Southampton á morgun

Á morgun mun Southampton heimsækja Liverpool í 36.umferð deildarinnar og er mjög mikið í húfi fyrir Liverpool í þeim leik en í raun ekkert merkilegt fyrir Southampton nema það að þeir geta hoppað aðeins upp töfluna en það gefur þeim ekkert nema einhvern smá heiður og kannski smá auka pening í kassann. Ef okkar menn mæta ekki í þennan leik og verður sá aðili sem vill vinna leikinn meira en hinn þá verð ég afar vonsvikinn.

Þrír leikir eftir og þetta er allt í okkar höndum. Við verðum bara að klára okkar og þá verðum við í Meistaradeildinni að ári. Á morgun mun að öllum líkindum eitt lið falla úr baráttunni um eitt af efstu fjórum sætunum og verður það líklega annað hvort Arsenal eða Man Utd sem munu mætast innbyrðis eftir Liverpool leikinn. Sigur gæti því farið mjög langt með að klára þetta fyrir okkur og maður setur hreinlega kröfuna á það.

Man City þurftu auðvitað að vera með eitthvað vesen í dag og rústuðu sínum leik 5-0 og eru því með jafn mörg stig og við en eru nú komnir fyrir ofan á markatölu. Það virðist stefna í mjög jafna baráttu á milli fjögurra liða um tvö sæti og getur hvert einasta mark og hvert einasta stig, unnið eða tapað, vegið þungt í lok leiktíðar það má því ekki mikið út af bregða hjá okkar mönnum.

Coutinho ætti líklega að vera klár fyrir leikinn eftir að hafa fengið smá högg á fótinn í sigurleiknum á Watford í síðustu umferð. Lallana mætti aftur fyrir þann leik og Sturridge er klár svo hópurinn er bara heilt yfir nokkuð fínn.

Mane og Henderson eru enn frá vegna meiðsla eins og búist var við. Maður er farinn að hafa töluverðar áhyggjur af þessum meiðslum hjá Henderson sem áttu nú í upphafi ekki að vera talinn sérlega alvarleg en það eru ansi margar vikur síðan hann var sagður “tæpur” fyrir fyrsta leik eftir þessi meiðsli.

Southampton hefur ekkert gengið eitthvað sérstaklega vel undanfarið og verða án Virgil Van Dijk (sem er vonandi verðandi Liverpool leikmaður fyrir næstu leiktíð!) og gæti munað um hann í vörn þeirra því hann hefur nú náð að þagga heldur betur í sóknarmönnum okkar í þessum tveimur leikjum sem við höfum mætt þeim í vetur.

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Can – Lucas – Wijnaldum

Lallana – Firmino – Coutinho

Ef Coutinho er tilbúinn í að byrja leikinn, sem ég myndi nú giska á, þá held ég að eina breytingin sem Klopp gerir á liðinu verði sú að Lallana muni koma inn í byrjunarliðið og þá líklega á kostnað Divock Origi. Ég væri alveg til í að sjá annað hvort Origi eða Sturridge byrja en finnst líklegra að Klopp vilji koma Lallana inn í liðið og þá líklega á þeirra kostnað.

Fínt lið nær sama hvernig þetta yrði sett upp og á að vera nógu sterkt að mínu mati til að klára þennan leik á morgun. Klárum okkar leik og fylgjumst svo með Arsenal og/eða Man Utd tapa stigum í leiknum sem fylgir í kjölfarið.

Frammistaða liðsins í leikjunum upp á síðkastið hefur verið svona upp og niður og kannski heilt yfir ekki nógu sannfærandi en við höfum náð að klára dæmið í flestum síðustu leikjum og það er það sem máli skiptir. Ég tæki alveg klárlega aftur einhvern erfiðan eins marks sigur og þrjú stig en það væri nú ekki verra að sjá góða spilamennsku, öruggan sigur og vonandi fleiri mörk en sjáum til – ætla nú ekki að verða of frekur hérna.

Við erum svo nálægt því að tryggja okkur aftur inn í Meistaradeildina og Liverpool bara plís, ég grátbið ykkur – ekki fuck-a þessu upp!

6 Comments

  1. Sælir félagar

    Takk fyrir upphitunina Óli Haukur og þar er í raun allt sagt sem segja þarf. Þetta er eins og allir leikir sem eftir eru “ÚRSLITALEIKUR” og ekkert nema sigur kemur til greina. Ég ætla að spá því að okkar menn hrökkvi nú loksins í gang og skori meira en eitt mark Mín spá er því 3 – 1.

    (Í framhjáhlaupi vil ég benda ÓH á að fótur er sá partur útlimsins sem skórinn er klæddur í og er fyrir neða hné og reyndar fyrir neðan ökla líka. Coutinho fékk högg á lærið sem er fyrir ofan hné. Þetta er bara smá nöldur um mannsins aðskiljanlegu parta og kemur reyndar málinu ekkert við.)

    Það er nú þannig

    YNWA

  2. Vinnum stórsigur á morgunn og verðum með betra markahlutfall en city….YNWA

  3. Vá þetta er einn mikilvægasti leikur tímabilsins og við verðum að vinna hann og það helst með nokkrum mörkum.

  4. Takk fyrir þessa fínu upphitun. Eins og nánast alltaf er næsti leikur sá mikilvægasti. Vonandi haldast Lallana og Couthino heilir það sem eftir er því ekki veitir af að vinna og það helst með einhverjum mun amk einhvern þeirra leikja sem eftir er.
    Baráttan um þriðja sætið er í algleymingi. Mér finnst eins og okkar lið sé betra en Man City og megi því alls ekki missa þá upp fyrir sig. Að minnsta kosti held ég að í liði Man City séu meiri fýlupúkar. Nú er Man City með 33 mörk í plús og á eftir Leicester (9. sæti) og WBA (8. sæti) heima og Watford (15. sæti) úti. Liverpool er með 29 mörk í plús á Southampton (12. sæti) og Middlesb (19. sæti) heima og West Ham (11. sæti) úti. Í fljótu bragði léttara prógram hjá okkar mönnum en gleymum því ekki að Liverpool hefur gengið bölvanlega með liðin í neðri hlutanum. Nú er bara að setja í fluggírinn og enda tímabilið á jákvæðu nótunum.

  5. Maður er kominn með 13/14 fiðring í magann því þetta er alfarið í okkar höndum og það gerir mann eitthvað stressaðann.

    Ég held að við eigum eftir að sjá skemmtilegan leik þar sem agi verður mikill hjá báðum liðum.
    Southampton ætla alveg pottþétt að sækja hratt og kæmi það mér ekkert á óvart að Long byrji þennan leik.

    Eina spurningin í okkar liði er hvort að Coutinho sé 100% eða ekki. Ef hann er 100% er liðið eins og Ólafur Haukur spáir. Ef hann er tæpur vill ég að Sturridge kæmi til leiks og sýni okkur að hann sé ennþá fótboltamaður en ekki á góðri leið að verða flottur sjúkraþjálfi.

    Spái okkar mönnum 3-1 sigri þar sem Wijnaldum, Firmino og Lovren skora.

    YNWA – In Klopp we trust!

  6. Við höfum ekki enn skorað á móti southampton á þessu tímabili og ég vona svo sannarlega að það breytist í dag. Að halda reinu er líka algjört möst 🙂 Þeir hafa ekki að miklu að keppa, en við höfum CL sæti undir í þessum 3 leikjum sem við eigum eftir, koma svo ! ! !

Wenger-bikarinn

Liverpool v Southampton [dagbók]