Heysel, 30 árum síðar

Þetta hefur verið mánuður afmæla hjá Liverpool. Nýlega minntust menn þess að 25 ár eru liðin síðan liðið vann deildarbikarinn síðast og síðasta mánudag var tíu ára afmælis sigursins í Istanbúl fagnað. Í dag er þó vert að staldra við og minnast eins myrkasta dags í sögu félagsins, dagsins þegar 39 knattspyrnuunnendur létu lífið þegar veggur hrundi á Heysel-leikvanginum í Belgíu í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða, þann 29. maí 1985.

Það eru einmitt þrjátíu ár síðan í dag.

Við höfum minnst þessa dags á ári hverju hér á Kop.is og sendum stuðningsmönnum Juventus vinakveðjur á þessum degi, nú sem fyrr. Megi hinir þrjátíu og níu hvíla í friði.

Við reynum að benda á góðar greinar til lesturs um málið á hverju ári og ef þið skoðið þessa dagsetningu í sarpinum hér til hliðar síðustu árin getið þið fundið fjölmargar góðar greinar sem við höfum vísað á. Í ár eru The Anfield Wrap með frábæra umfjöllun í tilefni 30 ára afmælisins, ég mæli með að þið kíkið á margar frábærar greinar þeirra við tilefnið.

Eins og í fyrra mæli ég svo með þessari heimildarmynd. Ég er of ungur til að hafa upplifað Heysel í beinni eins og svo margir gerðu og þessi heimildarmynd, sem ég sá loks í fyrra, hjálpaði mér helling að færa þennan myrka dag í ljóslifandi búning:

In Memoria e Amicizia

YNWA

5 Comments

  1. Atburðirnir fyrir leikinn eru alltaf eitt eftirminnilegasta atvik mitt um fótbolta.
    Ég sat fimmtán ára fyrir framan skjáinn og gapti, hafði í raun engan áhuga á leiknum og man ekki einu sinni hvort ég horfði á hann. Þetta atvik varð líka stór þáttur í því að ég hætti að fylgjast með fótbolta næstu tíu árin. En ég á sjálfsagt alltaf eftir að muna eftir múrsteininum sem lenti í hausnum á einhverjum stuðningsmanni í sjónvarpinu heima hjá mér.

  2. Þess má geta að leikurinn sem slíkur var að mig minnir ekki sýndur á Rúv(allavega ekki allur) þar sem alltof langur tími hafði farið í þetta og það þurfti að hleypa að fréttum og Dallas.

  3. Ég var átta ára þegar þetta gerðist og man vel eftir þessu í sjónvarpinu, mín fyrsta minning tengd þessari dásamlegu íþrótt. Skömm þeirra sem eru ábyrgir fyrir þessum voðaverkum er mikil.

  4. Svo má bæta því við að, allavega samkvæmt þessari fínu heimildarmynd sem Kristján bendir á, þá var það alls ekki hrun þessa veggs sem varð til þess að fjöldi fólks dó. Heldur það að fólk flýði undan ofbeldi stuðningsmanna Liverpool að veggnum og þeir sem voru aftast urðu undir í troðningnum og köfnuðu. Veggurinn gaf sig svo á endanum og jafnvel hafi það forðað fleira fólki frá dauða.

FSG og hvernig þeir vinna í Bandaríkjunum

Kop.is Podcast #83