Í bæli úlfa, upphitun fyrir Wolves.

Að fá fjögurra daga frí í desember er sjaldgæfur lúxus í ensku deildinni, að fá slíkt tvisvar í röð er nánast á óheyrt. En núna á morgun kíkja ósigraðir lærisveinar Jurgen Klopp úlfagrenið í Wolverhampton áður en þeir bjóða Rafael Benitez í jólamat fimm dögum seinna á öðrum jólum. Því næst er tveggja daga pása áður en nallarnir koma í heimsókn. Síðan lýkur brjálæðinu þann þriðja á nýju ári þegar okkar menn kíkja til Manchester og gera sitt allra besta til að skemma nýtt ár fyrir Pep Guardiola.

Wolverhampton Wolves.

Það móðgast engin ef ég kalla úlfanna spúkník lið deildarinnar í ár. Þeir unnu fyrstu deildina í fyrra með 99 stig í sarpinum, níu stigum á undan Cardiff. Með því komu þeir aftur upp í efstu deild, eftir sex ára fjarveru. Það var aðeins óvæntur 0-3 ósigur gegnum föllnum Sunderland liðum sem kom í veg fyrir að þeir næðu að brjóta hundrað stiga múrinn. Sem þýddi að eina liðið sem Úlfarnir sigurðu ekki allavega einu sinni á síðasta tímabili, voru einmitt Sunderland menn, sem kolféllu.

Sögulega hafa verið mikið í efstu deild en ekki, en lengsta vera þeirra í úrvalsdeildinni var 33 ár frá 1932-65. Þeir hafa unnið deildina þrisvar, þó síðasti titillinn hafi komið árið 1959. Þeir voru fyrsta liðið til að koma fyrir flóðljósum á sínum tíma.

Árið 2016 var liðið keypt af kínverska fjárfestingasjóðnum Fosun International. Með þeim kaupum kom smá innspýting af fjármunum, en líka hringekja í þjálfaramálum. Walter Zenga var ráðinn og rekinn fjórtán leikjum seinna, Paul Lambert tók við og kláraði tímabilið 2016-17 en samningi hans var sagt upp um sumarið og við tók áður nefndur Nuno Espirito Santo sem hafði áður verið hjá Porto. Hann náði liðinu upp í fyrstu tilraun og er núna með liðið í sjöunda sæti, einu stigi eftir Manchester United og stigi á undan Everton, Bournemouth og Watford.

Í vetur hafa úlfarnir verið duglegir að stela stigum af stóru strákunum. Þeir náður jafnteflum við Manchester liðin, Arsenal og sigruðu Chelsea byrjun desember. Þeir voru líka óheppnir að stela ekki stigi af Tottenham. Lundúnapésarnir voru komnir í þrjú núll þegar úlfarnir skoruðu tvö á stuttum tíma og þurftu lærisveinar Pochettino að hafa sig alla við að stöðva jönfunarmarkið.

Eins og stendur eru Wolves stolt miðlandanna, en allir nágranna klúbbar þeirra (Villa, Birmigham og West Brom) eru í bölvuðu basli. Þeir munu koma óttalausir á Anfield og reyna að halda sínum fína árangri á móti toppliðunum gangandi. Ég ætla að tippa (lesist: giska) á þetta byrjunarlið frá þeim:

 

Okkar menn

Desember hefur sjaldan verið sætari á Anfield. Hann byrjaði á sigri á Everton á síðustu sekúndu, svo var það endurkoman gegn Burnley, svo voru Bournemouth teknir í bakaríið. Því næst voru sextán liða úrslit meistaradeildarinnar tryggð og að lokum United menn rassskelltir svo svakalega að þeir sögðu José Mourinho upp. Reyndar á það augljóslega ekki að vera brottrekstar sök að tapa fyrir Liverpool, bara fullkomlega eðlilegt það.

Klopp hefur verið duglegur að rótera, einkum á miðsvæðinu. Ég ætla samt að veðja á að breytingarnar verði minni en oft áður, það er langt á milli leikja miðað við desember og margir stóðu sig með prýði gegn United. Svona tippa ég á að við stillum upp annað kvöld. Engin séns tekin með Trent, Clyne heldur sæti sínu. Hendo kemur inn fyrir Keita og Shaqiri fær að taka smá sprett í stað Gini, sem hefur skilað inn rúmlega góðri vakt og fær smá afslöppum.

Spá

Við erum betri en þeir, en þeir eru ólseigir. Held að þessi leikur verði drulluerfiður en Salah nái að troða einum bolta í netið í upphafi seinni hálfleiks og við siglum þrem stigum í höfn með 1-0 sigri. Við verðum á toppnum um jólin, svo einfalt er það. KOMA SVO STRÁKAR

17 Comments

  1. Takk fyrir þessa góðu upphitun. Erfiður leikur því Úlfarnir er bæði ólseigir og hörkugóðir. Liverpool er með betra lið en það dugar bara ekki alltaf til sigurs. 1-0 sigur dugar mér alveg.

  2. Flott upphitun.

    Það er ekkert, ekkert flott með Wolves, nema stundum leika þeir í flottum búningum. Úlfar þurfa ekki flóðhestaljós, verða bara blindir.

    Þessi leikur minnir mig á West Ham leikinn sem ég fór á þar sem þeir byrjuðu illa. Hann fór 4-0 fyrir Liverpool (sem ég spáði). Þeir hafa síðan komið upp og eru góðir. Wolves hins vegar hafa byrjað vel, en nú er kominn tími til að segja bless við þá.
    .
    Spái 0-4.

    EKKI ORÐ UM ÞAÐ MEIR.

  3. Spennan að magnast hjá manni fyrir leikinn. Hef svo mikla trú á okkar mönnum þessa dagana að ég reikna með því að við klárum þessa jólatörn með stæl. Þetta verður eflaust mun strembnari leik en á móti utd enda hafa úlfarnir sýnt það að þeir eru sýnd veiði en ekki gefin. Vonandi siglum við öruggum og meiðslalausum sigri í höfn. Treysti Klopp til að lesa rétt í þessa leikjahrinu og halda okkur þar sem við eigum heima, á toppnum.
    YNWA

  4. Sælir félagar

    Einhvernveginn leggst þessi leikur vel í mig. Hallast að tölunum hans Kilroy#2 og spái 0 – 4 þar sem hvorki Virgill né Alisson munu gera mistök hætta er á að Lovren geri þau eftir belginginn í fjölmiðlum í dag. Úlfarnir eru mjög gott miðlungslið sem mun fá sín tækifæri í þessum leik en vörn og markvarsla mun bjarga því.

    Það er nú þannig

    YNWA

  5. Það hefur nú alltaf verið þannig að þegar Lovren blaðrar í fjölmiðla þá töpum við stigum.
    Vonandi breytist það á morgun

  6. Takk fyrir fína upphitun.
    Smá nitpikk frá Hr. Nálarauga…
    “Það móðgast engin ef ég kalla úlfanna spúkník lið deildarinnar í ár.”
    – Veit ekki hverjir ættu þá að móðgast nema þá að spúknik sé eitthvað nýtt skammyrði sem farið hefur framhjá mér 🙂

    “Þeir munu koma óttalausir á Anfield og reyna að halda sínum fína árangri á móti toppliðunum gangandi.”
    – Eflaust rétt það, en þá ekki fyrr en næsta vor. Þessi leikur mun fara fram á Molineux vellinum í Miðlöndunum.

    Tökum úlfana 0-2 í hörkuleik. Van Dijk MOM!
    YNWA!

  7. #5 Balti

    Ruglaðist á völlum og fattaði það þegar skýrslan var búin, hélt ég hefði leiðrétt það alstaðar.

    Varðandi spúknik liðið, meinti ég það sem hrós en datt í hug að stuðningsmennn annara liða en Wolves vildu sjá sitt lið sem spútnikið. Líklega var ég að flækja grínið.
    Takk fyrir ábendingarnar, maður batnar sem penni vegna hinna ýmsu Herra Nálarauga 🙂

  8. Takk fyrir góða upphitun!

    Fer fram á sigur, ekkert annað. Nýliðar í deildinni, vörnin er slæm og þeir verða að sækja. Ef þeir liggja aftur verður þetta svipaður leikur og síðast gegn United, yfirspil og spurning um þolinmæði.

    Sé ekki ástæðu til að rótera of mikið. Henderson kemur inn, sleppir Newcastle leiknum og verður með gegn Arsenal, plan sem Klopp bjó til í ágúst. Milner tekur hægri bak, mikilvægt að haga bakverði sem geta hjálpað almennilega til sóknarlega, auðvitað Robertson hinum megin. Trent verður ekki með, er að hrista af sér meiðzli.

    Wijnaldum og Keita með Henderson á miðjunni og okkar allra bestu 3 frammi. Shaqiri kemur síðan inná í seinni hálfleik ef þess þarf. Dijk og Lovren taka vörnina.

    0-3.

    P.s.
    Algjörlega tilgangslaus og pirrandi athugasemd sem fær að fylgja fyrst byrjað er að tala um nálaraugu. Þú talar um áður nefndan Sinto, en hafðir ekki nefnt hann áður. Fór ekki í taugarnar á mér og hafði engin áhrif á gæði upphitunarinnar þannig séð.

  9. Maðir er buin að fa þær nokkrar jolagjafirnar i desember og hver oðrum betri ognuna þarf eina i viðbot, ef við vinnum i kvold hef eg mikla tru a að við klárum desemberr með fuælt hus stiga, eigum að klara newcastle og arsenal heima og dr langmest smeykur við þennan leik i kvold af þessum þremur og serstaklega eftir ummæli Lovren, orðum það bara þannig að ef við topum i kvold er líklegt að eg taki nlsta flug ut og heimsæki Lovren aðeins hahaha, segi svona.

    En maður hefur bara það mikla tru a þessu liði að eg held við klárum þetta og höldum hreinu i 11 sinn i deild i vetur. Spai 0-2 i erfiðum leik mar sem Van Dijk og Allison verða með storleik og Salah og Mane klara þetta. Vona að Shaqiri byrji a miðjunni með Gini og Fabinho

  10. Verður virkilega erfitt og er skíthræddur við þetta lið og þeir unnu Chelsea um daginn þetta verður allt annað en auðvelt og þá sérstaklega á útivelli . Lovren ný búinn að koma í fjölmiðla með eitthverjar alhæfingar eða svona nánast það veitir aldrei á gott og sérstaklega ekki þegar 20 umferðir eru eftir plús allt hitt!
    Spái 1-2 í erfiðum leik

  11. 0-4
    Okkur spái alltaf vel,
    ekkert þó með skalla.
    Fjögur mörk trúlegt tel
    hjá tríóinu snjalla.

  12. Við vinnum þennan leik alltaf, er ekki bara hægt að tala um Liverpool sem spúknik liðið, við erum þar sem við villjum vera, og vorum að vona að við værum og jafnvel þar sem sumir okkar héldu að við myndum vera, hvernig líta stuðningsmenn annara liða á okkar lið.

    PS:
    FA ransakar það að Sturage hafi misst útúr sér að hann færi að láni og fær væntanlega sekt eða bann nema hvorttveggja sé, en Sanchez er beinlínis að veðja á að þjálfarinn hanns fari, hann hefur klár áhrif því hann vinnur það veðmál með því að liðið þar á meðal hann spili illa, hvar eru sansóknahundar FA, á ekki bara að dæma utd niður um deild fyrir þetta!!!

  13. Sæl og blessuð.

    Er að pissa í mig. Held þetta fari ekki vel. Úlfarnir kunna að mæta alvöruliðum og það er eins og eitthvað fari í gang sem erfitt er að stöðva. Svo er ekki létt að mæta í Miðlönd á þennan útivöll. Held þeir hafi ekki slegið grasið frá því í haust.

    Öss.

  14. Mikilvægasta athugasemd kvöldsins. Maður segir spútnik, ekki spúknik. 🙂

  15. Er hræddur um að við töpum þessum vegna ummæla Lovren….. Svo týpist
    en vona samt ekki

Miðar á Meistaradeild

Liðið gegn Wolves