Allt eða eitthvað: Lokaleikurinn á Anfield – Upphitun

Á morgun lýkur ensku Úrvalsdeildinni þegar heil umferð verður spiluð klukkan tvö á íslenskum tíma. Á Anfield munu Liverpool taka á móti Wolverhamptom Wanderers og freista þess að ljúka þessu ótrúlega tímabili á sigri, sem myndi þýða að Liverpool endar með 97 stig á töflunni. Á sama tíma ferðast olíuliðið sem hefur valdið okkur svo miklu hugarangri í vetur suður til Brighton. Það þarf kraftaverk til að Brighton taki punkta af dýrasta liði sögurnar. Eftir síðustu viku þá mun ég aldrei aftur segja að eitthvað sé ómögulegt í fótbolta.

Mig langaði bara að staðfesta: Síðasti þriðjudagur gerðist. Þetta var ekki draumur. Síðustu tvær vikur hafa verið svo sturlaður rússibani að maður er enn þá pínu eftir sig. Förum örsnöggt yfir hvernig fótboltinn hefur verið fyrir stuðningsmenn Liverpool síðan í lok Maí.

  • 26.Apríl: Liverpool snýta Huddersfield, alsæla.
  • 28. Apríl: City rétt slefa sigur á Burnley, púllarar binda vonir sínar við Brendan Rogders og Jamie Vardy.
  • 1. Maí: Liverpool steinliggja fyrir Barca á Nou Camp. Liverpool spiluðu drullu vel á löngum köflum en Messi var Messi. Allt stefnir í titlalaust tímabil hjá Klopp.
  • 4. Maí: Divock Origi skorar með skalla eftir aukaspyrnu á 86. mínútu, leikur þar sem Liverpool voru að hrynja úr Evrópuþynnku og Newcastle jöfnuðu tvisvar. Það er ennþá von.
  • 6. Maí: Vincent fokking Kompany skorar fyrsta mark sitt í um það bil hálfa ævi, fyrir utan teig í seinni hálfleik og tryggir að City verði í bílstjórasætinu á lokadegi deildarinnar. Fótboltaþunglyndi á háu stigi hrjáir Liverpoolmenn, þórðargleði á hærra stigi kemur í stuðningsmenn annara liða. Þetta mark endar samt á að vera þriðja dramatískasta markið í heimsfótboltanum þessa viku.
  • 7. Maí. Engin Keita. Engin Firmino. Engin Salah. Henderson virtist meiðast í fyrri hálfleik. Robertson meiddur útaf í hálfleik. Gini Wijnaldum sem byrjaði á bekknum og var að eigin sögn brjálaður af reiði þegar hann sá byrjunarliði: hetja. Trent, uppalin hjá liðinu: Hetja. Divock Origi, leikmaður sem mátti fara í Janúarglugganum: goðsögn. Það ómögulega er mögulegt, af því að um þetta lið er að ræða. Liverpool er að fara að spila úrslitaleik Meistaradeildarinnar annað árið í röð, í þetta sinn sem reynda liðið sem allir spá sigri. Alsæla.

Stuðningsmenn Liverpool er búnir að svífa um á bleiku skýi síðan. Þetta tímabil endar ekki á morgun, einn annar leikur eftir. En það þarf víst að klára deildina, að vinna eftirsóttasta bikarinn er ekki í okkar höndum, en í fyrsta sinn í fimm ár verður bikar á Anfield á lokadegi deildarinnar. Hið ómöguleg er mögulegt, það er bara þannig.

Andstæðingarnir: Wolves.

 

Fyrir utan Liverpool og City, hugsa ég að stuðningsmenn Wolves séu sáttastir allra með tímabilið í deildinni. Það er auðvelt að gleyma að þeir komu upp úr næst efstu deild á síðasta tímabili, klára árið í ár sama hvað gerist á Anfield í sjöunda sæti og komust alla leið í undanúrslit í bikarnum. Wolves hafa náð í hrúgu af flottum úrslitum gegn stóru liðunum. Ef svo líklega vill til að City klári Watford í úrslitum bikarsins eru Wolves að fara að spila í Evrópu á næsta tímabili. Það verður reyndar ekki í fyrsta sinn sem Wolves spila í Evrópu, þeir hafa meira segja spilað í úrslitaleik Evrópubikarsins (forvera Europa League), fyrsta árið sem keppnin var haldin. Sá leikur fór fram 1972, gegn Tottenham Hotspurs.

Stór hluti af velgengni úlfana á þessu tímabili er þjálfarinn Nuno Espirito Santo, sem tók við liðinu í Maí 2017. Hann er einn mest spennandi ungi þjálfarinn í boltanum og Wolves eru með leikstíl sem er fastmótaður. Þeir spila með þriggja manna varnarlínu, í hjarta hennar scouserinn Connor Coady, og þegar Wolves eru með boltann reyna þeir að stækka völlinn eins mikið og þeir geta. Hafsentarnir báðum megin við Coady færa sig nær hliðarlínunum, vængmennirnir sækja hratt fram. Boltinn fer annað hvort beint frá vörninni og upp á téða vængmenn eða þeir reyna að spila hratt í gegnum miðjuna. Markmiðið er að koma boltanum á sóknarmennina tvo, áður en andstæðingurinn nær að stilla upp góðri varnarlínu.

Þegar liðið fellur til baka er það síðan mun þéttara. Vængmennirnir koma inn í vörnina, annar sóknarmaðurinn verður að miðjumanni. Í sókninni spila þeir 3-5-2 eða 3-4-2-1 en í vörn er uppstillingin oftast 5-4-1. Þeir pressa andstæðinginn mun neðar á vellinum en t.d. Liverpool en sprengja svo upp völlinn þegar þeir ná boltanum. Til að þetta gangi upp þarf svakalega skipulagsvinnu á æfingasvæðinu, það þarf ekki nema einn að taka rangt hlaup og kerfið fer í köku.

Það eru nokkrir lykilmenn sem þarf að hafa auga á. Coady er búin að vera frábær fyrir þá. Jimenez og Diego Jota eru stórhættulegui fram á við og að lokum verður að minnast á Matt Doherty, sem koma á sínum tíma til Wolves fyrir heil 75.000 pund og er komin með átta stoðsendingar og átta mörk af kantinum í öllum keppnum í vetur.

Þeir mæta á Anfield vitandi að þeir munu enda í sjöunda sæti í deildinni. Það að hafa að engu að keppa í lokaumferðinni getur verið tvíeggja sverð. Stundum er lið komin á hálfa leið á ströndina, en stundum er eins og það að hafa enga pressu gefi liðnu frelsi og það spilar frábærlega. Liverpool er eina topp sex liðið sem Wolves hafa ekki tekið stig af í vetur (unnu okkur samt í bikarnum, óþarfi að ræða það frekar) og manni dettur í hug að þeir vilji leiðrétta það. Þeir eru líka lið sem spilar betur eftir því sem andstæðingarnir eru betri.

Nuno þarf ekki að pæla í neinum meiðslum og getur stillt upp sínu sterkasta liði:

 

Okkar menn:

Ein snilldin við sigurinn á Barca er að í fyrsta sinn í marga mánuði mætir Liverpool til leiks alveg pressulaust. Í versta falli taka þeir við silfur medalíum og fara til Madrídar til að reyna að ná í Evrópubikar númer sex. Í besta falli gerist kraftaverk og 29 ára eyðimerkurgöngu lýkur. Þetta er bæði mjög fínir kosti.

En verkefni númer eitt er að vinna Wolves. Liverpool hefur ekki tapað á Anfield á þessu tímabili og andskotinn hafi það ef það gerist núna. Fjögra daga frí frá síðasta leik ætti að þýða að Klopp þurfi lítið að pæla í þreytu eftir Barca og það er nógu langt í úrslitaleikinn að það þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að hvíla fyrir hann. Einu spurningarmerkin eru leikmenn sem eru tæpir vegna meiðsla.

Samkvæmt Klopp spila Bobby og Keita ekki leikinn, en Salah er orðin góður. Robertson og Hendo ættu að vera orðnir góðir eftir Barcelona leikinn, held reyndar að þeir tveir myndu segjast tilbúnir í leikinn þó þeir væru fótbrotnir. Chamberlain er líklega tilbúin aftur en Lallana er mjög líklega frá.

Framlínan velur sig sjálf, nema Klopp ákveði að fara að fikta með 4-4-2, sem ég efa stórlega. Held að Shaqiri detti út fyrir Salah og frammi verðum við með Mane-Origi-Salah. Það væri stórfurðulegt ef Gini, Fabinho og Hendo byrja ekki á miðjunni. Ég ætla að giska á að Andy fái hvíld og Milner taki stöðuna hans, svo er Van Dijk sjálfvalinn. Matip stóð sig frábærlega á móti Barca og ég held að hann haldi sinni stöðu og svo klára Alison og Trent hópinn:

Grái kallinn er Milner.

Spá:

Þessu sturlaða, klikkaða, fáránlega og furðulega tímabili er að ljúka. Minningar frá því munu vekja bros á vör í áratugi, sama hvernig fer í þessum tveim síðustu leikjum. Wolves er það eina sem stendur á milli Liverpool og 97 stiga tímabils. Anfield verður í essinu sínu að fagna þessu tímabili, leikmenn finna einfaldlega ekki fyrir þreytu á svona dögum. Wolves er seigir, en þetta Liverpool lið er bara of gott. Ætla að spá 4-0 sigri, þar sem Mané skorar tvö, Salah eitt og Henderson eitt.

KOMA SVO Í SÍÐASTA SINN Á ANFIELD Í VETUR

-Ingimar Bjarni.

 

8 Comments

  1. Frábær tímabil og því er ekki lokið.

    Maður getur ekki annað en verið stoltur af þessu liði okkar og það er svo frábært að eiga leik eftir þegar morgundagurinn er búinn og vitandi það að þetta tímabil á möguleika á að vera eitt af okkar allra bestu í söguni.

    Vonum bara að menn nái að safna orku og keyra á þetta sterka lið gestana sem hafa sýnt það í allan vetur að þeir eru skipulagðir, agaðir og stórhættulegur andstæðingur.

    YNWA – Spái 2-1 sigri í hörku leik. Salah og Milner(víti) klára þetta fyrir okkur

    p.s Áfram Brighton 🙂

    7
  2. Sælir félagar

    Þetta verður erfitt og mun leggja mikið á herðar okkar manna. Það er að líkindum sama hvernig þessi leikur fer því það eru allar líkur á að M. City muni klára sinn leik. þó B & H Albion vilji endilega láta þá finna til tevatnsins. Hvernig sem það nú verður er varla annað í boði en vinna þennan leik. Þar af leiðandi spái ég 3 – 1 í hunderfiðum leik sem vinnst á ótrúlegum karakter okkar manna.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  3. Það sem verður umfram allt að passa eru meiðsli og spila ekki tæpum leikmönnum, sem vildu spila upp á viljann en hlusta ekki á skynsemina upp á úrslitaleikinn. Það getur engin efast um það að LFC er mun betra lið, en hins vegar eru gestirnir sýnd veiði, en ekki gefin. Þetta er hörku lið, og nokkrir þættir geta spilað inn í gang leiksins eins og Ingimar kom inn á. En vil samt koma inn á, að Klopp mun sennilega spila mönnum að hluta til m.t.t. gang leiksins í Brighton, verði t.d. staðan þar 2-4 manc í vil í hálfleik, þá tekur Klopp helstu kanónur útaf, enda útséð með lok þess leiks og deildarinar. En þetta kemur allt í ljós á morgun, spái 2-1 í flottum leik.

    YNWA

    2
  4. Ég vil að liðið leggi allt í sölurnar til að vinna leikinn. 97 stig yrði næst besti árangur í sögu deildarinnar ef Man City tapaði og sá þriðji ibesti árangur ef City sigraði sinn leik.

    Það eitt og sér skiptir gríðiarlega miklu máli. Sigasöfnun í deild segir miklu meira um styrkleika liða en hvort þau hafi unnið titil. 97 stig væri sönnun þess að Liverpool er með næst sterkasta lið í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Betra en Man Und var nokkurn tímann. Eina liðið sem kemst í námunda er Chelsea þegar þeir unnu deildina með 95 stigum.

    6
  5. 2 – 0 og 1 – 1, hef lengi spáð að síðasta umferðin réði úrslitum.
    Vorið er okkar…

    YNWA

    5
  6. mín spá: Liverpool verður komið í 2:0 í fyrri hálfleik og vinnur nokkuð sannfærandi en City skorar ekki fyrr en á 80+ sitt sigurmark.

    Það yrði hinsvegar krúttlegt ef Brighton mundi jafna seint og tryggja okkur titilinn þannig.

    1
  7. Eru Púllarar að sameinast einhvers staðar í dag á höfuðborgarsvæðinu? Eru menn ennþá að mæta á Spot eða er Keiluhöllin málið? Ölver jafnvel? Maður lifir enn í örlítilli von um þynnkudag á morgun, mánudag.

One Ping

  1. Pingback:

Gullkastið – “We must turn from doubters to believers”

Lokaleikur kvennaliðsins: Derby slagur um borgina