Liverpool liðið er augljóslega í uppbyggingarferli með tilheyrandi vaxtaverkjum. Klopp getur ekki byggt sín lið upp á sama hátt og Guardiola og Mourinho sem fá nánast ótakmörkuð fjárráð og eins og markaðurinn er í dag er ekkert víst að það takist að byggja upp lið sem stenst Man City snúning. Klopp er engu að síður að gera töluvert meira rétt með þennan hóp heldur en rangt og hefur í höndunum hóp sem getur klárlega bætt sig töluvert og við erum að sjá það nánast í hverri viku.
Eitt það jákvæðasta við byrjun þessa tímabils eru leikir Liverpool gegn liðunum í neðri helmingi deildarinnar. Liverpool er ennþá eitt furðulegasta lið deildarinnar en liðið hefur aðeins náð jafnvægi m.v. síðasta tímabil þegar liðið tapaði ekki leik gegn neinu af toppliðunum en hikstaði illa gegn neðstu liðunum.
Á síðasta tímabili náði Liverpool í 41 stig gegn liðunum í neðri helmingi deildarinnar eða 68% Það sem af er þessu tímabili hefur Liverpool náð í 23 stig af 27 mögulegum eða 85% Það er öllu nær því sem eðlilegt ætti að teljast og myndi gefa 51 stig yfir allt tímabilið.
Það er þó ekki bara stigasöfnunin í þessum leikjum sem gefur góð fyrirheit heldur einnig frammistaðan og yfirburðirnir í öllum þessum leikjum.
Liverpool hefur unnið sex af síðustu sjö leikjum gegn þessum liðum með þremur mörkum eða meira. Töpuðu stigin eru gegn W.B.A og Newcastle sem voru vissulega ekki góðir leikir hjá okkar mönnum en yfirburðirnir nánast algerir. Miklu meiri en við sáum oft á tíðum síðasta vetur og liðið er að skapa sér fleiri dauðafæri í þessum leikjum núna en undanfarin ár. Liverpool hefur spilað átta leikjum meira í vetur (Meistaradeild) sem gerir bætta stigasöfnun í þessum leikjum nú ennþá áhugaverðari.
Á móti er Liverpool ekki að fara taplaust í gegnum leikina gegn efstu sex liðunum eins og í fyrra. Enn sem komið er hefur liðið þó aðeins tapað tveimur stigum m.v. sömu leiki í fyrra. Spurs og City leikirnir enduðu jafntefli í fyrra sem er eini munurinn.
Stigasöfnunin það sem af er þessu tímabili er ekki alveg nógu góð samt, munar þar sérstaklega illa um jafnteflin tvö í síðustu viku. Liverpool getur farið í 37 stig mest eftir fyrri umferð tímabilsins sem eru 74 stig ef seinni umferðin yrði spegilmynd þeirrar fyrri (þurfti 76 stig til að ná í Meistaradeild í fyrra).
Liverpool endaði fyrri umferðina í fyrra með 43 stig og var að spila frábæran fótbolta fyrstu mánuðina. Hisvegar er Liverpool núna með tveimur stigum meira en úr sömu (eða sambærilegum) leikjum á síðasta tímabili. Leikjaprógrammið var erfitt í byrjun tímabilsins og Meistaradeildin hefur klárlega tekið sinn toll. Eins tók það liðið nokkrar vikur að finna réttan takt og leikkerfi sem hentar.
Eftir hörmulegan leik liðsins gegn Tottenham í níundu umferð hefur verið mjög góður stígandi í liðinu og virðist Klopp hafa náði ágætum takti með þennan hóp. Mögulega gætum við séð liðið bæta sig töluvert eftir áramót er leikjadagskráin verður ekki eins snarbiluð og hún hefur verið það sem af er móti.
Liverpool fékk 33 stig í seinni umferðinni síðasta vetur og það bendir mjög margt til þess að þetta lið geti bætt þá stigasöfnun umtalsvert í vetur.
Það sem af er tímabili hefur Coutinho spilað 53% af leiktíma liðsins í deildarleikjum. Mané 47% Þeir hafa verið mikið frá og við sjáum það þegar þeir spila hvaða máli það skiptir.
Varnarlínan hefur nánast aldrei spilað meira en einn leik saman og raunar ná þeir sjaldanst að spila allann leikinn til enda. Clyne hefur ekki ennþá mætt á æfingu það sem af er móti. Matip hefur ekki verið með undanfarið og hefur núna spilað 72% af deildarleikjunum. Lovren er langt frá því að vera fastur punktur heldur og hefur spilað ennþá minna í deildinni. Í einum leiknum voru tveir miðjumenn að spila í vörninni saman.
Moreno er núna búinn að bætast við meiðslalistann og það á versta tíma. Það er í raun ótrúlegt hvernig tímabilið hefur þróast eftir því sem á það líður miðað við skakkaföll í vörninni. Liðið hefur fengið á sig fjögur mörk í síðustu níu deildarleikjum og þrjú þeirra eru samansafn af mestu óheppni og ósanngirni sem við komum líklega til með að sjá í vetur.
Fyrir utan þrjá leiki í byrjun tímabilsins (City, Spurs og Watford) hefur Liverpool ekki verið að fá á sig mikið af mörkum en þau hafa talið full mikið sem liðið fær á sig.
Það er í raun ekki vörn Liverpool sem hefur verið mesta vesenið það sem af er tímabili, miðjan hefur átt í hvað mestu basli og þá ekki síst í þeim leikjum sem erfiðlega hefur gengið að brjóta andstæðinginn niður.
Stór partur af ástæðu þessara vandræða felst líklega í því hvernig liðið kom inn í mótið. Það tókst ekki að landa Naby Keita sem væri algjör yfirburðarmaður í núverndi hópi miðjumanna. Coutinho var meiddur (segjum það) í byrjun tímabilsins og hefur eins og áður segir aðeins spilað helming leikja Liverpool og alls ekki alla á miðjunni. Ox-Chamberlain var ekki treyst strax í djúpu laugina og Lallana hefur ekki ennþá byrjað leik. Hann var líklega okkar mikilvægasti miðjumaður úr því Keita kom ekki.
Þessir þrír eru allir mun betri sóknarlega heldur en fjórmenningarnir Henderson, Can, Wijnaldum og Milner. Það er því eins og Liverpool hafi keypt nýjan leikmann að fá þá alla inn á svo gott sem sama tíma. Coutinho er að komast á fullt skrið. Reyndar ekki alltaf á miðjunni en samt í allt öðru hlutverki en hann var á síðasta tímabili og miklu meira í boltanum. Lallana er farinn að fá mínútur og Ox-Chamberlain hefur verið maður leiksins báða leikina sem hann hefur byrjað undanfarið á miðjunni. Hann virðist vera finna sig vel hjá Liverpool eftir erfiða byrjun og er að öllum líkindum að spila sig inn í byrjunarliðsplön Klopp með frammistöðum sínum undanfarið, sérstaklega í næsta leik sem verður stærri í hans huga en annarra á vellinum af augljósum ástæðum.
Frammi er svo Salah nú þegar kominn í 20 mörk samtals í öllum keppnum og bæði Firmino og Coutinho gætu náð þeim áfanga einnig. Mané eigum við svo gott sem inni.
10 fyrstu leikir ársins
Fyrir ári síðan var Liverpool ennþá í deildarbikarnum, liðið spilaði gegn Leeds undir lok nóvember sem var ekkert mál enda engin Meistaradeild að trufla þá en það var algjör dauði að komast í undanúrslitaleikina í janúar.
Deildarbirkarleikirnir í þessari viku og hvað þá í janúar eru ástæða þess að ég var alls ekkert svekktur að sjá Liverpool falla úr leik í þessari keppni. Segi ekki að ég hafi fagnað úrslitunum gegn Leicester en það tók mjög skamman tíma að jafna sig.
Frá 1.janúar til 4.febrúar 2017 spilaði Liverpool 10 leiki og vann aðeins einn þeirra, það var replay leikur gegn Plymouth eftir að hafa gert jafntefli við þá á Anfield. Hrein tímasóun því liðið hafði ekki nokkra einustu orku í Wolves sem vann á Anfield seinna í þeim mánuði. Á þessum kafla töpuðust (8)stig gegn Sunderland og Hull sem bæði féllu og Swansea sem var í fallsæti þegar leikurinn fór fram. Í villtustu martröðum gat þetta ekki spilast neitt mikið verr.
Þarna eru 2-4 leikir í janúar 2017 sem Liverpool þarf ekki að spila í janúar 2018. Það er pottþétt að Liverpool verður ekki í undanúrslitum deildarbikarsins og vonandi þarf ekki aukaleik gegn Everton í bikarnum. Ef sá leikur tapast kemur fjórði leikurinn sem vantar miðað við janúar 2017.
Fyrir þessa 10 leiki var Liverpool í öðru sæti með 43.stig, sex stigum á eftir Chelsea. Eftir tapið gegn Hull 4.febrúar var Liverpool í 5.sæti 13 stigum á eftir Chelsea.
Betri staða 2018
Fyrir utan minna leikjaálag í janúar lítur þetta mikið betur út einnig hvað hópinn varðar. Það er engin Afríkukeppni þannig að Mané og Matip verða partur af hópnum. Matip sem fór ekki einu sinni í Afríkukeppnina spilaði ekki United leikinn vegna þess að… ég hreinlega veit ekki afhverju! Verð fjúkandi bara við að hugsa út í þetta.
Mané var okkar besti leikmaður í fyrra og að missa hann var svakalegt högg. Það sem verra var er að Coutinho datt í meiðsli og það endanlega drap sóknarleikinn. Auðvitað ráðum við ekki við meiðsli en það munar rosalega miklu að halda þeim að þessu sinni og hvað þá ef við bætum við Salah og Ox-Chamberlain sem gjörbreyta hópnum m.v. síðasta vetur.
Allt þetta án þess að spá neitt í það hvort Liverpool bæti við hópinn í janúar. Það er kannski ekki mjög líklegt en kannski líklegra en oftast áður undanfarin ár.
Núna fyrir áramót hefur Liverpool spilað átta stóra Meistaradeildarleiki sem ekki voru á dagskrá síðasta vetur og líklega hefur það tekið sinn toll og komið niður á stigasöfnun. Þetta hefur ekkert verið spilað á neinu varaliði. Meistaradeildin hefur eiginlega alltaf einhver áhrif á stigasöfnun, sérstaklega á lið sem hafa ekki verið í henni lengi/reglulega. Liverpool var t.a.m. ekki í neinni Evrópukeppni í fyrra en býr vonandi af reynslu sinni úr Europa League fyrir tveimur árum.
Vonandi verða Meistaradeildarleikirnir sem flestir eftir áramót. Þeir verða engu að síður aldrei fleiri en sjö og sá sjöundi er eftir tímabilið. Leikjaálagið verður ekki eins mikið eftir áramót og raðast vonandi ekki eins illa niður og það gerði á síðasta tímabili.
Liverpool er vonandi að endurheimta töluvert af leikmönnum á næstu vikum og eins skilar mjög mikil rótering hópsins sér vonandi í mun færri alvarlegum meiðslum lykilmanna en við höfum upplifað undanfarin ár.
Klopp virðist hafa fundið leikkerfi sem hentar liðinu, varnarleikur liðsins er stökkbreyttur fyrir vikið og klárlega eitthvað til að byggja ofan á í seinni umferð mótsins.
34 eða 37 stig eftir fyrri umferðina er alls ekki nógu gott en vonandi er innistaða fyrir töluverða bætingu í seinni umferðinni, það þyrfti ekki mjög mikið meira til að ná Meistaradeildarsæti.
Flott samantekt. Ég hef samt þá tilfinningu að liðið sé betur stemt fyrir betri árangri á seinni hlutanum núna en í fyrra. Þá sérstaklega að sú deifð sem hrjáði liðið jan-feb í fyrra, verði ekki til staðar núna. Munar um minna. En eins og alltaf, þá er þetta í okkar höndum, en eins og þetta lítur út þá er staðan ekkert slæm, eiginlega bara góð. Lallana að koma inn, allir utan Clyne nokkuð sprækir, og vonandi verða 7-9-13 (knock on wood). Koma svo og gefa jákvæða strauma.
YNWA
Miðsvetrarveikin mætti missa sig þetta tímabilið.
En staðan er auðvitað ekki nógu góð.
Of langt í efstu sætin og staða fjórða sætisins allt of viðkvæmt.
En það er ágætlega bjart framundan. Einhver lið munu síga á næstu 6 vikum en við höfum alla möguleika til að rísa. Breiddin miklu meiri en í fyrra þrátt fyrir allt.
Kannski kemur líka rifa á gluggann með ferskan blæ.
Spennandi tímar uppgangs.
YNWA
Áhugaverð grein um Man City og fyrirætlanir þeirra má lesa hér. https://www.theguardian.com/news/2017/dec/15/manchester-city-football-group-ferran-soriano?CMP=share_btn_fb
Þessi grein sýnir kannski betur en ýmislegt annað hvaða fjall Liverpool þarf að klífa í samkeppninni við peningafélögin.
Manchester City á í dag sex félög í fjórum heimsálfum sem hafa það hlutverk að sópa markaðinn í leit að bestu leikmönnunum. Í dag eru 240 leikmenn á samningi við eigendur City og er hugmyndin að þeir bestu rati til móðurskipsins í Manchester utan við “fair play” og aðra viðleitni til að jafna samkeppnina.
Þetta viðskiptalíkan hefur verið byggt upp á aðeins fjórum árum og hugmyndin er að Man City verði það innan fótboltans sem Google er meðal leitarvéla eða Facebook meðal samfélagsmiðla.
Fyrir utan takmarkalausa peninga eru engir aukvisar í viðskiptum þarna á ferð enda höfundur þessa módels Ferran Soriano sá sem var eitt sinn fjármálastjóri Barcelona. Soriano vann t.d. með Guardiola þegar Barca vann sex titla árið 2009. Eigendur Man City, þeir Mansouri og Mubarak, hafa að því virðist takmarkalaus fjárráð. Þegar City vann PL í fyrsta sinn í áratugi 2012 höfðu þeir sett milljarð punda í félagið.
Soriano þykir skilja öðrum mönnum betur að viðskipti framtíðarinnar munu ekki síst snúast um sterk vörumerki og þar eru fótboltafélög vanýtt auðlind að hans mati. Soriano telur að fótbolti verði innan skamms langstærsta íþróttagrein veraldar í öllum löndum (ekki síst Indlandi og Kína) og sterkasta vörumerkið innan boltans verður Man City sama hvað það kostar!
Vona að mér fyrirgefist að ræða annað lið hér á þessari síðu en þróunin í Manchester skiptir okkur miklu máli. Held samt að ef einhver ræður við það verkefni að halda í við peningafélögin sé það Klopp.
Talandi um Man City, þá er þetta ekki síður áhugaverð grein um eigendur þeirra https://medium.com/@NcGeehan/the-men-behind-man-city-a-documentary-not-coming-soon-to-a-cinema-near-you-14bc8e393e06
Vel skuggalegt.
http://www.fotbolti.net/news/19-12-2017/telur-ad-mane-se-ofundsjukur-ut-i-salah#ixzz51hqWHzz3
Rosalega virðist allir vera helteknir útaf þessu máli, eða hvort það ætti að kalla þetta mál. Þykjast allir vita hvernig Mané líður út af þessu atviki þegar hann sendi boltann ekki á Salah? Í svona aðstöðu þarftu að taka ákvörðun á nanósekundu og hann ákvað að skjóta sjálfur, skoraði ekki, shit happens. Hefði hann sett hann væri öllum alveg sama..
Leikinn á undan vorum við að tala um hversu gaman það væri að sjá sóknarlínu Liverpool og hversu óeigingjörn hún væri. Fáránlegt að ofurgreina þetta eina atvik svona rosalega út af því þetta var svona dýrt í leiknum. Flott að sjá það úr sófanum að hann átti augljóslega að senda boltann en á móti var Mané sjálfur í góðu færi líka.
Frábær stígandi í liði Liverpool. Kaup Klopp hafa verið frábær hingað til, sérhver gluggi hefur bætt hópinn umtalsvert. Það verður engin breyting á í næsta sumarglugga. Framtíðinni er ofsabjört með Klopp við stjórnvölin, og ofsaskemmtileg. Það er nánast svindl hvað það er gaman að horfa á Liverpool þessa dagana. Eftir að Suarez fór taldi ég að það væru áratugir þangað til að það væri álíka gaman að horfa á Liverpool spila og lokatímabilið með Suarez innanborðs. Liðið hans Klopp er komið annsi nálægt því nú þegar.
En strákar og stelpur, munið þið ekki eftir Leicester, sem unnu deildina í fyrra 🙂 Ekki vaða þeir í peningum eins og oil city. Við skulum bara vona að peningar kaupi alltaf færri og færri titla , ég veit, mikil óskhyggja 🙂
Sælir félagar.
Ég hef núna um nokkurt skeið verið með spekúlasjón á borð við þessa í mallanum á mér. Einar kemst að vanda langt með að segja það sem maður vill segja. En nokkrar hugleiðingar eftir hálft tímabil:
Tímabilið hefur gengið nokkuð vel ef allt er tekið með. Eins og Einar lýsir þá er ekkert einfalt að spila líka í meistaradeildinni og það er ástæða mikilla breytinga milli leikja. Breytingarnar auka svo við óstöðugleika liðsins, sem var töluverður fyrir.
Markvarslan er enn vandamál. Simon Mignolet er búinn að verja 28 skot og fá á sig 20 mörk og er í 19. sæti yfir varin skot í deildinni. Í fyrra var hann í 20. sæti með 53 varin skot. Hann er því enn á svipuðum stað. Ég er þó ekki frá því að hann hafi aðeins bætt sig í teignum. Ég sagði hér á síðunni í haust að hann myndi duga ef stefna ætti á fjórða sætið en ef við ætlum okkur hærra þá þarf betri markmann. Markmann sem ver bolta sem kosta okkur stig, einhvern sem tekur þetta extra. Mignolet gerir það svosem stundum en ekki nógu oft.
Varnarlínan sem heild er uppfull af tifandi tímasprengjum. Clyne-lausir í hægri bakvarðarstöðunni er treyst á tvo unga og bráðefnilega varnarmenn. Þeir eru þó skotmörk andstæðinganna og hafa átt erfitt í fjölmörgum leikjum. Ekkert bólar á Clyne. Miðvarðarstöðurnar þarf ekki að fjölyrða um, Klavan og Lovren eru báðir mistækir þótt þeir geti komist í gegnum nokkra leiki án mistaka. Niðurstaðan verður samt sem áður sú að við fáum of mikið af mörkum á okkur. Robertson hefur síðan komið mjög sterkur inn í vinstri bakvörðinn og Moreno svosem líka. Moreno sýndi hins vegar á móti Sevilla að hann á enn tiil að missa hausinn þótt það gerist æ sjaldnar. Vonandi nær hann smátt og smátt að útrýma því úr leik sínum. Með þá tvo í stöðugum framförum og samkeppni ættum við að vera ágætlega settir þar um sinn.
Þegar á heildina er litið eru auðvitað ekkert nýjar fréttir í varnarleik liðsins. Það lekur mörkum sem kosta óþarfa stig þegar liðið er miklu betra en andstæðingurinn. Þetta gerist enn, þó sjaldnar en í fyrra.
Miðjan hefur verið nokkuð milli tannanna á fólki, þá sérstaklega fyrirliðinn Jordan Henderson. Ég gæti best trúað að hann eigi enn í einhverjum meiðslum. Hann er fyrirliði liðsins og prímusmótor á góðum degi. Hann hefur átt verulega erfitt í vetur og það er vel mögulegt að hann þoli ekki þetta mikla leikjaálag sem hefur verið í gangi. Hann er örugglega með einna flestar mínútur á miðjunni. Spurning hvort hann sé nógu góður í þetta hlutverk og ég hef mínar efasemdir. Þá kemur að spekúlasjón um upplegg Jurgen Klopp um miðjuna.
Upp á síðkastið hef ég tekið eftir því að Henderson brunar út úr miðjupakkanum þegar andstæðingarnir eru með boltann og byrjar mjög þunga pressu. Venjulegur djúpur miðjumaður myndi alltaf bíða fyrir framan vörnina, spara sér þennan sprett og hugsa meira um staðsetningu. Henderson gerir þetta til að setja í gang pressu frá liðsfélögum sínum en á móti kemur að hann skilur eftir drjúgt pláss fyrir aftan sig. Ég hef séð Wijnaldum, Can og Chamberlain droppa þegar hann gerir þetta og ég geri ráð fyrir því að þetta sé með ráðum gert og Klopp vilji þetta. Sem færir mig að annarri hugsun sem hefur alveg poppað upp áður – og það er hvort Klopp vilji yfirleitt þennan djúpa miðjumann sem flesta dreymir um. Mér sýnist ekki því trekk í trekk sér maður róteringu á miðjumönnunum líkt og sóknarmennirnir – þótt auðvitað sé það annars staðar á vellinum. Klopp virðist þannig vilja að menn séu ekki fastir í stöðum heldur lesi leikinn betur og taki sér stöðu þar sem þarf – hvort sem er varnar- eða sóknarlega.
Miðjuspilið hefur að öðru leyti haldið mjög vel og í nánast öllum leikjum hefur liðið verið meira með boltann og haldið aftur af andstæðingum. Nema í lok leikja, þá er allt of algengt að menn missi einhvern veginn hausinn og fái á sig fáránlega pressu og mörk, sem er algjör óþarfi. Hvort þetta sé þreyta eða eitthvað andlegt þá þarf Klopp að finna lausn á þessu sem fyrst. Mögulega kemur þessi lausn í formi Lallana og Oxlade Chamberlain, tveir mjög kraftmiklir og teknískir leikmenn sem geta fundið lausnir sem hinir miðjumennirnir geta ekki. Ég ætla þó ekki að gera lítið úr frammistöðu Can og Wijnaldum, þeir hafa verið mjög sterkir þótt þeir hafi gert sína feila.
Nóg að sinni, það þarf lítið að ræða sóknina því hún hefur nánast verið fullkomin. Líkt og Einar segir þá hafa oftar fundist lausnir gegn rútubílapökkunum heldur en í fyrra og árangurinn gegn slakari liðunum er betri. Varðandi sterkari liðin þá hafa leikirnir við Spurs og Man City einkennst af einhvers konar skringilegheitum sem liðið náði ekki að jafna sig á, enda kannski of seint að bregðast við gegn svona liðum þegar liðið er komið 0-2 undir.
Nóg að sinni, takk fyrir góðan pistil og ég hlakka til podcasts vikunnar.