Steven Gerrard – leiðin á toppinn

Allir góðir hlutir taka enda og þannig er það líka með ástarævintýri Liverpool FC og Steven Gerrard. Leiðir skilja kannski um sinn en það þarf enginn að segja mér að við sjáum ekki Gerrard hjá klúbbnum aftur í framtíðinni, kannski bara ekki í sama hlutverki og áður.

Í gær skrifaði Babu frábæran pistil um uppvaxtarár Steven Gerrard, komu hans inn í Liverpool liðið og árin undir Houllier. Ég tek við keflinu og mun hér fara yfir feril hans eftir komu Rafael Benitez. Það er ekki minn stíll í að fara of mikið í tölfræðina og þess háttar umfjöllun. Þegar kemur að því að kveðja Steven Gerrard þá verður það að vera frá hjartanu.

JS54974673-1

Á erfiðum tímum stíga sterkir menn fram

Þegar Rafael Benitez gekk inn um dyrnar sumarið 2004 var það eitt af hans fyrstu verkefnum að sannfæra Steven Gerrard um að vera áfram hjá Liverpool FC. Mikill áhugi annarra liða var til staðar og Gerrard var mjög náinn Houllier sem var látinn fara í lok tímabilsins.

Spánverjinn fékk þarna í hendurnar 24 ára óslípaðan demant. Leikmann sem var gríðarlega efnilegur en vantaði að taka þetta aukaskref til að skilja sig frá restinni. Sjáfur taldi hann sig vera hreinræktaðan miðjumann en Benitez var á öðru máli. Það leið ekki á löngu þar til hann færði Gerrard framar á völlinn sem blómstraði í kjölfarið og varð einn allra besti leikmaður heims á næstu árum.

Ekki byrjaði ferill hans undir Rafa neitt frábærlega, meiddist strax í september og var frá meira og minna þar til í leiknum fræga gegn Olympiakos. Ég sagði nú eitt sinn frá þessu í kommentum hér á síðunni en aldrei er góð vísa of oft kveðin.

Það var á köldu desember kvöldi 2004 sem að ég settist niður til þess að horfa á Liverpool taka á móti Olympiakos. Leikur sem við þurftum að vinna til þess að tryggja okkur áfram úr riðlinum og í 16 liða úrslit Champions League. Þið þekkið þessa tilfinningu, búnir að tapa 8 leikjum og desember rétt genginn í garð, komnir langt aftur úr í deild og með bakið upp við vegg í Evrópu. Var þetta enn eitt tímabilið sem er alveg búið um áramót?

Ekki var það til að bæta það þegar Gerrard fór í viðtal daginn fyrir leik og sagðist ekki vilja vakna þann 9. desember og vera í Europa League. Ekki að ég hafi ekki verið sammála honum, ég var bara smeykur við að missa hann og fannst þetta skrítið viðtal og tímasetningin fáránleg.

Ég settist þarna niður með yngsta bróður mínum, sem var United maður eins og elsti bróðirinn og pabbi sinn. Tveir einir heima og fljótlega varð jarðafarastemmning þegar Rivaldo skoraði úr aukaspyrnu um miðjan fyrri hálfleik. Það gerðist nákvæmlega ekkert það sem eftir lifði hálfleiks og ég hugsaði í alvöru með mér að slökkva á sjónvarpinu í hálfleik.

Blessunarlega lét ég það vera. Pongolle skoraði með fyrstu snertingu sinni, 1-1. Ég fagnaði vel og innilega. Það var von eftir allt saman! Eftir þetta gerðist lítið í rúman hálftíma…. djöfull er þetta týpískt. Gefa manni smá vona en svo ekki meir. Það eru ekki nema 12 mínútur eftir og við þurfum tvö mörk. Það er aldrei að fara gerast.

Sending inn á teig, brotið á Carra, ég öskra á sjónvarpið. Ekkert. Pongolle fær boltann, leikur á varnarmann og sendir á fjær, Nunez skallar á markið, varið, Mellor!! 2-1, 10 mínútur eftir. Ég hoppaði og skoppaði þarna einn fyrir framan sjónvarpið og öskraði hátt og innilega. Yngri bróðirinn horfði á þann eldri og gat ekki annað en brosað. Fimm mínútum síðar, sending inn á teig, Mellor leggur hann út…… GERRRRRRAAAARRRDDDD!!! Þvílíkt móment!

Ég hljóp út um alla stofu, hoppaði, öskraði, faðmaði litla bróður og lét beisiklí eins og fífl. Sama kvöld kom sá stutti til mín og spurði um Liverpool plaköt, það væri jú mikið skemmtilegra að halda með Liverpool en Manchester United.

Svona kvöld. Þessi augnablik. Gerrard hefur fært manni þau nokkur.

Kraftaverkið í Istanbul

Tímabilið 2004/2005 var jójó tímabil (svona rétt eins og síðustu 20 ár hafa verið eða svo). Áður en við fórum að vinna stærstu lið Evrópu og bóka miða okkar á Atatürk völlinn í Istanbul þá tryggði Gerrard Chelsea framlengingu með sjálfsmarki seint í úrslitaleik League cup. Þið vitið, Chelsea liðið sem hann var þrálátlega orðaður við. Það er ekki hægt að skálda svona.

Gerrard leiddi liðið út á Atatürk völlinn 25. maí 2015. Við höfðum tapað í þriðju umferð FA bikarsins gegn stórliði Burnley, tapað í úrslitaleik League Cup gegn Chelsea og endað í fimmta sæti í deildinni. Ef það var ekki nægilega slæmt þá var Everton í því fjórða og Liverpool heilum 37 stigum frá toppliði Chelsea.

Andstæðingarnir? Fáránlega sterkt AC Milan lið sem hafði á að skipa leikmönnum eins og Maldini, Cafu, Stam, Nesta, Gattuso, Seedorf, Pirlo, Kaka, Shevchenko og Crespo….. hvernig fórum við að þessu? Við vorum með Traore, Riise, Kewell og Baros. Jú alveg rétt, Gerrard!

Það þarf ekkert að rifja þennan leik upp. Það var nákvæmlega ekkert að gerast í leiknum þegar Gerrard skoraði skallamarkið sem breytti leiknum. Í kjölfarið fylgdu auðvitað fáránlegustu 6 mínútur fótboltans þar sem við komum til baka úr tapaðri stöðu gegn einu besta liði sögunar. Gerrard spilaði á miðjunni í þessum leik, í holunni og var svo orðinn hægri bak í framlengingu þar sem hann gjörsamlega át Serginho. Við þekkjum allir restina, fyrsti CL bikarinn í 20 ár hjá klúbbnum og Liverpool komið bakdyrameginn inn í keppnina að ári.

Gerrard var valinn maður leiksins í kjölfarið og síðar besti leikmaður Evrópu af UEFA.

_46108690_gerrard466x282

Um vorið var farið að skrifa mikið um Gerrard og Chelsea. Óþægilega mikið. Hann fer ekki, hann er scouser hugsaði maður.

“How can I leave after a night like this?”

Should i go or should i stay

Chelsea kom kallandi, ekki í fyrsta sinn. Liverpool dró lappirnar í því að semja við Gerrard og úr varð einhver blanda af misskilningi og óvissu. Gerrard, sem vildi semja aftur strax eftir úrslitaleikinn, fór fram á sölu og Parry sagði:

“Now we have to move on. We have done our best, but he has made it clear he wants to go and I think it looks pretty final.“

Öll sambönd eiga sínar hæðir og lægðir. Daginn eftir var Gerrard búinn að skrifa undir nýjan 4 ára samning og sagðist aldrei vilja ganga í gegnum svona óvissu aftur. Lykilatriði í því væri þá væntanleg að láta einhvern annan en Rick Parry sjá um hlutina? Miðað hve langt aftur úr Liverpool var eftir hans valdatíð þá held ég að hann hafi talið internetið vera bólu.

Það er annars eitthvað svo rangt við að hugsa sér Steven Gerrard í bláu. Sem málaliði Abramovich. Maður þakkar Fowler fyrir að svo fór ekki.

Leiðin á toppinn

Tímabilið 2005/06 endaði kannski ekki í eins stórum titli og 2004/05 gerði en tímabilið markaði ákveðin skil í ferli Gerrard. Fram að þessu hafði hann mest skorað 13 mörk í öllum keppnum, hann fór langt með að tvöfalda það og skoraði 23 mörk í 53 leikjum.

Ekki tókst okkur að verja þennan með stóru eyrun, en Liverpool átti nokkuð sterkt tímabil heimafyrir. Endaði með 82 stig og í þriðja sæti, níu stigum á eftir meisturum Chelsea.

Liðið féll snemma út úr League Cup en fór alla leið í FA Bikarnum í leik sem hefur stundum verið nefndur Gerrard úrslitaleikurinn. Það er bara þannig að þegar Liverpool fer í úrslitaleiki þá gera þeir sér eins erfitt fyrir og mögulegt er. Það var ekkert öðruvísi gegn West Ham sem voru komnir í 2-0 eftir rétt tæplega hálftíma leik.

Gerrard tók þá til sinna ráða, sendi líka þennan flotta bolta á Cisse, sem minnkaði muninn 2-1 og skoraði frábært jöfnunarmark um miðjan síðari hálfleikinn. Liverpool hall-of-fame-erinn Paul Konchesky skoraði svo úr fyrirgjöf á 63. mínútu og þannig hélst leikurinn þar til í uppbótartíma. Það var námkvæmlega ekkert að ske þegar vallarþulurinn las upp viðbótartímann. Gerrard var bara að fá boltann af einhverjum 30 metrum, orðinn þreyttur og með krampa. Fannst svo langt í markið að hann skaut bara. Og þvílíka skotið, 3-3. Framlenging, Vító, Bikar!

Gerrard maður leiksins, eins og árið áður, og eini leikmaðurinn sem hefur skoraði í úrslitaleik League Cup, FA Cup, Europa League og Champions League! Uppskeran í lok tímabilsins var heldur ekki slæm, varð fyrsti leikmaður Liverpool til að vera valinn leikmaður ársins af leikmönnum síðan John Barnes fékk verðlaunin 1988.

MPP_LEC_020115_Gerrard_06

Á næstu árum festi Gerrard sig í sessi sem allra besti leikmaður heims, 68 mörk á næstu fjórum tímabilum sem eru 17 mörk að meðaltali. Það er ótrúleg tölfræði!

Tímabilin 2006/07 og 2007/08 færði okkur enn einn úrslitaleikinn, aftur var mótherjinn AC Milan en í þetta skiptið í Aþenu. Úrslitin ekki jafn sæt og tveimur árum áður en AC Milan náði fram hefndum (að hluta til a.m.k.) og sigraði 2-1. Gerrard fékk þarna loksins leikfélaga af svipuðu kalíberi í Fernando Torres en saman skoruðu þeir 54 mörk 2007/08 og voru eitt allra eitraðasta sóknarpar Evrópu.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess nú, eftir alla þessa gúrkutíð, að á þessum tímapunkti hafi Liverpool komist þrisvar í undanúrslit Champions League á fjórum árum!

Tímabilið 2008/09 var Liverpool með algjörlega frábært lið! Það er ótrúlega sorglegt að hugsa til þess að við höfum ekki getað haldið þeim lengur saman, Reina, Carra, Gerrard, Alonso, Macherano og Torres. Eini gallinn var sá að United var einnig með frábært lið, Ronaldo þar fremstur meðal jafningja.

Liverpool endaði tímabilið með 86 stig sem oftast hefðu nú nægt til að vinna deildina, en United gerði 4 stigum betur.

Gerrard var frábær þetta tímabil. Skoraði 24 mörk í 44 leikjum og lagði upp önnur 9. Þó þetta tímabil hafi verið ákveðin vonbrigði þá var þriðja vikan í mars einkar ánægjuleg. Þá vikuna vann Liverpool á Old Trafford 1-4 eftir að hafa slátrað Real Madrid á Anfield 4-0 fjórum dögum fyrr. Gerrard skoraði í báðum þessum leikjum og hafði Zinedine Zidane þetta um hann að segja:

“Is he the best in the world? He might not get the attention of Messi and Ronaldo but yes, I think he just might be. He has great passing ability, can tackle and scores goals, but most importantly he gives the players around him confidence and belief. You can’t learn that – players like him are just born with that presence.”

Gerrard var í lok tímabils valinn besti leikmaður deildarinnar af fréttamönnum. Aftur var hann fyrsti leikmaður Liverpool til að hreppa þessa nafnbót síðan Barnes hlaut hana 1990.

Lokaár Benitez

Rétt eins og Houllier þá fylgdi Benitez atlögu að titlinum hroðalega eftir á leikmannamarkaðnum sumarið 2009. Alonso, sem hafði átt sitt langbesta tímabil í Liverpool treyju var seldur og inn komu Aquilani og Glen Johnson á samanlagt um 34 milljónir punda. Aquilani kom meiddur og einfaldlega bara lélegur. Hafði ekkert í enska boltann að gera. Að vissu leyti skyldi maður Diouf kaupin hjá Houllier en Aquilani kaupin mun ég seint skilja.

Það virðist vera bölvun hjá klúbbnum að lenda í öðru sæti. Liðið endaði í 7 sæti í deild og innan klúbbsins ríkti borgarastyrjöld. Rétt eins og á lokaleiktíð Houllier þá komst Liverpool liðið ekki upp úr riðlinum í Champions League.

Leikmenn liðsins virtust vera að missa trúna á Benitez og eigendurnir voru ekki lengi að láta hann fara í lok leiktíðar, jafnvel þó þeir væru á barmi gjaldþrots og Benitez gert nýjan samning árinu áður. Bjargvætturinn? Þeir greiddu milljónir fyrir Roy Hodgson. Ég er ekki að skálda þetta.

Mikið hefur verið rætt og skrifað um lokaár Benitez hjá Liverpool. Mikið gekk á bak við tjöldin og hefur oft verið talað um hlutverk stærstu stjarna Liverpool í brottrekstri Spánverjans. Það er aftur á móti efni í nýjan pistil sem aldrei verður skrifaður nema svo ólíklega vill til að Rafa snú aftur til klúbbsins.

Gerrard gerði eins og góðum fyrirliða sæmir, talaði vel um Hodgson og sagði hann vera rétta manninn í starfið:

“Roy is hugely experienced and I believe he is the right man for Liverpool. I think it’s been worth the wait and I’m sure he’s just keen now to get on with it and start to quickly put in place his plans for the new season.”

Ef þetta var í raun skoðun fyrirliðans þá hefur hann væntanlega verið fljótur að skipta um skoðun á haustmánuðum 2010.

rOY

Hodgson var ekki langlífur í starfi en tilkynnt var um brotthvarf hans 8. janúar 2011 og tók Kenny nokkur Dalglish við starfinu í kjölfarið. Árið var hörmung fyrir Gerrard, en hann spilaði ekki nema um helming deildarleikja Liverpool tímabilin 2010/11 og 2011/12 og voru komnar upp háværar raddir um að okkar ástkæri fyrirliði væri einfaldlega búinn eftir áratug á stóra sviðinu.

Það hræddi þó ekki áhugasama frá, enda komið í ljós að Gerrard átti nóg eftir á tanknum. Bayern kom inn og reyndi að lokka hann á Allianz Arena. Á þessum tímapunkti, kominn yfir þrítugt og Bayern eitt allra besta og ríkasta lið Evrópu, hefði eflaust verið mjög auðvelt að segja skilið við Liverpool og fara og taka svona eins og 2-3 deildartitla og hugsanlega endurnýja kynnin við þennan með stóru eyrun. Gerrard gat það ekki, Liverpool hjartað var of stórt:

“I had a chance to move last year to a Champions League club. There was no temptation,”

“A traditional club like Liverpool still has a value, that’s the reason why I have stuck around for so long. It is more important to win a couple of trophies and achieve something that is a lot more difficult than go down the easy road and move to a club where it becomes easier.”

Chelsea, Inter, Real Madrid, Bayern Munich, AC Milan, Man Utd. Það eru ekki margir leikmenn í heiminum sem hefðu neitað þessum klúbbum og spilað með Liverpool í bölvuðu basli í yfir 15 ár í staðinn. Gengið í gegnum hæðir og lægðir með klúbbnum, upplifað stór kvöld en einnig verið hjá klúbbnum í 7 og 8 sæti á barmi gjaldþrots.

Að ætla að tala hann niður sem leikmann fyrir að hafa ekki náð að vinna ensku deildina er eins og að ætla að tala Messi eða Ronaldo niður því þeir hafa ekki unnið heimsmeistarakeppnina. Þetta er liðsíþrótt og Gerrard hefur ALDREI spilað í besta liði englands á þessum 16-17 árum.

gerrard8

Nýir eigendur, nýr stjóri, nýtt hlutverk

Það var ávalt ætlun FSG (þá NESV) að koma sínum manni í brúnna. Fá inn ungan og metnaðarfullan þjálfara sem spilaði sókndjarfan fótbolta. Ákvörðun þeirra að reka Hodgson þarf því ekki að koma neinum á óvart og í raun ekki heldur brottrekstur Kenny. Ástæða þess að Dalglish var lengur við stýrið en þessa 5 mánuði var góður árangur og líklega var enginn af þeirra fyrstu kostum laus á þessum tímapunkti. Það var aftur á móti alltaf á hreinu að Dalglish væri ekki framtíðarmaðurinn.

Sá maður gekk inn um dyrnar í júní 2012 og heitir Brendan Rodgers.

Mikið stöðuflakk var á Gerrard fyrst um sinn. Henderson var í kuldanum og Gerrard spilaði mikið með Lucas og Allen á miðjunni. Það var í raun ekki fyrr en undir lok 2012/13 og allt tímabilið 2013/14 sem hann færði fyrirliðann í afturliggjandi miðjumann, og þá meira sem leikstjórnanda heldur en eitthvað akkeri.

Þar blómstraði Gerrard og átti frábæra leiktíð 2013-2014 þegar Liverpool komst næst því að vinna ensku úrvalsdeildina frá stofnun hennar. Fyrirliðinn skoraði 13 mörk í deildinni og lagði upp önnur 13. Menn sem héldu að hann væri búinn fengu það all rækilega í andlitið. Gerrard spilaði eins og hann væri tvítugur og sást hungrið hjá honum á ný þegar hann sá möguleikann á bikarnum sem vantar í safnið. Samvinna hans með Suarez og Sturridge var frábær og var það hálfgert hlaðborð fyrir svona góðan spyrnumann að hafa þetta góða og hreyfanlega leikmenn fyrir framan sig.

Við vitum öll hvernig það fór. This does not fucking slip og allt það. Það er svo sárt að tala um þetta ennþá þann dag í dag að maður vill næstum því bara spóla yfir þessa síðustu metra Liverpool ferilsins. Hann er bara mannlegur, hefur borið klúbbinn á herðum sér í allt of mörg ár. Auðvitað tapaðist titillinn ekki á einum mistökum í einum leik, en samt, það var samt bara þannig. Sigur gegn þessum leigustrákum og við hefðum unnið deildina.

Annars hefur Steven Gerrard ávalt talað mjög vel um Rodgers. Nú síðast í janúar, þegar hann var búin að tilkynna um brotthvarf sitt í lok tímabils, sagði hann:

„I wish I’d met Brendan when I was 24 because I think I’d be sitting here talking about a lot of titles that we’d won together. The reality is, Brendan came into this club when I was 32 years of age and it’s a shame that relationship didn’t start 10 years ago. I had an idea the conversation was going to come at some time, but it was a painful conversation to have and that was the key moment – along with other things over the last six to 12 months, but that was the conversation. That was the key one.“

Erfitt að kveðja

Nú þegar Steven Gerrard á tvo leiki eftir fyrir Liverpool þá hefur gagnrýnin á hann verið háværri en nokkru sinni fyrr. Hann verður 35 ára eftir tvær vikur, er markahæsti leikmaður liðsins en samt er allt honum að kenna því hann reddaði okkur ekki enn eina ferðina.

Auðvitað má gagnrýna hann eins og aðra leikmenn liðsins. Síðustu vikur og mánuði hef ég ekki mikið nennt að taka þátt í þessari umræðu, enda finnst mér sökin liggja frekar hjá þeim sem notar ekki 35 ára leikmanninn sinn rétt frekar en að kenna honum um.

Benjamin Franklin sagði að ekkert í veröldinni væri öruggt nema dauðinn og skattar. Það er bara þannig, ótrúlegt en satt þá er Gerrard bara mannlegur eins og við hin. Hann verður eldri með hverju árinu, gránar og fær hrukkur. Fæturnir bregðast ekki jafnfljótt við hugsunum og þeir gerðu fyrir 10 árum. Að vera látinn spila 2-3 leiki í viku á 35 aldursári og ná ekki að spila eins og hann gerði þegar hann var 25 er ekki Steven Gerrard að kenna. Hann hefur spilað yfir 500 deildarleiki fyrir Liverpool og verið að spila í hverri viku núna í 16 ár. Fengið sinn skerf af meiðslum og toppaði í raun sem leikmaður fyrir 7-8 árum síðan. Hann er ekki sami leikmaðurinn og hann var – enda væri það óeðlilegt að hafa fæturna og getuna í að spila á sama hraða og sömu getu í næstum tvo áratugi.

FBL-ENG-PR-LIVERPOOL-EVERTON

Ég tek undir með kollegum mínum. Ég er ekki viss um að við munum sjá annan eins leikmann og Steven Gerrard. Uppalinn leikmann sem spilar allan sinn feril fyrir okkar ástkæra klúbb. Þið sjáið nú bara Sterling (þó hann sé vissulega ekki scouser), um leið og hann fór að trúa því að hann væri of góður fyrir klúbbinn fór hann að pissa utan í aðra klúbba og heimta fáránlega peninga. Hætti reyndar að geta eitthvað í fótbolta á sama tíma en það er víst aukaatriði í þessu öllu saman.

Það sem aðskilur Gerrard frá öðrum leikmönnum er hve fjölhæfur hann er. Hann getur leyst flestar stöður frábærlega, er ótrúlega sterkur, hefur (hafði) gríðarlegan sprengikraft, frábær skotmaður, enn betri sendingamaður og gríðarlega mikill leiðtogi. Skítt með að vera uppalinn, ég sé ekki hvar við ættum að geta fengið 20 marka miðjumann í dag sem hefði alla þessa kosti sem hafa verið nefndir ásamt þessum mörkum og stoðsendingum sem hann skilar á hverju ári. Við erum að tala um leikmann sem hefur skilað yfir 10 mörk og stoðsendingar nánast á hverju tímabili síðan 2004. Tvö þúsund og fjögur!

Svo koma leikmenn eins og Suarez, stoppa í þrjú ár, eru frábærir í tvö og þeirra er minnst sem goðsagna. Hvað verður þá sagt um Gerrard?

Það er erfitt að kveðja Steven Gerrard en hann hefur gefið manni minningar sem munu endast manni alla ævi. Það er eitthvað sem segir mér að þessu ástarsamband sé ekki alveg lokið. Við munum sjá hann aftur hjá Liverpool og þá ekki sem skraut upp á hillu heldur í stóru hlutverki.

Takk fyrir mig

CFC3uuoUUAIHYsy

Það verður ekki upphitun fyrir leikinn á morgun eins og vaninn er. Þessi leikur snýst bara um einn hlut og eru þessir pistlar því upphitunin fyrir síðasta leik Steven Gerrard á Anfield.

10 Comments

  1. Takk kop pennar (Babu og Eyþór) fyrir frábæra pistla um Gerrard. Klökkur við aðra hverja línu.. 🙂 Ég eiginlega trúi þessu ekki að Kafteinn Stórkostlegur sé að fara frá okkur. Hálf súrealískt bara eitthvað! Hvað gerist eiginlega!? Tek undir að sögu Steven Gerrard hjá Liverpool FC er í engu lokið.

    YNWA…. Gerrard og fjölskylda á vit ævintýra í henni Ameríku.

  2. Ótrúlega kitlandi tilhugsun að sjá Gerrard fyrir sér, brjálaðan á jakkafötum á hliðarlínunni.

    Þjálfari Liverpool? Því ekki?

  3. mig grunar að síðasti leikur Gerrard verði leikurinn gegn Palace. Hann verði látinn kveðja á Anfield og fær svo frí í síðustu umferðinni gegn Stoke.

  4. Einn allra besti leikmaður Liverpool, úrvalsdeildarinnar og Evrópu í mörg ár. Tryggðin við Liverpool dásamleg og í raun ótrúlegt að einn besti leikmaður Evrópu hafi neitað stórliðum aftur og aftur til þess að halda áfram í þeim sirkus sem hefur umlukið Liverpool síðustu 10 árin. Endalausir leikmenn að koma og fara og honum augljóslega vonbrigði ( Mascherano Owen, Alonso, Torres, Suarez), stjórar koma og fara, bestu leikmennirnir nánast alltaf seldir, Gerrard spilað út og suður á vellinum (bakvörður, framherji, fyrir aftan framherja, miðja, kantur), og hvert skipti sem Liverpool hefur verið að búa til firnasterkt lið þá eru bestu mennirnir seldir og byrjað upp á nýtt. Hvernig hefði verið að byggja ofan á hið firnasterka lið 2009??? NEI!! Liðið var kannski 2 leikmönnum frá því að verða langbesta ensku deildarinnar en það leystist upp hratt og örugglega. Maður hefur því skilið lundarfar fyrirliðans sem hefur stundum hengt hausinn. Skiljanlega, því vonbrigði hans svo gríðarleg að geta ekki gert liðið SITT að meisturum. Möguleikinn á því er alltaf skemmdur. Höggið kemur á morgun og ég býst við því að þetta verði erfitt á að horfa. Ég óttast að með brottför hans eigi Liverpool eftir að koðna niður næstu árin. Vonandi hef ég ekki rétt fyrir mér.

  5. Þakka pennunum hérna fyrir brilljant lesningu líkt og vaninn er hér.

    Ég er nánast í tárum að lesa þetta, svissandi yfir á jútjúB að horfa á klippur frá istanbul, jöfnunarmarkið gegn westham í bikarnum og svona líka endalaust marga aðra gullmola.

    Hvað er hægt að segja um svona force of nature? Ýmsir segja hann vera Legend…..
    Mér finnst það orð bara hafa verið svo gjaldfellt að það er í raun bara orðinn cheap stimpill sem gerir ekki nógu vel við kafteininn okkar!

    Ég raunverulega kvíði því að horfa á uppáhalds fótboltaliðið mitt spila án hans, ekkert af því að hann sé e-h ómissandi á vellinum í dag, hann er það ekki endilega lengur.

    Ég hóf að fylgjast með fótbolta og Liverpool eftir að Gerrard kom fram á sjónarsviðið og ég þekki bara ekki annað. Gegnum sigra, töp, gleði sem og vonbrigði,

    Herra Liverpool var til staðar til að draga liðið áfram ef þurfti, og það var ansi oft þörf.

    Er ekki enn ekki kominn með neitt nógu gott til að lýsa Steve G…..
    Fowler er guð…… En hvað er Steven Gerrard þá?

  6. “Cafu, Stam, Nesta, Gattuso, Seedorf, Pirlo, Kaka, Shevchenko og Crespo” Jájá slepptu bara Maldini í þessari upptalningu 😀 !

  7. Af öllum mönnum Svenni #8, hvernig gat maður gleymt honum! 🙂

    Lagað.

Steven Gerrard – Fyrstu árin hjá Liverpool

Gerrard-dagurinn í dag – #SG8kopis