Góður gluggi?

Er þetta góður leikmannagluggi hjá Liverpool? Þessu er auðvitað vonlaust að svara núna en mig grunar að mörg okkar séu ekki alveg að meta hversu stór þessi gluggi er m.v. mörg undanfarin ár. Sama má segja um síðasta sumar nema þar tókst ekki að kaupa það sem skiptir langmestu máli, mann sem skorar mörk.

Til að setja þetta aðeins í samhengi langar mig að skoða hvað Liverpool hefur verið að gera sl. áratug og meta hvert tímabil fyrir sig.
Þeir sem merktir eru með gráu komu í janúarglugganum.
Ég tek út unga leikmenn sem spiluðu lítið sem ekkert og fóru á (nánast) frjálsri sölu.


Byrjum að handahófi á glugganum 2006/07
2006-07
Þarna var Liverpool Meistaradeildarlið, nýbúið að vinna keppnina og Benitez var hægt og rólega að byggja upp mjög þétt lið. Hann þurfti enga skurðaðgerð um sumarið. Kuyt kom inn sem markamaskína frá Hollandi og stendur upp úr frá þessum glugga sem mjög góð kaup þó ekki hafi hann orðið sama markamaskínan á Englandi. Bellamy, Pennant og Aurelio voru allir partur af liðinu en ekki kom stjörnu sóknarmaðurinn sem vantaði í púslið. Eins fór enginn sem félagið vildi ekki missa og hópurinn kom mun sterkari frá þessum glugga en hann var fyrir. Bellamy og Kuyt stórbættu Moriantes, Aurelio var bæting á Warnock og Pennant gerði þó meira gagn en Cheyrou. Eftirmaður Hamann kom ekki fyrr en í janúarglugganum.

Þrátt fyrir endalaust af órökstuddum staðhæfingum um hið gagnstæða þá er janúar leikmannaglugginn hjá Liverpool. Flestir af okkar bestu mönnum sl. 10 ár voru keyptir í janúar og það var svo sannarlega raunin þarna. Hamann sem var kominn á aldur var ekkert auðvelt verk að fylla skarðið á en Mascherano gerði það svo sannarlega. Báðir hafa þeir spilað til úrslita á HM og stóra sárið á liði Liverpool í dag er einmitt maður sem skilaði sömu vinnu og þeir tveir. Arbeloa kom líka í janúar og fyllti “skarð” Kromkamp sem fór sumarið áður. Liverpool losnaði semsagt við Kirkland og Diao og fékk inn Mascherano og Arbeloa í staðin. Ég er ekki viss um að við hefðum spáð því þá að þeir hefðu verið fastamenn hjá Real og Barca undanfarin ár.

Einkunn: Sumarið fær 6,0 janúar fær 10. Inn koma þrír byrjunarliðsmenn sem telst nokkuð gott enda liðið nokkuð sterkt fyrir. Ein stórstjarna og í heimsklassa í sinni stöðu. Það var mikil spenna fyrir Kuyt til að byrja með sem hann stóð ekki alveg undir enda spilaði hann ekki lengi fremstur hjá Liverpool.


2007-08
Árið eftir kom rest af þeim leikmönnum sem voru næstum því búnir að vinna titilinn 2009. Fernando Torres kom í stað Cisse sem var aðalatriði sumarsins og leysti nokkura ára sóknarmannakrísu Liverpool. Lucas Leiva kom sem spennandi Brassi en var með Gerrard, Alonso og Mascherano á undan sér. Babel kom sem gríðarlega spennandi efni frá Ajax og það gleymist stundum að hann var oft góður hjá Liverpool og fastamaður í landsliði Holllands. Lucas fyllti skarð Zendan sem var kominn á aldur, Babel kom fyrir Bellamy ef við setjum það þannig upp og Benayoun kom fyrir Garcia sem er stórlega vanmetin styrking á liðinu. Garcia var frábær í Meistaradeildinni 2005 en heilt yfir var Benayoun mikið betri hjá Liverpool. Voronin kom svo fyrir Fowler sem var kominn á aldur…ég hefði samt frekar haldið Fowler.

Kaupin á Mascherano voru loks kláruð í janúar ári eftir að hann kom á láni. Sissoko fór á sama tíma frá félaginu en Martin Skrtel kom inn frá Rússlandi. Enn einn byrjunarliðsmaðurinn sem kom í janúarglugga.

Einkunn: Sumarið færi 9,0 og janúar fær 7,5. Var mjög feginn að losna við Sissoko og þó ég sé ekki mikill Skrtel aðdáandi hefur hann reynst góð kaup. Torres aðalatriði hérna og hann var súperstjarna hjá Liverpool fyrstu tvö tímabilin.


2008-09
Sumarið 2008 voru komnir í ljós miklir og alvarlegir brestir í eignarhaldi félagsins og leikmannkaup/sölur sumarsins báru þessu augljós merki. Benitez vildi sóknarmann með Torres og eins vildi hann kaupa Gareth Barry stórvin Steven Gerrard. Hann fékk bara pening fyrir öðrum og keypti Keane. Kaup sem ég skildi ekki þá og hef aldrei skilið síðan, hann var góður leikmaður en passaði enganvegin í það lið sem hann var að byggja upp hjá Liverpool. Út fór Crouch sem vildi ekki vera varamaður, frá janúar var félagið því í raun bara búið að missa Crouch og fá engan í staðin. Dossena kom fyrir Riise sem var búinn að dala hratt hjá Liverpool árin á undan. Albert Riera kom svo fyrir Kewell sem voru líklega bestu skipti sumarsins. Auk þess fóru Hyypia, Finnan og Pennant sem allir voru líklega á góðum samningum og ekkert af viti kom inn í staðin.

Einu viðskipti janúargluggans voru svo að selja Tottenham aftur stjörnuframherjann sem var keyptur um sumarið án þess að fá nokkurn mann inn í staðin. FÁRÁNLEG ákvörðun sem meira en líklega átti þátt í að Liverpool náði ekki að klára deildina. Það munaði það litlu að góður sóknarmaður hefði vel getað hjálpað. Þarna voru Hicks og Gillett komnir með allt niður um sig og Bentez ótrúlega umdeildur m.v. liðið sem hann hafði byggt upp.

Einkunn: Sumarið fær 1,5 og janúar 1,0. Það var allt í lagi að selja Keane úr því Spurs var tilbúið að borga nánast allt kaupverðið til baka en að fá ekkert í staðin var ótrúlega heimskulegt. Liðið var engu að síður frábært þrátt fyrir mikið mótlæti innanbúðar og bjó að tveimur góðum árum á leikmannamarkaðnum.


2009-10
Xabi Alonso fór sumarið 2009 og við það fór hjartað úr leik Liverpool. Þar til í fyrrasumar (Suarez) hafði ég ekki saknað neins leikmanns eins illa og hans. Liverpool fékk þó gott verð fyrir hann (á þeim tíma) en keyptu því miður nýjan Harry Kewell fyrir megnið af þeim pening. Hófst þar rosalegt run félagsins þar sem keypt var farþega í staðin fyrir gæði. Glen Johnson kom einnig á mikinn pening, kaup þá sem líkjast mjög kaupunum á Clyne núna. Framtíðarbakvörður á góðum aldri, Johnson hefur verið hjá Liverpool í 6 ár núna og endist Clyne svo lengi er það góð ending. Raheem Sterling kom svo í þessum glugga og borgar hann nú t.d. upp kostnaðinn við eftirmann Johnson. Maxi Rodriguez kom svo í janúar fyrir Voronin ásamt því að Dossena yfirgaf félagið. Maxi var góður leikmaður sem kom á röngum tíma til Liverpool.

Einkunn: Sumarið 4,0 og janúar 7,0. Hefði gefið þessu minna en einn ef ekki væri fyrir Sterling sem lætur þennan ömurlega glugga líta betur út. Johnson var síðan lengst af góður leikmaður hjá Liverpool en meiðsli fóru illa með hann ásamt því að hann var hjá félaginu á röngum tíma. Erfiðasta tímabil félagsins síðan 1989 þessi ár en Benitez var a.m.k. að reyna kaupa til framtíðar öfugt við það sem tók við sumarið eftir.


2010-11
Úff.

Meireles er í besta falli ágætur leikmaður og hann var ekki hálfdrættingur á við Mascherano já eða Alonso sem fór árið áður án þess að nothæfur maður kæmi í staðin. Poulsen fer í flokk með Lambert og Pellegrini yfir hægustu leikmenn sem ég hef séð hjá Liverpool. Hodgson ætlaði að hafa hann einan með Gerrard í tveggja manna miðju hjá Liverpool. Einhverjir náðu að spennast upp yfir Joe Cole sem hafði verið meiddur nokkur ár þar á undan en ég var ekki í þeim hópi.

Verstu viðskiptin voru þó að reka Benitez og ráða Hodgson í staðin. Það kostaði um 10m sem hefði betur farið í nýjan leikmann. Fyrir þetta tímabil var alvöru þunglyndi enda gríðarlega erfitt tímabil að baki og hærðilegt sumar. Flest okkar reyndu nú að gefa Hodgson séns en það varð mjög fljótlega ljóst að það var með öllu vonlaust.

Enda breyttist mjög margt á fyrstu mánuðum tímabilsins og janúar varð algjör sprengja. Mest spennandi Transfer deadline dagur frá upphafi. Það var mikið sjokk að missa Torres einmitt þegar maður hélt að félagið væri komið í gegnum það versta og kaupin á Carroll voru strax tekin með MIKLUM fyrirvara. En hvorugur skipti á endanum máli því að sá sem kom í staðin fyrir Babel gerði það að verkum að öllum var sama um bæði Torres og Carroll. Besti leikmaður sem Liverpool hefur keypti síðan ég fór að horfa á fótbolta.

Einkunn: Sumarglugganum gef ég hreinlega 0 í einkunn, þetta sumar var hræðilegt. Janúar fær 8,0 þrátt fyrir kaupin á Carroll. Torres fór og Liverpool fékk 15m plús Carroll í staðin. Carroll fór á ca. 17m tveimur árum seinna og hafði þá ekki verið á launaskrá í eitt ár. Tæknilega telja þetta því sem rúmlega 30m fyrir Torres sem eftir á að hyggja var fínn peningur, Sturridge og Coutinho komu fyrir megnið af þessari fjárhæð. Suarez ásamt þeim skilaði næstum því titlinum heim á Anfield.


2011-12
Sex mánuðum eftir kaupin á Carroll hélt Liverpool áfram að greiða (allt of) mikið fyrir leikmenn í Úrvaldeildinni, hefðu mögulega mátt endurtaka frekar Suarez game planið frekar en Carroll game planið. Út fóru mjög margir farþegar sem allir áttu enga framtíð hjá félaginu. Inn komu of margir farþegar í staðin en eftir situr kaup á fyrirliða félagsins. Það hjálpaði þeim ekki sem voru keyptir þarna að félagið skipti um stjóra og breytti alveg um leikstíl (enn eina ferðina).

Janúarglugginn var öllu betri en þá var keypt tvo unga leikmenn sem báðir gætu brotið sér leið inn í lið Liverpool strax á þessu tímabili.

Einkunn: Sumarið fær 7,0 og Janúar 5,0. Ekki var þetta svo ýkja spennandi sumar á markaðnum og engu líkara en skárahreyfing félagsins væri flughrædd. Henderson og Ibe gætu líklega skilað helmingi meiri peningi inn en þetta sumar kostaði samtals. Kaup á 1-2 byrjunarliðsmönnum er vanalega gott á hverju tímabili og það var sannarlega gert þarna. Ég vildi miklu meira action í þessum janúarglugga á sínum tíma en Ibe rífur hann a.m.k. upp í 5,0 einn og sér. Sagan dæmir þennan glugga svo líklega hærra rætist úr Ibe.


2012-13
Nýr stjóri og komið að nauðsynlegri tiltekt og endurnýjun hjá FSG. Út fóru margir ágætir leikmenn á allt of háum launum m.v. framlegð en í staðin kom bara alls ekki nógu mikið. FSG varð undir í baráttu við Tottenham á leikmannamarkaðnum um tvo leikmenn sem var alls ekki sannfærandi. Allen og Borini voru einu alvöru leikmannakaupin, báðir leikmenn sem Rodgers hafði undið með áður og hann reyndi að fá Gylfa líka. Raunar rétt slapp félagið við þau ragnarök að selja Henderson til að fá inn Dempsey. Skipti sem ég trúi ekki ennþá að hafi í alvöru komið til greina, trúði þessu ekki þá og geri ekki enn, en þetta er víst staðreynd.

Nuri Sahin var það sem ég var spenntastur fyrir en ég sá hann fyrir mér sem lánsmann áður en hann yrði keyptur. Þar hélt ég að við værum með byrjunarliðsmann á miðjuna hjá okkur. FSG skrifaði stuðningsmönnum opið bréf eftir þá risa skitu að lána dýrasta leikmann í sögu félagsis og klúðra því að kaupa mann inn í staðin sem var á stefnuskránni. Rodgers beið ekkert auðvelt verk.

Janúar var öllu skárri og þar lagaði FSG það sem uppá vantaði um sumarið. Sturridge var tekið með mjög miklum fyrirvara sem eiga reyndar margir alveg rétt á sér ennþá en Coutinho var óvæntur gullmoli og frábær kaup. Félagið losnaði svo loksins við Joe Cole ásamt því að Sahin var strax skilað til baka.

Einkunn: Sumarið fær 2,0 en janúar fær 8,5. Borini átti að fylla skarð Kuyt og var á helmingi lægri launum en eftir á að hyggja hefði mátt halda Kuyt eða Maxi bara eitt ár til viðbótar a.m.k. úr því ekki var gert merkilegri hluti á markaðnum þetta sumarið. Allen hefur enn sem komið er nýst svipað vel og Aquilani gerði sem er slæmt þar sem Allen spilar fullt af leikjum öfugt við hinn.


2013-14
Ekki var leikmannaglugginn á eftir mikið gagnlegri þó félagið hafi vissulega keypt meira spennandi leikmenn. Sakho hefur ekki náð 10 leikjum í röð ennþá án þess að meiðast en gæti orðið heimsklassa leikmaður næði hann því. Hann er ennþá á mjög góðum aldri, sérstaklega fyrir miðvörð. Mignolet hefur átt mjög erfitt og ekki ennþá náð að sannfæra stuðningsmenn félagsins. Rest af þeim sem komu inn bættu liðið ekkert. West Ham tók við Carroll og Downing sem var fallegt af þeim.

Liðið var með þvílík læti allt tímabilið og í toppbaráttu til loka þrátt fyrir tvo dapra sumarglugga. Engu að síður var ekkert notað janúargluggann til að bæta í hópinn sem þó var augljóslega allt of þunnur. Nýtt félagsmet (o.þ.l. heimsmet) var slegið í því að ná ekki að semja um kaupverð á aðalskotmarki gluggans (Konoplyanka). Þetta minnir mikið á janúar 2009 er félagið sat líka á sér, hver veit hvort einn gæðaleikmaður til viðbótar hefði ekki hjálpað á lokametrunum?

Einkunn: Sumarið fær 4,0 og janúar 0. Sakho og Mignolet gætu verið byrjunarliðsmenn á næsta tímabili haldist Sakho heill og togar það einkun upp í 4,0.


2014-15
Eftir tvo dapra sumarglugga sem þó voru nokkuð stórir og stóraukið álag var ljóst að félagið þyrfti að stækka hópinn töluvert. Eins bættist skarðið sem Suarez skilur eftir sig við og þar klúðraði félagið sumrinu alveg. Margt var þó spennandi fyrirfram og ekki hægt að dæma þennan glugga alveg strax.

Lovren kom fyrir Agger sem augljóslega var búinn á hæsta leveli. Heppnaðist ekki en það var alveg hægt að skilja þessi kaup. Moreno var fenginn fyrir Enrique sem var og er alltaf meiddur, mjög skiljanleg kaup og spennandi leikmaður. Manquillo kom sem 2-3 kostur í hægri bakvörð fyrir Kelly. Að auki komu nokkrar hreinar viðbætur við hópinn til að stækka hann. Lallana varð stærstu kaupinn og þar eigum við ennþá inni góðan leikmann, Markovic er keyptur sem eitt mesta efni Evrópu en hvort hann fái tækifæri til að standa undir því hjá Liverpool verður að koma í ljós. Þetta er a.m.k. ekki bakvörður og hentar illa sem slíkur í hikstandi liði. Lambert ásamt Borini átti að vera bæting á Iago Aspas þó ég hafi saknað spánverjans á köflum í vetur. Emre Can er svo klárlega eitt mesta efni Evrópu um þessar mundir. Mistökin voru að kaupa ekki alvöru nafn inn fyrir Suarez úr því félagið gat ekki haldið honum lengur. Sanchez klúðrið kostaði okkur einfaldlega sæti í Meistaradeildinni og kaupin á Balotelli í stað Suarez fara beint á topp 5 yfir verstu leikmannaviðskipti Liverpool á þessari öld.

FSG eru síðan svo “skynsamir” á leikmannamarkaðnum að þeir kaupa helst ekki í hinum vonda janúar glugga. Það sá það hver maður að slíkt þurfi ekki á síðasta tímabili…er það ekki?

Einkunn: Bara m.v. síðasta tímabil er þetta solid 2,0. Með tímanum grunar mig að þetta verði alls ekki eins slæmur gluggi og hann virðist vera í dag. Að laga ekki eitthvað sóknarmannakrísuna í janúarglugganum var merki um uppgjöf að mínu mati.


2015-16
Líklega er félagið að gera meira en þeir hefðu viljað núna en öll leikmannakaupin er hægt að skilja. Það var ekki á stefnuskránni að selja Sterling, það kom upp og við því þurfti að bregðast, eins skapar sú sala mikið svigrúm til að gera eitthvað. Fyrir síðasta tímabil var Gerrard ekki á útleið frá félaginu og líklega ekki Johnson heldur. Sést það best á því að reynt var að semja við þá báða. Þarna eru því þrjár stórar holur sem þarf að fylla upp í og allir skilja þeir eftir sig mikið svigrúm til að gera einmitt það.

Firmino fyrir Sterling er mjög spennandi lausn fyrirfram og vonandi þarf hann ekki langan tíma. Félagið þurfti ekki mann 100% fyrir hann enda bæði Ibe og Markovic enn hjá félaginu. Milner kemur bara beint inn fyrir Gerrard. Ekki mest spennandi valkostur sem maður gat hugsað sér en vonandi mjög góð lausn í einhver ár. Clyne kemur svo inn fyrir Johnson og minnir um margt á Johnson er hann var keyptur. Allt eru þetta menn sem eru á aldri til að fara beint í byrjunarliðið. Benteke er svo aðal X-factorinn sem kemur núna inn fyrir Balotelli. Þetta eru engin Suarez gæði en mögulega mjög spennandi leikmaður sem getur bæði spilað með Sturridge og slegið hann úr liðinu.

Ings kemur inn fyrir Borini sem félagið verður að losa sig við núna. Origi sem búið er að bíða eftir í 1 ár kemur svo inn fyrir Lambert. Bogdan fyrir Jones og Gomes sem er 18 ára kemur inn fyrir Manquillo.

Þannig að þrátt fyrir mörg leikmannakaup er enginn sem maður skilur alls ekki hugmyndina á bakvið og enginn sem kemur inn aukalega ef svo má segja. Kannski Firmino jú en mögulega fer einhver í staðin. Það ætti svo ekki að skaða mikið þó byrjunarliði Liverpool frá síðasta tímabili verði töluvert riðlað núna í sumar.


Niðurstaða: Það er svosem engin niðurstaða í þessum vangaveltum en að mínu mati er þessi gluggi langt yfir meðallagi spennandi enda verið að kaupa alvöru sóknarmann. Það hefur alltaf verið mesta fjörið í þeim gluggum, Torres 2007, Suarez og Carroll 2011 og Sturridge og Coutinho 2013. Vonandi fara Benteke og Firmono í flokk með þeim. Já eða Ings. Origi er svo eitt almesta efnið í heiminum í sinni stöðu.

Vonandi kemst með þessu smá jafnvægi á hjá Liverpool og næstu 1-2 sumur verði rólegri. Næsta sumar vill á sjá varnartengilið í Hamann/Mascherano klassa bætast við hópinn sem aðal kaup ársins.

47 Comments

  1. “Lambert ásamt Borini átti að vera bæting á Iago Aspas þó ég hafi saknað spánverjans á köflum í vetur.” Haha snilld 😀

  2. “Milner kemur bara beint inn fyrir Gerrard. Ekki mest spennandi valkostur sem maður gat hugsað sér” Hvaða miðjumann hefðum við getað fengið betri en James Milner? Besti ungi leikmaðurinn í PL 2009-2010, og síðan þá búinn að vera heilt yfir top5 leikmaður í liði sem er síðan þá búið að vinna deildina tvisvar. Að fá Milner var langt fram úr öllum væntingum og hugsa ég að það taki ekki mánuð fyrir menn sem efast um hann að éta hattinn.

  3. Heyr, heyr #2 Daníie.

    Af kaupum sumarsins er ég ánægðastur með Milner.

  4. Nr. 2

    Ef Liverpool hefði sýnt metnað þá hefðu þeir keypt menn eins og Vidal eða Sweinsteiger. Og ég nenni ekki að hlusta á að við eigum ekki pening eða við erum ekki í CL ég vill leikmenn sem eru winnerar og karakterar. Ég hef litla sem enga trú á þessum leikmannaglugga frekar en öðrum frá Brendan Rodgers.

  5. Bíddu vó, var Milner semsagt bara hinn augljósi arftaki Gerrard sem allir voru að vonast eftir fyrirfram? Það fór gjörsamlega fram hjá mér.

    Ég er btw alls ekkert ósáttur við þessa viðbót og tel han vera góða styrkingu á liðinu en það þurfti aðeins að venjast.

  6. Milner var oft á tíðum varamaður hjá City,,,ekki tala eins og hann hafi verið einhver lykilmaður i þessum titlum sem city vann

  7. Of miklum peningum eytt í of mikið af leikmönnum í ensku deildinni er niðurstaðan að mínu mati. Horfið á lið eins og Southampton og Swansea sem versla mikið í deildum utan Englands. Þetta eru oft leikmenn á nákvæmlega jafngóðum stalli og þessir “proven” leikmenn úr ensku deildinni og ódýrari fyrir vikið. Að mínu mati er premier league proven hugtakið steingelt.

    Rafael Benitez byggði t.d. Liverpool liðið að stórum hluta af leikmönnum frá öðrum deildum. Pepe Reina kaupin voru algjör snilld, sama má segja um Arbeloa, Aurelio (þó meiðslagjarn hafi verið) og marga fleiri. Ég held að scouting kerfið hjá honum hafi verið mun betra en það er í dag hjá okkur og miðað við kaupin lýtur út fyrir að hann hafi vitað mikið betur hvaða leikmenn hentuðu inn í liðið.

  8. Fyrir leikmannagluggan voru stöðurnar sem þurfti (að mínu mati) nauðsynlegast að styrkja tvær, alvöru framherja og alvöru varnarsinnaðan miðjumann.

    Ég er ennþá að bíða eftir varnarsinnaða miðjumanninum, nema Emre Can sé ætlað það hlutverk. Við eigum auðvitað Lucas og fáir betri í að stöðva sóknir andstæðingana en það er um það bil það eina sem hann bíður uppá. Ég vona hins vegar að 5-3-2, 5-2-2-1 eða hvað þetta leikkerfi er kallað sé búið og við fáum Emre Can sem djúpan á miðjuna, hann er töluvert fjölhæfari og betri leikmaður en Lucas Leiva.

  9. Þegar ég se hvada leikmenn liverpool hefur keypt sidustu árin, þá hreinlega skil ég ekki hvernig ég hef ávallt búist vid árangri þ.e.a.s ” þetta er timabilið” sem liverpool mun blomstra.
    En nuna hef ég fulla tru a þvi að “þetta er timabilið” sem liverpool mun blomstra 😉
    “Þetta er timabilið” er eitthvað sem flestir poolarar kannast við

  10. Nr. 10
    Þetta ætti nú að sýna að betri ár Liverpool eru ekkert alltaf beintengd leikmannaglugga sumarsins. Þeir sem bættust við hópinn 2013 voru ekki aðalmennirnir á bak við gott gengi það tímabil.

  11. Það sem er kannski mest sláandi við þennan pistil að Liverpool hefur nánast átt einn góðan Sumarglugga í heilan áratug! Alltof oft hefur liðið verið að kaupa hálfgerða varahluti í þetta lið sem skilar litlu. Varðandi gluggan í sumar þá getur maður ekki neitað því að Milner – Clyne – Benteke komi með sömu bjartsýninna í þetta eins og Downing – Enrigue – Adams gerðu um árið með reynslu úr Enska boltanum!!! Líka í þessari samantekt þá er óhætt að segja bestu leikmennirnir síðasta áratuginn hafa flestir verið keyptir utan Englands. Suarez- Torres- Macherano Fékk ekki að spila hjá West ham – Alonso Hyppia Reina Allt LEgend í sögu Liverpools. Engin frá Englandi hefur náð sömu hæðum og þeir sem við höfum keypt sem Proven Talent frá Englandi!! Þannig það svona liggur óbeint í loftinu að Firmino Verður kannski næsta Big Hit okkar 😀

  12. “Árið eftir kom rest af þeim leikmönnum sem voru rétt búnir að vinna titilinn 2009.”
    “Suarez ásamt þeim var rétt búinn að skila titlinum heim á Anfield.”

    þú notar að vera rétt búnir að vinna deildina tvisvar… ég held að þessi setning þýði ekki það sem þú heldur að hún þýði…

    Innskot – nú jæja, ég er búinn að breyta þessu svo þetta fari ekki milli mála í færslunni.

  13. Fyrir mér er Milner ekki skipti fyrir Gerrard, mun frekar bæting á Allen.
    Það besta sem kom frá Gerrard síðustu 3-4 tímabil, sem jú vissulega einkennast af meiðslum, var á þar-síðasta tímabili þegar liðið var hársbreidd frá því að taka titilinn. Þá spilaði Gerrard sem djúpur miðjumaður og stjórnaði leik liðsins eins og herforingi, með eitraða langa bolta, flottan leiklestur og keyrði upp eða hægði niður leik liðsins eftir því sem við átti. Í fyrsta skipti síðan að Mascerano og Alonso fóru sem við höfum verið með alvöru leikmann í þessari stöðu. Þá tel ég auðvitað Lucas ekki með þar sem hann yfirleitt gegnir hlutverki múrbrjóts og losar sig við boltann einfalt.

    James Milner er aldrei að fara að vera í slíku hlutverki hjá Liverpool, þe. sem djúpur stjórnandi á miðjunni. Frá mínum bæjardyrum séð er þessi gluggi í ár á pari við það sem FSG hafa gert hingað til. A) missa stóra pósta í Gerrard og Sterling, B) kaupa menn sem eiga að fylla í skörðin.
    Fyrir utan Benteke sé ég ekki stóra breytingu á styrkleika byrjunarliðsins. Johnson upp á sitt besta er einn besti hægri bakvörður deildarinnar og mv. hvernig liðið byrjaði síðasta tímabil þá er Daniel Sturridge alltaf betri leikmaður en Benteke og Sterling mun meira “safe-bet” en Firminio.
    Hins vegar eru menn innanborðs sem eru reynslunni ríkari eftir síðasta tímabil eins og Markovic, Lovren og Ibe og geta hæglega gert góða hluti. Sömu sögu má segja um menn sem lentu illa í meiðslum og geta orðið lykilmenn í ár eins og Lallana, Sakho, Lucas og Sturridge.

    Frá mér séð þarf hins vegar tvennt að gerast hjá okkur til að liðið geti orðið samkeppnishæft við Arsenal, Man Utd, Chelsea og City. Í fyrsta lagi þurfum við að kaupa djúpan miðjumann. Liðið getur ekki treyst á að Lucas haldist heill út tímabilið og allir sem hafa horft á liðið sjá að Allen er ekki þessi leikmaður. Hinn möguleikinn er auðvitað að Rodgers ákveði bara að Can sé hans maður og láti hann spila þarna “no matter what” í allan vetur. Hef þá fulla trú á því að Can verði á pari við Alonso, Masc og Gerrard eftir örfá ár.
    Seinni parturinn snýst um að losa út farþegana í liðinu. Enrique, Lambert, Borini og Balotelli þurfa allir að víkja. Þá einna helst Balotelli sem að ég held að geri ekkert nema illt fyrir hópinn – enda fátt jákvætt í fréttum af liðinu með hann innanborðs.

    Hvað varðar þessar breytingar er ég sammála Babu sem bendir á þá staðreynd að flestar ef ekki öll þessi viðskipti í sumar voru nauðsynleg. Hins vegar tel ég að þetta sé akílesarhæll okkar í keppni við hin stóru liðin sem litlu breyta á milli tímabila og ná þ.a.l. mun meiri stöðuleika í sína spilamennsku ásamt auðvitað þeirri staðreynd að mun auðveldara er fyrir þá sem nýjir koma að detta inn í taktinn. Ég er t.d. ekkert alltof viss að Sanchez hefði orðið álíka góður fyrir Liverpool síðasta vetur með fimm öðrum nýjum leikmönnum í byrjunarliðinu sem komu í sama glugga – með nánast ekkert undirbúningstímabil.

  14. Skemmtilegt og áhugavert. Takk fyrir pistilinn.

    Það rennur alltaf betur upp fyrir manni hvað við vorum með ógnarsterkt lið 2008-2009 og það hversu sorglegt klúbburinn sogaðist hratt ofan í hyldýpið í árin eftir.
    En svona “what if” spekúlant er aldrei góð og bara skemmandi, því er maður spenntur og sæmilega bjartsýnn á að við náum að rífa okkur hægt og rólega í sama standard og þá.

  15. Takk fyrir þennan pistil gæti einhver svarað laufléttri spurningu fyrir mig ég er að fara á sjó á eftir og hafði hugsað mér að hlusta á podcastið sem kemur vonandi á þriðjudaginn. spurningin er veit einhver hvað það er stórt í mb? með fyrirfram þökk Svefnormur.

  16. Flott kaup en Beneteke er klárlega bestu kaupin að mínu mati !

    Þessi drengur er í 4dja sæti yfir flest skoruð mörk frá 2012 í deildini JÁ er spenntur fyrir honum hann veit hvar fjandans markið er og skal éta helvítis hattinn minn ef hann skorar ekki slatta af mörkum fyrir okkur !
    annars líta þessi kaup mjög vel út hlakka til að sjá drengina.

  17. Ég held að James Milner geti endað sem kaup ársins í ensku deildinni þetta sumarið.

  18. Ég alla henda minni skoðun varðandi leikmannagluggan 2013-2014. Babú gaf einkuna 4 fyrir sumarið og 0 fyrir janúar.
    Ég get alls ekki verið sammála þessari hárri einkunn fyrir sumarið. Þótt Mignolet og Sakto voru inni þessum kaupum þá er ég þeirri skoðun að Pepe Reina er betri markvörður og við áttum halda honum og nota peninginn að kaupa útileikmann. Sakto sannaði sig ekki heldur. Ég gef sumarið minus i einkunn og janúar gluggan stórt minus. Þessir hörmungar gluggar kostaði okkur titillinn.

  19. Ég er alveg klár að þetta voru með metnaðarfyllstu kaupum Liverpool frá upphafi. Leikmenn eins og Benteke, Clyne, Firmino, Milner og mögulega líka Danny Ings eru leikmenn sem koma til með að styrkja liðið heilmikið ef þeir spila á raunverulegu geti og ná að aðlagast leikstílinum.

    Ég spái liðinu einu af topp 5. Hvar nákvæmlega, stendur og fellur á því hvernig menn eins og Firmino og Benteke aðlagast leikstílnum okkar og hvort Milner verði jafn mikill drifmótor á miðjunni og Henderson hefur verið undanfarin ár.

  20. Ég ætla að stilla væntingarnar í garð James Milner í hóf. Brenndi mig svaðalega á því að gera ráð fyrir því að Joe Cole og Harry Kewell yrðu frábærir. Einungis tíminn mun leiða það í ljós hversu góð þessi “kaup” reynast á endanum.

  21. Ég verð að segja að við erum með svona 5-6 besta liðið Á BLAÐI. Á pari við Tottenham. Hins vegar segir það ekki jafnmikið og liðsheild gerir. Við vonum bara að hún verði í góðu standi og þá hirðum við þetta 4. sæti

  22. Jose Mourinho heldur áfram að staðfesta að hann er einhver sjálfhverfasti framkvæmdarstjóri allra tíma. Núna segir hann að lið eins og Man Und og Liverpool séu að reyna að kaupa sér titla.

    Þetta væri svo sem skiljanlegt ef Mourinho væri ekki með lið sem er með oflaunaða stórstjörnu að berjast um hverja einustu stöðu á vellinum og hafa marg oft yfirboðið leikmenn sem Liverpool var við það að góma og fengið þá þannig til sín. Eins og t.d Mohamed Sallah. Hann veit það mannabest að liðið hans væri nákvæmlega ekki neitt ef það væri ekki vegna oliupeningana hans Abramovic og Mourinho væri klárlega ekki framkvæmdastjóri liðsins ef hann væri ekki á ofurlaunum.

    Í fyrra keypti hann t.d Diego Costa á 32 milljónir og í ár eru Chelsea að fá Falcao að láni frá Monaco. Leikmaður sem Liverpool hafði ekki efni á að fá að láni í fyrra út af því að hann var á of háum launum.

    Reyndar er visst sannleiks kort í þessu. Liverpool er klárlega að hnikla vöðvana um þessi misseri og kaupin bera vott um að liðið ætli sér í toppbaráttuna. Það sem kemur á móti er að liðið þurfti sárlega á endurnýjun að halda og er meira en helmingur kaupana í raun leikmenn sem eru keyptir í staðin fyrir aðra.

    En mikið hefði þessi yfirlýsing hljómað trúverðugri ef t.d Ronald Koman hefði sagt þetta, sem missir alla sína bestu menn á hverju einasta ári og þarf að byggja upp lið, vegna þess að stóru klúbbarnir kaupa þá.

    Reyndar eru svona skítayfirlýsingar velþekktar frá þessum manni og sýnist mér hann fyrst og fremst vera orðin hræddur við Liverpool með tilkomu Benteke og lýta núna á liðið sem verðugan andstæðing um titilinn.

  23. Hitti Jose Enrique í spialvítinu í monaco núna í kvöld, gaf sér tíma í spjall og var hinn viðkunnuglegasti, sagðist ekki vita hvort hann yrði áfram en hlýtur hann ekki að vera á útleið fyrst að hann er ekki á melwood að æfa með félögum sínum! gæti svo sem verið að hann sé eitthvað meiddur og hafi fengið lengra frí en heyrðist það á honum að tími hans hjá lfc sé liðinn, væri spennandi að skipta honum út fyrir digne.. digne og moreno væri spennandi að hafa sem valkosti í LB í vetur!

  24. Flottur pistill Babu, eins og ávallt frá þér. Þessi gluggi núna verður auðvitað X þangað til það fer að líða á tímabilið, og hvað þá næstu tímabil .

    Ég á nú frekar von á því að hann verði ofar en 6,5. Firmino, Milner, Benteke,Clyne, allt góðir leikmenn sem gætu blómstrað undir stjórn BR. Við verðum bara að vona að sem flestir leikmenn verði ekki látnir spila út úr stöðu, held að nóg sé komið af þeirri vitleysu.

    Glugginn getur enn batnað aðeins ef við losum okkur við nokkra leikmenn eins og Borini, Lambert, Balotelli,Enrique, og lána svo út nokkra efnilega, en ekki of marga, þá gætum við kannski talað um 7-7,5.

  25. fá inn varnarsinnaðan miðjumann og þá erum við góðir. Höfum ekkert nema að Can verði settur þarna. Höfum ekkert annað. Lucas og Allen eru ekkert að fara gera þarna. Þetta er svæðið sem lak í fyrra. Þurfum að stoppa í gatið annars fer ílla…í þessum leikjum sem búnir eru hefur þetta vandmál verið kunnulegt. Þetta svæði er óvarið. Er það skipulagið þar sem allir hlaup úr stöðum, hlaupa út um allt. Mikil færsla verður á liðinu og svæði opnast….gengur ekki upp. Verður að vera jafnvægi í liðinu.

  26. Liverpool lendir í 3. sæti eftir titilbaráttu við Chel$ki og manu arsenal heldur 4. sætinu eins og venjulega og city lendir í 5…
    Ings verður markahæstur og Benteke mun standa honum nærri.
    sáuð það fyrst hér.
    *dropped the mike*
    peace out

  27. Ég er með svo slæmt minni en getur einhver rifjað upp fyrir mér hvað Balotelli hefur gert svona slæmt fyrir Liverpool annað en að hafa átt lélegt fyrsta tímabil í liðinu?

    Hann á það til að tweeta og Instagrama svolítið hættulega en ég verð að viðurkenna að mér finnst hann engan vegin hafa fengið þá sénsa sem eðlilegt er. Ég meina, allt liðið var ömurlegt síðasta vetur en samt er hann tekinn og hengdur fyrir það. Mér finnst stuðningsmenn vera að hengja bakara fyrir smið.

    Ég hef allavega trú á því að ef hann fær séns á þessu tímabili að þá verður hann flottur. En kannski er það bara vegna þess að ég hef gaman af kauða og hef trú á hans hæfileikum.

  28. Slúðrið um Illaramendi datt alveg út, fór hann eitthvað annað?
    Hefði viljað sjá hann í hópnum.

  29. Glugginn er góður, flestir sammála um það. Hvort einhver kemur í stað annars læt ég mér í léttu rúmi liggja. Milner fær til dæmis frítt spil hjá mér til að sanna sig og ég mun ekki mæla hann við Gerrard eða einhvern annan. Og hann mun eiga fleiri betri leiki en verri.

    Ég er nokkuð viss um að Danny Ings mun plumma sig mjög vel og hann mun standa sig betur en Origi. Gomez og Clyne munu standa sig. Benteke mun að minnsta kosti gera það sem honum er ætlað og jafnvel meira til.

    Þá er ótalinn Firmino. Fyrir mér er hann ennþá óskrifað blað. Annað hvort fellur þetta fyrir honum eða ekki. Ég á frekar von á að hlutirnir falli fyrir honum og hann eigi eftir að sýna frábæra takta í hröðu uppspili.

    Spurningin í mínum huga er hvort leikmenn síðasta tímabils sem fá að vera með standi upp og bæti sig. Það er pláss fyrir bætingu hjá þeim öllum sem gætu talist byrjunarliðs/næstu inn menn.

    Nauðsynlegt að Can nái frábæru tímabili sem DM (geri ráð fyrir að hann verði þar)

    Lallana verður góður, Couthino verður vonandi stabílt góður, Shakho vonandi heill og Skrtel heldur sínu. Henderson mun halda sínu.

    Efins með Moreno, hægist um hjá Lucas, aðrir held ég munu sjást lítið.

    Gleymi bómullarhnoðranum okkar Sturridge, hann gæti flogið seinni hlutann en ekki fyrr.

    Þetta verður spennandi.

    YNWA

  30. Ibe og Markovic verða náttúrulega í 16 manna hóp og Ibe sérstaklega á góðan sjéns á flottu tímabili.

    YNWA

  31. Firmino ætti auðvitað að fá a.m.k. jafn langan tíma og Suarez fékk til að blómstra. Jú hann skoraði mörk frá fyrsta degi, en tók það hann ekki alveg 2 tímabil að toppa?

  32. Takk fyrir skemmtilega grein. En enn og aftur spyr ég: Hvar er Flanagan??? Er ekkert gert ráð fyrir honum þetta tímabil? Nei ég bara spyr.

  33. Við erum 6. besta liðið í deildinni og við myndum væntanlega meta allt sem færir okkur í topp4 sem góðan glugga. Þyrftum þá kannski að hafa í huga hvað við höfum verið að gera í samanburði við liðin fyrir ofan okkur.

    Við höfum oft verið að gera alltof miklar breytingar, þ.á.m. núna og mér finnst við ekki hafa lagað stöðurnar sem mest þurfti að laga.

    Firmino og Clyne er ég ánægður með. Benteke hef ég mínar efasemdir um en finnst hann þó góður leikmaður og okkur vantar framherja, úrvalið ekki mikið. Hefðum allt eins getað notað unglingana okkar eins og Ings held ég.

    Mignolet er ekki nógu góður markvörður til að við höfum efni á svona lélegum varamarkmanni. Manu eiga í dag 3 markverði sem allir eru talsvert betri en okkar besti.

    Milner er flottur leikmaður en það er Henderson líka og ég vill síður hafa þá báða inn á. Miðjan sem ég hefði viljað sjá væri Henderson, Coutinho og varnartengiliður. Brendan virðist vilja menn sem hlaupa mikið frekar en varnartengilið, sem talar sínu máli um takmarkanir hans sem stjóra. Algjörlega tilgangslaus kaup að mínu viti og tala nú ekki um á 4 ára samning. Einnig grunar mig að kaup Manu á (mjög góðum) varnartengilið muni valda því að bilið okkar á milli muni allavega tvöfaldast.

    Enrique og Moreno eru u.þ.b. versta tvíeyki í eina stöðu í sögu liðsins. Vona að við kaupum þennan Frakka þó ég þekki ekkert til hans, svo slæmt finnst mér það sem fyrir er.

    Eftir situr að við kaupum ekki miðvörð og varnartengilið, sem ég hefði sett í sama forgang og framherja. Þetta er það sem verður okkur að falli. Við áttum að selja Skrtel í sumar eða reyndar áttum við að selja hann þegar ManCity var að bjóða einhverjar háar upphæðir í hann. Lovren þyrfti sennilega að lána en bara það að fjarlægja möguleikan á að hann spili styrkir öll lið.

    Það hefði semsagt mátt sleppa Ings, Bogdan og Milner fyrir alvöru markmann, miðvörð og varnartengilið. Þá hefði ég verið sáttur við þennan glugga. Ég ætla að skjóta að við fáum +50 mörk á okkur (enn eina ferðina undir stjórn Rodgers), skorum svona auka 15-20 á síðasta tímabil og rétt klifrum yfir Spurs.

    Glugginn er í raun ekki slæmur útaf gæðum leikmanna sem koma inn heldur því vitlausar stöður eru styrktar. Hugsa að hann verði upp á 4-5/10 í “þessari færslu” eftir ár. Ég vonast allavega til þess að sóknarstyrking þessa glugga verði til þess að við getum eingöngu keypt varnarsinnaða leikmenn næstu nokkra glugga, helst ekki undir Rodgers.

  34. Af hverju heldurðu að Emre Can og Lucas ráði ekki við að vera varnarsinnaðir miðjumenn í þessu liði ?
    Með Hendo og Milner þar fyrir framan sem hlaupa af sér rassgatið í hverjum leik.

  35. There once was a boy named flannagan
    Who just to be a Fu**ing hooligan
    he injured his knee
    While trying to pee
    Somewhere down in Michigan

    Ég sakna Flannó…hann var flottur…..
    :O)

  36. Eitt sem mér fynnst allveg galið… Af öllum þessum leikmönnum sem við höfum keypt frá Southampton þá keyptum við aldrei þann sem við virkilega þurftum á að halda… United Keypti hann í Sumar Morgan S…. Það hefði verið rosalega sterkt að hafa hann fyrir aftan Henderson og Co.

    Svo er Annað að bera saman Gluggana okkar við hin toppliðinn þá er margt sem kemur allveg hrikalega á óvart! Við erum búnir að eyða allveg svakalega mikið af peningum síðan Fsg tóku við klúbbnum enn árangurinn alls ekki eftir því. eiginlega sorglegt hvað það hafa miklir peningar bara farið í Vaksinn miðað við Chelsea -City-Arsenal kaup síðustu ára…

  37. Eftir að við losnuðum við Roy gamla var þörf á töluverðum breytingum. Það eru samt vonbrigði að leikmannakaup FSG hafi ekki skilað meiri árangi (soldið hátt net-spending) en mér finnst FSG almennt hafa keypt skynsamlega og fæst kaupin út úr kortinu eftir Carroll-Downing dæmið. Ég held í vonina með að 14/15 glugginn muni reynast vel. Tímabil nr tvö hjá Markovich og Lallana verða að öllum líkindum mun skárri en hið fyrsta. Vonandi einnig hjá Lovren. Þess er varla að vænta að kjúklingarnir sem koma núna muni slá í gegn á fyrsta tímabili. Ings og Origi þurfa væntanlega einhvern tíma.

  38. Við erum búnir að eyða allveg svakalega mikið af peningum síðan Fsg tóku við klúbbnum enn árangurinn alls ekki eftir því.

    Liverpool var í titilbaráttu fram á síðasta dag á þar síðasta tímabili og fór í undanúrslit í báðum bikarkeppnum núna, þó tímabilið hafi vissulega verið hroðalegt og langt undir væntingum. Félagið er mun heilsusamlegra núna en í upphafi áratugarins og getur blessunarlega eytt aðeins umfram leikmannasölur í leikmannakaup. En ertu með sölurnar á Torres, Suarez, Sterling o.s.frv. með inni í dæminu þegar þú talar um að FSG hafi eytt svakalega miklu af peningum? Þar fara út helstu stjörnur liðsins sem hjálpar ekki upp á árangur til skemmri tíma litið enda tekur tíma að byggja upp og fylla í slík skörð.

  39. Hefur einhver tekið saman hversu mikluFSG hefur eitt í leikmannakaup og hversu mikið þeir hafa fengið í gegnum sölur á leikmönnum? Það væri gaman að bera þetta saman við önnur lið á Englandi.

  40. Samkvæmt mínum útreikningum hafa þeir keypt fyrir 143,31mp umfram sölur (keypt fyrir 400,33mp og selt fyrir 257,02mp). Inní þessu eru 20% sem QPR fá úr sölunni á Sterling en gæti vantað eitthvað smotterí sem LFC hefur fengið í bónusgreiðslur eftir sölur á leikmönnum. Þetta gera 28,662mp eyðsla að meðaltali á ári (árin 2011-2015).

  41. það er ljótt að segja þetta, en er ekki kominn tími á Magga og Kop.is Að hlusta á þennan frummann þátt eftir þátt er langtífrá að vera í lagi ,ég hef aldrei á minni ævi hlustað á annan eins vælukjóa og niðurrifssegg og þetta ristilstíflaða undur.

Malasíu XI 1 Liverpool 1

Kop.is Podcast #90