hjá Liverpool, það er teljandi á höndum annarar handar hve mörg stig hann vann fyrir liðið á því tímabili. Allir myndu vilja Pepe frá 2006-2009, eins og ég vil Lucas frá því 2010. Gengur bara ekki þannig fyrir sig.

  79. Stefnir í hagstæða helgi hjá okkur, þrátt fyrir jafntefli. Þar sem City og Spurs töpuðu stigum. Þá voru Chelsea einnig að komast yfir gegn Utd sem er mjög gott fyrir okkur.

  80. Sælir félagar

    Dómgæslan á OT í leiknum áðan var söguleg. PD ömurlegur dómari leiksins gaf Chel$ki mönnum spjöld fyrir það sem hann dæmdi ekki einu sinni á hjá MU liðinu. Ekki það að ég harmi töpuð stig hjá þeim bláu en ef ég hefði verið þeirra stuðningmaður hefði ég verið brjálaður. En hvað um það. Jafntefli var niðurstaðan sem er gott fyrir deildina, en svona dómgæsla minnir á Rauðnefs tímann á OT og það er kvíðaefni fyrir öll lið.

    Það er nú þannig

    YNWA

  81. Dagurinn sem ég fer að röfla yfir óréttlátri dómgæslu á kostnað Chelsea manna undir stjórn Mourinho verður vonandi einn af mínum síðustu, greyið Mourinho, æ æ 🙂

    Sigkarl við förum nú ekki að hafa teljandi áhyggjur af þessu eftir þennan leik, þetta voru ágæt úrslit og United er á verri siglingu núna heldur en á sama tíma í fyrra.

Liðið gegn Hull

Gengið og umræðan