Upphitun: Stoke – Liverpool

Þessir Bournemouth tapleikir verða ekkert minna pirrandi eftir því sem þeim fjölgar. Reyndar eru þessir leikir ekkert allir gegn Bournemouth og því síður tapast þeir allir en enn eina helvítis ferðina hendir Liverpool frá sér forystu og enn einu sinni tapar liðið stigum gegn liðunum í neðri helmingi deildarinnar. Þetta rennur allt saman í eitt á endanum.

Leikurinn gegn Bournemouth var sjötta 2-2 jafnteflið á tíma Klopp sem stjóri Liverpool. Liverpool hefur misst niður forystuna í öllum þessum leikjum og í þremur þeirra hafði liðið komið til baka eftir að hafa lent undir rétt eins og í gær. Það er því engin furða að Anfield treysti liðinu ekki og sé órólegur í stöðunni 2-1, það er eitthvað mikið að hjá liðinu í heild hugarfarslega þegar kemur að því að verja forystu.

Hugurinn ber þig samt bara hálfa leið og stór partur af hinum helmingnum snýst um gæði og af þeim er bara ekki nóg hjá Liverpool. Sérstaklega ekki þegar lykilmenn vantar.

Enn eina ferðina skorar Liverpool meira en eitt mark í leik og það dugar ekki, það er fullkomlega galið að fimm mörk gegn Bournemouth á einu tímabili gefi aðeins eitt stig. Vörnin og markvarsla er aðalvandamál Liverpool og þar skiptast öftustu leikmenn Liverpool á að gera sig seka um hræðileg mistök.

Markmennina er búið að ræða út í hið óendanlega og það er ljóst að þeir eru partur af vandamálinu. Á móti held ég að enginn markmaður kæmi sérstaklega vel út með þá vörn sem Liverpool hefur boðið upp á mest allan þennan áratug.

Joel Matip var stóra lausnin í sumar og hefur sannarlega virkað nokkuð góður. Hann missti af byrjun tímabilsins og tveimur vondum dögum hjá vörninni gegn Burnley og Arsenal. Hann missti úr þrjá leiki í lok nóvember og byrjun des og svo öðrum sjö um og eftir áramótin. Liverpool vantaði miðvörð sem myndi spila alla leiki tímabilsins. Ekki einhvern sem hefur meiðst fjórum sinnum. Hann gat ekki reimað skóna sína í gærmorgun vegna meiðsla í baki.

Dejan Lovren er ansi nálægt því að verða hinn nýji Daniel Agger, ekki síst í ljósi þess að það virðist alltaf vera eitthvað nýtt að honum. Margir sakna Sakho núna enda að spila gríðarlega vel og ennþá leikmaður Liverpool. Hann var engu að síður nákvæmlega eins og þessir tveir þegar Liverpool var að stóla á hann.

Ragnar Klavan hefur eins og Carragher kom inná eftir Bournemouth leikinn spilað allt of mikið í vetur. Þriðji til fjórði kostur Liverpool í stöðu miðvarðar hefur fengið að spila svipað mikið ef ekki meira undanfarin ár heldur en þeir sem eru fyrstu kostir í þessa stöðu. Það kostar vörnina gríðarlega yfir lengri tímabil. Það er ekki þar með sagt að hægt sé að skella skuldinni á Klavan. Hann er alltaf að vinna með annaðhvort Matip eða Lorven og ekkert af miðvarðapörum Liverpool hefur fengið tækifæri til að ná almennilega saman yfir marga leiki í röð. Klavan hefur byrjað 14 leiki í deildinni í vetur og komið við sögu í fjórum til viðbótar. Það er allt of mikið. Lucas hefur sömuleiðis byrjað átta leiki og þar af líklega sex þeirra sem miðvörður.

Bakverðir Liverpool hefa sloppið gríðarlega vel frá allri gagnrýni í vetur öfugt við síðasta tímabil. Stór hluti stuðningsamanna var að verða geðveikur á síðasta tímabili vegna Alberto Moreno og fékk ósk sína heldur betur uppfyllta þegar hann var tekinn úr liðinu. Ég hef ekki ennþá hugmynd um hvað það er sem á að gera Milner að betri bakverði en Moreno.

Leikjaálag Liverpool á síðasta tímabili var fullkomlega sturlað, miklu meira en það er núna. Engu að síður hefur varnarleikurinn aðeins batnað um heil þrjú mörk miðað við sama leikjafjölda. Þrátt fyrir að Milner bjóði ekki upp á eins viltan varnarleik og Moreno er vörnin ekkert skárri með hann innanborðs frekar en Moreno. Oft finnst manni liðið einmitt sakna sárlega hraða Moreno, sérstaklega umfram það sem Milner er að bjóða uppá. Sóknarlega skorar hann úr vítunum og er með þrjár stoðsendingar sem er ágætt en ekkert spes miðað við hverstu framarlega hann spilar.

Clyne held ég að sé svo litblindur því hann hittir afskaplega sjaldan á samherja þegar hann kemst yfir á vallarhelming móterjanna. Ef að Trent Alexander-Arnold er betri sóknarlega eins og margir tala um held ég að leið hans inn í byrjunarliðið á kostnað Clyne sé ekki eins löng og margir ætla því að varnarlega þarf hann ekki að bæta mjög margt frá Clyne (öfugt við orðsporið sem fylgir Clyne). Milner og Clyne eru líka þeir varnarmenn sem hafa spilað mest í vetur.

Öll vörnin hefur verið hundléleg í vetur og markmennirnir líka og í þessum hópi er svo sannarlega enginn heilagur og hvað þá hafin yfir gagnrýni. Ein til tvö mistök í leik er nóg til að skemma leikinn og vörn Liverpool er með a.m.k. það í hverjum leik. Á hæsta leveli er krafan að tíðni þessara ljótu mistaka sé miklu miklu lægri.


Sóknarlega er lítið hægt að sakast við okkar menn enda Liverpool markahæsta lið deildarinnar. Eins eru sóknarþenkjandi leikmenn liðsins líklega einnig okkar bestu varnarmenn. Ef Liverpool hefði varnartengilið með svipaða vinnusemi og varnarvinnu og Firmino er að skila í hverjum leik sem fremsti maður myndi mörkunum líklega fækka um a.m.k. 1/3 sem liðið fær á sig. Þegar Henderson er með er hann mjög góður í pressuvörn rétt eins og Lallana. Wijnaldum og Can hafa eins verið að stíga mikið upp undanfarna mánuði þó báðir hafi verið mjög misjafnir heilt fyrir tímabilið. Þetta er samt miðja og sóknarlína sem er að skila mörkum dreift vel á alla og smásjáin fer ekki á sóknarmennina þegar kemur að því að laga varnarleikinn, sérstaklega ekki varnarleikinn í föstum leikatriðum.

Liverpool hefur verið að lenda í vandræðum allt þetta tímabil þegar það vantar 3-4 lykilmenn í liðið. Gegn Bournemouth voru þetta fjórir stórir póstar en samt eins og oft áður í vetur ná okkar menn alveg að skora í þessum leikjum. Töpuð stig gegn Bournemouth skrifast ekki á fjarveru Mané, Lallana og Coutinho eftir að hann fór af velli enda skoraði Liverpool nógu mörg mörk til að vinna leikinn.

Undir lokin gegn Bournemouth voru bókstaflega allir miðverðir Liverpool inná ásamt byrjunarliðs bakvörðunum og aðalmarkverði. Samt réði liðið ekki við það að verjast innkasti.

Skiptingin á Coutinho var stórundarleg og það er auðvelt að drulla vel yfir Klopp eftir á en staðreyndin er að eina færi Bournemouth síðasta hálftímann kom ef ég man rétt upp úr þessu innkasti og fyrirfram hefði maður ætlaði í því tilviki að það hefði gagnast okkur betur að hafa Matip inná en Coutinho. Hvernig það var betra að hafa Klavan í bakverði á þessum kafla frekar en t.d. Moreno skil ég hinsvegar alls ekki.

Liðið gegn Stoke
Það leyndi sér ekkert að leikurinn gegn Everton sat í okkar mönnum og viðbúið að svipað verði upp á teningnum gegn Stoke. Joel Matip verður vonandi kominn með franskan rennilás fyrir þann leik því hann verður að spila þennan leik. Mané er frá út tímabilið, Lallana líklega líka og guð má vita hvað er langt í Henderson. Lucas held ég að sé ekki maður í þrjá leiki á einni viku og Sturridge er ekki orðin 100% leikfær.

Það er því ljóst að liðið verður ansi vængbrotið á útivelli gegn Stoke í leik sem varð helmingi stærri og mikilvægari eftir þessi töpuðu stig gegn Bournemouth.

Líklega verður byrjunarliðið ekki svona en ég myndi vilja það eitthvað á þessa leið:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Moreno

Milner – Can – Wijnaldum

Origi – Firmino – Coutinho

Reyndar væri ég alveg til í að prufa að skipta um markmann aftur áður en þessu tímabili líkur enda lekur liðið alveg jafn mörgum mörkum og alltaf áður með Mignolet. Ef að Lucas er ekki klár í þrjá leiki á viku væri ein lausn að henda Moreno inn í sína stöðu og Milner þá á miðjuna sem er einmitt hans staða. Efast um að Klopp breyti vörninni en eins og ég kom inná áður sé ég ekki hvað mælir á móti því? Vörnin verður ekkert mikið lélegri en hún er. Grujic er svo annar möguleiki sem fer líklega að fá séns aftur hjá Klopp eftir mjög langt tímabil.

Framlínan gefur okkur svo von gegn öllum liðum og ætti að stríða varnarmönnum Stoke töluvert.

Spá:
Eftir leikinn gegn Bournemouth sem og allt of marga aðra leiki gegn svona liðum er ég bara ekkert bjartsýnn fyrir þennan leik og hef þá tilfinningu í bland við meiðslavandræði okkar manna að við komum til með að hellast úr lestinni um efstu fjögur sætin. Sigur á Stoke myndi mögulega breyta þeirri tilfinningu eitthvað enda er maður eins og pendúll að horfa á þetta lið okkar. Spái því að þetta verði hund helvíti erfitt og endi 1-1 í geðveikt pirrandi leik.

26 Comments

  1. Takk fyrir þessar hugleiðingar þó þær séu í neikvæðari kantinum fyrir mig. Bent hefur verið á það í vetur sem og síðustu vetur að “vandamál” liðsins liggi í varnarleiknum þ.e. aðallega hjá miðvörðunum og aftasta miðjumanni. Þetta sannast aftur og aftur í vetur sem sannfærir mann um í hvaða stöður þarf að versla. Ég var nánast úthrópaður þegar ég talaði einhverntímann um að Matip væri góður en ekki alveg alveg nógu góður fyrir Liverpool. Ef spilaður er hápressu bolti Klopp þarftu að vera með spes týpur í miðri fámennri vörninni. Mjög hraða, skynsama og númer eitt sparkvissa leikmenn. Þeir þurfa nefnilega að verjast á stærra svæði ef andstæðingurinn kemst í sókn. Liverpool liðið sem er með eitthvert best spilandi ef ekki það besta í deildinni líður etv fyrir þessa miklu spilagetu sína með þessum veikleika varnarlega. Ef kaupa á einn leikmann þá á það að vera miðvörður í Hummels, Terry, Carragher gæðum en ekki í Lovren eða Agger gæðum. Ef kaupa á annan leikmann þá þurfum við djúpan miðjumann í Alonso, Viera gæðum en ekki neinn pappakassa. Annars er liðið okkar hörkugott og efast ég ekki augnablik um góðan árangur næsta vetur og alvöru titlabaráttu ef rétt er staðið að málum.

  2. Miða við deildina í ár virðist vera slatti af óvæntum úrslitum en taflan lýgur ekki og erum við eins og staðan er í dag enþá eitt af top 4 og hefði maður tekið það fyrir tímabilið ef einhverj hefði gefi mér þessa stöðu.

    Neikvæðnin er mikil í þessu pistil og held ég að öll toppliðinn í deildinni ja kannski fyrir utan Chelsea eiga í vandræmum með ákveðnar stöður og hafa verið að tapa stigum sem þau hefðu jafnvel ekki átt að tapa. Sum þessara liða eru með miklu meiri breydd og dýrari leikmenn en eru samt ekki að ná að láta þetta smella saman.

    Óstöðuleiki í vörn má auðvita rekja til meiðsla miðvarðana okkar og ef menn halda að Sakho hefði verið einhver töfralausn þá minni ég einfaldlega á framistöðu hans á síðustu leiktíð sem var eins og jójó. C.Palace er lið sem hentar honum einstaklega vel. Lið sem er ekki mikið með boltan, háir boltar og barningur í gangi þetta er hið fullkomna lið fyrir physical miðvörð.

    Um okkar lið þá vil ég svara nokkrum punktum.
    1. Millner hefur sýnt það að hann getur varist og gerir ekki mikið af misstökum og því er hann inná fyrir Moreno sem gerir misstök og varnarleikur er eitthvað sem hann á stundum í erfileikum með þótt að hann sé betri kostur að sækja.

    2. Klavan spilaði ekki í bakverði eftir að Matip kom inná. Liðið fór í þriggja miðvarðakerfi og voru Clyne/Millner enþá bakverðir en meira svona wing-backs þar sem þeir fengu að fara ofar á völlinn. – mæli með viðtalinu hjá Klopp á heimasíðuklúbbins eftir leikinn en hann fer vel yfir þetta.

    Um leikinn á morgun .
    Þetta verður gríðarlega erfitt og ekkert gefið eftir og þurfum við að fá lámark 1 stig úr leiknum á morgun þótt að 3 stig væri óskandi og hef ég trú að það takist.

    Ég hef ekki ofmiklar áhyggjur af liðinu eftir 31 leik ég bíð eftir að 38 leikir eru búnir og ef við náum meistaradeildarsæti eftir þá, þá var þetta gott tímabil að mínu mati.

    Það er alveg fullt af þessu liði en þetta eru hlutir sem hægt er að laga og ég hef trú á Klopp að hann viti nákvæmlega hvað hann er að gera. Það er auðvelt að gagnrína og það er eiginlega eitt einkenni Íslenskuþjóðarinar að vera dugleg að gagnrína en að hrósa er eitthvað sem verður að spara.
    Markvörður – Er Mignolet bara langtímasvarið?
    Vinstri bak – Millner er solid en ekki meira en það
    Miðverðir – drullist til að vera heilir í smá stund
    H- bak – Clyne er ekki vandamál heldur hluti af lausn (eru menn búnir að gleyma þessari vandræða stöðu ár eftir ár)
    Miðjumenn : E.Can búinn að vera eins og jójó allt tímabilið góður og skelfilegur. Henderson með sín meiðsli. Lallana meiddur.
    Sóknarmen: Ingis/Sturridge alltaf meiddir, Coutinho misst mikið og lengi aftur í gagn, Origi ekki eins góður og maður var að vonast eftir, Mane í afríkukeppni og núna stór meiðsli, Firminho týndist hluta af tímabilini.

    Allt þetta er neikvætt en það er líka hægt að sjá.
    Markvörður – Mignolet hefur verið að koma sterkur inn síðarihlutan.
    Vinsti bak – Millner hefur verið solid og er það eina sem maður vill á þessum tímapunkti
    Miðverðir – Þegar Lovren/Matip spila nokkra leiki saman þá lofar það góðu
    Hægri bak – Clyne er einfaldlega góður
    Miðjumenn – E.Can hefur verið að stíga upp í lokinn þegar við þörfnust hans, Winjaldum búinn að vera solid, Djöflull er liði skemmtilegt þegar Lallana spilar fremstur á miðjuni. Henderson hefur verið að stíga upp í stórleikjum vetrarins
    Sóknarmenn – þetta er liðið sem skorar flest mörk í deildinni.

    Klopp bað stuðningsmenn um að hafa trú á liðinu og ég ætla bara að fara eftir þeim þýska.

  3. Ég er ekki viss um að kenna vörninni um þetta jöfnunarmark.
    Langt innkast sem er skallað frá, boltinn berst fyrir framan teig og það vantar mann á honum (can eða lucas). Hann nær hræðilegu skoti sem fer í okkar mann en flækist einhvern veginn og er stillt upp fyrir þá! !

    Ég held að vandinn sé í heildinni, kannski meiðslum að kenna. Þegar staðan er 2-1 þá á liðið að HALDA boltanum. Taka langar sóknir og pirra andstæðinginn. Það er of mikið panic í okkar leik, menn verða að vera meira cool eins og klopp myndi segja.

  4. Sælir félagar

    Takk fyrir upphitun Einar Matthías og ég verð að segja að mér finnst þú raunsærri en sumir aðrir á stöðu liðsins og leikmenn. Benda má á að ef Arsenal vinnur báða leikina sem þeir eiga á okkur með 1 og 2 mörkum fara þeir upp fyrir okkur og ef M. City vinnur leikinn sem þeir eiga á okkur erum við komnir niður í 5. sæti. MU verður þá komið í rassinn á okkur ef þeir vinna þá leiki sem þeir eiga á okkur en við fyrir ofan þá á markamun einum saman.

    Þetta er ekki góða staða og dugir lítið að horfa á töfluna eins og hún er í dag. Ef Liverpool heldur áfram að tapa stigum á móti “minni liðunum” sem nota bene eru einu liðin sem við eigum eftir að spila við fram á vorið er ekki möguleiki í helvíti að við náum meistaradeildarsæti. Það er búið að tala um það í nærri eina og hálfa leiktíð að það verði að laga þetta gengi gegn “minni liðunum”. Samt hefur ekkert breyst.

    Miðað við ganginn hjá Liverpool í vetur og alveg fram á þennan dag eru engar líkur á að við vinnum alla þá leiki sem eftir eru. Lið eins og WH. WBA Stoke og ef til vill fleiri geta alveg gerð það sama og Bournmouth gerði í síðasta leik og jafnvel unnið Liverpool á sínum heimavöllum. Við eigum Watford, WH, Stoke og WBA eftir úti þessir leikir geta allir tapast. Segjum að svo fari en við vinnum hina heima. Þá verða okkar menn með 72 stig sem er að öllum líkindum of lítið fyrir meistaradeildarsæti.

    Þannig að: ef spilamennska liðsins verður á pari við það sem verið hefur næst ekki í eitt af 4 efstu og þessi leiktíð farin til andskotans, því miður. Liverpool verður að ná amk. 15 stigum í þeim 8 leikjum sem eftir eru og miðað við varnarspilamennskuna í síðasta leik er það lítil von. Það eina sem maður getur gert er að vona að spilamennskan gegn “minni liðunum” batni sem aftur er lítil von að gerist því ekki hefur tekist að laga það á einni og hálfri leiktíð.

    Það er því ekkert bjart framundan hvernig sem menn reyna að tala upp þá leikmenn sem eru að spila í vörn liðsins núna og þá sem koma inn í liðið þegar leikmenn eins og Matip detta út vegna bakverkja og Lovren nær sér í enn eitt meiðsladæmið og Klavan og Lucas verða miðverðir o.s.frv. Það eina sem getur í reynd bjargað okkur eru innbyrðis viðureignir liðanna sem eru í kringum okkur. Því er upphitun meistara Einars Matthíasar afar raunsæ því miður.

    Það er nú þannig

    YNWA

  5. #2. þu ert alveg með þetta, algjörlega sammála.
    Góða helgi poolarar.

  6. Já – það þarf að hafa áhyggjur af þessu klárlega. Gæti bjargað miklu að hin toppliðin eiga eftir mikið af innbyrðisleikjum og því ljós að slatti af stigum tapast þar. Þetta snýst því um að við náum ca 75% þeirra stiga sem eru í pottinum – það ætti að klára málið.

    Velti því töluvert fyrir mér í þegar ég horfði á Bournemouth leikinn afhverju við værum í þessum vandræðum með “lélegu” liðin. Ekki vantar okkur gæðin í Coutinho, Firminho, Wini og Can líka koma að koma mjög sterkur inn og Origi allt í einu farin að geta eitthvað. “Lélegu” liðin þétta hins vegar þennann pakka fyrir framan eigin vítateig alveg gríðarlega, miklu meira en betri liðin. Þá er reynt að nýta kantana þar sem Clyne og Milner koma mikið upp og mér finnst bara vanta mikið upp á sendingarnar hjá þessu mönnum. Lítið horft upp til að reyna að finna lausa menn en sendingunum frekar dælt inn í teiginn og þar eru engir kraftframherjar til að koma þessu í netið. Þó dugnaðurinn sé mikill hjá bæði Clyne og Milner þá finnst mér bara vanta ákveðin gæði í þá þegar kemur að þessum stöðum. En þetta er nú bara pæling og væntanlega engin ný vísindi….

  7. Er sammála flestum um að hópurinn sem eftir er sé hreinlega ekki nógu góður til að klára tímabilið í topp fjórum en ætla að trúa og treysta á Klopparann fram að síðasta leik en það er nokkuð ljóst að það þarf heldur betur að taka til í sumar .

  8. Jæja Mané ekki meira með á tímabilinu , kútur tæpur og Sturridge meiddist víst við að sitja á bekknum seinast held ég fekk krampa í rass og hefur ekki jafnað sig síðan.

  9. Coutihino tæpur vegna veikinda, Sturridge tæpur og Mané út. Lallana og Hendesron ekki ready. Ég veit ekki hvort ég þori að horfa á útileik á móti Stoke. Sýnist við mögulega geta misst af fjórða sæti þrátt fyrir að eiga langauðveldasta prógrammið á pappírunum. Þessi meiðslavandræði eru að gera okkur gríðarlega erfitt fyrir.

  10. Hef enga sérstaka trú á þessu framundan , Mané ekki meira með og við höfum ekki unnið leik þegar hann hefur ekki byrjað , væri agalega gaman að það yrði afsannað í næstu leikjum en það er morgunljóst að það þarf kraftaverk til að okkar menn nái að halda top 4 sætum og þurfum að treysta á ófarir annara líka því við erum að fara tapa stigum.

  11. Menn þurfa aðeins að líta á björtu hliðarnar líka.
    #5 Sigkarl bendir á að ef að Arsenal, United og City vinna þá leiki sem þau eiga inni þá verða Liverpool í 5 sæti.
    Hinsvegar eiga öll þessi lið eftir að spila innbyrgðis á móti hvort öðru.
    Arsenal eiga eftir að fá Tottenham úti, Man Utd heima og Everton heima. Þetta eru þrír gríðarlega erfiðir leikir, svo eru líka allir leikir í þessari deild erfiðir.

    Man Utd á eftir að fá Chelsea heima, City úti og Arsenal úti.

    City eiga eftir að fá United og svo minni liðin, sem eru btw erfið líka (eins og við LIverpool menn höfum tekið eftir.

  12. Sammála því að það er töluvert um neikvæðni núna. Það er hinsvegar alveg skiljanlegt þar sem gengi liðsins hefur verið brösótt svo ekki meira sé sagt. Liðið er eins og jójó og spilar frábærlega einn daginn og svo hörmulega næsta.

    Við verðum bara að hafa trú það þýðir ekkert annað. Við getum ekki dottið í neikvæðni og haldið að allt sé ómögulegt og að þessi og hinn séu glataðir. Við vitum alveg hverjar brotalamirnar eru. Við vitum alveg að Klavan og Lucas eru að spila og mikið. Við vitum alveg að það vantar alltof marga lykilmenn. Klúbburinn þarf samt stuðning núna. Við þurfum að sýna klúbbnum að við erum þarna no matter what. Ég ætla að ríða á vaðið og segja að við endum í topp fjórum í ár. Ég er ekki í neinum pollýönnuleik heldur trúi ég því virkilega að við endum í topp fjórum.

    Keep the faith. YNWA

  13. Flott upphitun.

    Verð að viðurkenna að ég er mjög svartsýnn fyrir þennan leik. Fyrir því eru nokkrar ástæður:

    1) Okkur hefur oft gengið alveg skelfilega á þessum velli.
    2) Meiðslavandræði okkar of mikil.
    3) Leikurinn á móti Bournmouth situr enn í leikmönnum og ég óttast að sjálfstraust leikmanna sé ekki upp á það besta.

    En hey, ef við vinnum ekki lið eins og Stoke og Bournmouth þá eigum við ekkert erindi í meistaradeildina, ekkert flóknara. Lít á þennan leik sem úrslitaleik. Ef við töpum eða gerum jafntefli á morgun þá náum við ekki inn á topp4.

    Plís, vinnið þennan fucking leik og ég skal þá glaður smjatta á skítugum ullarsokki.

  14. Bara svona fyrir okkar tölfræðinördanna. Ef Liverpool vinnur ALLA þá leiki sem eftir eru þá enda þeir í topp4. Það er ÖRUGGT. Ástæða: Innbyrðis viðureignir liðanna sem við erum að keppa við.

  15. það verða allir leikir framundan úrslitaleikir fyrir LFC að komast í top4 við viljum fara í meistaradeildina það er klárt mál og ef við förum þar inn þá mun það hafa pullingpower í hverja við getum fengið til okkar það er bara staðreynd.
    En hin liðin eru líka að fara tapa stigum það er staðreynd hvenær og á móti hverjum það er önnur saga.
    Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur á móti Stoke og vonandi tekst okkar mönnum að ná í stigin.

  16. Staðan fyrir morgun daginn er slæm fyrir Coutinho og er hann líklega ekki með þetta þýðir einfaldelga að aðrir leikmenn þurfa að stíga upp.

    Ég spái því að Matip kemur inn fyrir Klavan.
    Ég spái því að Woodburn kemur inn fyrir Coutinho(Sturridge tilbúinn á bekknum).

    Þetta er ekki besta staðan en svona er lífið við ráðum auðvita ekki hvað gerist í þessum bolta en verðum einfaldlega að mæta til leiks við það sem við erum með. Ég tel að það væri 100% að ef Henderson, Mane, Coutinho og Lallana væru allir heilir þá væru þeir allir í liðinu á morgun en svo er líklega ekki. Þetta dregur mikið úr okkar sóknarleik.

    Jæja skítur skeður og ef þetta fer illa á morgun þá er bara að keyra á næsta leik og vona að einhverjir fleiri (Coutinho/Henderson) verða tilbúnir gegn WBA.
    Ég er nokkuð viss um að við séum aðalega að fara að berjast við Man utd og Arsenal um 3,4 og því miður 5 sæti.
    Skoðum þetta aðeins nánar.

    Arsenal
    Palace úti – Benteke og Sakho láta þá hafa verulega fyrir hlutunum og Zaha er sjóðandi heitur.
    Boro úti – þeir að berjast við fall en Arsenal miklu betra lið
    Sunderland Heima(búið að fresta honum) – líklega auðveldur sigur.
    Leicester heima – meistaranir loksins komnir í gang og þetta verður erfitt
    Tottenham úti – gríðarlega erfiður leikur gegn liði sem trúir því að þeir geta náð Chelsea.
    Man utd heima – erfiðurleikur þar sem Móra finnst fátt skemmtilegra en að skemma fyrir Wenger.
    Stoke úti – erfiður leikur gegn Joe Allen og félögum(eins og við kynnumst á morgun).
    Everton heima – Everton geta spilað flottan fótbolta inn á milli og þetta verður ekki gefins stig.
    Southampton útu(frestaður leikur) – The saints eru mjög sterkir heima.

    = ég er viss um að þeir vinna nú ekki rest og þarna eru erfiðir leikir hjá Arsenaliði sem er hafa verið eins og jójó á tímabilinu.

    Man utd

    Southampton úti(á eftir að ákveða leikdag) – The saints eru mjög sterkir heima.
    Sunderland úti – Sunderland að vera búinn með sín líf og mæta af krafti.
    Chelsea heima – Chelsea líklega sterkasta liðið í ár.
    Burnley úti – Þeir hafa verið að láta stóru liðinn hafa virkilega fyrir því að vinna sig.
    Man City úti – virkilega erfiður leikur
    Swansea heima – Gylfi þarf að ná í stig í bottbaráttuni
    Arsenal úti – mjög erfiður leikur því að Wenger elskar að láta Móra líða illa
    Tottenham úti – ertu að grínast með erfiða leiki sem eru eftir.
    Palace heima – ekkert gefið og Utd hafa ekki verið sannfærandi heima.

    = rugl erfitt prógram eftir .

    Hvað þýðir þetta fyrir Liverpool .
    Jú þeir verða að vera á tánum og ná í slatta af stigum ef þeir ætla sér í meistaradeildarsæti en ég er líka viss um að þeir mega misstíga sig einhvernstaðar á leiðinni og jafnvel oftar en einu sinni.

    Jájá við Liverpool aðdáendur erum ekki sáttir við 2-2 leikinn síðast sem við áttum að klára en ég get alveg sagt ykkur að.
    Man utd aðdáendur eru brjálaðir útaf tveimur jafnteflum gegn WBA og Everton og
    Arsenal aðdáendur eru enþá með óbragði í muninnum yfir 3-1 tapi gegn WBA um daginn.

    Allir þessir stuðningsmannahópar horfa á tölfuna og hugsa HVAÐ EF þegar í réttu eigum við að gera eins og leikmenn og einbeita okkur að næsta verkefni og það er ekkert gefið í þessari deild og óvænt úrslit fara að vera úrelt hugtak í deild þar sem allt getur gerst 🙂

  17. Veit ekki afhverju það ætti að skipta Mignolet út. Ekki held ég að það sé honum að kenna að vörnin sé vonlaus.

  18. Bara í guðanna bænum ekki klavan með í þessum leik. Verðum að vinna þennan leik. Ekkert helvítis rugl og aumingjaskap.

  19. Sæll öll,

    Sturridge, Lallana, Mané, Henderson eru leikmenn Liverpool sem, ég held að flestir eru sammála um að, væru að öllu jöfnu í “hóp” á leikdegi. Ætli þessir upptaldir leikmenn hafi einhvertíman spilað leik saman í PL? Það er í raun ótrúlegt að Liverpool er í þeirri stöðu sem það er í um þessar mundir. Það er Klopp að þakka!

    Óstöðuleiki Liverpool má rekja til ýmissa mismunandi þátta en ef eitthvað er hægt að vera sammál um með leikmanna hóp Liverpool á þessu tímabili er “rótering” á leikmönnum. Um þessar mundir er liðið samt þannig saman sett að ég bíð spenntur eftir hverjum leik, sem er meira en ég get sagt um leiki liðsins fyrir ekki svo mörgum árum síðan. Það er Klopp að þakka!

    Mér finnst geggjað að vera vitni að þeirri þróun sem liðið sýnir þessi misserin. Frá því að skiptingin skringilega varð að veruleika gegn Bournemouth og þangað til þetta ógeðslega jöfnunarmark kom, var ég allan tíman að hugsa “djöfull er maður að fá það í bakið að vera gagnrýna (helvítið) hann Mourinho, alltaf að ná þessum ljótu sigrum”! Málið er, að mínu viti, að Liverpool var að “éta” upp klukkuna helvíti “pro” í tuttug og eitthvað mínútur og sýndi greinilegar færslur og uppstillingu af æfingasvæðinu þ.e.a.s. þróun sem vert var að sýna og reyna í raunveruleikanum með öllum þeim varnöglum sem Þjóðverjar setja á sitt handbragð. Því miður gekk það ekki eftir en mikið skelfing, ofboðslega voru þeir grátlega nálægt því (Klopp gengi á vatni ef þetta hefði heppnast)!. Að vera með liðið í 3. sæti á þessum tímapunkti er leikmönnum og Klopp að þakka!

    Grunndvöllur stuðningsmanna Liverpool að sigra efstu deild og ná efstu fjórum er frekar veikur og að mínu viti í sumum tilfellum óskiljanlegur ef ekki ósanngjarn. Það getur verið mjög erfitt að sætta sig við sitt hlutskipti og sannast það best á stuðningsmönnum Arsenal. Þeir sem vilja “Wenger out” ættu að minnast stöðu liðsins þegar hann tók við. Og hvað það er magnað að fylgjast með stuðningsmönnum man.utd. sprikkla eins og fiskur á þurru landi að reyna rífa kjaft við allt og alla og minna á hver Ferguson var og hvenær PL byrjaði og þessi og þessi bikar eru bara litlu bikarar (sorglegt að fylgjast með hvernig þeir eru farnir að eltast við “litlu” bikarana núna án þess að skammast sín) og það er bara þessi og þessi bikar sem skipta máli. Málið er að Liverpool er bara í þeirri stöðu að þurfa að byggja sig kefisbundið upp því þeir misstu af lestinni í kringum aldamótin og eru enn að súpa seiðið af því. En alveg sama hvernig hefur árað hjá Liverpool og öllum öðrum liðum að þá einhvern veginn erum við alltaf í hringiðu umræðanna og er það ómetanlegt. (Vó…… kominn langt út fyrir það sem ég ætlaði að segja)

    Ég er svo sammála öllu því sem Klopp er að gera að ég bara get ekki hugsað mér annann til að stýra liðinu. Ég vil ekki sjá Sakho nálægt liðinu og hef ég horft nokkuð á CP eftir að hann var lánaður þangað.

    Í stuttu máli! Ég er rosalega ánægðu með þjálfaran, eigendur og þróunina á liðinu. Ég er mjög sáttur við stöðu liðsins, miðað við hópinn, nú á dögum og kem til með að hoppa hæð mína ef CL sæti næst í vor. Ég óttast samt að við töpum á móti Stoke en ef við náum jafntefli eða sigri, er búið að vinna upp töpuð stig á móti Bournemouth í síðustu umferð!!!

    Áfram Klopp og FSG en umfram allt áfram Liverpool og YNWA!!!

  20. Sælir félagar

    Það eina sem við getum gert er að treysta Klopp og strákunum fyrir því sem eftir er en það er samt þannig að það verður hunderfitt. Sigur á Stoke í dag mun setja okkur í nokkuð vænlega stöðu því í mínum áætlunum um að ná meistarasæti var sigur á Bournmouth og jafntefli við Stoke og sigur í heimaleikjum sem eftir eru en eitt til tvö jafntefli og töp í útileikjunum.

    Þrtta gæfi svona sirka 78 stig sem ætti að gulltryggja 3. til 4. sæti. Það er ég með í huga það sem Sig. Einar bendir á um innbyrðis viðureignir liðanna í kringum okkur. Sig Einar sleppir M.City í þessari upptalningu en þeir eioga líka erfiða leiki eftir. Í raun á Liverpool léttasta prógrammið eftir og staðan síður en svo vonlaus.

    Það sem ég er að benda á í Kvóti hér fyrir ofan er samt allt beinharðar staðreyndir en þýðir samt ekki að við eigum að gefast upp. Síður en svo. Nú er bara að girða sig í brók og berjast í þessari stöðu til síðasta blóðdropa. Ungir leikmenn og þeir reyndu sem fyrir eru VERÐA að síga upp og best væri að byrja á því í dag. Að þessu sögðu spái ég okkur 1 – 2 sigri í leik sem eingöngu verður okkar barátta því Stoke siglir lygnan sjó og hefir fyrir litlu að berjast.

    Það er nú þannig

    YNWA

  21. Góðar fréttir.

    Coutinho fór ekki með liðinu í gær til Stoke en kom í morgun á hótelið og er orðrómur um að hann gæti byrjað í dag.

  22. Horfa á Tottenham gjörsamlega valta yfir Watford svona á að afgreiða minni spámenn á heimavelli eitthvað sem Liverpool mætti taka til fyrirmyndar.

Liverpool 2-2 Bournemouth (leikskýrsla)

Stoke v Liverpool [dagbók]