Off to Wembley we go!!!

KOMDU MEÐ KOP.IS Á ANFIELD Í MAÍ! SJÁ NÁNAR HÉR

KloppogPellegriniSunnudagur 28.febrúar.

Tilvalinn dagur til að vinna titla er það ekki?

Það er allavega tilfinningin í herbúðum okkar drengja í alrauða gallanum frá Liverpoolborg. Í fyrramálið fyllast lestar og rútur með söngglöðum Scouserum sem eru staðráðnir í því að eiga sinn þátt í því að færa deildarbikarinn í geymslu á Anfield í níunda sinn i sögunni, en við erum töluvert sigursælasta lið þessarar keppni sem hefur fært okkur mikla gleði í gegnum tíðina.

Fyrir okkur sem munum vel eftir síðari hluta síðustu aldar þá var það í þessari keppni sem við sáum Liverpool fyrst vinna titil í beinni útsendingu á Íslandi, þegar við unnum titil númer tvö gegn Tottenham 1982, árið eftir unnum við United 2-1 með tveimur mörkum sem lengi verða í minnum höfð og 1984 unnum við fjórða árið í röð og nú erkifjendurna okkar og nágranna. Þetta er í eina skiptið í sögu enskra keppna þar sem sama lið hefur unnið titil fjögur ár í röð.

Þá kom rúmlega tíu ára bið eftir næsta titli sem varð þá sá eini hjá Evans, Houllier tók dolluna tvisvar og Dalglish kom með bikarinn heim síðast vorið 2012 en titillinn sá er sá eini sem við höfum unnið síðust 10 árin…og sá eini sem Suarez okkar tók með sér til Spánar.

Svo að það er alveg klárt mál að þessi keppni hefur oft verið regndropinn í eyðimerkurgöngu þegar félagið hefur vantað eilítið uppá í sigurgleðinni og oft hefur það að mæta í þennan úrslitaleik gefið fyrirheit um það að betri tímar séu í nánd. Það var þannig hjá Houllier og í raun Rafa líka, en fyrsti úrslitaleikurinn hans var tap fyrir Chelsea rétt áður en Istanbul ævintýrið átti sér stað. Vonandi er þessi úrslitaleikur sá allra fyrsti af mörgum sem “The Special One” “The Normal One” (djókið skildist ekki og mun aldrei nota þetta aftur) mun stýra liðinu okkar í.

Leiðin á Wembley

Þessa leiktíðina hafa leikirnir verið býsna ólíkir á leiðinni og fyrir þá sem vilja rifja þá upp er bæði hægt að lesa leikskýrslurnar á Kop.is allt frá því við skriðum áfram í vítakeppni gegn D-deildarliði Cardiff eða þegar Joe Allen og Simon Mignolet voru hetjurnar gegn Stoke, með viðkomu í fyrsta sigrinum undir stjórn Klopp eða þá langbesta leik vetrarins þegar við stútuðum Southampton. Leikskýrslurnar eru hér.

Liverpool – Carlisle 1-1 (sigur í vító)
Liverpool – Bournemouth 1-0
Southampton – Liverpool 1-6
Stoke – Liverpool 0-1
Liverpool – Stoke 0-1 (sigur í vító)

Þarna eru nokkur flott lýsingarorð skal ég segja ykkur…renndi létt í gegnum þetta í undirbúningnum, pínulítið þetta tímabil bara í hnotskurn. Fyrir þá sem langar að gera enn meira úr undirbúningi fyrir leikinn og rifja enn betur upp hvað hefur gerst í keppninni hingað til er bara ansi flott myndband að finna á ÞúTúbunni sem hjálpar til við að finna bikarsigragírinn.

Því við ætlum að hirða dollu krakkar!

Mótherjinn

Það væri bara synd að segja það að við séum að ráðast á lágan garð á Anfield South (Wembley) þennan síðasta sunnudag febrúarmánuðar á þessu ári.

Stærra liðið úr borginni illu, vellauðugt ljósblátt lið Manchester City sem stefna að því að vinna þarna sinn fimmta titil á síðustu fimm árum, þeir unnu þennan titil síðast fyrir tveimur árum og eru komnir með rútíneraða sigurhefð í sínar herbúðir. Leikmenn sem þekkja það vel að leika undir pressu eins og þeirri sem fylgir að spila úrslitaleiki og alveg ljóst að í veðbönkunum flestum verða þeir gerðir sigurstranglegir.

En það voru þeir nú líka þegar við mættum þeim síðast á heimavelli þeirra í nóvember (varúð…þetta er löng klippa enda svolítið skemmtilegur leikur).

Þetta Manchester City lið er feykivel mannað en virðist búa við töluverðan óstöðugleika í leik sínum. Frá því að tilkynnt var um að Pellegrini verði skipt út í vor og við starfi hans tæki Pep nokkur Guardiola hafa úrslitin verið eilítið út og suður. Skíttap með veikt lið fyrir Chelsea um síðustu helgi felldi þá út úr bikarnum og í vikunni fóru þeir til Kiev og eiginlega kláruðu meistaradeildarviðureign sína við Dynamo í fyrri leik með 3-1 sigri.

Hvort liðið skyldum við fá inn á Wembleygrasið? Það mun tíminn leiða í ljós.

Pellegrini hefur töluvert talað um meiðsli í sínum herbúðum en í vikunni var það gert opinbert að nokkrir leikmenn þeirra væru komnir til baka. Bony, Navas og Mangala verða allir á ný tilbúnir í slaginn og Kompany mun verða klár eftir smávægileg meiðsli. Stjórinn hefur róterað liðum sínum í ólíkum keppnum en þegar liðið hefur nær úrslitaleikjum hefur hann í gegnum tíðina stillt upp sínum sterkustu liðum. Ég tippa á City liðið ca. svona:

Caballero

Sagna – Kompany – Otamendi – Kolarov

Fernandinho – Yaya Toure – Fernando

Sterling – Aguero – Silva

Svona einhvern veginn á þennan hátt. Vel má vera að Silva verði tekinn niður á miðju og Navas settur á vænginn en ég held að City horfi til þess hvernig þeim gekk síðast gegn okkur og fari varkárar inn í leikinn en þeir gerðu þá.

En þetta er svakalega sterkt lið þarna…það er á hreinu.

Okkar lið

Ef við tölum um Manchester City sem lið sem sveiflast töluvert þá er það nú sennilega ekki síður hægt að tala á þann hátt um okkar drengi sem hafa farið um allan völl í frammistöðum…bara í allan vetur.

SkrtelÞað er eins með okkur og mótherjana, á æfingasvæðið hafa nú bæst við sterk nöfn sem ekki hafa verið mikið með að undanförnu. Allen og Lovren eru komnir eftir stutta fjarveru, Lallana hefur ekki náð síðustu leikjum en helstan ber að nefna Martin Skrtel sem er kominn til fullra æfinga og nú með hár!!!

Hvað ætli það nú þýði að vera allt að því kominn með fullan hóp til að velja úr. Hann Jurgen Klopp fór yfir þetta á blaðamannafundi gærdagsins þar sem hann ræddi um það að allur leikmannahópurinn ætti í raun þátt í því að vinna þennan bikar og hann yrði að valda mörgum vonbrigðum á sunnudaginn þegar liðsuppstillingin verður gerð klár.

Það er í raun að mörgu að hyggja og mér finnst bara svolitið erfitt að átta mig á hvað Jurgen mun gera. Sérstaklega finnst mér erfitt að átta mig á hverjir verða í hafsentaparinu þegar að flestir virðast heilir. Það er þó ekki í anda Þjóðverjans að skutla mönnum beint í byrjunarlið eftir jafn langa fjarveru og Martin hefur búið við og svo ræddu allir lýsendur fimmtudagsins um það að verið væri að hvíla Kolo fyrir sunnudaginn, enda eiginlega eini leikmaðurinn í okkar leikmannahópi sem hægt er að tala um að hafi unnið titla reglulega. Þó svo reyndar líka megi nefna James Milner í þeirri andrá líka.

Á miðjunni erum við núna að horfa á fleiri möguleika en þar held ég að eina spurningin verði hvort Emre Can heldur sæti sínu að undanförnu með Hendo og Milner eða hvort að leitað verður til reynsluboltans Lucas Leiva til að sópa upp á miðjunni og verja hafsentaparið. Ég myndi velja þann kost en er alls ekki sannfærður um það að Klopp sé sammála mér svona miðað við það að Þjóðverjinn ungi hefur haldið sínu sæti no matter what undanfarnar vikur.

Framlínan verður þriggja manna og sú sama og við sáum í vikunni. Lallana verður ekki hent inn í liðið strax, Firmino átti frábæran leik á Etihad og verður treyst fyrir verkefninu.

Mín lending á liðinu er þessi:

Mignolet

Clyne – Kolo Toure – Sakho – Moreno

Milner – Henderson – Emre Can

Firmino – Sturridge – Coutinho

Ég sjálfur myndi setja Lovren inn fyrir Kolo og Lucas inn fyrir Emre Can en þetta er það sem ég tippa á að verði lendingin.

Bekkurinn okkar ætti að geta verið ógnarsterkur, það verður fróðlegt að sjá hverjir verða utan hóps í þessum leik þegar Allen, Lallana, Lovren og jafnvel Skrtel setjast niður sem varamenn.

Niðurstaða

Ég treysti því að þið njótið þess að liðið okkar er í úrslitaleik, því miður hefur það ekki verið eins reglubundið nú og síðustu áratugina. Þannig að finnið ykkur þægilegan og skemmtilegan stað til að horfa á leikinn, klæðið ykkur í gallann og syngið og trallið með. Verðum öll Scouserar sem munu skoppa upp Wembley Way og mála þá götu rauða…og vonandi London svo þegar á kvöldið líður.

Ég held að við sjáum skemmtilegan fótboltaleik þar sem margt mun ganga á. Lykillinn að þessum leik verður varnarleikurinn, það lið sem nær að standast einstaklingssnillina sem liðin hafa uppá að bjóða mun vinna þennan leik.

Ég ætla að gerast svo djarfur að telja okkur vinna þann slag og bikarinn um leið. Við sigrum þennan leik 2-1 og James Milner setur sigurmarkið úr víti í blálokin og brýtur hjörtu blámenna.

Og þetta verður senan að því loknu:

Sigurvegarar

KOMA SVOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOO!!!!!!!!

22 Comments

  1. Áttirðu ekki við The Normal One í stað The Special One ?

    Annars er þessi upphitun á gæsahúðarstigi ! Ég get ekki beðið eftir morgundeginum.

  2. Kæru Kopparar
    Ég vill bara benda ykkur á að á síðunni stendur að næsti leikur sé gegn Everton (sem er ekki rétt). Svo er ekki hægt að sjá á síðunni hvaða leikir eru í framhaldi af næsta leik.
    Væri ekki hægt að redda þessu ?
    Áfram Kop.is

  3. þetta verður frekar auðvelt fyrir okkar menn , og við verðum öll hissa á 3-0 sigri 🙂

  4. Sammála því að það verða nokkur mörk í þessu. 3-3 þriller, framlenging og vító.
    Kompany klikkar.

    Það þarf samt að horfa á þetta. Þeim tíma verður vel varið.
    YNWA

  5. Geggjað að getað unnið titil a morgun. Hef mikla trú á að við tökum þetta og að Klopp geri gæfumuninn með uppleggi sínu og blási baráttuanda í brjósti okkar manna. Segi 3-1 og auðvitað mun Sturridge skora amk 2 af þeim!

  6. Klúðraði því að við eigum auðvitað “The Real Special One”…sem heitir “The Normal One” því hann bað um það nafn.

    Nota þetta ekki aftur, takk fyrir ábendinguna.

    Slæ mig nokkrum sinnum í andlitið og drekk sápuvatn fyrir að vera með vísun í einhvern sem ég ekki þoli…

    Koma svooooooooo!

  7. Sælir félagar

    Ég nefndi það eftir leikinn við Augsburg að þar hefðum við aðeins fengið 1 mark úr fjölmörgum færum. Við hefðum skapað mörg marktækifæri og búið til mikið af upplögðum stöðum þar sem ein sending skildi milli feigs og ófeigs, marktækifæris og slæmrar lokasendingar.

    Í leiknum á morgun, sem leggst frekar vel í mig nota bene, verður það þannig að ef marktækifæri eru nýtt og upplagðar leikstöður gerðar að marktækifærum með grunduðum lokasendingum þá einfaldlega vinnur Liverpool þennan leik.

    Þetta verður erfitt, mikill hraði og álag á leikmönnum þar sem úthald og löngun mun ráða úrslitum í markafáum leik. Spái eins og Maggi 2 – 1 fyrir okkar menn þar sem spennan mun ráða ríkum fram á síðustu sekúndu.

    Það er nú þannig

    YNWA

  8. Hjálpi mér. Með Y. Toure, Kompany og Aguero hjá þeim fölbláu, er ég hræddur um að væntingavísitalan mín sé við frostmark.

  9. það er 1 sem var gott við síðasta leik, það er að Sturridge skoraði ekki og liðið gekk illa að skora sem þýðir að Sturridge skorar og við vinnum 🙂

  10. Hinn fullkomni dagur að sjá Swansea vinna spurs. arsenal vinna manjú og auðvitað að Liverpool taki dolluna!

    Ég hef trú folkens… Koma svo Liverpool!!!!!

  11. Jæja nú þurfa menn að standast væntingar og klára þetta city lið!!!! Þessi eyðumerku ganga er löngu orðin þreytt…. Svo má niðurlægja sterling

  12. Hrikalega spenntur.

    Liverpool að berjast um titla er mér að skapi.

    Fullt af gömlum og góðum minningum að hlaðast inn. Þar á meðal þegar Ronnie Whelan smurðann upp í samskeytin hjá Gary Bailey. Dásamlegur dagur og ekki aftur snúið með hvaða liði maður myndi alltaf halda með og hverjum alls ekki.

    Mun svo aldrei gleyma þegar Gerrard smurðann inn á lokasekúndunum fyrir um rúmlega áratug eða þega Dalglish vinur minn tók aftur við og skilaði bikar í hús örfáum mánuðum seinna. Góðar minningar.

    Erum aldrei að fara að tapa þessum leik. Aldrei.

    Áfram svo Liverpool!

  13. Liverpool-klúbburinn á Íslandi gaf mér fána og er hann nú kominn upp til heiðurs Klopp og hans manna!!!!!!!!!!!! Við erum að spila á Wembley í dag til úrslita um bikar sem við höfum unnið offtast enskra liða. Það var hinn magnaði Kenny the King sem vann síðast. Ef að liðið gerir bara sitt besta verð ég ánægður. Við erum allavega komnir þarna!!!!!!!!!!!!

    ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!!!!!!

  14. Vonandi vinnur Man Utd Arsenal. Styð að Van Gaal festist í sessi.

  15. tvö tvö eftir níutíu mínútur
    tvö tvö eftir hundrað og tuttugu mínútur
    Mignolet verður hetjan í vító

    UNWA

Komdu með að kveðja tímabilið!

Byrjunarliðið á Wembley