Liverpool – Man City 0-0

Liverpool byrjaði af krafti fyrstu mínúturnar. Salah átti skot sem fór rétt framhjá nærstönginni. Örfáum mínútum síðar komst Mané upp kanntinn eftir sendingu frá Robertson en Mendy var mættur á fjærstöngina og bjargaði. Eftir þetta gerðist lítið. Gomez kom okkur jú í smá vandræði með lélegri hreinsun sem barst til Aguero, Lovren kom hratt í hann og Aguero féll. Gestirnir vildu fá víti, ég hefði eflaust heimtað það einnig ef dæminu væri snúið við en snertingin var ekki mikil þegar maður sá þetta í annarri eða þriðju endursýningu.

Bæði lið voru dugleg að loka öllum sendingarleiðum þannig að lítið var að gerast utan sendingar á milli öftustu manna þar til að menn náðu að spila upp á sóknarmann sem þá var umkringdur 2-3 mönnum. Milner varð fyrir meiðslum á ~30 mínútu og Keita kom inn. Lítið annars hægt að segja um afar varkáran fyrri hálfleik hjá báðum liðum.

Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn betur, voru um 70% með boltann fyrsta korterið eða svo og voru loksins að ná upp alvöru pressu og vinna boltann á hættulegum stöðum án þess að skapa sér þó einhver almennileg færi.

Van Dijk fékk boltann í höndina eftir hornspyrnu á 60 mínútu. Dómarinn var þó búinn að dæma aukaspyrnu á Fernandinho sem stökk upp með honum. Það var svo í næstu sókn sem að City fékk sitt besta færi það sem af var leiks, Mahrez komst einn í gegn vinstra megin en skot úr frekar þröngu færi fór framhjá.

Salah fékk ágætis færi á 68 mínútu eftir að hafa komist framfyrir Laporte eftir langa sendingu Robertson en skot hans fór langt yfir.

Á 72 mínútu gerði Liverpool breytingu, Firmino, sem hafði verið óvenju rólegur, fór útaf í stað Sturridge,annars gerðist lítið næstu 10 mínúturnar eða svo þar til að Van Dijk gerðist sekur um glórulaust brot á Sané og dómarinn dæmdi réttilega víti (að mínu mati). Mahrez steig upp en skaut boltanum yfir, slök spyrna og Liverpool slapp með skrekkinn og því ekki enn búið að fá á sig mark í deildinni síðan í febrúar!

Liverpool pressaði meira síðustu 10 mínúturnar eða svo án þess að skapa sér nein færi og 0-0 jafntefli því niðurstaðan í frekar rólegum leik þar sem liðin tvö sýndu hvoru öðru mikla virðingu og hefur skemmtanagildið hjá þessum tveimur frábæru liðum oft verið meira. Líklega eru þetta sanngjörn úrslit þó að City menn verði eflaust svekktari eftir að hafa klúðrar víti þarna í restina.

Þrátt fyrir að liðið sé búið að vera að hiksta í síðustu leikjum þá held ég að allir hefðu tekið því að vera taplausir með 20 stig eftir þessa fyrstu 8 leiki! Nú fáum við landsleikjahlé á ágætis tímapunkti og fáum vonandi að sjá sprækara Liverpool lið eftir tvær vikur.

Maður leiksins

Fyrir utan “týpískt Lovren moment” í fyrri hálfleik þá fannst mér Lovren vera okkar besti maður, sérstaklega í síðari hálfleik þar sem að hann var frábær og er hann minn maður leiksins. Wijnaldum fannst mér einnig góður á miðjunni en sóknarlega fannst mér við ekki bjóða upp á mikið.

Umræða eftir leik
Jame Milner. Vonandi er þetta ekkert alvarlegt. Það er þó landsleikjahlé framundan þannig að vonandi verður hann orðinn klár eftir það, enda verið einn okkar besti maður þó hann hafi aðeins dalað síðustu 2-3 vikurnar eða svo eins og allt liðið svo sem.

Naby Keita. Kannski er þetta umdeild skoðun en fyrir utan West Ham leikinn í ágúst þá hef ég ekki verið hrifinn. Er ekki alveg að átta mig á hans hlutverki í liðinu á meðan að Gini hefur t.d. stigið upp og verið mjög öflugur.

Sóknarleikur Liverpool. Vörn Liverpool er ástæðan fyrir því að Liverpool er taplaust í deildinni. Mané, sem er sá eini í sókninni sem hefur á einhverjum tímapunkti verið að spila á getu, virðist dottinn í sama gír og hinir tveir. Spurning hvort þetta sé þreyta eða hvort að stuðningurinn frá miðjunni sé ekki nægur (söknum Ox talsvert).

Neikvætt: Liðið hefur ekki náð sigri núna í fjórum leikjum í röð. Sóknarleikur liðsins hefur í þesum leikjum verið tilviljunarkenndur og liðinu gengið illa að stjórna leikjum.

Jákvætt. Þegar leikjaprógramið var birt þá var ljóst að Liverpool átti gríðarlega erfiða byrjun. Nú, 8 leikjum síðar, er Liverpool taplaust á toppnum með Chelsea og City og búnir að spila úti gegn liðum sem hafa oft reynst okkur erfið, Tottenham, Chelsea, Crystal Palace og Leicester. Erum að mínu mati búnir með erfiðara leikjaprógram en bæði Chelsea og Man City.

Næstu verkefni

Eftir landsleikjahlé heimsækir Liverpool Huddersfield áður en þeir taka á móti Red Star og Cardiff. Það er því tækifæri til að byggja á þessari frábæru byrjun!

YNWA

48 Comments

  1. Liverpool á toppi deildarinnar. Það þýðir bara eitt: Vælukjóarnir eru á leiðinni að rakka yfir Salah, Klopp og Lovren.

  2. Taplausir og 20 stig eftir 8 leiki, maður hefði tekið þetta fyrir mót!

  3. Ennþá taplausir í deildinni! Búnir með LANG erfiðasta prógramið af efstu liðum! Sáttur!!!

    YNWA

  4. Sæl og blessuð.

    Svakalega var liðið dapurt í þessum leik. Megum þakka Mahres fyrir stigið eina.

    Þetta er spegluð tilvera…

    Hinir fræknu framherjar eru skugginn af skugganum af sjálfum sér, sem þeir voru í fyrra. Þarf vart að hafa fleiri orð um það. Vörnin á hinn bóginn er æðisleg. Gomez-inn yngstur og gerði nokkur klaufamistök en átti líka góðar fyrirgjafir. Robertson líka flottur. Miðverðir með frammistöðu upp á 9. Kenni ekki VvD um vítið. Hann var í skelfilegri stöðu og það var Salah sem kom uppnáminu af stað. Becker bjargaði þegar á reyndi.

    Hendó fannst mér allgóður – sívinnandi og vann eins og DM. Gini líka eins og ræstitæknir á miðjunni. Keita, var ekki að heilla mann. Bíð enn eftir að sjá það sem Klopparinn sér í honum. Sturridge var liprastur framherjanna eftir að hann kom inn á.

    Nú er kærkomið landsleikjahlé og það þarf að taka nokkra töflukrísufundi takk.

  5. 4 stig farin forgörðum í síðustu 2 leikjum, slegnir út í bikarnum og tap í M-deildinni.
    Eru menn ánægðir með þetta?!!?

  6. Tökum þetta stig. Augljóst að fölbláir voru skíthræddir og pökkuðu lengi vel í vörn. Hef trú á því að við tökum þá á þeirra velli. Kominn styrkur í okkur lið: I Believe. Gekk ekki alveg til enda í dag en liðið er solid. Munum við eftir því áður? Njótum þótt leikurinn hafi kannski ekki verið sá allra skemmtilegasti.

    Njótum í vor. Og gleðjumst.

  7. Kristján Elíasson. Liðið er að standa sig með sóma. Svona vinna lið deild. Það tekur tíma.

  8. Djöfull væl er þetta í mörgum.
    Liðið okkar að spila á móti frábæru Man City liði og leikurinn er algjörlega í járnum. Þetta var bara skák á milli tveggja frábæra þjálfara og endaði þetta með jafntefli sem er ekkert skelfilegt.
    20 stig í 8 leikjum er einfaldlega frábært og ég tala nú ekki um að þetta var mjög erfitt leikjaprógram með svo PSG/Napoli í meistaradeildinni og Chelsea í deildar bikar bara til að gera þetta extra erfitt.
    West Ham H, Palace úti, Brighton H, Leicester ú, Tottenham ú, Southampton H, Chelsea Ú og Man City H.

    Leikurinn í dag gríðarlega jafn og vorum við ekkert síðri en þeir svo að það sé á hreinu.
    Af framistöðu leikmanna þá fannst manni Lovren vera maður leiksins með nokkrum frábærum tilþrifum í stöðuni 1 á 1 og vann öll skallaeinvígi og návígi. Henderson hefur verið gagnríndur en átti flottan leik í dag ásamt Robertson.
    Framlínan okkar var í gjörgæslu í þessum leik Salah náði nokkrum sinnum að koma sér í hálfæri með frábærum mótökum en vantaði að klára.
    Gomez var í vandræðum í fyrirhálfleik en kom sterkur í þeim síðari, Winjaldum orðinn lykilmaður hjá okkur og átti solid leik en Keita komst aldrei í takt við leikinn.

    Við höfum oft séð það svartara en stöðuni á liðinu í dag og skilur maður ekki þennan pirring og áfellisdóma á Klopp og leikmenn liðsins.

    YNWA – í blíðu og stríðu(við erum ekki í stríðu núna, við erum á góðum stað)

  9. Ágætt stig, erum búnir með þungt prógram og vonandi að sóknarlínan komi úr sumarfríi eftir þetta landsleikjahlé.

  10. Prógrammið búið.. Leikjaplanið framundan þægilegt. Bæði city og chelsea eiga strembið prógramm framundan.

  11. Við erum á toppnum eftir þetta brjálaða leikjaprógramm, erum búnir að spila gegn Tottenham, Chelsea og núna City, þrjú bestu lið Englands, þetta snýst um að halda haus og að vera á toppnum og taplausir eftir þetta prógramm er mjög gott. Klopp verður að rótera liðinu miklu meira fremstu þrír eru gjörsamlega sprungnir. Ferskur Sturridge hlítur að gera meira enn þreyttur Firmino. Ef við ætlum að verða meistarar verður Klopp að rótera

  12. Áttum skilið að tapa (en vorum sem betur fer stálheppnir) og þess vegna eru úrslitin góð.

    En maður lifandi, spilamennskan á fremri hluta vallarins!? Það er pínlegt að horfa upp á þetta.

    Salah lítur út fyrir að vera one season wonder og verður að fara að sanna að hann sé það ekki. Talandi um að missa mojoið sitt gjörsamlega. Mané einnig búinn að vera virkilega slakur. En heilt yfir er sóknin okkar bara slök það sem af er tímabils, það er ekkert hægt að fegra það.

    Chelsea eru núna komnir upp fyrir okkur á markamun. Vörn, markmaður og heppni halda okkur þarna uppi.

    Og hvað í ósköpunum hefur Shaq gert af sér? Af hverju vill Klopp ekki nota hann?

    Ég er mjög ánægður með byrjunina á tímabilinu en ég hef miklar áhyggjur af hnignun sóknarleiksins. Við getum ekki endalaust treyst á vörn, markmann og heppni.

    Áfram Liverpool!

  13. Það stefnir allt til sólar hjá okkar liði. Vildi svo til að ég náði fyrri hálfleik, gekk svo inn á stað á fæðingarmómentinu (fertugur í dag) og sá Mahrez skjóta hátt yfir markið. Góð afmælisgjöf frá Alsír. Við erum öll vinir í skóginum.

    YNWA

  14. Sælir félagar

    Það er ásættanlegt að gera jafntefli við þetta milljónalið sem getur keypt allt sem hreifist og gerir það. Ótrúlegt hvað Atkinson langaði mikið að dæma víti og færa City sigurinn á silfurfati. Eitthvert mýksta víti í sögunni og þurfti ótrúlegan vilja til að dæma það. En réttlætið sigraði að lokum. Sé ekki ástæðu til að fjalla um einstaka leikmenn þó stundum hafi aðgerðir sumra þeirra orkað tvímælis þá gerðar voru. En gaman hefði verið að sjá Shaqiri koma inná fyrir t.d. Mané eftir ca. 70 mín.

    Nú eru 3 lið með 20 stig og Liverpool á léttara prógram en þau hin sem eiga eftir að leika innbyrðis. Búnir með Chelsea, Tottenham og M. City og engin alvöru lið eftir í fyrri umferðinni nema Arsenal. Okkar lið á að vera betra en öll þau lið sem eftir eru í fyrri umferðinni og vil ég því bóka amk 30 stig í þeim leikjum. Vonandi reita hin toppliðin stig hvert af öðruy á meðan. Sem sagt bjart framundan amk. fram yfir hátíðar.

    Það er nú þannig

    YNWA

  15. Mikið ofboðslega er gott að þessi fáránlega leikjatörn sé lokið sem hefur innihaldið Tottenham, Chelsea 2 X, Napoli, PSG og nú Man City.
    Frábært að vera taplausir í deildinni og deilum efsta sætinu með Man City og Chelsea.

    Hvað varðar leikinn þá var þetta taktískt hjá báðum stjórum enginn eldflaugsýning.
    Salah frískari en oft áður og það er spurning hvort hann fari ekki að detta á flug.
    Þeir sem hafa áhyggjur af fremstu 3 þá er nokkuð ljóst að við þurfum að Salah komist í gírinn því miðað við hvernig hann var á síðasta tímabili þá var hann einn sá besti í heimi ef ekki ekki besti og það munar um minna.
    Það sést líka á síðustu leiki að lið leggja mikla áherslu á að stoppa Salah alltaf er maður á honum og nánast alltaf kominn annar í hjálparvörn, Klopp þarf að leysa þetta eða einfaldlega aðrir þurfa að stíga upp.

    Henderson er maður leiksins var sívinnandi skítavinnu að sópa uppá í vanþákklátu hlutverki DM og Lovren var líka sterkur.

    Menn geta gagnrýnt Klopp að hafa ekki notað breiddina í þessu leikjaprógrammi.
    þetta er bara einfalt þú mætir með þína sterkustu 11 í þessa leiki en LFC var að spila á móti liðum sem eru í toppbaráttu í sínum heimadeildum.

    YNWA

  16. 20 stig í hús af 24 mögulegum… það eru 30 leikir eftir í deildinni… ósigraðir þar … af hverju nenna menn að væla svona mikið? Ég hef engar áhyggjur af því að þríeykið frammi verði óskorandi í margar umferðir í viðbót. Mané byrjaði sísonið virkilega vel og það er smá “dánslóp” 🙂 … pffftttt. Ekkert mál. Við verðum í meistaradeildinni að ári, er sannfærður um það. Meistarar? Mikill möguleiki. Gleði? Já! (Dætur mínar 7 og 9 ára sögðu mér nefnilega að það tekur fleiri vöðva að vera í fýlu heldur en að vera glaður … ergo: bara brosa.)

  17. Salah var bestur af okkar fremstu mönnum. Hlutverk hans er ekki öfundsnvert þar sem það eru nánast alltaf tveir á honum. Það á að losa um hina en það hefur ekki gengið vel að nýta það. Mane gekk reyndar vel til að byrja með og fagnaði meira plássi en virðist vera í einhverri lægð núna.

  18. Við erum líka kominn í þann gæðaflokk að Man City þorðu ekki að sækja á okkur af krafti.

    Pep Guardiola says Liverpool “are the best team in the world” if you let their front three run at you.
    Þeir tala um að hafa ætlað að vera þéttari varnarlega og passa boltan betur og vera agaðir í sínum leik.

    Þegar Man City líklega besta sóknarlið í heimi tala svona um liðið þitt þá er liðið þitt kominn með ákveðinn gæðastimpil og virðingu bestu liðana.

  19. Verð nú að segja fyrir mitt leyti að mér finnst Liverpool hafa farið frekar illa af stað á þessari leiktíð upp á spilamennskuna að gera og höfum ekki verið sannfærandi í neium leik sóknarlega. Það er eiginlega bara með ólíkindum að við séum eins ofarlega og raun ber vitni. Hvað er t.d. langt síðan í spiluðum mínútum að einhver annar en Sturridge hefur skorað?

  20. Væl og skæl?

    Held við værum nú grenjandi hver á annars öxl ef Mahresinn hefði skorað úr vítinu!

    Rosaleg skita hjá sókninni en allir hinir voru reyndar á pari og gott það.

  21. Veruleikinn kallar. Liverpool er ekki í tveggja liða baráttu um Englandsmeistaratitilinn. Tottenham, Arsenal og Chelsea eru það augljóslega líka og það verða að líða allavega tveir mánuðir til viðbótar áður en hægt er að draga einhverjar alvöru áliktanir um hvaða lið verða í baráttunni um aðal dolluna á Englandi. Man Und er aðeins 7 stigum á eftir okkur þó þeir hafi byrjað þetta tímabil afleiddlega og það segir það sem segja þarf um hvað þessi deild er rosalega sterk. Góðu fréttirnar það er búið að keppa við við marga af helstu erkifjendum Liverpool, Tottenham, Man City, Tottenham en Arsenal, Man Und, Everton og mörg önnur erfið lið eru eftir á dagskránni sem gætu á góðum degi unnið okkar menn ef eitthvað fer úrskeiðis.
    En þetta lítur samt vel út og Það er langt síðan að Liverpool hefur farið svona vel af stað.

  22. Greinilegt að menn voru ofdekraðir á síðasta tímabili þegar liðið gerir jafntefli gegn eins sterku liði og City. Það er ekkert venjulega erfitt að keppa við lið á þessu kaliberi og að búast við að geta bara unnið þá eins og við gerðum í fyrra er fáránlegt.

    Að halda hreinu gegn City er frábært. Gini var frábær á miðjunni fannst mér, og City reyndu að komast hjá því að þurfa að spila boltanum mikið á milli manna á miðjunni, því að þeir voru hræddir við skyndisóknirnar sem kæmu ef þeir mundu missa boltann þar, vel spilað. Leikur þar sem var erfitt að eiga góðan leik sem miðjumaður.

    Enn finnst mér vanta helling uppá að Firmino og Salah spili af fullri getu. Salah virðist hafa gefið sjálfstraustið frá sér. En ég er ennþá rólegur, gefum þeim þann tíma sem þeir þurfa. Erum að skora 1,9 mörk í leik og fá á okkur 0,4, í deildinni. 3 mörk á okkur í þessum fyrstu 8 leikjum er alveg nýtt fyrir okkur.

    Ég tek fagnandi á móti landsleikjahléinu, erfitt program yfirstaðið – sem ég var reyndar búinn að ákveða að við ættum að koma betur útúr, en það var kannski full miklar kröfur. Huddersfield og Cardiff fyrstu leikir eftir hlé, skulum vona að menn hrökkvi í gírinn þá.

    YNWA

  23. Ég er mjög sáttur. Liðið ekki að spila sinn besta bolta en samt við toppin og búnir sennilega með erfiðasta prógrammið.
    Slæmi kaflinn á tímabilinu vonandi núna þá erum við bara í góðum málum.
    Vonandi verða menn ekki ósáttir þó ég varpi einni spurningu ótengt þessu og hún er svo hljóðandi.
    Er leikurinn 15 des við manu sé staðfest dagsettning?

    YNWA ingo.

  24. Ég er ósáttur við síðustu fjóra leiki. Þessir leikir hafa ekki verið nokkur skemmtun að horfa á og ég tel Klopp vera nokkuð úti í móa með liðið. Vona bara að Klopp nái að koma liðinu á beina braut á ný.

  25. Meira vælið hjá sumum. Við erum ekki búnir að hrökkva í gírinn en á móti kemur að við þurfum ekki að fá hland fyrir hjartað í hvert einasta skipti sem við fáum á okkur horn eða aukaspyrnu. Við erum með trausta vörn og geggjaðann markmann. Erum með besta miðvörð heimsins í dag og svo eigum við inni stórskotahríðina þegar við finnum aftur tempó-ið. Held að það sé fínt að fá landsleikjahlé núna því við höfum oftast komið vel undan þeim. Klopp er jú frábær þjálfari og hann lætur verkin tala á æfingasvæðinu.

    Hættið þessari neikvæðni og stöndum þétt á bak við liðið okkar. Við eigum hrikalega flottan hóp sem getur gert frábæra hluti.

  26. Ég man ekki eftir neinu dæmi þess að Guardiola hafi spilað upp á jafntefli áður, þetta sýnir svolítið hvert þetta Liverpool lið okkar er komið. Jafntefli eru alltaf pirrandi en við tökum þessu andskotinn hafi það. Liðið fékk degi minna í hvíld eftir mjög erfiðan útileik í Evrópu og hefur bara spilað stórleiki í heilan mánuð. Það var ljóst fyrir mót að þetta yrði rosalega erfið törn og tæki á hópinn og Liverpool er að koma ágætlega óskaddað frá þessu.

    Af næstu sjö leikjum er aðeins einn alvöru stórleikur og það er Arsenal á Emirates. Meistaradeildarleikirnir eru líka leikir sem ætti að vera hægt að nota hópinn betur en hægt var að gera í þessum PSG og Napoli leikjum.

    Sóknarleikur Liverpool er áhyggjuefni og hefur í raun ekki verið samur síðan Ox fór útaf meiddur í fyrri leiknum gegn Roma. Sérstaklega sjáum við það í svona leikjum þar sem miðja og sókn ná ekkert að tengja. Miner, Henderson og Wijnaldum hafa allir staðið sig vel í vetur, sérstaklega í byrjun móts en það er alveg eins og í fyrra of mikið að spila þeim öllum þremur í einu. Bjóða bara ekki upp á nærri því nóg sóknarlega. Keita hefur ekki náð að byrja með neinni flugeldasýningu og raunar segja allir sem horfðu á hann í Þýskalandi að hann sé mun frekar box-to-box miðjumaður frekar sá sem situr í holunni. Hann er arftaki Emre Can, ekki Coutinho. Klopp mun ná meira út úr honum þegar líður á veturinn.

    Vandamálið er fjarvera Ox, það að ekki tókst að landa Fekir eða þá að Lallana er alltaf meiddur. Hann í 100% standi er líklega okkar besta von í fjarveru Ox eða þá að setja Mané eða Shaqiri í holuna eins og gert var gegn Southampton. Það er mjög dýrt að vera með bæði Lallana og Ox á meiðslalistanum í lengri tíma og við erum að sjá núna í byrjun móts að þarna er smá veikleiki á liðinu.

    Sóknarlínan er ekki að fá nærri þvi sömu þjónustu og við sáum í fyrra og hafa núna undanfarið virkað mjög þreyttir í flestum leikjum. Sendingar og skot bera þess merki. Það vantar bæði meira frá miðjunni sóknarlega en eins hefur sóknaraðgerðum bakvarðanna fækkað gríðarlega undanfarið. Klárlega komin þreyta í þá báða, Trent var hvíldur í dag og Robertson þarf smá hvíld líka, hann átti oft erfitt í dag. Þessi hlaup þeirra verða miklu fleiri gegn Huddersfield og Cardiff í næstu deildarleikjum.

    Vörnin hjá Liverpool hefur verið geggjuð undanfarið og var Lovren t.a.m. maður leiksins í dag að mínu mati. Van Dijk var líka góður en það var óþarfi að gefa þetta víti enda búið að loka Sane af. Liverpool er búið að taka langerfiðasta leikjaprógrammið í byrjun mótsins en fá samt á sig aðeins 0,375 mörk að meðaltali í leik sem er stökkbreyting varnarlega m.v. Liverpool undanfarin áratug. Maður er alveg hættur að spá í markmanninum í leikjum, eitthvað sem gerðist aldrei þegar Mignolet/Karius var í rammanum.

    Man City kom auðvitað með leikplan sem gekk ágætlega upp hjá þeim og þeir eru augljóslega með frábært lið en það sem af er móti fannst mér þetta vera þriðja besta liðið sem Liverpool hefur mætt í vetur á eftir bæði Chelsea og PSG.

    Liðið hefur ekki unnið núna fjóra leiki í röð sem er aldrei nógu gott en tveir af þessum leikjum voru sex stiga leikir þar mjög mikilvægt var að tapa ekki. Tapið í Napoli er hægt að laga og deildarbikarinn skiptir engu máli, varaliðakeppni fyrir stóru liðin.

  27. Vel gert Becker! fyllti upp í markið svo að Mahrez skaut yfir…engin hætta.

  28. Verum raunsæ, að vera í öðru sæti vegna markatölu á þessu tempói er meiriháttar. Ég hugsa að ég hefði tekið þessu jafntefli fyrirfram, þó ég vilji alltaf vinna. Vona bara að Milner sé ekkert mikið meiddur, og fái góða hvíld.

    YNWA

  29. Þessi úrslit voru kannski ásættanleg, en ég fer ekkert ofan af því að Liverpool er með betra lið, við erum með betri vörn, betri sóknalínu og betri markmann, það má kannski segja að City sé með betri miðju. Eða hvað? YNWA.

  30. Það er bara algjörlega geggjað að vera með 20 stig eftir þetta prógramm. Nú er mannskapur og stjóri með skapgerð til að skila sigrum á móti verr mönnuðum liðum. Skilum þessu í hús og stöndum á bakvið liðið!

  31. Auðvitað frábær byrjun á tímabilinu! Það eina sem maður hefur áhyggjur af er sköpunargleðin á miðjunni, þetta eru allt miklir iðnaðarmenn milly,gini,hendo,keita og svo bætist fabinho við.. hefði hugsanlega verið betra að taka þessa Fekir týpu af leikmanni inn í stað fabinho fyrir svipaðan aur! Það mun koma í ljós síðar á leiktíðinni en sem sakir standa finnst manni sóknarleikurinn gjalda eilítið fyrir þessa vöntun á “alvöru” playmaker.. ljóst að liðið saknar ox og svo virðist lallana ekki vera leikmaður sem getur leyst þessa stöðu af alvöru þessa dagana. En maður horfir í það jákvæða, liðið er að spila frábæran varnarleik í fyrsta skipti í áratug, það eitt og sér er ástæða til að gleðjast!

  32. Vörnin betri eða liðið farið að verjast betur, á kostnað sóknarleiksins ?
    Sagt er að sókn vinni leiki en vörn titla svo ég ætla að bíða með allt kvabb.
    Svo sést það líka að það er enginn sóknarsinnaður miðjumaður að koma með hlaup úr holunni svo þessir 3 frammi geta verið pínu einangraðir á stundum. Ox var td flottur að koma með áhlaup á varnir andstæðinganna.
    Flottur leikur annars og jafntefli sanngjarnt, allt annað en Napoli leiðindin þó færasköpun hafi ekki verið mikið meiri, þar sem mótherjinn var núverandi meistarar hef ég áhyggjur af því seinna

  33. Þetta var frekar leiðinlegur leikur. En þessi markaþurð hjá okkur hlýtur að koma. Áfram Liverpool.

  34. Jebs það vantar að tengja betur miðju og sókn, söknum virkilega Chamberlain þar og (Coutinho). Væri jafnvel gaman að fá að henda Shaqiri inn sem fremsti miðjumaður.

  35. Guardiola reyndist bara klárari taktiker en Klopp. Hans strategía réði gangi leiksins. Flóknara er það ekki. Gróf mistök Guardiola með vítakappann Mahrez reddaði okkur stiginu. En kommon, ekki eitt skot á mark á Anfield? Og heldur fannst mér það Móralegt hjá Klopparanum að tala á eftir um hvað hann væri ánægður með varnarleikinn. Get real! Maður getur talað sig upp í Pollíönnu inn í rauðan dauðann en það gefur ekki mrg stig. Átti þetta ekki að vera sóknarlið dauðans? Maður kvíður fyrr Huddersfield….

  36. Eins og ég hef áður skrifað (og Einar Matthías kemur inná að ofan) þá söknum við Oxlade Chamberlain ansi mikið. Hann koma með mikla dýnamík inní liðið í fyrra ásamt mikilli skotógn að utan svo að varnarmenn urðu að stíga útí hann og það losnaði um sóknarþríeykið okkar. Lið bara verjast aftar gegn okkur í ár og tvöfalda vel á Salah og Mané. Firmino hefur ekki verið að nýta það pláss sem hann fær. Auk þess hefur færslan á Vinjaldum aftar bætt varnarleikinn en bitnað á sóknarfærslunum.

    Eitt skil ég þó ekki. Afhverju í ósköpunum fékk Shaqiri ekki séns í Napoli leiknum sem mátti tapast og afhverju var byrjunarliðið ekki sparað þar fyrir þennan leik? Afhverju kemur Shaqiri ekki inná í þessum leik? Það þarf ekki nema 1 aukaspyrnu eða góða fyrirgjöf í svona hnífjöfnum leik til að skilja á milli sigurs og ósigurs.
    Ef liðið var algjörlega dauðþreytt eftir svakalegt leikjaprógramm og allur fókusinn var á Man City leiknum. Afhverju var meira og minna ekki öll sóknarlínan og hálft byrjunarliðið hvílt í Napoli? Það hefði getað lengt mikið þennan 15mín kafla þar sem við yfirspiluðum City í byrjun og gefið okkur 1-2 mörk til að stjórna leiknum.

    Að þessu sögðu þá erum við í mjög góðri stöðu núna. Sóknarleikurinn mun klárlega batna næstu mánuði og við eigum mun auðveldara prógramm framundan en hin toppliðin. Við gætum verið komin með 3-5 stiga forskot í byrjun desember ef við vinnum okkar leiki. Við eigum Keita og Fabinho inni fyrir seinni hluta tímabilsins og þá verður Salah líklega ekki jafn þreyttur eftir HM og kominn í betra andlegt jafnvægi sem og Mané. Það er töluverð vinna framundan hjá Klopp á æfingasvæðinu við að slípa liðið saman og koma nýjum mönnum inní leikkerfi Liverpool. Ef það næst vel þá eigum við hreint út sagt mjög góða sénsa á að verða meistarar. En þetta verður blóð sviti og tár og og hvert 1-3 stig mun skipta máli í vor.
    Það er rosalegt að fá svona svaka leikjahrinu stuttu eftir að menn eru nýbúnir að jafna sig á HM. Það voru margir góðir leikmenn sem náðu ekki löngu æfingatímabili í sumar og byrjuðu þreyttir. Nú fáum við 2 vikna landleikjahlé sem er kærkomið fyrir okkur. Klopp fær mikinn tíma í greiningarvinnu til að auka sóknarkraftinn á ný og sjá hvar stífluhálsinn er. Vænti þess 100% að Liverpool verði miklu sterkara þegar hlénu lýkur.

    Áfram Liverpool

  37. Miðjuna vantar þennan mann sem skapar framávið og prjónar saman miðju og sókn.

    Augljósasti kosturinn af þeim sem eru heilir (looking at you, Lallana) er Shaqiri. Sprúðlandi af krafti og með feikna skotfót. Ég skil ekki hvers vegna Klopp er svona ragur við að skella honum í byrjunarliðið.

    Svo man ég líka vel eftir ungum manni sem heitir Curtis Jones og brilleraði á undirbúningstímabilinu. Setti Klopp hann bara í aðalhóp Liverpool til að tæma ruslafötur í búningsherberginu?

  38. Sæl og blessuð.

    Magnað að Chambo sé allt í einu orðinn týndi hlekkurinn í keðjunni! Hann var vissulega inn á þegar við rústuðum Arsenal sællar minningar í byrjun síðasta tímabils..! Þá léku þeir á als oddi Salah, Mané og Firmó en Chambo karlinn átti víst fáar stoðsendingar í þeim leik 🙂 Eftir að hann mætti svo til leiks liðu margir leikir án þess að hann kæmi við sögu, það var ekki fyrr en á seinni hluta tímabilsins sem hann fór að sýna hvað í honum bjó. En þá var líka enginn Shaquiri, Fabinho né Keita. Allir eru þeir við hestaheilsu en hafa lítið lagt af mörkum.

    Að mínu mati þarf að leita skýringa á vandræðum sóknarinnar á öðrum sviðum. Bæði eru ofangreindr leikmenn full hæfir til að mata framlínu og þá erum við að tala um þrjá sóknarmenn, sem ættu að geta verið nokkuð sjálfbærir í að byggja upp tækifæri ef rétt er að verki staðið.

    Það sem hefur á hinn bóginn blasað við okkur nú í haust er fádæma klaufaskapur þegar þeir fá boltann. Hvernig skyldi annars statistíkin hjá Mané vera? Mér fannst sem boltinn endaði í fjórum af hverjum fimm skiptum hjá andstæðingum þegar hann fékk hann. Hann var ómarkviss, ákvarðanataka var úti á túni og bara allt önnur boltameðfærni en maður hefur átt að venjast. Salah að sama skapi er allur annar en hann var í fyrra. Hann fékk allmargar sendingar inn fyrir vörnina en var hikandi eða þá að skotið var ýmist of laust eða himinhátt yfir. Þetta er mjög ólíkt því sem við sáum í fyrra. Firmó hvarf síðan alveg.

    Eina alvöru færið var þegar Sturridge skallaði laflaust úr þröngu færi beint á markmanninn.

    Ég, eins og ég held – allir aðrir hugsandi púlarar – skil ekki hvers vegna Shaquiri fékk ekki að spila þenann leik. Það hefði opnað leikinn, aukaspyrnur hefðu verið ógnandi og sendingar markvissari.

    Já, þreyta og lúi, ferðalög og stutt á milli stórleikja – en af hverju þá ekki að rótera þegar fastamenn eru ekki að sýna meira en þetta???

    Að keyra tvo leiki í röð nánast á þessum sama mannskap er rannsóknarefni!

  39. Grunar að Shaqiri verði lykillinn að næsta rönni. Held að hann búi yfir svipuðu drive og Oxlade-Chamberlain Kraftmikill, skapandi, ógnandi og einmitt miðjumaðurinn sem ekki er hægt að leyfa opnu skotfæri.

  40. Svo held ég líka að Mané sé með eitthvað attitude problem. Hann gefur boltann nánast aldrei, eins og að hann sé bara að spila fyrir sjálfan sig en ekki sem 1/11 af liði. Grunar að það sé svæsið tilfelli af Ronaldo-veikinni með dassi af Salah-öfundar aukaverkunum.

  41. Ox væri væntanlega ekkert lausn á öllum vanda Liverpool og sóknarmenn liðsins hafa vissulega verið mun mistækari en þeir voru í fyrra. Það blasir samt alveg við hversu mikið hans er saknað og hversu mikið sóknarleikur liðsins hefur liðið fyrir hans fjarveru. Áður en hann komst í byrjunarliðið höfðum við Coutinho í sínu albesta formi sem part af sóknarlínunni. Okkur vantar svona tegund af leikmanni núna. Shaqiri er vonandi svarið. Lallana er svo mættur á æfingar aftur en alltaf þegar hann hefur komið inn undanfarið hefur hann verið hrikalega ryðgaður.

  42. Fjörlega umræður að vanda hér á síðunni. Ég er nokkuð sáttur eftir þessa byrjun á tímabilinu í heild en ekki með alla leiki og uppleggið í döprustu leikjunum. 11 leikir búnir, 7 sigrar, 2 jafntefli og 2 töp. Markatalan 19-8. Ef farið er eftir einhverjum venjum þá er það nokkuð almennt að ef skoruð eru helmingi fleiri mörk en fengin á sig skilar það einhverju, rúmlega tvö stig eða meira í leik skilar kannski einhverju. En það þarf líka úthald en nú er uþb 1/5 af tímabilinu búið og held ég að ekki sé hægt að leggja neitt mat á stöðuna fyrr en í fyrsta lagi eftir aðra 11 leiki. Hef pínu áhyggjur af stöðunni ef baráttuhundurinn Milner er meiddur því aðrir miðjumenn sem hafa verið á eftir fyrstu 3-4 eru bara varla í standi, Lallana, Uxinn, Brassinn svo einhverjir séu nefndir. Ég myndi skella Shagiri í byrjunarliðið í næsta leik og spila honum fremst á miðjunni og sjá hvernig það kæmi út. Jafnvel skipta Sturridge fyrir Sallah og skipta honum út ef hann verður ekki búinn að setjann eftir 60 min. Vörnin hefur heilt yfir verið góð en ekki fullkomin. Gaman að sjá hve Lovren kemur sterkur inn. Vonandi getur hann fækkað sínum eðlislægu mistökum þó ekki væri nema pínulítið. Annars er maður að deyja úr spenningi yfir framhaldinu.

  43. Taktískt séð upp á 38 leikja tímabil finnst mér Klopp hafa stillt þessu laukrétt upp. Á þessu ári fékk hann til sín bestu varnarlínu sem í boði var á markaði í Van Dijk og Allison – sem eru líklega tveir bestu í sínum stöðum um þessar mundir, að ná þeim á sléttu fyrir Coutinho er afrek hjá stjóra og stjórn – og að nota vörnina til að ná góðum úrslitum á móti aðalkeppinautunum er mjög skynsamt á langri vegferð til titils.

    Við munum sjá öðruvísi bolta eftir landsleikjahlé þar sem sóknin fær að njóta sín meira.

    Ef fólk sér ekki að við erum með stjóra með langtímaplan og skynsamt hugarfar gagnvart hverri viðureign ætti það að fara að baka brauðbollur og ná sér í nýjan lauk sem lætur mann gráta.

    Fari næsta törn í ensku illa, þá getum við sett spurningamerki. En ekki núna. Staðan í deildinni er frábær og ég er viss um að Liverpool frá því í fyrra komi og bæti markatöluna verulega í næstu leikjum.

    YNWA

Liðið gegn Manchester City

Klopp í þrjú ár