Þrátt fyrir að janúarmánuður sé nánast á enda runninn, þá á Liverpool ennþá eftir að ljúka fyrri umferðinni í deildinni á þessu tímabili. Útileikurinn gegn West Ham sem átti að fara fram um miðjan desember er enn eftir, en hann hafði upphaflega verið settur á því tímabili þegar Liverpool var upptekið við að vinna Heimsmeistaratitil félagsliða.
Andstæðingarnir
West Ham – eða “The Hammers” eru frá austur hluta Lundúndarborgar, og voru stofnaðir árið 1895, eða litlum 3 árum eftir að okkar ástkæra félag var stofnað. Fyrstu 5 árin gekk félagið reyndar undir nafninu “Thames Ironworks”, en um aldamótin var ákveðið að skipta yfir í það nafn sem við þekkjum.
Óhætt er að segja að gullaldartímabil klúbbsins hafi verið á árunum 1961 – 1978, á þessu tímabili unnu þeir FA bikarinn þrisvar sinnum, og áttu nokkra leikmenn í enska landsliðinu sem vann HM 1966, eða þá Bobby Moore, Geoff Hurst og Martin Peters, allt lykilmenn í landsliðinu á sínum tíma.
Liðið féll niður í næstefstu deild árið 1978 en náði svo að vinna FA bikarinn árið 1980, og er síðasta liðið sem gerir það án þess að spila í efstu deild á sama tíma. Liðið hefur svo verið ögn rokkandi síðan þá, og lengsta tímabilið í efstu deild síðan þá var u.þ.b. 10 ár. Síðasta fallið úr úrvalsdeildinni kom árið 2011, en liðið komst aftur upp ári síðar og hefur verið þar síðan.
Reyndar er West Ham eitt þessara liða sem verður ætíð tengt Íslandi, því árið 2006 keypti eignarhaldsfélag Björgólfs Guðmundssonar undir stjórn Eggerts Magnússonar félagið, og tók Eggert við sem stjórnarformaður. Það fyrirkomulag entist í rétt rúmlega ár, en þá yfirgaf Eggert klúbbinn. Eins og nærri má geta þá fór eignarhaldið ögn á hreyfing þarna í kringum hrun, þannig átti Straumur fjárfestingarbanki 35% hlut í félaginu árið 2010, en sá hlutur var kominn niður í 10% árið 2013. Ekki gengu þeir nú jafn langt að ráða íslenskan knattspyrnustjóra eins og Stoke gerði á sínum tíma.
Þá hefur verið talsverð hreyfing á knattspyrnustjórum hjá klúbbnum upp á síðkastið. David Moyes tók við liðinu fyrr á tímabilinu eftir að Manuel Pellegrini hafði verið látinn taka pokann sinn, en hann hafði einmitt tekið við liðinu af…. David Moyes. Þar á undan stjórnuðu þeir Slaven Bilic, Sam Allardyce, Avram Grant og Gianfranco Zola. Sá þeirra sem náði besta árangrinum var Bilic tímabilið 2015-2016 þegar liðið varð í 7. sæti.
Ferill David Moyes er búinn að vera ansi athyglisverður. Var lengi með Everton, tekur svo við af Sir Alex sem næsti gulldrengur, það fór eins og það fór, svo hann kíkti aðeins til Spánar og tók þar við Real Sociedad, en var rekinn þaðan eftir hérumbil heilt ár. Kom svo aftur til Englands til að taka við Sunderland (þar sem hann tók við af Allardyce – já enskir klúbbar hafa ekki mikið hugmyndaflug þegar kemur að því að ráða knattspyrnustjóra) en féll með þeim eftir eitt ár (merkilegt nokk var það fyrsta fall hans sem knattspyrnustjóri), áður en hann endaði svo hjá West Ham. Á meðan Pellegrini réð ríkjum hjá Hömrunum tók hann svo pásu frá því að stýra knattspyrnuliðum.
Þeir Jürgen Klopp og David Moyes hafa att kappi þrisvar, tvisvar hefur Klopp haft betur en einum leik lyktaði með jafntefli. Leikirnir sem Klopp hefur unnið voru gegn West Ham í febrúar 2018 og gegn Sunderland í Nóvember 2016, en þetta eina jafntefli kom í janúar 2017 gegn Sunderland, eða þegar janúar var ennþá sá mánuður sem reyndist okkar mönnum hvað erfiðastur, og Klopp var ennþá að læra inn á álagið í ensku deildinni.
Tölfræðin hjá Klopp á móti West Ham er líka ágæt, en byrjaði svosem ekkert sérstaklega. Fyrsti leikurinn – sem fór fram í janúar 2016 – tapaðist 2-0, síðan komu tveir leikir í FA bikarnum skömmu síðar þar sem öðrum lauk með jafntefli en sá seinni tapaðist. Eftir það hins vegar hafa fjórir leikir unnist og tveir endað með jafntefli. Síðari jafnteflisleikurinn var reyndar síðasta vor, og það hefði verið afskaplega vel þegið að ná í 3 stig í þeim leik. En það gekk ekki eftir. Den tid, den sorg.
Semsagt, tölfræðin segir okkur að Klopp gangi vel gegn Moyes og að mestu vel gegn West Ham. Ofan á þetta bætist að West Ham hefur ekki verið að brillera neitt í síðustu leikjum, en síðustu tvo mánuðina hafa þeir aðeins unnið tvo leiki (gegn Saints og Bournemouth), og gert eitt jafntefli gegn Everton. Stór hluti ástæðunnar eru sjálfsagt meiðsli, sem dæmi er Fabianski meiddur en hann hefur verið með eina albestu tölfræði yfir markverði í deildinni á þessu tímabili. Það er ekki útilokað að hann spili á morgun, en það myndi vera mikil lyftistöng fyrir þá. Eins er Robert Snodgrass mögulega á leiðinni til baka, á meðan Felipe Anderson og Yarmolenko eru ennþá meiddir.
Okkar menn
Eins og kom fram á blaðamannafundi hjá Klopp fyrr í dag þá er ljóst að Sadio Mané tekur ekki þátt í leiknum gegn West Ham, og nánast öruggt að hann verður ekki heldur með gegn Southampton. En svo tekur við vetrarfrí og hann er mjög líklega að koma til baka gegn Norwich eftir fríið. Hver veit, kannski nær hann seinni leiknum gegn Shrewsbury?
Djók.
Milner er ennþá frá, og auðvitað Clyne, og talað um að hann verði e.t.v. lánaður núna í lok janúargluggans (þ.e. Clyne sko. Ekki Milner. Hann verður hjá okkur að eilífu).
Aðal spurningin sem við spyrjum okkur varðandi uppstillinguna er auðvitað hver taki við af Mané. Færir Klopp Chamberlain yfir á vinstri kantinn frammi? Er Lallana búinn að ná sér af flensunni? Fær Minamino sénsinn? Eða treystir Klopp Origi jafn vel eftir Shrewsbury leikinn? Þetta eru líklegustu kostirnir, þó svo það sé svosem ekkert útilokað að þúsundþjalasmiðurinn Wijnaldum skelli sér í þessa stöðu, og í hliðstæðum alheimi væri smá séns að við sæjum Curtis Jones eða Harvey Elliott þarna. Svosem smá séns að Klopp skipti yfir í 2 frammi, þannig að Firmino og Salah verði tveir fremstir, hvort sem það verði stillt upp í 4-4-2, eða tígulmiðju. Þessir valkostir eru nú frekar ólíklegir, a.m.k. sem aðal upplegg, jafnvel þó svo liðið gæti vel varist í einhverri slíkri uppstillingu.
Prófum að stilla þessu upp svona:
Trent – Gomez – Virgil – Robertson
Lallana – Henderson – Wijnaldum
Salah – Firmino – Ox
En semsagt, við skulum alveg búa okkur undir einhverja aðra útfærslu. Annað eins hefur nú gerst.
Eins og kom fram að ofan, þá segir tölfræðin okkur að Liverpool sé mun líklegra liðið. En úrslitin gegn Shrewsbury segja okkur líka að jafnvel þó svo andstæðingurinn sé veikari á pappírnum, þá verða menn að mæta til leiks og gefa allt í þessar 90+ mínútur. Enda er að nokkru að sækjast: liðið getur náð 19 stiga forskoti með sigri, og ef grunnskólastærðfræðin bregst manni ekki, þá er 19 stiga forysta betri en 16 stiga forysta.
Þá getur liðið með sigri náð þeim árangri að hafa sigrað hver eitt og einasta lið í deildinni á einu tímabili, en slíkt hefur Liverpool víst aldrei tekist áður hjá klúbbnum.
Alisson er örugglega ennþá drullufúll yfir markinu sem hann fékk á sig gegn Wolves, svo við spáum að hann haldi hreinu gegn West Ham. Við myndum alveg sætta okkur við 0-1 sigur, en myndum alveg þiggja eitthvað aðeins stærra.
KOMA SVO!!!
Allann daginn takk, leiðinlegt að Milner náði ekki myndatökunni. Varðandi myndina, geturðu upplýst um nafnið á markmanninumfinnst nefið eitthvað kunnuglegt jú ég er það gamall að menn vildu alveg vera Hurst, Peters og ekki síst Bobby á leikvellinum á þeim tíma.
Björn
Markmaðurinn er Gordan Banks, James Milner var ekki orðin að hugsun:):) ja nema hann hafi bara verið að fá sér ,,cup of tea,, hann er svo ótrúlegur.
YNWA
Takk, þorði ekki að segja þetta upphátt. Bankarinn sjálfur það var ekki léleft.
Kannski rétt að taka fram að Liverpool hefur reyndar einusinni áður unnið öll lið í deildinni, en það gerðist tímabilið 1895-1896, þegar liðið lék í næstefstu deild.
Þessi frétt kemur sér mjög vel Daníel:). Síðan eru liðnar tvær heimstyrjaldir, Ísland fór á EM og HM sem fámennasta land sem tekið hefur þátt í þeim keppnum, verður sennilega seint slegið. Eyjafjallajökull setti allt úr skorðum………………………………………………………………………………………………………………………………………………………………………………………………………………………………………………………………………….
og svo videre:)
YNWA
Þú ert mögulega að segja að það sé ógeðslega langt síðan þetta var?
Sælir félagar
Það er nú það. Hvernig fer þessi leikur í kvöld. Ég var að tala við einn WH stuðningsmann fyrr í dag og hann taldi að allir hugsuðu þetta vitlaust. Það væri WH sem ætti þennan leik inni en ekki Liverpool. Gott hjá honum að halda haus. Hinsvegar sagði hann sienna í viðtalinu að hann reiknaði alveg eins með að leikrinn færi 9 – 0 eða eitthvað álíka. Já það er nú það. Kop-ararnir eru nokkuð sigurvissir en spá þó varlega. Eins til tveggja marka sigur sem er gott. Það er skynsamlegt að spá varlega en vera samt nokkuð sigurviss.
Það er nú þannig (svo notaður sé frægur frasi) að ekkert er fast í hendi í fótbolta. Hamrarnir geta þess vegan komið dýrvitlausir til leiks, ákveðnir í að skemma veizluna. Eða þá að þeir telji þennan leik tapaðan og spari menn sem eru tæpir til að nota þá þegar mest á ríður í fallbaráttunni. Hver veit. Ef til vill Moyes eða hvað? En sama er mér. WH hefr ekki í langan tíma verið eins veikt fyrir og þeir eru nú. Liðið er mikið laskað eins og úrslit undanfarinna leikja sýna. Þess vegna held ég mig við það að spá veizlu uppá 6 – 0.
Það er nú þannig
YNWA
Klassa upphitun DB
Ég tippa á að Fabinho komi inn þrátt fyrir að hafa verið ryðgaður gegn Shrewsbury en ekki viss hvort það verði á kostað Ox eða fyrir Mané. Líklegast fyrir Mané og þá eina breytingin með Ox framar. Vona samt ekki því það hefur rosalega lítið komið út úr Ox sem einum af fremstu þremur og Liverpool á aðrar lausnir þar. Origi ætti að vera augljós kostur en eins er áhugavert að Minamino kom inn fyrir Mané gegn Wolves og kannski er það vísbending um það hversu vel Klopp treystir japananum.
Það er nóg breidd og líkleg of mikið fyrir Curtis Jones en það ætti ekki að vera langt í að leitað verði til hans í svona stöðu, eftir svona eitt ár verður Elliott vonandi varinn að sparka fast í hurðina líka.
Var ekki með í podcasti, set 0-2 á þennan leik fyrr á excel skjalið.
Ég skoðaði eldri upphitanir og fann hvergi neina sem fór neitt mjög djúpt í sögu Hamranna. Þessi fer auðvitað ekkert mjög djúpt í söguna heldur stiklar á stóru, það bíður kannski einhvers stærri leiks í framtíðinni.