Eftir sjaldséð tap í síðustu viku, tilfinning sem maður hefur upplifað afskaplega sjaldan síðustu misserin, þá er nú komið að næsta verkefni. Það er “undir ljósunum” á mánudagskvöldi, Monday Night Football og allt það, þegar David Moyes og félagar sækja Liverpool heim og hefjast leikar kl. 20:00.
Sagan og formið
Það er efni í mastersritgerð í hverri viku þegar maður ætlar að telja upp þau met sem að Liverpool er annað hvort að bæta eða getur bætt. Þessa umferðina þá eru það tvö met:
- Flestir sigrar í röð í efstu deild á Englandi. Liverpool er með 17 sigra en City á metið með 18 sigra (ágúst – desember 2017), Liverpool getur því jafnað þetta met.
- Flestir heimasigrar í röð í efstu deild á Englandi. Liverpool jafnaði þennan árangur með sigrinum gegn Southampton í byrjun febrúar og getur nú slegið metið með sínum 21 sigri í röð á heimavelli!
Formið á þessum liðum gæti ekki verið mikið ólíkara þegar þessi lið mæta til leiks. Síðustu fimm leikir gestanna hafa skilað þeim tveimur stigum af fimmtán mögulegum (2 jafntefli, 3 ósigrar). Á sama síma hefur Liverpool náð fimmtán stigum af fimmtán mögulegum.
Það þarf að fara aftur í miðjan desember til að finna síðasta útisigur Hamranna en liðið er einfaldlega komið í bullandi fallbaráttu og eru tveir útileikir í röð á Ethiad og Anfield lítið að hjálpa.
Sagan í viðureignum þessara liða? Hún er ekki að hjálpa gestunum mikið heldur. West Ham hefur unnið 1 af síðustu 46 útileikjum í deild gegn Liverpool en það kom í 0-3 sigri Hamranna í ágúst 2015 þegar Slaven Bilic var ennþá með liðið. Í þessum 46 leikjum hefur West Ham jafnframt mistekist að skora í 31 skipti.
West Ham
Fyrir utan “usual suspects” (Yarmolenko og Wilshere) þá er það Ryan Fredericks sem missir af þessum leik eftir að hafa meiðst á öxl gegn Man City. Það er svolítið erfitt að ætla að lesa í þennan leik og hvernig Moyes ætlar að stilla upp, eitthvað segir mér þó að hann sjái þessa tvo leiki gegn City og Liverpool sem bónus leiki og ætli sér frekar að komast í gegnum þá án þess að vera niðurlægður og freista þess svo að fara að safna stigum með hækkandi sól.
Leikur West Ham gegn City var í raun alveg eins og maður bjóst við. Liðið gerði litla sem enga tilraun til að sækja og virtist vera sátt með 0-2 tap þar sem að 0-4 tap hefði skilað liðinu í 19 sæti í stað þess 18. Mér hallast að því að það verði sama lið og gegn City sem byrji leikinn á morgun nema þá að Zabaleta taki sæti Fredericks.
Liverpool
Hjá okkar mönnum er það helst að frétta að Henderson verður frá í s.a. 3 vikur eftir að hafa tognað lítilega á læri í tapinu gegn A. Madrid í vikunni. Fyrir utan það (og Clyne) þá erum við með svo gott sem fullt lið. Liðið spilaði á þriðjudegi svo þetta er fín pása á milli leikja og með næsta leik n.k. laugardag þá sé ég enga ástæðu til þess að hvíla leikmenn, sérstaklega ekki í ljósi þess að menn hafa virkað örlítið út úr “ryðma” eftir vetrarfríið. Ég ætla því að skjóta á að það verði eingöngu Keita sem komi inn í liðið síðan í síðasta leik á kostnað Henderson:
Alisson
TAA – Gomez – Virgil – Robertson
Keita – Fabinho – Gini
Salah – Firmino – Mané
Spá
Ég er heldur “pessimískur” þegar kemur að Liverpool en þetta er allt að koma – síðustu 18-24 mánuðir eða svo hafa hjálpa til. Ég er ekki að sjá mikið í þessu West Ham liði síðustu vikur og mánuði sem fær mig til að vera bjartsýnn fyrir þeirra hönd, næstu vikur og mánuðir verða barátta upp á líf og dauða. Þeir hafa verið að fara skrítnar leiðir í þjálfara málum, eru með eigendur sem enginn vill hafa, völl sem enginn nennir að mæta á (enda kílómeter á milli stúku og vallarins) og með afskaplega takmarkað magn af spennandi leikmönnum stjórnað af þjálfara sem ég hef nánast neikvæða trú á.
Að því sögðu, ef Liverpool tapar ekki stigum á morgun þá geta menn endanlega gengið útfrá því að þetta blessaða Jinx sé ekki til. Ég ætla að skjóta á 3-0 sigur þar sem að Keita, Mané og Salah skipta mörkunum á milli sín.
Koma svo, fimm sigrar í viðbót!
YNWA
Great content! Super high-quality! Keep it up! 🙂
Skildu sigur, og kominn tími á nokkra marka sigur, ekki 1-0 heldur 3 til 4 núll.
Koma svo, halda sigurgöngunni áfram og slá þetta Arsenal met.
Mér lýst mjög vel á 4-0. Mundi gera markatöluna hjá okkur svo skemmtilega á að horfa í töflunni. ?
Sælir félagar
Þetta virðizt geta orðið erfitt hjá vnum mínum í West Ham þetta árið og þennan leikinn. Þó ég hafi ekki trú á stigi hjá þeim í þessum leik þá trúi ég að þeir bjargi sér frá falli og það ef til vill á kostnað samlita liðsins frá Birmingham. En við sjáum hvað setur með það dæmi en bæði þessi lið eru að sogazt ofaní eitilharða fallbaráttu. Moyes er samt einn af þeim sem getur haldið liði uppi þó bæði mannskapur og peningar séu af skornum skammti.
Hvað Liverpool varðar þá munu þeir vilja reka af sér sliðruorðið eftir síðazta leik sem tapaðist frekar ósanngjarnt en samt – þeir hefðu átt að spila betur þar og því munu þeir vilja sýna að þeir eru ekki neitt lamb að leika sér við. Þetta mun því verða WH erfitt svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Moyes þekkir það af biturri reynslu að pakka í vörn og reyna að halda stiginu gegn Liverpool. Hann mun því ef til vill reyna eitthvað annað sem kemur honum í koll. Það er reyndar alveg sama hvað hann gerir, það mun allt koma honum í koll.
Ég er sammála Eyþóri með liðið og tel að Keita sé sá eini sem kemur inn í stað Hendo enda að mínu mati betri en Ox þó hann sé alls góðs maklegur. Keita þarf líka að komast í almennilegt leikform fyrir síðazta sprettinn í deild og meistaradeild svo þetta er varla spurning. Hvað niðurstöðu leiksins varðar þá tel ég hana nokkuð einboðna og aðeins spurning um markatölu. Þegar ég spái stórum úrslitum þá rætizt það venjulega ekki en ég ætla samt að gera það núna. Mín spá er því 5 – 0
Það er nú þannig
YNWA
Eitthvað segir mér að þetta gæti orðið erfiður leikur fyrir okkar menn, West Ham pakkar í vörn og treystir á skyndisóknir og ég sé ekki í ljósi þess að Henderson verður ekki með hver ætti að geta þrætt boltann inn fyrir 10 manna varnarlínu Hamranna ? Vonandi er þetta bara bölvuð Hausthúsarbjartsýnin (þetta skilja einhverjir í það minnsta Daníel Brandur) að heltaka mig og við rúllum yfir West Ham í kvöld. Treysti Klopp til að finna lausnirnar og vonandi koma þeim skilaboðum áfram til strákanna, við erum í það minnsta með lið sem er mörgum ljósárum framar liði Moyes þessa stundina.
Ójá ég náði þessu.
stólar á skyndisóknir?.. hraðinn á leikmönnunum hjá þeim er enginn.. west ham fellur það er deginum ljósar.
Ég held það verði erfitt að brjóta varnarmúr Moyes í þessum leik. Þeir pakka í vörn og verða ca 20% með boltann, í mesta lagi. Þolinmæðisverk og erfitt, en ég held að við náum einu marki í seinni hálfleik og þá koma þeir framar á völlinn og við læðum einu marki úr hraðri sókn í boði Salah eða Mane.
Koma svo rauðir 🙂
Ég vil sjá Minamino koma inná miðjuna með Keita og Fabinho, fá aðeins meiri sköpunargáfu á miðjuna, hvíla Winjaldum í þessum leik.
hugsa að þetta stefni í stærsta sigurinn á leiktíðinni.
þetta west ham lið er svo lélegt að hálfa væri meira en nóg