Leikmannakaupin 2017?

Jæja, tímabilinu er lokið. Engin ástæða gafst til að opna bikarskápana að þessu sinni en á móti bætti liðið sig helling og náði 76 stigum, sem hefði nægt í titilbaráttu á flestum árum síðasta áratuginn. Í þetta sinn gaf það þó 4. sætið eftir firnasterka deildarkeppni hinna sex stóru. Það gefur sæti í umspil Meistaradeildarinnar í ágúst, hvar okkar menn verða í „sterkari“ pottinum og ættu því að fá viðráðanlega mótherja. Það er þó aldrei á vísan að róa og þótt Einar Matthías hafi farið framúr sér og spilað Meistaradeildarlagið í podcast-þætti vikunnar ætla ég að bíða með að setja það í heyrnartólin fyrr en seint í ágúst.

Fyrst er það sumarið. Það er orðið svo að á þriggja ára fresti fá leikmenn frí frá landsliðunum sínum yfir sumar og er komið að því í ár. Reyndar er einhver Álfukeppni í Rússlandi og mig grunar að Brassarnir okkar hið minnsta verði þar í júní. Aðrir fá frí og ættu að koma ferskir í undirbúningstímabilið í júlí. Jürgen Klopp og FSG verða þó í fullri vinnu næstu vikurnar enda sagði Klopp eftir lokaumferðina síðasta sunnudag að vinnan við að negla niður takmörkin fyrir sumarið væri að mestu búin, nú ætti bara eftir að bjóða í og ná samkomulagi. Vonandi gengur sú vinna vel fyrir sig.

En hvaða leikmenn munu styrkja lið Liverpool í sumar? Síðast þegar liðið komst í Meistaradeildina fyrir þremur árum missti liðið sinn besta mann (Suarez) og í rauninni næstbesta líka (Sturridge, endalaus meiðsli) og fékk andskotann ekki neitt í staðinn, endaði á panikkaupum á Mario Balotelli af öllum mönnum auk hins aldna Rickie Lambert í sóknina. Það er því einfaldlega pressa á FSG að gera betur í sumar og hvorki þeir né Klopp hafa afsakanir ef þetta sumar klikkar.

Svona í upphafi sumars er tilvalið að taka saman nokkur helstu nöfnin í helstu stöðurnar og sjá hvað er til í þeim. Þetta er ekki á nokkurn hátt tæmandi listi enda nokkur ár síðan ég nennti að liggja á transfer-vaktinni eins og þegar ég var yngri, þannig að ef þið sjáið nöfn sem ég hef gleymt megið þið endilega bæta þeim við í ummælum og ég uppfæri listann.

Förum yfir þetta stöðu fyrir stöðu:

Markverðir

Nöfn: Iker Casillas, Joe Hart. Klúbburinn var fljótur að afneita Casillas í vikunni, þar á bæ segjast menn ekkert skilja í þeim orðrómi og Liverpool Echo gengur svo langt að halda því fram að enginn markvörður verði keyptur í sumar. Joe Hart-slúðrið virðist aðallega vera tilkomið af því að hann snýr aftur til City í sumar eftir lán í Torino og þarf að finna sér nýtt félag. Það er hins vegar alveg morgunljóst að Klopp ætlar að treysta á Mignolet, Karius og Danny Ward næsta haust og því er engin þörf á að eyða fé í markvörð.

Niðurstaða: Enginn kemur. Þið sem látið ykkur dreyma um nýjan markvörð, haldið ekki niðrí ykkur andanum. Ekki í ár.

Hægri bakverðir

Nöfn: Engin. Félagið á enska landsliðsmanninn Nathaniel Clyne og ungstirnið Trent Alexander-Arnold, auk Connor Randall í varaliðinu. Og það eru engin nöfn orðuð við þessa stöðu hjá okkur þótt silly-season sé formlega hafið, sem segir ansi margt.

Niðurstaða: Enginn kemur. Trent A-A berst við Clyne um stöðuna næsta vetur.

Vinstri bakverðir

Nöfn: Ryan Sessegnon, Ben Chilwell, Andrew Robertson. Sessegnon virðist einna helst orðaður við okkur og hefur verið í nokkrar vikur núna, þótt ég hafi ekki fundið neina áreiðanlega miðla sem halda því fram að þetta sé langt komið. Það bendir þó ýmislegt í slúðrinu til þess að hann komi til okkar fyrst Fulham komust ekki upp í Úrvalsdeildina í vor. Fyrir þá sem ekki vita er Sessegnon nýorðinn 17 ára bakvörður hjá Fulham, enskur og uppalinn þar. Hann var frábær með Fulham í Championship-deildinni í vetur og þykir mikið efni, leikmaður sem gæti smellpassað í Klopp-módelið hjá Liverpool.

Niðurstaða: Sessegnon kemur og mögulega reyndari leikmaður eins og Andrew Robertson hjá Hull City. Þeir tveir geta þá barist við Milner um stöðuna eftir að Alberto Moreno fer væntanlega aftur til Spánar í sumar. Ég veit ekki með að setja traustið á 17-ára strák en fagna því ef það kemur loks breidd í þessa stöðu.

Miðverðir

Nöfn: Virgil Van Dijk, Michael Keane. Það eru eflaust fleiri nöfn á reiki þarna úti en þetta eru þau tvö sem eru helst orðuð við okkar menn. Ég býst bara við einum kaupum í þessa stöðu, til að bæta við samkeppnina í þeim Matip, Lovren, Gomez og Klavan sem ég býst við að verði allir kyrrir. Hér vantar okkur leikmann sem er helst af hærra kalíberi en þeir fjórir og getur komið með stöðugleika inn í vörnina. Van Dijk er klárlega eitt af stóru nöfnunum á markaðnum í sumar og verður rándýr en ég set smá spurningarmerki við að kaupa mann sem er rétt að jafna sig á slæmum meiðslum (frá síðan í janúar) og ætlast til að hann verði oftar leikfær heldur en meiðslaMatip og lasniLovren. En frábær leikmaður er hann, það er víst. Á móti held ég að Keane fari alltaf heim til United á ný ef Mourinho vill hann þangað, aðeins ef Mo hefur ekki áhuga gætum við átt séns. Ég hef ekki séð hann oft í vetur en leyfi mér að efast um að leikmaður sem Man Utd létu fara fyrir tveimur árum sé af hærra kalíberi en Matip og Lovren.

Niðurstaða: Van Dijk kemur. Ef ekki þá leitar Klopp út fyrir landsteinana og reynir að finna annan Matip/Klavan kost frá Þýskalandinu sem hann þekkir svo vel.

Miðjumenn

Nöfn: Naby Keita, Alex Oxlade-Chamberlain. Keita er 22ja ára Gíneu-búi sem spilar fyrir RB Leipzig í Þýskalandi og hefur slegið í gegn í vetur. Hann þykir sókndjarfur en alhliða miðjumaður með mikinn sprengikraft. Ég hef aldrei séð hann spila en hef heyrt honum líkt við Adam Lallana með hraða, ef það segir ykkur eitthvað. Oxlade-Chamberlain þekkjum við öll en hann hefur verið mikið orðaður við okkur eftir áramót og þykir líklegt að Arsenal gætu látið hann fara í sumar. Við höfum símeiddan Henderson, Can, Wijnaldum, Lallana, Coutinho, Lucas, Grujic og Kevin Stewart til að spila á miðjunni. Ég gæti séð að Liverpool reyndi við báða þessa leikmenn, eða tvo aðra sem við höfum ekki heyrt nefnda ennþá, ef Milner á áfram að vera bakvörður en ef það verða keyptir tveir vinstri bakverðir gæti Milner snúið til baka á miðjuna og þá þyrftum við mögulega bara einn hér.

Persónulega myndi ég einnig vilja setja frábæran varnartengilið í algjöran forgang ásamt heimsklassamiðverði í sumar en enginn slíkur hefur verið orðaður við okkar menn svo að tekið sé eftir, þannig að þá er komið að mér að halda ekki niðri í mér andanum. Þetta verður jafnframt tíunda sumarið í röð sem Lucas Leiva verður orðaður við brottför en ég held að hann verði kyrr enda fínt að hafa menn sem rugga ekki bátnum í hópnum upp á breiddina.

Niðurstaða: Við fáum Keita og einn annan sem við vitum ekki deili á, á meðan Kevin Stewart rær á ný mið. Milner snýr líka á miðjuna og ættum við því að vera ágætlega stödd með miðjumenn næsta vetur, sérstaklega ef Henderson á betra tímabil upp á meiðsli að gera (krosslegg fingur og tær hérna).

Sóknartengiliðir

Nöfn: Julian Brandt, Christian Pulisic. Aðeins eitt nafn sem við höfum heyrt nefnt hér af alvöru enda um alvöru leikmann að ræða. Brandt er 21s árs gamall sóknartengiliður sem leikur fyrir Bayer Leverkusen í heimalandi sínu. Hann getur spilað báða vængina og hefur verið sterklega orðaður við félagaskipti til Englands að undanförnu. Eftir að liðið reyndi við Julian Draxler í janúar en hann fór til PSG virðist Brandt vera næstur á lista. Christian Pulisic er leikmaður sem Klopp bauð í undir lok síðasta sumars en Dortmund neitaði þá og fyrst hann hefur slegið í gegn hjá þeim í vetur, þrátt fyrir ungan aldur, verður að teljast ansi ólíklegt að hann færi sig um set í sumar.

Einnig verður að taka hér með í reikninginn að flestir Liverpool-fréttamenn sem þekkja til segja að hinn ungi Harry Wilson verði færður úr varaliðinu og meira inn í aðalliðið í vetur, á svipaðan hátt og t.d. Trent Alexander-Arnold gerði á nýafstöðnu tímabili. Þá er von til að Sheyi Ojo geti spilað meira á næstu leiktíð eftir erfið meiðsli í allan vetur og þá eru fleiri efnilegir strákar eins og Ben Woodburn og Ovie Ejaria þarna sem gætu fengið fleiri leiki en í vetur til að halda sinni þróun áfram.

Niðurstaða: Allt verður reynt til að fá Brandt. Hann verður eftirsóttur en Klopp-faktorinn gæti gert gæfumuninn. Hann kemur í sumar og verður góð viðbót við frábæra sóknarlínu okkar manna.

Framherjar

Nöfn: Timo Werner, Alexandre Lacazette. Werner er 21s árs framherji hjá RB Leipzig, liðsfélagi Naby Keita. Hann var frábær á nýafstaðinni leiktíð, 21 mark hans í 31 leikjum áttu stærstan þátt í að lyfta Leipzig-liðinu alla leið upp í 2. sætið í Bundesliga og beint inn í Meistaradeildina. Það gæti reynst erfitt að fá hann frá Þýskalandi en þetta er eina nafnið sem ég hef séð orðað við okkur af alvöru fyrir sumarið. Lacazette hefur lengi verið draumur margra en hann er á leið til Atletico Madrid í sumar.

Framherjastaðan er sú sem er mér mestu á huldu. Hér gætum við alveg séð Sturridge og Origi fara og Danny Ings á láni í haust eða næsta janúarglugga og fengið tvo nýja leikmenn inn í sumar. Eins gætum við alveg séð t.d. Werner eða annan slíkan koma inn og bæta breiddina sem þeir Firmino, Sturridge, Origi og Ings bjóða upp á. Það er erfitt að segja til um það og eins erfitt að spá þegar við vitum ekki hverjir fara, hvað þá hversu marga leikmenn Klopp gæti viljað í þessa stöðu.

Mig grunar þó að mest einn leikmaður fari af fjórum núverandi í sumar og einn komi inn í staðinn.

Niðurstaða: Við fáum ekki Werner en einhver annar verður keyptur og þá fær Sturridge að róa á önnur mið eftir að vera orðið ljóst að hann er ekki reglulegur byrjunarliðsmaður í plönum Klopp.


Þar með lýkur þessari yfirferð. Tökum þetta saman:

Mark – Enginn kemur, enginn fer. Ward snýr aftur í stað Alex Manninger sem hætti í dag.
H-Bak – Enginn kemur, enginn fer.
V-Bak – Sessegnon og Robertson koma, Moreno fer.
Miðverðir – Van Dijk kemur, enginn fer.
Miðja – Keita kemur, Stewart fer.
Vængir – Brandt kemur, enginn fer.
Framlína – ______ kemur, Sturridge fer.

Ef þetta gengur upp er mér tvennt í huga: eru leikmennirnir sem koma inn nógu góðir til að koma okkar sterkasta kjarna upp á hærra plan? Og eykur þetta breiddina nægilega mikið? Ég held að ef Van Dijk, Keita, Brandt og nýr framherji koma gæti það orðið lyftistöng fyrir allt félagið enda þrír spennandi leikmenn þar á ferð (og framherjinn yrði vonandi líka mjög spennandi). Sessegnon/Robertson eru meiri spurningarmerki í vinstri bak en Milner hefur sýnt að hann getur a.m.k. eytt vandamálum í þeirri stöðu ef þörf krefur. Þannig að ég get alveg séð fyrir mér að sumargluggi eins og þessi bæti okkar sterkasta lið og lyfti liðinu á enn hærra plan.

Ég er hins vegar ekki sannfærður um að þetta yrði næg bæting á breiddinni. Ekki nema ætlunin sé að nota leikmenn eins og Harry Wilson, Marko Grujic og Trent Alexander-Arnold enn meira en gert var í vetur. Það verður aukið leikjaálag á liðinu strax í haust, þegar liðið þarf að spila tvo leiki á viku frá og með fyrstu umferð þökk sé forkeppni Meistaradeildarinnar. Það þarf breidd í þetta lið og 6 leikmenn inn, 3 leikmenn út myndi auka breiddina en það yrði þá undir leikmönnum eins og Wilson, Grujic, Ojo og Joe Gomez komið að bæta hana enn frekar.

Það er allavega spennandi sumar framundan. Pressan er á FSG eftir öll stóru orðin undanfarnar vikur, ekki síst frá Klopp sjálfum. Nú þurfa menn að fylgja orðunum eftir með aðgerðum.

Eða eins og Óli Haukur penni Kop.is orðaði það …

YNWA

60 Comments

  1. James Rodriguez á minn disk og Gylfa og 3 aðra vinstribakvörð, Van Dijk, og fleiri treist klopp til að Finna þá annas er ég samala hjá þér nema halda Sturridge ings má fara orig má vera lánaður

  2. Takk fyrir þessa samantekt.

    Það er alveg ljóst að sumarið verður spennandi, en vonandi verður búið að negla helstu takmörk snemmsumars svo að þeir geti tekið þátt í undirbúningstímabilinu.

  3. Ég hef mikið velt þessu Sturridge dæmi fyrir mér.

    Hann á 2 ár eftir af samningnum sínum og er á háum launum. Hvers vegna ætti hann að fara í Southampton eða West Ham og fá minna borgað?

    Daniel Sturridge er það góður að jafnvel þó við fáum nýjann framherja er allt eins líklegt að ef Sturridge helst heill þá slái hann viðkomandi bara út enda með ótrúleg gæði, gæði sem ég sé ekki í neinum af okkar framherjum akkúrat núna. Heimsklassi.

    En aðalmálið er, ef hann sér fram á að vera mikið meiddur, hvers vegna að vera uppi í stúku hjá West Ham ef hann getur verið uppi í stúku á Anfield og fengið meira borgað?

  4. Þurfum miklu betri og stærri glugga en þetta til að færa okkur nær toppbaráttunni. Í ljósu gluggans sem er framundan hjá Chelsea, Man City og Man United. Trúi ekki að við séum enn einu sinni að fara að veðja á óþekktar stærðir og eintóm spurningamerki.

  5. Hvar eru stóru nöfnin?

    Menn hlóu að Mourinho fyrr í vetur. Hann endar með 3 titla hjá United. Mun líklega kaupa Griezmann og menn af svipuðu kalíberi . Þar á bæ ætla menn á næsta level.
    Liverpool ætla að kaupa áfram leikmenn frá Southampton, Fulham, Leipzig og álíka stórliðum.

    FSG skíta í heyið þetta sumar eins og önnur. Því miður.

  6. Efast það að Brandt komi í sumar. Hann er sagður vilja öruggan spilatíma til þess að eiga betra tækifæri á að komast í þýska landsliðið fyrir hm 2018. Væri til í að sjá sessegnon og einhvern betri en Robertson, Mendy eða Alex Sandro væri draumur, en eflaust er það full bjartsýnt. Dolberg gæti verið góð kaup, efnilegur og góður sóknarmaður fyrir bekkinn og bikarkeppnir. Ég er á því að Firmino fari yfir 20 mörk á næsta tímabili þar sem hann fær vonandi að spila stöðugt í sinni stöðu.

    Van Dijk væri mögnuð kaup líka, ef hann fæst ekki væri ég til í að sjá José Gimenez frá atletico. Keita er svo mjög spennandi enda getur hann spilað frekar varnarsinnað í 4-2-3-1 eða aðeins framar í 4-3-3, og 4-1-2-1-2 (demantnum).

    Annars er alltaf frekar erfitt að lesa það sem að Klopp ætlar sér að markaðnum, en ég treysti honum algjörlega til þess að bæta hópinn í sumar. Kom út í gróða seinasta sumar og verslaði ekki í janúar þannig að eigendurnir ættu að vera reiðubúnir til þess að gefa mikið í leikmannakaup í sumar. Og svo náttúrulega meistaradeildin líka.

    Get ekki beðið eftir Ágúst, og er einnig spenntur fyrir nýja mannskapnum sem kemur í sumar. Þangað til vona ég bara að þið njótið sumarsins öll!

  7. Þessi Julian Brandt var ekki merkilegur pappír í arfaslöku Leverkusen liði í vetur sem var nálægt því að falla. Þurfum að komast nær toppnum. Það gerist ekki þegar City, Chelsea og Utd kaupa menn á borð við Griezmann, Mbappe, Aubameyang, James Rodgriguez meðan við tökum sénsa á óþekktari stærðum.

  8. Ég efast um að það verði keyptur miðvörður. Finnst sennilegast að við höldum okkur við þá sem eru. Við ættum að vera með þolanlega miðverði og það virkar ekki skynsamlegt að brenna 50m í miðvörð þegar meira áríðandi er að styrkja aðrar stöður. Mér finnst líklegra að við losum okkur við Clyne og fáum nýjan hægri bakvörð en miðvörð. Það myndi leysa mikið í leik liðsins að hafa bakverði sem kunna að spila sókn. Clyne hefur ekki boðið upp á alveg nógu mikið í þeirri deild.

    Ef við fáum alvöru vinstribakvörð þá er óvíst hvort Milner nenni að vera með okkur áfram. Hann fór frá Shitty af því að það var ekki hægt að lofa honum byrjunarliðssæti og líklega sætti hann sig við bakvörðinn af því að honum var tryggt sæti í byrjunarliði.

    Ég efast um að DW nenni að vera þriðji kostur. Hann spilaði nú allt tímabilið hjá Huddersfield sem aðalmarkvörður. Fyrst Manninger ætlar að fara kemur líklega annar reynslubolti.

    Það er auðvitað óvíst hvaða sóknarmenn fara út en maður hefur séð Luan frá Gremio orðaðan við okkur.

  9. Sæl og blessuð.

    Best að orða fílinn á búðargólfinu: Þessi Evróputitill MU eru hreint afleit tíðindi. Þeir náðu því í gegn sem okkur mistókst í fyrra og standa uppi með fádæma árangursríkt tímabil, sem hefði orðið tómt flopp ef Ajax hefði staðið sig. Fyrir vikið verður ekki það gengishrun sem maður vonaðist eftir hjá þeim og gjaldmiðillinn þeirra er jafnvel verðmætari en okkar, því þeir sýna hæfni til að vinna titla.

    Er því … hóflega bjartsýnn eða jafnvel svartsýnn bara í ljósi alls þessa. Meistaradeildarsætið trekkir vissulega og Klopparinn en spurningin er hvort Móri og co. veifa ekki feitari launatékkum framan í þá sem við sækjumst eftir og þá versnar í því.

    Það er engin spurning að þörfin er brýn fyrir nýjar lappir. Viljum ekki endurtaka hásinakreppuna sem kom fljótlega upp úr kröftugri byrjun Klopparans í fyrra. Þarf að dreifa álagi og spila skynsamlega.

  10. Nú segja fjölmiðlar að Keita muni kosta 50 millur plús.

    Það er kominn tími til að LFC opni veskið og borgi þannig summu fyrir topp leikmann.

  11. Nú þekki ég ekki nógu vel til Naby Keita enda aðeins með eitt tímabil undir beltinu í Bundesligunni. Menn eru allavega að taka þokkalegan séns á að gera slíkan mann að langdýrasta leikmanni liðsins frá upphafi enda RB Leipzig moldríkt félag sem hefur enga ástæðu til að láta hann ódýrt frá sér.

  12. Melissa Reddy hjá Goal skrifar um að viðræður gangi vel við Keita. Eins segir hún að þótt Liverpool séu í fínni stöðu verði þetta erfitt þar sem margir girnist hann og RB Leipzig vilji ekki endilega selja.

    Reddy er mjög vel tengd, ólíkt öðru sem skrifað er á Goal.com. Það má taka mark á þessu. Við erum allavega að reyna við Keita, það er alveg ljóst.

  13. Má RB Lepzing taka þá í Meistaradeild þar sem þeir eru í einu sömu og eiga RB Salzburg sem líka komst í meistaradeildina.

  14. #5 – Man Utd. vann ekki þrjá titla á þessu tímabili heldur tvo. Ég efast um að nokkur hafi verið svo veruleikafirrtur að flokka Samfélagsskjöldinn sem titil fyrr en Mourinho og co. núna. Samfélagsskjöldurinn er glorified æfingaleikur.

  15. Hey ekki gleyma svo Danny Ings – Hann verður eins og nýr leikmaður og mun hlaupa úr sér lungun og berjast fyrir Klopp í hápressuni.

    Ég held að það sé gott að hafa menn eins og Ings hóp og vildi ég bara minná á þennan gleymda leikmann.

  16. Þetta snýst ekkert um verðmiðann á Keita, heldur hvað menn eru tilbúnir til að borga honum í laun. Þar á Liverpool erfitt uppdráttar.

  17. Eina sem Klopp hefur sagt er að samningsmál hafa gengið vel. Ég veit ekki til þess að hann hafi einhvern tímann nefnt það á nafn að Liverpool hafði hug á að kaupa Keita. það getur vel verið að þeir hafi hug á því en afhverju ættu þeir að kaupa hann fyrir 50 milljónir punda ?

    það er hægt að kaupa aragrúa leikmann með toppgæði fyrir um 30 milljónir punda, svo afhverju ættu þeir að kaupa Keita fyrir 50 milljónir punda ? Alexis Sanshes kostaði t.d 32 milljónir punda og Mane líka, Lallana 25 milljónir punda og Wijnaldum 25 milljónir punda, Coutinho 7 milljónir punda og Sturridge 12 milljónir punda.

    Ég þekki ekki til Keita en djöfull hlítur hann að vera góður ef hann er svona miklu verðmætari en allir þessir leikmenn sem ég nefni hér að neðan.

    Klopp hefur ekki verið þekktur fyrir annað en að vera klókur á leikmannamarkaðnum. Flest kaup gengu vel í fyrra og ég er algjörlega viss að það sama muni gerast í ár.

  18. Ég myndi halda að mikilvægasta verkefnið væri að auka breiddina. Við vorum ekki með næga breidd fyrir eitt mót í vetur, plús bikarkeppnir, og nú verða mótin tvö, plús bikarkeppnir. Í mörgum leikjum hafði ég það á tilfinningunni að við værum með slakasta varamannabekkinn í EPL (og samt var ekkert Evrópuleikjaálag).

  19. Væri munur að eiga peninga eins og city, það er ekkert við að eyða tíma í neina vitleysu, búnir að kaupa einn besta mann Mónakó Bernardo Silva.
    Var orðaður við united fyrir 2 dögum, skrifar undir hjá City í dag.

  20. Loksins er kominn þjálfari sem ég treysti 100% að kaupa leikmenn til að styrkja hópinn fyrir komandi átök.

  21. Við höfum bara ekki eins djúpa vasa og City, Chelsea og já United. City geta hent 60m punda í Bernando Silva og er hvergi hættir. Því miður virðist það vera að við verðum að vera skynsamari í kaupum en ég trúi því að við náum allavega bæði Van Dijk og Keita.

  22. Okei hann kostaði reyndar 45m en já þið skiljið.. Held líka að Grujic gæti komið vel upp þetta season

  23. City framkvæma hlutina.
    Okkar eigendur eru alltaf að “díla” og “prútta”
    Missa þar af leiðandi af feitum bitum.

    Vandi LFC er FSG, hef alltaf sagt það og þið sem hafið vonir til sumarsins….. sorry.

    En stefnan verður að “verja” þetta 4.sæti
    Ekki keppa við topp liðin. Þau bæta í.

  24. Erfitt að keppa við chelsea, city og manu í leikmannakaupum sem geta jafnvel hent miklum peningum í leikmenn og lánað þá svo. Verðum að treysta Klopp enda veit hann hvað hann er að gera.

  25. Ég hef engar áhyggjur!
    Við fáum Douglas Costa, Naby Keita, van Dijk, Ryan Sessegnon og Christian Pulisic fyrir 160-170 mils og BÚMM tittlar í hús. 😀

  26. Ég held að Klopp sé þannig stjóri að hann er ekki bara að hugsa um að kaupa kaupa heldur hefur hans ferill verið þannig að hann bætir sína leikmenn.
    Þótt að við séum ekki að fara að fá 5-6 heimsklassa leikmenn þá er hægt að lýta á þetta sem svo að pælið í því ef leikmenn sem fyrir eru einfaldlega verða betri þá aukast gæðinn í okkar liði.

    Ég held samt að Klopp áttar sig á því að það þarf að bæta í hópinn og ég spá því að við fáum 4-6 kalla en mesta breyttingin verður samt á æfingarsvæðinu.

  27. Gaman að þessum kommentum sem sýna alla afleggjara LFC stuðningsmanna. Þeir sem 1) sjá gæðin hjá öðrum og hvað aðrir eru að gera það gott (nema við) 2) þeir lausnar miðuðu sem sjá tækifæri í núverandi stöðu/ raunsæi 3) þeir sem þráast við (Sahko) 4) þeir neikvæðu/stundum bölsýni.
    Annars mjög flottur pistill og komment, allir mega og eiga og hafa sína skoðum. YNWA

  28. Sælir félagar

    Tek undir með Antoni hér fyrir ofan að það sjást násnast öll sjónarmið sem hægt er að finna – meira segja þeir bölsýnu sjá eitthvað sem styður þeirra málstað.

    Ég hefi alltaf haft þá afstöðu til sumargluggans að dæma hann ekki fyrr en honum verður lokað. Maður hefur oft haft áhyggjur og verið að lokum hundóánægður með niðurstöðu hans en alltaf vonað í lengstu lög að úr honum rætist og eitthvað magnað komi inn í liðið okkar.

    Eins er það í dag. Ég er meira að segja bjartsýnn á niðurstöðu gluggans í gæðum talið. Það getur vel verið að það verði ekki nema eitt eða tvö “nöfn” sem koma inn en ég hefi tröllatrú á KLopp og félögum í að finna perlur “sem glóa í mannsorpinu”. Ég held að sagan sýni að það standa fáir Kloppurunum á sporði í þeim fræðum og ég treysti þeim.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  29. Klopp talaði um að þegar 11-14 bestu leikmenn Liverpool væru leikfærir þá væri Liverpool með topp fótboltalið og það væri ekki auðvelt að finna leikmenn á lausu í heiminum sem myndu augljóslega styrkja liðið.

    Ég fór að velta fyrir mér hvaða leikmenn hann var að tala um. Mín niðurstaða var þessi.

    1-Mignolet –
    2- lovren
    3-Matip
    4-Milner
    5-Lallana
    6-Henderson
    7-Wijnaldum
    8-Mane
    9-Firmino
    10- Coutinho
    11- Clyne
    12- Sturridge
    13- Origi
    14- Can

    Við þennan hóp má þessvegna bæta við Ings og Lukas og jafnvel Grujik og Karíus.

    Þessi hópur er afbragðsgóður og get tekið undir með Klopp að það er erfitt að bæta hann. Eitt get ég þó sett út á; mér finnst skorta fjölrbreytni. Það þarf fleirri vængmenn sem eru með hraða á við Mane og örfættan vinnstri bakvörð sem getur veitt Milner alvöru samkeppni og “plan b” framherja sem gæti nýst vel gegn liðum sem liggja aftarlega.

    Ef Liverpool nær að klófesta tvo leikmenn sem eru í það miklum gæðaflokki að þeir bæta byrjunarliðið augljóslega og síðan fjóra til viðbótar sem eru samkeppnishæfir um byrjunarliðssæti, þá er Liverpool líklegt að vera í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn.

    Mér fannst flest leikmannakaup í fyrra vera annað hvort á pari eða vera vonum framar og því ég leyfi ég mér að vera bjartsýnn.

  30. Ég spái því að þegar upp verður staðið munu ekki fleiri en 1-2 nettó hafa bæst við hópinn. Það verða jú fleiri keyptir, en líka nokkrir seldir (Sakho, Markovic, Bogdan, jafnvel Wisdom og Flanagan, og sjálfsagt fleiri). Spái því líka að í hópi þeirra sem verða keyptir verði a.m.k. 1 eða tvö nöfn sem hafa ekki verið í umræðunni hingað til, svipað og með Klavan í fyrra.

    Ég veit ekki ennþá með Moreno. Hann fékk vissulega fá færi í vetur. Kannski sér Klopp eitthvað í honum sem gæti sprungið út með tímanum, mögulega ekki sem bakvörður. Manni hefur sýnst Klopp vera frekar þolinmóður ef hann á annað borð hefur trú á mönnum. En svo getur líka alveg verið að hann sé búinn að afskrifa Moreno.

  31. Tek undir með að sölur á þeim leikmönnum sem Daniel nefnir séu líklegar. Góðu fréttirnar eru þær að Liverpool er mjög líklega ekki að fara að selja neinn úr hryggjarsúlu liðsins. Ef það verður raunin er það annað árið í röð sem það gerist og það eru nátturlega frábærar fréttir.

    Mig minnir að fyrr í vetur hafi Klopp talað um að kaupa sex leikmenn og það meikar sens fyrir mér ef hann telur 14 bestu leikmenn liðsins vera topp leikmenn.

  32. sá leverkusen tapa illa í evrópukeppni í vetur, en tók þó sérstaklega eftir Brand. ljósi punkturinn í slöku liði

  33. Ef að það koma bara 1-2 leikmenn i sumar verður þetta sama niðurlægingin og skita,gefa skit i alla bikara,spila 1 leik a 10 daga fresti og reyna við topp 4.
    Hja Liverpool a það ekki að vera boðlegt.

  34. Venger fék bikarinn og eigum við ekki að samgleðjast gamla manninum?
    Merkileg niðurstaða en ekki ósangjörn, Arsenal voru betri í dag.
    Eftir að hafa séð Arsenal nokkuð oft í vetur þá held ég að Chamerlain sé ekki nógu góður fyrir Liverpool og vona því að hann verð ekki keyptur en honum til hróss þá gerði hann vel þegar hann hoppaði upp úr tæklingunni við Moses sem féll svo á eginn bragði fyrir framan nefið á dómaranum og var rekinn réttilega út af.
    Ég er nú samt viss um að Venger hefði freka viljað fjórða sætið en þennann bikar sem er þrátt fyrir gamla frægð ekki neinn Meistaradeildarbikar.

  35. Þessi titla þurrð hjá okkar mönnum fer að vera vandræðaleg. Hvenær unnum við FA cup siðast, aldrei, aldrei PL meistarar, á meðan lið eins og Leicester hefur tekist það síðustu 20 ár. Þessi klúbbur sem lítur á sig sem stór klúbb er það bara ekki, og hefur ekki verið það ansi lengi. 5-8 sætið í deildinni síðustu 10 ár er bara óásættanlegt, eða kannski bara það sem okkar klúbbur er, efri miðlungsklúbbur.

    Kannski verðum við sem stuðningsmenn að fara að átta okkur á því að við erum ekki stórklúbbur, og stefnum ekki í það heldur. Við erum næst bestir, við erum rosa góðir í næst bestu deildinni. Við borgum 4-5 hæstu launin, og erum að lenda í 6-7 sæti. Við erum semsagt að under performa. ár eftir ár.

    Ég er samt með von í brjósti að hann Klopp komi til með að breyta þessu, en á meðan að við erum að reyna að líkja okkur við klúbba eins og ManU sem kaupa sennilega Griezman í sumar eftir að hafa bruðlað 250 millum síðasta sumar, þá finnst manni þetta bara vera hjákátlegt. Áður en við samt dæmum Utd fyrir þeirra eyðslu, þá eru launagjöld þeirra aðeins ca 45% af tekjum klúbbsins, á meðan okkar liggja í ca 60 ef ég man rétt.

    Okkar tekju og spending model er semsagt ekki alveg að gera sig, vitlausar ákvarðanir ár eftir ár. Daglish, Hodgson, B.R osfr eru búnir að kosta okkur tugi milljóna þrátt fyrir að hafa selt okkar allra bestu menn annað hvert ár.

    Málið er einfalt, ef við ætlum ekki að borga mönnum 250þ pund á viku plús, þá verðum við ekki meistarar í þessari deild, nema með einhverri fáránlegri lukku líkt og Leicester.

    Einn voða þreyttur á þessu.

  36. Who gives a flying fuck hvað Man Utd eru að gera á leikmannamarkaðnum? Eru með útbrunninn þjálfara sem kann ekki lengur að vinna leiki öðruvísi en að drepa alla úr leiðindum. Fékk Ibrahimovic á free transfer og einn besta miðjumann í heimi en tókst að búa til hálf getulaus vélmenni úr þeim sigurvegurum.

    Liverpool á bara að vera spá í eigin leikmannakaupum. Ekki keppast hrædd við að halda í við önnur lið, heldur fara frammúr þeim. Eigum bara að treysta á okkur sjálf og liðsheildina. Finna þessa 2-3 afburða byrjunaliðsleikmenn sem fitta inní leikkerfi Klopp ofaná núverandi hóp og auka gæðin og breiddina í liðinu. Takist það er ég viss um að við verðum að berjast af alvöru um annaðhvort sigur í deildinni eða að komast mjög langt í CL.

    Fyrir utan Keita og kannski sé ég engan af þeim sem eru nefndir í pistlinum á leið til Liverpool. Held að Klopp muni landa 1-2 stórum nöfnum.

  37. Mitt mat er að Klopp eigi eftir að kaupa þá leikmenn sem honum líst vel á og honum er alveg sama hvort þeir kosta mikið eða bara alls ekki neitt. Hvað er langt síðan Liverpool hefur fengið gæði eins og Matip frítt? Þó svo að Liverpool sé ekki með eins mikla fjármuni á milli handana og manchester liðin og Chelsea þá eru þeir með gæja sem keypti þessa leikmenn, á þessum prís. https://www.thisisanfield.com/2015/10/assessing-jurgen-klopps-standout-transfers-dortmund/

    Ég er bara drullu spenntur að sjá hvað kallinn gerir í sumar.

  38. Ég var að spá ef LACAZETTE fer til Atlético Madrid fér þá ekki fernando torres frá þeim á Free tranfers ég held nefnilega að torres vandi bara sjàlftraust og klopp géttur komið því í lag og þá kannski verður hann sami leikmaður og hann var hjá okkur

  39. Ég vil halda Sturridge frekar en Ings og Origi, Sturridge hefur heimsklassa gæði þegar hann er heill sem reyndar er alltof sjaldan en er ekki betra að hafa hann allavega eitt ár í viðbót og vona það besta með meiðslin heldur en að selja hann ónýtt útaf meiðslasogunni.

    Annars treystir maður bara Klopp fyrir sundinu, vonandi fær hann að eyða bara eins miklu og hann telur þörf á og ef svo er þá verður sumarið gott.

  40. Ég verð að viðurkenna að viðhorf Odda (nr 3) furða mig og ég get ekki með nokkru móti skilið hvernig fullorðinn maður hafi svona skoðanir. Hann virðist ekki skilja það að við höfum ekki féið til að vera í samkeppni við Man Un öðruvísi en að beita klókindum.

    Hvar eru stóru nöfnin?

    Mane, Coutinho. Firmino, Henderson,Lallana, Matip, Clyne,Milner, Sturridge, Wijnaldum, Can – eru allt risastórnöfn á Englandi. Enda skilaði Liverpool 76 stigum og skildi Arsenal eftir fyrir utan meistaradeildarsæti í fyrsta skipti í 21 ár og sjö stigum á undan Man Un í keppninni sem hefur alltaf talist aðalkeppnin.”Baráttan um Englandsmeistaratitilinn”. Ef það væri ekki. raunin, þá væri ekki enn þá hæðst af Gerrard fyrir að hafa ekki orðið Englandsmeistari, en hann vann jú meistaradeildina.

    Man Und skilaði þessum Evrópumeistaratitli með því að “parka” rútunni, en eins og allir vita þá gera lið það, sem hafa ekki nægjanleg gæði til að spila öðruvísi. Þeir vissu að ef þeir spiluðu opin fótbolta myndu þeir tapa gegn Ajax og Ajax átti einfaldlega ekki von á því að ríkasta fótboltafélag í veröldinni myndi leggjast svona lágt að spila eins og Tony Pullis stillir upp liðum sínum gegn stórliðum.

    Liverpool með sitt “aulalið” var árinu áður en Man Und, einni vítaspyrnukeppni og einum hálfleiki til að vinna nákvæmlega sömu tilta og Man Und, fyrir utan samfélagsskjöldin sem aldrei hefur þótt neitt annað en æfingarleikur fyrir tímabilið.

    FSG skíta í heyið þetta sumar eins og önnur. Því miður.

    Nú ? Hvað seldi FSG marga leikmenn í fyrra sem þeir vildu ekki losa sig við ?Hvernig getur það verið skita að fá Matip, Mane og Wijnaldum til liðs við sig og varamarkvörð sem hefur aukið það mikið samkeppnina um markvarðsstöðuna að það er allt annð sjá til Mignolet en áður ?

    Hann virðist ekki fatta það að t.d Vad Dijk er einhver eftirsóttasti miðvörðurinn í deildinni og öll stórliðin eru á eftir honum.

    Hann er ekki betur að sér í fótbolta en svo að þýska Red bull liðið er stórlið í þýskalandi og lentu í öðru sæti í þýskalandi, á undan Dortmund meðal annars.

    Síðast þegar ég vissi – er líklegt að tveir leikmenn verði keyptir á um 50 milljónir punda og hann kvartar yfir metnaði ?

  41. Amen Brynjar #43.

    Mér gæti ekki verið meira sama hvað hinn draugfúli og bitri Móri er að gera hjá manhjúdit.

    Hvað okkar ástkæra lið varðar að þá legg ég allt mitt traust á Klopp og á hans hugsjónir sem munu leiða okkur áfram upp á við. Vissulega er þetta orðin fjandi löng og erfið þrautarganga en næsta og næstu tímabil eru mjög spennandi.

  42. #41 er brandarinn um að fá Torres aftur ekki orðinn fyrir talsvert löngu síðan out-dated

  43. Til hamingju Brynjar. Þú ert með þetta.
    Já ég hef allt aðra sýn og skoðanir á þetta en þú. Staðreyndir tala sínu máli. Við erum ekki búnir að kaupa tvo menn á 50m punda og við erum ekki búnir að fá Virgil Van Djik (eða Vad eins og þú kallar hann) né Keita. Það er ekkert í hendi.
    En þeim yrði fagnað en það eitt og sér dugar ekki.

    Minn punktur í þessa umræður er að ég myndi frekar kjósa peningaöfl á bak við Liverpool eins og eru hjá City og Chelsea. Þar sem öllu er tjaldað til sigurs.

    Þetta er svo orðið þreytt hjá mörgum ykkar hérna inni að gera alltaf lítið úr keppinautum okkar (Man Udt) – Grenjandi yfir því að Móri hafi unnið Europa með því að parkera rútunni. En bottom line, HANN vann og United komst yfir LFC í vetur í titlum talið. Já nú er sá tími liðinn sem við getum lifað á þeirri fornu frægð að vera “the most succesful team in England”
    Mönnum er slétt sama hvernig Mourinho gerði það, hann er winner. Hann mætti með þessa frægu rútu sína gegn okkur á Anfield og tók af okkur PL titilinn 2015…. En það telur eflaust ekki því hann spilaði svo leiðinlega.

    Ég er einn af þeim sem hefur fengið uppí kok að sjá United síðan 1993 vinna 13 meistaratitla á meðan LFC hefur verið í algjörri lægð. Sætti mig bara ekki við þetta, gæfi mikið fyrir einn Abramovich sem gæti komið LFC á þann stall sem félagið á að vera.

    FSG hafa gert jákvæða hluti fyrir félagið en alls ekki nóg. Þetta sumar verður urslitasumarið fyrir þá. Persónulega vildi ég sjá þá selja og koma sér burt fyrr. En hoppa hæð mína ef þeir sýna það í verki í sumar að þeir vilji gera atlögu að öllum þeim titlum sem eru í boði.

  44. Oddi #46

    Ég er með nákvæmlega sömu skoðun og þú.
    Hverjum er ekki drullu sama þó svo boltinn sé leiðinlegur ef við vinnum titla?
    Eru þið virkilega að meina það að þið viljið frekar spila alltaf skemmtilegan bolta en vinna aldrei neitt?
    Ef Liverpool vill fara vinna eitthvað þarf að eyða í almennilega 200m+ og þá í álvuru sigurvegara.
    Eða fá menn eins og Zlatan sem er sigurvegari og þá þarf að borga álvuru laun… Sjaið bara hvað hann gerði fyrir þá….

    Maður er alveg orðinn þreyttur á þessari eilífu meðalmennsku..

  45. Oddi.

    Eins og ég skil þig… þá finnst þér ekki góður árangur að Liverpool hafi náð meistaradeildar sæti og þú hefur ekki trú á því sem Klopp er að gera.

    Þér finnst árangur Man und betri – vegna þess að þeir náðu að klára Evrópudeildina.

    Okei þú um það.

    Ég er þeirrar skoðunar að þegar fyrstu 15-16 leikmenn liverpool eru heilir þá erum við ekki með neitt veikara lið heldur en Man Und, Chelsea, Man City, tottenham og öll stórliðin á Englandi. Öll rök mæla með því enda stöndum við framar öllum þessum liðum í innbyrðisviðeignum.

    Liverpool spilaði áberandi besta boltann í vetur en lenti í vandræðum gegn liðum sem liggja aftarlega og líka í meiðslavandræðum. Ég trúi því að með örlitlum teknískum breytingum og ögn meira af gæðum er hægt að laga það.

    76 stig er virkilega góður árangur í ensku deildinni og ekki ólíklegt að næsta ár verði betra, því ólíkt þvi sem þú hefur haldið fram, þá er líklegt að við náum að halda okkar lykilmönnum, rétt eins og við gerðum í fyrra.

  46. Það er með ólíkindum að lesa sum kommentin hérna…. og hvað margir ætla að lifa endalaust í ef og hefði heiminum…… Liverpool endaði titlalaust í 4. Sæti og komst i umspil fyrir meistaradeildina…. man utd endaði með 2 titla í 6 sæti og eru komnir beint í meistaradeildina og menn samt ætla bara að halda því fram að Liverpool hafi skilað af sér betra tímabili?

    Sömu menn og tala endalaist um það að Klopp þurfi tíma til að gera liðið að sínu…. drulla yfir Morinho sem á sínu fyrsta tímabili með lið sem hefur verið í stanslausri lægð eftir Ferguson timan gerði þá af tvöföldum meisturum…. Morinho þarf tíma alveg eins og Klopp og í guðana bænim hættiði að tala um að Man utd hefði ekki unnið ef þeir hefðu gert þetta eða hitt og þeir hafi ekki gæði til að spila öðruvísi…. þetta er íþrótt sem snýst um að vinna titla…. og það kann Morinho betur en lang flestir stjórar í heiminim í dag

  47. Ég er svo hrikalega sáttur við að Klopp skuli spila skemmtilegan sóknarbolta. Titlarnir munu skila sér, gæðin eru til staðar, núna er þetta spurningin um fínstillingu og örlítinn skammt af heppni.
    Á þeim tímabilum sem Liverpool spilaði leiðinlegan fótbolta, þá hvarf áhugi minn fyrir því að horfa á Liverpool. Sá tími er liðinn.

    Hvort ætli sé skemmtilegra að horfa á Liverpool spila skemmtilegan fótbolta og þurfa að bíða í einhvern tíma eftir að titlarnir detti í hús, eða lesa í blöðunum um að Liverpool hafi unnið titla (af því að maður nennir ekki að horfa á leiðinlegan bolta sem þeir spila)?
    Ég kýs að horfa á skemmtilegan bolta… titlarnir munu skila sér.

    Ég trúi!

  48. Brynjar.

    Nei mér finnst 4.sætið ekki góður árangur. Langt því frá. EN m.v hvað eigendur Liverpool leggja í þetta þá er þetta góður árangur. Það er nákvæmlega það sem ég er ósáttur við. Ég vil ekki að klúbburinn okkar sætti sig við 4.sætið, að því sé fagnað eins og meistaratitli. Liverpool FC á að stefna á alla þá titla sem eru í boði og á hverju tímabili á það að vera takmarkið. United enda í 6.sæti, eru eðlilega mjög ósáttir með það – enda samt á því að bjarga sér með Evróputitli og fara beint í CL. Já þá eiga þeir betra tímabil en við en eru þeir sáttir, nei langt því frá, þar á bæ vilja menn vinna deildina og ætla sér slíkt.

    Skoðum aðeins tímabilið okkar, m.v mannskap þá er 4.sætið bara nokkuð gott. Um jólin vorum við í baráttunni við Chelsea og m.v að vera í engra Evrópukeppni þá vorum við í algjöru dauðafæri að keppa við þá allt til loka. Chelsea nýtti sér tækifærið, enda í 10 sæti árið á undan, engin Evrópa og hvað?? Þeir rúlla upp deildinni. Okkar félag sem var við toppinn um jólin vitandi það að besti maður liðsins Mané myndi hverfa frá í einn mánuð ákváðu hinsvegar að gera ekki NEITT í janúarglugganum og því fór sem fór. Það var ekki einu sinni reynt að styrkja liðið og kaupa inn gæði til þess að (amk reyna) að dempa höggið sem kom með fjarveru Mané. Janúar fór með allar keppnir hjá Liverpool. Það sýnir mér bara metnaðarleysið hjá FSG að hafa ekki gert neitt í þessum glugga, í bullandi séns á að vera í titilbaráttu út tímabilið (sem var ansi gott bara m.v mannskap)

    Þarna var greinilegt að okkar eigendur voru bara, hey þetta dugar okkur líklegast til þess að enda í topp4 – í stað þess að hugsa, reynum við einhvern topp leikmann og tökum sénsinn á að vinna bara helvítis titilinn… við erum með 43 stig (2 leikjum frá toppnum) og í bullandi séns.

    En ég hef trú á Klopp, hann er flottur. Vona svo innilega að hann komi okkur til fyrirheitna landsins…. en það eru 27ár síðan sá stóri kom í hús. Langur tími. Pirrandi. Kannski er maður ósanngjarn og verður bara að sætta sig við að félagið manns sé bara ekki það sem það var og verður kannski aldrei aftur??

  49. Bæti aðeins við – menn segja að í Janúar sé erfitt að fá menn. Julian Draxler, topp leikmaður sem fór frá Wolfsburg til PSG í janúar. Fljótur, attacking midfielder, kantari sem er með gríðarlega gott og kraftmikið skot. Tikkaði í öll boxin um leikmann sem hefði heldur betur styrkt liðið og hjálpað til í fjarveru Mané. FSG ná ekki að landa honum vegna þess að þeir tíma ekki að borga 170,000 pundin hans á viku.
    Draxler spilaði vel eftir jól hjá PSG, skorar m.a gegn Barcelona í CL og í bikarúrslitaleiknum í Frakklandi. Hvaða áhrif hefði hann haft á Liverpool, vitum við aldrei en sénsinn hefði verið þess virði. Mér skilst að hann hefði viljað spila fyrir Klopp en LFC voru ekki klárir í launin, en gæði kosta peninga. Þarna gerði FSG uppá bak.

  50. OK er þetta þannig Oddi. Veistu, þrátt fyrir að Dave Maddock sé skrítinn gaur oft á tíðum, þá held ég að hann sé nær þessu en Metro og slíkir sneplar:

    “Instead, according to Maddock—who is one of the English journalists with known ties at Anfield—the club had received permission to negotiate terms with the player. That means a fee had been agreed with Wolfsburg, or at the very least that an agreement wasn’t felt to be far off.

    After opening negotiations with the player, PSG then made their move for the 23-year-old, and Draxler and his agent turned that interest on Liverpool and demanded a higher wage. Liverpool, feeling as though Draxler was changing his demands at a late stage, pulled out at Klopp’s behest.

    While this will certainly be disappointing to fans, and while the club surely could have matched PSG’s wage offer—unreported but believed to be in the £80-100k per week range—this once again goes to show that Klopp was serious when he said he only wants the right players at the club.

    He doesn’t want players who would only move for a guarantee of Champions League football, and he doesn’t want a player who would rather head to Paris Saint-Germain and the French league if they offer him a few dollars more. Right or wrong, that’s Klopp’s approach.

    And, as has been shown again and again, Jürgen Klopp has been given final say at Liverpool. The money is there for him when he identifies a top target. The money, it would appear, was there to sign the pricy Draxler. Fans may disagree with the decision, but it’s clear who the man making it is.”

  51. Er það ekki ódýrt að segja að allt tímabilið hafi farið í vaskinn af því að Mane fór í Afríkukeppnina? Það var líka vesen með Matip á sama tíma og svo bættust við ákveðin meiðsli. Þess fyrir utan vorum við með bakvörð sem var á sínu fyrsta tímabili sem slíkur og annan sem virkar ekki nógu vel sóknarlega. Enda gekk illa að teygja á þéttu vörnunum til þess að búa til pláss. Mane hefði vissulega hjálpað til við það en við vinnum fáa titla með bara einn eða tvo sem geta það.

  52. SSteinn
    Já ég var einmitt búinn að lesa þetta, trúi þessu hreinlega ekki uppá Klopp en ef rétt er þá veldur þetta manni miklum vonbrigðum með hann… satt best að segja. En hef einnig heyrt annan vinkyl og hann er að Klopp vildi Draxler en FSG voru ekki tilbúnir í þennan aur. Hvort er rétt? Mín skoðun er að sökin liggi hjá FSG. Hvort sökin er hjá Klopp eða FSG þá er vandinn sá sami, menn verða að tefla djarft. Draxler eðlilega hikar við 80-100.000 pund þegar annað lið kemur og bíður 180,000 pund á viku. Við erum að tala um 4 milljónir punda á ári meira fyrir leikmanninn, eðlilega þótt honum langi meira til Liverpool þá verður hann líka að huga að því að þarna er munurinn 450-500 milljónir á ári. Það er ekki bara “a few dollars” Þetta er bara raunveruleikinn, lið sem borgar 5 mestu launin endar ekki í 1.sæti. Jú,jú Leicester enda sem meistarar en það gerist á aldar fresti.

    Ég vona að þessi hugsun breytist hjá FSG…. Klopp.

  53. Þú ert ekki að lesa þetta rétt, í þessari grein kemur fram að það sem hann fær hjá PSG sé 80-100.000 pund og eitthvað sem Klopp var til í að match-a. Hann vildi aftur á móti ekki taka því þegar leikmaðurinn vildi umtalsvert hærri upphæð. Það var því ekki eins og að verið væri að bjóða honum lægri laun samkvæmt þessu.

    En svona er þetta bara, ég er algjörlega á öndverðum meiði með þetta. Ég vil ekki grýta peningum í massavís út um gluggann og sjá svo til. Þetta eru ekki sykurpabbar, þar er alveg ljóst öllum. Með því að æða inn í díla og borga bara alltaf hvað sem beðið er um, burtséð frá því hvort menn telja það peninganna virði eða ekki, það endar bara á einn veg.

    En auðvitað þurfum við alls ekkert að vera sammála um aðferðir eða annað.

  54. Rétt, mönnum er heimilt að vera sammála um að vera ósammála, til þess er leikurinn gerður. Svo þegar kemur að leikdegi þá skála menn í stórum mjöð og skemmta sér á vellinum. Ég er orðinn “miðaldra” og þrái það heitast að upplifa það aftur að sjá Liverpool vinna deildina áður en þessari ferð manns líkur 🙂

  55. Mér finnst eins og að FSG hafi prófað þetta að henda pening í menn hægri vinstri, og enduðu þá með Charlie Adam, Stewart Downing, Joe Cole og fleiri þess háttar. Ekki víst að þeir séu til í að endurtaka þann leik.

Podcast: Meistaradeild

Heysel