Nú á eftir mæta stelpurnar okkar til Lundúna og spila þar við ríkjandi meistara í Chelsea. Þessi leikur kemur í kjölfar þess að Vicky Jepson var formlega skipuð knattspyrnustjóri Liverpool Women, eitthvað sem ætti svosem ekki að koma á óvart í ljósi þess hvernig liðinu hefur gengið undir stjórn hennar og Cris Kirkland. Hann verður Vicky áfram til aðstoðar ásamt því að halda áfram sem markmannsþjálfari liðsins. Vicky kom til Liverpool árið 2009 og þekkir því klúbbinn út og inn. Hún hefur þjálfað í unglingaflokkunum ásamt því að hafa verið til aðstoðar hjá knattspyrnustjórum liðsins, þar á meðal Matt Beard, Scott Rogers og svo að lokum hjá Neil Redfearn í þennan stutta tíma sem hann var hjá félaginu. Vicky er afskaplega vel liðin af flestum sem hafa unnið með henni, leikmenn hafa keppst við að fagna tilnefningunni á Twitter núna síðustu daga. Þá er hún algjör vinnuhestur, og fékk fyrir þrem árum verðlaun frá FA sem besti þjálfari í ungliðastarfi. Hún verður fimmti kvenkyns stjórinn í deildinni, og hennar fyrsta verk eftir tilnefninguna verður einmitt að heimsækja annan slíkan, því hjá Chelsea ræður Emma Hayes ríkjum.
Emma stýrði Chelsea til sigurs í deildinni á síðasta tímabili á sama tíma og hún gekk með tvíbura. Hún missti annað barnið þegar langt var liðið á meðgönguna en fæddi svo heilbrigt barn tveim dögum eftir að liðið tryggði sér titilinn í vor. Chelsea liðið hefur svo gengið í gegnum breytingar í sumar, kannski ekki jafn dramatískar eins og hjá okkar konum, en engu að síður er liðið í uppbyggingarfasa rétt eins og Liverpool, og það sést á stöðu liðsins í deildinni því Chelsea er nú í sjöunda sæti deildarinnar með 7 stig eftir 6 leiki, á meðan okkar konur eru í því fjórða með 9 stig eftir 5 leiki. Eins og áður hefur komið fram leikur María Þórisdóttir með liðinu, en hún byrjar á bekknum í dag.
Liðinu verður stillt svona upp:
S. Murray – Bradley-Auckland – Matthews – Robe
Roberts – Fahey – Coombs
Clarke – Linnett – Babajide
Bekkur: Preuss, Little, Rodgers, Daniels, C.Murray, Sweetman-Kirk
Nú er bara að vona að okkar konur haldi áfram á þeirri siglingu sem þær hafa verið á síðustu vikurnar. Við uppfærum svo færsluna með úrslitum leiksins síðar í dag.
Leiknum er lokið með sigri Chelsea, 1-0. Líklega sanngjörn úrslit, þó svo að við hefðum ekkert kvartað ef Liverpool hefðu náð að læða inn jöfnunarmarki í lokin. Liðið varðist vel allan leikinn, og það þurfti mark úr bakfallsspyrnu til að brjóta ísinn á 26. mínútu. Fram að því hafði Sophie Bradley-Auckland tvisvar bjargað á línu. Chelsea hafði svo yfirhöndina í síðari hálfleik og áttu fleiri færi, okkar konur fengu þó a.m.k. eitt gott færi þegar Jesse Clarke slapp ein í gegn en skaut beint á markvörðinn. María Þórisdóttir kom inn á fyrir Chelsea í síðari hálfleik, hún lenti svo í samstuði við Jasmine Matthews undir lok leiksins og báðar þurftu að fara af velli.
Næsti leikur er svo eftir viku, þegar Gemma Bonner kemur í heimsókn á gamlar slóðir með Manchester City.
Þess má svo geta að leikurinn er sýndur hér:
https://www.bbc.co.uk/sport/live/football/45767724
Er hægt að sjá þessa leiki eftirá einhversstaðar?
Og takk fyrir framtakið, Daníel, mér finnst það frábært!
Takk fyrir þetta Daníel
Ég er ekki með hroka. Ég á dóttur í fótbolta og horfi á hana keppa og finnst það gaman. Þetta er líka fínasta framtak hjá Kop.is
Það þyrfti að borga mér góða summu fyrir að fylgjast með kvennaliði Liverpool .
Takk samt