Tímamót hjá Chelsea?

Chelsea hefur verið töluvert um umræðu í þessari viku en útávið virkar félagið í töluverðri upplausn. Framtíð stjórans er mjög óljós, eigandinn færi ekki endurnýjað atvinnuleyfi á Englandi og leikmannaglugginn var misheppnaður. Er Roman að missa áhugann á liðinu er stóra spurningin og hvað gerist ef það er raunin? Tökum aðeins stöðuna á Chelsea undanfarin ár og berum saman við Liverpool.

Leikmannakaup

Líklega kemur það mörgum á óvart en það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að Chelsea hafi slakað á klónni á leikmannamarkaðnum í vetur, þvert á móti ef eitthvað er því nettó eyðsla var sú mesta í a.m.k. fimm ár. Þeir leikmenn sem komu á þessu tímabili voru einfaldlega ekki nógu góðir, sérstaklega ekki í samanburði við þá sem fóru.

Chelsea - Liverpool net

Ef við notumst við tölur af transfermarkt.com er nettó eyðsla í vetur £50m en Conte fékk inn leikmenn að andvirði £225m. Ágætis viðbót við lið sem voru meistarar fyrir og alls ekkert sem bendir til þess að Roman sé að slaka á klónni. Hinsvegar er samkeppnin orðin öllu meiri en hún var fyrstu árin eftir að Roman keypti Chelsea. Það eru fleiri lið sem geta keppt við þá um leikmenn núna en áður.

Morata, Bakayoko, Drinkwater og Rudiger kostuðu allir meira en £30m. Zappacosta, Emerson, Giroud og Barkley  bættust einnig við hópinn ásamt Andreas Christensen sem kom til baka úr 2 ára láni og fór í byrjunarliðið. Þeir sem fóru úr meistaraliðinu frá árinu á undan voru eiginlega bara Diego Costa og Matic ásamt auðvitað John Terry.

Conte virðist vera í baráttu innanhúss um meiri völd og sagan kennir okkur að slíkt endar bara á einn veg hjá Chelsea. Líklega var dýrt fyrir hann að lenda svo harkalega upp á kant við Costa að hann sat frekar hjá hálft tímabil en að spila meira fyrir Conte. Ósætti við David Luiz hefur ekki hjálpað heldur í vetur. Hvað þá að selja Matic til Man Utd. Aukið leikjaálag er einnig auðvitað risa factor í verra tímabili þeirra bláklæddu sem m.a. skilaði sér í því að þeir komust ekki í gegnum heilt tímabil án þess að missa byrjunarliðsmann í meiðsli líkt og árið á undan. Eins voru andstæðingar þeirra búnir að læra mun betur á 3-4-3 leikkerfið þeirra.

Chelsea hefur líkt og Liverpool undanfarin ár náð nokkrum rosalega góðum sölum á leikmönnum sem rétta nettó eyðsluna vel af. Þeir bæta eiginlega alltaf við vel rúmlega £100m af nýjum leikmönnum á hverju tímabili. Hópurinn hjá þeim er skv. transfermarket £718m virði. Liverpool er á móti talið vera £643m virði.

Liverpool

Á meðan Chelsea er að eyða £225m í nýja leikmenn og £50m nettó er Liverpool að taka annað tímabilið í röð í gróða á leikmannamarkaðnum. Eyðsla í vetur var £146,6m og helmingurinn af því er Van Dijk sem kom í janúar. Nettóeyðsla undanfarin tvö tímabil er +£5,7m. Þetta er eitthvað sem ætti að breytast all verulega í sumar enda líklegt að Liverpool styrki hópinn vel og selji engan af sínum verðmætustu leikmönnum.

Yfir fimm ára tímabil hefur Chelsea keypt leikmenn fyrir £150m meira en Liverpool en það munar aðeins £21,2m á nettóeyðslu liðanna þessi fimm tímabil.

Megnið af þessum leikmannagluggum voru gríðarleg sóun sem við erum að sjá betur og betur núna. Brendan Rodgers fékk fjögur sumur á leikmannamarkaðnum sem stjóri Liverpool og sem dæmi er vert að benda á að tveir síðustu leikmannagluggar sem koma út í plús eru undir stjórn Klopp.

Rodgers keypti 33 leikmenn, 30 sem voru fullorðnir og spiluðu með aðalliðinu. Daniel Sturridge hefur verið lengst af þeim hópi og fer í sumar ef við losnum við hann. Mignolet hefur verið næstlengst og fer líka ef við losnum við hann. Næst á eftir er Adam Lallana sem missti af öllu þessu tímabili vegna meiðsla og hefur verið meira og minna meiddur á tíma sínum hjá Liverpool. Emre Can er svo gott sem farinn og það frítt. Enginn af þeim á eftir að skilja eftir djúp spor í sögu félagsins. Dejan Lovren verður einn af örfáum lykilmönnum sem standa eftir frá tíð Rodgers. Origi og Moreno komu sama sumar og er framtíð þeirra beggja í mikilli óvissu.

Sumarið 2015 var Rodgers auðvitað stjóri Liverpool en það sumar var búið að hækka Michael Edwards í tign innan félagsins og hafði hann öllu meira um leikmannakaupin að segja en áður. Allir sem komu í þeim glugga eru ennþá á mála hjá Liverpool ennþá nema Benteke. Joe Gomez gætu reynst frábær kaup, Milner og Clyne hafa spilað stór hlutverk á meðan Ings hefur verið einstaklega óheppinn. Stjarnan í þessum hópi og bestu kaup Liverpool í tíð Rodgers er svo auðvitað Roberto Firmino.

Samtals kaupverð leikmanna Rodgers var £294m og söluverð £190m. Ef við tökum sumarið 2015 út úr jöfnunni þar sem Rodgers stýrði þeim leikmönnum aðeins í 10 leikjum eru þetta £206m í leikamannakaup í þemur gluggum og £114m í leikmannasölur.

Þetta var ekkert alveg afleitt á tíma Rodgers, salan á Coutinho er enn sem komið er reyndar eina alvöru tilvikið þar sem “Rodgers leikmaður ” hækkaði svona rosalega í verði. Rodgers hinsvegar virkar eins og kjáni á leikmannamarkaðnum í samanburði við Klopp. Flestir stjórar gera það reyndar.

Þegar Klopp tók við var ekki neinn leikmaður á mála hjá Liverpool sem við töldum vera í hinum svokallaða heimsklassa. Coutinho var næst því en verulega óstöðugur leikmaður. Núna er auðveldlega hægt að flokka Firmino í hæsta klassa. Klopp hefur svo bætt við (og bætt sem leikmenn) Sadio Mané, Mo Salah og Van Dijk sem allir eru í efsta þrepi í sínum stöðum. Keita og Fabinho hafa alla burði til að bæta sig eins hjá Liverpool. Andy Robertson er einn besti vinstri bakvörðurinn í boltanum á meðan Ox og Wijnaldum eru mjög sterkir.

Auðvitað er Klopp aðalatriði þegar kemur að því að fá þessa leikmenn og bæta þá. En með því að bera þetta saman er ekki hægt annað en blóta því að Edwards hafi ekki byrjað fyrir lifandis löngu að stjórna leikmannakaupum Liverpool.

Landvistarleyfi Roman Abramovich

Milliríkjadeilur breta og rússa eru auðvitað töluvert áhyggjuefni fyrir stuðningsmenn Chelsea og virðast vera farnar að hafa áhrif á viðskipti Abramovich enda er hann einn af nánustu vinum Putin.

Chelsea er með áform um að byggja nýjan 60.000 manna heimavöll sem skilar töluvert meiri tekjum heldur en Stamford Bridge gerir í dag. Þetta er nauðsynlegt næsta skref fyrir félagið. Abramovich setti þetta verkefni formlega á ís í þessari viku sem auðvitað setur allar viðvörunarbjöllur í gang. Hann fær á sama tíma ríkisborgararétt í Ísrael sem gerir honum a.m.k. kleyft að fara til London og vera þar í allt að sex mánuði í senn. Hann má samt ekki stunda viðskipti þar. Skiptir líklega engu máli enda flestir eigendur ensku liðanna með starfsemi sína erlendis. Roman hefur sést töluvert minna á vellinum í vetur en oft áður þannig að kannski er það merki um minni áhuga og/eða vegna vandræða með að komast inn í landið. Get þó ekki sagt að ég hafi mikla trú á því að hann hafi misst áhugann. Chelsea hefur skapað honum nafn á heimsvísu og líklega vill hann halda þeim profile.

Stjórinn

Eitthvað virðist hafa gengið á innan herbúða Chelsea í vetur og ljóst Conte er í sjóðandi heitu sæti. Magnað í raun að ekki sé ennþá búið að reka hann og þessi óvissa getur ekki hjálpað undirbúningi fyrir næsta tímabil. Edin Hazard er núna aftur að fara taka tímabil fyrir utan Meistaradeildina og hefur heimtað betri leikmenn í sumar. Courtois á bara 12 mánuði eftir að samningi og er núna orðaður í burtu frá Chelsea. Hann er ótrúlegt en satt aðeins 26 ára og rétt eins og Hazard leikmaður sem ætti alltaf að vera í Meistaradeildinni. Diego Luiz hlýtur að fara ef það er rétt að honum og Conte hafi lent saman í vetur.


Hvað sem öllu líður er ágætt fyrir Liverpool að eitt af topp sex liðunum sé í svona mikilli óvissu í sumar því staðan gæti ekki verið mikið frábrugðnari hjá Liverpool. Klopp hefur sýnt að hann veit upp á hár hvað hann vill og með kaupum á Fabinho er hann strax byrjaður að styrkja liðið verulega fyrir næsta tímabil.

Arsenal er auðvitað líka að skipta um stjóra, þeir geta ekki farið mikið neðar enda í sjötta sæti í sex liða hópi en á móti verður ekkert grín að taka við af Wenger. Manchester United er að fara inn í þriðja tímabil Jose Mourinho og ljóst að það er komin smá pressa á hann. Liðið er mjög sterkt og stigasöfnun í vetur var titilbaráttu form í venjulegu árferði en fótboltinn sem hann stendur fyrir er svo hrútleiðinlegur að flestir gefast upp á honum eftir einmitt þrjú tímabil. Reyndar er ekki rétt að tala bara um hversu leiðinlegur fótboltinn hans er, hann virkar sjálfur alveg drepleiðinlegur. Tökum kannski rúnt yfir þessa andstæðinga Liverpool seinna í sumar, nægan höfum við tímann svo mikið er víst.

16 Comments

  1. Sælir félagar

    Hvað er að frétta af Fekir? Sagt er að Klopp sé að ræða við umboðsmann hans. Vita menn eitthvað meira? Ég hefi mikinn áhuga á þeim strák.

    Það er nú þannig

    Ynwa

  2. Takk fyrir skrifin, drengir mínir, stjórnendur síðunnar.

  3. Hazard og Conte til Liverpool, einsog kemur fram hér á ofan ættu þeir að spila í meistaradeildinni.

  4. Joispoi #6 Ég þigg Hazard en Conte þarf vonandi að bíða í mörg ár áður en stóllinn losnar.

  5. Ef þetta er rétt með Mané þá nennir maður þessu ekki lengur. Southampton er feeder klúbbur til Liverpool og við feeder klúbbur til Real og Barca.

    Það er ekki hægt að byggja neitt upp ef stærstu kubbarnir eru alltaf fjarlægðir á hverju ári. JK kominn með fínan grunn og þá kemur þetta.

    Og Emre Can að auki. Ég gæti ælt.

  6. Þetta er bull og þvaður með Mané silly season í öllu sínu veldi. Við erum ekki að fara veikja liðið með að láta leikmann eins og hann fara. Þvert á móti munum við styrkjast á öllum sviðum.

  7. Trúi ekki orði um þetta með Mané, plús hann er fara fá vin sinn Keita í liðið 🙂

  8. #11 Má ekki kæra Ramos fyrir líkamsárás ?

    ég held það séu fordæmi fyrir því Skíturinn hann cantona var dæmdur fyrir árás á áhorfanda, ef hverju ekki svona brot, það er ekki hægt að lýsa þessu sem öðru en líkamsárás.

  9. Svona til að klára veturinn og bjarga sumrinu þá hef ég ákveðið að taka Karius aftur í sátt. YNWA Karius. Njóttu sumarsins og sannaðu þig næsta tímabil!

    Ekki þar með sagt að hann eigi að vera aðalmarkvörður næsta tímabil, en síður myndi ég vilja markvörð sem hefur e.t.v. ekkert áhuga á að vera hjá okkur. Er einhvern veginn þannig stemmdur að Liverpool á að vera markmið en ekki áfangastaður á leið til Spánar (eða Ítalíu sbr. Can).
    En ef rétt er að Karius var með heilahristing eftir Ramos þá á liðið að læra eina mikilvæga lexíu: Ef þú spilar á móti snákum þá verður þú bitinn. Það eiga að vera fyrirmæli fyrir leik að gera eins mikið og hægt er úr hverri snertingu, væla, grenja og liggja eins og dauður. Liðið að hópast á Ramos og dómarann og fyrirliðinn froðufellandi við dómarann. Jafnvel að liðið sætti sig við 2-3 spjöld í hefndartæklingar.

    Þetta er ekki fallegur bolti svona, en Real Madrid hefur náð skikkanlegum árangri með Ramos og þessum spilastíl.

  10. Ég væri til í að sjá okkur fara á eftir Xherdan Shaqiri sem fæst á 12 millur og væri flottur uppá breiddina í liðinu.

Podcast – Helvítis

Opinn þráður – Karius, slúður og Lijnders