Æfingaleikur: Liverpool 3 – 1 Torino

Í kvöld mættust Liverpool og Torino á Anfield, í síðasta æfingaleik þessa undirbúningstímabils. Leikurinn endaði með nokkuð öruggum 3-1 sigri okkar manna.

Byrjunarliðið var skipað eftirfarandi leikmönnum:

Alisson

TAA – Phillips – Van Dijk – Moreno (c)

Keita – Fabinho – Winjaldum

Salah – Firmino – Mané

Það fyrsta verulega markverða í leiknum var víti sem var dæmt á Torino vörnina þegar Mané var kominn í færi. Merkilegt nokk féll hann ekki við brotið, heldur reyndi að skjóta, en dómarinn gerði vel og dæmdi á þetta. Slíkt mætti sjást mun oftar. Fabinho fór á punktinn, hann þykir víst mjög örugg vítaskytta, en auðvitað tókst honum að klúðra sínu fyrsta víti fyrir Liverpool með því að skjóta framhjá.

Það var Firmino sem átti fyrsta markið eftir gott upphlaup fremstu þriggja. Winjaldum skoraði svo eftir góða stungusendingu frá Salah, en rétt fyrir hlé náðu Torino menn að lauma einu marki inn, mögulega hefðu Moreno og Nat Phillips átt að gera aðeins betur þar. Staðan 2-1 í hálfleik.

Í síðari hálfleik var byrjað á að skipta út megninu af liðinu, inná komu Sturridge, Ings, Shaqiri, Jones, Grujic, Robertson og Clyne (og er ég að gleyma einhverjum?), og síðar eða jafnvel undir lok leiksins komu Henderson, Karius, Camacho og Johnston inná. Sturridge virkaði frískur og alltaf hættulegur, og hann skoraði eina mark þessa hálfleiks eftir góðan undirbúning frá Shaqiri sem aftur fékk góða sendingu frá Henderson. 3-1 varð lokaniðurstaðan.

Liðið sem spilaði í fyrri hálfleik var nú öllu sterkara heldur en það sem tók síðari hálfleikinn, en bæði lið spiluðu þó ágætlega. Líklega munum við sjá svipað lið mæta West Ham á sunnudaginn eins og byrjaði í dag, líklega þó þannig að Robertson komi inn fyrir Moreno, og jafnvel að Clyne byrji í hægri bakverði.

Það sem er kannski mesta áhyggjuefnið eru miðvarðarstöðurnar. Unglingurinn Nat Phillips spilaði nánast allan leikinn í dag, og það var í raun enginn miðvörður á bekknum, þannig að Fabinho fór í miðvörðinn eftir að Van Dijk fór út af, og svo Grujic þegar Fabinho fór út af. Klavan, Matip og Gomez voru allir að glíma við eitthvað hjask, og Lovren er auðvitað bara nýmættur og tæpast kominn í leikform. Þetta er því klárlega sú staða sem maður myndi hvað helst vilja sjá styrkta fyrir lok gluggans, en Klopp þvertók a.m.k. ekki fyrir það að eitthvað gerist á næstu tveim dögum. Persónulega er ég ekki of bjartsýnn.

Það voru nokkrir leikmenn sem komu ekki við sögu. Milner er enn að jafna sig af Harry Potter meiðslunum síðan um helgina, Ojo og Chirivella gætu farið á lán eða verið seldir, sama gildir um Markovic, og Ox er jú ennþá meiddur. Mignolet nýmættur, og Grabara og Kelleher komu ekki inná en voru á bekk. Það er síðan jákvætt að Henderson er víst búinn að æfa í fríinu og er því í ágætis standi, og gæti alveg komið við sögu í leiknum á sunnudaginn.

Semsagt, næst er það bara fyrsti leikurinn í deildinni þetta tímabilið, og ég er nokk viss um að það verður rætt í podcastinu sem dettur inn öðru hvoru megin við miðnættið.

2 Comments

  1. Lovren ekki kominn í leikform? Núna spyr ég bara eins og fíbbl þar sem ég veit ekki betur, datt hann einhvertímann úr leikformi? Í mínum huga þá ætti hann að vera bara klár í tímabilið.

    Sjálfsagt þurfa þessir gæjar auðvitað hvíld og mögulega öðruvísi æfingar til að búa sig undir öðruvísi átök eftir HM. Væri samt óskandi að Lovren væri bara klár í fyrsta leik.

    Góðara stundir drengir.

  2. Smá leiðrétting stungusendingin var frá Firmino ekki Salah. Annars bara góður og hlakka mikið til 12. ágúst.

Dómaravæl?

Podcast – Þetta byrjaði allt í Porto