Í kvöld komu Genk í heimsókn á Anfield og gerðu heiðarlega tilraun til að sigra Evrópumeistaranna. Þessi leikur var ekki beint flugeldasýning, bara fagmannlegur sigur betra liðsins án þess að fara uppúr öðrum gír. 78% með boltann, 28 skot gegn 6 og 9 horn gegn 1 segja sína sögu.
Fyrri hálfleikur.
Okkar menn voru sprækir í byrjun, hrifsuðu til sín boltann og leyfðu Genk lítið að leika með hann. Þau fáu skipti sem Genk náði að skapa hættu var það vegna misheppnaðra sendinga Liverpool, frekar en pressu gestanna.
Á fjórtándu mínútu gaf Origi boltann á James Milner sem sótti inn að teignum og gaf inn í markteig. Varnarmaður Genk reyndi að hreinsa en fékk boltann í mjöðmina og boltinn skopaði um inn í markteignum. Þar var Gini Wijnaldum mættur, sem kom tá í boltann og þaðan fór tuðran upp í þaknet! Liverpool 1-0 yfir!
Næsti hálftími einkenndist af algjörum yfirburðum Liverpool. Genk komust hvergi nálægt boltanum, Liverpool sótti, kom sér í færi, skaut, skoruðu ekki, náðu boltanum. Aftur og aftur og aftur.
Þegar yfirburðirnir eru svona algjörir er alltaf hætta á að menn sofni á verðinum, sem er einmitt það sem gerðist. Þrátt fyrir aragrúa færa drápu strákarnir ekki leikinn og þá getur hitt liðið hleypt spennu á. Þegar skammt var eftir af hálfleiknum fengu Genk horn og afrgreiddu það af stöku prýði. Hornið var tekið fast í átt að nærstönginni þar sem Mbwana Samatta var alveg frír og hann stangaði boltann í markið. 1-1. Fyrsta mark Genk í þeirra fyrsta skoti, fari það í grábölvaðan.
Seinni hálfleikur.
Seinni hálfleikur byrjaði svipaði og fyrri, en nú voru okkar menn komnir í takt. Sendingar voru nákvæmari, færin sem þeir sköpuðu betri og bara tímaspursmál hvenær markið kæmi. Það kom á 52. mínútu. Hreinsun Genk misheppnaðist, Fabinho náði boltanum og potaði á Salah sem reyndi að finna glufu en gafað lokum á Alex Oxlade-Chamberlain. Uxinn okkar tók snúning og skoraði sitt fjórða glæsimark í jafn mörgum leikjum!
Það segir ágæta hluti um styrk hópsins þegar Sadio Mane og Andy Robertson koma inn á sem varamenn um miðjan síðari hálfleik. Þeir leyfðu Keita og Oxlade að fá sér sæti á bekknum og slaka á fyrir átökin gegn City um helgina.
Þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum kom áhlaup frá Genk og þeir náðu að hleypa smá spennu í leikinn í lokin. Alisson fékk aðeins að vinna fyrir kaupinu sínu með góðum vörslum. Að lokum gall flautan á Anfield og 3 stig komin í hús!
Maður leiksins.
Það var engin að eiga leik upp á 9 af 10, flestir unnu sína vinnu nokkuð vel. Fremstu menn á miðjunni stóðu sig áberandi vel, Gini Wijnaldum fær nafnbótina fram yfir Keita og Oxlade-Chamberlain víst að hann kláraði leikinn.
Vondur dagur.
Fabinho var virkilega góður á löngum köflum en átti nokkrar heldur klúðurslegar sendingar sem sköpuðu hættu eða í það minnsta vesen fyrir samherja.
Pælingar eftir leik.
- Lallana, Hendo, Wijnaldum og Alex Oxlade-Chamberlain. Allt miðjumenn, allir búnir að skora síðustu vikur fyrir Liverpool. Þvílíkur munur að vera komin með alvöru ógn af miðjunni.
- Hrein lök, ég sakna þeirra. Í 19 leikjum hafa okkar menn aðeins náð að halda hreinu þrisvar. Ég veit ekki alveg hverju á að kenna um þetta, sérstaklega fúllt að sjá Liverpool fá á sig mark úr föstu leikatriði annað leikinn í röð.
- Napoli og Salzburg gerðu jafntefli, þannig að Liverpool eru á toppi riðilsins! Jafntefli eða sigur í næsta leik og sæti í 16-liða úrslitum er tryggt.
- Þó að Salah hafi ekki náð að skora þá var ógnin af honum gífurleg. Hann var oft með 3 menn á sér og samt náði hann að koma boltanum yfir á samherja. Kröfurnar á hann eru svo miklar að allt minna en mark og stoðsetning er vonbrigði, sem er auðvitað fáranlegt.
Fínt dagsverk hjá drengjunum. Nú er að hreinsa hausinn og hefja æfingar á ný, stærsti leikur tímabilsins (hingað til) er á sunnudaginn! Við munum hita duglega upp fyrir hann hér næstu daga.
Þangað til
YNWA.
Frábær skyldusigur og við komnir áfram. Jafntefli heima gegn Napoli dugar til að halda toppsætinu. Gátum ,,hvílt” Mané og Bobby aðeins.
Bring on shittý!
Já, ég er greinilega búinn að lesa yfir mig. Það eru tveir leikir eftir í þessum riðli. Vinnum bara Napoli á Anfield og notum c-liðið í síðasta leiknum. Ekki veitir af þar sem við þurfum víst að spila tvo leiki á sólarhring.
Þetta er víst fylgifiskur þess að vera með besta lið í heimi.
9 stig á toppnum, einu stigi á eftir Napoli og með 5 stiga forskot á Salsburg, sem þýðir að þetta er ekki alveg komið. Við þurfum allavega einn sigur til viðbótar.
Góður sigur en við vorum stóran hluta leiksins í hlutlausum.
Virkuðum pínu kærulausir en gestirnir skoruðu og fengu 2-3 önnur góð færi til að skora eða búa til hættuleg tækifæri.
Ox með fínt mark og kemur hann til greina að byrja leikinn gegn City. Salah alltaf ógnandi en þetta var samt ekki að ganga hjá honum í kvöld.
Það var engin frábær í kvöld en maður er farinn að taka Dijk og Fabinho sem sjálfsögðum hlutum en þeir eru alltaf góðir.
YNWA – Gott að geta hvílt stjörnurnar okkar en það hefði verið enþá betra ef við hefðum nýtt færinn betur og hefðu geta sett kappa eins og Jones inná í staðin fyrir Mane/Firmino.
Liðið fór aldrei í fimmta gír í kvöld en hefði samt sem áður átt að ná í stærri úrslit, andstæðingurinn það mikið slakari en vörin hjá Liverpool virðist mjög viðkæm þessa dagana og allir fá að skora. Gomez virðist skorta sjálfstraust en getur klárlega spilað sig í betra form.
Ox frábær í þessum leik og er klárlega að vinna sér inn sæti í byrjunarliði, ótrúlegur kraftur og hættulegur fyrir framan markið, bíður upp á svo miklu meira en Hendo og Gini.
Salah mjög flottur á köflum í þessum leik en virkilega pirrandi að hann hafi ekki náð að skora, maður skynjar það alveg á honum hvað það pirrar hann að það gangi svona erfiðlega fyrir framan markið.
sigur gegn Napoli = sigur í riðlinum = hægt að hvíla menn í leiknum í Salzburg
Frábært að klára þennan leik með sigri pressan mikið minni fyrir Napoli leikinn.
YNWA.
Sælir félagar
Góð 3 stig í leik þar sem liðið fór aldrei í efsta gír. Gaman að sjá Ox og Keita spila vel þó Ox hafi tapað boltanum einum of oft fyrir minn smekk. Keita sýndi aftur á móti að það er afar erfitt að ná af honum boltanum. Salah minn maður leiksins og skapaði ótal tækifæri sem félagar hans hefðu mátt nýta betur. Það fer örlítið í taugarnar á mér hvað okkar menn eru slakir í að vinna skallabolta í teigunum báðum megin. Annars bara sáttur.
Það er nú þannig
YNWA
Job done eins og vanalega, full spennandi lokamínútur eins og svo oft undanfarið.
Ég efast ekki um að menn verða með 100% einbeitingu í leiknum gegn City.
Misskilningur að jafntefli dugi í næsta leik til að komast í 16 líða úrslit. Salzburg getur komist áfram á innbyrðis úrslitum fái Liverpool bara 1 stig í næstu tveim leikjum.
Salzburg gæti aldrei komist áfram með þessu móti því það myndi þýða að Liverpool myndi gera jafntefli við Napoli og Salzburg. Þá væri Liverpool með 11 stig, Napoli hugsanlega með 12 ef þeir myndu gera jafntefli við Liverpool og vinna Genk og Salzburg gæti verið með max 8 stig ef þeir myndu vinna Genk og gera jafntefli við Liverpool. Eina leiðin til að Liverpool komist ekki áfram er tap á móti Salzburg og Napolí og Salzburg og Napólí myndu bæði vinna báða sýna leiki .
held að Dúddi sé að tala um eitt stig samtals í þessum leikjum
já ok, það er rétt. Þá þyrfti Liverpool að gera jafntefli við Napólí og tapa fyrir Salzburg, Napólí að vinna Genk og Salzburg að vinna Genk líka. Það myndi þýða að Napólí myndi vinna riðillinn og Liverpool og Salzburg vera jöfn að stigum í 2-3 sæti. Eins og er er Liverpool með hagstæðari markatölu, hvað gerist ef markatalan milli þeirra er jöfn? Hvernig eru innbyrðis viðureignir reiknaðar út? Fleiri mörk skoruð á útivelli í innbyrðis viðureignum?
ef innbyrðisleikirnir fara t.d. 2:1 og 1:0, þá verður liðið sem skorar útimarkið ofar. Í gær þá fór D. Zagreb og Shakhtar 3:3 en fyrri leikurinn fór 2:2 og þar sem Shakhtar skoraði 3 útimörk þá eru þeir yfir D. Zagreb í riðlinum.
Hinsvegar ef innbyrðisleikirnir fara alveg eins þá er farið eftir markatölu. Liverpool og Napoli enduðu með sama stiga fjölda og sama markamun í riðlinum á síðasta tímabili, báðir innbyrðisleikirnir fóru 1:0 en Liverpool fór hinsvegar áfram á fleiri skoruðum mörkum.