Liverpool 3-0 Manchester City

Fyrir þennan leik vissi maður í raun og veru ekki hvaða Liverpool-lið myndi mæta til leiks í kvöld. Liðið er nýbúið að tapa í vítaspyrnukeppni í úrslitum Deildarbikarsins gegn liðinu sem það mætti í dag. Það hefði getað verið niðurbrotið lið sem var alveg drullu þreytt á að hafa hlaupið í 120 mínútur fyrir ekkert eða liðið hefði getað mætt með kassan út, hausinn upp og í hefndarhug. Sem betur fer var það seinna liðið sem mætti út á völlinn í kvöld.

Satt best að segja hefur stórsigur Liverpool sjaldan verið eins augljós og í kvöld, svipað og þegar liðið mætti Chelsea strax eftir að hafa tapað gegn þeim í FA bikarnum fyrir nokkrum árum. Samt pínu svekkjandi að hafa rústað City í tveimur af þremur leikjum en tapað í þeim leik sem skipti hvað mestu máli.

Jurgen Klopp breytti aðeins til í liðinu. Sturridge fékk hvíld ásamt Coutinho. Moreno var settur á bekkinn á meðan þeir Lucas og Sakho voru meiddir. Inn komu Lallana, Origi, Flanagan, Lovren og Toure. Á sama tíma gerðu City menn ekki miklar breytingar á sínu liði frá því um helgina – Yaya Toure var meiddur, Sagna fór á bekkinn ásamt Cabellero og Navas, Hart og Zabaleta komu inn. Öflugt lið hjá gestunum.

Mignolet

Clyne – Touré – Lovren – Flanagan

Milner – Can – Henderson

Firmino – Origi – Lallana

Bekkur: Ward, Skrtel, Moreno, Allen, Coutinho, Ibe, Benteke.

Það sást strax í upphafi leiks að Liverpool var mætt í leikinn til að hefna fyrir sunnudaginn. Klopp sagði fyrir leik að þeir vildu hefna sín á City því þeir tóku eitthvað sem þeir vildu, nú vildi City eitthvað og Liverpool ætlaði að taka það frá þeim. Það tókst – heldur betur!

Pressa Liverpool var alveg frábær. Á köflum gekk liðinu frekar brösulega að ná einhverju spili í gang en þökk sé sterkri vörn, frábærri vinnslu á miðjunni og hápressu hjá sókninni tókst Liverpool einhvern veginn alltaf að vinna boltann aftur og nokkurn veginn að kæfa sóknaraðgerðir City strax og þeir reyndu að hefja þær.

Liverpool kannski óð ekki beint í færum en komust framan af leikknum í nokkuð ákjósanlegar stöður en náðu ekki að láta það telja. Það var á 34.mínútu þegar Liverpool uppskar loks markið sem þeir áttu skilið. James Milner vann boltann við miðlínuna og potaði honum á Adam Lallana sem tók nokkur skref með boltann áður en hann tók mjög metnaðarfullt langskot sem hafnaði í netinu. Kannski hefði Hart mátt gera betur en þrátt fyrir að vera ekki fast þá var vinstri fótar skot Lallana hnitmiðað og fór í netið. Frábært mark og vel svo verðskuldað hjá Lallana.

Þetta mark var ekki til að drepa í Liverpool sem gáfu bara í. Á 41.mínútu átti Lallana hælsendingu í hlaupaleið hjá Firmino sem stakk boltanum inn á Milner sem tókst að skora virkilega gott mark og gerði út um leikinn með því. Sömuleiðis mjög verðskuldað mark frá Milner sem gæti kannski fengið á sig stoðsendingu fyrir mark Lallana.

Sama var upp á teningnum framan af í seinni hálfleiknum. Liverpool var yfirburðar betra liðið á vellinum, pressuðu City í kaf og áttu fínar sóknaraðgerðir. Til að fullkomna frábæran leik þríeykisins þá vann Lallana boltann rétt utan markteig City, lék sér aðeins með boltann og potaði honum loks á Firmino sem skaut honum í netið. Staðan því orðin 3-0 og Lallana, Milner og Firmino allir komnir með mark og stoðsendingu í kvöld.

Liverpool sá leikinn út. Kolo átti nokkrar frábærar rispur í vörninni og Lovren frábær við hlið hans. Henderson var hársbreidd frá því að skora beint úr aukaspyrnu og Allen átti þrumuskot sem fór ofan á þaknetið. Frábær leikur hjá Liverpool, mikilvægur sigur og færir liðið nær topp 4 baráttu þó það sé enn einhver spölur í hana.

Frábært svar við vonbrigðum helgarinnar frá leikmönnum Liverpool og Klopp. Ég hneigi mig fyrir liðinu, þetta var frábært – og við þurftum ekki einu sinni að nota Coutinho af bekknum til að kaffæra City!

Maður leiksins: Hefst þá upptalningin!

Mignolet hafði ekki mikið að gera í dag en virkaði nokkuð öruggur í öllum sínum aðgerðum. Ekkert út á hann að setja – þetta segir maður ekki oft!

Clyne og Flanagan voru virkilega góðir í bakvörðunum. Flanagan lenti stundum í smá basli en náði oftar en ekki að redda sér úr því og átti nokkur frábær moment í leiknum – til að mynda að strauja Sterling í upphafi leiksins, Anfield kunni vel að meta það virtist vera. Clyne var vinstra meginn í vörninni og leysti það afar vel, var góður fram á við og þéttur til baka. Basically allt sem þú vilt frá bakverði. Moreno virðist vera kominn í skammarkrókinn og spurning hvort þetta sé ekki eitthvað sem við munum sjá meira af á næstunni.

Vörnin sem byrjaði síðasta leik var frá vegna meiðsla í kvöld en Toure og Lovren létu þetta líta frekar auðveldlega út. Lovren er að mínu mati besti miðvörðurinn sem við eigum í dag – já ég er tilbúinn að berjast fyrir því – og held ég að það sé engin tilviljun endilega að vörnin sé þéttari og heldur oftar hreinu með hann í liðinu. Toure stígur varla feilspor. Maður grínast oft með hann og svona, hann er orðinn hægur en svona í alvöru talað – þegar hann spilar skilar hann einhvern tíman ekki sínu og rúmlega það? Kannski komið að leiðarlokum en hann er að gera Liverpool það erfitt fyrir að gefa honum ekki framlengingu á samningi sínum.

Henderson og Can voru frábærir á miðjunni. FRÁBÆRIR! Maður hefur stundum efasemdir á þeim sem tvíeyki, sérstaklega í leikjum þar sem þeir þurfa að stýra tempói, snúa með bolta og svona en í svona leik þar sem pressan er númer eitt, tvö og þrjú og reynt er að hafa megnið af leiknum fyrir framan þá – shit – þá eru þeir svo góðir. Þeir pressuðu City í kaf, þeir áttu góðar rispur og Can var alveg sérstaklega iðinn við að vinna boltann aftur. Þeir geta stundum farið í taugarnar á manni en þeir eru töffarar.

Origi var flottur uppi á topp. Hann skoraði ekki og átti kannski ekki mörg “striker-augnablik” eða mörg skot en hann var að tengja flott, var ógnandi í hlaupum og tókst að skapa mikið pláss sem samherjar hans virtust njóta í botn. Ég er svakalega hrifinn af þessum strák og var hræddur um að hann myndi ekki ná að meika það hjá okkur eftir erfiða byrjun en strákurinn hefur heldur betur tekið sig á. Potential-ið í honum er svakalega mikið.

Firmino var frábær. Hélt boltanum vel, var ógnandi, tók virkan þátt í spili og umfram allt þá var hann alltaf að kaffæra City í pressunni og var að vinna fínt magn af tæklingum þarna uppi í fremstu víglínu. Hann er svakalegur og er maður eiginlega eins og algjör kjáni eftir að hafa haft efasemdir um hann og hans aðlögun í Englandi á fyrstu mánuðum sínum í deildinnni. Hann er með sjö mörk og sjö stoðsendingar í vetur, það er bara helvíti gott ekki satt?

Milner var mjög góður og skoraði gott mark. Líkt og áður þá var hann að klikka svolítið í sendingunum á köflum en vinnusemin, hlaupin og þeir kaflar sem sendingarnar heppnast gerir hann að mjög flottum leikmanni. Hann var frábær í kvöld, skoraði gott mark og átti töffara fagn. Hann er líka með sjö mörk í öllum keppnum, hann er með fimm í deildinni og sjö stoðsendingar. Á árinu er hann með fjögur mörk og þrjár stoðsendingar – ekki slæmt James, ekki slæmt.

Ef ég ætti að velja einn – sem er afar ósanngjarnt – til að vera maður leiksins þá væri það held ég alveg klárlega Adam Lallana. Hann var alveg frábær í leiknum. Alltaf að í pressunni, sniðug hlaup hans, snúningar, dribbl og boltatækni komu miklu flæði í sóknarleikinn og hann átti það til að galopna völlinn. Hann skoraði gott mark og lagði upp annað. Ég hristi hausinn yfir því að menn vilji sjá Liverpool selja hann og telji hann vera eitthvað lykilvandamál hjá liðinu. Það er fjarri lagi. Ég held að Klopp elski hann og hyggist ekki selja hann, nema hann fái tilboð sem hann getur ekki hafnað eða fleiri leikmenn en hann bjóst við í hans stöðu. Hann virðist elska að spila undir stjórn Klopp og virðist smella eins og flís við rass í svona pressubolta.

Er hæst ánægður með þennan leik. Vonandi að sama verði upp á teningnum gegn Palace um helgina, við höfum líka harma að hefna þar, og vonandi ná upp góðri stemmingu og formi í liðið fyrir Evrópudeildarleikina gegn Man Utd í næstu viku.

Áhugaverð tölfræði eftir leik:

52 Comments

  1. 9-0 í síðustu 2 deildarleikjum og búnir að halda hreinu í 4 af síðustu 5 leikjum. Svo sem ekkert slæmur árangur. Liðið var frábært í kvöld og City á hálfum hraða. Lallana frábær í kvöld sem og Milner.

  2. Sælir félagar

    Það verður ekki af okkar mönnum skafið að við vitum aldrei hvernig liðið mætir inn á völlinn. Það leit lengi vel út fyrir að þetta yrði markalaust sprikl en svo varð þó ekki. Lallan, Milner og svo Firminio sáu til þess að City saup hel í þessari viðureign og sá í raun aldrei til sólar í leiknum.

    Góð þrjú stig í húsi og liðið sýndi hvernig það getur spilað ef allir leggjast á eitt og spila fyrir liðið. Ég sagði það í athugasemd við upphitun að ef Y. Toure yrði í óstuði þá ynnist þessi leikur. Hann var í svo miklu óstuði kallinn að hann sást ekki á vellinum og hefir líklega ekki verið þar. Það var í góðu lagi.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  3. Frábær frammistaða á heildina litið og City sáu ekki til sólar.

    Langt síðan miðjan hefur skilað jafnmiklu og í kvöld; Milner og Can voru alveg stórgóðir. Firmino, Flanagan og fleiri áttu frábæran leik en Adam Lallana var að spila sinn besta leik í rauðu treyjunni til þessa. Fádæmadugnaður hjá honum í pressunni, góður leiklestur, touch, sendingar, mark o.s.frv. 100% maður leiksins. Vonandi fáum við að sjá meira af þessu frá honum!

  4. Frábær spilamennska. Nú er bara að vona að menn mæti með sama hugarfar í næsta leik. Lallana maður leiksins að mínu mati!

  5. Sæl og blessuð!

    Unaðslegt, það sem ég sá af þessu! Tap eða jafntefli hefði algerlega rústað móralnum og tímabilinu, sem hefði verið komið ofan í toilettið. Núna er þetta aftur gaman og það er aldrei að vita hvað bíður. Þetta City lið var ógnarsterkt en þeir áttu engin svör við kraftinum og eljunni í okkar mönnum.

    Segir manni sitthvað um úrslitaleikinn, a.m.k. var gaman að sjá dugnaðinn í Flanagan sem hefði svo vel mátt vera þarna í stað hins mistæka Moreno. Og svei mér þá, Benedikt minn, gerði Kompany lífið erfitt. Mögulega hefði hann mátt djöflast í honum í fyrri hálfleik á sunnudaginn og skipta honum svo út fyrir Sturridge þegar leið á þann seinni.

    Greinilega hafa menn lært heilan helling og ég er viss um að leikurinn gegn mu mun bera þess merki að liðið er á nýju rönni.

  6. Vá þvílíkur baráttusigur hjá okkar mönnum. Ef liðiðhefði spilað í vetur á svona baráttu væri staðan önnur. En þetta var sætt!!!!!!!!!!!

    ÁFRAM LIVERPOOL.

  7. Stærsta breytingin var baráttan.
    Þeir lögðu allan kraft í þetta. Vörðust saman, börðust saman.
    Verst að þeir þurfa að kunna að gera það á þriggja daga fresti, þrjá mánuði í röð.

    Fá gott rönn í þetta núna og vera á öllum stimplum 10. mars.

    YNWA

  8. Sagt er að Joe Hart sé ennþá að leita að boltanum ?
    vine.co/v/igFWL5rrEhj

  9. Frábær sigur og engin tilviljun. Segi það enn eina ferðina, liðið er hörkugott en hugarfarið í vetur hefur verið alltof mikið upp og ofan. Það vinnur enginn mörg hundruð milljón punda lið samtals 7-1 í tveimur deildarleikjum fyrir einhverja slembilukku. Þetta er geta liðsins og ekkert röfl um það.

  10. Ekki jafn margir að tjá sig hérna þegar frábærir sigra koma eins og grátleg töp og lýsir það dálítið hugsunarhætti margra.

    En já þetta var frábær sigur liðsheildarinar þar sem liðið gaf allt í leikinn og let gremju sína eftir tapið um helgina bitna á gestunum og hefði þessi sigur geta orðið stærri.
    Mér fannst Lallana vera maður leiksins en hann var ógnandi, skoraði, lagði upp mark , var á fullu allan tíman og vann fyrir okkur boltan trekk í trekk með dugnaði. Man City menn voru orðnir mjög pirraðir á honum.

    Einnig fannst mér Millner, Origi, og Toure/Lovren vera frábærir í kvöld.
    Flanagan gaf tónin með hörku tæklingur á Sterling en átti í smá vandræðum í kvöld bæði með sendingar(tapaði boltanum þrisvar sinnum á mjög hættulegum stað) og í varnarleiknum þar sem hann lenti í vandræðum í stöðuni einn á einn.

    Flottur leikur og vonandi nær lið að byggja á þessu og detta ekki niður í eitthvað bull gegn C.Palace því að það kæmi mér ekkert á óvart ef eitt af toppliðunum fjögur endi mótið illa og þá þurfum við að vera tilbúnir að reyna að fara uppfyrir Man utd og ná í 4.sætið(það er nefnilega endþá 33 stig í pottinum).

  11. Þegar ég horfði á þennan leik þá rann það upp fyrir mér að Kolo Toure er búinn að vera okkar traustasti varnarmaður þetta tímabil.

    – Lovren hefur verið meira og minna meiddur.
    – Skrtel er búinn að vera óstöðugur, meira að segja á hans eigin mælikvarða.
    – Sakho einfaldlega ekki verið nógu góður. Í raun bara virkilega lélegur.

  12. Já, sammála, þetta var þungarokk!

    Vonandi fáum við að sjá þessa spilamennsku hjá liðinu það sem eftir er leiktíðar og enda þannig þetta mót sómasamlega. Vandamálið við Liverpool á þessu tímabili er einmitt þessi rosalegi óstöðugleiki. Vitum aldrei hvaða Liverpool-lið mætir til leiks hverju sinni.

    En þetta var frábært í kvöld og full ástæða til að hrósa liðinu. Ég vil taka svo djúpt í árina og segja að þetta var langbesti leikur Lallana í Liverpool-treyju. Hann var algerlega frábær. Milner var líka mjög góður og í raun allt liðið í heild sinni.

    Vil áfram láta reyna á þetta samstarf Lovren og Toure í vörninni.

    Bring on Palace!

  13. Ég trúi því varla að viðvera mín á leiknum á sunnudag hefi haft svona mikil áhrif, djöf hefði maður verið sáttur við að sjá þennan leik á sunnudag á Wembaly, það hefði gert pissuferðirnar á þessa sundlaug sem þeir kalla salerni vel þess virði.

  14. Milner hefur skorað 41 mark í PL á ferlinum og hann hefur aldrei tapað leik í PL sem að hann hefur skorað í. Mögnuð tölfræði!

  15. Besta heimavallarframmistaða liðsins á þessu timabili.

    Erfitt að velja mann leiksins. Kolo var magnaður. Lallana var magnaður. Emre Can var virkilega góður. En minn maður leiksins er Milner, var frábær í kvöld.

    Nú er bara að taka Palace-grýluna í næsta leik á meðan united mun tapa fyrir WBA.

  16. þið sem voruð að væla yfir lokaðri rás hjá 365… ef að þið meðalgreindu mannapar hafið fattað að taka myndlykilinn úr sambandi og smellt kvikindinu aftur í samband þa hefði þetta virkað. (bara smá tips ef þetta skéður aftur). Geggjaður sigur og frábær úrslit í þessari umferð, ef við klárum næstu 3-4 leiki þá erum við komnir aftur inní þetta !

  17. Þetta var frábær sigur og góður fótboltaleikur. PUNKTUR. Allt tal um fjórða sætið er tilgangslaust. Það gerist ef það gerist. Sé það ekki gerast, en við getum rætt það ef það gerist. Njótum þess bara að hugsa til aumingja Sterling sem var tekinn og étinn upp til agna af Scouse-vélinni Flanagan, sem er væntanlega ennþá svangur (enda er Raheem ekki nema svona 140cm og 30kg).

    Firmino og Milner áttu einstaklega góðann leik, eins og við var að búast. Bobby Firm verður hetja á Anfield fyrr en síðar. Sjáið bara til. Ég verð hinsvegar að gefa þremur herramönnum sérstakt shout out:
    (1)Flanagan var eins og skepna allan leikinn, hann át allt sem hann fann. Hann á að starta alla stóra leiki fyrir mér.
    (2)Can hefur fengið verðskuldað last að undanförnu, en hann var óaðfinnanlegur á miðjunni í kvöld. Hann barðist og vann svo vel og skapaði einnig og byrjaði margar mikilvægar sóknir. Svo þegar hann missti boltann eða gaf hann frá sér vann hann boltann aftur. My main man Can má alveg halda þessu áfram!
    (3)Lallana var STÓRkostlegur í kvöld. Þvílíkt talent sem leynist í þessum manni. Ég vil að hann byrji næsta leik. City réð einfaldlega ekki við hann.

    Svo verðum við að gefa Lord Kolo hrós, en hann stóð sína vakt með miklum ágætum. Spái því að hann fái samning þar til hann verður 47 ára og ákveður að leggja skóna á hilluna.

    Meira svona!

  18. Eins og sagt var í gamla Mortal combat leiknum – Flawless victory!!

    Flanagan er bara miklu,miklu betri en Moreno í þessari stöðu og yndislegt að sjá hann vinna tilbaka þá bolta sem hann tapaði uppi við miðsvæðið. Lallana maður leiksins og Can hrikalegur dreki á miðjunni.

    Frábært kvöld og við tókum svo sannarlega frá þeim það sem þeir vildu á Anfield – 3 stig og titilvæntingar.

  19. Frábær sigur,,en samt svo dæmigerður…Maður hefur engar væntingar fyrir leiknum og þá BOOM og þeir spila eins og englar, já allavega eftir að fyrsta markið….En svo er algerlega skrifað í skýin að næsti leikur verður skita..Síðustu 2 ár hafa verið þannig..Og plís..EKKI nefna þetta 4. sæti á nafn..ENGINN ;)….Þessi deild í ár er bara sturluð…..Nú væri fínt ef liðið myndi mæta með kassann úti og vinna Palace….Leikmenn liðisins hljóta að vera farnir að skynja að þeir eru að spila fyrir framtíð sinni i restina að tímabilinu…
    Og ég hef engar væntingar fyrir leik helgarinnar 😉

  20. Sæl öll.

    Frábær leikur hjá okkar mönnum og mjög sanngjarn sigur. En nú er þessi leikur búinn og fyrir liggur næsta verkefni.
    Burtséð frá þessum leik vil ég koma eftirfarandi skoðun minni á framfæri hér inni á þessari síðu: Mignolet er besti markmaður Liverpool (ég hef skipt um skoðun og það á ekki að selja hann heldur kaupa annan betri og Mignolet færist niður á bekkinn). Clyne er besti bakvörðurinn og Flanno og Moreno á að halda og kaupa inn sterkan vinstri bakvörð. Lovern er besti miðvörðurinn þar á eftir er Skrtel, notum Lucas áfram í miðverði og það er þegar búið að fá einn miðvörð og látum King Kolo fá 1 árs samning, aðrir meiga fara. Can er besti miðjumaðurinn, Henderson, Milner og Grujic verða áfram og því þarf að kaupa 2 mjög sterka miðjumenn. Coutinho og Firmino eru bestu sóknartengiliðirnir (get ekki gert upp á milli þeirra), Lallana má fá eitt tímabil til viðbótar og ég vil Markovic til baka og því þarf að kaupa einn mjög góðan. Það er þvílíkur höfuðverkur að velja sóknarmann. Sturridge er langbestur þegar hann er heill, Benteke er ekki að skilja upplegg Liverpool og þarf að fara, Ings er meiddur og hefur ekki spilað nóg til að meta en það er vitað að vinnusemi hans er óþrjótandi og það virðist vera Klopp að skapi og því fær hann a.m.k. næsta tímabil til að sanna sig og Origi er mjög spennandi. Að mínu viti væri best að fá inn einn mjög sterkan framherja og halda Sturridge, Ings og Origi.
    Það eru því 6 leikmenn til viðbótar þeirra sem þegar eru komnir sem þarf að kaupa í sumar og hvað ég er farinn að hlakka til þess þó að 11 leikir séu eftir í deildinni og vonandi fleiri en 2 í UEFA cup.
    Núna verður þetta blessaða lið að sýna smá stöðugleika og vinna Cristal Palace á sunnudaginn. Næst á eftir Tony “fuc….” Pulis, þooooooooli ég ekki Alan Pardew og þeirra lið!?!!

  21. Rústuðum þessu liði, hefðum líka átt að gera það líka á sunnudaginn. Gaman að sjá scouser Flanno kominn tilbaka ??

  22. Frábær sigur og sýnir muninn þegar við erum með alvöru hreyfanlegan framherja eins og Origi frammi þá er miklu betri lisðheild og hreyfing án bolta. Snilld að fá Flanagan aftur í byrjunarliðið og mikið Liverpool-hjarta sem þessi strákur sýnir alltaf. Rífur allt liðið með sér.

    Fyndið samt að líklega hefðu Liverpool verið til í að tapa þessum leik og vinna á sunnudaginn í staðinn. Sama má segja um olíufurstana í Man City sem vilja örugglega frekar koma sér í CL og titilbaráttu en vinna Deildarbikarinn. Er ekki hægt að biðja FA að breyta þessu ef bæði lið biðja um það?!

  23. Geggjaður sigur. Er farinn að hugsa um að ég vilji verðlauna hrossið Emre Can sem fyrirliða á næsta timabili.

  24. Gat því miður ekki séð leikinn. Býð spenntur eftir MOTD yfirferð. Er enn grenjandi úr hlátri eftir að hafa séð viðtalsbrotin við Herr Klopp sem finna má á Fésinu. Þessi gaur en bara snillingur.

    BOOM!

  25. Þvílíkur leikur. Mikið er ég ánægður. Vissulega er þetta næst besta lið Manchester borgar sem við unnum en mikið er ég ánægður. Manchester United verða aftur á móti erfiðari með Rashford fremstan í flokki. Getum búist allavega við 2 mörkum frá þeim stórkostlega leikmanni. Vonandi vinnum við samt. Áfram Liverpool.

  26. mikid svakalega vona eg ad tessir drengir klari tetta timabil med tessum haetti ! taki 4 saetid ad tessum manchester lidum og slatri utd utur eurol… ef tetta gerist mun eg minnast tetta timabil med godu….

    en sattur med lidid i kvold svaradi kallinu og stodu upp eftir hoggid eins og a ad gera versta er ad teir eru fljotir ad gleyma og gaetu komid sofandi inn i naestaleik

  27. Algjörlega frábærir í dag en af hverju í ósköpunum getur þetta ekki verið reglan? Meira af þessu takk.

  28. Sæll hvað okkar menn voru frábærir, ég er nú ekki ýkja hrifinn af þungarokki en þetta þungarokk hjá liðunu okkar fíla ég í botn, koma svo LIVERPOOL , áfram með þungarokkið, nóg eftir af stigum í pottinum, djö…. væri það góður draumur ef bæði Manchester liðin yrðu fyrir neðan 4 sætið og við næðum því í staðinn, eins og segir í laginu ” ég lifi í draumi…… “

  29. Flanagan for president!!….einfaldlega okkar langharðasti varnarmaður. Það bara verður að vera plass i liðinu fyrir mann sem skilur andstæðingana eftir i grasinu nr.1 og spair siðan hvar boltinn er nr.2

  30. Algjörlega geggjað hvernig strákarnir komu til baka eftir svekkelsið um helgina. Ef þetta er módelið sem Klopp vill láta liðið sitt spila í hverri viku þá erum við að fara á lengstu rokktónleika sögunnar í haust, þeir munu vonandi standa yfir í mörg ár!

    Það var stórkostlegt að sjá vinnusemina og hápressuna, sem svínvirkaði á þetta milljarðalið. Ekki var heldur leiðinlegt að sjá þennan strákskít sem heitir Sterling vera tekinn í bakaríið af alvöru púllara. Flanno verður að fá 5 ára samning sem fyrst. Það er ekki séns að Klopp muni láta hann fara enda er hann custom made inn í kerfið hans Klopps.

    Allir vor flottir í gær og sem betur fer fékk Mignolet ekki svona mark á sig eins og markið hans Lallana, sá hefði verið tekinn af lífi. Joe Hart sleppur hins vegar við alla gagnrýni. Virkilega illa gert hjá þessum markmanni í þessu marki.

    Hvað framhaldið varðar að þá er best að blása sem minnst í blöðruna en staðreyndin er engu að síður sú að við erum 6 stigum frá 4-5.sætunum og eigum einn leik til góða (shitý líka). Shittý og arsenal eru í lægð núna og manjú vinnur leiki með harðlífiskrömpum, afturendinn á þeim þolir ekkert svoleiðis álag mikið lengur.

    Staðan er þessi, að mínu mati. Með nokkrum sigrum í röð núna þá gæti hugsanlega opnast möguleiki á einhverju frábæru. Ég treysti því að strákarnir sýni að þá hungri í það!

  31. Sælir félagar

    Það sem skemmti mér mest (fyrir utan mörkin) var að horfa á Flanno pakka gengisfelldu Sterlingspundinu saman allan fyrri hálfleikinn. Það var þungarokks-slamm af bestur gerð.

    Maður leiksins fyrir mér var Can, eða kannske Lallana eða Toure og þó, Milner kemur alveg til greina og svo Lovren og Hendo átti sinn besta leik í langan tíma nú eða þá Firminio eða Clyne og jafnvel Minjo er hugmynd og svo auðvitað Origi. Neir ég bara veit ekki en ég er sáttur.

    Það er nú þannig

    YNWA

  32. Eftir svona leik er maður náttúrlega aðeins í skýjunum en maður er náttúrlega löngu farinn að hugsa um næsta season. Ef við skoðum hópinn núna þá lítur staða svona út fyrir næsta season:

    Ef við miðum við leikkerfið 4-2-3-1 / 4-5-1

    GK: Mignolet
    Ég bara veit ekki hvað Klopp gerir en myndi segja þetta væri 50/50

    DLR – Flanagan, Clyne, Monerno
    Vantar DL sem fyrsti kostur og Moreno 2nd

    DC- Matip, Lovern, Shako, Gomez (Skertl og Toure)
    Þetta er bara ready

    DMC – Can, Henderson (Grujic)
    Alltof þunnt. Mér finnst vanta hérna einhvern alvöru DMC ekki efnilegan heldur tilbúinn!!

    AM – Frimino, Lallana, Milner, Coutinho (Ibe)
    Þetta er ekki næg breidd. Þurfum amk einn efnilegan/tilbúinn

    FC – Sturridge, Origi (Ings)
    Ef við ætlum að gera eitthvað hér þarf að láta einhvern fara… Kannski fínt að hafa Sturridge svona 35% heilan á meðan Origi er að læra?

    Ég nenni ekki tala um menn eins og Benteke og Enrique

    Semsagt 2-4 kaup! Ég er eiginlega hissa hvað hópurinn er í raun sterkur á blaði

  33. Vá hvað einn svona glæsilegur sigur getur lyft móralnum upp, bæði hjá liðinu og auðvitað stuðningsmönnum!

    Henderson var alveg spot on þegar hann sagði að lykilmómentið í leiknum var tæklingin hans Flanagan snemma í leiknum. Það var klárlega upphafið að þungarokkinu! 🙂

    Hlakka til næsta leiks en er þó alveg rólegur með væntingarnar. Verður spennandi að sjá hvaða Liverpool-lið mætir til leiks á Palace.

  34. Haddi. Góð upptalning nema einu get ég ekki verið sammála. Það að miðverðirnir séu klárir. Miðverðirnir og varnarvinnan á miðjunni hefur einmitt verið lélegi hlutinn í heild hjá liðinu í vetur. Ef einhver getur sannfært mig um að fyrstu miðverðir næsta tímabil séu á pari við Carragher/Hyppia þá fellst ég á að þeir séu klárir. Meðan svo er ekki þá tel ég að miðverðirnir séu ekki klárir. Með slakri vörn geturu unnið leiki en með sterkri vörn vinnuru mót, það er margsannað aftur og aftur. Sjáum það á meisturum undanfarinna ára, Terry, Vidic, Ferdinand, allt lykilmenn í sínum liðum og almennt mjög stöðugir. Ég held að það sé ekki vafi að Suarez árið hefði Liverpool unnið deildina með yfirburðum ef miðverðirnir hefðu verið betri. Ef ég mætti bara kaupa einn leikmann fyrir félagið og eyða slatta af peningum þá myndi ég kaupa besta miðvörð sem hægt væri að finna. Annars er liðið hörkugott og þarf ekki annað en að skoða bestu úrslitin í vetur til að sjá það.

  35. Jesus hvað þessi leikur kveikti i áhuganum mínum á liðinu aftur, smá neisti og við vonum að eldurinn brenni lengi.

  36. Langaði bara að flagga Flanno aftur.
    Tæklingin í upphafi gaf tóninn.
    Nokkrir hér sem draga strákinn fram og algerlega verðskuldað.

    Er þetta ekki málið? Hann er ekki sá tæknilegasti. En hjartað Guð minn góður.
    Hann er nýkominn til baka eftir svo erfið meiðsli að sumir hefðu bara hætt.

    Hann missir eina og eina stöðu en hann skilar boltanum vel og ákveðið frá sér, hann gefst aldrei upp og hann er tilbúinn til að tækla sterlingspundið uppí stúku frá fyrstu mínútu.

    Meira svona takk fyrir.
    YNWA

  37. Ég sá þennan leik og fannst hann mjög góður hjá okkar mönnum. Mér fannst þetta besti leikurinn hjá þeim á tímabilinu, aðallega vegna úrslitanna í síðasta leik. Ég hef lesið flest sem hefur verið skrifað inn á þessa síðu og fundist Lallana hafa fengið oft á tíðum óvægna dóma, hann á að mínum dómi eftir að vera lykilmaður í þessu liði, hefur gerbreyst síðan Klopp tók við.

  38. Talandi um varnarleik, þá verð ég að vekja athygli á Flannó þegar Firmino tapaði boltanum á hættulegum stað á 45 min og MC brunuðu fram. Flannó var kominn hátt upp á hægri kant og snér til baka. Sterling brunaði í holuna í miðjum vítateignum og fékk sendingu frá Aquero, en ekki þó, því þar var téður Flannó mættur og renndi sér fyrir sendinguna og bjargaði sennilega marki. Og þó – Sterling óvaldaður fyrir opnu marki er sennilega ekkert hættulegt færi!

    Annars var þetta frábær leikur hjá okkar mönnum. Við þurfum bara að mæta svona stemmdir í fleiri leiki.

    YNWA

  39. Góð liðsheild skapaði þennan sigur. Get samt ekki tekið undir að Henderson hafi átt frábæran leik, sendingar frá honum eru bara afleitar. Vondar fyrirgjafir og það að hann hittir aldrei á markið úr aukaspyrnum setur hann bara í B flokk, Sorry.

Liðið gegn City

Crystal Palace á morgun