Þar sem það er stutt stórra högga á milli þá birtum við upphitunin fyrir leik kvöldsins í seinna lagi að þessu sinni. Eftir að ungmannalið okkar steinlá 5-0 gegn Aston Villa í gærkvöldi, í frekar furðulegum leik þar sem að frammistaða liðsins verðskuldaði ekki svona stórt tap, þá tekur aðalliðið okkar við keflinu í kvöld þegar þeir mæta Norður-Ameríkumeisturum C.F. Monterrey frá Mexíkó í undanúrslitum HM félagsliða. Við fyrstu sýn þá virðist þetta vera heldur þægilegt verkefni en eitthvað segir mér að verkefnið verði erfiðara en menn kannski gera ráð fyrir.
Sagan og formið
Liverpool er að taka þátt í þessari keppni í fjórða skiptið (hét áður Intercontiental Cup) en ég held ég ljúgi engu þar um þegar ég fullyrði að þetta sé eini titillinn sem að Liverpool vantar í safn sitt af þeim keppnum sem þeir hafa tekið þátt í. Liverpool tók þátt 1981 (3-0 tap í úrslitaleik gegn Flamengo), 1984 (1-0 tap gegn Independiente) og svo síðast 2005 þegar við töpuðum 0-1 gegn Sao Paulo í algjörum einstefnuleik þar sem að þrjú mörk voru dæmd af okkar mönnum.
Liverpool er auðvitað að koma inn í þennan leik í ótrúlegu formi, þó síðasti leikur hafi verið heldur slakur af okkar hálfu, erum ósigraðir í fyrstu 17 leikjum heimafyrir (49/51 stig) og komnir í 16 liða úrslit í ECL.
C.F. Monterrey
Ég ætla bara að játa það, ég þekki ekkert til þessa mexíkóska liðs, hef aldrei séð leik með þeim og aldrei heyrt um það fyrr. Ég ætla því ekki einu sinni að þykjast þekkja þá eða leikmenn þeirra. Þeir eru komnir í þessa keppni eftir að hafa sigrað CONCACAF Champions League á árinu (í fjórða skiptið í sögu félagsins), þar lögðu þeir meistarana heimafyrir (UANL) 2-1 í tveggja leikja einvígi. Þeir komu inn í þessa keppni umferð á undan okkur og tryggðu sér sæti í undanúrslitum eftir að 3-2 sigur á Al-Sadd fyrr í vikunni.
Þeir enduðu í fjórða sæti í Liga MX á síðustu leiktíð og þegar ég renni yfir leikmannahóp þá er það í raun bara Vincent Janssen sem maður kannast við, en kauði átti misheppnaða dvöl hjá Tottenham 2016-2019 eftir að hafa slegið í gegn hjá AZ í Hollandi. Hann er vissulega í þessu liði en hann er víst fjarverandi sökum meiðsla og missir því af leiknum í kvöld. Hjá þeim spilar einnig Rogelio Gabriel Funes Mori sem ku vera tvíburabróðir Ramiro Funes Mori fyrirverandi leikmanns Evertons (sem fótbraut Origi hér um árið). C.F. Monterrey er annars, utan Janssen, eingöngu skipað leikmönnum frá Norður- og Suður-Ameríku.
Liverpool
Liverpool er auðvitað að koma inn í þessa keppni sem Evrópumeistarar. Er ekki oft sagt að ein mynd segi meira en þúsund orð?
Á blaðamannafundi fyrir leikinn sagði Klopp að allir, utan Gini (og aðra usual suspects), væru heilir fyrir þennan leik. Góðu fréttirnar eru þær að meiðsli Gini eru ekki jafn alvarleg og fyrst var talið og er jafnvel talað um að hann gæti náð úrslitaleiknum 21. desember (komist Liverpool á annað borð í úrslit) eða þá Leicester leiknum á annan í jólum.
Það ætti ekki að vera erfitt að spá fyrir um liðið m.t.t. að við erum eingöngu með tvo leikfæra miðverði og erum orðnir ansi fáliðaðir á miðjunni. Helst myndi ég vilja hvíla eitthvað af öftustu fjórum og þá sérstaklega TAA (Robertson fékk smá hvíld í síðasta leik) en það gæti orðið erfitt þar sem við þurfum líklega krafta Milner inn á miðjuna (Gini og Fabinho frá, Henderson væntanlega hvíldur eftir mikið álag undanfarið), sé Klopp ekki alveg setja Milner í bakvörðinn og spila með tvo eða þrjá af Lallana, Keita og/eða Ox í þriggja manna miðju. Sóknin er líklega sú staða sem við getum róterað hvað mest í augnablikinu með Origi og Ox báða hvílda í síðustu tveimur leikjum og Shaqiri hefur sáralítið spilað það sem af er leiktíðar.
Ég ætla að skjóta á að Klopp gefi fremstu þremur frí í kvöld og stilli þessu svona upp:
Alisson
TAA – Gomez – Virgil – Robertson
Lallana – Milner – Keita
Shaqiri – Origi – Ox
Ég gæti líka alveg séð Milner taka hægri bakvörð, TAA fá smá hvíld, Ox detta niður á miðjuna og þá Mané/Salah með Origi og Shaqiri frammi.
Þetta er klárlega keppni sem við viljum vinna, því er kannski ólíklegt að Klopp fari að taka einhverja sénsa með uppstillinguna. Okkar heilaga gral er samt sem áður Premier League, ef við getum hvílt lykilleikmenn einhversstaðar þá ætti það að vera í leikjum sem þessum, það er ekki eins og einhverjir áhugamenn séu að koma inn í staðinn.
Spá
Ég er ekki alveg að sjá Liverpool hvíla fleiri lykilmenn en fremstu þrjá. Þetta lið á að vera nægilega sterkt til að komast í úrslit en það er alveg ljóst að það verður ekkert gefins í þessum leik.
Drauma scenario væri að klára leikinn í fyrri hálfleik og geta skipt einhverjum af þessum varnarmönnum útaf snemma. En. Þetta er Liverpool og þetta eru undanúrslit. Bara það er ávísun á háspennu, lífshættu fram á síðustu mínútu. Ætla að skjóta á að þessi leikur endi með 3-2 sigri eftir að hafa lent undir og komið til baka – þó ég myndi glaður þiggja þægilegan 4-0 sigur þar sem við gætum skipt mönnum útaf og verið í hlutlausum stóran hluta leiks.
Við minnum á að leikurinn hefst klukkan 17:30 og verður sýndur beint á RÚV 2 og auðvitað á Sport & Grill í Smáralind!
Koma svo!
YNWA
Ég vil sjá Origi fá nokkra leiki núna í fremstu stöðu, hann er búinn að vera að nýta tækifærin vel undanfarið, á meðan er Firmino búinn að vera slappur og ekki skorað né hreinlega verið í takti við liðið í svolítin tíma og hefur gott af smá bekkjarsetu.
Væri gott líka að geta hvílt bakverðina þó það sé bara hægt annan í einu þó svo að Milner gæti örugglega spilað báðar í einu.
Algjörlega sammála þér Red, Origi á að byrja og ekkert múður. Gaur eins og hann þrífst á því að skora mörk og ef hann er heill þá er best að nota hann sem mest. Er hann nokkuð með mikið færri mörk per mín heldur en Mane og Salah.
Ef einhver gæti spilað tvær stöður í einu væri það Milner. Verst ef þær væru sitthvorum meginn á vellinum því þá væri mikil hætta á að hlaupa á miðaverðina þegar hann væri að skipta á milli.
Milnerinn myndi leysa það vandamál líka 😉
Takk fyrir þetta!
Ég ætti mjög erfitt með að leyna vonbrigðum mínum ef við vinnum ekki þennan leik, sama hvaða 11 spila.
held að klopp stilli upp sýnu sterkasta liði.
hann er ekkert að fara að stilla upp einhverju varaliði í þessa keppni, hann vill vinna hana.
uxinn henderson og milner á miðjunni.