Er þetta baráttan um borgina sem fram fer á Anfield á miðvikudgaskvöldið klukkan 19:00? Nei, held ekki. Borgin er löngu sigruð í augum allra nema þá kannski helst örfárra bláliða sem almennt ganga undir nafninu Bitter Blues. Þeir kenna okkur rauðliðum ennþá um það að hafa komið í veg fyrir að þeir yrðu stórveldi. En svona er þetta bara, það er erfitt að sitja í skugga einhvers svona lengi. En svona til að taka af allan vafa, þá er þetta nú ekki illa meint og ég hef alveg hitt Everton mann sem er nokkurn veginn í lagi, það er ekki algengt, en alveg til. Maður á meira að segja nokkra frábæra vini sem eiga við þetta Everton vandamál að stríða. En það gerir þetta skemmtilegra, það er að eiga smá svona rimmur og skjóta létt á þessa félaga. Það er samt eitthvað öðruvísi við þennan frestaða Derby slag. Í mínum huga er hann eiginlega bara fyrir. Ég er ekki einu sinni með minn hefðbundna hnút í maganum fyrir leikinn, hnútinn sem ég fæ vegna þess að ég veit að það geta alveg skrítnir hlutir gerst og við tapað fyrir bláu nágrönnum okkar. Ekkert líklegt, en getur gerst, og því fæ ég þennan hnút því ég bara get ekki hugsað þá hugsun til enda.
Nei, það er eitthvað skrítið við þennan leik. Oft hefur hvorugt liðið að miklu að keppa þegar þau mætast, en engu að síður allt lagt í sölurnar fyrir montréttinn. Núna er staðan sú að Everton er leiðinlega langt frá því að vera í einhverri alvöru fallbaráttu og við erum leiðinlega langt frá því að vera í alvöru baráttu um sæti í Meistaradeildinni í gegnum deildarkeppnina. Liðin eiga það líka sameiginlegt að hafa eitthvað rosalega mikið og flott til að keppa að…á öðrum vígstöðum en deildinni. Bláliðar eru að fara að mæta Man.Utd í undanúrslitum bikarsins á Wembley á laugardaginn og eru að sjálfsögðu að vonast eftir að lyfta jafnvel bikar á loft innan skamms. Það myndi jafnframt fleyta þeim inn í Evrópudeildina á næstu leiktíð. Liverpool eru svo að fara að mæta Villareal í undanúrslitum Evrópudeildarinnar og eru að stefna að því að tryggja sér beint sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á næsta tímabili og lyfta flottum bikar í vor. Átta menn sig á því af hverju mér finnst þessi leikur vera „fyrir“?
Ekki misskilja mig, ég elska að vinna Everton meira en flest annað og ég mun svo sannarlega fagna vel og innilega ef sigur vinnst. Ég mun jafnframt verða gjörsamlega brjálaður ef það gerist ekki. Kannski ekki jafn öfgakenndur og vanalega í hvora áttina sem þetta fer vegna aðstæðna. Það má heldur ekki líta framhjá því að sigur okkar manna í þessum leik, setur liðið í í sjötta sætið, aðeins tveim stigum frá Man.Utd og 6 stigum frá þriðja sæti deildarinnar og ennþá 5 leikir eftir. Þar á meðal er innbyrðis viðureign liðanna í 3 og 4 sæti, Arsenal og Man.City. Auðvitað er þetta ansi langsótt og mesti möguleikinn er í gegnum Evrópudeildina, en engu að síður getur liðið alveg bætt stöðu sína í deildinni umtalsvert núna í lokin. Það væri bara ansi hressilegt að ná að fara upp fyrir Man.Utd, þó ekki væri annað. Það er vika í fyrri leikinn gegn Villareal, en Everton á stóra leikinn sinn strax um helgina. Það væri því lag að tefla fram nánast sterkasta liðinu núna og jafnvel svo hvíla aðeins um helgina og nota hópinn líkt og Klopp gerði gegn Bournemouth.
En skoðum þessi lið aðeins. Þetta Everton lið er bara heilt yfir ekkert sérstaklega vel mannað að mínu mati og staða þeirra í deildinni alls ekki óeðlileg og það að hafa svona öflugan framherja eins og Lukaku, forðar þeim frá því að vera meðal þeirra slökustu í deildinni. Fyrir utan Lukaku, þá eru þarna menn eins og Coleman, Stones, Jagielka og Barkley sem eru fínir fótboltamenn, aðrir eru bara brottkast eða Over the Hill gæjar. Ég væri allavega ekkert voðalega bjartur í dag ef ég hefði verið svo óheppinn að fæðast sem bláliði. Eins og fyrr sagði, þá eru þeir væntanlega með augun á stóra leiknum um helgina og taka fáa sénsa gegn okkur þegar horft er til meiðsla, séu einhverjir tæpir. Því það er alveg ljóst, menn spara sig ekkert í tæklingar í þessari viðureign. Það verður alltaf Derby þefur í loftinu í Liverpool þessa vikuna. Lið Everton hafa nú gert þrjú jafntefli í röð í deildinni, gegn Palace, Watford og Southampton, en töpuðu þrem leikjum þar á undan gegn Man.Utd, Arsenal og West Ham. En Martínez er undir mikilli pressu þessa dagana og hefur sagt það að hann ætli sér ekki að hvíla menn fyrir bikarleikinn. Gott og vel, en ég er nokkuð viss um að ef einhver er með smá meiðsli, þá verður viðkomandi ekki látinn taka neina áhættu í þessum leik. Þeir hljóta bara að horfa á þennan undanúrslitaleik sem leik sem þeir geta alveg sigrað, enda mótherjarnir ekkert verið að heilla alþjóð þennan veturinn. Og þar sem hin viðureignin er á milli Crystal Palace og Watford, þá hljóta þeir bláu að horfa til þess að þetta sé þeirra langbesta tækifæri á að vinna bikar í áraraðir.
En hvað með Klopp, hvernig ætli hann fari inn í þennan leik? Hann gerði að mig minnir, 10 breytingar fyrir leikinn gegn Bournemouth, aðeins Firmino hélt sæti sínu. Það held ég að hljóti að þýða það að hann muni spila stærstu kanónunum í þessum leik, og noti svo hópinn aftur gegn Newcastle um næstu helgi. Þó svo að gott sé að hvíla vel, þá er heldur ekki gott að hvíla of mikið og hætta á það að menn hreinlega verði hálf ryðgaðir. Það verður að halda þessu strákum á tánum og það held ég að hann geri gegn Everton. Ég á því von á að sjá Mignolet aftur í markinu, þrátt fyrir að Ward hafi svo sannarlega sýnt hellings gæði um helgina. Clyne og Moreno taka aftur til sín bakvarðarstöðurnar og markamaskínurnar Lovren og Sakho verða í hjarta varnarinnar. Miðjan fer að verða nokkuð þunnskipuð hjá okkur þar sem bæði Can og Hendo eru frá út tímabilið. Það mun því mæta all verulega á Allen, Milner og Lucas það sem eftir er af því, þó svo að Stewart muni fá fleiri leiki en hann óraði fyrir vegna þessarar stöðu. Ef það var góður tímapunktur fyrir Joe Allen að stíga upp og sýna hvað í honum býr, þá er hann núna og hefur hann svo sannarlega ákveðið að gera það. Hann hefur verið algjörlega frábær undanfarið og hefur vaxið mikið eftir að Klopp tók við (og nei, ég er ekki að tala um hæð hans). Ég á því von á að Milner og Allen verði á miðjunni gegn Everton. Lallana mun einnig koma inn og sama má segja um Coutinho. Stóra spurningin í mínum huga snýr svo að framherjamálum. Hvað ætlar Klopp að gera þar? Þetta er skemmtilegur hausverkur sem hann fær vegna þess að Origi hefur verið alveg frábær undanfarið og á ekki skilið að vera á bekknum og svo kom Sturridge inn í síðasta leik og gjörsamlega skipti sköpum þar. Spilar hann þeim jafnvel bara báðum? Persónulega myndi ég vilja sjá það gerast, prófa þá saman. En Origi var eitthvað tæpur í baki og því held ég að hann byrji ekki inná.
Ég ætla að spá því að Klopp geri “bara” 8 breytingar á liði sínu, haldi þeim Allen, Firmino og Sturridge inni og stilli þessu svona upp:
Mignolet
Clyne – Lovren – Sakho – Moreno
Milner – Allen
Lallana – Firmino – Coutinho
Sturridge
En eins og vanalega þá fýkur staða liðanna út um gluggann þegar þessi leikur verður blásinn á. Menn munu leggja sig fram, annað er ekki í boði. Það þarf að éta eitt stykki Lukaku, en hann er frekar stór biti, því þaðan er helsta ógnin. Eitthvað er um meiðsli í þeirra herbúðum, Jagielka og Cleverley verða líklegast ekki með og Coleman er talinn ólíklegur. Lennon og Baines ættu að ná leiknum. Okkar megin, þá er Can í banni (en meiddur hvort eð er) og þeir Henderson, Benteke, Kolo Toure, Rossiter, Ings og Gomez allir fjarri góðu gamni. Origi var eitthvað meiddur í baki, en verður væntanlega eitthvað með.
Hápressa frá fyrstu mínútu er eitthvað sem ég vil sjá frá okkar mönnum. Vonandi að Klopp sendi menn sína vel gíraða til leiks og reyni að kaffæra þá strax í byrjun leiks. Anfield var upp á sitt besta á fimmtudaginn og nú er bara að fylgja því eftir. Það er ákaflega gaman á öllum vígstöðvum þegar byr er í seglin og það ber að nýta. Kvöldleikur á Anfield í þokkabót og við ættum alveg að geta búist við hörku stemningu og góðri skemmtun. Ég horfi bjartsýnn til þessa leiks og held að við tökum ákaflega flottan 3-1 sigur. Sturridge er kominn vel í gang og setur eitt mark, Coutinho mun skora annað og Milner það þriðja. Svo má tíminn bara líða býsna hratt eftir leikinn, undanúrslitin eru aðeins farin að taka mikið pláss í huga manns. Vonandi eru leikmennirnir betur fókuseraðir en maður sjálfur.
Flott upphitun! En djöfull er mig farið að langa í nýtt podcast!
Takk fyrir mig. Get ekki bedid eftir næsta hladvarpi! 🙂
Podcast í kvöld.
Hnulla upphitun að vanda .. Það sem gerir þessa viðureign eilítið meira spennandi er að með sigri annað kvöld setjum við pressu á scums og liggjum 2 stigum fyrir aftan þá … Þá mega þeir ekki mistiga sig neitt án þess að eiga það á hættu að missa okkur upp fyrir sig ..
Alveg sama hver staða liðanna er í deildinni, þá er þessar viðureignir alltaf með leikjum tímabilsins. Svona eins og hjá FH og Haukum í handboltanum. Everton er í sárum í deildinni og gera mikið af jafnteflum. Meiðsli hafa hrjáð þá eins og Liverpool og þá ekki síst vörnina sem er ekki svipur hjá sjón. Lukaku hefur verið frábær í vetur en einhver meiðsli hjá honum hafa gert leiki hans upp og ofan. Veit ekki hver ræður við hann af okkur mönnum en sennilega lendir það mikið á Lovren í þessum leik. Við skulum ekki vanmeta Everton þó þeir séu í vandræðum þessa stundina. Gott væri að sigra þenna leik með einu marki.
Verð brjálaður ef að Lukaku verður með, ég er með hann sem captein í fantacy deildinni og með Aguero sem vara captein og hann skellti í þrennu sem ég fæ ekki ef Lukaku spilar í þessum leik. Einnig er Dele Alli fyrsti maður inn sem varamaður og hann skoraði 2 í gær.
Þannig að Lukaku, vertu heima hjá þér.
Sluðrið i morgun…
Ónafngreindi aðilar sem tengdir eru konungsfjölskyldunni í Abu Dhabi hafa áhuga á að taka yfir Liverpool.
Þyðir þetta að Kane, Kante, Griezmann, Pogba og Neymar mæta i sumar?
Æi þá vil ég frekar halda núverandi eigendum heldur en að fara að kaupa titla.
Verður miklu sætara að vinna þetta svona!
Annars er ég nokkuð bjartsýnn á að við vinnum þennan leik á morgun.
Held meira að segja að SM haldi hreinu og við tökum þetta 2-0.
Flottur hnútapistill.
Klopp var í frábæru viðtali áðan. Derby leikir eiga ekki að snúast um það að fá gult eða rautt spjald og segja: I´m the man. Ég þorði.
Völlurinn breytist ekki í boxhring. Það á að spila fótbolta. Þegar Gerrard var rekinn útaf í upphafi leiks um árið þá var það ekki hetjudáð, það var heimska hjá Gerrard – í besta falli misskilningur . . . 🙂
En ég hef trú á því að spilaður verði flottur bolti á morgun. Liverpool vinnur að sjálfsögðu og ekkert jafntefliskjaftæði.
Flott að fá podcast í kvöld.
YNWA
Þetta er ansi varhugarvert þetta með eigendurna. Ef við fengjum nú einhverja MIðausturlanda eigendur sem myndu dæla peningum í liðið og við myndum vinna titilinn á nokkrum árum, hversu sætt væri það ?
En hinsvegar má segja að við erum ekki að keppa á jafnréttisgrundvelli í dag heldur. Við erum sennilega nokkurnveginn á því róli sem peningarnir okkar segja til um. Launapakkinn er oftast besta vísunin í gegni liðanna. Við erum að underpreforma í auknablikinu, erum með 5 hæsta launapakkann á eftir Chelsea, Arsenal, City og United.
Tottenham eru fyrir ofan okkur í töflunni en í 6 sæti á listanum, Leciester eru auðivitað í ruglinu.
Kannski er þetta eitthvað að breytast eða þá að árið í ár sé bara sérstakt.
Vilja menn milljarðamenn inn í klúbbinn eða erum við sáttir við núverandi stöðu. Ég veit það hreinlega ekki.
Meiri pening, uhh leyfðu mér að hugsa, já takk.
Ég er smeikur fyrir þennann Evertonleik og það er út af því að þegar við erum farnir að nálgast þetta fjórða sæti er eins og menn missi einbeitninguna. Og ekki batnar það þegar flestir sparksérfræðingarnir eru farnir að spá léttum sigri Liverpool. Þá first verð ég hræddur. Ég vona samt að Klopp og hans menn hafi planið sem dugar eins og í síðustu leikjum og við vinnum.
Ef þessar fréttir um yfirtöku eru réttar þá verður spennandi að sjá hverjir verða keyptir í sumar þar sem Klopp er jú ekki vanur að kaupa dýrt inn og því spurning hvað hann gerir við skrilljónir af peningum. Ég er ekki viss um að hann muni nota allann peninginn í einu , það er ekki hans stíll mundi maður halda.
Fótbolti í dag snýst um peninga og FSG virðast ekki getað sett eins mikla peninga í klúbbinn eins og þarf til að komast alla leið á toppinn sem við öll viljum . Ég ætla því ekki að fara í fýlu ef loksins koma inn eigendur með alvöru fjármagn á bak við sig.
.
Alltaf hlakkar mann jafn mikið til þessara leikja, en ég hlakka gífurlega til að sjá hvort þeir bláliðar hafi í alvöru dregið gamlan pramma á flot fyrir leikinn. Ég er að sjálfsögðu að tala um hægri bakvörðinn Tony 35 ára gamla Hibbert, sem hefur ekki spilað keppnisleik síðan í desember 2014.
Klopp mun, miðað við síðasta bytjunarlið, vilja fyrir alla muni sigra þennan fyrsta nágrannaslag og spila sínu sterkasta liði, á meðan bláliðar eru að hugsa um bikarinn. Ég sé fyrir mér að það gætu orðið veisluhöld í kveld.
Bara svo það sé á hreinu þá erum við ennþá með möguleika á 4. sæti eftir hörmulegt jafntefli Man City í gær.
Við verðum reyndar að vinna alla leikina sem eftir eru í deildinni… en alls ekki “ómögulegt”. Man city á ekki góða leiki eftir þ.e. Stoke, Southampton, Arsenal og Swansea. Ég er hand viss um að þeir tapi amk 5 stigum í þessum viðureignum. Loka stöður væru því LFC 69 ManCity 68.
Ég er kannski kominn á svolítið flug eftir frábæra frammistöðu okkar manna í síðustu leikjum… en Klopp sagði okkur “stop doubting and start believing!!” og ég ætla að fylgja hans orðum.
YNWA