Nokkur orð um stöðugleika

Stöðugleiki. Á ensku “consistency”.

Eftir því sem á veturinn hefur liðið þá hef ég stöðugt argað hærra og hærra það ágæta orð milli leikja. Til að ná árangri í deildarkeppni þarf að öðlast stöðugleika, augljós staðreynd. Þann stöðugleika sáum við hjá okkar mönnum allt fram í síðasta leik fyrri hluta deildarinnar gegn Man. City en um leið og við stigum inn í næsta leik á Leikvangi ljóssins í Sunderland þá má segja að sá stöðugleiki hafi eilítið horfið okkur sjónum reglulega.

Nema þá auðvitað ef við köllum þann óstöðugleika sem við höfum sýnt á þessum tíma bara stöðugleika í sjálfu sér.

Mig langaði aðeins að rýna í það hvaða þættir mér finnst styðja stöðugleika hjá fótboltaliði og þá um leið skoða hvort að þar er mögulega að finna ástæðurnar fyrir stöðugleikaskortinum. Þeir sem vilja spá með mér geta smellt hér á…

1. JAFNVÆGI Í LEIKMANNAHÓPNUM

Með þessu atriði á ég við það að leikmannahópur þarf að vera á þann hátt að nægileg samkeppni sé um hverja stöðu milli leikmanna. Ekki bara til þess að slá hver annan út heldur til að dreifa álagi. Strax í haust ræddum við það að okkur fannst vera stór spurningamerki í nokkrum leikstöðum. Bakvarðastöðurnar innihéldu þrjá leikmenn og við mátum það þannig að við værum með þrjá hafsenta eftir að Sakho var lánaður. Sex varnarmenn þar á ferð og 1,5 um hverja stöðu. Þegar horft var á miðjuna sáum við Lucas, Emre Can, Hendo og Lallana fá nýja félaga í Wijnaldum og Grujic. Sex leikmenn þar að leysa þrjár stöður…2 um hverja stöðu og von um að Stewart gæti líka leikið nokkrar mínútur. Framlínumenn töldum við vera í Coutinho, Mané, Firmino, Origi, Ings og Sturridge, 2 þar um hverja stöðu.

Þegar horft er til þessara staðreynda þá var ljóst að það var ákveðið ójafnvægi í leikmannahópnum, við vorum ekki með nægilega mikla breidd í varnarleiknum en töluvert vel skipaðir frammi, flestir á miðjunni. Lucas varð svo hafsentinn svo það dró úr ójafnvæginu vissulega en það var fyrir hendi frá upphafi leiktíðar og þá helst í bakvarðarstöðunum þar sem lítil samkeppni var frá byrjun og hefur svo verið frá upphafi tímabils.

Vissulega hverfur mikið úr sóknarleiknum snemma þegar Ings dettur út og segja má að Sturridge hafi líka horfið frá snemma. Við vitum öll að við því hefði verið brugðist ef við hefðum vitað það. Því má segja að ójafnvægi hafi verið í liðinu snemma og ójafnvægi í leikmannahópnum. Það ójafnvægi dregur úr stöðugleika, en þó má segja að ekki hafi orðið breyting um áramót þar á.

2. LEIKAÐFERÐ/LEIKAÐFERÐIR

Endalaus er umræðan um leikaðferðir, ekki síst síðustu tvær leiktíðir þar sem að við höfum séð mörg lið taka upp 4-4-2 leikkerfi með stutt á milli lína og svo hefur í vetur stöðugt bæst í hóp þeirra liða sem hafa stillt upp þriggja manna varnarlínu til að byggja leik sinn á. Það hefur yfirleitt ekki verið þannig að við höfum séð lið ná miklum árangri sem ekki hafa fundið leikkerfi fyrir sinn leikmannahóp og eru að flakka milli kerfa.

Okkar lið í vetur hefur í nær allan vetur haldið tryggð við það leikkerfi sem Jurgen Klopp vann með lengst af sínum tíma hjá Dortmund. Fjögurra manna varnarlína þar sem bakverðirnir fara hátt, hafsentarnir vítt og djúpur miðjumaður kemur á milli þeirra. Tveir miðjumenn þar fyrir framan vinna “box to box” og þriggja manna sóknarlína með mikið flæði og hápressu. Núna upp á síðkastið höfum við þurft að leita í aðrar áttir og þá sérstaklega vegna forfalla í leikmannahópnum en langstærstan hluta leiktíðarinnar hefur sama kerfi byggt á sömu áherslum verið málið. Stöðugleiki þar.

3. LEIKMANNAHÓPUR SEM ÞEKKIST VEL

Lið sem sýna stöðugleika eru oft lið þar sem kjarni leikmannahópsins hefur verið lengi saman. Skoðum það aðeins hjá okkar liði.

Vorið 2014 er fyrir þremur árum. Þá enduðum við leiktíðina í 2.sæti. Byrjunarliðið okkar í síðasta leiknum, 2-1 sigri á Newcastle var svona:

Mignolet

Johnson – Skrtel – Agger – Flanagan

Sterling – Gerrard – Henderson – Coutinho

Sturridge – Suarez

Í dag eru liðin þrjú ár. Ef við horfum til liðsins núna þá eru einungis þrír enn í lykilhlutverki. Mignolet (sem ekki er nú óumdeildur), Hendo og Coutinho. Lucas Leiva sat á bekknum þennan dag, með honum eru þá 5 úr 18 manna hópnum eftir.

Ég viðurkenni að þetta kom mér eilítið á óvart. Þrjú ár eru ekki eilífð í fótbolta. Ef fer sem horfir er viðbúið að Lucas og Sturridge hverfi í sumar svo að það verður ekki horft hjá því að margumrætt uppbyggingarstarf hefur verið í gangi í félaginu frá 2014. Auðvitað er það ekki þannig að menn þurfi endalausan árafjölda til að kynnast en endurnýjun leikmannahóps og uppbygging liðsins frá 2014? Klárlega staðreynd sem við eigum að geta horft til að hafi haft áhrif í vetur og eitthvað sem verður vonandi ekki staðreyndin svo glatt næstu ár enda liðið á betri aldri núna en 2014.

4. LEIÐTOGAHÆFNI

Leiðtogar sjá til þess að viðhalda stöðugleika í úrslitum. Þeir kikka inn þegar liðið er í öldudal úrslitalega og leysa vanda í liðsframmistöðum sem eru slakar. Ef við horfum til baka þá er það auðvitað engin tilviljun að þetta 2014 lið virkaði þrátt fyrir ákveðna veikleika í byrjunarliði og leikmannahóp vegna þess að í því liði voru menn skoruðu stór mörk og björguðu erfiðum aðstæðum.

Fyrir áramót sáum við vissulega flottar frammistöður en líka jafna leiki sem kölluðu á slíkar frammistöður. Henderson á Brúnni, Mané á Emirates og vítaspyrnur Milner í gegnum veturinn, t.d. í Swansea. Þessir þrír hafa allir leiðtogahæfileika á ólíkan hátt. Gæði Mané og áræðni mynda hans, Hendo hefur á undanförnum árum stöðugt verið að stíga upp og er sá í liðinu sem færir stál í leiki sem að þess þurfa og Milner hefur komið inn á sterkum augnablikum. Þegar við horfum yfir þá er samt enginn þarna afgerandi leiðtogakarakter…en sennilega er það þó síðasta atriðið í þessari upptalningu sem hefur átt stóran þátt í að erfitt er að átta sig á hversu miklir leiðtogahæfileikarnir eru.

5. LEIKBÖNN OG MEIÐSLI

Þeir fjórir þættir sem komnir eru hingað til tengjast að mörgu leyti umgjörð leikjanna.

Til að ná stöðugleika í liði þarf að vera stöðugleiki í leikmannahóp hvers leiktímabils. Lítið um leikbönn og að meiðsli séu 10 – 15% í gegnum leiktíðina. Þumalputtinn er að ef farið er yfir 20% hlutfall meiddra leikmanna í hópi fari það að “hitta liðið illa fyrir” Horft til 25 manna leikmannahóps er það á bilinu 2,5 – 5 leikmenn í hóp.

Ef við horfum til lykilmanna LFC (sem eru 15 miðað við þá leikmenn sem segja má að hafi haft hlutverk í vetur) þá er það 2 – 3 leikmenn. Við vitum auðvitað það að í vetur hefur nú bara varla verið sá leikur þar sem ekki hefur a.m.k. vantað þennan fjölda. Það var þó vissulega þannig í haust og lengi fram eftir vetri að þannig var. Við höfum þó verið í stöðugu mausi með hafsentana, Coutinho datt út í nóvember og Hendo fljótlega upp úr því. Mané fór í Afríkukeppnina og Lallana dottið út í tengslum við tvo landsleiki. Sturridge bara fór……já og fór og fór og fór. Svo við höfum á löngum köflum verið með meira en 20% fjarveru lykilmanna og það skiptir máli.

SAMANTEKT

Horfum hratt yfir þessa fimm stöðugleikaþætti sem ég dreg fram.

Jafnvægi í hóp NEI
Leikaðferð
Leikmannahópur sem þekkist JÁ / NEI
Leiðtogar í liðinu JÁ / NEI
Leikmannahópur heill NEI

Endapunktur þessa huglæga mats míns er það að við erum með leikaðferð sem ýtir undir stöðugleika, leikmannahópurinn er stöðugt að kynnast betur en ennþá ekki klár og í liðinu eru vissulega leiðtogar en þeir hafa þó ekki náð að sýna algeran stöðugleika í því hlutverki. Það hins vegar að það er ekki jafnvægi í leikstöðum í hópnum og við höfum verið með mikla fjarveru vegna meiðsla og leikbanna segir söguna þá að við getum ekki reiknað með stöðugleika í liðinu í heilt tímabil.

Ef við horfum yfir þessi atriði með framhaldið í huga þá erum við að fá menn til baka sem vonandi gefur okkur von til þess að fá stöðugleikann upp í lok tímabilsins sem við sáum í haust…og ef við horfum til næsta tímabils þá þurfum við að ná jafnvægi í hóp, ekki gjörbylta liðinu og finna leiðtoga…annað hvort með því að byggja þá upp innan liðsins eða finna þá utan hóps og kaupa.

Þá er stutt í stöðugleikann sem þarf!

22 Comments

  1. Flott greining sem ég er sammála. Myndi þó segja NEI alfarið við leiðtoga í liðinu. Sé hann bara ekki.

  2. Ágætis pælingar i þessu hjá Magga og flestir geta verið sammála því sem hann skrifar.
    Eitt finnst mér samt að hefði mátt vera með og það er hvort að þessi indjánafótbolti sem okkar menn spila skapi þessi þrálátu meiðsli sem okkar bestu menn hafa haft i vetur?
    Það eru nokkrir þjálfarar og sérfræðingar sem segja það. Ef svo er verður að bregðast við því með stærri hóp af mönnum sem þola svona hasar og til þess þarf jú peninga sem FSG hafa nú verið tregir til að nota í gæðaleikmenn til þessa. Það þarf sennilega að vera með ekstra stórann hóp fyrir fótboltann hans Klopp þar sem hann krefst svo mikils af sínum leikmönnum.
    Ég á ekki von á að FSG breiti um innkaupastefnu í sumar svo að við þurfum sennilega að horfa upp á sama dæmið næsta vetur og rússibanaferðalagið heldur því áfram nema að lukkudísirnar verði með í för .
    Þess vegna er ég hræddur um að Liverpool verði á svipuðum stað áfram sem hingað til og þá verður þess ekki langt að bíða að farið verði að kritisera Klopp og við vitum allir hvernig það endar. Ef svo fer er ég hræddur um að klúbburinn verði endanlega kominn úr baráttunni um efstu sætin.

  3. Sælir félagar

    Takk fyrir góðan pistil Maggi og athygliverða greiningu. Þar er ég sammála flestu en ekki öllu. Það er fyrst og fremst um leiðtogann sem okkur greinir.

    Milner er ekki leiðtogi að mínu mati en setur oft gott fordæmi með vinnusemi sinni. Maður sér hann ekki rífa menn upp, skipa mönnum til og taka þá á beinið fyrir röng vinnubrögð inná vellinum. Hann setur bara undir sig hausinn og reynir meira.

    Mané hefur ekki sýnt neina leiðtogahæfileika sem mér virðast sem slíkir. Hann á það reyndar til að fara í fýlu og vera svolítið neikvæður í framkomu þegar illa gengur. Hinsvegar getur hann drifið menn áfram með krafti sínum og hraða og oftast er hann glaður og vinnusamur enda er leikur hans árangursríkur, oftast.

    Hendo er sá eini af þessum þremur sem hefur sýnt leiðtogahæfileika inni á vellinum. Hann talar menn upp, skipar mönnum til verka og talar menn áfram ef illa gengur. Hann reynir líka oft að drífa liðið upp þegar það lendir undir.

    Gallar hans eru þó aðallega tveir. Sá fyrri er að hann er svo mikið frá að leiðtogahlutverkið líður fyrir það. Hitt atriðið er að hann er ef til vill ekki nógu afgerandi sem leiðtogi alltaf. Stundum setur hann undir sig hausinn og er bara fúll en þetta sá maður svo sem hjá Gerrard líka. Af þessum þremur er Hendo þó sá eini sem mér finnst sýna sanna leiðtoga takta.

    Sá fjórði sem ég vil nefna í þessu sambandi er Lucas Leiva. Hann sýnir oft leiðtogatakta inni á vellinum og miðlar mönnum af reynslu og skilningi á leiknum. Hann er þó ekki afgerandi leiðtogi og stafar það af tvennu að mínu mati. Í fyrsta lagi leikur hann ekki nógu marga leiki til að gera sig gildandi sem leiðtogi og í annan stað hefur hann ef til vill ekki traust stjórans til hlutverksins.

    Annars er ég sammála þessum ágæta pistli og tek undir með Magga í góðri greiningu hans á stöðugleikaskortinum.

    Það er nú þannig

    YNWA

  4. J.Flanagan er að láta W.Zaha éta gras í augnablikinu. Lappirnar greinilega ekki alveg í standi hjá Jóni okkar til að spila mikið en þegar hann spilar þá er hann sennilega grófasti leikmaður sem ég hef séð sem á einhvern undarlegan hátt fær ekki dæmt á sig aukaspyrnu. Vonandi að hann braggist einhvern tímann og snúi aftur í okkar lið. Yfirburða bakvörður.

  5. Flott hjá þér Maggi.

    Er alltaf sammála (nema um eitt ) þegar þú opnar munninn eða ritar með hægri!

    Leiðtoginn.

    Það er engin sem öskrar á menn sem senda ílla eða eru ekki að verjast.
    Það er engin sem öskrar ef þú ferð ekki á fullu í allar tæklingar.
    Liðið og einstaklingar fær bara að spila ílla með hangandi haus heilu hálfleikina án þess
    að nokkr sé öskrandi úr sér lungun.

    Gerarrd okkar var ekkert svakalega mikið í þessu sem ég rita um hér að ofan en hann gerði bara þeim mun meira af því að klára leikina upp á sýnar eiginn spýtur (mörk og tæklingar) og dreif þannig manskapinn áfram.

    Ég er að tala um leikmenn eins og Graeme Souness og Roy Keane (af gamla skólanum) sem leifðu mönnum ekkert að komast upp með neitt múður.
    Mér fynnst liðið okkar vera með nokkrar dúkkulísur sem þurfa aðhald til að koma þeim í gang.

    Henderson er góður þegar vel gengur en mér fynnst hann bregðast þegar við erum með slaka leiki.
    Kannski kemur það hjá honum en ég er efins.

    YNWA. Ingó

  6. Það er allanvega klárlega mikill stöðugleiki á Old Trafford. Ávallt 1 stig í hús. Mikið væri maður ríkur ef maður hefði tippað á það í lengjunni í allan vetur 🙂 Fjórða sætið er aftur komið í okkar hendur, nú er bara að standa sig. Hef fulla trú á þessu!!

  7. Gylfa er hér með fyrirgefið markið sem hann skoraði á Anfield fyrr í vetur. Það má færa rök fyrir því að markið á Anfield hafi orðið til þess að Liverpool tapaði 1 stigi (staðan var jú jöfn áður en Gylfi skoraði), en markið sem hann skoraði núna á Old Trafford hafi orðið til þess að United tapaði 2 stigum (þeir voru jú yfir áður en Gylfi skoraði).

  8. Koma svo Boro!! 1-0 yfir gegn City

    Leikjafjöldi og þreyta farin að segja til sín hjá Manchester liðunum….wow hvað ég er á miklum bömmer yfir því.

  9. Þetta er allavega komið aftur í hendurnar á okkar mönnum. Vonandi að við náum að nýta þetta og klára okkar leiki.
    United á hrikalega erfiða leiki eftir og menn eru að hrynja niður i bunkum hjá þeim sem gerir þetta ansi erfitt fyrir þá.

  10. Komið í okkar hendur á nýjan leik… Það er stranglega bannað að klúðra því strákar mínir. Sýnið nú karakter og stöðugleika i síðustu leikjunum og náum 3ja sætinu!!
    Gylfi má koma í sumar til okkar. Getum vel notað þennan leikmann.

  11. Skítbuxinn Múrinjo hraunar yfir leikmenn sína. Mikið rosalega held eg að það se góður mórall hja þeim nuna…

  12. Allt að falla með okkur en ég óttast að við klúðrum þessu á móti Watford.

  13. Með öllu eðlilegu þá hefðum við átt að detta niður í 5 sætið en liðin í botnbaráttuni bitu frá sér hressilega í dag sem betur fer og héldu okkur í 3 sætinu.
    Núna verða menn að halda haus og tryggja okkur 3 stig á morgun.

  14. #2 Ég veit ekki hvort að menn hafa tekið eftir því en Klopp hefur minkað hápressuna mikið og liðið er miklu þéttara en það var.
    Í sambandinn við meiðslinn sökum álags þá hafa þau ekki verið mikil í vetur. Þetta hafa oft verið eftir tæklingar og högg og fór Klopp yfir það um daginn.

    # 17 Þetta er bara enskaúrvaldsdeildinn og ætti það ekki að koma á óvart að lið í berjast fyrir lífisínu náði stig gegn toppluðum undir lok leiktíðar(þetta hefur verið svona frá því að ég fór að límast við skjáinn árið 1989.
    Þetta er nefnilega nákvæmlega eðlilegt eins og staðan er í dag. Það eru miklar sviftingar í þessu og ég er 100% viss um að þeim er ekki lokið. Það verður t.d ekkert gefið á morgun gegn Watford.
    Taflan lýgur aldrei og þetta er einfaldlega staðan og þegar öll lið eru búinn með 38 leiki þá raðast hún þannig að allir enda í því sæti sem það á skilið.

  15. Kane og Ali endanlega að sökkva Njöllunum. Það stefnir í frábæran sunnudag! 🙂

  16. Manni leiðist þessi fótboltadagur ekkert.

    Þori að veðja upp á 50 NOK að Wenger er að syngja sitt síðasta tímabil í svefnpokanum sínum.

  17. Fallegur dagur í dag.

    Annars líður mér eins og Gerrard sé kominn til þess að vera í U18. Held hann hafi mun meiri áhuga á því að bæta akademíuna frekar en stjórastarfinu. Allavega í bili.

  18. Nei nei nei nei!!!!!!!!!!!! þetta má bara ekki gerast. Maður lærir aldrei á þessu helvíti eftir rétt rúm 30 ár en neibb hún er kominn aftur. Ég var búin að segja henni að þetta væri komið gott en eins og eiginkona að vonast til að HM komi til Íslands þá er blessuð vonin um að liverpool nái ætlunarverkinu að komast í meistardeildinni kominn aftur.
    Ég vona bara að þetta endar eins vel og hjá konuni því að hún gafst ekki upp á sínum draum og sagði mér að halda í minn en hún hefur nú oftast rétt fyrir sér en ég er samt að berjast við blessuðu vonina og við erum búinn að sætast á það að ef liverpool vinnur á morgun þá megi hún koma aftur en ekki fyrr.

    YNWA

Lovren, Gerrard, nýr búningur

Watford framundan á mánudagskvöldi