KRC Genk 1-4 Liverpool

Mörkin

0-1   Alex Oxlade-Chamberlain 2.mín
0-2   Alex Oxlade-Chamberlain 57.mín
0-3   Sadio Mané 77.mín
0-4   Mohamed Salah 87.mín
1-4   Stephen Odey 88.mín

Leikurinn

Okkar menn hefðu varla geta pantað betri byrjun þó þeir hefðu fengið sér trappistabjórinn Westvleteren á happy hour á Delirium Café í Brussel. Eftir tæpar tvær mínútur hafði Alex Oxlade-Chamberlain stimplað sig sterkt inn í byrjunarliðið með lúmsku skoti fyrir utan teig sem fór út við vinstri stöng í markinu án þess að Coucke í markinu hreyfði legg né lið.

En þrátt fyrir afhroðs byrjun þá voru heimamenn engan veginn á því að leggja árar í bát og hófu að sækja hraustlega upp kantana og ógna í skyndisóknum þegar tækifæri gafst. Liverpool hefði þó hugsanlega geta fengið víti á hrindingu í bakið á Firmino á 6.mínútu en stuttu síðar slapp Cuesta einn í gegn en Alisson varði vel í markinu.

Eftir hressilegt korter í upphafi róaðist leikurinn lítið eitt en um miðbik hálfleiksins lifnaði hann skyndilega við. Firmino átti geggjaða sendingu inn fyrir á Mané og Senegalinn komst einn að marki en við þröngar aðstæður átti hann erfitt með að ná góðu skoti á markið. Genk geystust upp í sókn og fyrirgjöf frá Ito af hægri væng var glæsilega stönguð í netið af Samatta en dómarinn og VAR tóku sér dágóða stund í að fella réttan dóm um rangstöðu. Vel sloppið hjá okkar mönnum. Liðin skiptust á nokkrum hættulegum hálffærum áður en blásið var til hálfleiks.

0-1 í hálfleik

Síðari hálfleikur byrjaði rólegar en enn var gustur og galsi í Genk-mönnum. Sú von sem þeir báru í hjarta slokknaði þó ögn við eitt besta mark sem skorað verður í Meistaradeildinni þetta tímabilið. Rúmar tíu mínútur inn í hálfleikinn tóku Oxlade-Chamberlain og Firmino nett samspil fyrir utan vítateig sem endaði með því að sá fyrrnefndi skoraði demant af marki með nettri utanfótarspyrnu sem fór sláin og inn fyrir línuna. Geggjað mark sem mælt er með að allir gúggli og glápi á sem ekki hafa séð og ef þú hefur séð það þá að horfa aftur og aftur.

Við þetta róaðist leikurinn og þjálfarar gátu skellt í nokkrar skiptingar en okkar megin kom Gomez inn fyrir Robertson (Milner færðist yfir í vinstri bakvörð) og Wijnaldum kom inn fyrir tveggja marka manninn Oxlade-Chamberlain. Á 77.mín þá leiddist heilögu sóknarþrenningunni okkar þófið og þeir smelltu í glæsilegt samspil sem endaði með því að Mané var spilaður í gegn og lyfti snyrtilega yfir Coucke í markinu.

Samkvæmt heimildum Kop.is þá hafði getspakasti maður boltabarsins spáð fjórum LFC-mörkum og sá ágæti spádómur rættist skömmu síðar er Salah spólaði sig í gegn af annálaðri harðfylgni og slúttaði stöngin inn. Genk girtu sig þó í brók og smeltu í verðskuldað sárabótarmark mínútu síðar er Ndongala valsaði í gegnum vörn Liverpool og lagði upp á Odey sem skoraði með góðum snúning.

1-4 lokatölur leiksins á Luminare

Bestu leikmenn Liverpool

Það var margt jákvætt í kvöld og nokkrar fínar frammistöður þó að okkar menn hafi í raun aldrei þurft að fara upp úr öðru gír. Hreinn og klár maður leiksins var Alex Oxlade-Chamberlain með sín tvö glæsimörk fyrir utan teig og frábært að hann sé að koma sterkur til leiks. Mané og Salah voru líka líflegir með sitt hvort markið og Firmino var flottur með þeim. Fabinho og Virgil voru líka solid og í markinu fannst mér Alisson flottur í spili og vörslum. Keita var einnig líflegur og fylgdi ágætlega eftir góðri innkomu í síðasta leik.

Vondur dagur

Enginn okkar manna var sekur um vonda frammistöðu en mér fannst minn maður Robertson virka ögn þreyttur og mistækur. Því miður höfum við engan hreinræktaðan vinstri bakvörð til að rótera við Skotann knáa en Klopp var klárlega að sjá þreytumerkin og gaf honum hvíld síðasta hálftíma leiksins. Hann mun klárlega spila alla úrvalsdeildarleikina á næstunni en fær væntanlega að hvíla í deildarbikarnum gegn Arsenal.

Tölfræðin

Klopp á kantinum

Umræðan

Þægilegur og kærkominn sigur á útivelli í riðlakeppninni. Sú undarlega tveggja ára bið var reyndar ekki að valda okkur miklu hugarangri enda komumst við upp úr riðlunum bæði árin og alla leið í úrslitaleikina. Fínt líka að skella í nokkur mörk frá miðjunni og það gæti vel verið að Oxlade-Chamberlain sé að spila sig inn í myndina fyrir komandi stórleiki og þá helst á kostnað fyrirliðans okkar hans Henderson sem átti ekki góðan dag á Old Trafford. Talandi um þann leik þá var líka ágætt að fá VAR-dómgæslu sem féll með okkur enda utan Bretlandseyja og fjarri ensku skólastjóra-syndrómi. Allt í góðu í herbúðum Rauða hersins fyrir stórleikinn gegn Tottenham næsta hvíldardag.

YNWA

21 Comments

  1. Virkilega ánægður með hvernig menn mættu til leiks Ox með flott mörk og gaman að sjá hann í þessum ham.
    Fannst bara allt liðið solid þrátt fyrir að Genk hafi vissulega átt spretti í fyrri hálfleik þá var bara eitt lið á vellinum og það var Liverpool.

    4
  2. Virkilega flottur sigur.

    Byrjuðum af krafti með marki en svo vorum við pínu flattir og fengu heimamenn tvö góð færi(líklega annað rangstaða) hægt og rólega léttum við þá fara aftar og aftar.
    Síðarihálfleikur var svo mjög þægilegur.

    Frábært fyrir Ox að skora og vonandi á hann eftir að fara með þetta sjálfstraust inn í næstu leiki. Hann var samt í smá vandræðum framan af í fyrirhálfleik(Þrátt fyrir markið) en honum leið betur í þeim síðari.
    Sama má segja um Keita sé fékk 90 mín. Það var eins og að það tók hann smá tíma að komast í takt við leikinn en svo þegar það var komið leit hann mjög vel út.
    Gott að gera hvílt Andy og mikilvægt að fara með bullandi sjálfstraust inn í Tottenhamleikinn en þetta var smá svar við þeira framistöðu í gær.

    1-4 sigur og velur maður ekki Ox sem mann leiksins fyrir flottan leik og glæsileg mörk.

    Svo þurfum við að klára Genk á heimavelli í næsta leik og vona að Napoli klári Salzburg, þá erum við komnir í toppmál um að vera öryggir áfram og spilum nánast úrslitaleik við Napoli á Anfield um sigur í riðlinum.

    8
  3. Ekki þar fyrir, við græddum á því í kvöld, en ferlega getur VAR verið mikill partypooper…

    3
    • Verð að vera sammála þessari athugasemd. Mér fannst VAR vera sniðug pæling í upphafi og var fylgismaður þess að rétt skyldi vera rétt í boltanum og um að gera að nýta tæknina til að leiðrétta annarsvegar ranga dóma og hinsvegar þegar dómaranum yfirsést eitthvað krítískt atriði. En því miður finnst mér þetta hafa spilast þannig að þetta er meiri byrði og leiðindi heldur en eitthvað annað. Drepur alla stemmingu þegar mörk eru skoruð og maður er hættur að þora að fagna því það þarf alltaf að skoða video áður en hægt er að fullyrða að markið hafi sannarlega verið skorað. Ef ég mætti velja á miðað við reynsluna so far, þá myndi ég heldur vilja sleppa VAR og taka bara dómaramistökunum eins og þau koma.

      4
    • ekki gleyma því að þegar Firmino átti sendinguna á Mane í sókninni á undan markinu sem var dæmt af Genk þá fór boltinn í hönd varnarmanns Genk = víti

      3
  4. Flott mál að vinna þennan leik nokkuð örugglega og mikilvægt að gefa Oxlade og Keita þennan leik og þeir nýttu tækifærið vel í kvöld.
    Mér finnst samt rosalega skrýtið að Salah fái 90 mín í kvöld eftir að hafa ekki getað verið í hóp á sunnudaginn í gríðarlega mikilvægum leik í deildinni. Einnig fannst mér skrýtið að Lallana hafi ekkert fengið að spila í kvöld, hann hefði mátt reyna að byggja ofan á góða frammistöðu úr seinasta leik. Hefði alltaf viljað sjá hann fá mín í staðinn fyrir Winjaldum.
    En aðalatriðið eru 3 stig og allir sluppu við meiðsli.

    8
  5. Menn stundum að reyna að gera hlutina of flóka og flotta í staðinn fyrir örugga. Hafa þetta einfalt.

    Sigurinn aldrei í hættu en smá kæruleysi í gangi. Þegar liðið er með svona marga sóknarsinnaða menn opnast meira til baka. Besta ráðið við því er að vera alltaf með boltann. Þannig var gullaldarlið Barcelona með Ronaldinho,Xavi, Iniesta og fleirum. Þá var einhver vitringurinn spurður að því, mögulega Lineker, hvernig væri best að vinna þetta lið? Þá svaraði hann: Tja menn þurfa að byrja á því að reyna að ná boltanum.
    Sókn er besta vörnin sagði maðurinn og setti á sig sólarolíu í staðin fyrir sólarvörn.

    5
  6. Þrátt fyrir þetta glæsilega mark Salah og frábæra stoðsendingu hans þá mætti hann samt örlítið stíga upp og sýna sig meira og klára færin betur en hann hefur gert.
    En samt frábær frammistaða hjá okkar mönnum og tökum síðan næsta leik á móti Spurs.
    YNWA 😉

    5
    • N´skvæmlega. Mark og stoðsending er ömurlega lélegt verð ég að segja.

      5
  7. Alisson: Solid

    Milner: Spilaði það vel að Tenginn saknaði Trent. Mun betra cover í hægri bakvörðin en Gomez, þá helst gegn liðum sem liggja aftarlega.

    Lovren: Var nokkuð shaky til að byrja með en komst í heildina ágætlega frá sínu. Frábær þriðji kostur í sína stöðu en endurtekin meiðsli og kæruleysilegar ákvarðanir munu gætu komið í veg fyrir að hann vinni sætið sitt til baka

    Virgil / Robertson: Gefa yfirleitt þá frammistöðu sem maður býst við af þeim. Engin undantekning í kvöld.

    Fabinho: Einfaldlega orðinn ómissandi hlekkur á miðjunni. Skilaði sínu og vel það.

    Ox: Við misstum lykilmann þegar uxinn meiddist í fyrra. Það er líklega nokkuð í að hann þoli leikjaálagið og verður væntanlega fringe leikmaður einhverja mánuði í viðbót, en hann var góður í kvöld og skoraði frábær mörk og gaman að heyra Klopp segja að hann ætti mikið inni.

    Keita: Var góður og virðist kominn í gott leikform eftir langa fjarveru. Miðjan býður upp á svo mikið meiri hreyfanleika og tengingin milli miðju og sóknar er mun betri þegar Keita er í standi. Nú er bara að vona að hann haldist heill og vinni sig inn í liðið.

    Mane: Það var kannski ágætt að hann virtist vera að spara sig að hluta til í leiknum. Steig síðan upp og minnti á sig.

    Firmino: Gaman að sjá hann að hann var fljótur að finna sig eftir dapra frammistöðu á OT. Frábær í kvöld.

    Salah: Var ryðgaður í fyrrihálfleik og það kannski skiljanlega sökum fjarveru vegna meiðsla, óx svo eftir sem leið á leikinn. Mikilvægur leikur upp á að fá hann aftur gang.

    6
    • Lovren leit nú ekki vel út í aðdraganda marksins sem við fengum á okkur en mjög gaman að sjá Ox og Keita aftur. Stóðu sig báðir mjög vel.

  8. Munið þið þegar allt fór í gegnum markverðina okkar? Þessi varsla hjá Alisson, einn á móti einum, var gulls í gildi. Annars flottur útileikur og sigur.

    Ætla ekki að leyfa mér að gagnrýna skiptingar eða annað hjá meistara Klopp. Sigurrönnið hans segir að hann veit hvað hann er að gera þótt vissulega er ekkert að því að ræða hlutina og velta þeim fyrir sér. Er sammála með Lallana. Hefði verið gaman að fá hann inn í restina, í stað Gini. Hlakka til deildarbikarsins og vonandi fær maður að sjá Elliot, Brewster og fleiri þrusu efnilega gutta klára arsenal.

    2
  9. Það fór eftir sem ég vonaði, ekkert vanmat gegn Genk, sem ég er viss um að Napoli hafi fallið á. Solid leikur af okkar hálfu með nánast öllu því sem gleður augað, eðal mörkum, þetta seinna mark Uxans hlítur að koma vel til greina sem mark ársins, þvílík snilld, ásamt mörgu öðru. Við búnir að auka verulega breiddina með tilkomu Uxans og Keita, fótboltastráka á hæsta leveli, biðin var þess virði, Kloppbið.

    YNWA

    2
  10. Keita var yfirburðamaður í Liverpool liðinu í þessum leik. Flæðið í spilinu framar á vellinum allt annað en við erum vön að sjá. Furðulegt að enginn hefur nefnt þetta i athugasemdum !! Akkurat það sem Liverpool liðið hefur vantað !! Ég vil sjá Keita byrja oftar á næstu vikum.

    11
  11. frábær sigur , útileikur í meistardeild. saknaði einhver Henderson ?

  12. Flottur sigur, óþarfi að fá á sig þetta mark Lovren átti að lúðra tuðrunni upp í efstu röð i stúkunni strax. Að öðru leiti lítið hægt að gagnrýna, fannst okkar menn gera það sem þurfti án þess að eyða of miklu púðri í þennan leik. Klopp er vandi á höndum fyrir Tottenham leikinn varðandi miðjuna, mér fannst Keita og Uxinn virka mjög vel í þessum leik í það minnsta með Fabinho fyrir aftan þannig að Henderson og Gini eru komnir með alvöru samkeppni sem er mjög jákvætt. Næsta leik takk

  13. Sælir félagar

    Frábær leikur og frábær frammistaða hjá leikmönnum. Insspýtingin á miðjunni með Ox og Keita styrkir breiddina þar og er i því sambandi óþarfi að hnýta í Hendó sem hefur nánast undantekningarlaust skilað frábærri vinnu fyrir liðið. Af þeim þremur fremstu fannst mé Mané vera daufastur svona framan af. Salah kom vel inn og taktarnir hjá Firmino frábærir á stundum. Virgillinn er nottla afburðamaður og Alisson ekki lakari og Fabinho traustur að venju. Góð innkoma hjá Gomes og Milnerinn afpyrnuþéttur. Sem sagt gott svo ekki sé sagt frábært.

    Það er nú þannig

    3
  14. Ég vil Keita í byrjunarliðinu á móti Tottenham á kostnað Hendo. Það er meira flæði með Keita og hann er meira skapandi leikmaður heldur en Hendo með fullri virðingu fyrir honum.

    5

Byrjunarliðið vs. Genk á Luminus Arena

Nike 1 – New Balance 0 (Liverpool $$$)