Everton 0 – 0 Liverpool

Leikurinn

Fyrstu 15 mínúturnar eða svo voru frekar tíðindalitlar, en á 16. mínútu fékk Solanke tilvalið tækifæri til að opna markareikninginn í deildinni eftir fallega fyrirgjöf frá Clyne, því miður var Pickford vel á verði og varði. Karius átti hins vegar mun flottari vörslu á 22. mínútu þegar hann tók skot frá Bolasie en þar var boltinn að sigla í netið alveg úti við stöng. Pickford átti svo svipaða vörslu gegn Milner á 29. mínútu, og þetta því leikur markvarðanna á þeim tímapunkti. Fátt markvert gerðist svo eftir þetta.

Í síðari hálfleik var svipað uppi á teningnum, mest barátta á miðjunni, með einstaka færum sitt hvoru megin. Milner fékk pásu um miðjan seinni hálfleikinn, Oxlade-Chamberlain kom inn í staðinn fyrir hann og átti góða rispu sem endaði með skoti en því miður fór það yfir. Firmino kom svo inná fyrir Mané en náði ekki að setja mark sitt á leikinn. Síðustu 15 mínúturnar voru svo okkar menn undir talsverðri pressu frá þeim bláklæddu, þar sem a.m.k. 2 dauðafæri litu ljós en sem betur fer voru lukkudísirnar á bandi Klopp og félaga. Trent kom inná í stað Ings í uppbótartíma, og þannig skipað náði liðið að sigla þessu í höfn.

Umræðan eftir leik

Það vekur kannski athygli að engum spjöldum var veifað í leiknum í dag. Á einum tímapunkti hefði getað soðið upp úr þegar Ings fór að saka Coleman um dýfingar, og það þurfti aðeins að róa menn. Annars má segja að þetta hafi verið einn daufasti derby slagur þessara liða í lengri tíma, og kannski ekki skrýtið því okkar menn voru líklega aðallega í gírnum “ekki tapa og ekki meiðast”. Í sjálfu sér skilur maður það mjög vel, enda leikurinn á þriðjudaginn örugglega efst í huga allra, bæði leikmanna, Klopp, nú og svo stuðningsmanna. Klopp reyndar staðfesti það í viðtali eftir leik:

Það sást líka berlega að sóknin með Mané, Ings og Solanke er alls ekki jafn beitt og með Mané, Firmino og Salah. Ings og Solanke vinna ágætlega, en það vantar þessi extra 5-10% sem Firmino og Salah koma með aukalega. Liðið saknaði Salah klárlega, og ég held að vinnslan hjá Robertson skipti líka meira máli en fólk kannski áttar sig á.

Winjaldum var að standa sig ágætlega í hlutverki sexunnar á miðjunni, a.m.k. var tölfræðin honum í hag eftir fyrri hálfleik:

sem er kannski eins gott því hann þarf líklega að spila þessa stöðu á þriðjudaginn. Milner var líka líflegur á meðan hann var inná, og nauðsynlegt að gefa honum smá pásu í lokin ef hann á að endast á þriðjudaginn. Það er ekkert eitt nafn sem öskrar á að verða kosinn maður leiksins, en við skulum setja þá nafnbót á Loris Karius, þá fyrst og fremst fyrir sjónvarpsvörsluna í fyrri hálfleik. En semsagt, Milner á líka tilkall. Í sjálfu sér var enginn að eiga neitt slæman dag, þó svo að maður myndi vilja fara að sjá meira koma frá Solanke. Merkilegt hvað hann er að standa sig vel með U21 landsliðinu, en virðist ekki finna taktinn með Liverpool. Þá var Firmino augljóslega að spara sig fyrir þriðjudagsleikinn, við fyrirgefum honum það alveg.

Tölfræðin

Það er kannski vert að minnast á að núna hefur liðið haldið hreinu í 7 leikjum af síðustu 10 í öllum keppnum. Föstu punktarnir í þeirri vörn eru Karius og Virgil. Karius er kominn með 13 hrein lök í 22 leikjum. Svo má líka minnast á að núna vantar liðið 10 stig úr síðustu 5 leikjunum til að tryggja 4. sætið. Það miðast við að Chelsea vinni alla þá leiki sem liðið á eftir, en þess má geta að þeir hafa náð í 6 stig af 21 mögulegu í síðustu 7 leikjum. Er meistaradeildin tryggð? Nei alls ekki. Chelsea hefur alveg komist á “run” þar sem liðið vinnur 7 leiki í röð. Og ef þeir gera það (innifalið í því er m.a. innbyrðis viðureign á Stamford Bridge sem við gerum þá ráð fyrir að tapist), þá þýðir það að Liverpool þarf að vinna 3 af 4 leikjum þar fyrir utan og ná jafntefli í þeim síðasta. Semsagt, ekkert gefið ennþá. En líkurnar eru vissulega okkur í hag.

Næst á dagskrá

Nú er það bara heimsóknin á Etihad. City spilar síðar í dag, þar sem þeir geta siglt titlinum í höfn, og þeim mun örugglega ekki þykja neitt leiðinlegt að gera það á móti erkifjendunum hjá United. Ég lít svo á að það sé bara jákvætt: ef þeir vinna þurfa þeir að trappa sig niður úr sigurvímu, og ef þeir vinna ekki þá eru komnir tveir leikir í röð sem þeir vinna ekki.

En auðvitað skiptir lang mestu máli hvernig okkar menn mæta í þann leik. Bæði líkamlega og andlega. Maður vonar að menn eins og Mané, Milner, Winjaldum, van Dijk og Lovren nái að hlaða batteríin fyrir þriðjudaginn, því þeir þurfa að vera í toppformi. Eins vonar maður að Salah, Robertson, Oxlade-Chamberlain og Alexander-Arnold komi tvíefldir til leiks, og að þetta litla letikast hjá Firmino sé búið. Og að sjálfsögðu skiptir öllu máli að Klopp nái að mótívera þessa pjakka alla. Ég held að hann sé reyndar hárrétti maðurinn í það.

35 Comments

  1. Ásættanleg úrslit ef við lesum í aðstæður. Vorum aldrei líklegir til að skora í þessum leik með Dominic Solanke og Danny Ings frammi. Algjört lykilatriði að fá meiri gæði í sumar til að dreifa álaginu með Mané, Firmino og Salah þarna uppi. Gæðamunurinn er einfaldlega of mikill. Virkuðu eins og Pepsídeildarlekmenn þarna í dag með fullri virðingu fyrir þeirri deild.

  2. Fín úrslit. En Solanke er einn lélegasti leikmaður Liverpool sem eg hef séð lengi. Vill helst aldrei sja hann aftur inná. Vinnur enga skallabolta og ekkert control a boltanum.

  3. Solanke og Ings ekkert að kaupa sér mikið fleiri leiki og leikurinn hreint út sagt afleitur í alla staði. En 1 stig með þennan mannskap svo sem fínt

  4. Solanke var alveg skelfilega lélegur í þessum leik. Leikur Liverpool einhvern veginn fjaraði alveg út þega Milner fór af velli. Karius og Milner bestu menn Liverpool í dag fannst mér.

  5. Tökum bara þessu stigi og höldum áfram.

    Svona leikir eru alltaf erfiðir hvort sem liðið er fullskipað eða ekki.
    Við höfðum ágæt stjórn á leiknum í fyrirhálfleik og gaf það manni von að við myndum ná að klára þennan leik. Við fengum þar nokkur færi og Everton gat ekki haldið boltanum en það má samt ekki gleyma stórkostlegri markvörslu Karius.

    Í síðari þá byrjaði þetta svipað og vorum við að stjórna leiknum án þess að skapa mikið. Ox kom með smá kraft í þetta þegar Millner fékk nauðslynlega hvíld og komst í gott skotfæri og svo Solanke rétt á eftir.
    Svo gerðist eitt stórskrítið Mane fór útaf of Firminho kom inná og þá gjörsamlega hrundi leikurinn hjá okkur.
    Liði fór allt í einu að verjast fyrir aftan miðju og Everton fékk að halda boltanum í fyrsta skipti í leiknum. Firminho virtist ekki nennan þessu og er það ólíkt honum en menn voru að hlaupa framhjá honum trekk í trekk og hann hélt boltanum illa.
    Everton sótti og sköpuðu færi til að klára þetta í lokinn en gott fyrir okkur að þeira sóknarmenn voru jafn daprir og okkar í dag.

    1 stig og við getum farið að snúa okkur aftur að Man City úti. Ég vona að við verðum ekki svona opnir eins og síðustu 15 mín gegn Everton en það má búast við því að City verði með boltan en ólíkt Everton eru þeir með alvöru gaura til að koma boltanum í netið.

    Maður leiksins: Gefum Karius það fyrir stórskostlega markvörslu og grípa vel inní þegar á þurfti. Annars var Millner mjög góður og Mane ógnandi í þessum leik.

    YNWA og núna eru bara andvöku nætur í að velta næsta leik fyrir sér , djöfull er það gaman að vera komnir í svoleiðis stöðu aftur.

  6. Eitt mikilvægt stig í hús á erfiðum útivelli og núna er bara að vona að menn hvíli sig vel fyrir þriðjudaginn. Karíus með enn eitt hreina lakið, stórkostleg markvarsla í fyrri hálfleik og flottur í boxinu. Hann var okkar maður leiksins.
    YNWA!

  7. Fullkomnlega ómögulegt að meta gæði Ings og Solanke út í frá þessum leik. Liðið sett upp á allt annan máta en venjulega og hvorugur þeirra í leikæfingu.

  8. Hefði viljað sjá Mane klára leikinn .. virkaði ekki þreyttur og leikur okkar hrundi við skiptinguna Mane-Firmino. Hefði mátt taka Solanke eða Ings útaf fyrir Firmino (Solanke helst) og hafa Ings upp á topp og Firmino og Mane með honum.. bara svona til að reyna vinna leikinn ! En gott að ekkert fór í lakið og enginn meiddur .. YNWA og tökum Real / Barca /Bayern easy !

  9. Ömurlega leiðinlegur leikur. Þessi Ings á ekki heima í Liverpool, þreytulegri maður er varla til. Milner alltaf góður.

  10. #11 Menn sem eru að gagnrína Ings þá var þetta fyrsti leikurinn hans í byrjunarliði í deildarleik síðan að hann slasaðist gegn Everton í síðasta leik B.Rodgers(já svo langt síðan). Hann var búinn að spila 65 mín í deildarkeppninni í vetur og búinn að vera að glíma við mikil meiðsli.
    Hann er langt í frá kominn í sitt besta stand og ekki í miklu leikformi. Svo að tala um að hann eigi ekki heima í þessu liði er kannski full snemmt en að hann sé þreytulegur á vel við enda maðurinn ekki í toppstandi. s.s ekki láta nágranaslag á þungum og blautum velli vera hans dauðadómur hjá liðinu.
    Sjáum hvort að hann haldist heill og nái að spila nokkra leiki í viðbót en Klopp hefur verið duglegur að hrósa honum fyrir sína fornfýsi utan vallar og jákvætt viðhorf þrátt fyrir að vera nánast meiddur standslaust í 2.ár.

  11. Er bara sáttur við úrslitin í þessum leik. Klopp var spot on með breytingarnar á liðinu. Mikilvægt stig og nú þurfum við “bara” 10 stig af 15 úr þessum 5 leikjum sem eftir eru til að geirnegla topp4.

    Sko, er alveg sammála því að það er ósanngjarnt að gagnrýna Solanke og Ings, enda lítið búnir að spila og Ings að koma til baka eftir gríðarlega erfið meiðsli. Hins vegar er að mínu mati morgunljóst að við þurfum að versla einn stræker í sumar. Solanke og Ings hafa ekki sannfært mig enn um neitt annað en að þeir séu allavega enn sem komið er “næstum því góðir” leikmenn. Hvorugur þeirra var að nýta sér sénsinn í dag. Vonandi munu þeir sanna sig síðar en því miður hafa þeir ekki enn gert það.

    Karius var klárlega maður leiksins. Þvílík varsla, vá!

    Er annars bara sáttur, engin meiðsli og við komum sterkir inn í seinni leikinn á móti City nk. þriðjudagskvöld.

  12. Nokkuð sáttur, flestir varamennirnir fengu leik og liðið stjórnaði leiknum. Jafntefli sanngjarnt. Góðar fréttir að Salah nær líklega leiknum.

  13. Held að menn séu ekkert að gagnrýna Ings beint. Heldur þá staðreynd hversu illa við erum mannaðir í þessum stöðum ef Mané, Firmino og Salah detta út úr liðinu. Næstu menn eru einfaldlega nokkrum gæðaflokkum frá þeim í getu og það skrifast auðvitað á klúbbinn en ekki Ings.

  14. Þið eruð ekki að gagnrína Ings beint og teljið samt það staðreynd að við erum illa mannaðir í þessum stöðum ef Mane, Firmino eða Salah detta út ?

    Þið getið ekki sagt að það sé staðreynd að Liverpool eru með litla breidd í framherjastöðu, nema leikmenn sem spila þessa stöðu komast í alvöru leikform og geta þá ekki neitt. Ings er búinn að vera meira og minna meiddur undanfarin tvö ár og ég fullyrði að nánast hver einasti leikmaður væri ryðgaður í fyrsta leik sem hann spilar eftir svona langan tíma.

    Ings hefur átt fínar innkomur en það er allt annað mál að spila heilan leik og miðað við hvernig hann spilaði hjá Burnley og undir lok hjá Rodgers fullyrði ég að breiddin er ágæt, því Ings er klárlega sami leikmaðurinn og hann var þá, jafnvel betri, ef hann kemst í alvöru leikform. Þar að auki er hann framherji sem fittar vel inn í leikstíl Liverpool. Mjög vinnusamur og ósérhlífinn.

  15. Þið snillingarnir sem viljið betri vara sentera eru sjálfsagt hinir sömu og sögðu Karius ekki nógu góðan fyrir Liverpool:)

    Eitt mark fyrir senter gerir gæfu muninn og sjálfstraust ennþá meira. Þetta eru menn sem eiga að leysa af eitt besta sóknartríó í heimi og hafa ekki fengið margar mínútur í vetur. Ég er bara frekar ánægður með þá tvo , þeir gefa alltaf allt í þetta.

  16. Sælir félagar

    Ég vil gera orð Sigurðar Einars og Brynjars Jóhannessonar að mínum og hefi engu við þau að bæta um þennan leik. Ég sá ekki betur en M. City væri með alla sína bestur menn inná í leiknum í dag og Sterling þristaður fyrir frammistöðuna. Það er ekki slæmt ef karakterinn er ekki meiri en þetta í M. City liðinu. Tveir tapleikir í röð á síðustu metrum leiktíðarinnar. Gott til að vita.

    Það er nú þannig

    YNWA

  17. Mér fannst Klopp setja leikinn fullkomlega upp taktískt, miðað við stöðuna. Dagsskipunin var örugglega að reyna að missa leikinn ekki í einhverja þvælu. Það tókst og við hljótum að fagna því að enginn meiddist í leiknum (Moreno í upphitun) og enginn keyrði sig út. Liðið ætti að vera í ágætu standi fyrir þriðjudaginn. Svona hefði Ferguson gert þetta 🙂 YNWA

  18. Sjitty byrjaðir að skjálfa. Kannski getum við unnið tvöfalt þetta árið, eftir allt.

  19. Hvað eru ManUre að missa sig yfir að sigra City með einungis einu marki.

  20. Ég sá því miður ekki leikinn en er spenntur fyrir því að vita hvernig herra Ragnar K stóð sig þar sem ég hef haft trú á honum sem og öðrum leikmönnum sem spila fyrir Liverpool.
    Gott stig í hús í dag.

  21. Hvernig í veröldinni ætla menn aað reyna að gefa Keane þetta mark sem Eriksen skoraði á móti Stoke ??? ég bara trúi því ekki að þetta sé tekið í mál.

  22. #23. Hreint lak Klavan stóð sig vel. Hélt hreinu og var merkilega áberandi í vítateig hins liðsins í sóknartilburðum okkar.

  23. Nú er ég bara pínu forvitinn. De gea var hyllt sem heimsklassa markmanni og game winner þegar hann tók vörsluna sína frá Coutinho um árið.
    Í gær var Karius að taka copy/paste vörslu og allavegana að tryggja okkur stig í leiðinni.
    AFHVERJU Í F^$£÷andum er stráknum ekki hrósað meira? Þá meina ég bæði eftir leikinn í gær og almennt.

  24. #26
    De Gea gerir svona nánast í hverri viku og er klárlega heimsklassa

    Karius hefur verið að standa sig mjög vel undanfarið og átti þessa heimsklassa vörslu í gær og hefur verið að fá mikið lof undanfarið en til þess að komast í De Gea flokkinn þá þarf hann miklu meiri stöðuleika og ég held að það sjá það allir sem vilja(þótt að maður er Liverpool kall og hatar Man utd) að De Gea er heimsklassa í dag en Karius ekki(en gæti þó orðið það).

  25. Moyes og Chicarito að gera okkur ágætis greiða. Taka stig gegn Chelsea. Væri gott að geta hvílt leikmenn líka fyrir undanúrslit í CL

  26. Chelsea að hjálpa okkur mikið í dag með því að fá aðeins 1 stig á heimavelli gegn West Ham.

    Liverpool 33 leikir 67 stig
    Chelsea 32 leikir 57 stig – en þeir eru eina liði sem gæti tekið Liverpool úr meistaradeildarsæti
    þeir geta mest náð 75 stigum sem þýðir að liverpool vantar 3 sigra í síðustu 6 leikjunum til að ná 76 stigum.

  27. Verðum öruggir í top 4 þegar við mætum chelsea á milli leikjanna á móti Barcelona í meistaradeildinni og notum enga byrjunarliðsmenn lásuð það fyrst her

  28. úrslitin eru öll að falla með okkur.

    megum núna tapa 1 og gera 2 jafntefli í þessum 5 leikjum sem eftir eru og við erum samt í 4 útat betri markatölu 🙂

    það er notturlega ef chelsea vinnur alla sýna 6 leiki sem eftir eru sem ég sé ekki gerast þar sem þeir eiga eftir 5 lið sem eru að berjast um að hánga í deildinni.

  29. Hárrétt #32. Erum með +17 á Chelsea í marktaölu og því ljóst að 8 stig í 5 leikjum munu duga.

    Auk þess eru rosalega litlar líkur á Chelsea vinni þessa 6 leiki sína, en 4 af þeim eru á útivelli.

    Þetta er búin að vera geggjuð vika hjá Liverpool! 🙂

  30. Við skulum nú fara varlega með að segja að við séum komnir í undanúrslit í CL. Framundan er gríðarlega erfiður leikur gegn city og meiðsli hjá okkur eru ekki að bæta það.

  31. #31 Skoppi,
    hvort sem við komumst í undanúrslit eða ekki, þá verður það allaveg ekki Chelsea sem verður á milli leikjanna, heldur er það Stoke.

    Chelsea leikurinn er eftir seinni undanúralistaleikinn :).

Liðið gegn Everton

Meistaradeildarupphitun: Man City er ekkert fallegt ævintýri