West Ham á morgun

KOMDU MEÐ KOP.is Á STÓRLEIK LIVERPOOL OG MANCHESTER UNITED Á ANFIELD Í JANÚAR!

Sigur á morgun myndi gera þetta bestu byrjun Rodgers sem stjóra í efstu deild. Haldi liðið hreinu verður það í fyrsta skipti sem Liverpool heldur hreinu fjóra leiki í röð síðan Dalglish var stjóri. Sigur á morgun myndi þýða að Liverpool hafi byrjað þetta tímabil frábærlega. Það var í svona leikjum sem Liverpool missteig sig allt of oft á síðasta tímabili og þetta er enn eitt prófið fyrir þennan árgang til að sanna að þetta ár verður ekki endurtekning á því síðasta.

Liðið sem vann Arsenal 0-0 á Emirates á mánudaginn ætti að hefja leik óbreytt gegn West Ham þó reyndar ætli ég að spá einni breytingu. Fyrirliðinn er ennþá meiddur, Allen og Lallana eru báðir að glíma við “smávægileg” meiðsli og verða það líklega út tímabilið. Sturridge er kominn til æfinga en ekki kominn í leikform og búið er að lána Balotelli og Markovic ári eftir að þeir komu til félagsins fyrir samtals 36m!

Rodgers staðfesti eftir síðasta leik að Lucas verði áfram leikmaður Liverpool eftir góða frammistöðu gegn Arsenal en ég ætla samt að spá því að hann komi út fyrir þennan leik og inn komi Ibe eða Ings.

Liverpool - West Ham

Bekkur: Bogdan, Sakho, Moreno, Rossiter, Lucas, Ings, Origi.

Með þessu færi Coutinho aftur fremst á miðjuna og Can í hlutverk Henderson. Það er viðbúið að West Ham leggi leikinn allt öðruvísi upp heldur en Arsenal rétt eins og að Liverpool spilar ekki eins heima gegn West Ham og þeir gera úti gegn Arsenal. Því sé ég Rodgers alveg fara inn í þennan leik með sókndjarfara lið.

Ibe var alls ekki að standa sig í síðasta leik og hefur átt erfitt í byrjun þessa tímabils en ég efa að Rodgers hafi gefið hann upp á bátinn strax. Ef ekki hann gæti alveg verið komið að Ings sem ætti að fá sénsinn mjög fljótlega.

West Ham hefur byrjað þetta tímabil undarlega, þökk sé Petr Cech unnu þeir Arsenal 0-2 á Emirates í fyrsta leik tímabilsins. Bilic stillti upp varnarsinnuðu liði í þeim leik enda lítið annað í boði gegn Arsenal og vann öflugan sigur. Síðan þá hafa þeir tapað tveimur leikjum illa og spilað mjög illa á köflum. Leicester vann þá á Upton Park 1-2 og nýliðar Bournemouth gerðu það líka nema bara 3-4. Leicester og Bournemouth blésu bæði til sóknar og hefðu bæði getað unnið mun stærri sigra.

Bilic er án nokkura sterkra leikmanna af ýmsum ástæðum. Adrian er ennþá í banni eftir ansi hart þriggja leikja bann sem hann fékk í upphafi tímabilsins. Jenkinson sem var ömurlegur gegn Bournemouth er í banni eftir klaufalegt rautt spjald í þeim leik. Joey O´Brien sem væri líklegastur til að koma inn fyrir hann er mjög tæpur vegna meiðsla.

Kevin Nolan sem var í byrjunarliðinu í síðasta leik hefur nú yfirgefið félagið á frjálsri sölu. “Fóstursonur hans” Andy Carroll er nýkominn aftur til æfinga og nær þessum leik ekki. Valencia og Zarate eru einnig frá vegna meiðsla. Hinsvegar er Sakho klár í slaginn eftir að hafa verið skráður tæpur í vikunni.

Líkleg byrjunarlið West Ham
West Ham

Spá:
Vængbrotið lið West Ham og Liverpool lið á góðu skriði, þetta er ekki formúla til að fylla mann bjartsýni. Vonum nú samt að þetta lið okkar haldi áfram að vaxa og komist í 3-4 gír í þessum leik. Það dugar gegn West Ham. Spái 2-0 sigri í þessum leik með mörkum frá Lovren og Milner.

22 Comments

  1. Liðið sem vann Arsenal 0-0 á Emirates á mánudaginn…

    Er ekki einhvað rangt við þetta? 😉

  2. Skinkan verður étin eins og hungruð fjölskylda borðar hamborgarhrygginn á Jóladag!!

  3. Ég held að það sé kominn smá tími á að bekkja Ibe sem hefur verið vægast sagt skelfilegur í byrjun tímabils og ég myndi vilja sjá Ings eða Origi fá tækifæri.
    Ég er sammála með Lucas, held að hann muni fá sæti á bekknum.

  4. 2013-14 leiktíðina fékk Liverpool 10 stig eftir fjóra fyrstu leikina þannig að fyrsta setning pistilsins er ekki alveg laukrétt.

  5. Ég skil ekki af hverju er verið að lána Marovich sem kostaði 20 kúlur á síðasta ári ef hann á framtíð fyrir sér hjá Liverpool eins og Rogers segir. Af hverju ekki gefa honum annað tímabil í hópnum með leikjum í bikar og Evrópu, og sjá svo hvort hann aðlagist ekki enska boltanum, öðrum Liverpool leikmönnum og lífinu á Englandi. Eitthvað grunar mig að sê í gangi á bakvið tjöldin, þ.e. Markovich fittar illa í hópinn, ekki nógu með nógu gott attitude etc. Það er einhver Alberto Aquilani lykt af þessu máli.

  6. Það er vitað að Markovic er með heimþrá og er örruglegur ósáttur með að spila ekki meira. Hann er bara á þeim aldri að hvort sem við viljum selja hann eða við höfum trú á honum til framtíðar þá verður hann spila. Ef hannn fær ekki spila nógu reglulega þá bæði staðnar hann sem leikmaður og verðið á honum lækkar

  7. skil ekki afkverju allir vilja fa Lucas a bekinn, hann er okkar besti madur i ad verja vornina, og hvad tha ad fa Ibe inni lidid, hann hefur ekki synt neit !

    bara sama lid og a moti Arsenal og 3 stig takk

  8. Liðið á móti Arsenal var mjög varnasinnað. Luca/Can/Millner er alltof varnaðsinnaðir á miðsvæðinu gegn West Ham á heimavelli.
    Því finnst mér sniðugt að taka Lucas út og setja Ibe inn( #3 hann var á bekknum í síðasta leik).

    Já Ibe hefur ekki farið vel af stað en við þörfnumst hans og ég tala nú ekki um að Markovitch er farinn á lán og því um að gera að reyna að koma Ibe í gang.

    Ef hann vill ekki Ibe þá myndi ég frekar koma með óvænt útspil og láta Ings í liðið og fara í tígulmiðju. Can aftastan, Millner/Coutinho á miðsvæðinu, Firminho fyrir framan og Benteke/Ings frami.

  9. Þetta er bananahýði, þessi leikur hræðir mig. Can og Coutinho komnir í landsliðið. Vona að hugurinn sé að klára þennan leik, ekki að vera heilir fyrir þau verkefni.

    Það væri hrikalega sterkt að klára þetta og fara inn í landsleikjahléið með 10 stig af 12 mögulegum. Ég held að þegar leikjaplanið kom út þá hafi menn ekki þorað að vona það, sérstaklega m.t.t. þess að af þessum fjórum leikjum eru útileikir gegn Stoke og Arsenal, lið sem okkur hefur gengið skelfilega með á útivelli.

    Þetta er aftur á móti hrikalega fljótt að breytast. Til dæmis myndi tap í dag og sigur Chelsea gera liðin jöfn að stigum, samt er krísa hjá Móra en stígandi í Bítlaborginni.

    Ég neita hinsvegar að trúa að menn ætli að eyðileggja þessa góðu byrjun með einhverju kæruleysi í dag. Við þurfum að gera Anfield að vígi aftur og tökum skref í átt að því í dag. 2-0, Benteke 1, Milner 1.

    Koma svo! YNWA

  10. Ég held að það hjálpi Liverpool gríðarlega mikið að Gerrard sé farinn. Þá meina ég að nú er engin stórstjarna í liðinu sem allir búast við, þar á meðal leikmenn, að klári leiki fyrir þá.

    Í fyrra fannst manni leikmenn leita allt of mikið að honum og það hægðist á öllu. Svo sem skiljanlegt þar sem hann var búinn að því síðastliðinn áratug en í fyrra var orðið alveg greinilegt að lappirnar og hausinn voru farinn.

    Tímabilið áður var það Suarez sem dróg vagninn og hestinn sem áður hafði dregið hann. Leikmenn vissu það að þeir gætu fundið Suarez og hann gæti töfrað eitthvað upp.

    Í dag býr Liverpool ekki við þennan ,,lúxus” að eiga svona leikmann þannig ég vona að leikmenn spili sig meira saman sem lið fremur en að einhver stigi upp til að draga vaginn því það þýðir að mínu viti að það séu of margir farþegar í liðinu.

  11. Mér finnst eins og ég hafi lesið að Benteke og Gomez hafi ekki verið með á æfingu í vikunni. Og einhver hafi talað um að þeir yrðu á bekk í dag. Hefur einhver heyrt af því?

  12. Þetta er einn af þessum leikjum sem erfitt er að horfa á. Allt annað en 3 stig er heimsendir. Tapist leikurinn er nánast búið að núlla út góða byrjun á tímabilinu.

    Eg spáði Liverpool kaflaskiptu tímabili. En ég hef verið mjög sáttur við fyrstu leikina og byrjunarlið Rodgers hingað til. Ég ættla að spá Benteke skori í 1-0 sigri.

    Koma svo

  13. 5-0
    West Ham eru afar veikburða og okkar menn stimpla sig inn.
    Benteke setur fyrstu þrennuna sína fyrir LFC
    Hverjir skora hin….. Coutinho og svo smellir Ings einu þegar 5 mín lifa leiks

  14. Sæl og blessuð.

    Ekki man ég eftir viðlíka tilhlökkun fyrir leik okkar manna í langan tíma en saman fer bjartsýni og sá djúplægi uggur að Grýla gamla sé ekki dauð og muni birtast á vellinum þegar minnst varir, með tilgangslausu spili, sjálfsmörkum og öðrum sjálfskaparvítum.

    Held að staðan verði óvænt 0-2 þegar flautað verður til leikhlés en Lovren skorar svo á 55. mínútu, Milner á þeirri 83. og svo segi ég ekki hver skorar fimmta mark leiksins – en það verður klárlega óvænt.

    Ef ég gerði það þá myndi ég auðvitað eyðileggja gleðina við að horfa á beina útsendingu.

  15. Sælir félagar

    Ég ætla að treysta BR til að stilla upp liði sem vinnur þennan leik. Eftir “0 – 0 sigur gegn Arsenal” og 7 stig í húsi eftir 3 leiki þar af tveir á erfiðum útivöllum er ekkert annað í boði. Hitt er það að svona leikir geta verið “bananahýði” og menn geta skriplað til falls ef þeir gæta sín ekki. Búast má við að WH leggi rútunni í teignum og reyni að beita skyndisóknum. Þar mun reyna á vörnina í einhverjum tilvikum en mest muna reyna á skapandi sóknarleik okkar manna.

    Fyrri leikurinn á Anfield var gegn erfiðu og geysilega skipulögðu, vinnusömu og árásargjörnu liðið nýliðanna frá Bournemouth. Sumir héldu að okkar menn hefðu verið að spila undir getu en nýliðarnir sýndu í síðustu umferð að þeir eru ekki komnir í efstu deild til að ligggja flatir. Því var sigurinn á þeim mikill og góður vinnusigur. Að mínu viti þarf að fara með álíka hugarfari inn í þennan leik.

    Mín spá er því 3 – 1

    Það er nú þannig.

    YNWA

  16. Erfi?ur leikur eins og þeir eru flestir.
    West Ham reyndar ekki me? sitt sterkasta li? í dag en þa? gerir leikinn ekkert au?veldari nema sí?ur sé.
    Spá a? leikurinn fari 2-0 me? mörkum Benteke í sitthvorum hálfleiknum.

  17. hvaða rásir eru bestar til að horfa á á netinu, semsagt sína alla leiki.

  18. Okkur hefur nú ekki gengið neitt rosalega vel með þessi lið sem við “eigum” að vinna. Vona að við sýnum góðan leik og sigrum 2-0. Benteke með bæði.

    Áfram Liverpool

  19. Afhverju var Can ekki heima hjá sér? Greinilega ekki með kveikt á hausnum.

Dregið í Evrópudeildarriðla

Liðið gegn West Ham