Opinn þráður

Það er komin vika síðan deildinni lauk, og ískyggilega langt í úrslitaleikinn í Madrid.

Okkar menn eru reyndar komnir til Spánar, og æfa á Marbella eins og þeir gerðu í vetur. Hópurinn er þarna nánast allur, meira að segja Keita er með þó hann sé nú tæpast búinn að ná sér. Hann gæti þó mögulega sést á bekknum í úrslitaleiknum, enda mega liðin tilnefna 12 leikmenn á varamannabekkinn í úrslitaleiknum, og mega svo skipta fjórða manni inná ef það kemur til framlengingar. Við munum því sjálfsagt sjá alls konar sjaldséð andlit á leikskýrslu.

Jafnvel þó svo að glugginn hafi opnast formlega fyrir nokkrum dögum síðan, þá hefur verið gefið út að ekkert verði hróflað við hópnum fyrr en eftir leikinn í Madrid, og það er nokkuð skiljanlegt. Eins og gengur eru alls konar leikmenn orðaðir við klúbbinn, þannig kom fram orðrómur um De Ligt á dögunum, en ef eitthvað er að marka Pearce þá er Klopp ekki að leita að miðverði, og er sáttur við þá menn sem hann er með í hópnum. Og vissulega er það þannig að Gomez, Matip og Lovren eru allir ágætir miðverðir, þegar þeir eru heilir. Það er bara þetta litla smáatriði sem maður hefur áhyggjur af. Nú og svo hefur það nú gerst áður að klúbburinn hafi gefið út að ekki verði keypt í tiltekna stöðu, en svo kemur tilkynning nokkrum dögum síðar um að nýr leikmaður hafi verið keyptur í akkúrat þá stöðu. Er skemmst að minnast þess þegar það var talað um að Danny Ward myndi fá sénsinn sem aðalmarkvörður, en svo var Alisson kynntur til sögunnar nokkrum dögum síðar og Ward seldur. Við skulum því bara spyrja að leikslokum þegar glugginn lokar í haust. Það þykir víst líklegt að helst verði keyptir leikmenn til að bakka upp Trent og Robertson annars vegar, og svo sóknarsinnaðan leikmann hins vegar. En þetta verður allt skoðað nánar í sérstökum færslum hér á síðunni.

Sá leikmaður Liverpool sem hefur verið helst í eldlínunni síðustu daga er Ki-Jana Hoever, sem lék með U17 landsliði Hollendinga og vann með þeim Evróputitilinn með því að sigra Ítali 4-2. Hoever átti þátt í einu markanna með því að skjóta í stöng úr aukaspyrnu og svo var skorað úr frákastinu. Þá skoraði hann gott mark gegn Belgum í fjórðungsúrslitum. Það er fjallað um Hoever í grein á Liverpool Echo, og það virðist ennþá vera litið á hann sem framtíðarmann í liðinu, en þó tekið fram að hann eigi enn nokkuð í land með að ná þeim líkamlega styrk sem er nauðsynlegur í PL.

Annars er orðið laust, um hvaðeina sem viðkemur liðinu okkar.

6 Comments

  1. Ef það yrði keyptur bakvörður/bakverðir þá yrði hann að vera ansi góður til þess að eiga erindi í byrjunarliðið. Það yrði hálf skondið að kaupa bakvörð á 30 m pund sem væri síðan varaskífa fyrir Andy og Trent. í það minnsta yrði bakvörðurinn að búa yfir þannig gæðum að hann getur veitt þessum leikmönnum almennilega samkeppni og ég er efins að slíkir leikmenn séu ókeypis. Nema að það sé annar Andy Robertson þarna úti sem njósnaranir eru búnir að sigta út eða einhver strákur í akademíunni sem gæti tekið að sér þessa stöðu.

    3
  2. Sammála #2 varðandi bakverðina, mögulega er búið að spotta einhverja Robertsyni/Arnolda. En engu að síður þá þurfti Fabiniho að taka að sér miðvörðinn, því allir hinir 3 voru frá vegna meiðsla, hann stóð sig vel með Dikkaranum, en segjir að vera með 3 auðmeiddanlega miðverði er ekki gott, þó allir séu þeir flottir á góðum degi, en gagnlausir meiddir. Miðjustaðan er góð, sæji jafnvel fyrir mér Uxann geta leyst Arnold af í bakverði sé það nauðsýn, verra er með vinstri bakvörðinn, þar er nauðsýn á nýjum, bara ekki hverjum sem er, sá þarf að vera góður til þess að vera viðurkendur, enda færi sá ekki í nein smá spor. Framlínan er flott mönnuð með þá 4(nú er Origi inni), síðan skilst manni að við eigum flotta yngri stráka sem þurfa að fá að springa út, Klopp speciality work. Mín niðurstaða er þessi m.v. að viðkomandi séu ekki til í okkar herbúðum eins og er, 1 miðvörð, 1 vinstri bakvörð, 1 miðjumann og 1 sóknarmann, þarna lít ég til breiddarinar og möguleg meiðsli.

    YNWA

    1
  3. Orðið er laust, þá vil ég bara spyrja hvort kop.is hafi einhverjar upplýsingar um miða á leikinn. Ég hef aldrei sér annað eins verð á einn fótboltaleik og þennan úrslitaleik. Hvað er að frétta?

    • Þetta er að ég held alveg örugglega sögulega mikið rugl í ár. Ásókn í miða er auðvitað rosaleg, framboð á miðum til stuðningsmanna er fáránlega lítið og þetta eru verð sem maður hefur meira tengt við Super Bowl en fótbolta. Hræðileg þróun og ákváðum við félagarnir t.a.m. strax að þetta væri ekki hægt í ár. Því miður.

      Eitt er svo að fá miða, það er víst ekkert skárra að fá gistingu þarna.

      1

Gullkastið: Hatrið hefur sigrað

Gullkastið – Lognið á undan storminum