Liverpool – West Ham á Prenton Park

Næsti leikur hjá stelpunum okkar er gegn West Ham, leikurinn hefst kl. 14:00 og fer fram á Prenton Park. West Ham eru sem stendur í 8. sæti deildarinnar með 9 stig, en við skulum ekkert vera að rifja upp stöðuna hjá stelpunum okkar, nóg að segja að sú staða speglar stöðu karlaliðsins, bara úr vitlausri átt.

Liðið hefur þó sýnt batamerki í undanförnum tveim leikjum gegn toppliðunum, en við bíðum enn eftir fyrsta markinu úr opnu spili.

Vicky Jepson ætlar að veðja á að þessi uppstilling geri gæfumuninn:

Kitching

Jane – Bradley-Auckland – Fahey – Robe

Bailey – Roberts

Lawley – Linnett – Charles
Hodson

Bekkur: Preuss, Murray, Rodgers, Sweetman-Kirk, Babajide, Kearns

Semsagt, Kitching er í marki en Preuss á bekknum. Það er áfram verið að spila 4-2-3-1, og í þetta skiptið á að prófa hvort Ashley Hodson virki betur en Sweetman-Kirk, mögulega er verið að horfa á að CSK komi inn af bekknum í síðari hálfleik og skapi frekar usla þannig. Jesse Clarke og Jemma Purfield eru enn að jafna sig af hnémeiðslum.

Leikurinn verður sýndur á The FA Player sem endranær, og við uppfærum færsluna með úrslitum síðar í dag.


Leik lokið með jafntefli, 1-1. Það voru West Ham konur sem komust yfir með marki snemma leiks, en á 77. mínútu náðu okkar konur að jafna metin, þegar fyrirgjöf frá Melissu Lawley endaði í netinu, það er ekki alveg ljóst hvort um var að ræða sjálfsmark hjá Kate Longhurst eða hvort það var Niamh Charles sem átti lokasnertinguna.

Liðið hafði fengið gullið tækifæri til að jafna nokkru fyrr í seinni hálfleik þegar dæmd var vítaspyrna, en Lawley setti boltann framhjá. Courtney Sweetman-Kirk kom inná á 85. mínútu og fékk sömuleiðis dauðafæri til að skora sigurmarkið með síðustu snertingu leiksins, en skalli hennar eftir aukaspyrnu var varinn af markmanni West Ham.

Semsagt, liðið náði loksins að skora úr opnum leik, og núna vantaði raunverulega bara herslumuninn til að landa sigri.

Næsti leikur liðsins verður eftir viku þegar liðið fær Chelsea, efsta lið deildarinnar í heimsókn, og svo lýkur fyrri umferð þessa tímabils með leik gegn Bristol í byrjun janúar.

Bournemouth 0-3 Liverpool

Úrslitaleikur við Red Bull Salzburg