Það hefur verið rólegt að gera hjá stelpunum okkar upp á síðkastið, en þrem leikjum hefur verið frestað núna eftir áramótin. Snemma í janúar var leik gegn United frestað, Birmingham leikurinn sem átti að fara fram á Prenton Park fyrir um hálfum mánuði var frestað vegna vallaraðstæðna, og leiknum gegn Everton sem átti að fara fram á Goodison Park um síðustu helgi og var næstum uppselt á var frestað vegna sömu lægðar og kom í veg fyrir leik Manchester City og West Ham hjá körlunum (enda ekki mjög langt á milli Etihad). Reyndar var öllum leikjunum í kvennadeildinni frestað, en það átti heil umferð að fara fram síðasta sunnudag. Vallaraðstæður á Prenton Park eru ennþá slæmar, og því var ákveðið að næsti leikur færi fram á heimavelli Chester.
Sá leikur er núna í kvöld og er gegn Arsenal, meisturum síðasta árs.
Liðið sem mætir skyttunum lítur svona út:
Jane – Bradley-Auckland – Fahey – Robe
Bailey – Furness
Charles – Linnett – Lawley
Babajide
Bekkur: Foster, Purfield, Murray, Rodgers, Roberts, Hodgson, Clarke.
Að venju verður leikurinn sýndur á The FA Player.
Hver veit, kannski verður þetta eina tækifærið sem við fáum til að sjá liðið okkar spila þessa helgina? Það er vissulega planaður leikur hjá strákunum á laugardaginn, en spáin er slæm og aldrei að vita nema það verði að grípa til frestunar, rétt eins og hjá City um síðustu helgi. Vonum að til þess komi ekki.
Við uppfærum svo færsluna með úrslitum að leik loknum.
Leik lokið með sigri Arsenal, 2-3. Okkar konur áttu þó í fullu tré við skytturnar, en munurinn á þessum tveim liðum í kvöld var Vivianne Miedema, markahæsti leikmaður deildarinnar í fyrra, en hún skoraði 2 mörk í kvöld. Liverpool konur hefðu þó vel getað náð jafntefli, og skoruðu 2 virkilega góð mörk.
Staðan 2-2 í hálfleik, Babajide og Furness með mörk Liverpool. Hef séð marga leiðinlegri fótboltaleiki. Finnst líka hjálpa að myndavélin á heimavelli Chester virðist vera staðsett hærra uppi heldur en á Prenton Park, sem gefur betri yfirsýn yfir völlinn.