Liverpool 2-0 Man Utd

Liverpool tók enn eitt tröllaskrefið í átt að langþráðum Englandsmeistaratitli í dag þegar liðið vann Man Utd 2-0 á Anfield og situr nú á sextán stiga forystu á Man City og eiga leik inni. Liðið þarf því aðeins að tryggja sér 30 stig úr síðustu sextán umferðunum til að tryggja sér titilinn óhátt því hvað önnur lið gera.

Klopp stillti upp óbreyttu byrjunarliði frá sigurleiknum gegn Tottenham um síðustu helgi og var leikplanið heilt yfir mjög svipað, Lallana kom inn á svipuðum tíma í báðum leikjunum fyrir Chamberlain og hjálpaði Liverpool að sigla þessum þremur stigum heim.

Hinir og þessir spekingar, þar á meðal Ole Gunnar Solskjær og einhverjir sparkspekingar, voru voða duglegir við að hype-a upp styrkleika Man Utd, troða ákveðnum leikmönnum þeirra í þessi klassísku “hefðbundnu lið”, bera saman markaskorun þeirra framherja og markskorun framherja Liverpool og þar fram eftir götunum. Leikurinn var flautaður á og var mikill gæðamunur á liðunum ansi augljós strax.

Það var Virgil van Dijk sem kom Liverpool yfir með kraftmiklum skalla á 14.mínútu eftir hornspyrnu Trent Alexander Arnold. Þeir Harry Maguire og Brandon Williams áttu ekki roð í Hollendingin þegar hann réðst á boltann. Hann skoraði þar með áttunda markið sitt frá því að hann skoraði sitt fyrsta á síðustu leiktíð og hefur engin varnarmaður í deildinni skorað jafn mörg mörk á þessum tíma og hann. Þetta var fjórða markið hans á leiktíðinni og Hollendingurinn sem svikinn var af Ballon d’Or valinu heldur áfram að vera alveg hreint út sagt ótrúlegur.

Van Dijk kom aftur við sögu skömmu síðar þegar hann hoppar upp í lausan bolta við David De Gea sem nær ekki að grípa boltann sem endaði hjá Firmino sem skoraði stórglæsilegt mark. Það fór í VAR og dæmt var brot á Van Dijk og slapp þar De Gea ansi vel þar sem mér fannst hann bara algjör ræfill í þessu atviki en áfram hélt leikurinn.

Chamberlain átti geggjaða stungusendingu á Wijnaldum sem slúttaði boltanum svo vel í netið en var rétt fyrir innan og markið dæmt af vegna rangstöðu. Á skömmum tíma tókst Liverpool að koma boltanum þrisvar í netið hjá Man Utd en sat aðeins á einu marki og fengu fín tækifæri sem þeir nýttu ekki. Salah skaut í fótinn á sér í dauðafæri, Mane lét verja frá sér einn á móti einum og eitthvað þar eftir götunum. 1-0 í hálfleik og Liverpool meira en verðskuldað í forystu og hefði hún í raun átt að vera í það minnsta þrisvar sinnum stærri en hún var í raun.

Seinni hálfleikurinn byrjaði af svo miklum krafti hjá Liverpool og Man Utd var í nauðvörn í upphafi þess og komust hreinlega ekki út úr sínum markteig. Þá fékk Liverpool aftur ágæt færi, Mane átti eitt þokkalegt, Henderson átti skot sem endaði í stöng og Salah skaut naumlega framhjá úr fínu færi. Aftur hefði Liverpool átt að gera út um leikinn.

Þegar tæpur stundarfjórðungur var eftir fór Man Utd að sækja af meiri krafti og taka fleiri sénsa. Fækkuðu varnarmönnum fyrir sóknarmann og settu pressu á vörn Liverpool sem mér fannst þó í raun aldrei virka líkleg til að bugast. Þeir fengu ágætis hálf færi og náðu einhverjum skotum en það lá aldrei mark í loftinu hjá þeim. Í blálok leiksins handsamar Alisson boltan í teig sínum og það á að flagga rangstöðu en dómarinn notar hagnarðaregluna. Markvörðurinn er fljótur að bregðast við og dúndrar boltanum fram beint í hlaupalínu Mo Salah sem kemst inn í teiginn með varnarmann Man Utd hangandi á sér og rúllar honum í framhjá De Gea í markinu og gulltryggir sigurinn með þessu öðru marki sem hefði löngu, löngu átt að vera komið. Stemmingin eftir markið var rosalega og var Alisson fyrsti maðurinn á vettvang til að fagna með Salah!

Staða Liverpool því orðin fáranlega sterk í þessari deildarkeppni en bæði Leicester og Man City töpuðu stigum um helgina en Liverpool hefur nú unnið 21 af 22 leikjum sínum í deildinni. Fengið 64 af 66 mögulegum stigum í vetur og tekið 91 af síðustu 93 mögulegu stigum sem hafa verið í boði, 30 sigrar, 1 jafntefli og ekkert tap! Það er fáranlegur árangur!

Heilt yfir spilaði Liverpool liðið frábærlega fannst mér. Firmino fannst mér frábær fyrstu 65 mínúturnar eða svo og Mane og Salah áttu sínar rispur en hafa þó verið betri og hefðu átt að gera betur í ákveðnum stöðum. Bakverðirnir voru flottir fram og til baka, Chamberlain átti rispur en ‘beinagrindin’ í liðinu með þá Wijnaldum, Henderson, Gomez og Van Dijk var í algjörum sér klassa. Henderson og Wijnaldum átu allt upp á miðjunni og stjórnuðu leiknum þaðan, hvernig miðja Liverpool er enn talin eitthvað “veikleika merki” og fær ekki það credit sem hún á að fá er hálf óskiljanlegt. Van Dijk og Gomez vörðust frábærlega í gegnum leikinn, einhverjir vildu troða Maguire fram yfir Joe Gomez í einhverjum samanburðum og sýndi Gomez af hverju það er afar kjánalegt að gera það. Hann á að vera sá sem Englendingar ættu að byggja vörn sína í kringum, hann er svo flottur! Síðan hann kom inn í liðið hefur liðið haldið hreinu í síðustu sjö leikjum og virðist þurfa ansi mikið til að ætla að brjóta niður vörn Liverpool.

Næsti leikur Liverpool er á fimmtudaginn þegar liðið heimsækir sprækt lið Wolves en á þriðjudaginn mun Man City eiga leik sem gæti verið erfiður en þeir mæta í heimsókn til Sheffield United. Það verður skrítið að spila aftur leik á fimmtudagskvöldi og það er eitthvað sem ég held að Liverpool muni ekki þurfa að leggja í vana sinn á næstu misserum.

Vonandi sjáum við annað risa, risa stórt skref í átt að titlinum á fimmtudaginn, eftir leikinn gegn Wolves þá er prógram Liverpool nokkuð “þægilegt” sé það borið saman við þennan þriggja leikja kafla gegn Spurs, Man Utd og Wolves. Takist Liverpool að ná fullu húsi stiga úr þessum þremur leikjum ættu næstu leikir eftir það að skila enn fleiri sigrum í hús. Við ætlumst til þess af þessu liði að þeir geri það og það besta er að þeir gera það líka.

30 Comments

  1. Frábær leikur algjörir yfirburðir 2-0 gefur ekki rétta mynd hefðu átt vera mun fleiri mörk okkar meigin.
    Salah kláraði þetta frábærlega og mér fannst Hendo sturlaður í þessum leik virkilega ánægður með kafteininn !

    12
  2. Það er fátt skemmtilegra en að vinna Man utd og hefði verið ömurlegt að fara í gegnum þetta tímabil án þess að sigra þá.
    Við fengum fullt af færum í þessum leik og okkar eigin klúður og stórkostleg DeGea markvarsla gerði það að verkum að það lá á okkur undir lok leiksins án þess að þeir næðu á þeim tímapunkti að skapa alvöru færi.
    Man utd byrjuðu ágætlega fyrstu 10 mín en okkar menn skoruðu og tóku svo öll völd á vellinum. Við hefðum hæglega átt að vera búnir að bæta við(og spurning um hvort að það tókst ekki þegar dæmt var brot á Dijk fyrir að snerta DeGea) en Man utd fengu svo eitt færi í lok hálfleiks til að jafna.
    Í upphafi síðari var gríðarlegur kraftur í okkar mönnum og er eiginlega ótrúlegt að við vorum ekki komnir tveimur eða þremur mörkum yfir eftir 5 mín.
    Man utd fékk svo eitt dauðafæri í viðbót og lá á okkur í lokinn þangað til að Alison sendi langan fram á Salah sem kláraði vel( Alisson now has more assists than Jesse Lingard in this season’s Premier League)

    Bestu leikmenn Liverpool
    Gomez flottur , Henderson/Winjaldum að djöflast á fullu á miðjuni, Mane ógnandi, Firmino með flott tilþrif en fyrir mér var Dijk kóngurinn á vellinum og var alltaf réttur maður á réttum stað og skoraði frábært mark.

    Fannst Trent oft misstækur í þessum leik og úr stöðu , Andy hefur oft leikið betur og Alison átti ömurlegan sendingardag(fyrir utan stoðsendinuna í markinu) en mjög traustur í höndunum.

    16 stiga forskot með leik inn og sigur á móti Man utd = Allir sáttir

    YNWA

    11
  3. Sælir félagar

    Hér með lýsi ég því yfir að Liverpool liðið verður meistari í vor. Það er ekkert sem getur breytt því. Þegar liðið er búið að vinna W. Ham þá verður það með 19 stiga forustu á M. City. Miðað við hvernig Liverpool er að spila er vonlaust að ógna þeim á toppnum. Liverpool hefði getað verið 3 mörkum yfir í hálfleik ef menn hefðu skorað úr dauðafærunum sínum. Byrjunin á fyrri hálfleik hefði líka átt að skila amk. einu ef ekki tveimur mörkum en einhvernveginn klúðruðu menn því. Salah kláraði svo leikinn í uppbótartíma sem var það seint að spennan var alveg að drepa mann.

    MU sótti síðasta korterið og manni er fyrir munað að skilja af hverju þeir spila ekki sóknarbolta í stað þess að leggja rútunni. Þeir eru skeinuhættir ef þeir hafa bara þrek í að sækja og manndóm til að trúa á sjálfa sig. Sem betur fór eru þeir karakterlitli og sanngjarn sigur Liverpool í höfn. Þetta lið kann bara ekki að tapa leik. Sama hvað gengur á. Styrkur liðsins á öllum svæðum vallarins er geggjaður og ræður ekkert lið við þessa ofurkrafta þess. Því fer sem farið hefur undanfarna 23 leiki

    Það er nú þannig

    YNWA

    10
  4. Þvílíkir kóngar, þvílíkt lið! Geggjað að sjá Salah rífa sig úr treyjunni eftir að gulltryggja sigurinn! Já, já, já, já, já!!!

    10
  5. Forréttindi að vera stuðningsmaður þessa liðs. Algjörlega magnað lið. Henderson maður leiksins

    8
  6. Gleðileg jól, muuuuuhahhahahahahaahaahhaaha,
    Ein spurning…hvað gerði VVD rangt þegar það var dæmt brot á hann í viðskiptum við De Gea?
    Mér er spurn.

    12
  7. Man-utd hefðu geta skorað 2 mörk í þessum leik…við hefðum líka getað skorað 6-7 mörk fyrir utan tækifærin í þessum leik þá var ánægjulegast að sjá að við erum ljósárum á undan man-utd i fótbolta i dag….

    8
  8. Stóra spurningin er, hvernær verður skrúðgangan í Liverpool plönuð. Það er klárt mál að það munu ansi margir íslendingar fara út að fagna með liðinu og þeim gríðarlega fjölda sem þar verður.
    Ég held að það sé nokkuð ljóst að við munum klára þetta og því þarf að fara að plana fögnuð.

    8
  9. Frábær sigur og í manns villtustu draumum í byrjun leiktíðar hefði maður ekki getað látið sig dreyma um þá stöðu sem upp er komin. Það er hins vegar ekkert í hendi ennþá og allt tal um titla er ótímabært. Það eru margir leikir eftir og margt sem getur gerst í þeim leikjum sem eftir eru. Það má vissulega láta sig dreyma og trúa en að segja að eitthvað sé komið er algjör fjarstæða. Það er hins vegar um að gera að njóta augnabliksins enda á maður erfitt með að sjá að svona lagað verði nokkurn tímann endurtekið í framtíðinni.

    Eitt skref í einu, næsta verkefni er erfiður útileikur gegn Úlfunum.

    17
  10. Sæl og blessuð.

    Það fór eins og ég vænti. Héldum hreinu og hefðum auðvitað átt að skora fleiri mörk. Það er alltaf sama sagan. Þessir blessuðu framherjar okkar fá sendingar í lappirnar – nánast á færibandi. Ég veit ekki hvernig staðan væri á honum Salah ef ekki nyti við þessara öflugu bakvarða. Ég fussaði honum og sveiaði allan leikinn. Hann missti boltann frá sér og sykurhlunkurinn Shaw leit út fyrir að hafa hann í vasanum, lengst af. En … svona virka öflugir framherjar. Þeir stinga upp í okkur sveittum sokkum þegar síst varir. Þarna kom markið í blálokin og við fögnum auðvitað eins og óð.

    Ég verð að játa að mu kom mér á óvart með baráttu og djörfung. Líklega spiluðu þeir jafn vel núna og þeir gerðu í sigurleiknum gegn City. Það dugði auðvitað ekki til í þetta skiptið.

    Svo eruð það úúúúlfarnir næst – það lið sem ég er alltaf jafn smeykur við. Traore og félagar eru ekkert þarna upp á punt. Þeir eiga eftir að láta okkur hafa fyrir lífinu. Framundan eru tveir sigrar og þá erum við jöfn Chelsea í sigurlotu. Ekki væri nú verra að ná að halda hreinu áfram. Þvílík vörn sem þetta lið hefur!

    Þetta var snilld, frábær vörn og miðja. Chambo heldur áfram að bæta sig og Salah verður á skotæfingum allt fram á fimmtudag

    2
  11. Jæja, Liverpool má tapa 6 leikjum af síðustu 16 leikjum, svo fremur sem City vinnur rest.
    Ef Liverpool vinnur næstu 9 leiki þá nægir jafntefli við City 4 april. (Svo fremur sem Citty vinnu líka næstu 8 leiki)

    2
  12. þetta var solid 7-2 leikur okkur í vil. Henderson og Gini frábærir, en Virgil er maður leiksins og Arnold og Robbo lélegastir, félagar horfið aftur á fyrri hálfleik, bara á Robbo

    3
  13. Sitt sýnist hverjum varðandi meint brot VVD á De Gea. Þetta er í raun spurning um hversu heilagur markmaðurinn á að vera inn í teignum og hvort smá truflun réttlæti brot.

    Ég á hins vegar erfitt með Var-ið í þessu tilfelli þar sem dómarinn dæmir EKKI brot. VAR snýr þeirri ákvörðun við. Enskir dómarar hafa fengið formlega kvörtun frá dómarasamtökum um að VAR eigi að nota þegar um er að ræða Clear and obvious error.

    Þegar vafaatriði koma upp á ákvörðun dómarans að gilda.

    Merkilegt hvað De Gea er mikill auli í teignum. Á stuttum tíma hefur hann fengið á sig 3 mörk fyrir algjöran aulagang við að díla við fyrirgjafir. Tvisvar hefur varsjáin bjargað honum, en að mínu mati voru þeir dómar rangir.

    12
    • Sammála. Dómarinn sá ekkert athugavert við það sem VVD gerði og svo má nú ekki gleyma því að leikmenn fengu boltann eftir það og eingöngu fyrir sinn aulahátt tókst þeim að koma okkur í þá stöðu að skora mark. Annars er ég hlynntur því að markmaðurinn sé heilagur í teignum sínum en ég er líka hlynntur því að leyfa leiknum að fljóta sem allra mest.

      Við unnum og það skiptir öllu máli. Til hamingju allir! Þetta er svo fallegt að það nær engri átt.

      4
  14. Svo við einskorðum þetta við fótboltann, áður fyrr var sagt ,,þú deilir ekki við dómarann,, í dag er það, þú deilir ekki við VAR. Breiting til góðs? Ég veit ekki hvað ég á að segja um þennann leik, mögulega réttlát úrslit 7-2, en niðurstaðan 2-0 bara flott, 3 stig í hús cleen sheet, ekki kvarta ég það er næsta víst.

    YNWA

    2
  15. Annað varðandi markið sem de gea gaf, með aulahætti sínum, að þá fannst mér hann sleppa mjög vel. Hann veittist að dómara leiksins með offorsi og látum. Spurning um að VAR skoði svoleiðis hegðun líka og að menn fá refsingu fyrir slíkt.

    4
    • De Gea fékk að líta gula spjaldið, mér þykir það hæfileg refsing.

      5
    • Hann fékk reyndar gult en það hefði mátt reka það í trýnið á fleirum, t.d. Fred sem var aðgangsharðastur allra við dómarann og var reyndar vælandi og tuðandi allan leikinn yfir öllum dómum og ekki dómum.

      1
  16. Það var nokkuð augljóst að dagsskipunin frá Óla var að ráðast á bakverðina okkar og ekki gefa þeim neinn tíma á boltanum. Það er kannski ástæðan fyrir því að þeir voru ekki eins mikið með í flæðinu eins og oft áður og að mönnum fannst Robbo eitthvað slakur.

    Mér fannst utd leggja leikinn upp skynsamlega og kannski á þann eina hátt sem þeir gátu. Samt sem áður var einungis klaufaskap/óheppni um að kenna að 5-0 spáin mín fyrir leik stóðst ekki.

    Anfield Wrap höfðu á orði að þetta lið væri eins og “swiss army knife” með lausn við hverju vandamáli og ég tek bara undir það 🙂

    9
  17. Alltaf jafn gaman þegar Liverpool vinnur þessa leiki og ekki skemmir þegar yfirburðirnir eru svona. Það er með ólíkindum hvað Liverpool hefur farið illa með mörg dauðafæri gegn þessu liði undanfarin ár og auðvitað hrökk De Gea í sitt gamla form í þessum leik.

    Eftir þetta hefur staðan bókstaflega aldrei verið betri á þessum tímapunkti í sögunni og þessi helgi er ein sú besta sem ég man eftir á miðju tímabili. Liverpool vann United á meðan City tapaði 2-2 með sjálfsmarki í uppbótartíma eftir að hafa komið til baka undir lokin, Leicester missti niður forystu og tapaði, Chelsea tapaði með marki á 94.mínútu, Arsenal og Tottenham töpuðu stigum og Everton vann að sjálfsögðu ekki sinn leik. Fullkomið.

    United spilaði með fimm varnarmenn eins og vanalega og lögðu ofuráherslu á einmitt Alexander-Arnold og Robertson. Þeim tókst að hamla þeirra leik ágætlega sóknarlega en á sama tíma var alveg pláss fyrir sóknarmennina og miðjuna. Þannig virkar þessi vél sem Liverpool er í dag, ef þú tekur einn hlutann úr umferð losnar um annan og þeir eru allir góðir.

    Afleitur dagur hjá þeim þar sem bara annar þeirra átti stoðsendingu! Berið líka þennan “vonda” dag þeirra saman við bakverði andstæðinganna! Obi Wan Kenobi er ennþá að leita að Firmino sem dæmi eftir að hafa verið sólaður út af vellinum.

    Þetta var helgin, WGWTL

    12
  18. Ó mæ hvað þetta var sætt í alla staði! Það að klára leikinn svona var bara eins og kirsuber á rjómaísinn.

    Að horfa á himininn yfir Anfield í gær sagði manni að ákveðnir hlutir eru bókstaflega skrifaðir í skýin. Þvílík sýn!

    Var að lesa á mbl.is þar sem verið er að ræða um á hvaða velli Liverpool gæti tryggt sér titilinn. Einn möguleikinn er að tryggja hann 14. mars í Guttagarði. Ef það gengi eftir þá býst ég ekki við því að nokkur, ekki einu sinni Kop-aðalsmenn, hefði geta látið sér detta þetta handrit í hug í upphafi tíðar þó þeir væru búnir að opna flipana af öllum Gull-dósum sem þeir geta komist yfir.

    Hlakka til að heyra næsta hvissss í pod-kasti.

    4
  19. Jidúddamía hvað það er gaman að vera Liverpool aðdáandi.
    Alltaf spennandi, en laaangt síðan að það var svona geggjað fjör.

    Fyllilega verðskuldaður sigur og síst of stór.

    3
  20. Var í nýju Trent treyjuni minni og hefði viljað sjá meira af mínum manni en skildi strax hvað var í gangi.

    Óli hélt að taktíkin að stöðva Trent og Robbo myndi virka..Klopp er löngu búinn að leysa svoleiðis kjaftæði.

    Fyndið að það séu eitthverjir United menn sem héldu að þeir væru inní þessum leik og þeir hafi spilað vel ég er því ekki sammála það var 1 dauðafæri sem ég man eftir hjá þeim annars var ekki neitt að frétta fyrir utan að þeir voru aðeins með boltann í seinni en það skiptir ekki máli þú þarft að gera eitthvað við hann!

    Við skoruðum 4 mörk á þá í gær skutum í stöng og Salah hefði átt að skora fyrr í leiknum í auðveldu færi og 2 þeirra dæmd af 1 réttilega (rangstæðan) og hitt fannst mér á gráu svæði.

    En maður varð aldrei stressaður og ég sagði við konuna mína í gríni að við yrðum að skora 4-5 mörk á þá til að fá 2 það gekk nokkurn vegin eftir 😀

    Þetta var AUÐVELDUR leikur hefðum átt að skora fleiri mörk en bara 2!

    4
    • Held reyndar að Óli hafi ekki haldið að þetta dygði en það að stöðva bakverðina er bara eitt atriði af mörgum. Fjölbreytileiki okkar á að vinna leiki er svo mikill að eitthvað verða menn að gera. Óli greyið má þó eiga eitt. Hann mætti ekki með rútuna sína þversum, einsog portúgalski fýlupúkinn gerir alltaf.

      Deildin er svo falleg, get ekki hætt að kíkja á hana!

      4

Byrjunarliðið gegn Man Utd

Gullkastið: WGWTL