Athugasemd: Tæknin hefur verið að stríða okkur all hressilega í dag. Síðan en blessunarlega komin upp aftur en öll plugin eru óvirt. Það stendur til bóta sem fyrst en áður en tími gefst til að finna út úr því setjum við inn upphitun Ingimars sem hann birti á Facebooksíðu Kop.is.
Í gær var ég að leiðsegja breskum hóp og spurði í hálfkætingi hvort einhverjir Everton menn væru í hópnum. Ein stelpan rétti upp hönd, hálfskömmustuleg, ég sagði að það væri leitt að heyra. Við grínuðumst aðeins um fótbolta, Liverpool og Gylfa. Mér fannst sanngjarn að spyrja hana hvort hún hefði einhver skilaboð til lesenda kop.is.
„Time for another slip up“ sagði hún glottandi og ég sá eftir að hafa lofað að prenta svarið hennar óritskoðað.
Á morgun mætast Liverpool og Everton í tvöhundruðþrítugastaogþriðja sinn. Everton hefur ekki unnið grannaslaginn síðan í október 2010, Jakielka og Baines voru þá í byrjunarliðinu, og það eru 22 ár síðan Liverpool heimsótti Guttagarð undir lok titilatlögu. Það var 1997, þegar Liverpool gat náð toppsætinu þegar fjórir leikir voru eftir. Leikurinn fór 1-1 og ekkert varð úr að Liverpool kláraði það mót efstir.
Þjálfarar bæði Liverpool hafa talað um að þessi leikur sé eins og úrslitaleikur heimsmeistaramótsins. Það myndi ekkert kæta Everton menn meira en að koma höggi á titilvonir okkar manna. Eins og ferðamaðurinn orðaði það við mig í gær: „If Liverpool win the league, I can‘t visit my home for about five years.“
Everton
Síðan Origi vann kraftaverkið á Anfield hefur tímabilið farið til fjandans hjá bláa helmingi Liverpool. Þeir unnu einn leik af sjö í desember, tvo af sex (annan í bikarnum) í janúar og einn af fjórum í febrúar. Algjört hrun, sem útskýrist líklega að einhverju leiti að hópurinn er ekki nógu breiður fyrir desember brjálæðið á Englandi og svo er liðið búið að vera lengi að ná sér í gangi eftir það.
Silva er einn af þjálfurunum sem er með mjög ákveðnar hugmyndir um hvernig á spila og þarf tíma til að láta þær ganga upp. Hann vill spila 4-2-3-1, hann leggur meiri áherslu á varnarleik en margir ungir þjálfarar og spilar með kantmenn sem falla djúpt til baka þegar liðið verst. Liðið pressar ekki jafn stíft og til dæmis Liverpool og Spurs, en reyna frekar að velja réttu augnablikin til að pressa og ná boltanum. Þegar boltinn næst bruna vængmennirnir upp völlinn og reyna að skapa hættu.
Málið er að það tekur tíma að láta svona kerfi ganga upp og Silva er ekki búin að hafa nægan tíma til að þjálfa kerfið í leikmannahópinn almennilega. Vandamál Everton í ár eru í raun bara tvö: Þeir eru ekki nógu góðir í vörn, né nógu góðir í að skora. Almennt hefur Silva byggt lið sín á traustum varnaleik, þeir eru bara búnir að halda hreinu sjö sinnum í vetur. Gylfi er búin að skora ellefu í deildinni í vetur, sem er mjög gott hjá miðjumanni. Richarlison er með 10 en aðrir leikmenn hafa skorað lítið sem ekkert. Theo Walcott er t.d. bara með 3 mörk í vetur og Calvert-Lewin, aðal sóknarmaður liðsins, er með 5.
En ekkert af þessu skiptir máli á morgun. Þetta er grannaslagur og form liðanna skiptir voða litlu, þetta verður stríð.
Þegar Everton spilaði við Cardiff í vikunni var það eftir 17 daga pásu og spurning hvort Silva haldi sig við eins óbreytt lið og hann getur. Baines er að glíma við meiðsli en Jagielka kom inn í liðið gegn Cardiff og spilaði bara vel. Það voru fleiri spurningamerki við að Schneiderlin kæmi inn í liðið, margir hreinlega búnir að gleyma að hann væri til. Ég ætla að spá að Gomes taki sæti hans í byrjunarliðinu en annars verði liðið óbreytt.
Okkar menn
Manchester City tók þrjú stig af Bournemouth og endurheimti þar með toppsætið. Þessi blessaða titilbarátta ætlar að verða sú mest spennandi í mörg ár og engin skekkjumörk hjá okkar mönnum.
Eina alvöru spurningamerkið er hvort Firmino sé orðin alveg heill og þá hvort að hann byrji leikinn. Ætla að spá því að hann verði í besta falli á bekknum, ekki teknir neinir sénsar. Aðrir leikmenn sem eru á meiðslalista er Brewster, Lovren, Chamberlain og Gomez
Varnarlínan segir sig sjálf og ef Firmino er úti finnst mér lang líklegast að við förum í sömu sóknarlínu og á móti Watford, Salah og Origi á köntunum og Mané upp á topp.
Miðjan hinsvegar, hver veit? Fabinho er fyrsti maður á blað þar hvað mig varðar, Milner og Wijnaldum voru frábærir gegn Watford en held að Klopp róteri aðeins. Spurningin hvort Henderson eða Keita komi inn fyrir Milner. Ætla að giska á fyrirliðann og þá lítur liðið svona út:
Spáin
Ég get ekki sú hugsun til enda að Everton taki stig af Liverpool í þessum leik. Það skiptir þá voða litlu hvort þeir endi í áttunda eða fjórtánda sæti, þeir hafa að því einu að keppa í vetur að skemma fyrir okkar mönnum. Goodison er búin að vera frekar sofandi í vetur en stúkan mun vakna fyrir þennan leik og hávaðinn verður gríðarlegur.
En Liverpool eru bara með miklu betra lið en Everton. Ég ætla að spá því að rauðu hetjurnar klári þetta 2-0, með mörkum frá Salah og Mané.
KOMA SVO!
Ingimar
Einar Matthías. Ég elska þína pistla og upphitanir. Takk fyrir mig. Við þyrftum að hittast og ræða Liverpool og fleira. Ég vona og vill að við tökum þennan leik á morgun , bara útaf gjöf shitty í síðustu leikjum. Vinnum þennan leik 1-3
Koma svo rauðir 🙂
Takk fyrir það Höddi en ég árétta að þetta er alls ekki minn pistill heldur Ingimars!
Sælir félagar
Nú vantar mig smá aðstoð, er staddur í London og var að spá í hvar best er að horfa á leikinn. Er ekki e-r hér sem veit um góðan stað?
YNWA
Þetta er STÓRTleikur og ekkert annað. Ef ykkur fannst Man utd vera í vígahug gegn okkur þá eru Everton menn miklu grimmari því að þetta er þeira bikarúrslitaleikur. Þeir eru ekki að berjast um neitt af viti en þeir vita að ef þeir vinna í dag eða jafnvel ná jafntefli þá geta stuðningsmenn þeira fyrirgjefa þeim annsi margt.
Til þess að okkar menn vinni í dag þá þurfu þeir einfaldlega að jafna þá í baráttu en ekki síður að spila okkar leik. Því að besti liverpool leikur vinnur alltaf besta Everton leikinn. Við þurfum að ná tökum á miðsvæðinu, sækja hratt þegar tækifæri gefst og í guðana bænum ekki gefa þeim aukapyrnur á hættulegum svæðum því að Gylfi er heimsklassa spyrnumaður.
Í sambandi við liðið í dag þá snýst þetta um hvort að hann treysti Firmino til að byrja leikinn en annars er Origi í liðinu og svo bara spurning um hverng hann lætur byrja með Fabinho/Winjaldum og er ég samála Ingimar í því að Henderson fyrirliði liðsins er líklegur til að byrja.
Spái 1-2 sigur Liverpool þar sem Dijk og Salah skora en Gylfi skorar fyrir heimamenn. Það verður líka eitt rautt spjald en heimamenn taka það á sig.
YNWA – það væri frábært að ná í 3 stig og ég tala nú ekki um að næstu tveir leikir eru heimaleikur gegn Burnley og útileikur gegn Fulham sem segir manni að það eru möguleikar á að komast á smá run.
Ingimar er alls ekki verri heldur ??
Stór leikur og loksins komið að honum. Ég spáði rétt í síðasta leik, 5-0 og ætla að gerast sannspár aftur 1-3 fyrir rauðum, lightweight!
Sama hversu bjartsýnn ég reyni að vera þá sé ég ekkert nema jafntefli í þessum leik. Tökum samt titilinn í vor.
Nú er komið að því. Eru leikmenn Liverpool vandanum vaxnir, komnir í fullorðinna manna tölu. Held að þessi leikur geti orðið snúnari en gegn MU. Margir Evertonmenn hafa talað digurbarklega um að eyðileggja titilvonir okkar manna. Trúi þó ekki að neinn með fullu viti vilji í alvöru að MC taki dolluna. Vona bara að menn byrji á fullu og ekkert lull, fullt gas er það sem hentar okkar liði best. Á venjulegum degi 2 til 3-0 en eins og menn vita eru ekki allir dagar venjulegir.