Aston Villa 0 Liverpool 6

Okkar menn unnu knattspyrnuleik í dag. Og rúmlega það.

Klopp stillti upp einu sterkasta byrjunarliði sem hann hefur haft úr að moða síðan hann tók við. Þetta var jafnframt í fyrsta skipti sem Sturridge, Firmino og Coutinho voru saman í liðinu. Við þurftum bara að bíða í hálft ár eftir þeirri sjón:

Mignolet

Clyne – Touré – Sakho – Moreno

Henderson – Can – Milner

Firmino – Sturridge – Coutinho

Bekkur: Ward, Caulker, Flanagan, Ibe, Stewart (inn f. Coutinho), Origi (inn f. Sturridge), Benteke (inn f. Firmino).

Leikurinn byrjaði hægt en okkar menn sigu svo fljótlega fram úr. Fyrst skoraði Sturridge með skalla úr miðjum vítateig eftir frábæra fyrirgjöf Coutinho frá hægri á 15. mínútu og á 25. mínútu skoraði Milner beint úr aukaspyrnu utan af vinstri kanti, en markvörður Villa tók De Gea á þetta og gerði eróbikk-hreyfingar í loftinu á meðan boltinn sigldi framhjá honum og í fjær. Staðan því 2-0 í hálfleik.

Eftir hlé opnuðust flóðgáttirnar svo. Can skoraði á 58. mínútu með góðu skoti af vítateigslínunni eftir að hafa unnið boltann sjálfur og hafið skyndisókn á miðjunni. Flott mark hjá honum og við viljum sjá meira svona frá miðjumönnum okkar. Á 61. mínútu kom Origi inná fyrir Sturridge og hann skoraði mínútu síðar með fyrstu snertingum sínum, tók við stungusendingu Coutinho utan af kanti og lagði boltann svo í hornið, óverjandi.

Fimmta markið kom á 65. mínútu þegar Clyne fékk boltann inná teig, bjó sér til pláss og skaut en markvörður Villa varði en vörn þeirra var svo sofandi að hann náði frákastinu sjálfur og skoraði auðveldlega í tómt markið. Á 71. mínútu kom svo mark leiksins þegar KING KOLO TOURÉ skallaði hornspyrnu frá hægri í tómt markið af vítapunktinum. Hann þurfti ekki einu sinni að stökkva upp til að ná skallanum, svo auðvelt var þetta.

Eftir það hvíldi Klopp Coutinho og Firmino og setti Stewart inná í sinn fyrsta deildarleik og svo Benteke og við það hætti okkar lið að spila sóknarbolta. Hvort það er tilviljun skal ég ekki segja.

Lokatölur urðu því 6-0. Þetta var í fyrsta sinn síðan 1987 sem sex leikmenn Liverpool skora í sama deildarleiknum og þetta er í þriðja sinn á síðustu fjórum árum sem liðið skorar sex mörk á útivelli. Aðeins eitt lið hefur náð því einu sinni yfir sama tímabil.

Hvað lærðum við svo af þessum leik?

Fyrst, og það verður að taka það sérstaklega fram hér, að Aston Villa er ógeðslega lélegt fótboltalið. Það er eiginlega sjokkerandi hvað þeir eru slakir. Ég held að Liverpool hafi aldrei unnið jafn auðveldan leik á útivelli í deildinni og hér, a.m.k. ekki í mína tíð. Þetta lið er á leiðinni lóðrétt niður og það kæmi mér ekkert á óvart þótt við sjáum Aston Villa ekki aftur í laaangan tíma. Bless, bless.

Næst, og það verður að taka þetta sérstaklega fram líka, að það munar ansi miklu þegar Liverpool getur stillt upp sóknarmönnum í svona leikjum. Þið vitið, týpurnar sem nýta færin sín og leggja upp fyrir hver aðra, gaurarnir sem mæta á teiginn í fyrirgjafir og svona. Firmino skoraði ekki í dag en var virkilega líflegur og lagði upp tvö eða þrjú, ég missti töluna á endanum. Sömu sögu er að segja af Coutinho. Í teignum var Sturridge svo hættulegur og Origi nýtti sitt færi mjög vel líka.

Það er einfaldlega saga þessa tímabils hvað við erum búin að þurfa að horfa lengi á þetta Liverpool-lið án Daniel Sturridge við hlið Coutinho og Firmino. Það er bara alls ekki sanngjarnt hvað hann hefur spilað lítið. Hann er núna kominn með 5 mörk í svipað mörgum leikjum í vetur. Ég bið ekki um mikið meira en að hann geti spilað knattspyrnu án frekari meiðsla fram á vorið.

Maður leiksins: Kolo Touré. Þetta mark var náttúrulega stórkostlegt og fagnaðarlætin ekki síðri. Þvílíkur maður!

Næst er það Evrópudeildin. Mig grunar að Augsburg-liðar hafi ekki brosað við að horfa á þennan leik í sjónvarpinu í dag…

YNWA

60 Comments

  1. Mikill söknuður í Wee Joe, Lucas, Lallana og afhverju er Benteke ekki i byrjunarliðinu? sagði enginn aldrei. mikið er gott að sjá Coutinho-Sturridge-Firmino þeir smellpassa saman og allir i liðinu fá trú á að þeir geti gert hluti sem þeir hafa ekki reynt til þessa vonandi helst Sturridge heill eitthvað út tímabilið. Frábær sigur í dag og loksins eru Liverpool að spila frábæran fótbolta þó að liðið sé Aston Villa þá er þetta Enska Úrvalsdeildin en ekki spænski boltinn og ekkert er sjálfgefið.

  2. Sælir félagr

    Það eina sem ég fór fram á fyrir þennan leik var sigur og að Sturridge byrjaði. Allt fór að óskum og magnaður 6 marka sigur í höfn, Loks er sókn Liverpool komin í plús og það er vel. Þetta var vel leikið og algerlega áreynslulaust og takk fyrir. Maður þurfti svo sannarlega á þessu að halda.

    Það er nú þannig

    YNWA

  3. Í svona leik verður að velja liðsheildina sem mann leiksins!
    En þar á eftir myndi ég persónulega velja Coutinho

    Annars mjög flottur leikur og yndislegt að vera með alvöru sóknarmenn til taks á vellinum

  4. Loksins komin gæði í sóknina sagði ég fyrir leik. Átti von á 2-3 mörkum en við fengum 6 og það úr öllum áttum. Ég er yfir mig ánægður.

    Aston Villa er ömurlegt lið, á svipuðum stalli og Sunderland liðið sem við gerðum jafntefli við í síðustu viku. Munurinn er fyrst og fremst að með Sturridge og Coutinho inni á vellinum er hægt að drepa niður allar vonir andstæðinganna snemma í leiknum eins og gerðist í dag. Leikurinn gegn Sunderland hefði unnist á svipaðan máta ef þeir tveir hefðu spilað.

    Svo ætla ég að skemma fr

  5. Sky sports völdu Coutinho mann leiksins og þetta er stærsta tap Villa á heimavelli síðan árið 1935.

  6. úbbs…

    fyrir þeim sem halda að nú sé þetta komið. Þetta er ekki komið. Aston Villa liðið, sem er mógðun við stuðningsmenn þeirra á aldrei að vera fyrirstaða.

    Stöðguleikinn er ennþá enginn í Liverpool-liðinu og við vitum ekkert hvernig liðið kemur út í næsta leik.

    Við vitum ekki hverjir meiðast næst. Sturridge er ansi líklegur.

    Vörn og markvarsla eru ennþá vandamál, Aston Villa átti varla skot á rammann í dag.

    Það eru samt bara þrjú stig í Man U og það er bara spurning um heiður að vera fyrir ofan þá. En bara næsti leikur, standa sig vel, helst vinna. Ná upp stöðugleika fram á vorið og geta byggt ofan á það. Þá þarf engar hreinsanir í sumar.

  7. Hvað hafa hinir jákvæðu sagt um liðið. Það er nefnilega hörkugott en nær sér ekki fullkomlega á strik nema í fjórða hverjum leik. Andlegi þátturinn er greinilega að plaga menn, getan er til staðar. Þú getur grísað á einn stórsigur en að skora tvisvar 6 mörk gegn efstu deildar liðum og 4 mörk á utivelli gegn liði nr 3 er ekki tilviljun. Halda þessu áfram Liverpool og byggja ofan á þetta. Ungu strákarnir flottir eins og fyrri daginn. Nú held ég að Lucas fari, liðið er betra án hans eða hvað?

  8. flottur sigur og gott að gera sex mörk en þetta Villa lið i dag er klarlega slakasta lið sem eg hef seð siðustu 20 árin, þeir mættu aldrei til leiks og höfðu nkl engan ahuga a að vera þarna inna vellinum.

    Alltaf gaman að vinna stórt en þvi miður er deildin buin þetta timabilið og okkar menn hafa að afar litlu að keppa . Vonandi heldur liðið samt afram að spila vel og rífa sig aðeins upp töfluna og svo það sem mestu máli skiptir er að halda okkar lykilmonnum heilum og geta allt til að sigra evrópudeildina.

  9. Rosalega flottur sigur í dag !! Vonandi haldast menn heilir og liðið nái upp stöðuleika , ekki eins og síðast þegar við skoruðum 6 mörk (móti Southampton) þá hélt maður að liðið færi á “run” en ekkert gerðist.

    En flottur sigur í dag og allir spiluðu vel !! Vel gert drengir

  10. Það er full ástæða til að fagna því að liðið er núna með 2 mörk í plús, og er komið upp í ÁTTUNDA sætið í deildinni. Stórkostlegt að vera uppi á þessum tímum.

    En svona án gríns, þá væri gaman ef liðið næði einhverjum stöðugleika. Það er auðvitað skemmtilegt að vinna 6-0, en ég væri alveg sáttur við að sjá tölur eins og 1-0, 2-0 og 2-1.

    Sigur í næsta leik og komast upp að United, ég bið ekki um meira í bili.

  11. Liðið er búið að endurheimta sína bestu menn. Þetta var prófið. Einkunn 10.

  12. Leikskýrslan er komin inn. Ég mana ykkur til að mótmæla vali mínu á manni leiksins. 🙂

    Einnig: þessi koss sem Origi fékk (ummæli #2) – greyið strákurinn. Hann fer aldrei aftur í áhorfendaskarann til að fagna marki. Ég fæ martraðir um þetta í nótt, það er á hreinu…

  13. Flottur sigur. Origi hefur væntanlega lært það að fagna aldrei aftur á sambærilegan hátt. Það var magnað að fylgjast sóknarlínunni í þessum leik. Þakka líka góðum varnarleik liðsins að Villa náði ekki sjö skotum á markið í þessum leik 🙂

  14. Það var ekki annað hægt en að vinna þetta ömurlega Aston Villa lið.

  15. Annað skiptið í sögu úrvalsdeildarinnar sem sex leikmenn sama liðs skora í leik, hitt skiptið var Aston Villa í byrjun aldarinnar.

  16. Kolo klárlega maður leiksins enda yfirburðamaður bæði í vörn og sókn. Ætla að sofa í Kolo Tourè treyjunni, spurning um tattú í næstu ferð á Anfield.

  17. Mikið er ég glaður að hafa fengið mér áskrift fyrir þennan leik.

    YNWA!

  18. Frábær þrjú stig og gott að laga markamuninn!! En allar mínar vættir… og ekkert skal tekið af okkar mönnum að taka þennan leik í nefið –> Aston Villa voru vandræðalega lélegir í dag. Í marki þrjú þá er eins nr 5 hjá AV taki fótinn í burtu til að vera EKKI fyrir skotinu frá Emre Can!!!

    Koma svo…. nýta þetta mómentum til að koma okkur áfram í Europa Leuge og landa eins og einni dollu í mánuðinum!

    YNWA

  19. Það er ekki annað hægt en að lýta jákvæðum augum á 0-6 útisigur í úrvaldsdeildinni þótt að andstæðingurinn var lélegur.
    Því að Liverpool eru snillingar og líklega heimsmeistara í að tapa stigum gegn svokölluðum lélegu liðum(sjá Sunderland í leiknum á undan).

    Það er auðvita allt annað að sjá liði þegar alvöru sóknarmaður er frami sem er snillingur að búa til pláss fyrir sjálfan sig og er góður að finna samherjana. Þetta galopnar varnir og hjálpar leikmönum eins og Coutinho, Firminho og Lallana(sem var ekki með í dag) að gera það sem þeir gera best , að skapa færi og ógna marki.

    Liðið okkar þurfti ekki að hafa mikið fyrir þessu í dag eftir 0-1 og ég tala nú ekki um 0-2 þá einfaldlega gáfust heimamenn upp og hefur maður sjaldan séð annað eins og var þetta skammarlegt.

    Næst á dagskrá er gríðarlega mikilvægir Evrópuleikir en við spilum gegn sama liðinu tvo leiki í röð því að við duttum út í Facup og því óþarfi að hvíla menn.

    Ef Sturridge/Coutinho haldast heilir(stór EF) þá held ég að við fáum að sjá allt annað liverpool leik á lokasprettinum.

  20. Sælir félagar

    Hvað fordómar eru þetta gegn mynd #2. Ástin er falleg í öllum sínum myndum og þetta er svona blautur ástarkoss. Sætt!!! ;

    Það er nú þannig

    YNWA

  21. Djöfull elska ég Liverpool !!!!!!
    Ég er ekki sammála skýrsluhöfundi með val á manni leiksins, Couthino var betri. En ég hef enn, og hef lengi haft, áhyggjur af fyrirliðanum, mér finnst hann fara versnandi. Kannski er það bara vegna þess að núna voru betri menn en hann á vellinum, en það kannski lýsir líka hvað liðið er oft lélegt ef manni finnst hann geta eitthvað.

  22. Flottur sigur á að vísu einu slappasta liði í deildinni. En samt stór plús að sjá Coutinho og Sturridge saman inni á vellinum aftur. Og Guð minn góður hvað Benteke er orðin slappur þegar að hann getur ekki einu sinni skorað á móti Aston Villa.

  23. Okei með Benteke, hann kemur inná í löngu sigruðum leik með engann Coutinho, Sturridge og Firmino með sér. Ekki honum að kenna að Lpool keypti hann á stórfé. Ég vorkenni manninum mjög!

  24. Númer 26
    Henderson lagði samt sem áður upp mark í dag. En ég er sammála þér að hann er búinn að vera slakur að undanförnu. Ég held að tími Henderson líði fljótlega undir lok nema hann bætir sig mikið.
    Sást að liðið hefur náð að æfa aðeins saman að undanförnu og ætti að vera í toppformi 28.feb þegar þeir mæta City enda fáum við gott frí frá deildarleikjum núna.
    Vonandi að liðið nýti spilfríið vel og mæti frábærlega vel stemmt í næstu leiki.

  25. Ég er sammála Sigkarli #25 það er valentínusardagur og ástin er í loftinu!
    Love is in the air

  26. 36 stig eftir í pottinum. 9 stig í City og eigum þá eftir heima, er þetta hægt? Fjandinn hafi það! Það er langsótt en deildin er óútreiknanleg í ár.

  27. Athyglisvert eftir flotta sigurleiki þá eru commentinn ekki nálagt því eins mörg og þegar lið tapar illa eða leikur illa.
    S.s menn eru duglegri við að gagnrýna liðið en hrósa því.

    Reynum að snúa þessu við.

  28. Restin af tímabilinu verður athyglisverð, ef að Sturridge helst heill þá er allt mögulegt og mig hlakkar til að sjá fleiri leiki með Sturridge, Firmino og Coutinho sem fremstu menn og Origi setur líka flotta pressu á að menn haldi sér á tánum, hef mikla trú á þeim strák.

    En við erum aldrei að fara að ná þessu 4 sæti, til þess þarf allt að ganga upp hjá okkur og önnur lið þurfa að klúðra ansi miklu, en við erum í Uefa bikarnum og sigur þar gefur CL sæti og það verður að leggja allt í að vinna þá keppni.

  29. Frábær leikur og fràbær sigur og loksins gat Klopp stillt upp sóknarliði.. Sagði fyrir leik að hann myndi enda 0-5 fyrir Lfc en er sáttur með að hafa rangt fyrir mér.. 😉 EN það er kannski smá áhyggju efninað skýsluhöfundur kunni bara að telja upp á einn 😉 firmino var bara með eina assist og það kom í markinu hja Can ;).

    YNWA

  30. #34: Jú tölfræðilega er ýmislegt hægt. En ég ætla bara að taka einn leik í einu. Í augnablikinu er liðið í 8. sæti, og ég nenni ekki einusinni að spá í 4. sætið fyrr en (eða EF) liðið kemst í það fimmta.

  31. Sturridge er bara svo góður leikmaður. Þegar hann spilar, þá spila allir liðsfélagarnir aðeins betur.

  32. Jæja félagar,

    Margir hér tala um að þetta hafi verið sjálfsagður 6-0 sigur, úr því að þetta er jú lélegasta lið deildarinnar. Það þýðir ekkert að hugsa svona. Í stöðunni sem við erum búnir að vera í ár höfum við ekkert tilkall til þess að vera að krefjast þess að kjöldraga eitthvað lið. Tökum þessum sigri frekar eins og hann raunverulega er: fyrsti leikur Liverpool með öllum aðal sóknarmönnum okkar og frábær sigur og ekki má gleyma stórkostleg skemmtun. Í dag sýndum við hvað í okkur býr, og það skiptir engu andskotans máli á móti hvaða liði það var. Maður verður pínu þunglyndur að hugsa til þess hvernig tímabilið væri hefðum við getað haldið þessum leikmönnum öllum heilum.

    Ég sagði það einhverntíman áður, og ég segji það aftur: að öllum öðrum ólöstuðum er Roberto Firmino okkar besti leikmaður. Þvílík vinnsla og talent í þessum dreng. Það er svo undir Sturridge komið að halda sér heilum og taka þann titil af Firmino. Heill Studge er með betri senterum heims.

    Áfram Liverpool!

  33. Sæl og blessuð.

    Já Villa var í tómu rugli í þessum leik en svo hefði hreint ekki þurft að vera. Þeir voru nú með töglin og haldirnar á köflum á fyrsta kortérinu og okkar menn voru bara í eltingarleik án þess að koma við boltann. Spilið þeirra var mjög gott á þeim kafla, tiki-taka-ish.

    En gæðin í Sturridge eru slík að maður finnur með verkjum fyrir því hversu álappalegir þeir hafa verið Lallana og co. í vetur án hans. Endalaust klapp og dútl án nokkurs árangurs. Svo kemur meistarinn og hrífur allt liðið með sér. Þeir nýttu veikleika andstæðinganna sem urðu fyrir vikið að aðhláursefni og þeirra eigin stuðningsmenn snerust gegn þeim. Þá er nú lítið eftir af gleði og gæðum.

    Þetta var einfaldlega risasigur og ekkert lið hefur kjöldregið Villa menn með viðlíka hætti og okkar menn gerðu nú í dag!

  34. Sammlála Kristjáni um valið á manni leiksins. Að fagna svona innilega í marki 6 er eitthvað sem enginn annar hefði gert. En margir spiluðu einnig vel í dag. Fékk mér Brazza í leikslok segir allt sem segja þarf.

  35. Hvar getur maður séð viðtalið við Klopp eftir leikinn?

  36. Sælir félagar

    Það er rétt að menn virðast vera viljugri að tjá sig þegar liðið er að klúðra hlutunum en þegar það er að gera góða hluti. Ef stuðningsmenn vilja vinna sér það inn að skammast útí liðið þá verða þeir líka að hæla leikmönnum þegar vel gengur.

    Ég tek undir með þeim Duddi#30 sem segist vorkenna Benteke kallinum. Það hlýtur að vera ömurlegt hlutskipti fyrir framherja að geta bara alls ekki skorað mörk. Það má í því sambandi benda á að það voru litlir sóknartilburðir í liðinu eftir að hann kom inná enda menn orðnir saddir og sáttir.

    Mér finnst í góðu lagi að tilnefna Toure sem mann leiksins þegar hann skorar sitt fyrsta deildarmark í 6 ár og fagnar því með þessum líka tilþrifunum. Það var eiginlega móment leiksins 🙂

    Það er nú þannig

    YNWA

  37. Sammála með Kolo Toure. Hann ætti skilið að enda ferilinn með einum stórum titli a næsta ári með Liverpool ?

  38. Er það ekki rétt munað hjá mér að síðasti leikur sem Sturridge byrjaði inn á var stórsigurinn á móti Southampton??

    Þessum degi erum við öll búin að bíða eftir lengi. Sama hversu lélegir Villa menn eru, það munar um að hafa alvöru markaskorara í liðinu. Það gladdi mig líka verulega að sjá Origi skora um leið, vonandi veit það á gott!

  39. Flottur sigur á slöku liði villa sem hefur oft strítt okkur, jafnvel þó þeir hafi verið neðarlega í deildinni. Það þarf að vinna fyrir sigrum og í dag gerðum við það. Þvílíkur munur að vera komin með svona gæða leikmenn aftur eftir meiðsli, loksins komin ógn í sóknina. Nú er bara að nýta meðbyrinn í næstu 4 leiki , sem eru btw gegn tveimur liðum, Augsburg og Man city.

  40. Þetta er i fyrsta skipti sem að ég er bara virkilega ánægður með NÚLL – 6 og það bara á sjálfum Valentínusardeginum 😉

    In Klop W TRUST

  41. Hlæ að þeim sem segja að tímabilið aé búið hjá okkur. Ef liðið fer á gott rönn með 4-6 sigurleikjum (jafnvel 4 sigurleikjum af 6) er allt hægt. Keep the faith friends……..

  42. Frábær sigur!

    Það er leikmaður í þessu liði sem fær alltof sjaldan það hrós sem hann á skilið. Hann er búinn að spila 25 leiki af 26 í deildinni, 4 leiki í Leauge Cup og 6 í evrópudeildinni. þessi leikmaður heitir EMRE CAN!

    Þegar öllum var illt í skinkustrengnum (hamstring) þá var hann alltaf klár í að byrja og klára alla leiki hvort sem þeir voru 90 eða 120 mínútur.

    Svo er hann líka bara drullugóður í fótbolta!

  43. Svo vil ég benda á að Mignolet spilaði fínan leik. Hann er t.d farinn að kýla boltum meira í burtu, þegar framherji er vís að skalla boltann. Hann gerði það oft gegn West Ham á móti Andy Carrol og líka núna í þessum leik. Kannski þarf frekar að bæta nokkur STÓR smáatriði hjá honum, í stað þess að afskrifa hann. Ég held að það sé allavega planið hjá Klopp.

    Ég er kominn á þá skoðun, að það sé betra að stilla upp varaliðinu, þegar það er stutt á milli leikja. Varaliðið er alltaf betra heldur en þreytt aðallið og hættan á meiðslum er mun minni.

  44. Doktorinn #48
    Ég held að Sturridge hafi byrjað deildarleik eftir stórsigurinn á Southampton sem var 2-0 tapið gegn Newcastle á St James’s Park.

  45. Erum við að fá nýjan leikmann í dag?

    Liverpool are expected to confirm the signing of Schalke centre-half Joel Matip on a free Bosman transfer later today(Chris Bascombe) #LFC

  46. Svarar Station. Já sýnist það miða við alla “áræðanlegur” miðlana sem eru að segja frá þessu núna.
    Lýst mjög vel á þetta.

  47. Held að menn ættu að halda sér á jörðinni, þetta Villa lið væri i fallbaráttu i championship deildinni…eg fullyrði það að þetta er lélegasta lið sem eg hef séð i úrvalsdeildinni siðan eg for að fylgjast með og það eru annsi mörg ár síðan.

    en samt flott að ná 6 mörkum

Liðið gegn Villa

Joel Matip til Liverpool í sumar (staðfest!)