Eftir síðasta tímabil voru allir sammála um að töluvert þyrfti að gera í sumar til að bæta liðið og halda við keppinautana sem sitja klárlega ekki auðum höndum. Spurningin núna 10 dögum fyrir mót er hvort okkar menn hafi gert nóg til að bæta veikleika liðsins síðasta vetur?
Hópurinn er ca. svona núna í byrjun ágúst.
Auðvitað er van Dijk ekki leikmaður Liverpool en við gerum ráð fyrir að hann eða annar miðvörður verði keyptur fyrir lok gluggans. Eins geta nokkrir leikmenn spilað fleiri en eina stöðu.
Markmenn
Eitt aðalumræðuefnið síðasta sumar, Karius stóð enganvegin undir væntingum og var ekki betri en Mignolet sem endaði mótið það vel að þetta er almennt ekki flokkað sem vandamál í sumar. Karius og Ward veita báðir harða samkeppni öfugt við t.d. Borgdan og Jones undanfarin ár. Líklega kæmist samt enginn af markmönnum Liverpool í liðið hjá hinum topp sex liðunum.
Hægri bakverðir
Líklega er Liverpool að fara inn í mótið með 18 ára Trent Alexander-Arnold í byrjunarliðinu. Clyne er meiddur og nær líklega ekki fyrsta leik. Clyne spilaði samt 97,2% af deildarleikjum Liverpool á síðasta tímabili og miðað við spilamennsku TAA er hann líklega næg breidd í þessari stöðu. Joe Gomez er einnig að spila hægri bakvörð en fær væntanlega fá tækifæri haldist Clyne og TAA heilir. Hann hefur ekki sannfært mig mikið a.m.k. John Flanagan er síðan langt frá því að vera í Úrvalsdeildarklassa, hvað þá Liverpool klassa.
Tæpt í byrjun tímabilsins en TAA veitir Clyne mun meiri samkeppni nú heldur en á síðasta tímabili. Verði Clyne í meiðslavandræðum fer það fljótt að telja að leggja traustið á 18 ára strák (eða þaðan af verri valkosti).
Vinstri bakverðir
Aðal veikleiki liðsins á síðasta tímabili að mínu mati og ekki síst af þeim sökum að Klopp tók Milner bara aldrei úr liðinu, sama hvað. Moreno sýndi gegn Bayern að mögulega hefði hann verið mun skárri kostur í þeim fjölmörgu leikjum sem Liverpool sárvantaði hraða og gekk ekkert að brjóta niður andstæðinga. Sérstaklega eftir áramót þegar Milner var dauðuppgefinn. Hann er nefnilega ekki þindarlaus lengur enda að verða 32 ára og því síður er hann hraður. Eins þarf mann með mikið betri fyrirgjafir í sóknarlið Liverpool, helsti vinstri fótar mann. Fyrir mér er Milner töluvert ofmetin og gagnrýnin á Moreno oft langt út úr korti.
Vonandi var síðasta tímabil tekið í að skóla Moreno til og hann heldur áfram að spila eins og hann gerði gegn Bayern. Andy Robertson var keyptur í sumar og það hræðir mig mikið að hann er ekki endilega hugsaður í stað Milner heldur sem varaskeifa (a.m.k. til að byrja með). Ef Milner verður áfram fyrsti valkostur í þessa stöðu er vandamálið í vörninni það sama. Milner spilaði 92,4% af deldarleikjum Liverpool síðasta vetur þannig að ekki voru meiðsli að há okkur hérna, frekar gæði að mínu mati. Þessir bakverðir fengju ekki að spila mikið í hinum toppliðunum óttast ég.
Bakvarðastöðurnar eru frekar tæpar líkt og í fyrra. Vonandi er Robertson alvöru bæting í þessari stöðu og TAA er auðvitað árinu eldri núna.
Miðverðir
Helsta vandamál miðvarða Liverpool undanfarin ár finnst mér vera sú vernd sem þeir fá frá miðju, marki og bakvörðum. Eins hafa tíð meiðsli gert Liverpool gríðarlega erfitt fyrir að mynda einhvern stöðugleika. Matip virðist vera nákvæmlega í þeim klassa sem við viljum sjá hjá Liverpool, Lovren er einnig nógu góður þó hann verði af og til sekur um slæm mistök. Matip og Lovren hafa náð góðum köflum þegar þeir eru báðir heilir nokkra leiki í röð. Engu að síður vantar einn í viðbót og helst einhvern sem er betri en þeir báðir. Fyrir það fyrsta vantar ennþá mann í staðin fyrir Sakho sem var okkar besti varnarmaður. Liverpool þarf miðvarðapar sem spilar 90%+ af tímabilinu eins og bakverðirnir hafa verið að gera. Ef einn af þeim meiðist þarf að vera Lovren eða Matip gæði til vara. Toure áður og Klavan núna eru að fá allt of margar mínútur í vörn Liverpool á hverju ári. Matip missti úr rúmlega 28% af síðasta tímabili og Lovren 25% Klavan spilaði því um 41% af deildarleikjum Liverpool. Lucas spilaði 32%
Þeir eru ágætir af og til og áttu báðir góða leiki inn á milli en til lengri tíma er þetta of stórt bil milli byrjunarliðsmanna og þeirra sem koma í staðin. Þetta riðlar öllum leik liðsins. Fyrir utan Klavan er Joe Gomez sem er 20 ára með tveggja ára meiðslasögu að baki. Það er því ekki að ástæðulausu að Virgil van Dijk hreinlega verður að koma til Liverpool. Helst myndi ég vilja sjá Klopp ná sáttum við Sakho og halda honum líka.
Miðverðir Liverpool eru að ég held ekkert síðri en margir af miðvörðum hinna toppliðanna og ég held að margir af þeirra miðvörðum myndu einnig lenda í vandræðum í leikkerfi Liverpool.
Varnartengiliðir
Fyrir það fyrsta er Liverpool ekki með varnartengilið, Kanté/Mascherano tegund af leikmanni myndi stórbæta liðið. Slíkur leikmaður myndi líklega passa betur en Matic/Hamann tegund af varnartengiliði þó slíkur leikmaður myndi líka hjálpa. Liverpool er hinsvegar með þrjá miðjumenn sem allir geta leyst þetta hlutverk mjög vel og hafa auðvitað meira fram að færa sóknarlega, Klopp metur það meira en mikilvægi þess að verja vörnina.
Henderson spilaði bara 62% deildarleikja Liverpool í fyrra og var að spila meiddur í mörgum þeirra. Nákvæmlega sama vesen og tímabilið á undan. Þetta var eitt af risavandamálum liðsins, hann var settur í þetta hlutverk dýpra á miðjunni í fyrra og var að spila mjög vel þegar hann var heill.
Emre Can spilaði 69% af deildarleikjum Liverpool og nánast aldrei sama hlutverk á miðjunni. Þarna gæti hann orðið að algjöru skrímsli fái hann að eigna sér stöðuna. Gini Wijnaldum hefur svo verið að spila aftast á miðjunni af og til í sumar, hann hefur spilað þessa stöðu áður (bæði með landsliði og í Hollandi) og hefur allt með sér til að geta leyst þessa stöðu vel.
Liverpool er orðað sterklega við einn miðjumann í viðbót, Keita er ekki varnartengiliður en hans leikur er í anda Kanté og Mascherano hvað vinnusemi varðar. Vonandi landar Liverpool slíkum leikmanni í sumar.
Miðjumenn
Henderson, Can og Wijnaldum flokkast auðvitað allir líka sem miðjumenn og líklega spila allaf tveir af þeim þremur þegar allir eru heilir. Þriðji maðurinn á miðjuna væri þá alltaf Coutinho. Að fá hann á miðjuna og fljótan mann á vænginn gegn liðum sem erfitt er að brjóta niður er gríðarleg bæting á liðinu frá síðasta tímabili. Coutinho spilaði 65% af síðasta tímabili, hann var tæpur í svona 15% af þeim leikjum og það stórsá á leik Liverpool þegar hann var ekki með.
Lallana sem varamaður stækkar hópinn umtalsvert þó auðvitað verði honum líklega oftast komið fyrir í byrjunarliðinu. Hann missti líka af rúmlega 30% af deildarleikjum Liverpool í fyrra og fer inn í þetta tímabil meiddur í 2-3 mánuði. Fjórir af fimm miðjumönnum liðsins misstu því af 30% eða meira af deildarleikjum síðasta tímabils (svipað árið áður) og samt var liðið ekki í neinni Evrópukeppni. Það vantaði mann inn áður en Lallana meiddist og það vantar því rétt rúmlega einn miðjumann í viðbót núna.
Firmino gæti líklega dottið niður einnig sem og Woodburn en báðir eru mun meira sóknarmenn. Grujic og Ejaria eru báðir árinu eldri og klárlega í framtíðarplönum Klopp. Líklega fer þó a.m.k. annar þeirra eitthvað á láni í vetur.
Miðja Liverpool stenst öðrum miðjum á Englandi alveg snúning en breiddin er ekki næg. Þessi hópur er með of marga leikmenn sem eiga það til að meiðast og það er ekki eins og þeir skiptist á að meiðast. Klopp vill heimsklassa miðjumann í hópinn og það er ekkert mál að sjá afhverju.
Hægri kantur
Best mannaða staðan í liðinu ótrúlegt en satt. Mané og Salah eru báðir bestir hægra megin en úr því Mané er sá réttfætti höfum við hann þar. Hann er einfaldlega á pari við Coutinho í gæðum og liðinu jafn mikilvægur ef ekki mikilvægari. Hann spilaði bara 65% af síðasta tímabili og botninn datt svo gott sem úr leik liðsins er hann datt fyrst út.
Ryan Kent er að heilla á undirbúningstímabilinu og spurning hvort Klopp haldi honum ekki bara í stað þessa að lána hann aftur. Markovic á hinsvegar enga framtíð.
Hér er Liverpool sterkara en flest lið deildarinnar hvað byrjunarlið varðar (Mané) en breiddin var vandamál í fyrra þegar hann meiddist. Kent er góður en enginn Mané. Eins er Lallana betri á miðjunni heldur en kantinum. Leikur liðsins riðlast þegar byrjað er að færa fleiri menn úr stöðum þegar einn meiðist. Ef t.d. Mané meiðist liggur beinast við að Salah fari á hægri kantinn, Coutinho í sína stöðu á vinstri vængnum og allt væri það á kostnað miðjunnar. Sáum eitthvað í líkingu við þetta of oft í fyrra.
Vinstri kantur
Salah og Mané geta báðir spilað vinstra megin rétt eins og hægramegin. Þetta er svo auðvitað staðan hans Coutinho sem mun eflaust leysa hana töluvert í vetur. Það er svo spurning með Ojo hvort hann verði lánaður eða hafður til vara. Woodburn hefur einnig leyst úti vinstra megin en það verður líklega aldrei hans framtíðar staða.
Þrátt fyrir kaupin á Salah væri ég mikið til í að fá einn alvöru kantmann til viðbótar. Liverpool þarf virkilega góða breidd hérna eins og síðustu tímabil hafa sýnt og sannað.
Sóknarmenn
Hér er breiddin mjög góð, sérstaklega m.v. að liðið spilar bara með einn upp á toppi. Hinsvegar þarf breiddin líka að vera góð enda sóknarmenn Liverpool sumir með ótrúlega meiðslasögu.
Firmino er klárlega fyrsti maður á blað, Klopp útskýrði vel afhverju um daginn. Hann skorar kannski ekki nóg og tekur ekki vítin en hann vinnur rosalega vinnu frammi sem skapar mikið pláss fyrir aðra leikmenn liðsins. Sérstaklega spennandi að sjá hann í vetur með Coutinho fyrir aftan sig og tvær eldflaugar á sitthvorum kantinum. Ef hann vinnur boltann ofarlega eru Mané og Salah farnir um leið.
Sturridge getur hæglega unnið sig inn í byrjunarliðið haldist hann loksins heill en ég hef ekki tölu á því hversu oft maður hefur sagt þetta. Það er ekki hægt að treysta á hann sem fyrsta kost en hann stórbætir liðið þegar hann er tiltækur. Sturridge spilaði btw 22,5% af deildarleikjum síðasta tímabils sem er svipað og undanfarin þjú ár.
Origi er kominn með alvöru samkeppni frá Solanke og eru þar á ferðinni tveir gríðarlega efnilegir sóknarmenn. Frábært að hafa þá tvo sem 3-4 kost. Liverpool var t.a.m. bara með N´Gog þegar Torres var sóknarmaður númer eitt 2010.
Danny Ings held ég að eigi hinsvegar ekki séns hjá Liverpool í vetur. Hann hefur bara verið of lengi frá og samkeppnin er of mikil. Lán væri besti kosturinn.
Svona horfir þetta við mér. Liverpool var ekki í Evrópukeppni í fyrra, samt var allt liðið í meiðslavandræðum á einhverjum tímapunkti og gæðamunurinn of mikill á milli byrjunarliðsmanna og varamanna. Salah inn bætir sóknarlínuna verulega. Robertson sem líklega kemur inn fyrir Moreno bætir voðalega litlu við hvar breidd varðar í bakvarðastöðunni. Ekki nema hann taki sæti Milner og sé betri en hann. Solanke er meira hugsaður til framtíðar. Á móti er svo Lucas er farinn.
Það eru kannski nógu margir leikmenn á mála hjá Liverpool og jafnvel nógu góðir, en það eru of margir leikmenn í þessum hópi sem missa allt of mikið úr á hverju tímabili. Ings, Gomez, Henderson, Sturridge, Lallana og Coutinho. Allt leikmenn sem misst hafa risastóra parta úr undanförnum tímabilum. Ekki bara síðasta tímabili, þeir hafa allir misst helling úr undanfarin 2-3 ár.
Klopp þarf að stækka hópinn meira en bara með einum miðverði í viðbót. Það vantar klárlega einn á miðjuna í viðbót eða heimsklassa kantmann í anda Mané og Salah. Þrír nýjir menn í 18 manna hópinn er lágmarkskrafa. Salah eykur möguleikana á kantinum gríðarlega, Van Dijk fyrir Lucas væri rosaleg bæting á hópnum og miðjumaður sem gerir þá sem fyrir eru að varamönnum er það sem þarf.
Liverpool má ekki aftur við nokkrum vikum þar sem tveir til þrír 17-18 ára strákar voru á bekknum sem uppfyllingarefni því hópurinn var ekki stærri. Það þarf alvöru gæði til vara í allar stöðurnar ætli liðið að berjast í bæði Meistaradeild og deild.
Alveg eins og talað úr mínum munni ! 100 sammála, vona bara að þessi nýji yfirmaður hjá LFC sé að vinna að þessu, ekki byrjar hann vel.
Ég hef verið fsg out í góðan tíma. En ég ætlaði að gefa þeim þennan glugga til að ég myndi éta sokk. Ég hata að ég sé að hafa rétt fyrir mér. Fólk má reyna að verja þá og reyna finna jákvæða í þessum glugga. Við erum komin með einn leikmann sem bætir þetta lið okkar.
Flottur Einar, góð yfirferð í kjölfar podcastsins í vikunni. Ég hnýt þó um nokkur atriði þótt ég sé í grunninn sammála.
“Milner töluvert ofmetinn og gagnrýni á Moreno oft langt út úr korti”.
Fyrir nokkrum árum var Klopp að þjálfa Dortmund og hann kom með frábært lið sitt á Anfield þar sem hann tapaði 4-1 fyrir Liverpoolliði Brendan Rodgers. Þar skoraði Lovren meðal annars líklega eina skallamark sitt úr horni það tímabilið. Ég hef grun um að þú sért að horfa heldur mikið í leikinn gegn Bayern og þótt frammistaða Moreno gegn þeim hafi verið góð er alveg örugglega góð ástæða fyrir því að hann hafi verið meira og minna frystur síðasta vetur. Ég man vel eftir því hversu meira og minna allir sem skrifa hérna voru orðnir gjörsamlega gráhærðir og hárreyttir yfir frammistöðu hans á köflum árið áður. Vinstri vængurinn var eins og vængjahurð varnarlega, andstæðingarnir sáu þennan veikleika og stíluðu endalaust inn á hann með alveg bærilegum árangri á köflum.
Milner spilaði auðvitað þessa stöðu í fyrra með misjöfnum árangri. Stundum náði hann ágætum vinstri fótar krossum, stundum snéri hann inn á miðjuna og færði boltann yfir á hægri og þrengdi þannig sóknarleikinn. Auðvitað er betra að hafa örvfættan vinstri bakvörð upp á sóknarleikinn að gera og koma Robertson hlýtur að snúast um það að hann og Moreno eiga að berjast um stöðuna, allavega þegar kemur að leikjum gegn rútubílaliðunum. Milner nýtist illa í þá leiki en hann getur hæglega komið inn gegn sterkari liðum og í útileiki í Evrópukeppninni.
Robertson er auðvitað óskrifað blað enn sem komið er og við verðum bara að bíða og sjá í nokkra mánuði. Í fyrsta lagi hvort hann komist í liðið og í öðru lagi síðan hvaða eiginleika hann hefur fram að færa, bæði varnarlega og sóknarlega.
Ég er ekki bjartsýnn með þessa stöðu, hefði viljað fá alvöru leikreyndan, sterkan vinstri bakvörð á borð við Hector eða Rodriguez. En þið vitið, the Liverpool way…
Öðru er ég að mestu sammála. Þú kemur með góðan punkt varðandi færslur innan byrjunarliðs vegna meiðsla sem ég held að sé rétt hjá þér. Núna þegar Lallana er meiddur þá þurfum við meiri sköpun inn á miðjuna en Henderson, Can og Wijnaldum bjóða upp á. Það þýðir væntanlega að Coutinho kemur þar inn, veit svosem ekki hvort Lallana hefði komist í byrjunarliðið hvort eð er. En hann er alvöru kandidat á bekkinn. Ef Coutinho fer þá verðum við í miklum vandræðum og þurfum alvöru skapandi leikmann í staðinn. Hef ekki hugmynd um hver það ætti að vera og ég veit ekki hvort Keita sé sá leikmaður.
Þannig að samantekið, þeir leikmenn sem ég vil sjá spila megnið af leikjunum í vetur:
Clyne, Matip, Lovren (vantar miðvörð), Milner (eða hver sem verður v-bak nr. 1), Henderson, Can, Wijnaldum, Coutinho, Lallana, Salah, Firmino, Mané, Sturridge (ég veit, ólíklegt). Held ég sé ekki að gleyma neinum, þetta eru 13 leikmenn sem þurfa að verða allavega 15, helst 17-18. Leikmenn eins og Origi, Klavan, Grujic, Moreno og Ings held ég að séu ekki nógu góðir til að spila meira en kannski 20-25% leikja – 10-15 leiki, koma inn af bekk og slíkt.
Veikleikarnir í þessu eru eins og Einar bendir réttilega á. Það vantar miðvörð og betri vinstri bakvörð. Það vantar skapandi miðjumann og annan öskufljótan á annan vænginn í svipuðum klassa og þessir sem eru fyrir. Ef menn ætla sér titilbaráttu eins og Klopp hefur sagt þá þarf enn meira, t.d. betri markmann og meiri samkeppni í hægri bakvarðarstöðuna. TAA á þó eftir að sýna hvort hann dugi þar. Aðrir ungir leikmenn eiga líka eftir að sýna fram á að þeir geti orðið hluti af þessum hópi.
Þetta er að byrja, rosalega hlakka ég til að sjá hvernig þetta kemur út. Ég er alveg undirbúinn fyrir vonbrigði. Frá 12. -27. ágúst spilar liðið 5 leiki. Þetta eru 15 dagar. Hvort leikmannahópurinn sé tilbúinn í svona álag efast ég um. Deildarleikir gegn Watford, Crystal Palace og Arsenal þar sem liðið þarf lágmark 7 stig, helst 9. Og svo Hoffenheim á milli. Bara fínasta prófraun. Líka gott fyrir Klopp að sjá hvort hópurinn dugi í þetta. Svo hefur hann þá nokkra daga til að klára síðustu innkaupin ef honum líst ekki á þetta.
Takk fyrir pistilinn og spekúlasjónirnar Einar.
Þessi pistill er spot on. Ein pæling eða kannski bara òskhyggja. Moreno var keyptur sem efnilegur bakvörður. Engann veginn fullmòtaður en með hráefnin til staðar, t.d. fljòtur og með gòðann vinstri fòt. Klopp sér fljòtlega að Moreno er ekki á réttri leið og ákveður að þjálfa hann upp á nýtt yfir cirka 1 og hálft ár og voila, nýr og endurbættur Moreno. Miðað við æfingaleikina er Milner sìstur af þessum þremur og ef þù miðar Milner við left backs topp 5 liðana er hann slakastur. Annaðhvort koma Moreno og Robertson sterkir inn ì þessa stöðu eða liðið er f.u.c.k.e.d.
8 dagar í fyrsta leik, viðurkenni að ég bjóst við að við værum búnir að gera meira á þessum tímapunkti. Treysti samt alveg liðinu núna til að keyra á þetta í byrjun en andskotinn hafi það við verðum að fara versla meira (feeling hopeful)
Nei ég meinti vika, hélt við ættum sunnudagsleik..
Það er ekkert hér sem kemur á óvart í sjálfu sér. Ef eitthvað, þá er FSG að standa sig verr en ég óttaðist. Tilhugsunin ein um að Van Dijk kaupin gangi ekki í geng… úff.
Ég vona Klopp sé þokkalega sáttur með hópinn og trúi að lítill hópur sé lykillinn að titlinum. Einhvernveginn finnst mér samt eins og síðasta tímabil að sýnt að leikstíllinn tekur á.
Ef Salah meiðist, þá erum við sem sama lið og síðasta tímabil.
Áfram Klopp, áfram Liverpool.
Gæfi mikið fyrir að hafa eigendur PSG núna. .
@Ívar. Rodriguez(stafs.?) er farinn til AC Milan.
Sælir félagar
Takk Einar M fyrir góðan pistil og yfirferð. Ég er honum sammála um flest en ég tel þó að Clyne sé stórlega ofmetinn í liðinu. Hann hefur að minnsta kosti verið nánast algerlega sóknarheftur og er ekki nema sæmilegur varnarmaður að mínu mati. Á móti kemur að hann hefur verið nánast heill og leikfær alla leiki og það hefur komið sér vel í meiðslahráðu liðinu. Því eru báðar bakvarðarstöðurnar krítiskar.
Ég tek líka undir þær athugasemdir sem koma fram hjá Ívari#3, Tigon#4 og Hafliðason#7. Liðið er sem sagt enn þunnskipað í flestum stöðum nema fremsti sóknarmaðurinn er margfaldur. Það er því töluvert óunnið enn hjá meistara Klopp en vonandi hefst það fyrir lok gluggans.
Það er nú þannig
YNWA
Henderson,Lallana,Sturride, Coutinho fara ekki með í lokaleik okkar fyrir tímabilið. Þarna strax erum við með 4 lykilmenn meidda !
Veldur það engum áhyggjum að það virðist ekki vera neitt slúður í gangi um neinn leimann nema VVD eftir að við drógum okkur út úr Keita viðræðunum. Ég er með mikla ónotar tilfinningu um að við förum með óbreyytan hóp inn í tímabilið.
Það eru ákveðnir þættir í þessum pistli sem ég er mjög ósammála.
A- Hægri bakvarðarstaðan er nákvæmlega ekkert vandamál. Clyne er virkilega góður bakvörður bæði sóknarlega og varnarlega, snöggur, teknískur og sterkur líkamlega. Við erum með tvo menn til að bakka þessa stöðu upp. A-Arnold og Joe Gomez.
B- Moreno fékk þónokkuð af tækifærum í vetur en var út á þekju varnarlega og það er meginn ástæða þess að hann er ekki í byrjunarliðinu. Það þarf ekki nema að vitna í fréttir um þrekpróf frá Liverpool að James Milner er svo sannarlega þyndarlaus og getur hlupið út í hið óenandlega. Milner var einfaldlega í byrjunarliðinu því hann var með betri mönnum liðsins í fyrra. Reyndar er ég sammála því að það mætti vera meiri hraði í þessari stöðu en það gengur ekkert upp ef viðkomandi er út á þekju varnarlega og það er einfaldlega ástæða þess að hann var valinn fram yfir Moreno.
Ég er sammála því að hópurinn mætti vera aðeins breiðari en samt ekki um mikið því það þarf að skapast rými fyrir yngri leikmenn að þróast. Leikmenn eins og Grjuik, A-Arnold- Joe Gomez, Ben Woodburn, Ejaria , Rykan Kent, eru leikmenn sem mér finnst eiga möguleika á að verða miklu betri með tíð og tíma en þeir eru í dag en það myndi ekki gerast ef hópurinn væri of breiður.
Svo er nokkuð ljóst að Klopp er ekki sammála þér að Sakho sé okkar besti varnarmaður. Hann sagði í viðtali á sínum tíma að Sakho væri góður að verjast í liði sem liggur aftarlega og vill því meina að hann sé ekki hentugur að spila fyrir Liverpool.
Ég er aftur á móti sammála því að kaup á miðverði er aðalmálið og það sem ég er hvað gagnrínastur á að sé ekki búið að ganga frá því. Það er fráleitt að treysta bara á Klavan, Matip, Gomez og Matip í vetur. Ef Van Dijk kemur þá er ég sáttur við þennan glugga.
Er sammála lang flestu þarna fyrir utan það að Coutinho missi mikið af leikjum á hverju tímabili.. ég man ekki eftir því að hann hafi meiðst eitthvað mikið fyrir utan bara þessi ökklameiðsli í fyrra sem voru nátturulega eftir samstuð, bara óheppni í rauninni.
Viljið þið að milner sé í bakvörðinum þá vinnum við ekki titla með hann þar sorry hann er ekki góður þar ég vil ekki missa moreno því hann á að spila eða robertsson ekki milner því þá getum við gleimt því að berjast Um titla og svo vona ég að vvd komi um lovren fari á bekkin
Sælir félagar
Ég er algerlega ósammála BJ um Clyne. Hann er fljótur en hvaða máli skiptir það sóknarlega ef hann kemur aldrei með fyrirgjafir. Hvað hefur hann átt margar stoðsendingar þrátt fyrir að spila nærri 99% leikja? Hann er ekkert sérlega tekniskur þó hann sé ef til vill sæmilegur miðað við enskan bakvörð. Það er til dæmis það sem helst háir Walker sem væri einn besti bakvörður í heimi ef hann væri teknískari en samt er himinn og haf millin hans og Clyne. Hann er sterkur líkamlega og allt í lagi einn á einn og meiðist nánast aldrei en að öllu töldu finnst mér hann ekki nema góður liðsmaður sem gott er að hafa á bekk. Mitt álit er þetta.
Það er nú þannig
YNWA
Er að horfa á leikinn við A. Bilbao.
Það er nú orðið helvíti hart þegar það þarf að taka þrautreyndan bakvörð og færa hann yfir á miðjuna.
Lítum ekki vel út varnalega
Alls ekki nógu góður leikur hjá okkur,þokkaleg byrjun en svo misstum við allt frumkvæði síðustu 25 mín, Origi bara einfaldlega ekki nógu góður til að vera þarna inná.
Fyrst að umræðan er um Clyne á spjallinu þá er ég á hans vagni. Hann virkaði þreyttur undir lok síðasta tímabils en heilt yfir átti hann mjög gott tímabil.
Mér finnst hann sterkur varnarlega, fljótur og tekur virkan þátt í sóknarleiknum án þess að það bitnar á vörninni.
Menn sem eru að gagnrína fyrirgjafir verða að átta sig á því að Liverpool hefur ekki verið fyrirgjafa lið og vilja helst ekki dæla háum boltum inn í teig þar sem liðið er mjög smávaxið fram á við og leið A og B hjá Liverpool hefur verið að spila sig í gegn eða taka skot fyrir utan en vissulega þarf stundum að senda inní og má vel vera að Clyne þarf að bæta þær en í grunnin er hann mjög góður bakvörður sem skilar sína en það er allt í góðu þegar menn eru ekki samála.
Er að horfa á A.Bilbao leikinn þar sem Arnold er í bakverðinum og virkar hann á mig sem mjög efnilegur strákur og held ég að hann eigi eftir að eiga bjarta framtíð en hann heillar ekki með framistöðuni fyrstu 45 mín. Búinn að hlaupa úr stöðu tvisvar, tapa boltanum á skelfilegum stað og missa sinn mann auðveldlega framhjá sér tvisvarsinnum en það sem hann gerir vel er að vera fljótur og áræðinn sóknarlega.
Meira um þennan leik.
Origi hefur átt lélegan fyrirháfleik þar sem hann klúðrar tveimur dauðafærum.
Firminho/Salha í flottir saman.
Millner/Can/Grujic miðjan er ekki að gera sig en það var líklega vitað.
Moreno er að stimpla sig inn sem leikmaður sem ætlar ekki að gefa eftir sína stöðu.
Matip/Lovren hafa átt nokkur góð tilþrif en Lovren var klaufi í markinu(og pínu óheppinn) að tækla boltan í mótherjan sem skoraði mark sem maður finnst að er ekki Mignolet að kenna en maður hefði séð einhverja markmenn verja þetta lausa skot.
s.s við erum enþá ógnandi frami, lítið að frétta af miðjuni og vörnin/markvörður enþá spurningamerki.
Samkvæmt manual sem ég er að skoða á netinu þá var Nathinael Clyne með 2 stoðsendingar og 7 lykilsendingar sem gáfu mörk. það voru 95 % sendinga hjá honum sem gengu upp og ég sé ekki betur en hann er með jafn mikið af fyrirgjöfum í hverjum leik og Kyle Walker.
Þannig að þessi rök hjá Sigkarl standast einfaldlega ekki skoðun enda er nú almennt áltið að Clyne sé ekki veikur hlekkur hjá Liverpool.
#20,
Clyne kláraði líka síðasta tímabil án þess að fá svo mikið sem eitt gult spjald en var þó ofarlega í tölfæði um tæklingar í deildinni.
Fáránlega vel gert hjá Woodburn! Geggjaður undirbúningur hjá Solanke líka.
Gaman að sjá ungu drengina standa sig vel virkilega flottir.
Djufull var þetta flottur skalli hjá Solanke
Ragnar klavan stoðsendingu takk fyrir
Ryan Kent og Ben Woodburn! Já takk!
Það að vera að kenna Klopp um hvernig leikurinn fór er eins og að hengja smið fyrir bakara.
Algjörlega ósammála pislahöfundi. Það þarf tvo og hálfan.
Ég vona að við lánum ekki Ryan Kent og Ben Woodburn. Þetta eru klárlega strákar sem auka breydd og ég veit að þetta eru bara æfingarleikir en hafa verið mjög sprækir á þessu undirbúningstímabili og hafa látið Klopp vita að þeir eru vel nothæfir ef honum vantar smá auka hjálp í vetur.
Ef allir eru heilir í dag þá væri þetta mitt draumalið fyrir tímabilið(Lallana ekki valmöguleiki)
Mignolet – þetta er ekki sterk staða hjá okkur en ég tel að hann sé besti kosturinn eftir mjög góðan endir á síðasta tímabili.
HB- Clyne traustur
Miðverðir – Matip/Lovren okkar langsterkasta par
VB – Moreno – ég trúi eiginlega ekki að ég sé að skrifa þetta en miða við undirbúningstímabilið hefur hann verið sterkur. Ef hann fækkar klaufamisstökum og gefa andstæðingum víti þá held ég að Klopp sé til í að nota hann.
Djúpir/vinnusamir miðjumenn – Henderson/Winjaldum þetta eru þeir tveir sem ég treysti því að gleyma sér ekki í sóknarleik og passa vörnina og vera mjög duglegir í hápressu. Þeir geta líkað skorað og búið til færi þótt að aðrir sjá meira um það.
Sókndjarfur miðjumaður – Coutinho einfaldlega okkar x-factor og töfrakall.
Sóknarframlínan okkar – Mane/Firminho/Salah hraði, dugnaður, áræðni og sífeld ógn
s.s frá síðasta tímabili er bara Salah kominn inn í liðið en fyrir mér er það ekkert bara heldur gríðarleg styrking.
Það er nú ekki tilefni til svartsýni þegar klúbburinn stefnir á titilinn í fyrsta sinn í langan tíma. Byrjar samt ekki glæsilega að kallana er meiddur í langan tíma. Klárum Van dijk.
Vörnin er ennþá disaster. Upp með veskið og kaupa almennilegan miðvörð. Forgangsatriði númer 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9 og 10.
Væri líka til í að sjá viðbót á miðju eða væng. Helst bæði.
Ein vika í að veislan hefjist aftur. Get ekki beðið!
Áfram Liverpool!
Afsakið útidúrinn.
er að skoða leiki i london 22 okt. allir leikir eru ennþá settir 21 okt.
Vitið hvenær það er færðir leikir fram a sunnudag? Það er Tott- LIv þessa helgi og vil vita hvaða dag það er pottþétt.
Origi út og Solanke inn.
Maður sem er sparkandi í bolta alla daga og fær borgað fyrir það en hittir svo ekki á markið af 3 – 4 metrum er rannsóknarefni. En leikurinn bar þess svolítið merki þess að menn voru að passa sig upp á meiðsli og annað slíkt – fínn sigur ?
Ég tók eftir því í leiknum í dag að Firminho er ekki í takkhvíttunarmeðferð og okkar hvítu búningar virka ekki einu sinni hvítir þegar hann brosir 🙂 Fer þetta ekki að vera komið gott hjá honum. Hvar getur maður annars séð leikinn aftur einhver ?
Sammála Einari, það er galið að lið sem tapaði toppsætinu á síðasta tímabili vegna skorts á gæðum og breitt í leikmannahópi, ætli sér inn í nýtt tímabil með vonandi leikjum í meistaradeild án þess að bæta hópinn meira.
Á síðasta tímabili var engin evrópukeppni og liðið datt fljótt úr út báðum bikarkeppnum. Samt var hópurinn ekki nógu góður til að halda út heilt tímabil nánast eingöngu í deild.
Eins og Einar nefnir eru leikmenn í hópi liðsins sem munu pottþétt meiðast í vikur eða mánuði, the usual suspect Lallana, Henderson og Sturridge.
Hvernig ætlað Liverpool að keppa í deild, vonandi meistaradeild og bikurum með ekki meiri breidd og gæði í hópnum. Það sjá allir að það vantar í það minnsta miðvörð sem er betri en þeir sem fyrir eru ásamt miðjumanni sem er betri en aðrir miðjumenn liðsins.
Við fáum líklega ekki Keita en vonandi löndum við Van Dijk og leikmanni á pari við Keita. Svo skiptir öllu að halda Coutinho annars verðum liðið í baráttu við Everton um 7 -8 sæti í vetur.
Vá hvað þetta er sorgleg lesning.
Það er ótrúlegt að félag eins og Liverpool geti ekki verslað sér alvöru miðvörð til að reyna að laga vandamál sem er búið að vera til staðar í mörg ár.
LFC CB buys since 2011:
Kolo: Free
Matip: “Free”
Ilori: £3.5m
Gomez: £3.5m
Klavan: £4.2m
Coates: £4.9m
Sakho: £15m
Lovren: £20m
Og hverju á þessi upptalning að skila. Skil ekki alveg hvað pointið er. Viltu meina að við eigum að nota Sakho og Lovren út af þeir eru dýrastir? Lovren á sínum tíma var mjög dýr miðvörður. Eða ætlarðu að miða öll verð við daginn í dag.
Þá er nú best að við borgum einhverjum fyrir að taka Matip frá okkur því annað eins hefur ekki sést lengi. Afsakið pirringin.
Fátteitt sem maður hefur tekið eftir í preseason, bæði í pressunni og stöki strími:
Solanke er það sem Corrol átti að vera en virðist betri leikmaður og gerir ýmsilegt fleira en bara að skalla boltann í netið (sem hann hefur þó gert mikið af).
Mo verður fínn fyrir liðið og virðist að sögn liðsfélaga hafa góð áhrif á hópinn bæði innan og utan vallar.
Að selja Coutinho, fyrir hvaða 120 milljónir eða hvað, væri skref aftur á bak og allir vita það. Við vonum að FSG fái ekki gömlu LFC-dollaramerkin í augun.
Mané átti flottustu sendingu ársins í leiknum á móti Bayern, jafnbesti leikmaður liðsins.
Hópurinn virðist samstilltur og mjög góður andi í honum, sem virðist skila sér á milli allra leikmanna, frá þeim sem heldur að hann verði alltaf starter til þess sem er að berjast fyrir byrjunarliðssæti. Trent Alexander Arnold mun leysa Clyne af og bæta þessa stöðu ef hann spilar eins og hann hefur gert í preseason. Woodburn og Kent eru viðbót við aðalmannahóp og löngu kominn tími á að unglingadeildin láti segja jafnsterkt til sín.
Að þessu sögðu er augljóst að liðið þarf hafsent og djúpan miðjumann til viðbótar, það hefur blasað við árum saman. Tvær maskínur sem ekki er gerð krafa til að skori mörg mörk. Þetta er það eina sem vantar í liðið ef enginn leikmaður sem fyrir er fer.
Ef við spáum aðeins betur í leikmannamálum að þá finnst mér eins og við höfum fengið 3 aukaleikmenn sem við kannski reiknuðum ekki með inn í jöfnuna. Woodburn, Ryan Kent og Solanke ásamt T. A Arnold gætu orðið okkar Beckham, Neville, Scoles kynslóð. Ferguson sagði nefnilega eitt þegar að Klopp var orðinn stjórinn hjá Liverpool að þessi ráðning væri svo góð að versta við það að hann stjórnar Liverpool. Það sem Ferguson gerði á sínum tíma var að ná það besta úr sínu liði og hann varð jú meistari með þessari kynslóð en ásamt því að verða meistari með menn innanborðs eins og John O´shea, Fletcher o.fl. meðaljónum sem voru né eru nú ekki hátt skrifaðir leikmenn.
Ég mun alltaf styðja miklu frekar klúbbinn minn Liverpool sem klúbbur sem elur upp afbragðsleikmenn og gefur þeim tækifæri til að verða einmitt Owen, Fowler, Gerrard eða Monaco Mbappe týpurnar frekar en að kaupa titlana. Einhversstaðar verða leikmennirnir til. Í fyrsta skipti í langan tíma er ég stoltur af stefnu LPool með Klopp sem skipstjóra í brúnni, Gerrard í akademíunni svo að ég ætla að leyfa mér að vera þolinmóður og styðja liðið í gegnum súrt og sætt, stoltur af þessum klúbbi frá barnastarfi upp til fullorðnisbolta.
En ég get verið sammála því að okkur vantar varnarmann og vona ég svo sannarlega að Van Dijk verði orðinn leikmaður Liverpool í þessum mánuði. Við eignuðumst líka miðjumann eða næstu Lukas týpu bara betri og það er Milly, hann er einn mikilvægasti leikmaður okkar í dag, maðurinn sem að mokar skítinn og sá sem að mun hlaupa úr sér lungun í hvaða stöðu sem honum er ætlað og berjast fram í rauðan dauðann.
Styðjum klúbbinn, styðjum leikmennina og styðjum Klopp og öll þau sem að vinna hörðum höndum að koma þessum fallegasta klúbbi veraldar í topp titilbaráttu klúbb frá grasrót til aðalliðs.
YNWA!
Ég er skíthræddur um að Klopp hafi sagt toppunum hjá Liverpool ég vill fá Salah, Keita og VVD ef ég fæ þá ekki þá nota ég þennan hóp í vetur.
VVD er örugglega að koma, varðandi Keita þá held ég að það sé allveg rétt að vera ekki að fara í enhver panic kaup fyrst hann kemur ekki núna, hann kemur næsta ár á lægri upphæð, þangað til er ekki rétt að kaupa enhvern miðlungs mann til að brúa bilið.
það er vika i mót og lallana er meiddur i langan tíma og spænsk blöð að segja að Coutinho sé a spáni og það sé verið að klára félagsskiptin til barca.
Ef þetta er rétt þá erum við að fara inní mót með slakara lið en i fyrra.
eins og liðið er i dag, þá erum við langt fra þvi að fara að berjast um titillinn og plús það að við erum að fara i evrópukeppni, a erfitt með að skilja þetta, hver ætli að markmið okkar séu ? menn tala alltaf um að við stefnum alltaf á titillinn, en eg trui ekki að menn séu það vitlausir að halda að þessi hópur geti unnið deildina og eg trúi ekki að klopp haldi það
Eitt sem menn gleyma þegar verið er að vera saman liðið frá því í fyrra o.s.frv.. Liðið hefur spilað ári lengur undir stjórn snillingsins Klopp. Það eitt og sér er ástæða til aukinnar bjartsýni í ár og skiptir meira máli en einstaka leikmenn. Liðsheild og samhæfni er aðalsmerki Klopp.
Coutinho er ekki á Spáni. Liverpool ætla ekki að selja hann, sama hvað Barca gera. Það er kristaltært. Liverpool þarf hinsvegar að kaupa meira. FSG eru að standa sína plikt hvað varðar Coutinho
Emre Can hefur aldrei vitað hvort hjartað slær hægra eða vistra megin. Liverpool hjartað – sem við elskum öll. Það er málið. Can er ekki Liverpool maður.
SuareZ heim. 🙂
Hvað hefurðu fyrir þér í því?
Skv Echo er Klopp ánægður með þá hafsenta sem eru í hópnum og ætlar ekki að bæta við. Sem sagt Gomez og Klavan backup fyrir Lovren og Matip. Er þetta grín?
VVD er í verkfalli af því að hann vill koma til LFC þannig að af hverju er þetta ekki klárað?
Hann spilar ekki meira með Southampton þannig að VVD tekur næst besta kostinn sem er Chelsea.
Þessi gluggi er farsi. Og ef Coutinho fer að auki þá er mér öllum lokið.
Og staðhæfingin að berjast um titilinn er í besta falli djók. Verðum heppnir ef við berjumst um Europa League.
Las þetta Gutti
Hreinlega trúi þessu ekki, að Klopp hafi látið þetta út úr sér. Þegar okkur vantar meira góðan hafsent en nokkuð annað. Öll Evrópa veit það.
VVD vill Liverpool, en er Klopp með þessu að bjóða Chelsea uppá hann???
En nei, vonandi er þetta Póker og VVD verður okkar í vikunni.
Merkilegt að Klopp hafi sagt að það þurfi ekki annann hafsent og maður spyr sig hvað er í gangi í klúbbnum núna? Er Couthinio að fara? Afhverju skrifar Can ekki undir nýjann samning?
Það eru alla vega margir kommentarar á Liverpool Echoo brjálaðir útaf aðgerðaleysi klúbbsins í glugganum .
Ég ætla samt að bíða og vona til loka gluggans með minn dóm,en þetta lýtur ekki vel út í augnablikinu og menn þurfa heldur betur að fara taka hendurnar upp úr vösonum,því að við vitum allir sem elskum þennann klúbb að það þarf að styrkja hópinn ef ekki á illa að fara eftir jól eins og á síðasta tímabili.
En ljósi punkturinn er að liðið er að spila vel í vináttu leikjonum svo maður vonar að tímabilið byrji með flugeldasýningu ,því ekki veitir af með fimm leiki á tveim fyrstu vikonum og tveir af þeim úrslitaleikir gegn sterku þýsku liði.
ég held ég verði að segja eins og sky og allir aðrir í heiminum.. liverpool verður í 6 sæti.. munu eiga nokkra flotta leiki inn á milli og sýna flotta takta en þeir hafa ekki breidd til að halda þetta út og þar af leiðandi komast aldrei ofar en 6 sætið.
Þetta er beisiklí orðið opinbert; Couthino til Barca á 100m+.
Þvílík vonbrigði, nánast ekki hægt að trúa þessu. Engin þarf að efast um að þetta er FSG sem hér ræður för því Klopp hefur aldrei samþykkt annað eins og þvílíkt.
Þetta er margháttað áfall; fyrir stuðningsmenn, leikmenn og stappar í rauninni geggjun næst. Liverpool hafði mikið fyrir að komast í umspil fyrir CL. Hvað er svo gert þegar að loks koma verðug verkefni fyrir besta leikmanninn? Hann er seldur! Á maður að gráta eða hlægja?
Punkstaðan er þannig að félagið fer veikara inn í tímabilið sem okkur hlakkaði svo til. Engin vandamál leyst en búið að skapa nýtt risastórt andlegt, félagslegt og leiklegt vandamál í staðinn.
Maður er hreinlega orðlaus yfir metnaðarleysinu.
Hvar er þetta “beisiklí” orðið opinbert Guderian? Enn sem komið er sé ég bara slúðri hent fram hér þar og alls staðar, en lítið um ábyggilega miðla.
Spyr eins og SSteinn: Hvar eru alvöru heimildir fyrir sölunni á Coutinho til Barca?
Sælir félagar
Þó það sé ef til vill orðum aukið hjá Guderian að það sé nánast staðreynd að Coutinho sé að verða leikmaður Baca þá eru nýjustu fréttir áhyggjuefni. Sagt er að Barca sé búið að bjóða 120mp í kútinn og ef til vill meira. Þá er erfitt að standa á móti.
Klopp veður elginn í einhverju bulli um að hópurinn sé tilbúinn í verkefni leiktíðarinnar og ekki þurfi neinu við að bæta. Þetta er auðvitað bull og ef þetta og fréttirnar af Kútnum eru réttar þá er Klopp upp að hálsi í drullupitti sem hann á enga leið upp úr. Vonum að þetta sé einhver leikur í stöðunni hjá Klopparanum og bara verið að blekkja í leikmannapókernum.
Það er nú þannig
YNWA
Jæja sagði hann og sagði ekki meira daginn þann, ágúst rétt byrjaður og mánaðarskammturinn af töflunum er að verða langt kominn þetta er á mörkum þess að vera skemmtilegt.
Tja, ég les bara spænsku blöðin þar sem þau fullyrða þetta. Þetta er miklu meira en orðrómur og þá má ekki gleyma því að Klopp vill ekki ræða Couthino en reynir að sannfæra, kannski mest sjálfan sig, um að allt sé í fína.
Skal éta úldinn sokk með gleði ef þetta er rangt hjá spænsku pressunni en því miður held ég að þetta sé svona.
Ég ætla nú ekkert að hengja mig í fyrstu setninguna hjá Guderian – einu miðlarnir sem eru að “staðfesta” þetta eru miðlar sem eru í eigu eða nátengdir Barcelona. Og þá meina ég nátengdir í þeim skilningi að þeir eru yfirleitt notaðir í áróðursskyni. Þessar falsfréttir eru svo teknar upp af öðrum misslæmum slúðurmiðlum.
Allt að einu er þó augljóst að Barcelona róir nú öllum árum í að sannfæra Coutinho um að koma. Þegar Barca/Real kallar, þá er ferð þú þangað því það eru hverfandi líkur á að þau muni reyna aftur við þig.
Guderian hittir hins vegar naglann rækilega á höfuðið, að mínu mati, þegar hann segir að ef Coutinho verður seldur þá er það ákvörðun sem kemur frá æðsta strumpnum hjá LFC.
Coutinho var, að mig minnir, keyptur á 8 milljónir punda. Að selja hann á 100 milljónir punda plús er bara pjúra business og alveg fáránlega góður business. Ef ég væri í stöðu Henry/FSG þá myndi ég taka þessu tilboði alla daga og tvisvar á sunnudegi.
Menn verða ekkert ríkir á því að gera lélega samninga. Menn verða ríkir á því að taka sénsa, finna verðlítil félög/leikmenn/vörur/þjónustu og selja þegar verðið er komið í hæstu hæðir.
Hins vegar, og hér kemur sérstaðan við fótboltann, þá er tvennt sem mælir þessu í móti.
Í fyrsta lagi þá eiga FSG ekki mikið “goodwill” inni hjá stuðningsmönnum LFC þessa dagana. Leikmannaglugginn í fyrra var góður en ekki nógu góður. Janúarglugginn hefði alveg eins getað verið lokaður, og hlutirnir ganga hægt (og illa, í tilviki Van Dijk) nú í sumar. Sala á besta leikmanni liðsins mun ekki bæta þeirra stöðu gagnvart stuðningsmönnum.
Og í öðru lagi þá selur þú ekki þinn besta leikmann korteri áður en tímabilið hefst, án þess að hafa nægan tíma til þess að tryggja þér nýjan og réttan leikmann í staðinn.
Augljóslega vill Klopp ekki selja Coutinho. Ef hann verður seldur þá er það í óþökk Klopp, það þarf enginn að segja mér annað.
Væri ég Klopp eða FSG, eða ætti að gefa þeim heilráð, þá væri það þetta: Segja við Coutinho að hann fái að fara næsta sumar. Gefa sig allan fyrir LFC nú í vetur, spila það vel að Barcelona/PSG/Real fá ekki að gleyma honum, og hann fái draumaskiptin sín næsta sumar. Allir vinna á því. Coutinho fer sem hetja, vel liðinn af stuðningsmönnum út um allan heim. LFC fær nægan tíma til að finna arftaka hans og FSG gerir ótrúlegan díl á þessum leikmanni.
Mig grunar að Klopp hafi sagt Coutinho eitthvað í þessa veru, þó ekki nema bara til að reyna að sannfæra hann um að Barcelona reyni aftur við hann eftir ár. Ég vona það allavega.
Það er samt augljóst að Coutinho fer frá LFC. Vonandi bara ekki fyrr en næsta sumar.
Ég bíð hins vegar ekki í það ef LFC ætlar að selja sinn hæfileikaríkasta leikmann og fylla skarð hans með miðlungsmanni frá lélegu liði West Ham. Þá getum við bara lokað þessari búllu strax og farið að rifja upp okkar eigin möntru um næsta tímabil …
Homer
Jamm Homer…vonandi er bara mánudagur eftir Verslunarmannahelgi í mér:-) Rétt að anda inn í þetta og vona það besta.
Þó svo að kúturinn fari þá er liðið sterkara en það var í fyrra vegna þess að ungu strákarnir eru ári eldri og líta frábærlega vel út í þessum æfingaleikjum. Ekki er það svo að ég vilji að hann fari en það er sagan að þegar Spánar-risarnir opna veskið þá er enginn leikmaður frá s-ameríku að standast þá freystingu að láta draum sinn rætast. Þetta er ójafn leikur fyrir ensku liðin því sjónvarpstekjurnar skiftast jafnt á milli liða í úrvalsdeildinni en Spánarrisarnir fá 60% af sjónvarpstekjunum, svo ósanngjarnt sem það er. Önnur ástæðan er að Spænska er útbreyttasta tungumál jarðar þó svo að það sé ekki flestir af mannkyninu sem talar hana.
Coutinho er samningsbundin LFC og það er ekkert release-ákvæði í samningnum. Ef Liverpool vill ekki selja þá nær það ekki lengra og þeir munu aldrei selja nema fá replacement sem Klopp metur í lagi. Flóknara er þetta ekki.
Ef Coutinho verður seldur þá er fullreynt með þessa eigendur. Hef alltaf gefið þeim séns, enda hafa þeir gert ýmislegt gott, en með þá er Liverpool selling club, og við munum aldrei ná toppliðunum.
Coutinho verður seldur og ekkert keypt í staðin og Klopp bara rosalega glaður með hópinn. Veit ekki með ykkur púllarar en þetta er ekki að leggjast vel í mig og eitthvað er ekki í lagi.
Ég held að við ættum öll að anda rólega og missa okkur ekki í einhverja móðursýki útaf einhverjum algjörlega óstaðfestum fréttum, það er svo mikið bull í gangi að það er vonlaust að segja til um hvaða fréttir eru réttar. Samkvæmt Skysport (veit þó ekki hvað er að marka þessa frétt) þá segja þeir eftir heimildamönnum sem eru nánir Coutinho að þó svo að hann hefði áhuga á að fara til Barcelona þá myndi aldrei þrýsta á sölu frá Liverpool og að hann muni einungis fara ef Liverpool samþykkir tilboð frá Barcelona.
Það hefur komið fram á Liverpoolecho að Liverpool hafi fengið eitt tilboð fyrir 18 dögum í Coutinho og því hafi verið hafnað 45 mínútum eftir að það barst og að síðan hafi ekkert meira komið frá Barcelona. Mér finnst því allar líkur á að þær fréttir sem fullyrða það að búið sé að ganga frá öllu varðandi vistaskipti Coutinho séu mjög óáreiðanlegar, en auðvitað er maður hræddur að Barcelona sé ekki búið að segja sitt síðasta í þessum máli.
En ég hef ennþá fulla trú á Klopp og eftir að hafa séð æfingaleikjana á undirbúningstímabilinu þá hefur trú mín á honum bara vaxið og þó svo að fjölmiðlar séu að lesa þetta og hitt úr ummælum hans á blaðamannafundum þá er ég viss um að hann og hans menn séu en á fullu að vinna í því að bæta góðum miðverði í hópinn, vonandi VVD.
Ef við höldum Coutinho og Can og náum að bæta við okkur einum topp miðverði (VVD) þá held ég að þegar að upp er staðið að það megi flokka þennan sumarglugga sem mjög góðan. Og þó svo að við höfum ekki bætt við okkur mörgum mönnum þá tel ég að hópurinn sé þó nokkuð breiðari og dýpri heldur en í fyrra því það er svo greinilegt að það er búið að vinna mikið með þá sem fyrir eru í liðinu og liðið sem heild er greinilega að taka framförum. En hvort það dugi til… það verður að koma í ljós.
Þetta eru erfiðir dagar… segjum að Kúturinn fari á 120m, mun þá Klopp koma samstundis með álíka tilboð í Keita? Við getum ekki misst þennan leikmann án þess að fá annan Heimsklassa leikmann í staðinn.
Er það rétt skilið hjá mér að VVD vilji ekki fara fram á sölu því þá tapar hann peningum á því?
Samkvæmt SKY hefur Virgil van Dijk hands in transfer request
Það er ekki af ástæðulausu sem RB Leipzig neita öllum boðum í Keita þegar meistaradeildinn er handan við hornið með allt sitt gull. Sama gildir um Couthino, sama hvað Barca bíður þá eru meiri peningar í því að ná árangri í meistaradeild og ensku úrvarlsdeildinni. Samkvæmt mínum bestu upplýsingum fékk Chelskí rúmlega 150 milljónir punda fyrir að vinna deildina 2017. Svo voru Juve og Real að fá yfir 100 milljónir evra fyrir meistaradeildina. Á næsta ári mun sú upphæð bara hækka.
Með betri árangri nærðu betri leikmönnum og betri auglýsingarsamningum. Þess vegna er lykillinn að góðu tímabili að halda okkar besta leikmanni sama hvaða peningar eru í boði.
Eru menn nokkuð búnir að gleyma Suarez sem vildi fara til Barca en Liverpool neitaði tilboði í hann og síðan átti kappinn sitt besta tímabil í treyju LFC. Hann fór að vísu ári síðar sem eru sennilega mestu mistök sem LFC hefur gert á leikmannamarkaðnum í mörg ár.
Má lesa tilkynninguna frá van Dijk á Liverpool Echo
Flott yfirlýsing hjá VvD
http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/transfer-news/liverpool-transfer-news-van-dijk-13444407
þetta ætti að opna okkar möguleika, þeas ef Southampton opna fyrir boð í hann ætti Liverpool að vera óhætt að bjóða í hann
Koma svo kaupa Van Djik væri grjóthart statement að fá hann!
Nokkrir punktar
1. Ef LFC vildu ekki Coutinho dílinn á 70 milljónir þá er ólíklegt að þeir taki hann bara af því að smá klinki er bætt við — strategían er að komast áfram og fá peninga fyrir árangur, auglýsingar, vörusölu.
2. Fréttir frá Spáni og Brasilíu um að Coutinho hafi áhuga eru vegna þess að hann og agentinn hans eru ekki fífl. Auðvitað segir hann ekki nei við Barca. Hann kennir LFC um og samningum, og heldur þannig opnu á framtíðina ef LFC dettur úr UCL.
3. Ef Couthinho er seldur er það gegn Klopp. Sem þýðir að FSG missir Klopp líka, fljótt eða eftir tímabiliið. Klopp er ekki í hinni fögru Liverpool borg sem túristi.
4. Ástæðan fyrir að VvD og Keyta dílarnir eru í frosti (sem og allir aðrir dílar með LFC) er einfaldlega að það vill enginn selja LFC ef þeir halda að liðið sé að fara að fá 100 milljónir í vasann. Ef þú ert Southampton og heldur að Coutinho sé að fara, af hverju ekki að bíða og fá auka 5-10 milljónir fyrir VvD, þar sem LFC verða algerlega flush with cash? Þetta þýðir að við gætum verið að sjá díla í lok gluggans, þegar ljóst er að Coutinho er ekkert á leiðinni frá liðinu.
5. Rétt fyrir jól í fyrra var LFC við efstu sætin í deildinni og hafði barað tapað fyrir botnrútuliðum. Vandamálin þá voru rosalega margir leikir í janúar, og bæði Coutinho og Mane frá (og einhverjir fleiri meiddir). Klopp og liðið gerðu mistök að kaupa ekkert í janúar glugganum–en það má alveg sjá fyrir sér að kannski sé Klopp tilbúinn að fara með liðið inní tímabilið og kaupa það sem vantar í janúar.
6. Þar sem LFC var ekki í UCL í fyrra var keyrt af mikilli hörku á að vinna einhverja titla og A-liðið var notað í einhverja smábikara. Það þarf ekki lengur ef liðið er vel mannað og heldur sér í UCL og er í toppbáruttuni í EPL.
7. Jákvæðnin! Frábært undirbúningstímabil. Er ekki að fara að koma laugardagur?
Það kemur í ljós eftir rúma viku hvort Coutinho se liklegur að fara eða ekki, þar sem Barcelona kaupa hann ekki ef hann spilar í CL í næstu viku:)
Mínar pælingar eru á þá leið að Klopp hafi sagst vera ánægður með miðverðina sína til þess að pressa á að Van Djik setji fram transfer request….sem virðist hafa gengið eftir 2 dögum síðar.
Treystum Klopp, mér finnst þetta hafa verið snilldar (póker) leikur hjá honum og fyndið að sjá allar missa sig yfir þessari yfirlýsingu. Allan daginn var hann að leika póker leik með þessu og það kom á daginn að Van Djik varð skelkaður og henti beint í transfer request.
Gó gó herr Klopp, kláraðu bara pókerinn og hirðum svo allt gullið og bikarana í kjölfarið 🙂
Það kæmi mér mjög á óvart að Coutinho yrði seldur. Yfirlýsingar Jurgen Klopp hafa verið mjög aðdráttarlausar um að hann verði kyrr.
Það er enn margt í veginum fyrir því að Van dijk komi til Liverpool. Það eru engar formlegar viðræður eru hafnar um kaup á honum og síðast þegar ég vissi þá vildi FSG að Southamton gæfi grænt ljós á viðræður og mér sýnist það ekkert sjálfgefið að Southamton geri það út af þeirri einföldu ástæðu hvað Liverpool hefur keypt marga Souhamtonmenn undanfarin ár.