Dortmund á Anfield! Einhver spenntur?

Anfield klukkan 19:05 á fimmtudagskvöldið 14. apríl 2016. Guli Herinn mætir á svæðið til að berjast við Rauða Herinn. Loksins fá menn að sjá Marco Reus á heimavelli Liverpool, þó svo að kannski sé hann ekki í þeim búningi sem menn hafa verið að vonast eftir síðustu árin. En hvað? Á skalanum 1-10, hversu spenntir eru stuðningsmenn Liverpool fyrir þessum risaslag? Hversu líklegt er að í vænd sé enn eitt af þessum heimsfrægu Evrópukvöldum á Anfield? Haldið þið að stuðningsmennirnir á Anfield annað kvöld muni halda aftur af sér vegna þess að þessi síðari leikur í 8-liða úrslitum í Evrópukeppni sé í Evrópudeildinni frekar en Meistaradeildinni? Uhh, NEI. Það verður allt á yfirsnúning í stúkunum.

Mikið lifandis skelfingar ósköp er það þreytt og gömul tugga að tala um að næsti leikur sé sá mikilvægasti á leiktíðinni, það er ansi hreint oft þannig. En er nokkur í minnsta vafa með það að þessi seinni leikur gegn Þýskalands risunum í Dortmund sé sá mikilvægasti á þessari leiktíð? Rétt úrslit tryggir okkar mönnum sæti í undanúrslitum og þar með 3 leikjum frá því að geta hugsanlega tryggt sig inn í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á næsta tímabili og um leið að lyfta virkilega góðum og mikilvægum bikar. Ég held að allur knattspyrnuheimurinn sé sammála um að Dortmund sé sterkasta liðið sem eftir er í þessari keppni. Náist það markmið að ryðja þeim úr vegi, þá myndu bíða þrír leikir, líklegast gegn 2 af Villareal, Sevilla og Shakhtar Donetsk. Auðvitað eru leikir gegn þeim liðum ekkert “Walk in the Park” en klárlega fínn möguleiki á að fara alla leið í keppninni.

En er raunhæft að ætla að okkar menn geti klárað þetta sterka Dortmund lið? Fyrirfram þá hræddist maður útileikinn mest, þ.e. Dortmund eru hrikalega sterkir á heimavelli og stuðningsmenn þeirra eru þekktir fyrir frábæra stemningu. Jurgen Klopp sýndi vel mátt sinn í þessum fyrri leik og náði að núlla út þeirra helstu hættur. Auðvitað getur vel verið að þeir Reus og sóknarmennirnir með erfiðu nöfnin, hafi einfaldlega átt vondan dag og að Klopp hafi ekkert að segja með þeirra frammistöðu, en ég efa það stórlega. Allavega miðað við formið sem þeir hafa verið í þetta tímabilið og það að þeir skyldu allir vera teknir út úr leiknum. Mikið vona ég að þeir eigi þá allavega einn vondan dag í viðbót og það á Anfield. En já, það er algjörlega raunhæft að klára þetta lið. En til þess þarf lið Liverpool að eiga mjög góðan dag, ekki bara góðan, heldur mjög góðan. Varnarleikurinn þarf að vera þéttur og svo þurfa menn að nýta færin hinum megin á vellinum. Miðað við færin sem sköpuðust í fyrri leiknum, þá ætti staðan að vera öðruvísi og betri. Menn hreinlega verða að nýta þetta betur.

Þetta Dortmund lið er ákaflega vel skipað og vel rúmlega alvöru landsliðsmaður í hverri stöðu og oftar en ekki tveir slíkir. Sá eini af þeim sem ekki verður klár í slaginn er Subotic, en hann verður frá út tímabilið. Ekki nóg með það, heldur hvíldu þeir talsvert af mönnum um síðustu helgi til að hafa menn sem ferskasta í þessum leik. Þeir nánast pökkuðu saman í töskur sínar í baráttunni við Bayern Munchen um þýska meistaratitilinn. Þannig að ef einhver var í minnsta vafa með það hversu mikils andstæðingar okkar meta þessa keppni, þá ætti sá vafi að hafa horfið um síðustu helgi. Aubameyang, Reus, Mkhitaryan og Gundogan voru allir á bekk og Reus tók engan þátt í leiknum. Þeir koma því vel ferskir til leik. Gundogan var reyndar meiddur í fyrri leiknum, líkt og Adrian Ramos, en þeir eru báðir klárir í slaginn núna. Þeir eru með mikla breidd en þessi leikur verður ekkert frábrugðinn öðrum með það að það verða bara 11 leikmenn inná í hvoru liði og þessi leikur er bara one-off og úrslitin ráðast af dagsforminu og engu öðru.

Það er svolítið erfitt fyrir áhugamann eins og mig, sem fylgist svona takmarkað með þýsku deildinni, að ráða í það hvernig Dortmund muni stilla upp í þessum leik. Tuchel hefur verið að flakka á milli þriggja miðvarða kerfis og svo fjögurra manna varnarlínu. Til dæmis gegn Tottenham, þá stillti hann upp fjögurra manna varnarlínu á heimavelli og svo þrem miðvörðum á útivelli. Við munum það vel að Spurs sá ekki til sólar í viðureign sinni við þetta Dortmund lið. Ég giska á að þeir byrji með þrjá miðverði og að liðið þeirra muni líta einhvern veginn svona út:

Weidenfeller

Bender – Sokratis – Hummels

Piszczek – Weigl – Gundogan – Schmelzer

Mkhitaryan – Aubameyang – Reus

Rosalegt byrjunarlið þetta og það er alveg á tæru að þrátt fyrir fyrri leikinn, þá getur þetta lið gert okkar mönnum verulega erfitt fyrir og hreinlega farið illa með okkur ef menn eru ekki á tánum. Dortmund hafa síðustu árin verið þekktir fyrir agaðan leik og að vera svo algjörir snillingar í að sækja hratt á lið með mikinn sprengikraft. Þar eru þeir hættulegastir. En ef einhver þekkir styrkleika og veikleika leikmanna andstæðinga okkar, þá er það herra Jurgen Klopp. Jæja Jurgen, yfir til þín.

Við þurfum samt ekki að fara í þennan leik með neina minnimáttarkennd, síður en svo. Þó svo að staða liðsins í deildinni sé ekki eins og við viljum hafa hana, þá er fullt af flottum og góðum fótboltamönnum í hóp Liverpool og landsliðsmenn sterkustu landsliða heims í öllum stöðum og fleiri en einn í sumum stöðum. Þannig að eins og sást í fyrri leik þessara liða, þá geta menn alveg farinn inn í seinni leikinn og borið höfuðið hátt. Fleiri og betri færi og koma bara inn í seinni leikinn með hörku fína stöðu.

En hvernig mun Klopp stilla þessu upp? Hann náði líkt og félagi sinn Dortmund megin, að hvíla sína helstu menn um helgina. Munurinn er sá að Liverpool vann stórfínan sigur á erfiðu Stoke liði þrátt fyrir allar breytingarnar, en Dortmund skaut sér nánast út úr keppninni um titilinn. Þannig að sjálfstraustslega séð þá ættum við ekki að vera í síðri málum og ferskir fætur klárir í slaginn. Hendo er fjarri góðu gamni, sem og að vanda þeir Gomez, Rossiter og Ings. Einnig held ég að Benteke sé ekki enn búinn að ná sér af sínum meiðslum. Can getur komið inn í liðið á ný, þar sem hann er bara í banni í deildinni og því aðeins meiri valmöguleikar á miðjunni.

Mignolet, Clyne og Moreno halda sínum stöðum og helst hefði ég viljað sjá sama miðvarðarpar og í Þýskalandi, eða þá Sakho og Lovren. Ég er nokkuð viss um að Allen verði settur inn í liðið í stað Henderson og ég held að val Klopp standi fyrst og síðast um það hvort hann stilli upp Firmino eða Lallana framarlega á miðjunni og svo hvort það verði Sturridge eða Origi sem hefji leik frammi. Ég ætla að giska á að þetta verði bara mjög svipað og úti í Dortmund og því verði liðið svona skipað:

Mignolet

Clyne – Lovren – Sakho – Moreno

Milner – Can – Allen

Lallana – Origi – Coutinho

Sterkt lið með mikla hlaupagetu og stáli, en hættur fram á við. Það er alveg á tæru að menn verða að sýna mikinn aga og spila af skynsemi. Það er líka á tæru að menn verða hreinlega að nýta færin sem bjóðast, því okkur verður refsað grimmt ef við gerum það ekki. Vonandi heldur Mignolet áfram á sinni braut, en hann hefur verið bara virkilega góður upp á síðkastið. Við myndum líka alveg þiggja stórleik hjá miðvarðaparinu okkar líkt og síðast þegar þeir spiluðu. Hreint lak þýðir bara eitt, undanúrslit. Það getur engu að síður verið stórhættulegt að leggjast bara í vörn, því eitt mark frá andstæðingunum, þá hefur taflið snúist. Þetta mun snúast um jafnvægi, skynsemi og vilja. Barátta um hvern einn og einasta helv… bolta frá upphafsflauti til lokaflauts. Gefa þessum andstæðingum okkar ekki nokkurn stundarfrið á bolta og keyra yfir þá eins og við höfum náð að sýna nokkrum sinnum í vetur þegar menn hafa verið að spila gegn stórum og sterkum liðum.

Stemmarinn á Anfield verður ROSALEGUR, You’ll Never Walk Alone mun hljóma sem aldrei fyrr. Kopites ætla að mæta snemma á svæðið og mikil virðing er á milli stuðningsmanna, sem geta einbeitt sér að því að skapa okkur hinum endalausa gæsahúð og aðdáun. Engir níðsöngvar, engin slagsmál, bara leikurinn okkar í sinni fallegustu og tærustu mynd. Þetta verður eitt af þessum kvöldum sem mun seint gleymast, þetta verður bara spurning hvort sett af stuðningsmönnum eigi eftir að eiga betri minningu. Ég vona af lífs og sálarkröftum að það verði við Poolarar. Ég er klár og tilbúinn í að bæta þessu fimmtudagskvöldi í hóp frægra og stórkostlegra Evrópukvölda á hinum rómaða velli Anfield. Bring.It.OOOOOOOOOOOOOOOON.

25 Comments

  1. Gríðarlega spenntur og held að það verði smá spenna inn á vellinum líka fyrstu mínúturnar og því mikilvægt að byrja vel og halda fókus. Sammála byrjunarliðinu og set Friminio og Lallana að jöfnu en kannski betra að fá brassann í liðið upp á líkamsstyrk og dekkningu í hornum og föstum leikatriðum, þar er Lallana ekki sterkur í loftinu sbr. jöfnunarmarkið í Dortmund. Spái 1-1 og framlengingu þar sem við tökum þetta með marki frá Coutinho. YNWA

  2. Skil ekki þessi 220 volt. Held þetta verði tvöhundruðogfjörutíu.

  3. Erfitt að giska á fremstu menn, og ég myndi helst telja að Coutinho væri sá eini sem er pottþétt þarna inná.
    Origi eða Sturrigde. Kannski báðir.
    Firmino eða Lallana ?

    Miðjan og vörnin er nokkuð klárt mál og vonandi verða menn á tánum frá byrjum því að Dortmund mun klárlega sækja stíft á fyrstu mín leiksins og freista þess að setja mark snemma og setja menn í vandræði í vörninni.

    En hörkuleikur framundan og ég spái þessu 2-1 fyrir okkur.

  4. Takk fyrir góða upphitun. Èg hef ekki verið jafnspenntur fyrir leik à þessu tímabili. Spài okkur 2-1 sigri og segjum að Lallana og Moreno setji hann.

  5. Mignolet

    Clyne – Lovren – Sakho – Moreno

    Milner– Allen – Can

    Fimino – Origi – Coutinho

    eða varnarsinnaðra:

    Mignolet

    Clyne – Lovren – Sakho – Moreno

    Milner – Can

    Coutinho

    Lallana – Origi – Firmino

  6. Takk fyrir mig, ég vil svara fyrirsögninni á greininni: Já, ég er búinn að pissa í mig af spenningi

  7. @joispoi , hvernig er seinna liðið sem þú stingur upp á varnarsinnaðara?

    Allavega, gríðarlega spenntur en viðbúinn vonbrigðum.

    YNWA

  8. Bölvað vesen… verð í flugvél á leið til Íslands meðan leikur stendur yfir.

    Læt taka upp leikinn, þó svo að horfa á leik af upptöku sé aldrei eins, jafnvel þó svo maður viti ekki úrslit.

    En allavega, áfram Liverpool YNWA!

  9. Spenningurinn er rosalegur. Takk fyrir þessa upphitun SSteinn. Núna er bara að halda haus og spila skynsamlega. Gleymum því ekki að’ Dortmund þarf að sækja markið en þessi staða hefur oft reynst Liverpool erfið og er skemmst að minnast Deildarbikarsins í vetur þegar liðið leiddi 1-0 eftir fyrri leikinn á móti Stoke og tapaði svo því forskoti í venjulegum leiktíma á heimavelli. Og það mest fyrir aulagang og kæruleysi. Vona að leikmennirnir hafi horft á þann leik fyrir leikinn núna og læri af honum hvernig ekki á að gera hlutina. Er samt bjartsýnn á að liðið sé betra núna og batni í hverjum leik. Held að okkar menn skori enda verið frískir við markið og skorað mark í síðustu 10 leikjum. Setur ekki Milner markí dag? Hann þarf nefnilega að sanna sig örlítið betur fyrir Klopp.

  10. Sælir félagar

    Spennan hleðst upp jafnt og þétt í allan dag. Veit ekki hvernig maður verður um sjöleytið en það verður alla vega skrautlegt ástand á manni. Ég hefi áhyggjur af þessum leik og er því miður hræddur um að tapa honum. Spái samt 2 – 1, get ekki annað.

    Það er nú þannig

    YNWA

  11. Verður þetta ekki bara klassískt dæmi þar sem lærisveinn mætir Mentor?

    Tuchel er reyndar ekki lærisveinn Klopp í hefðbundum skilningi en Tuchel virðist eiga Klopp alla sína velgengi að þakka enda tóka hann bæði við Mainz og Dortmund eftir að Klopp gerbylti báðum liðum. Ég er alls ekki að gera lítið úr Tuchel, þetta er bara staðreynd.

    Ég spái þessu 3-0 !!!!

  12. Til að komast áfram í þessum leik verðum við að eiga stórleik og engin varnarmistök!!!!!!!!!!!

    Guð hjálpi Liverpool!!!!!!!!!!!!!!! ÁFRAM ÁFRAM!!!!!!!!!

  13. Já maður er virkilega spenntur og getur bara ekki beðið. vona að okkar menn mæti í þennan leik til að sækja og vinna leikinn og ekkerr kjaftæði.

    Eg er með þa tilfinningu að leikmenn, þjálfarar og stuðningsmenn Liverpool muni klara þetta einvígi saman, þeir þurfa allir að eiga stórleik og eg held það verði raunin. vinnum leikinn 3-1.

  14. Maður er alveg á mottunni. Engar væntingar, í kvöld þarf allt eða margt að ganga upp. Það er bara þannig.

  15. Tonight’s ?#?LFC? team: Mignolet, Clyne, Lovren, Sakho, Moreno, Can, Milner, Lallana, Coutinho, Firmino, Origi.

Liverpool – Stoke 4-1

Byrjunarlið komið í leik tímabilsins