Evrópa. United. Old Trafford. Á morgun.

Okkar menn heimsækja erkifjendurna í Manchester United á morgun í seinni leik 16-liða úrslita Evrópudeildarinnar. Eins og við vitum öll fara okkar menn með myndarlegt 2-0 forskot í vasanum inn á Old Trafford en það er alveg á hreinu að ef einhver heldur að þetta einvígi sé búið þá skjátlast viðkomandi.

Þetta er jú einu sinni Manchester United. Í tíð Louis Van Gaal hafa þeir unnið okkar menn 3-0 og 3-1 á Old Trafford þannig að þeir geta alveg unnið 2-0 á morgun og núllað fyrri leikinn út. Hæglega. Í raun er svekkjandi að þetta skuli ennþá vera lifandi einvígi því yfirburðir Liverpool á Anfield fyrir viku voru slíkir að það var eiginlega svekkjandi að vinna bara 2-0 sigur. Vonandi bíta töpuðu færin í þeim leik okkar menn ekki í rassgatið annað kvöld.

Meira hef ég eiginlega ekki um United að segja, í bili. Ég er búinn að reyna að taka saman punkta alla vikuna og finna einhvern flöt á umfjöllun um mótherjana en ég bara hef það ekki í mér. Fyrst og fremst held ég að ég sé orðinn þreyttur á þessu United-liði undir stjórn Van Gaal. Það eru tæp þrjú ár síðan veröld þeirra hrundi, faðirinn sjálfur yfirgaf sviðið og David Moyes stóð fyrir stórkostlegu hruni á spilamennsku liðsins. Á sama tíma barðist Liverpool um titilinn í fyrsta skipti í fleiri ár. Það eina sem hefur breyst síðan þá er að Liverpool varð aftur lélegt í fótbolta og síðustu tvö tímabil (yfirstandandi meðtalið) hefur það bara verið getuleysi okkar manna sem hefur gefið United einhvers konar forskot í rígnum milli borga. Því ekki er mikil reisnin á Manchester United, risanum sjálfum, síðustu þrjú ár.

Það var því afskaplega hressandi að sjá þá loksins spilaða út af grasinu með skottið milli lappanna á Anfield fyrir viku. Það er ekki þar með sagt að þetta Liverpool-lið sé orðið fullkomið, vinnan sem bíður Jürgen Klopp er ennþá ærin, en það væri samt virkilega vel þegið ef liðið kláraði dæmið nokkuð örugglega á Old Trafford á morgun.

Af okkar mönnum er það helst að frétta að James Milner er orðinn heill af veirusýkingunni sem neyddi hann til að sleppa síðasta leik. Ég er nokkuð viss um að hann kemur inn í liðið á ný, sérstaklega þar sem við ætlum að vernda forystu, og spurningin er bara hver á að víkja fyrir honum eftir svona flotta frammistöðu síðast. Ég ætla að giska á að Daniel Sturridge verði á bekknum, ekki síst þar sem það er erfiður útileikur gegn Southampton í deildinni um helgina þar sem við þurfum á kröftum hans að halda.

Þetta verður liðið á morgun:

Mignolet

Clyne – Lovren – Sakho – Moreno

Milner – Can – Henderson

Lallana – Firmino – Coutinho

Bekkur: Ward, Toure, Smith, Allen, Origi, Sturridge, Benteke.

Sem sagt, Ojo víkur af bekk fyrir Sturridge, Milner tekur sæti hans í byrjunarliði. Annars sömu 18 og á Anfield fyrir viku. Þá er vert að minna á að þeir Lovren og Moreno eru á hættusvæði, ef þeir fá gult annað kvöld og okkar menn komast áfram verða þeir í leikbanni í fyrri leik 8-liða úrslita. En við höfum áhyggjur af þeirri brekku þegar kemur að henni. Fyrst er að klára þessa hindrun.

Mín spá: United-menn eru særðir. Bæði leikmenn og stuðningsmenn. Og höfum það á hreinu að stuðningsmennirnir munu heimta blóð annað kvöld. Ég býst við hörkustemningu á OT annað kvöld og tel að það muni hjálpa heimamönnum að byrja leikinn af krafti. Í raun tel ég lykilinn að áframhaldi Liverpool úr þessu einvígi liggja í því að skora útivallarmarkið, og það helst snemma til að kála einvíginu, því United er ekki að fara að skora 4 mörk gegn okkur annað kvöld.

United skora snemma en Firmino jafnar fyrir hlé og þar með er einvígið búið. Bæði lið hvíla leikmenn í seinni hálfleik. 1-1 lokastaðan. Ég myndi þó alveg sætta mig við annan 2-0 sigur á morgun, enda er Liverpool einfaldlega með betra lið en United, þrátt fyrir ýmsa galla. Og hana nú!

Koma svo strákar, reddið montréttinum fyrir okkur næsta hálfa árið! Annað Evrópuævintýri bíður ef þið bara haldið haus annað kvöld.

YNWA

32 Comments

  1. eg bara hef rosalega tru a ad vid forum i gegn i þessu einvigi. utd skortir bara alla tru og v.gaaaaLinn hefur lika personutofra og ljosastaur

  2. Moreno haltraði á æfingu í dag. Sennilega ekki með á morgun.

  3. Get ekki með nokkru móti hugsað mér að detta út úr þessari keppni gegn United eftir að hafa unnið fyrri leikinn 2-0. Ég veit ekki hvort ég nái mér nokkurntímann að fullu ef það gerist.

    Vona og trúi að við vinnum 1-2 í kvöld.

  4. #4

    Why not? Af því að Lallana er búinn að vera mjög góður upp á síðkastið en maður getur aldrei treyst á Benteke.

  5. Merkilegt að Klopp vildi ekki gera eins og United að fá að halda seinustu æfingu fyrir leikinn á Anfield og leyfa leikmönnunum að gista heima hjá sér. United gerðu það og fengu undanþágu frá UEFA til þess. En það er kannski ekkert svo mikill spenna á milli klúbbana akkurat núna, allavega er hér góð mynd af Rooney að taka í höndina á Klobb, sem sýnir kannski hversu mikla virðingu hann hefur.
    http://imgur.com/LvqbefZ

  6. Dugar 3-0 þeim ekki?
    Ég sé það ekki gerast, en ef þeir mæta í hefndarhug og okkar menn í einhverju fríí þá sé ég kannski 2-0 eftir 90min……
    Nei bíðið aðeins við.. Ég var búinn að gleyma því að man utd getur ekki neitt lengur. Þeir hafa og verða eins og hauslaus hæna á eigin heimavelli og Friminio setur sína fyrstu þrennu!!

    Mikið er ég feginn að Ferguson er hættur

  7. Jafntefli í þessum leik væru fín úrslit. Efast um að Liverpool spenni upp hraðann í þessum leik amk til að byrja með. Þetta er spurning um skynsemi án þess að vera of værukærir. Man Utd hlýtur að hleypa leiknum upp sem fyrst og jafnvel fórna einum varnamanni fyrir vikið. Veit ekki hvort Klopp tekur sénsinn að hvíla einhvern sem þarf hvíld eða er hálfmeiddur. Held hann ætti að skella Smith inná og hvíla Lallana eða Sturridge, jafnvel báða. Sennilega þurfa Can og Henderson ekki hvíld á þessu stigi, þrátt fyrir endalaus hlaup og læti í síðustu leikjum.

  8. Skammastu þín Björn #6, ég frussaði morgunkaffinu yfir Ipadinn minn yfir þessari mynd 🙂

    En ég er fáránlega rólegur yfir þessum leik. Mutd verða að skora og þegar Coutinho setur eitt beint úr aukaspyrnu á 23 mínútu þá mun allt hrynja og leikskipulagið verður alveg van gaalið.

  9. Það væri frábært ef við náum skora fyrst í fyrra hálfleik. Það þýðir ManU þarf skora 4 mörk til slá okkur út.
    Þetta ætti þagga niður stuðningsmönnum þeirra út leikinn. Pota einu mark og leikurinn er okkar.

  10. ég ætla að spá þessu 1-4 eins og í leiknum 2009, Sturridge 2, Kútinjó 1 og Can 🙂 við komumst í 0-3 áður en united skorar 1 kv Bjarni

  11. Það þarf eitthvað stórkostlegt slys að eiga sér stað ef við eigum ekki að fara áfram.

    Van Gaalni og félagar eru ekki að fara vinna okkur 3-0 eða 4-1. Þeir hvorki hafa getu né úthalt í slíkt í núverandi formi. Hálft liðið þeirra er á sjúkrabekknum auk þess var liðið að spila (og gerðu upp á bak) á móti West Ham um helgina á meðan okkar menn gátu slakað á og undirbúið sig.

    Þeir höfðu ekkert leikplan í síðustu viku á Anfield og munu sennilega leggja upp með sama óleik í kvöld.

    Old Trafford og allt, jújú, þessi leikur gæti tapast naumlega eða farið í jafntefli, en Liverpool fer áfram.

  12. Við vinnum þetta1-3 firminho með tvö og hendo með eitt..

  13. Áhugavert að leikjaprógrammið í deildinni á eftur 8 liðum. Gróflega eiga West Ham og Southampton erfiðasta prógrammið. Arsenal á bara einn “erfiðan” leik (Man City) eftir af 9.

    LFC er með nokkuð “auðvelda” leiki. Tottenham og Chelsea verða lang erfiðustu.

    Ég setti inn illa ígrundaða spá um loka leikina og þetta var niðurstaðan:
    1. Leicester 77stig
    2. Man City 76stig
    3. Arsenal 74stig
    4. Tottenham 72stig
    5. Liverpool 70stig
    6. West Ham 66stig
    7. Man Utd 63stig
    8. Southampton 56stig

    Eðli málsins samkvæmt er ég mjög bjartsýnn á að Liverpool klári deildina með glans en það virðist samt ekki duga. Það er þó smá vonarglæta 🙂

    Skemmst er frá því að segja að Leicester brýtur blað í ensku deildinni og vinnur hana með 1 stigi. Man Utd skrifar líka í sögubækurnar með fæst stig síðan 1991.

  14. Sko…. ef reynslan sem stuðningsmaður Liverpool FC hefur eitthvað kennt manni þá er það nákvæmlega það að vera með hjartað í lúkunum fyrir svona leik einsog í kvöld! Samlíking með hvekktum hesti er ágæt! Svo… best að setja sig í stellingar… Allt getur gerst! En mikið myndi nú lyftast á manni brúnin ef okkar menn setja eins og eitt mark snemma leiks… útivallarmarkið er gulls ígildi. Koma svo…. það er fátt eins yndislegt eins og að strá smá salti í sár Man. Unt. aðdáenda. Verst að hin hliðin á þeim pening er að það er fátt eins ömurlegt eins og að fá salt í sín eigin sár frá hinum sömu!! -_- 🙂

    YNWA

  15. Sæl öll.

    Nkl #16, þó að fyrri leikurinn geti leyft manni að vera bjartsýnn er ekkert í hendi.

    Það eru mjög margir óvissuþættir í fótbolta og ekkert er gefið. Ég er t.d. mjög stressaður yfir dómaranum sem settur er á þennan leik og það er eitthvað sem segir mér að hann verði svolítið í sviðsljósinu í kvöld.

    Mikið svakalega vonar maður samt að Liverpool bara einfaldlega keyri yfir þetta fu…. lið strax í byrjun og klári þetta bara strax.

  16. Það væri gaman að vinna þá á Shitford hahahahaha

  17. Ég er bjartsýnn en það má alls ekki vanmeta særða Old Trafford menn. Við erum auðvitað á öðrum stað í dag með liðið okkar í dag en megum samt ekki gleyma að það þarf að hafa fyrir þessu og við höfum þegar tapað 3-0 og 3-1 fyrir þessu liði undir stjórn Hollendingsins. Can er með þetta, hann segir að við þurfum að sækja og skora á þá. Sammála Þjóðverjanum okkar, við megum alls ekki leggjast í vörn. Eitt mark og við erum búnir að setja þá í afar vonda stöðu.

    Takk fyrir góða upphitun.

  18. Skíthræddur við þennan leik.

    En ég spái jafntefli og við sláum þessa andskota út úr Evrópu.

    Gildir að halda haus nú þegar við mætum þeim svona særðum frá síðasta leik.

    Áfram Liverpool!

  19. Hef ekki orðið jafn spenntur, stressaður og kvíðinn fyrir leik síðan ég man ekki hvenær! Má bara ekki fara á versta veg, það bara má ekki!

  20. Hvað kostar stakur leikur hjá 365, vitið þið það ?, og hvar kaupir maður hann ?

  21. Ég held að Van Gaal fari varlega inni leikinn þvi hann veit að okkar menn geta refsað allrosalega ur skyndisóknum og eg held að okkar menn ættu þvi að byrja a að sækja fyrstu 15 -20 mínúturnar og freista þess að ná þessu mikilvæga útivallarmarki.

    Maður er að deyja ur stressi fyrir þenna leik og vill helst að þessu ljuki sem fyrst

  22. Svaf yfir mig í morgun. Er drullustressaður yfir að hafa mögulega eyðilagt leikinn fyrir Liverpool í kvöld.

  23. Var með Liverpool dólg í firsta skiptið síðan Súarez fór við Manu menn í vinnunni… Vonandi að það haldi áfram á morgun. Annars dreymdi mér 3-2 tap en það er víst sigur annars er engin spurning um þetta….. spá bara öðrum grjóthörðum 0-2 sigur og De gea maður leiksinns ásamt Firmino

  24. #23
    Ef að þú ert með myndlykil frá símanum geturu farið inn í viðburðir og keypt hann þar en hann kosta 3.100 kr. Ég veit ekki hvernig þetta virkar með myndlykil frá Vodafone.

  25. Kristján Aðal: Kostar hann í alvöru 3.100!!!
    Vá…hvað er að þessu liði….

    Eins og ég hef sagt áður þá myndi ég gjarnan kaupa stakan leik ef hann kostaði svipað og bíómynd eða um 800 kall. Hugsa hreinlega að þeir fengju meiri innkomu með því móti en til þess þarf hugrekki…sem þeir hafa ekki, því miður

  26. Ég er sammála þér Islogi með það að 3100 kr er dálítið mikið en ef að 3 eða 4 kaupa þetta saman að þá er þetta strax betra.
    Síðast þegar að ég skoðaði svona stakan leik hjá þeim kostaði hann 1800 kr og ég var að búast við að þessi myndi kosta svipað en þeir eru væntanlega að hækka verðið af því að þetta eru Liverpool vs United í mikilvægum leik þannig að þeir nýta sér það að þetta er stórleikur.

Kop.is Podcast #113

Liðið gegn United