Þegar Steven Gerrard lyfti bikarnum á loft í Istanbul árið 2005 hafði Liverpool unnið æðstu Evrópukeppni félagsliða fimm sinnum á móti aðeins einum titli Barcelona. Raunar var Liverpool búið að vera í banni frá þáttöku í Evrópukeppnum í sex ár þegar Barcelona vann sinn fyrsta titil tímabilið 1991-92. Sex ár þar sem Liverpool var með besta liði heimi flest árin og hafði fram að því verið í úrslitum tvö ár í röð og fimm sinnum á einum áratug. Sögulega er Barcelona ekki stærra en Liverpool og allt þar til fyrir áratug voru þessi lið alveg að keppa á jafnréttisgrundvelli í Evrópu. Bæði fóru t.a.m. tvisvar í úrslit á síðasta áratug.
Satt að segja er með ólíkindum að Barcelona hafi ekki unnið Evrópukeppni Meistaraliða fyrr en 1992 þar sem félagið hefur haft svo gott sem óheftan aðgang að keppinni frá upphafi. Barcelona hefur unnið deildina heimafyrir 25 sinnum og verið í öðru sæti jafnt oft. Fimmtán sinnum hafa þeir svo verið í þriðja sæti þannig að Barcelona hefur verið í topp þremur í 65 skipti af 90. Það hafa raunar bara 9 lið unnið deildina á Spáni í sögunni, þrjú af þeim eiga einn titil hvert og eitt þeirra er með tvo titla. Bilbao sem er með átta titla vann síðast árið 1984.
Eftir að sjónvarpstekjur urðu mikilvægari pössuðu risarnir tveir að þeir fengju bróðurpartinn af þeim tekjum líka öfugt við t.d. fyrirkomulagið á Englandi sem hefur alltaf (þrátt fyrir allt) verið miklu jafnari deild. Það er enginn Roman á Spáni, Katar á ekkert lið þar heldur, ekki heldur Abu Dhabi. Nema auðvitað fyrir utan að þetta eru helstu styrktaraðilar Barcelona og Real Madríd. Fly Emirates er frá Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum þar sem eigendur Man City ráða ríkjum og Qatar Airways er í eigu sömu fjölskyldu og á PSG. Spænska deildin er sterk en bilið milli þessara tveggja og hinna er jafnvel ennþá meira galið en við þekkjum frá Englandi og hefur verið þannig miklu lengur.
Undanfarin áratug hefur landslagið heldur betur breyst til hins verra fyrir Liverpool. Barcelona hefur vaxið og vaxið með besta leikmann sögunnar í fararbroddi á meðan Liverpool hefur farið niður til Roy Hodgson og aftur til baka.
En Liverpool er líka svo sannarlega komið aftur. Stærri, sterkari, fljótari og miklu miklu hungraðari. Barcelona er ennþá með besta leikmann sögunnar í fararbroddi, þeir eru með besta leikmann sem ég hef séð í Liverpool búningi með honum og þeir eru með dýrasta leikmann sem Liverpool hefur selt. Að auki eiga þeir einn dýrasta og efnilegasta ungling í heimi. Liverpool þarf þrátt fyrir það ekki að vera með nokkra einustu minnimáttarkend þegar liðin mætast 1.maí n.k.
Liverpool 2018/19 vs Barcelona 2018/19
Byrjum ballið á því að bera þessi lið saman ca. út frá mínútum spiluðum í vetur og líklegum byrjunarliðum
Liverpool liðið er mjög nálægt því að vera á fullkomnum aldri, meðalaldur byrjunarliðsins er í kringum 26 ára hvort sem við gerum 1-2 breytingar á því liði sem þarna er sett fram. Þetta eru nánast allt leikmenn sem eru komnir á þennan klassíska “hátind ferilsins”aldur eða rétt að detta á hann. Það er aðeins einn unglingur fastamaður í liðinu en hann er líka eitt mesta efni í heiminum og einn sá besti í sinni stöðu. Ef að við skiptum Gomez inn fyrir Matip á það sama við.
Bestu leikmenn Barcelona eru hinsvegar flestir komnir norður fyrir þrítugt. Messi, Suarez, Pique, Rakitic, Busquets og Alba eru allir eldri en okkar elsti byrjunarliðsmaður. Það er vonlaust að segja til um fyrirfram hvort hungrið vinni reynsluna í svona tveggja leikja einvígi en þetta Liverpool lið lítur ekkert lakara út á pappír, sérstaklega ekki með næstu ár í huga og ef mið er tekið af því hverjir stýra liðunum.
Alisson vs ter Stegen
Alisson hefur undanfarin tvö tímabil verið einn af topp þremur bestu markmönnum í heimi og á stóran þátt í stökkbreyttum varnarleik Liverpool þrátt fyrir að vera á fyrsta ári sínu hjá félaginu. Ter Stegen hefur á sama tíma fest sig í sessi í liði Barcelona og er einnig gríðarlega góður. Þeir eru jafngamlir og líklega í svipuðum gæðaflokki en ég efast um að það sé til stuðningsmaður Liverpool sem myndi vilja skipta.
Alba/Roberto vs Robertson/Alexander-Arnold
Barcelona er eitt af fáum liðum sem stenst Liverpool snúning í þessari stöðu og eiga á að skipa svipað sóknarþenkjandi bakvörðum og Liverpool. Þeir hafa reynsluna fram yfir Robertson og TAA en okkar menn hungrið. Alba hefur verið einn besti vinstri bakvörður í heimi síðan hann kom inn í Barcelona liðið fyrir Abidal á meðan Sergi Roberto hefur aðeins verið í skugganum af Dani Alves sem spilaði þessa stöðu áður fyrir Barcelona.
Robertson og Trent hafa vaxið það mikið undanfarin tvö ár að það er ekki til betra bakvarðapar í dag, ekki einu sinni hjá Barcelona þó líklega sé þessir leikmenn ansi jafnir hvað gæði varðar. Haldi okkar menn áfram að þróast undir stjórn Klopp væri ég til í að bera þessa leikmenn aftur saman að ári.
Piqué/Lenglet vs Van Dijk/hver sem er.
Van Dijk er besti miðvörður í heimi í dag, hann er nálægt því að vera besti leikmaður í heimi óháð stöðu og gæti þetta einvígi hreinlega ráðið úrslitum um hvort hann eða Messi á skilið Ballon d´or.
Okkar maður hefur mætt Barcelona áður og hafði í nógu að snúast í þeim leik.
Virgil van Dijk playing for Celtic vs Barcelona at the Nou Camp back in 2013. pic.twitter.com/H9clOkHhJf
— LFCGlobe.co.uk (@LFCGlobeUK) 18 April 2019
Piqué hjá Barcelona var fyrir nokkrum árum einn af þeim allra bestu einnig en er núna 32 ára kominn aðeins á eftir Van Dijk og ekki lengur með jafn góða leikmenn í kringum sig. Lenglet hefur verið með Piqué í vörn Barcelona en það er gríðarlega efnilegur Frakki sem hefur spilað með öllum yngri landsliðum. Gott miðvarðapar með Umtiti til vara en þessi varnarlína hefur verið mistæk í vetur og fengið mun fleiri mörk á sig en vörn Liverpool.
Hjá Liverpool skiptir varla máli hver spilar með Van Dijk. Matip hefur verið mjög traustur það sem af er þessu ári á meðan Lovren var í hjarta varnarinnar hjá liðunum sem fóru alla leið í úrslit Meistaradeildarinnar og Heimsmeistaramótsins á síðasta ári. Joe Gomez var svo fastamaður og bestur af þeim þremur fyrir áramót.
Þetta eru allt mjög góðir leikmenn en hér fær Klopp ekki nægjanlega mikið credit fyrir að laga varnarleik Liverpool. Það var ekki bara gert með kaupum á Van Dijk. Liðið var farið að verjast miklu betur á síðasta tímabili áður en Van Dijk kom og þó hann sé fullkomlega ómissandi er vert að benda á að FC Bayern átti varla skot að marki með Matip og Fabinho saman í hjarta varnarinnar í 16-liða úrslitum.
Vonandi er vörn Liverpool það mikið betri en vörn Barcelona að það vinni upp “gæðamuninn” á sóknarlínum liðanna.
Miðsvæðið
Hér er erfiðast að bera liðin saman enda fer þetta alveg eftir því hvernir Klopp leggur leikinn upp.
Busquets vs Fabinho
Sergio Busquets er ekki nema þrítugur og fyrir löngu orðin lifandi goðsögn hjá Barcelona. Þegar hann var upp á sitt besta var hann stór partur af bestu miðju í heimi með Initesta og Xavi með Mascherano fyrir aftan þá nánast spilandi sem djúpur miðjumaður frekar en miðvörður enda Barca ALLTAF með boltann. Hann er miklu meira en sópandi djúpur miðjumaður og á líklega hvað stærstan þátt í að þetta hlutverk aftast á miðjunni hefur breyst undanfarin ár.
Að því sögðu er miðja með Busquets, Rakitic og Arthur ekkert eins sexy og því síður sú besta í heimi þó auðvitað séu þetta mjög góðir leikmenn. Busquets hefur nafnið og reynsluna á Fabinho en hvort hann sé betri leikmaður í dag dreg ég í efa. Barcelona er m.a.s. nú þegar buið að kaupa arftaka hans í hinum geggjaða leikmanni Frenkie De Jong.
Tek samt fram að áður en Fabinho kom vorum við að óska eftir okkar Busquets týpu í tæplega áratug. Hann er ekki bara góður heldur einstaklega pirrandi líka rétt eins og margir leikmenn Barcelona og hann sannarlega öll trikkin í bókinni.
Rakitic vs Henderson
Eftir að Jordan Henderson fór loksins aftur í sitt náttúrulega umhverfi breyttist hann í heimsklassa miðjumann svipaðan þeim sem var rétt búinn að lyfta bikarnum á loft 2014. Ivan Rakitic er mjög góður en ég myndi ekki skipta á honum og Henderson eins og staðan er núna. Hefði gert það fyrir mánuði samt. Annað sem gæti skipt máli er að Henderson kemur ferskur inn í lokakaflann, hann hefur spilað ígildi 24 leikja m.v. spilaðar mínútur í vetur á meðan Rakitic hefur spilað 35 leiki og var þar áður allt sumarið á HM með Króatíu.
Arthur vs Wijnaldum/Keita
Arthur er svo eitt mesta efnið í boltanum og hefur komið svo til beint í byrjunarlið Barcelona frá Gremio í Brasilíu. Hann er samt keyptur í kjölfar þess að Naby Keita valdi að fara til Liverpool frekar en Barcelona. Keita hefur farið hægt af stað en er farinn að sýna afhverju við biðum eftir honum og ef að Henderson ætti að koma ferskur í lokavikurnar þá á það sama heldur betur líka við um Keita.
Engu að síður set ég Wijnaldum í byrjunarliðið þar sem ég tel líklegra að Klopp treysti á hann a.m.k. á Camp Nou. Hann var framan af tímabili besti miðjumaður Liverpool en hefur reyndar dalað töluvert eftir áramót. Wijnaldum hefur einmitt eins og Rakitic spilað 35 leiki það sem af er tímabili í deild og Meistaradeild (plús svo landsleikir) og virkar dauðþreyttur.
Báðum liðum hefur vantað Coutinho í vetur ef svo má segja. Hann átti að fylla skarð Initesta hjá Barcelona en virkaði ekki nógu vel varnarlega ef ég skil gagnrýnina á hann rétt, ekki beint sjokk fyrir stuðningsmenn Liverpool en okkur hefur vantað framliggjandi miðjumanninn okkar í allan vetur líka.
Messi/Suarez/Coutinho vs Salah/Firmino/Mané
Frammi er Barcelona ennþá algjörlega fremst í flokki en það er ekkert víst að svo verði áfram á næstu árum. Allavega ekki eins afgerandi og þeir hafa verið.
Messi
Leo Messi er auðvitað ennþá bara svindlkall, hann er með 10 mörk bara í Meistaradeildinni í vetur og hefur komið að um 60 mörkum Barcelona í deild og Meistaradeild. Eitthvað sem hann hefur verið að gera reglulega í 10 ár. Þetta er einfaldlega besti leikmaður sögunnar og ennþá á hátindi ferilsins. Liverpool má ekki rúlla út rauða dreglinum líkt og gert var fyrir Ronaldo árið 2014 þegar þeir mæta Messi og það er lítil ástæða til að óttast slíkt. Van Dijk ætti að verða hans erfiðasti andstæðingur það sem af er þessu tímabili og Anfield er sannarlega komið aftur í Evrópugírinn.
Suarez
Með Messi frammi er svo Luis Suarez, besti leikmaður sem ég hef séð spila fyrir Liverpool. Hann er kominn með 20 mörk í deildinni í vetur. Messi og Suarez eru núna 31 og 32 ára og spurning hvort langt tímabil í kjölfarið á HM síðasta sumar fari eitthvað að síga í núna á lokametrinum? Þeir hafa svosem báðir sýnt það í gegnum tíðina að þeir eru nánast ómannlegir þegar kemur að álagi og meiðslum. Suarez er sá fyrrverandi leikmaður Liverpool sem mér hefur hvað mest kviðið fyrir að sjá mæta Liverpool. Bæði vegna þess að hann er ógeðlsega góður en ekki síður vegna þess að eitt af því sem ég elskaði við hann var hversu fullkomlega óþolandi andstæðingur hann var. Hann fær líklega sæmilegar móttökur á Anfield öfugt við hinn fyrrverandi leikmann Liverpool í Barcelona liðinu.
Coutinho
Coutinho er dýrasti leikmaður sem Liverpool hefur selt frá sér og var með Salah besti leikmaður Liverpool fram að áramótum í fyrra. hann fór til þeirra í janúar en í sumar bættu þeir svo Dembéle við til að fylla skarð Neymar. Hann kostaði svipað og Coutinho eða €142m. Coutinho var miklu frekar ætlað að fylla skarð Iniesta á miðjunni en hefur ekki fundið sig í því hlutverki í vetur og því hafa hann og Dembele verið að keppa um sömu stöðuna. Klikkuð breidd auðvitað en svakalegt klúður engu að síður að kaupa 142m miðjumann sem er kantmaður. Hann hefur ítrekað verið orðaður burt frá Barca í vetur en var vissulega í góðu standi gegn United.
Coutinho er eins og verðmiðinn gefur til kynna frábær leikmaður, einn sá hættulegasti í bransanum fyrir utan teig og í föstum leikatriðum (sem Messi tekur reyndar). Hann hefur samt sýna galla og rétt eins og Liverpool í fyrra hefur Barcelona ekkert endilega verið betra með hann innanborðs.
Hann er ekki fyrsti leikmaðurinn sem lendir í vanda eftir að hafa yfirgefið Klopp og hann var varaður við fyrir 18 mánuðum síðan
“Stay here and they will end up building a statue in your honour,” said Klopp of Coutinho last year, per the Independent.
“Go somewhere else, to Barcelona, to Bayern Munich, to Real Madrid, and you will be just another player. Here you can be something more.”
Sóknarlína Barcelona er fullkomlega frábær en hún skilur eftir svæði á bakvið sig og það er spurning hvernig þeim liður gegn Liverpool ef Klopp nær að kveikja á sínum besta leikstjórnanda, Gegenpressing.
Sóknarlína Liverpool
Eins góðir og Messi og Suarez hafa verið undanfarin ár og eru ennþá þá eru sóknarlína Liverpool öll á besta aldri, allir að toppa og standast kollegum sínum í Barcelona almennt ágætlega snúning. Barcelona hefur skorað fjórum mörkum meira í La Liga í vetur og spilað tveimur leikjum færra en Liverpool er hinsvegar með markatöku +57 sem er sjö mörkum betra en Barcelona. Það hvort liðið er að spila í sterkari deild er umræða sem hefur engan endi en hér er ágætt dæmi um samkeppnisforskot Barcelona og Real Madríd heimafyrir. Á meðan eru átta af tuttugu dýrustu liðum í heimi að spila á Englandi, þrjú á Spáni.
Varnarleikur fremstu manna er báðum liðum mikilvægur og þar standast okkar menn Barcelona algjörlega snúning. Eins er Liverpool með fleiri stig í deildinni en Barcelona er með í La Liga sem eru töluverð tíðindi.
Það er ekki að ástæðulausu að stuðningsmenn annarra liða hafa efnt til keppni á samfélagsmiðlum í að útskýra fyrir okkur afhverju okkar bestu menn munu pottþétt fara fram á sölu til Spánar. Slúður sem umboðsmaður Salah sparkaði niður á núll einni er bara samt tekið sem heilögum sannleik. Bæði sýnir það hversu skíthræddir þeir eru við sóknartríó Liverpool en einnig að þessir leikmenn eru í allra hæsta gæðaflokki.
Enginn af þeim hefur gefið svo mikið sem vísbendingu um að vilja yfirgefa Liverpool á næstunni, þvert á móti raunar og afhverju í helvítinu ætti nokkur þeirra að vilja fara? Þeir eru að spila betur en þeir hafa nokkurntíma gert og að keppa um stærstu titlana hjá Liverpool. Svona fyrir utan það að Michael Edwards sá um Barcelona næstu árin þegar hann seldi Coutinho með því að setja 100m skatt á öll leikmannakaup þeirra frá Liverpool næstu þrjú árin.
Ég held að hún Magi Salah vinkona mín sé sultuslök yfir einhverjum Spánar hégóma. pic.twitter.com/qqAPVa9zUd
— Sóli Hólm (@SoliHolm) 18 April 2019
En færi svo að Liverpool myndi selja einhvern af sínum bestu mönnum yrði Klopp í samvinnu við Edwards líklega ekki lengi að búa til næstu stórstjörnu. Salah, Mané og Firmino myndu sakna Klopp miklu meira en hann þeirra, Coutinho getur líklega staðfest það.
Salah
Salah kemur ekki vel út í samanburði við Messi þó hann hafi verið að spila á hans leveli á síðasta tímabili og hefur verið að hressast mjög núna undanfarnar vikur. Salah er hinsvegar bara 26 ára og ekkert víst að hann hafi náð sínu þaki. Messi var sannarlega ekkert búinn að toppa 26 ára sem dæmi.
Bobby
Firmino hefur stundum verið kallaður light útgáfan af Suarez og það er ekki einu sinni meint á neikvæðan hátt, Suarez var það fáránlega góður hjá Liverpool. Þeir eiga vinnusemina sameignlega og spila vissulega báðir fremst en eru þar fyrir utan ólíkir leikmenn. Firmino á líka fimm ár á Suarez og er núna jafngamall og Suarez var þegar hann fór frá Liverpool til Barcelona.
Mané
Mané er síðan bara betri leikmaður en Coutinho og líklega Dembelé líka (þó það gæti breyst). Hann er fjölhæfari og miklu vinnusamari og Liverpool fór upp um level eins ótrúlegt og það nú er þegar Coutinho var seldur þrátt fyrir að engin hafi komið í staðin. Mané fór endanlega á vænginn og Oxlade-Chamberlain festi sig í sessi á miðjunni. Liverpool átti nánast allar sínar stærstu stundir á síðasta tímabili eftir að Coutinho fór.
Klopp vs Valverde
Serkasta vopn Liverpool er eftir sem áður alltaf stjóri liðsins. Hann hefur aldrei tapað tveggja leikja útsláttareinvígi sem stjóri Liverpool sem er galið í ljósi þess að þetta er þriðja tímabilið hans með liðið í Evrópu. Hann er arkitektinn af uppgangi Liverpool og mikilvægasti maður á launaskrá.
Ef við eigum að vera alveg hreinskilin þá skiptir ekki nærri því jafn miklu máli hver stýrir Barcelona m.v. yfirburði þeirra heimavið. Leo Messi einn og sér gæti látið Mark Hughes líta út sem nokkuð góðan stjóra.
Það þýðir ekki að Valverde sé ekki verulega hæfur stjóri, auðvitað vita forráðamenn Barcelona ágætlega hvað þeir eru að gera þegar þeir ráða nýjan stjóra þó Valverde hafi verið töluvert umdeild ráðning. Valverde er ekkert sérstaklega þekkt nafn fyrir utan Spán en hann kom til Barca frá Bilbao. Hefur 14 ára reynslu af Spænska boltanum sem stjóri og er auk þess fyrrum leikmaður Barcelona (undir stjórn Cruyff). Hann er þekktur fyrir að hlúa vel að ungum leikmönnum og sjá forráðamenn Barca hann fyrir sér sem fínan kost til að leiða kynslóðaskiptin sem eru í gangi hjá félaginu. Valverda byrjaði vel og vann bæði deildina og bikarinn á síðasta tímabili en féll eftirminnilega úr leik gegn Roma í Meistaradeildinni eftir að hafa unnið fyrri leikinn 4-1 í Katalóníu. Hefðu þeir haldið út þar væru Liverpool og Barcelona að mætast annað árið í röð í undanúrslitum.
Guardiola, Villenova, Martino og Enrque voru ekki með mikið merkilegra CV þegar þeir tóku við Barcelona en þekktu vel DNA félagsins.
Þegar dregið var í 16-liða úrslit var Valverda mjög ánægður með að sleppa við Liverpool. Eðlilega kannski þar sem Liverpool var langsterkasta liðið af þeim sem endaðu í öðru sæti í riðlinum en áhugavert engu að síður núna þegar liðin hafa dregist saman.
? [RAC1] | Ernesto Valverde:
? “We are pleased with the Round of 16 draw. We wanted to avoid a rival like Liverpool, the current runners-up in Europe.”
? “Lyon will not be easy, as they have been able to compete for top-spot in the group stages at Manchester City.” pic.twitter.com/Np4u46nfVC
— BarçaTimes (@BarcaTimes) 17 December 2018
Klopp hefur aldrei mætt Barcelona í alvöru leik en hann hefur mætt Valcerde áður sem þjálfara. Hann var þá stjóri Dortmund en Valverde með Olympiacos. Þrátt fyrir að hafa ekki mæst ættu þessi lið að þekkja hvort annað nokkuð vel.
Enska deildina að taka yfir aftur?
Það hefur verið mín tilfinning í þó nokkuð langan tíma að ensku liðin hljóti að ná þeim spænsku aftur. Frá 2005-09 fóru Liverpool (2), United (2), Chelsea og Arsenal öll í úrslit Meistaradeildarinnar. Sex af tíu liðum í úrslitum voru ensk á þessum fimm ára kafla á meðan Barcelona (2) voru einu fulltrúar La Liga í úrslitum.
Síðan þá hefur baráttan bara harnað í enska boltanum og einokun fárra risaklúbba á meginlandinu á Evrópusætin í sínum heimalöndum skekkt samkeppnisforskotið og auðveldað þeim aðgengi að bestu leikmönnum í heimi. Ensku liðin hafa á sama tíma verið í mismunandi vandræðum.
Man Utd seldi Ronaldo og nokkrum árum seinni hætti Ferguson og ´92 árgangurinn, þeir hafa ekki gert neitt merkilegt í Meistaradeildinni síðan þá.
Vandamál Liverpool á þessum áratug þarf ekki að fara yfir en spáið í hversu mikil synd það var að félagið hafi ekki byggt ofan á það frábæra lið sem við vorum með árið 2009. Þá rétt eins og nú hefði vel verið hægt að skrifa mjög sambærilega færslu um leikmannahóp Liverpool sem var mjög vel mannaður með lykilmenn á frábærum aldri. Frá 2005-09 var Liverpool meðal þeirra bestu og seldi ekkert sína bestu menn til Barcelona eða Real Madríd, þeir mættu þeim hinsvegar í búningi Liverpool og pökkuðu þeim saman.
Áskrift Arsenal að Meistaradeildinni í 19 ár er einhver mesta sóun á Meistaradeildarsæti sem komið hefur fyrir enska boltann. Einn úrslitaleikur og einn undanúrslitaleikur eftir það. Sami árangur og Liverpool hefur afrekað á tæplega 12 mánuðum.
Man City hefur síðan ekki ennþá tekist að kaupa Meistaradeildartitilinn þrátt fyrir ótakmarkað aðgengi að peningum. Þeim tekst það á endanum en Evrópukeppnir eru ekki partur af DNA félagsins. Guardiola með öll sín ofurlið undanfarin átta ár hefur ekki komst í úrslitaleik CL síðan 2011 þegar hann stjórnaði einu besta félagsliði sögunnar.
Chelsea hefur síðan verið með ólíkindum óstöðugt en vissulega eina enska liðið sem hefur unnið Meistaradeildina á þessum áratug.
Inn í þessi vandræði ensku liðanna blandast uppgangur spænska boltans í heild. Spænska landsliðið hafði ekki unnið stórmót (EM) síðan 1964 þegar þeir unnu EM 2008. Þeir tóku HM og næsta EM líka og stimpluðu sig inn sem eitt besta landslið sögunnar. Megnið af þessu liði spilaði með Real Madríd og Barcelona ásamt bestu leikmönnum sögunnar (Ronaldo og Messi). Svona fyrir utan alla hinar stórstjörnur þessara liða.
Undanfarin níu ár hefur spænskt lið átta sinnum verið í úrslitum (8 af 18). Real Madríd hefur alltaf farið a.m.k. í undanúrslit þar til núna. Undanfarin fimm ár hafa Real Madríd og Barcelona unnið í öll skiptin og það er orðið meira en þreytt.
Vindarnir eru engu að síður farnir að blása aftur í átt að Englandi, enska deildin hefur ennþá langmest fjárráð heilt yfir og það er farið að sjást á nýjan leik. Endurkoma Liverpool í úrslitaleikinn á síðasta ári voru góðar fréttir fyrir enska boltann og tvö ensk lið í undanúrslitum núna eru það líka. Sérstaklega þar sem hvorugt þeirra kemur frá Manchester.
Einar Matthías
Takk fyrir þessa greiningu Einar. Greinilegt að karl hefur lagst yfir liðin og stúderað þau vel. Barcelona er með besta leikmanninn (amk ennþá og svindkall eins og þú segir) en bestu leikmenn okkar liðs koma þar skammt á eftir. Sammála flestöllu og um mikilvægi Klopp. Ef hægt er að finna eitthvað neikvætt um þann mann eru töpin í úrslitaleikjunum sjálfum í Evrópukeppni. Hann á eftir að stíga yfir þann erfiða hjalla. Liverpool er komið á þann stall að ekkert lið vill mæta þeim í útsláttarkeppni, ekki einu sinni Barcelona. Þú segir Einar að liðið sé á besta aldri. Ég held að liðið , ef leikmenn fara ekki, verði á enn betri aldri næstu tvö árin. Stóra verkið í sumar verður að halda okkar gæðanönnum en ekki tapa þeim í sólina á Spáni. Hugsið ykkur ef Alonso, Torres, Mascareno og Suarez hefðu verið lengur á Anfield.
Sælir félagar
Takk fyrir þetta Einar Matthías mikið assgoti getur þú verið skemmtilegur kallinn minn. Það er nú meira hvað það er dekrað við mann á þessum síðum kop.is. Engir stuðningsmenn á Íslandi og jafnvel í öllu universinu geta státað af öðru eins og kop.is er okkur Liverpool stuðnigmönnum á landi. Þetta finn ég greinilega staddur út í Barcelona og skemmti mér vel yfir stuðningmönnum Barca og MU fyrir leik. Það var lika dulítið skemmtilegt að sjá stuðningsmenn MU daginn eftir leik. Það vart lágt á þeim risið skal ég segja ykkur
Samkvæmt því sem mér sýnist um þessi tvö lið Liverpool og Barca þá er framtíðin okkar en fortíðin þeirra. Meira þarf svo sem ekki að segja nema hvað maður hlakkar til að fylgjast með Liverpool slá Barca út úr meistaradeildinni. Og þó Messi sé svindlkall og bestur í heimi er hann samt kominn yfir hólinn og liðin liggur niður á við, hvað sem tautar. Sama er um Suarez.
Það er nú þannig
YNWA
Þessi tvö lið eru einfaldlega tvö af bestu liðinum í dag og þau eiga margt sameiginlegt en eru líka svo margt ólíkt.
Sameiginlegt:
Langa og stórglæsilega sögu
Eru fyrir löngu komnir með kerfi sem þau fara eftir
Vilja bæði spila hápressu leik(en hápressan er ekki eins hjá þessum liðum)
Sækja á mörgum mönnum
Vilja bæði halda bolta
Láta bakverðina taka virkan þátt í sóknarleiknum
Eiga fullt af stuðningsmönnum um allan heim.
Báðar varnarlínunar vilja fara hátt upp
Báðir þjálfara vilja að markmaðurinn taki þátt í uppspili liðsins
Ólíkt
Liverpool vilja gera hlutina hratt en Barcelona eru oft meira í sínu tiki taka spilinu sínu þar sem þeir sundurspila andstæðingin.
Allir leikmenn Liverpool taka þátt í varnarleik liðsins alltaf en hjá Barca sér maður stundum Messi/Suarez vera á röltinu og láta aðra sjá um þann þátt leiksins.
Barcelona vill nota tekníska miðjumenn sem eru kannski ekki líkamlega sterkir á meðan að liverpool vill nota líkamlega sterka miðjumenn sem fara þetta oft á kraftinum.
Barcelona eru mjög háðir Messi enda besti fóboltamaður heims(mínu mati allra tíma) á meðan að Liverpool fer þetta meira á liðsheildinni
Ég hef haldið með báðum þessum liðum lengi þótt að Liverpool hjartað sé stærra þá hef ég alltaf kunnað að meta hvernig Barcelona hafa gert hlutina og að þeir séu bara með ákveðna hugmynd hvernig á að spila fótbolta og fara eftir henni og reyna að búa til unga leikmenn sem passa inn í þá hugmyndafræði.
Liverpool eru ekki alveg kominn á þann stað en það er 100% ljóst að Klopp veit nákvæmlega hvernig fótbolta hann vill spila en þegar hann fer(vonandi eftir mörg ár) þá er ekki víst að næsti maður dettur inn í sama kerfi.
Þessi viðureign verðu algjör veisla og fáum við að sjá tvö lið sem vilja sækja. Svo er líka mjög skemmtilegt að fá sama verkefni og Man utd fengu og vonandi getum við sýnt þeim hvernig á að leggja Barca af velli en það verður ekki auðveld en maður hefur fulla trú á Klopp og strákunum.
YNWA
Get ekki beðið eftir þessum leikjum!
Af leikmönnum Barca, myndi ég bara þiggja GOAT-ið Messi – og svo auðvitað Suarez vegna þess að hann er snillingur og frábært að horfa á hann í rauðu treyjunni á sínum tíma.
Held að þetta sé 50/50 einvígi. Ef við náum að bögga Messi nógu mikið tökum við þetta Barca lið. Ef ofurhetjan frá Argentínu mun eiga einn af sínum svindl-leikjum mun Barca örugglega leggja okkur.
Þetta verður taumlaus skemmtun!!
YNWA
Shoutout til Spurs-ara! Stór fimma frá mér að leggja þessum ógeðslega olíuklúbbi. Skal kaupa mér Spurs treyju ef þið náið að sigra þá svo á morgun!!
nei, lángt frá því að barcelona sé sterkara en við, þeirra vörn er drasl í samanburði við okkar.
halda messi niðri og pirra suarez vel, ég efast ekki um að salah og mane eiga eftir að rífa vörnina hjá barcelona í sig… taka þessu rólega.. sóa góðum tíma í allt sem við gerum.. halda tempóinu niðri í fyrri leiknum og pirra þá vel.. gætum komið inn marki.. halda þessu þannig að þetta ráðist á anfield þá erum við komnir áframm.
Takk fyrir endalausa uppsprettu góðra pælinga.
Þetta einvígi mun dæma hvaða lið er best í Evrópu að mínu mati..