Spádómar síðuhaldara 2017-2018

Rétt eins og undanfarin ár tóku kop.is meðlimir sig til áður en tímabilið hófst síðastliðið haust, og settu saman spá fyrir deildina (fyrri hluti og seinni hluti). Eins og lesendur e.t.v. muna spáðum við allir City titlinum, sem síðan gekk eftir. Restin gekk svo mjög svo misverr, t.d. vorum við allir í ruglinu hvað varðar gengi Burnley.

Eins og síðustu ár hef ég nú tekið saman tölfræði yfir niðurstöðurnar, og er þar að vinna út frá því hvert frávik spárinnar er fyrir sérhvert lið. Dæmi: við spáðum City í 1. sæti, og það var sætið sem City lenti í, svo þar er frávikið 0. Annað dæmi: samanlagt settum við Tottenham í 6. sæti, en liðið endaði í 3ja sæti, svo þar erum við með frávik upp á 3. Semsagt, því lægra frávik, þeim mun betra. Þessi tölfræði gerir ekki greinarmun á því hvort frávikið er upp (liðinu gekk betur en við reiknuðum með) eða niður (liðinu gekk verr).

Síðustu árin hefur frávikið verið eftirfarandi:

  • 2016-2017: 2.8
  • 2015-2016: 3.8
  • 2014-2015: 2.6
  • 2013-2014: 2.8
  • 2012-2013: 3.5
  • 2011-2012: 4.0
  • 2010-2011: 2.3
  • 2009-2010: 2.2
  • 2008-2009: 3.6

Og hvernig gekk okkur svo þetta árið? Jú, heildarniðurstaðan er frávik upp á 2.8 fyrir sameiginlegu spána. Semsagt, hefur bæði verið betri og verri. Fyrir þau ykkar sem vilja skoða gögnin nánar er hægt að skoða tölurnar hér.

Samkvæmt þessu er Hannes því mesti spámaður kop.is, með frávik upp á 2.5, en Maggi Beardsley kemur fast á hæla honum með 2.6 og Einar Matthías þar strax á eftir með 2.7. Það er jafnframt athyglisvert að Hannes náði 6 efstu sætunum 100% rétt. Ég held að við höfum allir spáð þessum hefðbundnu topp 6 liðum í efstu 6 sætunum, bara á mismunandi hátt, með einni undantekningu þar sem Everton var sett í 6. sætið og Arsenal í því sjöunda.

Það lið sem stríddi okkur mest var að sjálfsögðu Burnley. Samanlagt setti kop.is Burnley í 17. sætið, en lokaniðurstaðan var 7. sætið, sem þýðir frávik upp á 10 sæti. Þetta er reyndar alls ekki mesta frávik á milli spáar og lokaniðurstöðu, því metið er hjá Leicester 2015-2016, þegar liðinu var spáð í 17. sæti en endaði á því að vinna deildina. Ég efast um að við eigum eftir að toppa þetta frávik nokkurntímann, því það myndi annaðhvort þýða að lið sem við spáum í top 2 myndi falla, eða að lið sem við spáum falli endi á að vinna deildina. Samt, ég hefði líklega líka sagt að við myndum aldrei sjá frávik upp á 16 áður en Leicester ævintýrið gekk yfir.

Nokkur önnur lið reyndust okkur erfið. Flestir reiknuðum við með að Southampton yrði um miðja deild, en Dýrlingarnir enduðu svo á að rétt sleppa við fall. Stoke og WBA settum við í neðri hlutann, en þó á öruggu svæði. Þau féllu hins vegar bæði. Árangur nýliðanna var hins vegar betri en við reiknuðum með, Brighton og Huddersfield var báðum spáð beint niður aftur, en náðu hins vegar að halda sæti sínu í deildinni. Að lokum má líka minnast á West Ham, því flestir reiknuðum við með að West Ham yrði í “best of the rest” hópnum, en svo endaði liðið fyrir neðan miðju.

Hvað segir þetta okkur svo? Fyrir mér staðfestir þessi spá og lokaniðurstaðan bara það sem við höfum vitað í nokkurn tíma, og það er að deildin er tvískipt: top 6 annars vegar, og restin hins vegar. Það að Everton skyldi t.d. ná 2. sætinu í restardeildinni, þrátt fyrir að hafa í raun átt martraðartímabil (tveir stjórar reknir á tímabilinu: Koeman á miðju tímabili og Big Sam eftir að því lauk) segir kannski hvað það er erfitt fyrir öll hin liðin að hrófla eitthvað við top 6. Líklega sjáum við ekkert lið gera atlögu að efstu 6 til lengri tíma fyrr en næsta olíufurstalið kemur til sögunnar, hvert svo sem það verður. En hvað veit ég svosem, það er ekki eins og að mínir spádómar hafi náð neinum sérstökum hæðum…

Ég reikna svo með að taka saman tölfræði yfir það hvaða pistlahöfundar eiga besta árangurinn þegar kemur að upphitun og leikskýrslu. Einhverjir kunna e.t.v. að halda því fram að það hver skrifar leikskýrslu eða upphitun hafi engin áhrif á gengi liðsins, en við hlustum auðvitað ekki á svoleiðis vitleysinga. En sú samantekt kemur eftir síðasta leik tímabilsins. Það þarf ekkert að minna lesendur á hvaða leikur það er.

8 Comments

  1. Ég elska tölfræði og mér finnst æðislega gaman að sjá þetta. Þrátt fyrir sigur Leicester 2016 þá var aldrei við því búist að þar væri komið stabílt lið með atlögu að þessum sex efstu. Hvað Liverpool í deild varðar þá er liðið að fá stigi minna en tímabilið í fyrra, vinnur og tapar færri leikjum en í fyrra en skorar mun meira! Við eigum alvega að geta gert atlögu að sætum 1-3 á næsta ári, þrátt fyrir að fólk geri almennt ráð fyrir sigri City auðvitað. En … að fá fleiri stig í jafnari deild væri flott. Byrjum á því … eða klárum Real fyrst og sumarfríið (og eitthvað HM er það ekki??) og svo söfnum stigum 🙂

  2. Takk fyrir þetta. Manni finnst þetta alltaf í byrjun jafn sjálfsagt, eðlilegt , útskýranlegt og auðvelt en svo verður þetta í einu vettfangi, erfitt, óútskýranlegt og óeðlilegt . Sem betur fer eru það ekki líkur og tölfræði sem ráða öllu heldur líka þetta óútskýrða, heppni, dagsformið, veðrið, morgunmaturinn o.s.f.v. Það er það sem gerir þetta svo ótrúlega skemmtilegt.

  3. Fyrst við erum farnir að rýna svona mikið í tölfræði þá stendur ein spurning útúr hjá mér. Hvernig í fj#%* má það vera að Liverpool með allar sínar 5000 sóknir í vetur skyldi bara hafa fengið eina vítaspyrnu.

  4. Nabil Fekir að koma (99% líklegt) og Keita kemur eftir örfáar vikur. Þessir tveir gaurar eru eins og tveir litlir fellibylir á miðjunni. Vá hvað maður er spenntur fyrir næsta tímabili!

  5. Vá hvað ég fæ mikið Coutinho vibe frá Fekir. Þvílíkar hreyfingar.

  6. Aðeins að öðru, hvað var þjálfari Lazio að spá að spila De Vri á móti Inter. Leikur um meistaradeildarsæti og De Vri að ganga í raðir Inter eftir tímabilið. Hann gefur þeim víti á 78 mín og núna spila Inter í meistaradeildinni í stað Lazio.

  7. Gaman að þessari tölfræði hjá ykkur, hlakka til að sjá meira svona.

    En að allt öðru – er einhver sérstakur staður í Berlín sem Íslendingar og/eða poolarar koma saman til að horfa á Liverpool leiki? Verð staddur þar úti á sjálfan úrslitadaginn og vil að sjálfsögðu reyna að fá eins góða stemmningu og hægt er fyrst maður kemst ekki á leikinn sjálfan.

Zócalo í Tivoli

Kudos á klúbbinn