Liverpool hefur frá því Úrvalsdeildin var stofnuð haft átta framkvæmdastjóra. Hundrað árin á undan höfðu þeir verið tólf og tveir af þeim voru Paisley og Fagan sem höfðu verið hjá félaginu í áratugi. Tímanna tákn auðvitað en þetta eru of örar breytingar fyrir minn smekk og félagið og sagan virðist oft endurtaka sig. Það virðist vera dauðadmómur fyrir þjálfara að ná árangri yfir væntingum því pressan fjórfaldast fyrir tímabilið á eftir. Stuðningsmenn liðsins spila þar stærsta hlutverkið og alltaf er búið að reka manninn á 12-24 mánuðum. Pressa og óþolinmæði stuðningsmanna hefur þróast í ömurlega átt að mínu mati.
Jurgen Klopp gefur félaginu og þá ekki síst stuðningsmönnum tækifæri til að gefa stjóra alvöru séns, líka þegar illa gengur. Það gera sér allir (vonandi) grein fyrir að hann er ekki að fara breyta Liverpool í Dortmund þó vonandi stórbæti hann leik liðsins og þrói í anda þess sem hann var að gera í Þýskalandi. Hvort sem hann fari fram úr væntingum núna í vetur eða næsta vetur og taki svo dýfu eftir það verður hann að hafa traust og tíma til að laga og bæta leik liðsins. Hann er með 100% stuðningsmanna á bak við sig þegar hann byrjar og hefur það fram yfir aðra stjóra Liverpool í Úrvalsdeildinni þó Rafa hafi verið nærri því 2004. Ef það er einhver á móti þessari ráðningu tel ég réttast að telja viðkomandi hreinlega ekki með.
Það er því miður líklegra að Klopp nái góðum árangri eitt árið, ströggli árið eftir og fái þá einhverja á móti sér og þar með snjóbolta sem byrjar og rúllar og fer á fulla ferð um leið og færi gefst. Þannig hefur þetta verið hjá flestum forvera hans þó auðvitað komi fleira til í öllum tilvikum. Klopp er metnaðarfyllasta ráðning Liverpool síðan Úrvalsdeildin var stofnuð og aðeins ráðning Rafa Benitez kemst þar nærri. Liverpool var bara hærra skrifað 2004 en það er 2015. Honum þurfum við að lofa þolinmæði og meina það svo lengi sem liðið er að þróast í rétta átt.
Roy Evans
Þetta nær nánast aftur til Roy Evans, hann var að byggja upp ungt og mjög efnilegt lið er honum var ýtt til hliðar. Hann var önnur kynslóð í Boot Room félagsskapnum og með ráðningu hans var félagið að reyna halda í hefð sem hafði reynst þeim vel og á sama tíma laga til eftir þær breytingar sem Souness var stóð fyrir í sinni tíð. Hann var alls ekki mest spennandi nafnið í boði og naut líklega aldrei almennilega trausts. Hjá honum endaði Liverpool í 3-4 sæti þar til Houllier var ráðinn. Sorglega farið með Evans en flestir sammála að tími var kominn á nýjar hugmyndir. Hver veit samt hvað hann hefði náð að gera með þetta unga og mjög efnilega lið fullt af uppöldum leikmönnum?
Gerard Houllier
Fyrrverandi landsliðsþjálfari Frakka og PSG þó enginn hafi þekkt þetta nafn áður en hann tók við Liverpool. Hann talaði um 5 ára plan og stóð fyrir mjög miklum breytingum og byggði upp gott lið rétt eins og hann lofaði. Liverpool toppaði í deildinni 2002 er liðið var í titilbaráttu sem kostaði hann næstum því lífið. Væntingarnar fyrir næsta tímabil voru stökkbreytt útgáfa af árinu áður og liðið höndlaði pressuna af því aldrei. Leikmannakaup sumarsins fengu mest alla sökina en það breytir því ekki að flestir lykilmenn áranna á undan voru ennþá í liðinu þarna. Spennufallið og óánægjan var gríðarlega mikil og hann átti aldrei séns árið eftir en skilaði liðinu þó aftur í Meistaradeildina. Ég er ekki endilega að gagnrýna brottrekstur Frakkans sem virkaði mjög þreyttur á þessum seinustu tímabilum sínum en með sama record hefði Shankly aldrei nokkurntíma enst 15 ár sem stjóri Liverpool.
Rafa Benitez
Besta dæmið. Houllier hóf Liverpool aftur til vegs og virðingar í Evrópu eftir langt hlé og fyrir hann fékk félagið að velja á milli heitustu bitanna á markaðnum Benitez og Mourinho. Báðir höfðu unnið til verðlauna gegn mun ríkari félögum sem var nákvæmlega krafan hjá Liverpool, Chelsea var (nánast) stofnað á sama tíma og fjölgaði alvöru mótherjum við það um einn. Ég man ekki hvernig ráðningu Benitez var tekið hjá öllum stuðningsmönnum en minnir að flestir hafi verið mjög spenntir ekki ósvipað og núna. Hann talaði eins og Houllier um 4-5 ára plan en byrjaði á sínu fyrsta ári á að landa Meistaradeildartitlinum, þeim stærsta í boði. Strax þá fór að bera á pirringi hjá “snjallari” hluta stuðningsmanna. Það var smá pirrandi þegar bikarinn vannst árið eftir og hvað þá þegar liðið fór aftur í úrslit Meistaradeildarinnar árið 2007. Tímabilið 2008/09 var svo óbærilegt enda liðið í titilbaráttu, hann sem hafði engan skilning á ensku úrvalsdeildinni samkvæmt sömu spekingum árin á undan enda óþolandi þessi ár í Meistaradeildinni. Stríð innan herbúða Liverpool og hræðilegt eignarhald sem keyrði félagið í þrot beit loksins tímabilið 2009/10. Erjur stuðningsmanna innbyrgðis tóku ekki síður orku og áhuga frá mönnum. Árið eftir titilbaráttu, tímabilið þar sem titillinn átti nánast að vera formsatriði komu þeir sem alltaf höfðu verið á móti stjóranum nú heldur betur úr skotgröfunum og fögnuðu ákaft þegar Benitez var rekinn sumarið 2010.
Roy Hodgson
Ráðning Roy Hodgson var ekkert nema Karma að störfum. Þeir sem heitast voru á móti Benitez, nánast frá 2005 áttu ekkert betra skilið en Roy Hodgson. Hann er metnaðarlausasta uppgjafar nautheimsku ráðning í sögu félagsins. Hann náði þó að sameina stuðningsmenn félagsins enda hataður af þeim öllum.
Kenny Dalglish
Hodgson kom frá Fulham sem er nógu óspennandi en þó Dalglish hafi verið frábær skammtímalausn var hann að koma úr The Legend Lounge eftir 12 ára pásu og aldrei hugsaður til framtíðar. Flott ráðning samt á sínum tíma þar til FSG fengi sinn framtíðarmann og næði að innleiða stefnu til framtíðar. Það var ekkert val milli Klopp og Ancelotti / Benitez og Mourinho í janúar 2011.
Brendan Rodgers
Langt í frá fyrsti kostur stuðningsmanna árið 2012 og alls ekki með alla stuðningsmenn á bak við sig frá byrjun. Being Liverpool hjálpaði honum alls ekki enda fáránlegt að henda nýjum stjóra í það. Það er samt merkilegt að bera hann saman við hinn óumdeilda Klopp því ferilsskrá Rodgers í Englandi var ekki ósvipuð því sem Klopp hafði gert í Þýskalandi er hann tók við Dortmund. Rodgers var á svipuðum aldri þá og Klopp er hann tók við Dortmund. Hann var ekki aðeins nálægt því að skila titlinum í fyrsta skipti í 24 ár heldur stóð hann fyrir skemmtilegasta fótbolta sem Liverpool hefur líklega spilað. Er halla fór undan fæti var ráðning Rodgers stimpluð sem metnaðarlaus og tímabilið 2013/14 skrifað á Suarez og heppni! Ekki alveg sama söguskoðun og var í gangi á meðan tímabilinu 2013/14 stóð. Nokkrum mánuðum seinna með væntingarnar í hæstu hæðum gekk allt á afturfótunum og Rodgers stimplaður með flest öllum svívirðingum sem í boði eru. Stöðug pressa stuðningsmanna hafði klárlega áhrif og staða hans varð mjög erfið á skömmum tíma og hjálpaði liðinu pottþétt ekki neitt.
Ég er ekki að segja að brottrekstur Rodgers hafi verið rangur eða að hann hafi ekki átt neina gagnrýni skilið, bara að hjá svo mörgum fór þetta langt yfir strikið. Stuðningsmenn Liverpool geta ekki horft neitt sérstaklega stoltir til baka síðastliðið ár og litið á sig sem einhvern einstakan tólfta mann.
Jurgen Klopp
Ég óttast að takist Klopp að vinna deildina verði komnar gagnrýnisraddir þá um sumarið þess efnis að hann hafi aldrei náð árangri í Evrópu. Engu að síður er núna kominn stjóri sem tikkar í öll boxin sem stuðningsmenn hafa heimtað í mjög langan tíma. Hann hefur sannað að hann er mikill sigurvegari, hann stendur fyrir mjög flottan fótbolta og hefur sannað það. Hann er mjög mikið “working-class” í öllu fasi og nær rosalega vel til almennings. Hann getur laðað að sér mjög góða leikmenn og þekkir markaðinn vel fyrir utan England. Það er í raun fátt sem hægt er að finna sem mælir á móti því að Klopp sé stjóri Liverpool, þetta er nánast of gott til að vera satt svona fyrirfram.
Það var hægt að skilja uppsafnað vantraust á Evans, Dalglish og Hollier er þeirra tími kom. Roy Hodgson telur auðvitað ekki með enda átti hann aldrei að koma til greina. Benitez fékk fáránlega meðferð hjá hluta stuðningsmanna á mjög erfiðum tíma hjá félaginu og Rodgers var aldrei að fara vinna þá sem voru (sanngjarnt/ósanngjarnt) á móti honum til baka. Núna hljótum við að vera komin með mann sem hægt er að trúa á jafnvel þó liðið lendi í mótvindi.
Eins verður þetta vonandi til þess að FSG njóti betur sannmælis. Þeir láta þann pening sem félagið býr til aftur í félagið og standa fyrir dýrustu leikmannakaupum félagsins frá upphafi. Þeir eru að stækka völlinn sem hefur verið á stefnuskránni í 15 ár og eru núna að ráða bókstaflega heitasta nafnið í boði sem stjóra liðsins. Enginn að segja að þeir séu fullkomnir en þeir eru sannarlega að reyna og ef Klopp er óumdeildur fyrir árangur sinn í Þýskalandi er alveg hægt að trúa á FSG með sömu rökum fyrir árangur sinn í Bandaríkjunum.
Takist að halda stuðningsmönnum sameinuðum og hafi þeir trú á eigendum, leikmönnum og stjóra verður allt starf félagsins auðveldara og líklegra til árangurs.
Að því sögðu, endum á þessu
Every #LFC fan when we all remember Jurgen Klopp is our manager! pic.twitter.com/fiBTH1KJi3
— Anfield HQ (@AnfieldHQ) October 12, 2015
Klopp verður á sama stað og allir stjórar knattspyrnuheimsins.
Ef vel gengur þá verðum við áfram jafn glöð og spennt og við erum í dag. Ef illa gengur þá mun hann tapa tiltrú fólks. Félagi minn sem var á fyrsta leik Dalglish lýsti grátnum af gleði sem dundi um allan völl.
Fyrst að Benitez og King Kenny fengu óvægna gagnrýni og voru reknir þá geta allir lent í því. Fótbolti snýst um árangur.
En vissulega mun Klopp fá fínan tíma til að koma sínu andliti á liðið og fá það af stað. Það var engin tilviljun að hann bjó til fjögurra ára tímarammann í viðtalinu því hann veit að hann mun þurfa tíma til að rétta það við sem er rangt og hefur verið ástæða lélegs gengis í deildinni síðustu ár.
Hann er klárlega trompið á hendi FSG sem eru jafn sekir og allir hjá LFC fyrir árangrinum að undanförnu sökum þess að þeir hafa tekið ákvarðanir sem ekki hafa gengið upp. Ráðningin á Klopp er hins vegar frábært framtak og sýnir að mínu mati það að þeir vilja gera atlögu að alvöru árangri, enginn getur held ég gagnrýnt þessa ráðningu þeirra.
En það er alls ekkert öruggt í fótbolta og mér finnst við stundum ansi glöð alltof snemma. Góður vinur minn óskaði mér í dag til hamingju með sigur í Meistaradeildinni með glott á kinn og sagði LFC aðdáendur alltaf glaðasta þegar engir leikir væru í gangi í deildinni. Auðvitað svaraði ég honum kröftuglega en ég allavega ætla að vera rólegur í bili með allt annað en það að vera glaður með að þessi ráðning tókst. Hef vissulega mikla trú á að þetta verði mikið framfaraskref og ráðningin hefur sameinað okkur um stund…eins og fyrst eftir að Kenny tók við og fólk kallaði eftir langtímasamningi við hann og svo þegar við vorum nærri orðin meistarar og fólk heimtaði langtímasamning fyrir Rodgers.
Fótbolti er úrslitabissness og allt stendur með því og fellur….líka “The Normal One”…
Kostirnir við ráðningu Klopp eru meiri en gallarnir en þeir eru þó til staðar.
Kostir:
1. Stjóri sem er búinn að sanna sig að getur rifið upp lið og bygg upp risa. Sigrað í gríðarlegri sterkri deild með ekki mikið fjármagn og gert frábæra hluti í Evrópukeppni.
2. Stjóri sem er mikil tilfiningavera og segjir hlutina beint út. Hann mun rífa stuðninsgmenn og leikmenn með sér og held ég að við séum að detta inní í stóra rússibanaferð með honum sem mun fara upp og niður en alltaf með miklum látum og stemningu.
3. Þetta er sá stjóri sem meirihluti stuðningsmanna liverpool vildu. Því fylgir pressa en líka gríðarlegur stuðningur og er ég viss um að hann fái að gera sín misstök án þess að það komi Klopp out eftir 1.tímabilið(eða 2.tímabil).
4. Þetta er stjóri með miklar kröfur gangvart leikmönum og sjálfum sér. Stjóri sem heimtar árangur og veit hverning hann vill gera hlutina. Þeir leikmenn sem fara ekki eftir hans fyrirmælum einfaldlega spila ekki fyrir hann og þannig stjóra vill maður hafa.
5. Þetta er stjóri sem vill áskorun og að rífa Liverpool upp er einn stærsta áskorun sem hægt er að taka. Hann hefði getað beðið lengur og komist að hjá einhverju moldríkufélagi(sjá Chelsea og Bayern sem möguleika) en hann valdi Liverpool 🙂
Ókostir
1,2 og 3 – Hvað ef þetta klikkar hjá honum? Hvað ef hann nær ekki að rífa liðið upp og hans leikstíll og aðferðir virka ekki í Enskaboltanum og því umhverfi?
Það myndi þýða að það væri enþá erfiðara að fá stórt nafn til þess að þjálfa liverpool, það væri enþá erfiðara að fá leikmenn því að ef Klopp getur ekki rifið þetta lið upp með allan sinn sjarma og hæfileika. Hver væri þá tilbúinn að reyna?
Kostirnir eru mun meiri en maður lýður samt eins og að Liverpool verður að ná árangri núna með þennan mann við stjórnvölinn. Við sem stuðningsmenn verðum að vera tilbúnir í að gefa honum tíma að breytta leikstíl liðsins úr að halda bolta í að sækja af krafti og pressa með látum(svona svipað og 2013/14). Ég er á því að liðið mun vinna flotta sigra en það munu líka koma ljótir leikir inn á milli til að byrja með .
Ég hef samt meiri trú á Klopp en nokkrum öðru stjóra sem hefur verið við stjórnvölinn síðan að Daglish hætti 1991( tek ekki með Daglish sem kom í smá heimsókn í nokkra mánuði). Maður finnst Klopp hafa allt til að bera til þess að standa sig vel og hefur öll einkenninn sem maður vill sjá hjá stjóra liverpool(smá Shankly stemning í kringum kallinn með flottum frösum og sjálfstausti). Kröfurnar eru miklar en þær eru raunhæfar það er nefnilega hægt að rífa þetta lið upp og ég er viss um að við höfum fundið þann rétta til þess að snúa gæfu liverpool við.
Ég vill bara að við stuðninsmenn styðjum hann og strákana á meðan að þeir ganga í gegnum þessar breyttingar og sínum þeim að YNWA er ekkert kjaftæði heldur hvernig við lifum sem stuðningsmenn Liverpool.
Þetta á við í hvert skipti sem ráðið er nýjan stjóra. Ef þetta fer á allra versta veg þá sýndi FSG a.m.k. mjög mikinn metnað með þessu. Félagið leggst ekkert af ef Klopp verður Flopp, þá er bara að reyna næsta.
En takist honum að ná góðum árangri eins og þeir sem ég teki dæmi um á undan vona ég að hann fá meiri frið til þess að taka 1-2 skref afturábak lendi hann í því.
#3
Ekki alveg. Ef Hodgson klikkar þá var hann einfaldlega ekki nógu góður þjálfari.
Ef Rodgers klikkar þá er hann einfaldlega ekki nógu reynslumikill eða nógu góður í þetta starf
Ef Klopp klikkar þá er Liverpool einfaldllega þannig klúbbur að það er ekki hægt að rífa hann upp(eða svona fyrstu viðbrögð eftir að einn eftirsóknasti þjálfarinn í dag gat ekki rifið klúbbinn upp). Auðvita væri reynt aftur og nýr stjóri kemur inn og með nýjum stjóra kemur ný von en það væri enþá erfiðara að sanfæra stórt nafn að koma í lið sem en eina ferðina er ekki að standa sig og núna eftir að stórt nafn eins og Klopp náði ekki að standa sig.
En eins og ég segji þá hef ég trú á að hann rífi klúbbinn upp og að við munum ekki tala um hvað klikkaði heldur munum við verða honum ævilega þakklátir þegar hann fer frá klúbbnum eftir öll þau stórvirki sem hann gerði(þarna kemur von og trú inn á sama tíma).
Væntingar til stjóra eru nefnilega missmiklar eins og farið er svo vel í þessum pistli hér að ofan. Þegar menn fréttu af Rodgers kom von en miklar efasemdir en þegar menn heyra um Klopp þá finnst manni að liverpool hafi unnið þjálfara lottóið og séu komnir með heimsklassa stjóra sem liðið svo sárlega vantaði og ekki víst að liverpool vinnur þetta lottó aftur í bráð svo að það er gott að nýtta þetta tækifæri og styðja manninn án þessa að gera þá kröfu um að hann gangi á vatni(eins og hann talaði um).
“We have to turn from doubters to believers”
Byrjum að trúa. Ef eitthvað fer úrskeiðis, höldum þá áfram að trúa. Ég mun verða algjörlega sturlaður ef að menn fara að heimta að láta Klopp fara hérna eftir 3 tímabil ef við höfum ekki unnið deildina eða álíka. Miðað við hversu ömurlega margir komu fram við Benitez á sínum tíma er ég skíthræddur um að menn muni á endanum hrekja Klopp úr starfi þó að hann geri okkur að topp 4 liði en tekst ekki að sigra deildina.
En ég vil samt sem áður og vona svo innilega að allir stuðningsmenn fylgi stjóranum í blíðu og stríðu. Það sýnir sig hjá liði eins og Dortmund að ef stuðningsmenn standa við bakið á honum að þá getur allt gerst. Viljiði gjöra svo vel að trompast ekki þó að Klopp vinni ekki deildina. Ég verð persónulega í skýjunum ef honum tekst að koma okkur í topp 4 með reglulegu millibili og hirði einn bikar, sama hvað í andskotanum hann heitir!
Það er kominn tími á að við stöndum með okkar stjóra næstu árin no matter what! Mitt niðurlag er því á þessa leið: Trúum á að við getum tekið þessa deild, komist að hinu heilaga landi en alls ekki fara að grenja ef það tekst ekki. Höldum samt áfram að trúa. Hugsanir eins og: “Hvað ef Klopp gengur illa?, Hvað ef við erum í 10. sæti í vor?” eru bara að skemma þetta momentum. Byggjum það upp og höfum óbilandi trúa á stjóranum og liðinu næstu árin. Allt er hægt ef að stuðningurinn er fyrir hendi.
Stóra málið er að þetta er ekkert bara um Liverpool og stuðningsmenn þeirra. Stuðningsmenn allra liða í heiminum heimta árangur og það helst í gær. Get lofað þér því að um leið og halla fer undir fæti hjá Klopp (Fowler lofi að það sé ekki á næstunni) þá fara strax raddir um loft afhverju var ekki proven winner í öllum deildum Carlo Ancelotti ráðinn og þeir villtustu jafnvel undrandi yfir því afhverju Rodgers var ekki gefinn lengri tími með leikmennina sem hann keypti sumarið 2015. Vissulega mun Klopp fá tíma til að móta sitt lið en segjum sem svo að við séum ekki title contenders og í CL bolta á næstu 2 árum þá verða “The Normal One” bolirnir ekkert að seljast upp lengur.
Alex Ferguson og núna Arséne Wenger eru klárlega einu dæmin í nútímabolta þar sem þjálfarar eru ekki reknir þótt lið þeirra fari í gegnum lægðir og næg er pressan frá stuðningsmönnum Arsenal um að Wenger verði rekinn. Þjálfarar í topp deildum í dag fá ekki langan tíma til að ná árangri og það er ekki að fara að breytast.
Rétt eins og Maggi segir þá er þetta úrslitabusiness og Klopp verður dæmdur á því. Liverpool hefur ekki spilað einn leik undir hans stjórn og þá er frekar auðvelt að vera vinsæll á meðan þú ert jafn “cool” og Klopp. Þegar leikirnir tapast þá mun gagnrýnin koma. En ekki misskilja mig, ég er manna spenntastur fyrir þessari ráðningu og vona innilega að þetta sé þjálfari sem verður allavega hjá okkur næstu 5-7 árin.
Skemmtilegur pistill
Hodgson vann við mjög erfiðar aðstæður hjá Liverpool. Það vill oft gleymast.
Flestum finnst þetta vera ákveðin vatnaskil og trúin er til staðar í upphafi.
Trúin flytur fjöll en það þarf meira til.
Aðeins tíminn leiðir í ljós hvað verður en það hljóta að vera meiri líkur en minni að aldan rísi og Klopp nái að gæla við og vonandi lenda titlum.
Ég ætla að hafa nóg bensín á mínum tanki til að styðja stjórann og liðið gegnum þykkt og þunnt og er sannfærður að ég fái í staðinn æsilega hluti sem fái blóðið til að renna.
Ljúkum einni keppni í kvöld með stæl (EM) og hefjum aðra um helgina með stæl.
YNWA
Ég vil nú helst ráðleggja Babú að hlusta ekki svona mikið á neikvætt fólk. Allir fengu stjórarnir gagnrýni, en mér finnst það ekki fyrr en núna síðasta árið sem hún hefur verið virkilega óvægin. Mér finnst, lítandi til baka að við aðdáendurnir höfum ekki verið alveg svona slæmir, þótt erfitt sé að meta það, jafnvel áratugum seinna.
Ég er nú reyndar kannski ekki sammála því sem kemur fram í hlutanum um Rafa, en það lítur út eins og Benitez hafi lítið gert rangt en hann hafi þrátt fyrir það verið lagður í einelti. Ég get alveg viðurkennt það að mér fannst Benitez kominn á ákveðna endastöð á sínum tíma og var sáttur við að hann skyldi hætta, en grunandi hvað á eftir fylgdi þá hefði ég e.t.v. ekki verið á þeirri skoðun þá. Það er ekki spurning að Rafa gerði margt gott fyrir klúbbinn okkar, eins og reyndar Houllier líka sem virðist sjaldan fá eins mikið “credit” fyrir sinn hlut, en hann var nú enginn Messías eins og stundum er af látið.
Hvað Rodgers karlinn varðar, þá hlýtur mönnum að hafa verið ljóst að þetta gekk ekki lengur. Hann á allt gott skilið fyrir það sem hann var að reyna, og tókst nærri því, en öll aðvörunarljósin voru farin að blikka samtímis, og þá varð eitthvað að gera.
En hvað sem því líður, og hvort ég sé sammála öllu því sem stendur hér, þá bíð ég spenntur eftir næstu grein og sérstaklega næsta hlaðvarpi.. sem er við hæfi að sé númer eitt hundrað fyrir Klopp okkar.
Ég hef fylgst með Liverpool blogginu lengi.. !! Ekki alveg frá byrjun en svona næstum því. Hef margoft mært, hrósað og þakkað stofnendum sem og frábærum pennum fyrir magnaða síðu og einstakan púllara vettvang. Babu er þungavigtarpenni — engum blöðum það að fletta og hefur margoft fengið stóra hrósið frá mér.
En ég ætla að fá að segja það að þessi pistill lagðist frekar illa í mig. Einfaldlega vegna þess að hér er verið að draga stuðningsmenn í dilka og mér líkar það ekki. Hvað með það þó stuðninsmenn séu ekki alltaf sammála um þjálfara og leikmenn?? Sé ekki tilganginn í því að vera að draga þetta eitthvað sérstaklega fram og núa þar með einhverjum því um nasir ef þeir hafa verið duglegir í því að gagnrýna… Til hvers að vera kokka svona pistil upp núna… þá sértaklega á þessum tímapunkti?? Þetta er svona ekta “buzzkiller” pistill!! Til hvers Babu?
Tek síðan undir innlegg #1.
YNWA
Takk fyrir mig Babu. Er mjög sammála öllu sem þú skrifar um BR og það hefði alveg mátt minnast á litlu þrennuna árið 2001 hjá GH.
Varðandi Klopp þá vonar maður að hann sem “the motivator” nái meira út úr þessum mannskap sem við höfum. Hversu langt við förum og hversu langan tíma það tekur mun fyrst og fremst snúa að gæði leikmanna í hópnum.
Sælir félagar
Takk fyrir góðan pistil Babu og skiptir ekki máli hvort ég er sammála öllu sem þar kemur fram. Pistillinn er góður hvað sem því líður. Ég var einn af þeim sem var búinn að fá nóg af Rafa en samt veit ég og hefi sagt að það er ómögulegt að segja hvernig honum hefði gengið ef G og H aularnir hefðu ekki komið til heldur einhverjir aðrir eigendur sem náð hefðu máli.
Ég var líka einn af þeim sem vildu BR burt strax í vor. Eftir vinninginn á Stoke var ég tilbúinn að gefa honum einhvern séns en ekkert breyttist og liðið hjakkaði í svipuðum förum og í vor. Þá fannst mér nóg komið og eina vonin til að ná meistaradeildarsæti væri að fá annan stjóra (Klopp) og vona að honum tækist að snúa taflinu við. Það á svo eftir að koma í ljós.
Það er einnig ljóst fyrir mér að við verðum að gefa slaka og láta Klopp fá tíma og örendi til að koma sínu skikki á liðið. Það tekur einhvern tíma en ég vona að við sjáum strax breytingu á hollningu liðsins. Við sjáum til. Hvað það varðar sem J. Eiríks #10 er að talar um að Babu sé að draga menn í dilka þá er ég því ósammála. Það er alveg ljóst að menn voru ósammála um Rafa, Dalglish og Brendan. Sá ágreiningur risti stundum djúpt og það er engin goðgá að ræða það finnst mér.
Líklega voru menn mest sammála um Roy H en þó átti hann sér einhverja stuðningmenn og sumir studdiu hann vegna þess að þeir styðja stjóra Liverpool hver sem hann er. Eru sem sagt “lojal” alltaf. Það er líka hið besta mál og gerir menn hvorki betri né verri fyrir vikið. Við höfum leyfi til að vera ósammála og hafa ólíka sýn á hlutina og vert er að hafa í huga “að allt orkar tvímælis þá gert er”. Og svona í lokin þá vil ég benda á, þó það eigi ef til vill ekki við í þessu samhengi, að hver og einn er frjáls að orðum sínum og svarar ádeilu og atyrðum eins og honum þykir best en ekki samkvæmt kröfum þeirra sem á þá ráðast.
Það er nú þannig.
YNWA
Ég geri þá kröfu að Liverpool spili skemmtilegan fótbolta, skori mörk og leikmenn sýni hvaða hæfileikum þeir búa yfir.
Já, ég er einfaldur og jafnvel einhverfur !
Þegar Liverpool spilar vel þá er ég ánægður…. þó svo við töpum. Hinir spiluðu bara betur og ekkert hægt að svekkja sig yfir því. ( jú…. smá er það ekki? )
Þegar liðið spilar illa og stjórinn kemur og lýgur upp í opið geðið á manni eins og Roy Hodgson gerði ítrekað.
“Liðið spilaði vel” …. þá er ekkert í boði nema gubbbbbb frá mér.
Við erum allir tilfinningaverur og stjórinn og framkoma hans skiptir miklu máli.
Velkominn Klopp og frá mér færðu allan stuðning, á meðan liðið spilar skemmtilega fótbolta, þú segir satt og talar frá hjartanu.
Sigurkveðja alla leið á toppinn.
Sammála Jón #10
Niðurdrepandi pistill þar sem talað er um stuðningsmenn sem eru höfundi ósammála af óvirðingu.
Hvað eiga Graeme Souness, Roy Evans, Gérard Houlier, Rafa Benítez, Roy Hodgson og Brendan Rodgers sameiginlegt?
Þeir eru ekki Jürgen Klopp!
Ekki misskilja mig, Rafa átti mjög gott run sem þjálfari en hann er ekki sú týpa sem drífur liðið áfram og fær menn með sér. Hann var búinn að greina leikinn og andstæðinginn fyrir fyrirfram á töflufundinum. Hann var data-gaur, ekki natural born leiðtogi.
Það er það sem maður sér með Klopp og það er það sem hann kemur með í hugarfarinu sínu á Anfield. Ráðning Klopp er stærsta augnablikið í sögu Liverpool síðan við ögruðum þyngdarlögmálinu og unnum meistaradeildina í Istanbul 2005.
Þegar meira að segja andstæðingar okkar eru farnir að öfunda okkur af því að vera komnir með Klopp í stjórasætið hjá okkur þá vitum við að eitthvað stórkostlegt er framundan.
YNWA!
Klopp er mjög spennandi ráðning en held það samt sé samt mikilvægt að sýna smá raunsæi þegar kemur að árangri á fyrsta tímabili. Það er nokkuð ljóst Klopp mun lenda í erfileikum á fyrsta tímabili í deildinni eins og fyrri þjálfarar lentu í. En til lengri tími litið held ég að þetta verði mjög góð ráðning
Fínn pistill Babu og ekkert að því að skrifa um þessar pælingar. Ég verð að segja fyrir mína parta að þá er ég svipað spenntur fyrir Klopp eins og ég var fyrir Benitez, og líka King Kenny, Rodgers kemur svo á eftir, en ég þarf síðan ekki að minnast á roy, það var bara djók.
Ég var alls ekki sáttur við það að Benitez var rekinn á sínum tíma, en það var ekki við öðru að búast frá knoll og tott sem “áttu” klúbbinn þá. Ég vildi síðan gefa Kenny meiri tíma með liðið og ég er alveg á því að hann hefði náð betri árangri með það en Rodgers.
Annars hlakka ég bara til þess að sjá ástríðu Klopp smitast til leikmanna, og að þeir verði meiri liðsheild fyrir vikið, og útúr mótiveraðir fyrir hvern leik sem þeir spila fyrir LFC.
Góður pistill.
Um leið og ég fagna því óskaplega að Klopp sé orðinn stjóri Liverpool, þá stend við það sem ég hef áður sagt. Ég held að Rodgers hafi átt ýmislegt inni. Þegar Suarez er seldur fyrir sand af seðlum, þá átti auðvitað að fá grjótharða veterans í liðið. Við vorum í meistaradeildinni og hefðum átt að geta borgað góð laun. Kannski var stefna FSG í launamálum það sem kom í veg fyrir að við fengum almennilega menn það tímabil. Auk þess eru Stevie og Carra að enda ferla sína á Rodgers tímanum. Það er helvíti vont að missa slíka fagmenn.
Að þessu sögðu, þá getur það aðeins verið að þetta hafi verið dauðafæri til að fá Klopp. Annars hefði hann verið veiddur af öðru stórliði í lok tímabilsins.
Áfram Liverpool!
Merkilegt líka að nú eru akkúrat fimm ár síðan þetta gerðist: http://www.theguardian.com/football/2010/oct/13/liverpool-verdict-hicks-gillett-lose
Mér fynnst óþarfi að vera að velta sér upp úr því núna hvað gerist ef ekki næst árangur strax hjá Klopp. Við eigum að vera glaðir og njóta frekar en að vera velta okkur upp úr því.
Stuðningsmenn Liverpool eru kröfuharðir og því ekkert óeðlilegt að gagnrýnisraddir heyrist er lítill árangur næst.
Það hefur því miður gengið þannig hjá klúbbnum bæði innan sem utan vallar að þær raddir hafa átt rétt á sér og ekkert verið neitt athugunarvert við það að mínu viti.
En nú eru bjartir tímar framundan þar sem við erum komin með einn mest spennandi þjálfara í heimi og við skulum njóta því það smitar út frá sér.
Liverpool BEST í heimi. Ingó