Emre Can er mættur til Tórínó til að klára öll formsatriði áður en hann skrifar undir hjá Juventus. Hann kom sumarið 2014 og hefur undanfarin 1-2 ár neitað að skrifa undir nýjan samning hjá Liverpool þrátt fyrir að hafa nánast alltaf verið í byrjunarliðinu hjá Klopp þegar hann er leikfær.
Emre Can has landed in Turin! ?? pic.twitter.com/jCtxW6ZLlB
— JuventusFC (@juventusfcen) June 21, 2018
Juventus er auðvitað risaklúbbur sem fer jafnan langt í Meistaradeildinni og er með áskrift af titlinum heimafyrir en það er enginn að fara sannfæra mig um að ítalski boltinn og Juventus sé meira spennandi en það sem er í gangi hjá Liverpool núna undir stjórn landa Emre Can. Alls ekki hlautlaust mat en verði honum bara að vind og skít af því.
Seria A hentar Emre Can samt mun betur en Enska Úrvalsdeildin, það er ekki sami hraðinn og hjá Juventus fær hann mun fleiri leiki leiki sem eru töluvert ójafnari en gengur og gerist á Englandi. Lucas Leiva er ágætt dæmi um þetta enda hentaði hraðinn á Ítalíu honum töluvert betur en á Englandi. Samlíkingar á Can við Titanic þegar hann er að snúa sér voru stundum full nærri lagi.
Allan tíma Can hjá Liverpool hefur maður haft á tilfinningunni að þetta sé leikmaður sem er á barmi þess að springa út sem heimsklassa leikmaður og það er auðvitað mjög svekkjandi að missa hann á frjálsri sölu 24 ára eftir að hann hefur tekið út sinn þroska hjá Liverpool með tilheyrandi magni af mistökum og óstöðugleika. Samt held ég að ef Liverpool hefði ekki getað séð framtíðina fyrir sér án Emre Can þá væri hann ennþá leikmaður Liverpool. Eitthvað hafa borist fréttir af því að hann hafi ekki alveg tekið tilsögn þjálfarateymisins og væri ósáttur við hlutverk sitt hjá Liverpool. Liverpool var fyrir ári síðan búið að kaupa leikmann sem spilar nákvæmlega sömu stöðu og Klopp hefur verið nota Can í og byrjar þennan glugga á að bæta öðrum við sem líklega er töluvert betri en Can.
Fyrir mitt leiti er engin rosaleg eftirsjá af Can þó ég hafi alltaf haldið upp á þennan leikmann og haft trú á honum. Finnst þetta alveg magnað move hjá honum að neita að skrifa undir hjá Liverpool akkurat núna enda liðið með þýskan þjálfara og augljóslega á uppleið. Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar og sæti í Meistaradeild tvö ár í röð ágætis vísbending. Það er mjög gott að hann fari til Ítalíu en ekki í annað enskt lið eins og Man City eða United enda alltaf best að losna við þessa menn úr landi þegar þeir yfirgefa Liverpool.
Hlutverk Emre Can hefur aldrei verið nákvæmlega á hreinu á miðjunni hjá Liverpool, er þetta djúpur miðjumaður, er þetta box-to-box eða fremsti miðjumaður? Það er ljóst að þetta er ekki bakvörður en hann hefur leyst hlutverk aftast ágætlega í nokkrum leikjum, þá helst í þriggja manna vörn. Get alveg séð hann færast aftar seinna á ferlinum eða bara hjá Juve. Þeir sem koma í staðin eru alls ekki svona, Fabinho getur leyst nokkur hlutverk en þar er Liverpool fyrst og fremst að kaupa varnartengilið. Henderson gæti færst framar með komu Fabinho og eignað sér box-to-box hlutverkið sem er líklega hans besta staða. Keita er einnig miðjumaður sem auðvelt er að staðsetja á miðjunni og klárlega leikmaður sem ætti að vera Klopp að skapi, raunar er erfitt að finna leikmann sem er mikið meira “Klopp leikmaður” en Keita enda var lögð svívirðileg áhersla á að fá hann.
Emre Can vann ekkert á tíma sínum hjá Liverpool, liðið hefur undir stjórn FSG farið eins nálægt því að vinna allar keppnir sem í boði eru án þess að vinna þær, deild, báðar bikarkeppnir og báðar Evrópukeppnirnar. Á Ítalíu er Can klárlega að fara vinna einhverja titla en maður hefur enga sérstaka virðingu fyrir leikmönnum sem er ekki tilbúnir að hjálpa Liverpool að ná árangri sérstaklega þegar svona lítið vantar uppá, afhverju ætti maður að hafa það?
Hef ekkert þannig séð á móti Can þó hann ákveði að taka þetta skref núna en bæði held og vona að maður eigi ekki eftir að muna hann lengi sem leikmann Liverpool. Hann lagði sig samt alltaf fram þegar hann var í búningi Liverpool og kostaði félagið ekki mikið þó ekkert fáist fyrir hann núna.
Best finnst mér samt að sjá Liverpool núna kaupa 23-25 ára tilbúna miðjumenn í staðin fyrir Can sem kom 20 ára. Liverpool þarf tilbúna leikmenn í byrjunarliðið í stað þess að þróa aftur nýjan mann í 4-5 ár og missa svo á frjálsri sölu. Nóg er nú af ungum leikmönnum sem verið er að þróa hjá félaginu. Þetta sýnir kannski aðeins hversu stór skref Liverpool hefur tekið á tíma Can hjá félaginu.
Verði honum að góðu.
Ég er sammála að ég bjóst alltaf við því að hann myndi springa út en það hefur ekki gerst enn á þann máta og ég leyfi mér að efast um að hann verði mjög stórt nafn úr þessu. Sjálfsagt ágætis liðsmaður hjá Juventus samt.
Mér finnst nokkurn vegin það sama um þetta og þá leikmenn sem hafa verið að þvinga sölur til Spánar. Þeir sjá stóran klúbb sem vinnur marga bikara án nokkurrar fyrirhafnar og halda að það muni verða þeim að þakka þegar þeir koma þangað, sem er alrangt, þ.e.a.s. þeir taka auðveldu leiðina út, sýna eigin metnaðarleysi en fá sjálfsagt betra veður.
Flottur pistill og samála.
Ég fór aldrei á E.Can vagninn en fannst gott að hafa hjá Liverpool en hann varð aldrei lykilmaður hjá okkur eða ómissandi.
Hann er með marga góða hæfileika en hann er svona næstum því kall.
Sem varnarmiðjumaður: Líkamlega sterkur en alltof villtur og fór of oft úr stöðu. Var líka oft á tíðum of hægur gegn hröðum sóknarmönnum eða sóknarmiðjumönnum. Hann fékk svo brot af Lucas veiruni en það er að gefa heimskuleg brot rétt fyrir utan vítateig.
Sem Box to Box: Sóknarlega góður hann átti nokkra kraftmikla spretti upp völlinn en varnarlega fannst manni hann oft á tíðum of þungur og svifaseinn.
Sem sóknarmiðjumaður: Átti sína spretti en heilt yfir skapar ekki nóg og tók of mikið af röngum ákvörðunum þar sem hann var oft á tíðum meira að hugsa um að skapa fyrir sjálfan sig eða komast í skotfæri en að spila upp fyrir samherja sína. Hann býr yfir spengikrafti og góðu skotfóti sem nýttist vel en þessi sprengikraftur virkaði samt aðeins þegar hann sótti fram en ekki eins mikið þegar þurfti að hlaupa aftur.
Sem hægri bakvörður: Skelfilegur og átti í miklum vandræðum með hraða kanntara sem fóru oft framúr honum í stöðuni 1 á 1. Hann endaði á því að brjóta af sér aftur og aftur.
Sem einn af þremur öftustu: Þarna er staðan sem hentaði honum ágætlega ef hann er með hröðum miðverði með sér. Þarna fékk hann að taka oft boltan og var hann öruggur á boltanum.
E.Can verður aldrei Liverpool legend og hans verður ekki sárt saknað. Það er samt leiðinlegt að missa hann frítt eftir öll þessi ár og hefðu Liverpool átt að vera klókir og gera svona Keita díl þegar þeir fundu að hann var ekki að fara að semja við okkur.
Can er mjög góður leikmaður og vissulega er eftirsjá af honum. Ég óska honum alls hins besta. Svona er bara fótboltaveruleikinn. Milner og Matip komu á frjálsri sölu til okkar og því má ekki búast við öðru en það sama gerist hjá okkur líka.
Henderson er box to box miðjumaður að upplagi og var færður aftar á völlinn og með tilkomu Fabinho er hægt að færa hann aftur í box to box stöðu, sem ætti að henta honum miklu betur og með því að fá Keita er okkar besta byrjunarlið orðið rosalega sterkt.
Mane, Firmino, Salah
Keita, Fabinho, Henderson.
Robertson, Van Dijk, Lovren, Keita.
Karius.
Uppfæringin á miðjunni er rosaleg. Henderson var með betri mönnum þegar Liverpool varð næstum því Englandsmeistari og hljóp á við þrjá í hverjum einasta leik. Með því að fá hann og Keita við hlið Fabinho, þýðir að hraðinn verður rosalega mikill á miðjunni og Klopp kemst miklu nær þeim fótbolta sem hann vill að liðið hans spili.
Ég held að mat þitt sé rétt. Can hefur líklega ekki fengið loforð um lykilhlutverk og vissi að Liverpool vildi styrkja sig á miðsvæðinu og því hefur hann ákveðið að fara.
En vandinn er ennþá sá sami og í fyrra. Besta ellefu manna byrjunarliðið okkar er á við þau bestu í Evrópu en það vantar að minnsta kosti tvo til þrjá leikmenn til að auka breiddina í liðinu. Eina svæðið sem ég sé að er hægt að bæta svo um munar er makmannsstaðan en raunsætt séð var Karius búinn að vera frábær í vetur þar til kom að úrslitaleik Evrópudeildarinnar og vil ég miklu frekar halda í hann heldur en Mignolet.
Ég held að samningaviðræður séu enn í gangi við Fekir og svo finnst mér sárlega vanta annan hraðan vængmann sem, getur leyst Salah eða Mane af. Vörnin hefur verið mjög góð með tilkomu Van Dijk og það er enginn ástæða að kaupa miðvörð nema að hann er mun betri heldur en Matip og Lovren en ég held að þeir séu ekki margir sem eru í boði.
Þetta er allt á réttri leið og vonandi fáum við einhvern glaðning að lokinni heimsmeistarakeppninni.
Ég vil ekki vera með leiðindi en það eru fyrst og fremst Englendingar sem kalla Tórínó Turin.
– LEIÐRÉTT
Emre Can er þýskur tyrki sem hefur staðið sig vel en er ekki ómissandi. Mér skilst að hann hafi haft aðrar hugmyndir um hvar hann ætti að spila en þjálfarateymið. Ekki virðist hann vera að hækka neitt í launum hjá gömlu kerlingunni í Tórinó. Hefur kannski fengið nokkrar kúlur í sign on fee en það hefði kannski verið betra að selja hann á 10 kúlur fyrir tímabilið og fá eitthvað.
Það væri geggjað að vera með þeim í riðli i CL næsta season.
Tja, hvað er hægt að segja. Vann enga titla með LFC. Segir það ekki bara alla söguna.
Ég vil bara óska Can til hamingju með þessi felagsskipti og óska vonum góðs gengis hjá sínum nýja klúbb.
Skil kallinn.
2 milljarðar í vasann í flutningsbónus.
Betra veður, fallegra kvenfólk.
Þjónustaði okkur ágætlega en dró ekki að sér titlana.
Gerði ekki útslagið.
Næsta mál.
YNWA
Græt hann ekkert . Ágætur leikmaður en ekki meira.Fáum betri í staðinn.
Sagan segir líka að hann sé að fá 200-220 þúsund punda í vikulaun , engin furða að Liverpool hafi ekki vljað bjóða honum það, við skulum átta okkur á því að hann er EKKI í landsliðsklassa, ennþá ! Enn einn leikmaðurinn sem eltir aurinn
Ánægður að þessum kafla sé loksins lokið. Klopp reyndi allt til að fá hann til að skrifa undir en síðustu mánuðina fékk maður það á tilfinnunguna að hann hékk þarna inni bara til að vera varaskeifa vegna meiðsla annarra leikmanna. Hefðum við fengið Keita og VVD síðasta sumar hefði hann verið seldur, hugsanlega. Mín tillfinning allavega. Sé ekkert eftir honum. Og óska honum ekkert sérstaklega velfarnaðar. Þetta er bara svona meh leikmaður. Held við verðum fljótir að gleyma honum eftir að Fabinio og Keita slátra miðjunni næsta vetur.
Adios E. Can.
Smá þráðrán…
…en þvílíki krafturinn í Króötum og Dejan Lovren eins og kóngur í vörninni!
Clean sheet í báðum leikjum!
Rakitic til LFC — ekki séns fyrir hann að snúa aftur til Camp Nou eftir að þeir auðmýktu Messi og Co. Það væri ágætt ef Fekir kemur ekki 🙂
Milner 40 ára búinn að leggja skóna á hilluna er betri leikmaður en E.Can
Sælir félagar
Ég var á Emre vagninum á sínum tíma og fannst hann alltaf vera við það að verða klassaleikmaður sem mundi verða liðinu dýrmætur. Hann hefur brugðist mér og öðrum sem studdu hann og vörðu. Hann má fara til ands . . . fyrir mér núna. Maður sem hefur haft traust stuðningsmanna og svíkur þá og liðið fyrir aura og einhverja titla? má gfara til fjandans mín vegna. Ég vil ekki menn sem ekki eru trúir liðinu og stuðningsmönnum.
Það er nú þannig
YNWA
Sigkarl aurar og titlar heilla alltaf.
Ég sé ekkert að því að elta aurinn ætli við gerum það ekki öll ef við höfum kost á því.
Voru menn að horfa á Sviss í kvöld?
Shaqiri var frábær í seinni hálfleik!
Frábær squad player fyrir okkur imo
Eftir að ég horfði á þáttinn um Juventus á Netflix þá verð ég að segjað Liverpool er miklu stærri klubbur og miklu betra lið.
Heldur betur headlines í dag.
Fyrst Jose, berst við heilaæxli. Baráttukveðjur YNWA.
Risatilboð í Asensio. Já takk.
Fekir enn mögulegur.
Sumarið er tíminn.
YNWA
Emre var fínasti liðsmaður sem gaf allt í þá leiki sem hann spilaði. Juve borgar honum að sögn 2 milljarða fyrir að skrifa undir samning. Frábært hjá Emre að ná þannig samning og ég vona að honum gangi vel hjá nýjum klúbbi. Svona er bara fótboltinn og allt tal um að menn eigi ekki að vera að elta peninga eða titla (?) hlýtur þá að eiga líka við um leikmenn sem LFC er að fá í sínar raðir. Hvað er Keita að spá að elta peninga og kannski titla til Englands í stað þess að halda tryggð við RB Leibzig? Af hverju eru ekki bara allir leikmenn hjá sínum liðum út sína ferla?
,,Jose Enrique, fyrrum leikmaður Liverpool er að jafna sig eftir aðgerð þar sem æxli var fjarlægt úr heila hans”
Eg vil senda Jose og fjölskylda mínar bestu óskir um góðan bata.
YNWA.?
Þetta átti að vera hjarta en ekki spurningarmerki þarna a eftir YNWA
Framkvstj Lyon vill meiri pening fyrir Fekir… surprise surprise….vonandi kaupum við hann ekki.
Leiðinlegt að sja suma ykkar tala um Emre Can. Algjör fagmaður og vildi líklegast bara fara því hann telur að hraðinn í ítalska boltanum henti honum betur.. Hann gaf allt í hvern einasta leik þótt hann vissi fyrir löngu að hann væri að fara um sumarið og fagnaði eins og vitleysingur þegar hann skoraði. Leiðinlegt að missa hann því held hann finni sína réttu stöðu á miðjunni og læri betur að nýta hæfileikana sína eftir 1-2 ár en ég óska honum alls hins besta.
Svona fyrir utan það þá getur vel verið að hann vilji fara fyrir helling af auka pening, miklu betra veður, fallegri staði, betri mat og fallegra kvenfólk og hverjum er þá ekki drullusama, mundu allir gera það sama nema þeir hafi verið Liverpool stuðningsmenn alla sína ævi og engin ástæða fyrir okkur að væla yfir því ef hann gerir það með virðingu fyrir klúbbnum og reynir alltaf sitt besta.
leiðinlegt að hann villji fara en hann gengur samt ekkert einn…
#18, varla þarftu að horfa á enhvern þátt til að átta þig á að stæðsta félag evrópu er stærra en lið á ítaliu.
Og er þá ekki loksins hægt að hætta að skrifa fréttir um að Can sé á leið til juventus, hef séð svona um 300 fréttir þess efnis síðustu 6 mánuði…..búið…case closed….on to the next one
Keita er lentur! Fer ekki þetta H&M drasl að hætta bráðum!?!
Emri Can er góður leikmaður, en ég skil hann vel því hann hefur metið það svo að hann fái fá tækifæri með Liverpool í vetur og böns af moooney. Liverpool virðist vera að sánka að sér miðjumönnum og ég skil ekki hvað þeir ætla að gera við þá alla því ungir strákar munu ekki fá það tækifæri sem þeir þarfnast til að verða betri. Ég vona að þeir kaupi ekki fleiri heldur gefi ungum strákum tækifæri til að vera ekki bara efnilegir heldur súper leikmenn og get ég nefnt marga. Ég vona að við kaupum súpermarkmann í staðinn því lið getur ekki unnið neitt nema með frábæra markmenn.
Sakna Can ekki neitt. Var spenntur að fá Þjóðverja í liðið á sínum tima en Can stóðst ekki væntingar mínar. Skil ekki afhverju hann fekk að spila úrslitaleikinn þrátt fyrir manneklu. Hann var aldrei að fara að breyta neinu. Hefði alltaf viljað sjá einhvern efnilegan kom inn, einhvern framtíðar leikmann en ekki leikmann sem var löngu farinn i Juve. Virði alveg ákvörðun Can og vona hann blómstri ekki en hafi það ágætt. Fannst bara salt i sárið að sjá hann koma inn á í úrslitaleiknum.