Bikarleikur gegn Plymouth

Á sunnudaginn mun Liverpool taka á móti þriðju deildar liðinu Plymouth Argyle í fyrstu umferð FA bikarsins í leik sem ætti vonandi að vera frábært tækifæri til að gefa yngri leikmönnum liðsins tækifæri til að halda áfram að sýna sig og sanna – og sömuleiðis góður tími til að hvíla lykilmenn fyrir fyrri undanúrslitaleikinn gegn Southampton og svo stórleikinn við Man Utd í næstu viku.

Ég veit nú ekki mikið um þetta Plymouth lið annað en að þeir eru í þriðju deildinni (League two), voru ekki langt frá því að komast upp um deild í fyrra og eru í 2.sæti deildarinnar sem stendur og virðast bara á ágætis róli. Kári Árnason lék líka með Plymouth í einhver tvö tímabil svo hey, það eru Íslendinga tengls þarna!

Þegar ég renni í gegnum liðið hjá Plymouth þá er ekkert nafn þarna sem maður þekkir til fyrir utan Jakob Sokolik sem var í unglingastarfi Liverpool frá 2009-2014. Tékkneskur miðvörður sem er nýgenginn til liðs við Plymouth og fær vonandi að byrja feril sinn hjá Plymouth gegn Liverpool, það væri nú gaman fyrir hann.

Ætli Graham Carey sé ekki leikmaður Plymouth sem helst bæri að varast og er þeirra helsti burðarás. Hann er með níu mörk og átta stoðsendingar fyrir þá á leiktíðinni.

Af okkar mönnum er allt fínt að frétta þrátt fyrir grautfúlt og f***ing pirrandi jafntefli við Sunderland í síðasta deildarleik. Henderson verður líklega klár í slaginn gegn Utd og Coutinho gæti hugsanlega komið aftur í hóp þá. Milner sem fór útaf vegna meiðsla gegn Sunderland er ekki alvarlega meiddur, það styttist í Matip aftur en Mane er farinn og enn virðist ekkert styttast í kaup glugganum – held við ættum by the way ekki að halda niðri í okkur andanum á meðan við bíðum eftir því.

Klopp hefur gefið það til kynna að hann muni rótera liðinu fyrir þennan leik enda gefur það vel að skilja enda búið að vera þétt prógram og stórir og erfiðir leikir framundan í mánuðinum. Held það sé ekki séns að hann róteri eitthvað að ráði ef eitthvað gegn Southampton í bikarnum í miðri næstu viku og hvað þá úti gegn Man Utd næstu helgi svo þetta er leikurinn. Joe Gomez kemur líklega til með að spila í leiknum og verður afar spennandi að sjá þennan frábæra unga varnarmann aftur í liðinu eftir fimmtán mánaða fjarveru vegna meiðsla. Liverpool hefur víst hafnað fullt af lánstilboðum í hann og Kevin Stewart svo þeir eru klárlega inn í myndinni hjá Klopp og hefur Klopp meira að segja sagt að hann hafi ekki viljað kaupa varnarmann til að hindra framför Gomez inn í liðið – það er frekar spennandi.

Karius

Alexander – Lucas – Gomez – Moreno

Wijnaldum – Stewart – Ejaria

Ojo – Origi – Woodburn

Ég strandaði alveg svakalega á þriðju stöðunni á miðjunni. Allt annað er líklega svo gott sem nailed on held ég. Þetta verður held ég að mestu liðið sem við höfum séð hingað til í Deildarbikarnum en þar sem vantar Coutinho, Sturridge, Matip, Grujic og Mane þá held ég að þetta muni líta nokkurn veginn svona út. Kannski Lovren komi í vörnina með Gomez og Lucas á miðjuna eða Can í staðinn fyrir Wijnaldum en það er svona mesta spurningarmerkið held ég. Hendo mögulega klár fyrir Utd svo við eigum nú ekki mikið af öruggum kostum þangað til svo ég ætla að leyfa mér að efast um að Klopp vilji setja of mikla áhættu á þá þrjá sem hann á eftir í þessum leik. Synd að Grujic sé ekki klár og Brannagan sé illa meiddur, hefðu getað tekið þetta hlutverk.

Þetta er skemmtileg blanda og bekkurinn eflaust nokkuð sterkur þá og ætti að hafa gæðin til að grípa inn í ef þörf krefur. Þetta lið stóð sig frábærlega gegn Tottenham og Derby í Deildarbikarnum og þessir strákar átt frábærar rispur þegar þeir koma inn svo ég hef ekki miklar áhyggjur af þeim. Vonandi sjáum við Ojo og Gomez aftur í myndinni og að Woodburn komist aftur á blað.

Það ber alltaf að varast svona leiki og leikmenn, stuðningsmenn á vellinum, þjálfarar o.s.frv. þurfa að sýna þessum leikjum mikla virðingu og vera með hausinn rétt skrúfaðan. Breytt lið, ungt lið, reynt lið – alveg sama hvað Klopp setur upp þá er krafan augljóslega sú að liðið komist auðveldlega áfram gegn mikið lakari andstæðing með fullri virðingu fyrir Plymouth sem munu líklega gefa allt sitt í þetta. Þetta skal bara klárast og mun klárast með sigri Liverpool, ég ætla ekki að trúa neinu öðru!

Origi, Ojo, Woodburn og Moreno skora fyrir okkur og við vinnum þetta örugglega, hljómar það ekki bara nokkuð raunhæft og líklegt? Við sjáum til.

Leikurinn gegn Plymouth er forrétturinn fyrir mjög stóra viku hjá liðinu – sem er bara upphafið af risastórum nokkura vikna kafla sem liðið mun spila marga leiki þar á meðal tvo undanúrslitaleiki við Southampton og í næstu sjö umferðum í deildinni á Liverpool eftir að mæta Man Utd, Chelsea, Tottenham og Arsenal. Það er því gífurlega stórt verkefni framundan og því um að gera og klára Plymouth leikinn sem á að vera algjört formsatriði fyrir liðið að klára að mínu mati.

6 Comments

  1. Eru menn a því að sahko fái ekki að spila í FA eða deildarbikar fyrir Liverpool ?

  2. Sakho er ekki að fara að spila annan leik fyrir liverpool #1

    Ég hef alltaf gaman af FAcup hún hefur vissa sjarma sem engin önnur bikarkeppni hefur, já hún er sú elsta og já England er stórt land en ég held að flestir gera sér ekki grein fyrir því hversu stór FACup keppninn hjá Englendingum er.
    Þegar maður les ævisögur stjarnana þá eru margir að tala um að draumurinn þegar þeir voru litlir væri að komast á Wembley og lifta FA Cup bikarnum (s.s ekki að vinna deildina eða evrópukeppni).

    Maður á að bera virðingu fyrir öllum andstæðingum og vona ég að kjúklingarnir okkar gera það og markmiðið í þessum leik og öllum öðrum í bikarkeppnum er einfaldlega að komast áfram í næstu umferð 5-0 sigur eða 1-0 sigur skilar sömu niðurstöðu.

  3. Djöfull verður gaman að sjá endukomu Gomez ef hann fær leik!!!! Þetta er bikarleikur sem er ekki unninn fyrirfram. LFC veit það klúbba best. Þetta er leikur sem andstæðinginn ber að virða, ef menn fara með það bak við eyrað hef ég ekki miklar áhyggjur.

    YNWA!

  4. Mun arga og æla ef þetta verkefni klúðrast.
    Sem það gerir ekki en leikurinn verður barátta og læti til enda.
    3-1 þar sem sigurinn er tryggður á 87. mínútu.
    Woodburn með fyrsta, Gomez nokkur setur hann úr horni og Origi klárar stungu í lokin eftir mikla pressu.
    YNWA

  5. Senda varastjórann í þennan leik. Ég vill sjá Klopp í Þýskalandi að semja við Reus.

  6. Þetta starting lineup sem nafni setur upp hljómar gríðarlega vel, Klopp þarf að huga vel að því að fara gefa yngri leikmönnum séns og láta þá fá smá meiri reynslu af alvöru leikjum.

    Okkur vantar að vera með meiri breidd þegar að eitthvað kemur uppá, liðið er að spila þvílíkan pressubolta allt tímabilið og þá er algjört möst að það sé maður í manns stað ef einhver meiðist.

Podcast – “Tjallinn ætlar bara að keyra vinstra megin þar til þessi pláneta er búin”

Liverpool 0 – Plymouth 0 leik lokið