Bournemouth á miðvikudag

Næsti leikur. 31. leikur Úrvalsdeildarinnar hjá Liverpool og Bournemouth koma í heimsókn á Anfield á miðvikudagskvöldið. Orðum það svona, þeir stálu þremur stigum og við viljum fá þau aftur.

Byrjum á stóru fréttunum eftir helgina:

Takk kærlega, Everton. Þetta er náttúrulega gríðarleg blóðtaka fyrir Liverpool ef satt reynist, Mané einfaldlega sjóðheitur og mögulega verið okkar besti maður í vetur. En svona er þetta, við erum Liverpool og megum yfirleitt ekki njóta góðu hluta lífsins of lengi.

Ég átti svo sem ekki von á Mané í þennan Bournemouth-leik, vonaðist frekar eftir að hann fengi vikufríið og væri klár á útivöll gegn Stoke um næstu helgi. En það lítur allt út fyrir að við verðum að sakna hans enn lengur en fram yfir páska, fari það grábölvað.

Allavega, að þessum Bournemouth-leik. Þeir sitja sem er í 11. sæti deildarinnar, sjö stigum frá fallsæti og sigla nokkuð lygnan sjó verður að segjast. Þeir hafa hins vegar aðeins unnið tvo af 15 útileikjum til þessa á tímabilinu, með 4 jafntefli líka eða 10 stig af 45 mögulegum á útivelli í vetur. Það er því lítið að óttast fyrir okkar menn á pappír, jafnvel án Mané, Lallana og Henderson. En við vitum að þannig virkar Liverpool í vetur ekki, og það er allt eins víst eftir sigrana í stórleikjum undanfarið að menn fari að tapa stigum aftur nú þegar mótherjarnir í næstu umferðum eru „minni spámenn“.

Af byrjunarliði Liverpool hef ég lítið að segja annað en þessar ömurlegu Mané-fréttir. Ég býst við að Lallana og Henderson verði enn frá og eftir góða frammistöðu byrjunarliðsins um helgina, og frábæra innkomu Divock Origi, liggur beint við að hann komi í liðið í stað Mané:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Can – Lucas – Wijnaldum

Origi – Firmino – Coutinho

Mín spá: Sigur og ekkert annað. Liðið er á góðum stað í deildinni og getur sett frekari pressu á keppinauta um sæti meðal fjögurra efstu með því að vinna þennan leik. Það bara verður að gerast ef árangur á að nást í vor, jafntefli eru tvö töpuð stig og ekkert annað. Þrátt fyrir fjarveru þriggja lykilmanna tel ég okkur vera með nægilegt púður í sókninni hjá Coutinho, sem hrökk heldur betur í gang í síðustu viku, Firmino sem er að gera allt rétt nema kannski að skora þessa dagana og Origi sem ætti heldur betur að hafa fengið sjálfstraustið um helgina.

Þetta verður kannski öðruvísi leikur í raun en sá gegn Everton, þar sem Bournemouth gætu tekið upp á því að reyna að spila knattspyrnu og sækja eitthvað (annað en smásálirnar sem mættu á Anfield síðasta laugardag) en það held ég að muni bara reynast okkur í hag.

Ég spái þolinmæðisverki en við innbyrðum að lokum 2-0 sigur. Mörkin koma bæði þegar líður á seinni hálfleikinn og maður verður farinn að naga neglurnar aðeins. Milner setur bæði úr vítaspyrnum. Origi og Clyne fiska.

YNWA

(Ath.: Þessi upphitun er í styttra lagi þar sem við ræðum leikinn og Mané-meiðsli betur í podcast-þætti annað kvöld.)

7 Comments

  1. Sælir félagar

    Jæja þá bíður maður bara eftir podkastinu og spáir engu og segir ekkert fyrr en eftir það.

    Það er nú þannig

    YNWA

  2. Var að skoða í gamni mínu hvaða leikir væru eftir hjá toppliðunum. Ég hef mikla trú á að við klárum mótið taplausir, hvort sem það verðir með einu eða tvem jafnteflum eða ekki þá segir gamli góðir pappírinn okkur að átta sigrar eru vel raunhæfir. En mér fannst skemmtilegt að sjá hvað það eru margar innbyrðis viðureignir eftir.

    Chelsea – City
    Man Utd – Chelsea
    City – Man Utd
    Spurs – Arsenal
    Arsenal – Man Utd
    Spurs – Man Utd

    Þarna eru helling af töpuðum stigum í boði. Ég fyllist bjartsýni á að skoða þetta og ég spái því að okkar menn hreinlega tæti rest í sig og byrji með stæl. 4-0 og Origi verður mergjaður.

    YNWA

  3. Ég er nokkuð viss um að við eigum eftir að tapa leik eða jafnvel leikjum en ég hef samt trú að liðið komist í meistardeildina.
    Að missa Lallana og jafnvel svo Mane út tímabilið er skelfilegt fyrir okkur enda ekki margir góðir kostir í stöðuni og þetta mun hafa mikið áhrif á okkur bæði í vörn í sókn en Mane/Lallana mjög duglegir að verjast en Origi/Sturrdige ekki alveg á þeim stað.

    Þetta verður gríðarlega erfit allt til enda en ég vona að við náum að klára leikinn í kvöld og koma okkur í góða stöðu.

  4. Sæl og blessuð.

    Kaldhæðni örlaganna eru engin takmörk sett. Við tókum Mané út af í útileiknum gegn Bournmouth í stöðunni 1-3 og töpuðum þessu niður á augabragði eins og allir muna. Núna mætum við þeim aftur og þá er Mané karlinn ekki með. Allir vita hvernig þeir leikir enda sem við spilum Manésnauðir.

    Sjötta sætið, sjöunda eða áttunda? Verður það hlutskipti okkar í vetur?

  5. Strákarnir hjá fivethirtyeight eru búnir að reikna það út að það séu 83% líkur á meistaradeildasæti hjá Liverpool. Líst ágætlega á þær líkur.

  6. Sælir félagar

    Jæja þá er ég búinn að hlusta á podcast þáttinn og ætti að vera upplýstari eftir en áður. Ég verð þó að viðurkenna að hann bætti litlu við það sem maður vissi fyrir bæði um Everton leikinn og svo leikinn í kvöld. Þannig að ég ætla að spá uppá eigin spítur um úrslitin í kvöld og svo Stoke leikinn. Leikurinn í kvöld fer 3 – 1 enda hafa leikmenn harma að hefna eftir skituna í fyrri leiknum og Stoke leikurinn fer 0 – 4

    Það er nú þannig

    YNWA

Liverpool 2010 vs 2017

Podcast #147