Upphitun: Chelsea á Anfield

Minningarorð um Tommy Smith 1945-2019

Dag er farið að lengja á norðurhveli jarðar og farið að styttast allverulega í annan endann á deildartímabilinu hjá engilsaxneskum frændum vorum. Með eingöngu 5 deildarleiki eftir hjá Rauða hernum þá verður hver leikur mikilvægari, hvert stig verðmætara, hver mistök dýrkeyptari og hver sigur þyngdar sinnar virði í gulli. Spennan er mikil og biðin eftir leiknum á sunnudaginn er nánast óbærileg.

En áður en lengra er haldið þá tökum við þó fyrst frá virðingarstund til að minnast á þær sorgarfregnir sem bárust fyrr í kvöld um að Liverpool-goðsögnin Tommy Smith hafi fallið frá 74 ára að aldri. Öllum alvöru Púlurum ætti að vera að góðu kunnur hinn grjótharði og eldrauði Tommy Smith sem ávallt var kallaður The Anfield Iron sökum eitilhörku sinnar og harðfylgni. Grjótharkan var þó ekki það eina sem honum var gefið sem fótboltamanni enda var hann fínn á boltanum, fjölhæfur í mörgum leikstöðum og lúnkinn taktískur spekúlant.

Herra Smith fæddist steinsnar frá Anfield Road inn í mikla Liverpool-fjölskyldu og spilaði sinn fyrsta leik undir stjórn Shankly árið 1963 þá bara 18 ára að aldri. Áður en yfir lauk á fótboltaferli Tommy hjá Liverpool hafði hann leikið 638 leiki fyrir liðið og skorað í þeim 48 mörk, unnið 4 deildarmeistaratitla, 2 FA Cup bikara og Evrópumeistaratitilinn árið 1977 ásamt 2 UEFA Cup titlum. Hápunktur ferilsins var er hann skoraði með gullskalla í úrslitaleiknum í Róm 1977 og kom Liverpool yfir í leiknum í átt að 3-1 sigri gegn Borussia Mönchengladbach.

Tommy Smith kemur Liverpool í 2-1 í Róm 1977

Af Tommy Smith eru sagðar margar magnaðar sögur og hann var rómaður fyrir sinn járnvilja. Hér eru nokkrar góðar á hans móðurmáli:

“Take that bandage off. And what do you mean your knee?
It’s Liverpool Football Club’s knee.”
– Bill Shankly to Tommy Smith –

Liverpool v Leicester
Frank Worthington skips past Tommy and crosses for a goal.
Tommy Smith to Frank – Do that again and I’ll break both your f*cking legs.
Frank Worthington to ref – Did you hear that ref?
Ref to Frank – I think he was talking to you.

I remember going to a sportsmen’s dinner and Steve Kindon talking about how hard Tommy Smith was. He said Tommy was that hard that 3 months after Tommy was born Germany surrendered.

Tommy Smith og Emlyn Hughes með fyrsta Evrópumeistaratitil Liverpool

Tommy Smith var grjótharður grunnur sem Bill Shankly treysti á og lykilmaður í því sigursæla Liverpool-liði sem byggt var upp á tíma hans hjá klúbbnum. Hann tileinkaði líf sitt og líkama Liverpool Football Club og var stoltur leikmaður, fyrirliði, þjálfari, vallarstarfsmaður og ævilangur stuðningsmaður besta félagsliðs í heimi.

Tommy var dáður og virtur meðal jafningja, samherja, mótherja og áhangenda. A working class hero is something to be söng John Lennon og Tommy Smith var holdtekja slíkrar verkamannahetju hjá hinu sanna liði fólksins í Liverpool-borg. Hans verður sárt saknað og við lútum höfði, lyftum glasi og heiðrum minningu eins af rauðustu Liverpool-mönnum sem verið hefur.

Hvíl í friði Tommy Smith. Við minnumst þín meistari og gleymum aldrei.

You never walk alone!

Mótherjinn

Engum andstæðing höfum við mætt oftar síðasta einn og hálfan áratuginn heldur en Chelsea FC. Oftar en ekki eru það gríðarlega mikilvægir leikir sem um er að ræða; bikarúrslit, Meistaradeildar-leikir eða deildarleikir á lykiltímapunktum á tímabilinu. Frá því að Mourinho mætti á Stamford Bridge þá hafa liðin verið sem segull á hvort annað og mæst í 48 leikjum á þessum 15 árum. Ávallt virðast þau draga hvort annað þegar höndin fer í hattinn og kúlurnar skila sinni niðurstöðu. Úr þessum tíðu bardögum hefur myndast ákveðinn rígur sem á sér dýpri rætur en eingöngu út frá fótboltalegum ástæðum. Þar er sett í samhengi illa fengið ríkidæmi djúpbláa höfuðborgarliðsins gegn hinu blóðrauða verkamannaliði norðursins.

Því miður verður leikur liðanna á Anfield vorið 2014 óhjákvæmilega rifjaður upp í samhengi við þennan enda örstutt eftir að tímabilinu þá líka og Liverpool einnig á toppi deildarinnar. En þó að aðstæðurnar séu keimlíkar á yfirborðinu þá líkur samanburðinum í raun þar því að bæði lið eru allt öðru vísi uppbyggð á sinn hátt í dag en þau voru í þeim leik. Chelsea hafði nokkrum leikjum áður kastað frá sér toppsætinu með slæmum töpum á heimavelli. Í hefndarhug lagði Mourinho sinni brynvörðu rútu á þeim tíma með sorglega góðum árangri en Sarri mun væntanlega hafa meiri virðingu en að leggjast svo lágt og mun sækja til sigurs á sinn hátt.

Að sama skapi er Liverpool dagsins í dag harðari hneta að brjóta varnarlega og treystir ekki á þann sóknarstorm sem meistaravonir liðsins byggðu á með Luis Suarez í fararbroddi. Chelsea er að slást um CL-sæti en með neyðarútgang í gegnum Europa League á meðan Liverpool er í rosalegasta og stigahæsta titileinvígi í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Þessi leikur skiptir Liverpool mun meira máli og inn í það mun spilast fjölmennari og taugasterkara Anfield, meiri hvíld eftir Evrópuleik á heimavelli meðan Chelsea spiluðu á útivelli í Tékklandi. Rauði herinn ætti að hafa miðlungsgóðan meðvind inn í þennan leik þó að eins og venjulega sé boltinn jafn hnöttóttur og fyrr með sínar óútreiknanlegu vegferðir.

Chelsea hafa verið að stíga upp undanfarið og unnið sína síðustu 3 deildarleiki. Framan af tímabili voru þeir í toppbaráttunni með Liverpool og Man City en um jól og áramót fór að fjara undan því með opinberri gagnrýni stjórans á baráttu síns liðs og fleiri vandamálum. Ekki minnkaði pressan við 6-0 tapið á Etihad gegn City og í kjölfarið af fíaskóinu með uppreisn Kepa Arrizabalaga gegn útafskiptingu sinni í úrslitatapi deildarbikarsins. Merkilegt nokk þá hefur Sarri skipstjóri veðrað storminn að mestu síðan þá og hangið inni í baráttunni um meistaradeildarsætið og um sigur í Europa League sem gefur líka CL-inngöngu. Flestir Chelsea-stjórar væru foknir nú þegar enda starfsöryggið lítið þar á bæ og hugsanlega verða það örlög hins filters-tyggjandi töffara á hliðarlínunni að bíta í byssukúluna í stað sígarettunnar.

En á sunnudaginn verður lítið spurt að því og þar munu mætast tvö af bestu liðum Englands og Evrópu í hörkuleik. Chelsea mun leggja flestar sínar vonir og væntingar á herðar og hreðjar Eden Hazard sem skoraði meistaramark á mánudeginum fyrr í vikunni. Þar er á ferð heimsklassa match-winner sem Liverpool þarf að hafa sem mestar og bestar gætur á. Hazard var eitt sinn ungur leikmaður í eldrauðri treyju að brillera fyrir Lille gegn Liverpool í Evrópu og kom sterklega til greina að fá hann í okkar raðir en því miður fór þar gæðabiti af eðalkjöti í hundskjaft. Den tid, den sorg.

Að mati upphitunarritara mun Signore Sarri stilla stríðsmönnum sínum svona upp:

Liðsuppstilling Chelsea í leikkerfinu 4-3-3

Liverpool

Rauði herinn hefur verið í öflugu formi síðustu vikurnar með 6 sigurleiki í röð í öllum keppnum og eingöngu tapað einum deildarleik allt tímabilið. Því miður var sá tapleikur gegn okkar helsta keppinaut um Englandsmeistaratitilinn en þegar þessi upphitunarorð eru rituð þá sitjum við í toppsætinu með 2 stiga forskot. Hvort að sú toppstaða verði raunin þegar blásið verður til leiks gegn bláliðum um eftirmiðdag á hvíldardeginum er í höndum herra Hodgson og kristalshallarkumpána hans. Einbeiting Klopp & co mun óháð því vera algjör á að landa öllum mögulegum stigum í þessum toppslag.

Við getum algerlega gefið okkur að sóknartríóið okkar magnaða verður á sínum stað í framlínunni og sama mun gilda um Virgil van Dijk í leiðtogasæti varnarinnar, Alisson í markinu og bakvarðabræðurna Robertson og Alexander-Arnold. Við hlið VVD ætla ég að spá því að Joel Matip komi aftur inn í liðið þrátt fyrir endurkomu Lovren í síðasta leik gegn Porto. Ég hygg að Klopp meti hann í meira leikformi í ensku deildinni og hann hefur að ósekju átt fína leiki á síðustu mánuðum. Innkoma Matip hefur að vissu leyti verið vanmetin en hann hefur staðið vel fyrir sínu frá því að Gomez meiddist og fjarvera Lovren dróst allt tímabilið. Frá desember-byrjun hefur Matip byrjað 17 leiki og enginn þeirra hefur tapast með 13 sigrum sem sýnir fram á að hann er mikilvægur hlekkur í þessu liði meistaraefna. Virðing þar sem virðing er verðug.

Á miðjunni tel ég að Fabinho haldi sinni stöðu sem sóknarspilandi varnar-akkeri og að fyrirliðinn Henderson fá einnig að halda áfram að brillera með kraftmiklar frammistöður í framliggjandi hlutverki. Heiðarlegt spjall Henderson fyrirliða við Klopp knattspyrnustjóra hefur valdið nettum straumhvörfum þegar á þurfti að halda í síðustu tveimur leikjum og allt sem kemur liðinu til góða er hið besta mál. Meira af því væri vel þegið og Jordan mætti splæsa í aðra svona sigursnuddu ef hann er í stuði.

Keita hefur skorað í tveimur leikjum í röð og loks farinn að sýna sitt rétta andlit. Mín tilfinning er þó sú að í stórleik sem þessum þá muni Klopp þykja sem Gini Wijnaldum sé fullhvíldur og fái að nýju sitt sæti sem lykilmaður á miðjunni. Sér í lagi til að loka réttum svæðum, að tengja betur við vörnina og halda bolta skynsamlega innan liðsins. Keita verður þó til taks af bekknum sem sóknarskipting ef á þarf að halda.

Að öllu ofansögðu yrði myndræn leikskýrsla Liverpool undirrituð af Herr Klopp eitthvað á þessa leið:

Liðsuppstilling Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

En ekki bara taka mitt gisk út í geiminn trúanlegt. Hlustið sjálf á bráðskemmtilegan blaðamannafund meistara Klopp um hádegisbil í dag:

Spakra manna spádómur

Þar sem ég gerðist svo lukkulegur að hitta á topp-Tékkana Berger og Smicer um síðustu helgi þá kemur ekkert annað til greina en að hafa spádóminn í takt við þann hitting. Snoppufríðari og hárprúðari helmingurinn af því tvíeyki lagði Chelsea bókstaflega í einelti og í sínum fyrsta leik fyrir Liverpool átti hann stórleik með tveimur glæsimörkum í 5-1 sigri á Anfield.

Sú ofurbjartsýna 5-1 spá verður því ofan á þó að ég yrði reyndar himinlifandi með hvaða sigurtölur sem er. Í þessum stóra sigri myndi Salah setja hat-trick til að troða rasista-söng bláliða um hann í vikunni þveröfugt ofan í þá. Til viðbótar setur minn maður Matip (arftaki King Clean Sheat Klavan) eitt mark en hið síðasta af þessum fimm verður sjálfsmark gestanna að hætti Andy Meyer.

Hittingur að hætti hússins: Smicer, Beardsley og Berger

YNWA

19 Comments

  1. Ef einhvern timann er lag að læra á trompett þá er það núna heima fyrir utan hjá Eden Hazard.
    Svaka leikur vonandi náum við góðum leik. Er einna bjartsýnastur á það vegna þess að Hendo er kominn með þriðja lungað. Held að þetti verði markaleikur 3-2 fyrir okkur.

    3
  2. Ég óttast að Klopp fari í það að nota vinnuhestana sína Henderson, Milner og Winjaldum í þennan leik. Þeir hafa staðið sig vel og allt það en ég vona að það sé komin sá tími að hann treysti Fabinho í þennan leik. Henderson mun 100% byrja en spurningin er hvort að Milner, Winjaldum eða Keita jafnvel taki seinasta plássið.
    Ég held að Winjaldum fái stöðuna en það hlýtur að vera erfitt að henda Naby Keita á be?kinn.

    1
  3. Þetta verður rosalegur leikur, Chelsea farnir að spila betur og við með allt undir.

    Fjölmiðlar leika sér að því að tala um þegar Gerrard rann á hausin og fær maður sting í magan í hvert skipti sem það er rifjað upp en þetta er bara partur af fortíð liðsins og aðeins Mignolet, Sturridge og Henderson eru eftir frá þessu liði og viti menn Salah er með góðar minningar frá þessum leik.
    Svo að maður er 100% viss um að umræðan um þetta atvik hefur engin áhrif á liðið sem er að spila í dag.
    Þessi leikur getur alveg farið illa en það verður ekki útaf atviki sem gerðist fyrir 5 árum en ég hef trú á verkefninu. Strákarnir hafa sýnt það í allan vetur að það er hægt að treysta þeim í að gera vel og erum við með 82 stig til að sanna það.

    Sarri mun líklega læra af sínum misstökum gegn Man City þar sem hann fór í hápressu gegn þeim sem var einfaldlega léleg og þeir slátruðu þeim. Hann mun láta sína menn liggja aftarlega og reyna að keyra á okkur þegar tækifæri gefst.
    Klopp mun held ég detta í hápressuna og reyna að gera þeim lífið leitt og spái ég að það takist með góðum árangri.

    2-1 sigur hjá okkar mönnum þar sem Salah og Firmino sjá um mörkin.
    Mikil umræða um miðjuna okkar og spái ég að Fabinho, Winjaldum og Henderson byrja þennan leik.

    YNWA – Í blíðu og stríðu

    5
  4. Sælir félagar

    Ekkert getur fengið mig ofan af því að Liverpool er sigurstranglegra lið en dökkbláa olíugarka liðið. Þar hjálpast að eftirfarandi:

    1. Heimavöllur sem hefur stöðugt verið að bæta sig í stuðningi við liðið og ekki mun rasistasöngur helblárra stuðnigsmanna olíuliðsins draga úr okkar stuðningmönnum. Þeim söng verður svarað svo sem vera ber.

    2. Erfiður útileikur í Evrópudeildinni situr örugglega í flestum leikmönnum olíuliðsins sem spiluðu allan þann leik. Þeir sem komu inn á í þeim leik þurftu líka að leggja sig alla fram eins og hinir sem spiluðu allan leikinn. Það bítur ásamt ferðalögum innan lands og utan.

    3. Allir okkar menn eru klárir í þennan leik og vita að ekkert nema sigur er í boði. Því má búast við vel hvíldir leikmenn Rauða hersins muni leggja sig meira en 100% fram í leiknum. Þegar það hefur gerst hefur ekkert lið í Evrópu staðist okkar mönnum snúning.

    4. Söngur helblaárra skíthausa um Mo Salah verður leikmönnum hvatning til að standa sig betur en ella. Þó ætti mótiveringin að vera næg þess utan. Rasistaviðhorfin munu því koma í bakið á helbláa liðinu.

    5. Það er ljóst að hvernig sem fólk veltir þessum liðum fyrir sér þá er Liverpool liðið betur skipað í flestum stöðum og jafnvel skipað í sumum. Liverpool liðið er því hvergi verr skipað og það eitt ætti að nægja til sigurs. Þegar ofantalið kemur líka með okkar mönnum verðum við að bóka sigur í þessum leik. Það verður samt engin skemmtiganga í garðinum og þó hinn franski nefjólfur þeirra telji sig vera jafnoka Virgilsins þá er það mikill misskilningur hjá honum. Virgillinn stendur honum framar á öllum sviðum fótboltans. Því er mín spá 3 – 1 þar sem olíuliðið mun skussa inn einu marki gegn öllum gangi leiksins.

    Það er nú þannig

    YNWA

    8
  5. Afsakið þráðrán! Getur einhver ykkar sagt mér hvort sigurvegarinn úr viðureign Liverpool og Porto spili seinni leikinn í undanúrlitunum þann 7. eða þann 8. maí?

  6. Þvílíka spennan fyrir þessum leik! Eins og allir leikir sem eftir eru af tímabilinu þá er þetta úrslitaleikur.

    Ég ætla ekki að fara fram á neina sérstaka uppstillingu fyrir þennan leik, en ég veit að það er sama hvort Lovren eða Matip byrja leikinn eða hvaða miðju Klopp stillir upp, ef leikurinn vinnst ekki fær Klopp þvílíka gagnrýni úr öllum áttum, sem hann á ekkert endilega skilið.

    Ég treysti honum fullkomlega til að stilla upp því liði sem getur unnið Chelsea á Anfield, í fyrsta sinn síðan 2011.

    Mín spá er að Salah og Dijk klári þennan leik fyrir okkur.

    8
  7. Einar/1991, ég álykta reyndar út úr þessu að sigurvegarinn úr einvígi Liverpool-Porto muni leika 1. maí og 7. maí, þótt það komi reyndar alls ekki fram.

    1
  8. Sæl og blessuð.

    Þetta verður alvöru rimma.

    Flest sæti eru sjálfgefin en ég spái:

    1. Lovren frekar en Matip
    2. Miðjan: Hendó, Gini og Keita (Milner kemur inn fyrir hann á 75. mín.)

    Svo koma þeir Shaquiri og Origi inn fyrir Salah og Mané á 81. og 87. mín.

    Eins og þið sjáið þá er þetta sigurspá og mörkin koma bæði í fyrri hálfleik.

    4
  9. Ég hef haldið kúlinu í allan vetur.
    Notið hverrar mínútu, stundum í örlitlu mótlæti en oftast í miklu meðlæti la la lalla la læti.
    Trúin staðföst. Geggjaðasta tímabil síðan á níunda, jafnvel áttunda áratug síðustu aldar.
    En núna er að detta í þörf fyrir kvíðastjórnun. Óttinn að læðast inn.
    Fer inn í leikinn helstressaður en mun fagna því meir í leikslok.
    Það er óhugsandi að þetta ofmetna posh lið nái að halda út 93 mínútur af orrustum rauða hersins.
    3-0 takk fyrir.
    YNWA

    4
  10. 1991 – Liverpool leikur 1. maí við Barcelona og svo þann 8. maí aftur; síðan til úrslita gegn Juventus í Madrid þann 1. júní 😉

    5
  11. Takk fyrir þetta Magnús og ekki síst fyrir minningarorðin um Tommy Smith. Þessir grjóthðrðu Liverpoolmenn eiga mikla virðingu skilið og blessuð sé minning þessa frábæra leikmanns.
    Lekurinn í dag er alvöru því Chelsea eru ekki neinir gúbbar og hafa frábæra leikmenn. Mistök mega því alls ekki eiga sér stað og og held ég að þetta geti vberið stóra prófið fyrir okkar menn og hvort þeir höndli pressuna og geri góða hluti og….
    …númer eitt er að fá ekki á sig mark
    …vonandi er TAA í fínu standi
    …Henderson heldur áfram keyrslunni frá síðustu leikjum
    …VvD hefur náð sér á fullu eftir hnjaskið um daginn
    …menn verða ekki með neinn fíflagang og taki einhverja óþarfa sénsa
    …liggur það ekki í loftinu að Firmino skori
    …fyrir mig dugar 1-0 sigur
    …áfram Liverpool

    5
  12. Við fáum ekki hjálp hjá Palace í dag en þeir virðast ekki nenna þessu.
    Eina sem skiptir máli er samt að við náum að klára okkar leik og halda pressuni áfram á Man City en það kæmi mér ekkert á óvart að okkar strákar spila frábærlega til loka og vinna restina og það myndi samt ekki duga til.

    YNWA – koma svo 3 stig í dag

    2
  13. Ha ha ha héldu menn virkilega að einhver önnur félög færu að hjálpa Liverpool með því að vinna City nei flest öll lið á Englandi hata Liverpool og er drullusama þó að City verði meistarar og satt best að segja þá sé ekki að við séum að fara vinna þennan titil í ár.

    2

Síðasta púslið og keðjuverkandi áhrif

Byrjunarliðið gegn Chelsea á Anfield