Varnartengiliðurinn í útrýmingarhættu?

Þessi áratugur hefur að mestu verið hreint út sagt afleitur fyrir varnartengiliði Liverpool, eins og áratugurinn þar á undan var frábær. Líklega er ekki tilviljun að varnarleikurinn hefur verið vandamál allan þennan tíma með tilheyrandi vangaveltum um miðverði og markmenn.

Didi Hamann og Javier Mascherano skiptu nánast með sér heilum áratug og þessi staða á vellinum var lítið sem ekkert til umræðu. Vægi varnatengiliðsins minkaði mjög mikið við brotthvarf Mascherano sumarið 2010 og varð að engu haustið 2011 er Lucas Leiva meiddist.

Hér er lauslega raðað saman þeim sem hafa spilað aftast á miðjunni heilt yfir hvert og eitt tímabil síðan Benitez hætti.

Lucas Leiva var árið 2010 klárlega efni í að taka við keflinu af Mascherano og stóð vel undir því þar til hann meiddist. Hodgson og Dalglish voru reyndar meira að vinna með tveggja manna miðju en Lucas bar af í annars afleitu liði tímabilið 2010/11 og var valinn leikmaður ársins. Poulsen sem átti að fylla skarð Mascherano sem var jafn fáránleg hugmynd þá og hún hljómar í dag og spilaði hann á endanum minna en Jay Spearing.

Það sýnir ágætlega hversu mikið áfall meiðsli Lucas voru fyrir Dalglish að Jay Spearing spilaði
38% af mótinu. Gerrard gat ekki leyst Lucas af enda svipað mikið meiddur þetta tímabil. Henderson var hafður á kantinum og guð má vita hvað Charlie Adam var að gera á miðjunni. Erfitt tímabil og Lucas kom aldrei samur til baka og Liverpool hefur aldrei gert tilraun til að fylla hans skarð. Maður talar um að skarð Mascherano hafi aldrei verið fyllt en þó ekki væri nema fyllt upp í það skarð sem 2011 útgáfan af Lucas skildi eftir sig værum við að bæta liðið.

Brendan Rodgers gerði ekkert til að vernda vörnina frá miðsvæðinu. Joe Allen kom með honum frá Swansea og félagið fékk Nuri Sahin á láni frá Real Madríd. Sahin hafði stjórnað miðju Klopp hjá Dortmund en átti ekki glætu hjá Rodgers. Allen meiddist eftir 2-3 mánuði og Lucas var skugginn af sjálfum sér þegar hann kom til baka. Liðið lak 43 mörkum.

Rodgers tók ekki á vandanum sumarið 2013 heldur virðist hann hafa ákveðið að sleppa því bara að spila vörn. Liðið skoraði vissulega 101 mark en fékk á sig 50 mörk. Lucas spilaði aftast á miðjunni framan af en Gerrard var færður í þessa stöðu er leið á tímabilið. Hann var frábær sóknarlega með Henderson og Coutinho með sér en varnarlega var þessi miðja ekki burðug. Það sem var verra er að varnarmenn liðsins gátu lítið sem ekkert varnarlega heldur.

Rodgers lagði áfram upp með Gerrard sem aftasta mann á miðjunni haustið 2014 en flest værum við til í að gleyma því tímabili. Lucas spilaði einnig nokkra leiki aftast á miðjunni en var farin að leysa af í miðverði af og til einnig. Liðið lak 48 mörkum sem er allt of mikið, sérstaklega í ljósi þess að þeir skoruðu bara 52 mörk eða 49 mörkum minna en árið áður!

Gerrard hætti um vorið 2015 og Milner kom í staðin, leikmaður sem hefur aldrei spilað sem varnartengiliður. Lucas var notaður nánast eingöngu sem miðvörður þegar hann var í liðinu og því má segja að engin eiginlegur varnartengiliður hafi verið í hópnum þegar Klopp tók við liðinu. Henderson og Allen voru meiddir mest allt tímabilið sem takmarkaði möguleika Klopp enn frekar. Varnarleikurinn var enn á ný í steik og liðið lak aftur 50 mörkum í deildinni.

Enduruppbygging Jurgen Klopp byrjaði eiginlega á öfugum enda í hans fyrsta sumarglugga. Vissulega komu Matip og Klavan á samtals 4m en áherslan var mun meiri á endurnýjun sóknarlega. Það var alveg viðbúið að hann myndi ekki smíða nýtt lið í einum glugga en eftir á að hyggja var ekki nóg fyrir miðsvæðið að skipta Joe Allen út fyrir Wijnaldum. Enn á ný var lagt upp í mót með engan varnartengilið og hafa Can og Henderson hvað mest verið að skiptast á að spila sem aftasti miðjumaður Liverpool. Varnarlínan hefur til þessa verið mjög svipað illa berskjölduð og hún var undir stjórn Rodgers. Liðið sem heild hefur samt verið að batna mjög mikið undir stjórn Klopp og markatalan í fyrra var sú langbesta síðan 2014. Vörnin lak 42 mörkum sem er smá framför en sóknin var að skora 78 mörk sem dregur úr vægi varnarmistaka.

Vonbrigðin leyndu sér ekki hjá stuðningsmönnum Liverpool þegar leikmannaglugganum lokaði í sumar. Enn eina ferðina var ekkert gert til þess að laga hryggsúluna hvað varnarleik varðar. Þetta hefur líka kostað Liverpool liðið í samræmi við það, nú þegar er búið að leka 28 mörkum eftir aðeins 23 umferðir sem gerir 1,2 mörk að meðaltali í leik. Þetta er rosalega vont en kannski aðeins villandi, minnir mikið á tímabilið 2013/14 satt að segja. Inni í þessu eru tveir mjög vondir skellir sem telja 9 mörk. Tvö 3-3 jafntefli og einn 4-3 sigur sem telja önnur níu mörk. Þannig að 18 af þessum mörkum komu í aðeins fimm leikjum og Liverpool tapaði bara tveimur þessara leikja. Hin mörkin tíu hafa hinsvegar kostað allt of mikið og flest þeirra hafa verið vegna afleits varnarleiks.

Framtíðin
Það verður fróðlegt að sjá hvað Liverpool gerir á markaðnum næsta sumar. Eins og staðan er núna er ekkert í kortunum sem bendir til þess að Klopp hafi áhuga á að fá alvöru varnartengilið í hópinn. Það er vitað að Naby Keita kemur í síðasta lagi næsta sumar, hann er sagður vera á við tvö á miðjunni hvað vinnusemi varðar en hann er ekki varnartengiliður. Það var útbreiddur misskilningur að þetta væri svona Kanté týpa en hann er það ekki. Keita virkar hinsvegar mjög svipaður þeim miðjumönnum sem maður man eftir úr Dortmund liði Klopp. Framtíð Emre Can er áfram í lausu lofti svo þar gæti myndast pláss fyrir varnartengilið. Eins er Milner að komast á aldur og ljóst að hann á ekki mjög mikið eftir á þessu leveli sem miðjumaður. Klopp notaði hann frekar sem bakvörð í fyrra og hann er í besta falli Squad leikmaður núna.

Miðað við þá leikmenn sem Liverpool er orðað við sér maður engan Mascherano í kortunum.

Klopp er auðvitað að spila allt aðra tegund af fótbolta en Benitez og Houllier voru að gera á síðasta áratug og gegn allt öðruvísi liðum en þeir voru að glíma við. Kaupin á Van Dijk eru vonandi fyrsta risaskrefið í þá átt að stótbæta varnarleik Liverpool og fækka mörkunum sem liðið fær á sig heilt fyrir tímabil. Markmannsskipti eru vonandi ekki síður stór áfangi í rétta átt varnarlega. Bæði það að setja Karius inn fyrir Mignolet og ekki síst ef keypt verður inn nýr maður næsta sumar (í síðasta lagi).

Með komu Van Dijk færast hinir þrír aftar í goggunarröðina og fá auðvitað mun sterkari partner með sér. Haldist Van Dijk meira heill en þessir glerkallar sem hafa spilað í vörninni undanfarin ár mun það klárlega stórbæta vörnina. Það hefur ekkert hjálpað varnarleiknum að allir þeir sem eiga að sinna varnarhlutverki í liðinu hafa verið endalaust í meiðslavandræðum megnið af þessum áratug. Það var undantekning ef einhver af Hamann, Hyypia og Carragher væri meiddur. Eins þegar Hyypia og Hencoz voru að spila saman þar á undan. Mascherano var lítið meiddur einnig. Það var nánast alltaf sami kjarni í hjarta varnarinnar sem auðvitað hjálpaði við að mynda stöðugleika. Núna er varla að miðvarðapar spili meira en þrjá leiki í röð og ennþá ólíklegra að sá sem er að spila aftast á miðjunni afreki meira en svona fimm leiki í röð. Svona fyrir utan hvað þessir menn hafa verið í mun lægri gæðaflokki en hjarta varnarinnar var mest allan síðasta áratug.

Van Dijk er vonandi fyrsta risa skrefið sem Klopp tekur í lagfæringu varnarleiksins. Kaupin á Roberston og upprisa Moreno lagfærðu vinstri hluta varnarinnar sem hefur verið til vandræða meira og minna síðan Steve Nicol hætti. Hægra megin er vörnin tæp með Clyne meiddan en á móti eigum við hann inni og erum að fá upp tvo gríðarlega efnilega leikmenn. Vörnin er þ.a.l. ekki aðal áhyggjuefnið í bili, næst er að skoða það sem er fyrir framan og aftan hana.

2000-2010 vs 2011 – 2018
Það er töluverður munur milli áratuga, sérstaklega á varnarleik liðsins, sóknarleikurinn var verri að meðaltali en á móti töluvert jafnari á síðasta áratug.

Hjá Benitez var normið að liðið fengi minna en 30 mörk á sig og vörnin átti mjög vont tímabil ef mörk fengin á sig voru í kringum 40. Liverpool fékk aðeins einu sinni á sig meira en 40 mörk á síðasta áratug en þeir bættu fyrir það með því að vinna Meistaradeildina í staðin. Það var bara sanngjarnt!

Undanfarin átta tímabil hefur Liverpool aldrei fengið minna en 40 mörk á sig og í fjörgur skipti var markatalan +15 mörk eða minna. Markatalan fór aðeins einu sinni undir +20 mörk á síðasta áratug (sama ár og liðið vann Meistaradeildina til að bæta upp fyrir það).

Liverpool var að fá að meðaltali á sig 0,86 mörk í leik sem gera 33 mörk yfir heilt tímabil. Undanfarin átta ár hefur liðið verið að leka að meðaltali 1,2 mörkum í leik sem gera rúmlega 45 mörk á tímabili. Það getur munað gríðarlega um þessi 12 mörk stigalega þegar tímabil er gert upp í maí, sérstaklega hjá liðum sem er í baráttu um Meistaradeildarsæti. Liverpool var t.a.m. með einu stigi meira en Arsenal á síðasta tímabili svona til að taka dæmi um hvað það munar oft litlu.

Markatalan á síðasta áratug var að meðaltali +29 mörk sem er sæmilegt, ekkert mikið meira en það. Hún er +23 mörk á þessum áratug en þar fegrar tímabilið 2013/14 myndina töluvert sem og síðasta tímabil.

Fyrstu þrjú tímabil Klopp hjá Dortmund var liðið að fá á sig 22-27 mörk á tímabili (34.umferðir) sem er svipað og lið Benitez voru að vinna með. Þetta gefur okkur vonandi von um að hann geti stórbætt varnarleik Liverpool.

Varnartengiliður skiptir engu máli ef hægt er að bæta varnarleikinn með öðrum hætti, persónulega  á ég ekki von á því að Liverpool kaupi sinn Kanté, Matic eða Wanyama eins mikið og ég væri til í það. En ég hef trú á að Klopp komi þrátt fyrir það til með að stórbæta vörnina á næstu mánuðum.

14 Comments

  1. Mér finnst þessi staða ekki síður mikilvæg en staða markmans eða miðvarðar.

    Við sjáum að í meistaraliðum undanfarinn ár er sterkur varnartengiliður og er það ekki tilviljun(og markvörður/Miðvörður ef úti í það er farið).
    Að vera með sókndjarft lið sem sækir á mörgum mönnum er lykil að hafa varnar miðjumann sem er tilbúinn að bíða aðeins og vernda vörnina og passa uppá miðsvæðið meða 5 sóknar/miðjumenn og jafnvel tveir bakverðir taka þátt í sókninni.

    Staða varnartengiliðs er ekki dauð og finnst mér að Klopp ætti að fara að huga að þessari stöðu. Pælið í því ef Liverpool væri með Kante á miðsvæðinu það myndi leyfa hinum að sækja enþá meira.
    Eins og búið var að nefna þá voru Mascherano og Didi algjör lykilmenn hjá okkur og tel ég að við myndum komast á næsta level ef við myndum fjárfesta í einum slíkum en málið er að svoleiðis gæða leikmenn eru ekki alltaf til staðar en við náðum þó í þessa tvo frá West Ham og Newcastle svo að kannski getum við fundið einhverja gullmola sem hægt er að kaupa.

    Við erum nefnilega með mikla sóknarógn og alltaf líklegir til að skora en við værum enþá hættulegri ef varnarlínan okkar fengi einn góðan fyrir framan sig og ef ég um að það myndi fækka mörkunum okkar(ekki eins og miðjumenninir okkar Henderson/Winjaldum/Can séu að raða inn mörk eða skapa fullt af færum).

  2. Ég held að það verði mjög spennandi að sjá hvar hann spilar Keita og hvað hann ætlar sér með frekari miðjumenn. Goretzka virtist vera á óskalista Klopp en hann valdi Bayern Munchen, hann er að spila frekar aftar en framar á miðjunni. Keita getur spilað allsstaðar. Það bendir til að Klopp vilji annan miðjumann inn, líklega þá í staðinn fyrir Can ef hann fer. Goretzka hefði líklega verið sá leikmaður. En auðvitað vill hann líka fjölbreytta leikmenn, og er Keita frábært dæmi um það. Getur spilað allsstaðar á miðjunni.

    Held að Henderson kallinn sé bónus í framtíðinni, og tippa á að Van Dijk verði gerður að fyrirliða í sumar. Vona það.

  3. hjalti er það stafest að goretzka hafi valið bayern??

    það er alveg klárt mál að henderson er ekki hugsaður sem CDM í framtíðinni það er miklu frekar að emre can sé sá sem eigi að vera akkerið á miðjunni með skapandi box to box leikmenn hjá sér… wijnaldum og keita eru klárlega framtíðarleikmenn og lallana bónusleikmaður sem og væntanlega henderson þar sem hann hefur verið verulega meiðslahrjáður í gegnum tíðina og frekar mistækur greyjið.

    ekki myndi ég líta svo á að goretzka eða keita ætti að koma í staðinn fyrir emre can þar sem ég held að klopp hafi ekki gert ráð fyrir því að hann væri á förum og vona ég innilega að svo sé ekki þar sem hann er lang harðasti miðjumaðurinn í liðinu að mínu mati… þetta týpíska stál.

    ég vona allavega að það verði sett í fimmta gír og sannfært emre can um að krota undir nýjan samning,,

    ég hef mikið álit á þessum leikmanni og það er ekkert af ástæðulausu að gamla kerlingadruslan sé að míga utan í hann

  4. Ég hef skilið það þannig að Can vilji fara af því að Klopp hefur ekki haft nægilega mikla trú á honum á næstu árum. Kaupin á Keita staðfesta það í aðra röndina að Can verði ekki fyrsta val á miðjunni.

    Er ekki málið það að Klipperty vill ekki spila með með varnartengiliði. Að minnsta kosti ekki þessa Makalele týpu sem var svo vinsæl hérna um árið. Sú týpa er að hverfa. Eru shitty svo ekki farnir að snúa þessu við með miðjumenn/bakverði? Þ.e. bakverðirnir koma sér fyrir á miðjunni en miðjumennirnir sækja.

  5. Þarf Klopp varnartengilið eða leikmenn sem passa hundraðprósend inn í hans leikkerfi og bætir okkar besta ellefu manna byrjunarlið ? Ég er á því að hið síðarnefnda er miklu mikilvægara. Annars finnst þessi nálgun undarleg. Við ættum miklu frekar að vera að svekkja okkur yfir öllum þessum jafnteflum sem við höfum fengið á tímabilinu þar sem það var augljóst að í langflestum tilfellum prísuðu andstæðingarnir sig sælan yfir því að hafa náð stigi en ekki einblína á hve mörg mörk við höfum fengið á okkur.

    Eins og þú bentir á eru nokkrir markaleikir sem skekkja þessa tölfræði tiltölulega mikið. T.d ef tapleikirnir gegn City og Tottenham hefðu farið 0-0 væri Liverpool með betra markahlutfall en Tottenham en búnir að skora miklu meira af mörkum en væru aðeins tveimur stigum ofar í deildinni. Liverpool er t.d með betra markarhlutfall en Chelsea og vil ég miklu frekar sjá liðið mitt spila blússandi sóknarleik og tala nú ekki um þegar það skilar góðum árangri.

    Mig minnir að Maggi hafi talað um það í prodcasti að hann hafi lesið bók um Klopp þar sem hann talaði sérstaklega að hann noti aldrei neinn eiginlegan varnartengilið

    Ég hef fulla trú á því hvað Klopp er að gera og vil miklu frekar fá leikmann inn í hans kerfi sem fittar við það í stað þess að fara að breyta um kerfi en það væri klárlega verið að gera það ef það væri hreinræktaður varnartengiliður fenginn inn í það.

    Vörnin er heilt yfir búin að vera mjög góð undanfarið og raun var hún áberandi verst gegn City en ekki verri en hún varð þess valdandi að liðið skoraði meira af mörkum, því Þegar allt kemur til alls þá er hápressa vörn <— og Man City fékk öll mörkin á sig út af góðum varnarleik. Þeir misstu boltann, annað hvort á eigin vallarhelmingi eða á sínum eigin vegna góðrar varnarvinnu.

  6. Steve Nicol?
    Ekki var hann vinstri bakk??? Miðvörður minnir mig.

    Ertu að ruglast á honum ofur-nojaranum, Stig-Inge Björnebye?

  7. Ég held ad Steve Nicola hafi reyndar verið bakvörður eins og Einar segir, ég er eiginlega alveg pottþéttur á því

  8. Steve Nicol – spilaði nánast allt hjá Liverpool
    Hann var í bakverðinum bæði vinstri og hægri, hann fór á kanntinn, átti leiki á miðsvæðinu og í miðverði. Hans kostur var að hann var ótrúlega fjölhæfur og var nánast jafn góður með hægri og vinstri fæti. Þetta var kannski líka ókostur því að framkvæmdastjórar voru oft að færa hann til.
    Menn gleyma því að hann var valinn leikmaður ársins af blaðamönnum árið 1989 og var gríðarlega góður og einn vanmetnasti leikmaðurinn í okkar glæstu sögu.
    Hann var þekktur fyrir að vera ja…. orðum þetta að hann var ekki skarpasti hnífurinn í skúffinni en liðsfélagar hans dýrkuðu hann innan vallar sem utan.

    Hann er nýbúinn að gefa út ævisögu sem allir sannir Liverpool aðdáendur ættu að kíkja á 🙂

    p.s þeir leikmenn í sögu Liverpool sem hafa unnið leikmaður ársins af blaðamönnum.
    Callaghan 1974
    Keegan 1976
    Hughes 1977
    Daglish 1979 og 1983
    McDermott 1980
    Rush 1984
    Barnes 1988 og 1990
    Nicol 1989
    Gerrard 2009
    Suarez 2014

    Ekki slæmur félagskapur þarna.

  9. Lesid bokina um klopp, bring on the noise. tyskur bladamadur sem skrifar hana. vid erum heppin ad hafa hann sem stjora. hann mun aldrei vinna fyrir Bayern og koln. lesid bokina
    hann er snillingur med folk og mun skila arangri hja lfc ef ekki a tessu timabili ta hinu naesta.
    lfc er verk I vinnslu.

  10. Hvernig væri að nota Firmino sem skúringarkonu? Van Dijk er miðvörður. Punktur. 🙂

  11. Ef Can skrifar undir held ég að hann verði notaður sem aftasti maður á miðjunni, sama hvort það verður sem DMC eða MC. Ég er að vona að næsta sumar verði miðjan skipuð Can, Keita og Chamberlain þar sem Can er aftast og Chamberlain fremst. Henderson er svo backup fyrir Can, Wijnaldum fyrir Keita og Lallana fyrir Chamberlain. Svo geta bæði Lallana og Chamberlain leyst af á köntunum líka ef þess þarf.
    Mig grunar samt að Klopp vilji bæta meira við á miðjuna þó Can skrifi undir nýjan samning.

  12. Ef að Can skrifar undir, sem væri frekar fínar fréttir. Þá er enginn varnartengiliður að fara byrja neina leiki fyrir Liverpool. Wijnaldum – N.Keita – E.Can…þokkaleg jarðýtumiðja. Uxinn og Lallana koma inn ef þarf að bæta í og Henderson og Milner ef þarf að verjast.
    Þetta er kannski ekki jafn rosalegt og Gerrard, Alonso, Mascherano, Hamann en breiddin virðist meiri núna. Það eru virkilega margír góðir leikmenn í Liverpool núna.

Podcast – Er Karius plat markvörður?

Á sama tíma eftir 4 ár