Liverpool skruppu norður til Turf Moor í kvöld og unnu góðan 1-3 sigur á heimamönnum í Burnley. Með þessum sigri hefur liðið náð besta árangri sem Liverpool hefur náð í upphafi leiktíðar í sögu félagsins. Hvorki meira né minna. Leikurinn fór fram í kjölfar talsverðra rigninga, svo völlurinn var rennblautur. Vætan hafði haft þau áhrif að leikur kvennaliðs Liverpool og Everton sem átti að fara fram fyrr um kvöldið á Prenton Park var frestað vegna vatnselgsins.
Mörkin
1-0 Cork (54. mín.)
1-1 Milner (62. mín.)
1-2 Firmino (69. mín.)
1-3 Shaqiri (90+2 mín.)
Leikurinn
Klopp gerði 7 breytingar frá síðasta leik, aðeins Alisson, Virgil, Gomez og Shaqiri héldu sæti sínu í liðinu, og þar af voru tveir þeirra í annarri stöðu en í leiknum á undan. Mögulega var verið að spila leikkerfi í ætt við 4-4-2 með Sturridge og Origi frammi, en Sturridge var þó alltaf svolítið dýpri og var duglegur að koma niður á miðjuna, svo kannski var þetta meira 4-4-1-1.
Fyrri hálfleikur var satt að segja frekar tíðindalítill. Liðið leit út fyrir að vera hálf bitlaust, og ef eitthvað var leit Burnley út fyrir að vera líklegra til að skora. Liðið gerði það svosem undir lok hálfleiksins, en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Aðal tíðindi hálfleiksins voru hins vegar þau að það þurfti að bera Gomez af velli á 20. mínútu eftir að hann átti gott hlaup upp kantinn, en var tæklaður (löglega) upp við endalínu og rann útaf. Við vonum auðvitað að meiðslin séu ekki alvarleg og að hann komi fljótt til baka, en fyrstu viðbrögð úr herbúðum liðsins eru þó á þá leið að hann gæti verið eitthvað frá, það kemur betur í ljós á morgun eftir að ökklinn verður skoðaður. Trent kom inn á, þó svo að planið hafi örugglega verið að hvíla hann eins og hægt væri.
Það var hins vegar allt annað að sjá liðið í síðari hálfleik. Sturridge átti gott skot fyrir utan teig sem Hart varði naumlega í horn. Skömmu síðar átti Keita frábært hlaup sem hófst rétt fyrir framan miðju, og endaði rétt fyrir utan teig með góðu skoti sem Hart varði aftur, núna í stöng og í horn.
Á 54. mínútu dró svo til tíðinda hinum megin á vellinum. Jóhann Berg tók horn, það náðist ekki að hreinsa boltann sem dansaði eitthvað á markteig. Alisson hafði hönd (hendur?) á boltanum, en boltanum var sparkað frá honum, og Cork náði að pota boltanum inn. Það verður nú að segjast að þetta mark var afar vafasamt, og hefði ekkert endilega staðið ef VAR hefði fengið tækifæri til að skoða þetta betur. En hugsanlega var þetta nóg til að kveikja í okkar mönnum því þeir settu í næsta gír eftir þetta mark.
Það liðu 8 mínútur þar til gestirnir voru búnir að jafna. Liðið sótti upp vinstri kantinn, boltinn barst til Origi inni í teig sem skýldi boltanum vel, renndi svo út á Milner sem átti hnitmiðað skot milli lappa á einum varnarmanni Burnley og í fjærhornið, algörlega óverjandi fyrir Hart. Skömmu síðar var svo gerð tvöföld skipting, Firmino og Salah komu inná fyrir Origi og Moreno. Mér sýndist Milner fara niður í vinstri bak, og Firmino á miðjuna. Þar með má segja að bæði hann og Sturridge hafi verið í holunni, og liðið mögulega að spila e.k. 4-3-2-1 með Salah upp á topp. Eins og alltaf voru fremstu menn þó afar fljótandi og ekki alveg gott að festa fingur á leikskipulaginu. Firmino sást út um allan völl, og gat allt eins dúkkað upp milli miðvarðanna eins og í teignum.
Firmino og Salah höfðu svo ekki verið lengi inná þegar liðið náði forystunni. Sturridge vann aukaspyrnu aðeins fyrir utan vítateig. Mögulega kom útfærslan á spyrnunni beint af æfingasvæðinu, því Trent gaf boltann inn á markteig, rétt vinstra megin við markið, þar var Virgil mættur, sendi boltann inn á markteig þar sem Firmino bókstaflega gat ekki annað en rennt boltanum í markið með sinni fyrstu snertingu í leiknum.
Liðið gaf svo ekkert mikið eftir þrátt fyrir að vera komið í forystu. Svipaða sögu var að segja um Travelling Kop sem var í roknastuði, söng m.a. “Merry Christmas Everton” ásamt fleiri söngvum, og yfirgnæfðu heimamenn oft.
Á 82. mínútu áttu okkar menn svo góða sókn sem var með ólíkum kindum að skyldi ekki enda með marki. Fjögur skot náðust á markið, tvö varin af Hart, tvö blokkeruð af vörninni, og sóknin endaði með hornspyrnu sem ekkert varð svo út.
Á 91. mínúta var svo gert út um leikinn. Burnley átti sókn, og áttu skot að marki sem stefndi í vinkilinn, en Alisson greip inn í af miklu öryggi og átti meistaramarkvörslu. Boltinn barst aftur út, og var svo um það bil á leið aftur fyrir hliðarlínu þegar hann kom aftur og hirti boltann. Hann var svo ekkert að tvínóna við að koma boltanum í leik (eitthvað sem maður sá Mignolet ALDREI gera), boltinn barst til Sturridge sem stakk boltanum fram á Salah, hann vippaði yfir varnarmann beint í lappirnar á Shaqiri sem var á auðum sjó og skoraði.
Góður dagur
Það eru í raun nokkrir leikmenn sem geta gert tilkall til þess að hljóta nafnbótina maður leiksins. Keita kom afar sterkur inn, kom með mikla ógn inn af miðsvæðinu og var hársbreidd frá því að skora eitt eða jafnvel tvö mörk. Sturridge er vissulega ekki sá leikmaður sem hleypur mest eða er mest í því að taka menn á, en maður skynjar að leikskilningur hans sé eins og hjá manni sem er búinn að vera í töttöguogfemm ár í bransanum. Hann átti margar sendingar sem sköpuðu hættu, og virðist vera að finna sig mjög vel í þessu hlutverki í holunni. Virgil átti góðan leik sem endranær, átti stoðsendingu annan leikinn í röð (jú kiksið í Everton leiknum telst sem stoðsending…). Firmino kom sterkur inn af bekknum, og maður spyr sig hvort hann og Sturridge séu ekki bara ágætir saman þarna fyrir aftan fremsta mann, sífellt að detta dýpra að sækja boltann ef þess þarf. Salah gerði vel, hann er jú klárlega að draga til sín varnarmenn eingöngu með því að vera inni á vellinum, og svo átti hann stoðsendingu. Origi var að byrja sinn fyrsta leik í guðmávitahvað langan tíma, og þrátt fyrir að hafa kannski ekki verið alveg jafn eitraður og hann reyndist vera í síðasta leik, þá átti hann góða spretti og átti sinn þátt í fyrsta markinu. Nú og svo má ekki gleyma Alisson, markvarslan undir lok leiksins og það hversu fljótur hann var að koma boltanum í leik þýddu hugsanlega 3-1 sigur í staðinn fyrir 2-2 jafntefli. Munar um minna. Þá var Trent síógnandi upp hægri kantinn. Við skulum gefa Keita nafnbótina, en eins og áður sagði koma margir aðrir sterkir inn og í raun var þetta sigur liðsheildarinnar og þess karakters sem býr í liðinu og sýndi sig þegar liðið lenti undir.
Vondur dagur
Að sjálfsögðu mun það hafa talsvert að segja ef Gomez verður frá í einhvern tíma vegna meiðsla. Hann hefur jú verið sá sem hefur verið að rótera með Trent í hægri bak, en núna reynir á Lovren og Matip í hinni miðvarðarstöðunni með Virgil. Svo var líka algjör óþarfi að fá á sig þetta mark, ég hefði alveg þegið enn eitt hreint lak í línskápinn.
Umræðan eftir leik
Nú tekur við endurheimt hjá leikmönnum fyrir næsta leik sem er á móti hinum stjóranum í deildinni sem lengst hefur verið við stjórnvölinn, þ.e. Eddie Howe hjá Bournemouth. Þar er lið sem er sýnd veiði en ekki gefin, liðið er í 7. sæti í deildinni með jafnmörg stig og Everton og United. Það verður því hörku erfiður leikur, og ekki verður svo leikurinn þar á eftir mikið auðveldari enda mæta þá Napoli á Anfield í leik sem einfaldlega verður að vinnast.
Það er ljóst að liðið stóðst þetta “rotation” próf, það var nauðsynlegt að hvíla allnokkra leikmenn, og alveg klárt að það þarf að passa vel upp á hópinn á næstunni. Robertson og Mané mega alls ekki vera lengi frá, og ef Gomez verður frá í einhvern tíma verða Lovren, Matip og jafnvel Clyne að vera standby, því Trent er sjálfsagt ekki að fara að spila hvern einasta leik sem eftir lifir desember í hægri bak.
Önnur úrslit féllu svo alveg ljómandi vel með okkar mönnum. Arsenal og United töpuðu bæði tveim stigum, Everton gerði jafntefli, og Úlfarnir náðu að snúa leiknum sér í vil og unnu Chelsea. Hins vegar eru það auðvitað úrslitin hjá City sem skipta lang mestu máli, og þeir virðast ekkert vera að missa dampinn. Jafnframt unnu Spurs sinn leik gegn Danny Ings og félögum, en nú er staðan sú að Liverpool er með þægilegt 6 stiga forskot á liðið í þriðja sæti. Við höfum því minnstar áhyggjur af liðunum fyrir neðan okkur, og óskum þess nú sem heitast að ljósbláa liðið frá Manchester fari nú að misstíga sig eins og einusinni eða tvisvar. Það má líka alveg snúa þessu aðeins við: pælið í að vera í sporum City, hafa byrjað þessa leiktíð betur heldur en þá síðustu, en vera samt ekki búnir að hrista Liverpool af sér?
Hvernig er ekki hægt að vera sáttur við hvernig okkar menn svöruðu í seinni þarna þekkir maður þá !
YNWA !
ES.
Keita var frábær í þessum leik og átti að skora.
Þessi varsla þarna í lokin, Alisson what a man!!
In Klopp we trust….og Alisson þvílíkur markmaður sem við eigum!!
Keita var rosalegur í leiknum.
Alisson sneri 2-2 stöðu í 3-1 á augabragði með snöghri hugsun – þvílíkt kvikindi sem við höfum í búrinu.
3 stig og Búrnmúð um helgina
Þetta var flott. Það var smá beygur í mér eftir að sjá hve djúpt Klopp róteraði en þetta fór virkilega vel, fyrir utan meiðsli Gomez sem eru vonandi ekki alvarleg.
Alisson og VvD frábærir og Keita að stimpla sig inn, hann átti sérlega góðan leik.
Mjög fínn síðari hálfleikur, sérstaklega eftir skiptingarnar.
Skelfilegur fyrirháfleikur fer ekki í sögubækurnar nema kannski fyrir það að vera skelfilegur.
Í síðari háflleik í stöðuni 1-0(klárlega ólöglegt mark) þá fór verulega um mann en heimamenn höfðu varla ógnað okkar marki allan leikinn og við höfðum byrjað af krafti síðari hálfleik með tveimur hættulegum skotum.
Millner jafnaði og eftir það fór bara allt í gang hjá okkur, Salah/Firmino komu inná og við fórum að ógna mikið og halda boltanum betur og við gengum á lagið og kláruðum þetta 1-3 mjög sangjarn sigur.
Það góða: 3 stig og Keita að stimpla sig vel inn í liðið með flottum leik. Liðið komst upp með að hvíla Firminho/Salah og hafa Robertson/Mane meidda.
Það vonda: Gomez er meiddur og vonar maður að þetta sé ekki alvarlegt.
Í Desember törninni þá eru það nákvæmlega svona leikir sem stóru liðin tapa stigum s.s í þéttu leikjaprógrami í skítaveðri á útivelli og því til sönnunar voru Úlfarnir að vinna Chelsea (2-1) en okkar menn náðu að stíga upp þegar á þurfti að halda og nældu sér í dýrmæt stig.
YNWA – Næst á dagskrá er hádegisleikur á laugardaginn gegn Bournemouth úti sem verður mjög erfitt og úrslitaleikur við Napoli strax á þriðjudeginum svo að fullt af bolta framundan sem maður auðvita vill þegar liðið er að standa sig svona vel.
Maður má til með að hrósa liðinu fyrir baráttu og öflugt hugarfar. Einfaldlega tvö ólík lið Liverpool sem léku sinn hvorn hálfleikinn, sennilega hefur hálfleiksræðan frá þýska stálinu verið ansi hressileg enda fyrri hálfleikur einfaldlega afar slakur hjá okkar mönnum.
En það er mikilvægt að menn geti svarað kallinu þegar það kemur í hálfleik og snúið vondum leik við.
Kveðja frá UK
YNWA
Besta stigasöfnun eftir 15 leiki í sögu Liverpool.
Þetta leit ekki vel út í dag og burnley menn börðust um alla bolta og létu finna fyrir sér frá byrjun.
En góður seinni hálfleikur og mikilvæg 3 stig í hús. Chelsea tapa og arsenal og united tapa bæði stigum.
Flott umferð
Andlega sterkir eftir að lenda undir, það hefur ekki verið þannig hjá okkur í mörg ár ! Frábær markvörður, varnarmenn og svo varamennirnir, ég tala nú ekki um MILNER ! Vona bara að Gomez sé ekki mikið meiddur ! 3 stig, og næsti leikur er líka erfiður áður en kemur að CL. En í kvöld fögnum við frábæru liði. Það sem VIRGILL gerir þá varnarmenn sem hann spilar með að betri leikmönnum maður, vá 🙂
Stórkostlegt að klára þetta svona sannfærandi eftir þungan fyrri hálfleik. Málið er einfalt, við eigum einn besta markmann heims! Hversu mikill lúxus er það?!? Ég er ástfanginn af kauða, Alisson er stórkostlegur keeper. Svo er frábært að sjá Keita í þessum ham og Shaq og Virgil og Bobby og Salah og Trent og… Þetta lið okkar er geggjað!
Ekki skemmir fyrir að rússneska olíufélagið tapaði í kvöld og Arsenal tapaði stigum einnig. Frábært kvöld hjá okkur.
En hversu góður er VVD . Þetta virðist alltaf vera svo auðvelt fyrir hann EF hann missir boltann frá sér og framherji er að gera sig líklegan þá bara trukkar hann gaurana bara frá sér þeir eiga ekki séns og líta út eins og litlir strákar að spila við fullorðinn mann í samanburði.
Eins og klettur þarna og með fyrirliðann og leiðtoga skrifað á ennið á sér.
Þarf ekki að ræða Alisson ..þegar Buffon talar um hann sem markmann sem hann hefur sérstaklega fylgst með þá er það nóg að vita.
Það er ástæða fyrir þvi að Liverpool er með bestu vörn EPL um þessar mundir
Við erum 6 stigum á undan Tottenham, 8 stigum á undan Chelsea og Arsenal, og by the way 16 stigum á undan Mansteftir United.
Það skilja aðeins 2 stig ennþá á milli okkar og City. Samt sem áður fer hér undarlega á síðunni grátkór og vonleysismenn sem að finnst ekkert nógu gott vælandi yfir hálfleik og Klopp er ekki nógu klókur og hvað eina, en hann var nú samt nógu klókur að setja Origi inná í síðasra leik þrátt fyrir heljarinnar mótmæli margra hér inni og svo róterar hann í dag og vonleysið að gera menn sköllótta þrátt fyrir að menn og konur vita það að nú er jólatörnin farin í gang.
Eigum við ekki bara að vera súper glöð hversu vel gengur með 15 leiki að baki í deildinni og ekki tapað leik. Þetta er stórkostlegt og jafnvel miklu meira en það 🙂
YNWA
#12
Rosalega sérstakt að fara svona snögglega úr oftar en ekki bullandi vandræðum varnarlega í a.m.k. jafnbestu vörn Englands og eina bestu í Evrópu (en lítum – býsna skiljanlega e.t.v.- verr úr fram á við fyrir bragðið). Klopp hefur klárlega ákveðið að þessi vörn + Alisson kallaði á að breyta leikstílnum.
VvD og Alisson eru einfaldlega í algjörum heimsklassa – game changers.
#13
Erum með jafnmarga sigra og Man Utd og Everton samanlagt… 😀
Djöfull er ég að þiggja þessi 3 stig.
Allison geggjaður, Keita farinn að sýna hvað hann getur.
Leikir kvöldsins okkur í hag.
Everton gerir jafntefli, takk Rafa.
Chelsea tapar.
Man U og Ars jafntefli.
Fyrir svartsýnis rausarana
15 leikir
12 sigrar
3 jafntefli
9 hrein lök
Liverpool hefur aldrei byrjað tímabil betur í 126 ára sögu liðsins.
YNWA
Frábært að skora 3 eftir að lenda undir sýnir hversu sterkir við erum og það þegar 2 byrjunarmenn eru ekki í hóp og aðrir 2 á bekknum. Keita maður leiksins sýndi hvað hann getur og á fullt inni. Allir að skila sínu finnst þetta akkúrat leikurinn sem hendo og milner eiga að spila í. Skíthræddur með gomez finnst við ekki geta treyst lovren og matip hvorki getulega né heilsulega. En menn stíga oft þegar menn meiðast einsog milner í fyrra verður spennandi að sjá byrjunarlið næsta leiks
Burnley menn fengu að vera helst til agressívir, dómarinn hefði getað tekið harðar á tvísýnum tæklingum sbr tæklinguna á Gomez og vona ég heitt og innilega að þetta sé ekki alvarlegt og sérstaklega hans vegna með hann óheppni með hnémeiðsli.
Annars fannst mér margir sýna góðan leik og gaman að sjá Keita sýna þó ekki nema brot af því sem hann á inni, og Sturridge átti fínan leik meðal annars.
Leikskýrslan er komin inn.
Sæl og blessuð.
1. Mark Börnlei átti ekki að standa.
2. Keita er að vakna.
3. Margir hvíldir fyrir komandi rimmu. Það munar um að spila heilan leik eða bara kortér eins og Salah og Firmó.
4. Hef áhggjur af Gomez-inum.
5. Enginn slakur (amk í seinni hálfleik).
6. Stórbrotið að skora þrjú mörk.
7. Fengum mark upp úr skyndisókn: Bring back the glory.
8-10. Másum þungum og rökum andardrætti niður hálsmál Saudanna.
Bónus kvöldsins: Breikkar enn bilið á milli okkar og næstu liða. Samvinnuhreyfing Mansésterborgar er komið í neðri hluta deildarinnar.
Hér er þriðja markið alveg frá vörslunni hjá Alisson: https://streamable.com/x5ju4
Sjá líka hvernig Salah stoppar krossinn og gefur svo stoðsendingu fremst á vellinum örskömmu síðar. Þetta er frábært stuff!
Það voru tvö atriði sem algjörlega standa upp úr í þessum leik og voru game changer ef maður slettir aðeins. 1 VVD með assist sem og Bobby skorar úr og sjálfstraustið komið hjá þeim síðarnefnda og verður hann okkar besti maður í næsta leik.
2 Allison með markvörslur sem fá öll hárinn á líkamanum til rísa og setur boltann strax í leik tvær snertingar og Shaqiri búinn að skora. Þessir 2 menn Alisson og VVD voru ekki bara bestu mennirnir á vellinum heldur langbestir á vellinum.
Þangað til næst YNWA.
Sælir félagar
Takk fyrir góða skýrslu Daníel og takk fyrir mig Klopp og félagar. Þetta er dásamlegt og ekkert getur fengið mig ofan af því.
Það er nú þannig
YNWA
Besta start í deildinni í 126 ár !!! Sannar það enn og aftur að titlar vinnast með vörn, ekki sókn. Erum lang næst besta liðið eins og taflan sýnir. Ef við tökum sigur næstu helgi þá held ég að menn verði að fara að taka okkur alvarlega og við sem aðrir hættum að tala niður þetta lið okkar sem er búið að fá á sig 6 mörk í deildinni í ár. Á sama tíma á síðasta ári var það um 20 stk takk fyrir !!
Sá ekki leikinn, það var kosið að sýna hvernig málning þornar. En rosalega er ég sáttur við þessi úrslit.
YNWA
Becker, Van Dijk, Salah, Firmino, Mane, Gomez þetta eru leikmenn í heimsklassa. Hinir eru ekki beint lélegir heldur. Frábært liðsvinna og meiriháttar mark hjá Milner. Við erum ennþá í baráttunni. Næstu helgi spilum við úti við Bmouth og Chelsea-City. Olíufurstarnir mætast.
Bíðið nú við. Tók enginn eftir því að þessi Burnley Corkur var kolrangstæður þegar allt var að gerast þarna í teignum? Allir að tala um að boltanum var sparkað úr höndum Allison, sem var auðvitað rétt. Hélt að það væri ekki til leiðinlegra lið, í sögulegu samhengi, en Wimbledon….en jú Burnley.
Er sammála Klopp það á ekki að leyfa svona tæklingar í bolta í dag ..gjörsamlega stútar Gomez og ekki einu sinni neitt dæmt þetta er súrt. Gomez átti heldur ekki að vera þarna hann á að vera við hlið VVD en það er bara mín skoðun!
Virkilega ósáttur ef við erum að fara missa Gomez í mikil meiðsli útaf þessari ógeðstæklingu
Smá leiðrétting – þetta er ekki betri byrjun hjá City en í fyrra – eftir 15 leiki í fyrra höfðu þeir unnið 14 og gert 1 jafntefli, þ.e. 43 stig! Þá var Utd í öðru með 35 stig þannig að við erum að halda smá meiri spennu í þessu en í fyrra. Megi það halda sem lengst áfram og þá er þetta séns…
Þessi tölfræði hjá VVD:
https://www.thisisanfield.com/2018/12/stats-underline-virgil-van-dijks-dominance-in-liverpools-win-over-burnley/?fbclid=IwAR0339nlz2Lo84om5u2TR3LxthkFifzxpbtf0t6KpE_mziIBXMANgNWIZgE
Gomez brákaðist á fæti og verður frá í c.a 6 vikur 🙁
https://www.thisisanfield.com/2018/12/joe-gomez-ruled-out-until-next-year-with-fractured-leg/?fbclid=IwAR204zfYE6FlHvh1zJyy4YLEQWpS1g0WlkR73MoBsSC6JEfqbkxxLPCelPI
Mikið skelfing er gaman að skoða markatöluna hjá LFC og bera saman við Man.utd. sem eru með -1 mark. Segir svolítið um það þegar verið er að tala um þennan og hinn leikmannin sem stórstjörnu að það er liðsheildin sem skiptir öllu máli. Allavega efast enginn um getu DeGea í markinu sem hefur samt fengið á sig 25 mörk. Ég tel reyndar að við höfum betri markvörð í meistara Alisson. Svo höfum við stórsnillinginn VVD þar fyrir framan sem gerir lífið léttara fyrir okkar mann. Þetta sést líka á markaskoruninni hjá okkur þ.e. að framlínan hefur ekki verið eins beitt og á síðasta tímabili þar sem taktíkin er greinilega að verjast betur og sækja ekki alveg eins ákaft, sem gerði vörnina oft mjög berskjaldaða.
Bara gaman þessa dagana.
YNWA
Hrikaleg meiðsli hjá Gomez verður frá í 1 1/2 mánuð eða jafnvel lengur þetta eru mjög slæmar fréttir og gæti haft áhrif á varnarleik okkar en núna er ekkert nema fyrir Lovren og Matip að stíga upp!
https://en.m.wiktionary.org/wiki/clean_sheet