Vandræðastaðan

Það er óhætt að segja það að síðustu árin (áratugina) hefur vinstri bakvarðarstaðan hjá Liverpool verið ansi veikur hlekkur hjá liðinu. Djimi Traore var til að mynda í þessari stöðu þegar við tókum titilinn fræga í Istanbul 2005. Með fullri virðingu fyrir þeim ágæta dreng, þá hefði hann ekki komist í hóp hjá sterkustu liðum í Evrópu síðustu árin. Þetta er búin að vera þvílík eyðimerkurganga að meira að segja John Arne Riise stendur uppúr þegar horft er tilbaka, það er að mestu leiti vegna frábærs marks sem hann skoraði gegn Man.Utd á sínum tíma en ekki fyrir snilldartakta í vinstri bakvarðarstöðunni. Ég hef gengið svo langt að tala um að þessi staða hefur ekki verið vel mönnuð síðan Alan Kennedy hætti, það eru komin 32 ár síðan það gerðist. Þetta er í rauninni ótrúlegt miðað við alla þá leikmenn sem hafa spilað með liðinu þennan tíma og fjölda bakvarða sem hafa spilað stöðuna. Tilefni þessa pistils er einmitt það að loksins virðist þessi vandræðastaða vera orðin vel mönnuð hjá liðinu. Andy Robertson er líklegast það besta sem við höfum haft síðan Kennedy var og hét og í ofanálag þá er hann með öflugt backup í Moreno, sem heldur honum vel við efnið. En kíkjum aðeins á hvernig þessi staða hefur verið mönnuð í gegnum tíðina síðan meistari Alan yfirgaf sviðið:

Steve Nicol
Steve var frábær bakvörður en spilaði oftast hægra megin og telst því varla með í þessari upptalningu. Hann spilaði afar margar stöður á vellinum, í raun þar sem vantaði. Frábær leikmaður en telst þó ekki stórkostlegur í vinstri bakvarðarstöðunni.

Jim Beglin
Kappinn þessi var vel sprækur og lofaði góðu. Ferill hans var þó styttur verulega í annan endann þegar hann fótbrotnaði mjög illa í skelfilegri tæklingu frá Gary nokkrum Stevens, leikmanni Everton. Þegar hann var klár eftir þau meiðsli, þá lenti hann í erfiðum hnémeiðslum. Ferill hans fór því aldrei á það flug sem búist var við.

David Burrows
Borrows blessaður var einn af þessum næstumþví leikmönnum. Slatti potential, en naut góðs af því að vera í afar sterku liði, ágætlega traustur, en ekkert frábær, hvorki varnarlega né sóknarlega.

Gary Ablett
Gary var lurkur, stór og stæðilegur og var fyrst og fremst sterkur varnarlega. Hann náði aldrei að festa sig í sessi til lengri tíma, til þess skorti hann ákveðin gæði, sér í lagi sóknarlega.

Steve Staunton
Steve var alveg bráðefnilegur á sínum tíma og menn töldu að þarna væri loksins verið að ná að fylla þessa vandræðastöðu. Hann var orðinn fastamaður í liðinu og bætti sig stöðugt og það kom því mikið á óvart á sínum tíma þegar hann var seldur frá félaginu til Aston Villa. Margir hugsuðu Souness þegjandi þörfina þegar hann lét hann fara. Hann kom reyndar aftur til Liverpool nokkrum árum seinna, en ferill hans komst aldrei aftur á flug.

Julian Dicks
Ja hvað skal segja um Dicks. Harðhaus sem var afskaplega laus við að geta eitthvað í fótbolta. Eini listinn sem hann kemst hátt á er listi yfir verstu kaupin í gegnum tíðina.

Stig Inge Björnebye
Stig Inge var fyrstur í Norsku byltingunni. Hann var líka skástur af henni. Hann var svo sem ekkert al slæmur, en hann var heldur ekki í nægilega háum klassa til að berjast um titla. Duglegur og allt það, en það er ekki alltaf nóg. Félagi hans Oyvind var til að mynda afar duglegur, en það mátti helst ekki senda boltann til hans.

Steve Harkness
Steve náði aldrei að brjótast almennilega í gegn, hann var svona í og við hópinn og aldrei nægilega góður til að festa sig í honum.

Dominic Matteo
Dominic færði sig í miðvörðinn þegar leið á ferilinn og var í rauninni miklu sterkari sem slíkur. Var aldrei nálægt því að vera góður í vinstri bakvarðarstöðunni.

Christian Ziege
Það sem maður batt vonir við þennan dreng. Hafði svo sannarlega talent og þetta voru risa kaup á sínum tíma. Hann bara náði einhvern veginn aldrei alvöru flugi með Liverpool. Einhver hegðunarvandamál spiluðu eitthvað þar inní.

Jamie Carragher
Vinstri bakvarðarstaðan er langt því frá að vera sterkasta staðan hjá Jamie. Hann skilaði henni engu að síður ágætlega frá sér, en það var meira svona til að hjálpa liðinu fremur en að menn hafi talið einhverja framtíð í honum í þeirri stöðu. Hann spilaði engu að síður oft í þessari stöðu i byrjun ferils síns.

Fabio Aurelio
Fabio er líklegast sá hæfileikaríkasti af öllum þessum vinstri bakvörðum sem spilað hafa með félaginu síðustu áratugina. Það skorti svo sannarlega ekki talent, en því miður var hann þjakaður af meiðslum og náði aldrei að stimpla sig inn á þann hátt sem hann hefði getað gert.

John Arne Riise
Stór furðulegt eintak. Skoraði þetta líka markið gegn Man.Utd. en eftir það rotaði hann reglulega fólkið í röð 89 með sínum rosalegu skotum. Einhverjir tala ennþá um hann sem virkilega góðan vinstri bakvörð, en ég verð bara að fá að vera fullkomlega ósammála því. Veikur hlekkur í Liverpool liðinu og ég held að menn hafi fyrst og fremst hugsað til þessa fræga marks.

Gregory Vignal
Líklegast frægastur fyrir sinn þátt í markinu góða hjá Gary Macca gegn Everton. Var óþekktur þegar hann kom, náði engum hæðum og hvarf svo bara.

Stephen Warnock
Uppalinn strákur sem var álíka látið með eins og Stevie G á sínum tíma. Lenti í mjög erfiðum meiðslum ungur að árum og náði sér aldrei á það flug sem menn bjuggust við. Hæfileikaríkur og með margt til að bera, en því miður náði hann ekki að verða sá leikmaður sem menn vonuðust til.

Djimi Traore
Var fenginn til liðsins sem miðvörður, en spilaði oftast sem vinstri bakvörður. Stór, klaufskur og náði aldrei að springa almennilega út. Hann vann þó Meistaradeild Evrópu 2005. Það reyndar átti að skipta honum út í hálfleik, eftir hörmulegan fyrri hálfleik. Við þurfum ekkert að fara nánar út í þessa sálma og ég held að hann gleymi þessu seint blessaður.

Álvaro Arbeloa
Arbeloa var fyrst og síðast öflugur varnarmaður og hægri bakvarðarstaðan var hans aðal staða. Hann var þó oft notaður vinstra megin og skilaði því oftast með mikilli prýði. Telst samt ekki með þeim bestu þar.

Emiliano Insúa
Insúa var efnilegur í 45 ár og varð bara aldrei neitt meira en það. Stuðningsmenn Liverpool öskruðu eftir að fá hann í liðið eftir að hafa spilað afar vel með varaliðinu, en það vantaði alltaf helling uppá að hann myndi slá í gegn.

Jose Enrique
Eftir að hafa verið frábær hjá Newcastle, þá var Jose keyptur til Liverpool. Hann er nú samt líklegast þekktastur hjá stuðningsmönnum Liverpool fyrir að vera bestur í að spila FIFA tölvuleikinn. Hann átti sína spretti inni á vellinum en náði aldrei að verða verulega góður.

Aly Cissokho
Nú verð ég að passa mig, Einar Matthías er mjög fljótur upp þegar nafn Aly ber á góma. Mun fljótari en Aly var í sínum sprettum. Í mínum huga er Aly alltaf maðurinn sem féll á læknisskoðun hjá AC Milan vegna lélegrar tannhirðu.

Andrea Dossena
Living Legend, þannig er það bara. Skoraði síðasta markið í stórsigrum gegn Man.Utd og Real Madrid í sömu vikunni, geri aðrir betur. Annað var það ekki frá Andrea.

Paul Konchesky
Þegar þú ákveður að ganga í hjónaband með ákveðinum manni, þá veistu það að sonur hans fylgir með, sama hversu leiðinlegur hann er. Takk fyrir ekkert Roy.

Jack Robinson
Var lengi efnilegur, hætti að vera efnilegur, spilar í dag með QPR.

Brad Smith
Náði aldrei að brjóta sér leið í aðalliðið, seldur til Bournemouth og fær fá tækifæri þar.

Jon Flanagan
Átti eitt frábært tímabil hjá félaginu. Er í rauninni hægri bakvörður en spilaði best vinstra megin. Meiðsli hafa farið afar illa með hann. Stevie G var að taka hann til sín til Rangers.

James Milner
Miðjumaður sem leysti heilt tímabil í vinstri bakverðinu og gerði það bara nokkuð vel. Hann er samt miðjumaður.

Alberto Moreno
Alberto ef afar mistækur leikmaður, en góður í þessari stöðu sem hann er núna. Góður í hóp og getur átt frábæra leiki. Ef hann er til í að vera áfram í því hlutverki að vera squad player, þá bara flott mál. Viðheldur góðri pressu á Andy Robertson.

Eins og sjá má á þessari upptalningu, þá hefur þetta verið ansi hreint skrautlegt í gegnum árin. Sumir hafa komið inn og vakið upp vonir og væntingar, en í nánast öllum tilvikum þá hafa vonbrigðin orðið ofaná. Margir þessara leikmanna lofuðu góðu. Eitt gott tímabil er jú eitt gott tímabil, en til að verða talinn alvöru vinstri bakvörður, þá þarf meira en það. Andy Robertson var verulega góður á síðasta tímabili, það besta sem ég hef séð síðan Steve Staunton (fyrra skiptið) og Aurelio. Vonandi heldur hann uppteknum hætti því við megum svo sannarlega við því að þessi staða hætti að verða þessi vandræðastaða sem hún hefur verið öll þessi ár.

Andy, yfir til þín.

15 Comments

  1. Sælir félagar

    Skemmtileg yfirferð SSteinn og svei mér þá ef ág man ekki eftir öllum þessum snillingum(?!?) sem þú telur upp þarna. Þessi yfirferð segir svo sem ekki neitt en það má alveg skemmta sér líka finnst mér að minnsta kosti. 🙂

    Það er nú þannig

    YNWA

  2. Já þetta hefur verið vandræða staða en ekki alltaf veikleikastaða því að sumir stjórar lögðu meiri áherslu á vörn en sókn.

    Steve Nicol var að mínu mati frábær vinstri bakvörður. Það breytti engu í hvaða stöðu þessi maður fór í á sínum tíma hann skilaði þeim frábærlega frá sér og var vinstri bakvarðastaðan engin undantekning. Góður að verjast, góður í að spila boltanum, kraftur í honum og tók vel þátt í sóknarleik liðsins.

    Arbeloa spilaði slatta af leikjum í V-Bakverði og skilaði því mjög vel því að stjórinn hans Benitez vildi númer 1,2 og 3 fá sterkan varnamann þarna og sóknarleikur var bara aukaatriði.

    John Arne Riise – Hann stóð fyrir sínu hann spilaði 238 leiki fyrir Liverpool og taldi bæði Houllier og Benitez vera not fyrir hann á sínum tíma(og eru það helvíti góð meðmæli). Hann var aldrei heimsklassa vinstri bakvörður en uppá sitt besta hjá liverpool (c.a 3 tímabil) þá var hann góður. Hans helsti kostur var krafturinn og þolið fram og tilbaka upp kanntinn. Það var stundum eins og við værum einum fleiri með þennan kappa innanborðs. Hann var langt í frá einum af mínum uppáhalds en hann var vel nothæfur og kemur 2005 tímabilið fyrst upp í huga.

    Stig Inge Björnebye vá þessi maður gat sent boltan og er líklega einn besti sendingarmaðurinn sem við höfum haft í vinstri bakverði en tæknilega var hann góður. Það sem varð honum að falli var að hann var svo misjafn varnarlega og það var erfitt að treysta á hann þeim megin á vellinum sem er pínu slæmt ef þú er varnarmaður.

    Steve Staunton – við vorum með vinstri bakvörð sem hefði getað eignað sér þessa stöðu en við létum hann fara frá okkur og A.Villa sögðu bara takk fyrir þar sem hann átti eftir að eiga nokkur frábær tímabil.

    Þetta er staða sem vonandi getur Robertson eignað sér og búið til smá stöðuleika en ætli þetta sé ekki sú staða í sögu Liverpool sem hefur verið erfiðast að manna.

    p.s takk fyrri skemmtilegan pistil

  3. Mögnuð yfirferð SSteinn! Það er með ólíkindum hversu margir sérfræðingar hafa verið í þessari stöðu undanfarin ár.

  4. Þú gætir næstum því sett Rob Jones í þessa upptalningu. Hann leysti þessa stöðu nokkuð lengi þegar Jason McAteer var hægra megin í 5-3-2 kerfi Roy Evans. Var auðvitað miklu betri hægra megin.

  5. Takk fyrir þetta fróðlega yfirlit. Vandræðastaða segiru en þó hefur oft á tíðum ræst úr því sem liðið hefur notað. Björneby var alltaf í svolitlu uppáhaldi og var hann alveg sæmilegur á svona hálfgerðu niðurlægingarskeiði hjá félaginu, J Riise var alveg sæmilegur og virkilega skotfastur, Milner duglegur og oftast góður, Enriuqe mög góður fyrir meiðsli, Moreno góður á köflum og svo má telja. Kannski má segja um þessa vandræðastöðu að það vanti nýjan Kennedy sem á stöðuna í tæpan áratug og spilar jafna og stöðuga leiki. Margir þeirra sem farið hafa í stöðuna eru ekki bakverðir að upplagi eða nýtast betur annars staðar. Auðvitað er gott að hafa fjölhæfa leikmenn sem geta spilað margar stöður án þess að verða sér til skammar og þarf að hafa Milner eða Birki Bjarna týpur í flestum liðum.

  6. Snilldar skrif King Steini, elska þessa siðu svo mikið þið eruð stútt fullir af visku og ég vill þakka ykkur fyrir að hafa frætt mig og auðveldað mér allt í sambandi við Liverpool Fc

    Ps. Mættuð þruma í hlaðvarp haha

  7. Það var mikil eftirsjá af Álvaro Arbeloa á sínum tíma. Eins og þú segir, öflugur varnarmaður. Langði sig fram og var team player þó Fowler gæti haft eitthvað um það að segja….

  8. Næsti þjálfari Die Mannschaft..?

    vooooonand ekki okkar maður ….

  9. Þið eruð að gleyma steve finnan var frábær i left back 1 tímabil frábæri vörn sem innihélt babel hypija hencos og finnan

  10. Hérna, einhver smuga að kaupa þennan Mbappe dúdda? Hann virðist vera þolanlegur í tuðrusparkinu.

Uppgjör 2017/2018

Æfingahópur í upphafi tímabils