Bournemouth á laugardaginn

Eftir ævintýrið á Etihad er röðin aftur komin að deildinni, því á laugardaginn koma Eddie Howe og lærisveinar hans í heimsókn á Anfield. Leikurinn hefst kl. 16:30, þannig að okkar menn ættu því að hafa fengið hátt í fjögurra sólarhringa hvíld, og veitir víst ekki af. Liðið mætir í þennan leik í þeirri stöðu að þurfa að fá a.m.k. 8 stig út úr síðustu leikjunum, fyrst David Moyes gerði okkur þann greiða að gera jafntefli við Chelsea um síðustu helgi. Þessi 8 stig munu semsagt duga ef markamunurinn helst nokkurnveginn óbreyttur.

Baráttan um markakóngstitilinn

Þessir síðustu 5 leikir í deildinni snúast auðvitað fyrst og fremst um það að ljúka keppni eins ofarlega í töflunni og hægt er, en þegar fjórða sætið virðist verða æ líklegra er annað markmið sem menn eru örugglega með annað augað (og hitt eyrað) á, en það er slagurinn um markakóngstitilinn. Þar er okkar maður – Mohamed Salah – auðvitað efstur á blaði sem stendur, en Harry Kane andar ofan í hálsmálið á honum, og fékk í gær stuðning frá deildinni þegar mark sem Tottenham skoraði gegn Stoke var skráð á hann, í stað þess að vera skráð á Eriksen. Allt hið furðulegasta mál því engar upptökur sýna snertingu, en hann sver og sárt við liggur að hafa snert boltann. Gott og vel, í sjálfu sér er ekki ástæða til að rengja það. Okkar menn verða bara að tryggja að þetta mark skipti engu þegar upp er staðið, auðvitað er markmið númer eitt að liðið nái að skora, en eitthvað segir mér að menn muni hjálpa Salah alveg extra að finna netmöskvana í þessum síðustu leikjum. Þess má geta að Salah lýsti yfir undrun yfir dómnum á Twitter, og félagar hans voru duglegir að svara með hvers konar meme-um. Semsagt, vonandi mun þessi ákvörðun FA engu máli skipta þegar upp er staðið.

Bournemouth

Það þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um andstæðinganna. Eddie Howe er núna einn langlífasti stjórinn í deildinni þrátt fyrir ungan aldur, og hann hefur náð undraverðum árangri með þetta lið. Ef árangur liðanna frá því um jólin er skoðaður kemur í ljós að þeir eru í 6. sæti, og eru þar fyrir ofan lið eins og Chelsea, Arsenal og Everton, svo dæmi séu tekin:

Auðvitað fást engin verðlaun fyrir að vera ofarlega á þessum lista, en þetta er engu að síður ágætis vísbending um það hvernig liðunum hefur verið að ganga undanfarna 4 mánuði eða svo. Semsagt: ekki búast við að þetta verði einhver skemmtisigling. Góðvinur okkar Jordon Ibe er á meiðslalistanum sem stendur, en er þar skráður sem “slight doubt”, svo kannski fáum við að njóta starfskrafta hans á laugardaginn.

Meiðslalistinn

Í sjálfu sér eru ekki það margir á meiðslalistanum hjá Liverpool: Lallana, Matip, Gomez, og Can. Lallana og Gomez gætu sést í mýflugumynd fyrir lok leiktíðarinnar, en Matip og Can spila ekki aftur á þessari leiktíð – og Can gæti þar með verið búinn að spila sinn síðasta leik fyrir liðið. Af hverju hann er ekki búinn að skuldbinda sig til að verða áfram er hulin ráðgáta, en maður veit svosem ekkert hvað er að fara í gegnum hausinn á honum, ekki frekar en hjá Coutinho í janúarglugganum. Ef menn vilja ekki vera virkir þátttakendur í þessu ævintýri sem nú stendur yfir þá eiga þeir bara að vera einhversstaðar annars staðar.

En þó svo að það séu ekki margir meiddir, þá er hópurinn ekkert svakalega breiður, og því munar um þessa leikmenn. Sem betur fer er Clean Sheet Klavan aftur orðinn leikfær, ef svo væri ekki þyrfti aftur að leita í smiðju akademíunnar til að eiga miðvörð á bekknum. Woodburn er líka kominn aftur á stjá og var á bekk á þriðjudaginn.

Væntanleg uppstilling

Ég hef enga trú á því að Klopp sé að fara að hvíla menn eitthvað unnvörpum. Eins og áður sagði fá menn rétt tæpa 4 sólarhringa til að hvíla sig, og Klopp hefur oft talað um að lið þurfi að “ná upp takti”. Ég tel nánast öruggt að Henderson komi aftur inn í liðið, þrátt fyrir að Winjaldum hafi bara staðið sig með ágætum í hlutverki sexunnar á móti City. Mögulega fær Winjaldum að halda áfram að spila í því hlutverki, enda hefur Henderson alveg getað spilað framar líka. Hugsanlega fær Milner smá pásu, enda búinn að spila 3 leiki á 6 dögum, en toppaði samt hlaupalistann á þriðjudaginn:

Semsagt, ég spái því að Henderson verði sá eini sem komi inn, þó ég gæti svosem alveg séð Clyne t.d. fá sénsinn. Stillum þessu einhvernveginn svona upp:

Karius

TAA – Lovren – van Dijk – Robertson

Winjaldum – Henderson – Chamberlain

Salah – Firmino – Mané

Bekkur: Mignolet, Clyne, Klavan, Moreno, Woodburn, Milner, Ings

Spá

Ég ætla að spá því að liðið vinni 2-0 sigur, þar sem Salah skorar bæði mörkin, en ég yrði reyndar alveg sáttur við hvaða sigur sem er. Með því myndi aðeins vanta 5 stig í viðbót til að tryggja meistaradeildarsætið, sem liðið ætlar auðvitað að tryggja sér hvort eð er með því að vinna dolluna.

8 Comments

  1. Spurning um hvort að menn séu með ferskar fætur og kannski þarf að byrja með Salah á bekknun en vonandi ekki.
    Ég spái okkar mönnum sigri í lúmskt erfiðum leik 2-1 sigur með mörkum frá Djik og Salah.

    Pælið samt í því ef liðið okkar í dag væri líka með Sterling.
    Þá væri framlínan okkar Salah, Firminho og Mane 😉

  2. Lærisveinar Eddie Howe hafa verið að skora mikið á síðustu 10 mínútum í leikjum sem er ákkurat tími Ragnars Klavan….þannig að það þarf ekkert að fjölyrða um úrslit þessa leiks.
    3-1 Salah með hatrick

  3. Það er ekkert lítið sem á að gefa Spurs af snertingum þessa dagana sama hvað þeir væla fá allt upp í hendurnar tvær snertingar á móti LFC og tvö víti ! Vilti að ég fengi svona mikið af snertingum ? uss…..

  4. Sælir félagar

    Takk fyrir góða upphitun Daníel og ég er sammála þér um flest annað en markatöluna. Okkar menn setja 4 stykki og Bournemouth 1. Vona að Salah geri amk. helming markanna og Kane væli svo út eitt fyrir hann á mánudaginn.

    Það er nú þannig

    YNWA

  5. Þetta með þetta mark hans Mane er glórulaust, aldrei nein snerting þarna og í þokkabót er hann að stela marki af Eriksson. En Salah er alltaf að fara rúlla honum upp hvorteðer svo þetts breytir svo sem engu. En já bars vinna bournemouth og spái 5-0 Salah með þrennu og firmino 2.

Podcast – Man City afgreitt / Miðar á leiki

Roma var það – fyrri á Anfield!