Everton – á GamlaGarði

KOMDU MEÐ KOP.IS Á ANFIELD!
SJÁ UPPLÝSINGAR HÉR!

Ég geri mér fullri grein fyrir því að það er ekki sæmandi nokkrum manni að láta eitthvað jafn lítilfjörlegt og litla fótboltabróður pirra sig. Hann verði þess valdandi að maður hafi í alvöru trú á því að geðheilsa manns standi og falli með því að manni takist að leggja hann að velli…og í þetta eina sinn hía mikið á hann…eða kannski ekki þetta eina.

Því það gerist sem betur fer ansi oft nú um mundirnar og er alltaf jafn gott.

Ég ætla samt ekki að biðjast afsökunar, það er bara eitthvað innbrennt í mína fótboltasál að ekkert lið pirrar mig meira en Everton og því eru úrslitin úr þessum Mersey-derbyleikjum ansi stór þáttur í því hvernig mér líður dagana á eftir. Það er eins núna. Auðvitað er United lið sem margir horfa til og ég er ekkert að segja það endilega eitthvað “rangt” – en fyrir mér myndi ég allan daginn velja að vinna Everton en þá, svona ef ég stæði frammi fyrir því vonda vali að velja annað liðið.

Stundum held ég að þetta sé partur af því hversu heitur maður var í æsku þegar í alvörunni Everton var stórt lið (ég veit það er fjarstæðukennt krakkar) og þá meina ég að berjast um titla en ekki bara að reyna að vera ofan við Liverpool. Á þeim tíma hirtu þeir af okkur bikarinn okkar tvisvar (deildina) áður en þeir döpruðust. Um leið þó og þeir döpruðust tóku þeir uppá því að vinna okkur alltof oft og skemma þá okkar séns á meðan þeir lúskruðust í fallbaráttu. SHIT hvað það pirraði mig oft!

En svo er það kannski líka vegna þess að vinir mínir í bláu vita alveg af sér þegar svo ólíklega vill til að þeir hafi grobbréttinn, það allavega hjálpar ekki.

Þannig að ég viðurkenni það hér, mér er einstaklega illa við Everton. Punktur.

En ég ætla samt að reyna að vera með einhverja upphitun sem ekki er bara byggð á því að ég neita að hugsa út í það að við töpum á vellinum þeirra sem gengur undir mörgum vondum nöfnum hjá rauðu Scouserunum, ég leyfi mér að vísa í það að völlurinn er í eldri kantinum og hefur látið á sjá, en heitir vissulega Goodison Park og hefur þann kost stærstan að vera stutt frá alvöru velli, Anfield. Ókei…skal byrja á fótboltanum.

Andstæðingurinn

Eftir býsna góð tvö síðustu tímabil hefur Everton lent í miklum vanda nú í vetur. Martinez var að láta liðið spila boltann með jörðinni meira en hafði sést í tugi ára á þeim bænum og þeir voru ofar en þeir voru vanir. Voru að daðra við Meistaradeildarsæti þangað til þeir voru slegnir í jörðina á Anfield hafandi verið ósparir á yfirlýsingar fram að þessum dásamlega leik. Jább, ég svaraði aðeins fyrir mig þetta kvöld!

Haustið byrjaði þokkalega, þeir stálu stigi á Anfield með draumamarki Jagielka en frá því í desember hafa þeir einfaldlega lent á vegg, allt þar til þeir unnu loks leik eftir að hafa náð í 2 stig í síðustu 6 leikjum þar á undan, sigurleikurinn aðeins annar í síðustu tíu leikjum.

Þeir hafa lekið mörkum blessaðir, hafa einungis haldið fjórum sinnu hreinu búri og eru fimmtu neðstir þegar litið er til mörk fengin á sig. Áhersla Martinez á laugardaginn var í samræmi við það, hann spilar sitt 4-2-3-1/4-4-2 en færði liðið töluvert aftar á völlinn og beitti skyndisóknum. Nokkuð sem virkaði fyrir þá.

Ég held þó að það gæti alveg orðið raunin í þessum leik, þessir leikir eru náttúrulega alltaf ávísun á klikkun en í 4-0 sigrinum okkar í fyrra leyfðum við Everton að vera með boltann en í 1-1 leiknum í haust leyfðu þeir okkur að vera með boltann svo vel má vera að lógíkin verði að láta hitt liðið vera með boltann og reyna að vera snöggur að nýta varnarveikleikana.

Ef við lítum á liðið þeirra út frá leikmönnum þá eru svosem einhverjir þar sem geta skaðað okkur, Lukaku hefur strítt okkur í gegnum tíðina og þegar maður gat fagnað því að andhetjan Cahill væri farinn þá steig sú næsta inn á völlinn í formi Kevin Mirallas. Þeir munu líka skarta nýjum leikmanni sem brosti sínu breiðasta (NOT) með treyjuna þeirra í höndunum á gluggalokadaginn, alveg má reikna með því að Aaron Lennon verði strax settur í byrjunarliðið.

LIVERPOOL FC

Skrifað með stórum stöfum enda bæði stóra liðið í borginni og stóri bróðir.

Við unnum Bolton í miðri viku í leik sem tók töluvert á. Miðað við fréttir þá er Markovic tæpur fyrir þennan leik en að öðru leyti “clean bill of health”. Það er að býsna mörgu að hyggja þegar valið er í lið í Merseyside derbyleik þar sem lykilþættir auk auðvitað fótboltahæfileika er skynsemi, grimmd og sjálfstraust til að standa af sér ólíkar aðstæður sem reglulega koma upp í þessum leikjum. Það er einfaldlega engin tilviljun að þeir sem hafa skinið í leikjum undanfarinna ára eru stærstu ásarnir í spilastokknum, menn eins og Suarez, Gerrard og Sturridge í okkar tilfelli á meðan að aðrir leikmenn hafa sumir hverjir átt erfitt í þessum viðureignum en skinið í öðrum.

Ég held þó að sjálfvalin séu níu nöfn. Markmaðurinn og varnarlínan (4), Lucas, Hendo, Moreno, Coutinho og Sterling bætast svo í þennan hóp til að fylla töluna upp í níu. Það eru hin tvö nöfnin sem þarf að velta fyrir sér. Ef við gefum okkur það að Markovic sé meiddur þá erum við að horfa á hægri vænginn. Þar eru þrír kostir, Johnson var hvíldur á miðvikudag mögulega með annað augað á þessum leik, Manquillo hefur átt mjög erfitt sóknarlega en betur varnarlega og svo hefur Rodgers notað Hendo þarna úti á vængnum í einhverjum leikjum.

Hitt sem ég velti fyrir mér er svo hvernig sóknarlínan verður skipuð. Margir hafa kallað eftir Sturridge í byrjunarliðið, það finnst mér þó of snemmt, held að Palace slagurinn verði byrjunarliðsleikurinn hans og Sterling verði áfram á toppnum. Þá er það hver er undir senternum með Coutinho…þar eru til kallaðir mögulega Gerrard og Lallana. Báðir áttu erfitt í síðasta leik og hvorugur mun ná að klára 90 mínútur í þessum leik held ég.

Ég held að með annað augað á því að Gerrard hafi átt sína bestu leiki bæði í vetur og áður gegn Everton þá verði liðið skipað svona:

Mignolet

Can – Skrtel – Sakho

Johnson – Henderson – Lucas – Moreno

Gerrard – Sterling – Coutinho

Alveg gæti þetta líka endað þannig að Hendo fari út á kant og Gerrard verði settur á miðjuna og Lallana framar, en ég held að þetta verði svona.

Samantekt

Eitt sem er á hreinu. Okkar lið er betra en Everton ef horft er til einstakra leikmanna eða heildarinnar.

En formbókin klassíska flýgur út um gluggann þegar þessir leikir eru annars vegar og í stað þess þurfa menn að vera tilbúnir í 90 mínútur plús af svo mikilli veislu að hvert einasta smáatriði mun geta ráðið úrslitum, jafnvel dómaraflautan síkáta eitthvað getað spilað inní.

Við vorum ofboðslega svekktir í haust þegar við misstum tvö stig út úr höndunum í blálokin en ég virkilega vona að sigurhrinan að undanförnu sé að skila sér í meira sjálfstrausti og við nýtum okkur þann meðbyr sem hefur fylgt okkur nú um stundir til að hirða þrjú stig. Óháð öllu myndi það skila okkur betri stöðu í toppslagnum þar sem það verður líka nágrannaslagur í N.London um helgina.

Ég hef fulla trú á fókus okkar manna þessa dagana, þetta verður flugeldasýning en við vinnum hana 1-2 eða 2-3 og Stevie G. mun skora mark í sínum síðasta (opinbera núna) derbyslag.

KOMA SVOOOOOOOOOOOOO!!!!!!!!!!!!!

39 Comments

  1. Þessi helgi er alveg skuggalega mikilvæg. Fjölmörg af liðunum fyrir ofan okkur munu tapa stigum. Það má alveg búast við jafntefli í N-London, amk. mun annað eða bæði lið tapa stigum. Svo eiga Southampton og Man U temmilega strembna útileiki þar sem er alveg hægt að vonast eftir töpuðum stigum. Þannig að þrjú stig, sama hvernig þau koma takk fyrir!

  2. Fyrir Everton er þessi leikur eins og bikarleikur neðri deildarliðs gegn stórliði. Þeir munu leggja allt í sölunar til að ná góðum úrslitum gegn Liverpool og held ég því við eigum við rammann reip að draga.
    Geri fastlega ráð fyrir því að Liverpool hugsi á nákvæmlega sama hátt. Ef það er eitthvað lið sem þeim dauðlangar að valta yfir þá er það Everton eða Man Und og býst ég því baráttuleik upp á líf eða dauða – sem Liverpool ætti að vinna ef við sýnum sambærilegan leik og t.d gegn Chelsea eða West Ham. Liðið er á afbragðs skemmtiferða siglingu þessa dagana og við látum ekki samborgara okkar vera að stöðva hana.

    Þó ótrúlegt megi virðast þá hef ég núna miklu meiri áhyggjur af sóknarleiknum hjá okkar mönnum en varnarleiknum. Þó sóknarleikurinn sé oft snilldarlega útfærður þá finnst mér hann bitlaus að því leitinu til að skotnýtingin er ekki upp á margar ýsur. Með auknu sjálfstrausti trúi ég því að það fari batnandi og fleirri stórsigrar fylgi í kjölfarið eins og á síðasta tímabili þar sem við rústuðum oft samkeppnisliðum á fyrstu 20 mínútunum.

    YNWA

  3. Fín upphitun og þó ég muni alltof vel þann tíma sem Everton gat eitthvað, get ég ómögulega tekið undir að velja sigur yfir Everton fram yfir sigur á móti Man Utd. Í mínum huga er enginn sigur sætari og ekkert tap sárara en þegar Liverpool mætir Man Utd. En nóg um það, við eigum nágrannaslaginn og á Goodison. Það leiðir mig að hinu efninu sem mig langaði að tæpa á, fyrirsögninni:

    „Everton – á GamlaGarði“

    Gamli Garður hefur alltaf verið notað yfir Old Trafford…amk hjá öllum þeim sem ég þekki til. Eigum við ekki eitthvað annað yfir Goodison?

    YNWA

  4. Gaman að sjá að þegar það eru taldir upp þeir 9 leikmenn sem eru burðarleikmenn er Gerrard ekki þar á meðal. Það eru greinileg fleirri en ég að komast á þá skoðun að hann er ekki lengur eins mikilvægur og margir hafa haldið fram. Ég held að við þurfum ekki að kvíða næstu árum enda erum við með ungt og efnilegt lið.

  5. Smá gagnslausar upplýsingar:
    Fyrstu 100 leikir Rafa Benitez = 186 stig
    Fyrstu 99 leikir Rodgers = 183 stig

  6. Ætla rétt að vona að Gerrard verði ekki í byrjunarliði Liverpool. Þangað á hann ekkert erindi eins og mál hafa verið að þróast undanfarið. Annað mál er að kannski á hann erindi á einhverjum punkti í seinni hálfleik.

  7. Hver er vítaskytta ef Gerrard er ekki inn á.
    Spyr sá sem ekki veit, en vítspyrnur eru fastir liðir í leikjum þessara liða.

  8. Að sjálfsögðu á Can að vera vítaskyttan þegar Gerrard er ekki inná. Þýskar eðalvörur klikka ekki á punkintum.

  9. Sælir félagar

    Það er þannig að ég þoli alls ekki að tapa fyrir Everton en samt er mér ekkert illa við þá. Þeir mega vinna alla leiki fyrir mér svo fremi að þeir tapi fyrir Liverpool. Svoleiðis er nú það og við Maggi staddir á sama stað hvað varðar innbyrðis viðureignir þessara liða.

    Úrslitin er fyrir mér alveg klár. Eins og venja er til þá vinnum við þennan leik eftir gífurlega baráttu á miðjunni. Mér sýnist að leikurinn fari 2 – 4 þar sem Sterling setur eitt, Gerrard eitt (víti), Skertl setur eitt (hornspyrna) og Coutinho setur það fjórða með skoti rétt utan vítateigs sem henn smyr í samskeytin. Mörki n hjá Everton skorar dómarinn í leikhléinu sjálfum sér og öðrum til mikillar undrunar og heimamönnum til gleði.

    Það er nú þannig

    YNWA

  10. Þetta eru alvöru derby leikir og fer spilamennskanskan stundum út um gluggan með meiri hörku og hraða.
    Þetta er einfaldlega 50-50 leikur og Liverpool eru ekki sigurstranglegri á útivelli gegn Everton. Ég spái því að við sjáum nokkur mörk í þessum leik. Ég vona að Markovitch nái að halda sér heilum og spila þennan leik því að mér langar ekkert að sjá Henderson eða Glen Johnson í Wing Back stöðuni.

    Ég spái 1-1 leik þar sem við sjáum rautt spjald og umdeild mark. Gerrard skorar markið úr aukaspyrnu en A.Lennon kemur Everton snemma í þeim síðari.

  11. Takk fyrir góða upphitun. Ég myndi vilja sjá Ibe inn í staðinn fyrir Gerrard, ef ég myndi breyta einhverju. Svo myndi ég líka vilja sjá Can í staðinn fyrir Johnson og Lovren í vörninni en þetta er svo alls ekki leikurinn fyrir það, kannski seinna.

  12. Frá stóra lekanum í Liverpool, þ.e. @DamianLFCpl

    Gerrard is almost certain to start. Lucas is likely to be fit. Lallana clearly isn’t fit.

  13. Við vinnum þennan leik 1-0. Það er klárt mál að Stevie G mun spila stóra rullu en hvort hann skorar sigurmarkið eða fær rautt spjald er ég bara hreint ekki viss um 🙂

  14. Við tökum Everton 0-3 og förum taplausir í gegnum a.m.k. febrúar.

  15. Kop.is ætti að setja af stað smá tippkeppni fyrir alla fjölmörgu lesendur síðunar. Mætti vera í svipuðu formi og Lawro er með á BBC. 3 stig fyrir hárrétt úrslit og 1 stig fyrir rétta niðurstöðu. Gæti verið spennandi deildarfyrirkomulag og haft smá verðlaun í lokin sem væri örugglega ekki erfitt að fá sponsora fyrir.

    Ríð á vaðið og spái 5-0

  16. Tek þátt ì tippa kepninni ! 1-3 🙂 Gerarrd er alltaf að fara að spila allan leikin ì síðasta derby slagnum sínum, held að það sé 100%

  17. Skil ekkert í pirringnum hjá Magga og fleirum út í Everton. Everton er eins og Leyton Orient, hvorki betra lið né verra, enda bæði með 26 stig.

  18. Ég skýt á 3-0 sigur ef Gerrard byrjar ekki inná, en 2-1 tap ef hann byrjar, þetta stendur og fellur með því hvort Gerrard verði í aðal, eða aukahlutverki, hann er ekki með gæðin, hraðan, eða úthaldið til að byrja leiki og spilaði mjög illa í báðum leikjunum gegn Bolton, á meðan liðið hefur að vera spila frábærlega án hans, vont að segja þetta, en hann þarf bara að leyfa öðrum að stíga upp.

  19. Einhvernveginn held ég að það sé alveg sama í hvaða formi Gerrard er búinn að vera í leikjunum fyrir derby leik, hann er alltaf tilbúinn í þessa leiki. Nú ef það kemur í ljós að svo er ekki í þetta skiptið, þá er það bara staðfesting á því að hans tími sé liðinn.

  20. # 5 og #17

    Byrjuðuð þið bara að halda með Liverpool í fyrra eða ?? Hafið þið ekkert fylgst með Steven Gerrard síðust 300 árin eða svo, eða allan þann tíma sem hann hefur spilað fyrir Liverpool ?

    Þetta verður í síðasta skipti sem kapteinninn mætir þessu liði á þessum velli, í þessari deild. Liði sem hann hefur elskað að hata, og elskað að sigra síðan land byggði þjóð !!!

    Þú hristir ekkert þessar tilfinningar fram í fucking Fifa 2015, og mér er það ekki einu sinni til efs að hann á eftir að gefa allt í þetta og verða magnaður.

    Þeir sem bara halda annað…þeir einfaldlega hafa ekki fylgst með kappanum lengra aftur í tímann en aldurinn býður uppá…

    Gerrard allan tímann í byrjunnarliðið, og leyfum honum að láta finna fyrir sér gegn fucking Everton í síðasta sinn…!!!!!!

    Koma svo, þrjú stig í boði…og hirðum þau, takk.

    Insjallah
    Carl Berg

  21. Gerrard verður hamrammur. Síðustu leikir hafa ekkert að segja, þetta er að öllum líkindum hans síðasti leikur gegn Everton. Hann myndi glaður fórna meira en höfuðleðrinu (þá eins og Johnson fyrr í vetur) fyrir mark.

    Verst er samt að ég þarf að leggja af stað í verkefni kl 18:55 á morgun; svona geta örlötin verið grimm. Vonandi verður staðan þá orðin svona 0-4!

    Ps. liggur ekki beinast við að ónefndur völlur kallist Gamli Ford, í framhaldi af þessum pælingum um Goodison?

  22. #21 Flottur hann Tommy Lawrence og vanmetinn markvörður í sögunni. Undir stjórn Shankly tók hann Neuer-inn á þetta í sweepernum, sem var ekki algengt í þá daga, og ef stungan kom inn fyrir og það leit út fyrir að sóknarmaðurinn kæmist fram hjá honum, þá tók hann þá einfaldlega niður “if they pushed it past me, I’d just hit them” (ekki rautt spjald fyrir það í gamla daga)

  23. Ég vill frekar Manquillo en Johnson í wing-back stöðuni, ef Markovic er ekki klár. Johnson er með þeim lélugustu bakvörðum í deildinni. Hann kann að sækja, en guð minn góður ég myndi frekar hafa keylu í bakverðinum þegar andstæðingurin er að sækja.

  24. Við poolarar höfum sagt þetta oft á þessarri leiktíð en ég tel þennan leik einn af þremur mikilvægustu leikjum deildarinnar ef ekki þann mikilvægasta vegna þess að eins og staðan er núna erum við fjórum stigum frá CL sæti. Það sem meira er að liðin í kringum okkur MUNU tapa stigum í þessarri umferð. Því er svo mikilvægt fyrir okkur að halda okkar striki og halda pressunni á þeim liðum sem eru nálægt okkur. Leikirnir í þessarri umferð sem skipta okkur máli:
    Tottenham – Arsenal
    QPR – Southampton
    West Ham – Man U

    Málið er að það skiptir ekki öllu hvernig Lundúnarslagurinn fer en ég tel best fyrir Liverpool ef Tottenham vinnur, þarf að saxa á arsenal því Tottenham mun tapa fleiri stigum það sem eftir lifir leiktíð heldur en bæði Liverpool og Arsenal.
    Einnig tel ég Southampton vera á niðurleið og QPR með nýjan coach þannig þeir vilja standa sig og ég set X á þennan leik.
    Svo er það slagurinn á Upton Park en þar eigast við liðin í 3ja og 8unda sæti. Ef West Ham ætla að vera með í baráttunni um CL sæti, verða þeir að vinna sem ég held þeir geri (draumórar)

    Njótið helgarinnar, vonandi verður hún sem best fyrir okkur poolara.

  25. Er mjög bjartsýnn á leikinn fyrir okkar hönd. Vonandi rústum við Everton og þá verður nú nokkrum köldum slátrað.

    En ég fæ alls ekki af mér að vera illa við Everton enda eru þeir drengir góðir. Everton hefur alltaf sýnt minningu Hillsborough fórnarlambanna mikla virðingu svo dæmi sé tekið um hjartaþel og manndóm Everton fólksins.

    T.d. var afhjúpaður minningarskjöldur um þá látnu fyrir örfáum dögum á Goodison Park. Á skildinum er letruð fræg lína úr Hollies lagi, “He ain’t heavy, he’s my brother”.

    Mannsbragur á þessu.

  26. Heyr heyr Guderian…… tek hatt ofan fyrir þessu og Everton mönnum!

    Vel sigur yfir MU allt árið og jafn ógeðslega súrt að tapa fyrir þeim.

    Fair play í dag og megi betra liðið vinna.

  27. holy lord hvað þetta verður klikkaður leikur held að þetta fari 1-2 Steven gerrard og henderson og lukaku KOMA SVOO !!!

  28. Derby-dagur runninn upp!

    Ég verð í útvarpsþætti Fótbolta.net á X-inu 97.7 kl. 13 í dag. Þeir munu eflaust spyrja mig eitthvað um Liverpool og kannski Everton líka.

  29. Spái þessu 1-2. Sturridge og Hendo með mörkin.

    Annars er ég að horfa á Arsenal Tottenham. Vona nú að Tottenham vinni þetta allavegana ekki, helst vill maður sjá jafntefli í þeim leik sem þýðir 2×2 töpuð stig í baráttunni um 3-4 sætið.

  30. Full gróft hjá þér Kristján að líkja Mignolet við Neuer. Annars sammála þér í öllu öðru í sambandi við okkar lið.

  31. Slúðrið sem er nánast alltaf með þetta spot on undanfarið segir að þetta verði liðið í dag

    ……………………Mignolet
    ——-Can——–Skrtel——-Sakho
    Hendo———————————Moreno
    ————Gerrard—–Lucas
    ——Coutinho—————Sterling
    ——————–D.Studge

    Já þeir vilja meina að Sturridge byrji þennan leik í dag.
    Ég vona að Sturridge sé á 100% klár í þetta stríð sem verður í dag.

    Ég ætla að spá þessu 0-2 fyrir okkur.

  32. Ég er gríðarlega stressaður fyrir þessu leik, sérstaklega þar sem að Spurs – Arse fór á mjög hagstæðan hátt fyrir okkur. Með sigri gætum við komist upp fyrir Spurs og þá eru í mesta lagi 5 stig í 3. sætið, sem er með algjörum ólíkindum miðað við gengið framanaf.

    Það er eitthvað svo týpískt Liverpool að ná ekki að nýta sér svona tækifæri, þessvegna tel ég að við gerum annaðhvort 1-1 jafntefli eða töpum hreinlega 2-1

  33. #35 ert þú ekki aðeins að fara framúr þér tottenham unnu leikinn 2-1

  34. Mikið er ég guðslifandi feginn að halda ekki með Arsenal eða Tottenham. Bæði liðin spila hundleiðinlegan fótbolta. Allavega af leiknum að dæma.

    En þetta voru í sjálfu sér ekkert slæm úrslit þó, ef Liverpool vinnur Everton því þá erum við aðeins einu stigi á eftir Arsenal og erum þá komnir á heita reitinn í baráttu um meistaradeildarsætið.

  35. Menn eru að tala um að Ibe byrji í hægri vængbakverði í dag, spennandi!

  36. Úrslitin Tottenham og Arsenal eru fín þ.e. ef við vinnum Everton í dag og Tottenham á þriðjudag. Þá er Liverpool með 44 stig eða stigi meira en Tottenham og ekki neðar en í 5 sæti.

    Fræðilega, ef svo ótrúlega vildi til að allt spilaðist rétt fyrir okkur, gæti Liverpool verið í 3 sæti á þriðjudagskvöld.

    Annars bera fæst orð minnsta ábyrgð en maður má nú samt láta sig dreyma.

Litli töframaðurinn

Liðið gegn Everton